Síða 7

Kveðjur á stórafmæli Háskólaseturs Vestfjarða

Á vordögum 2005 kom undirritaður á stofnfund Háskólaseturs Vestfjarða, sem fulltrúi rannsóknastofnana, en Hafrannsóknastofnun hafði þá um árabil haft mikilvæga starfsstöð á Ísafirði og starfsemi í Vestrahúsinu. Alls voru stofnaðilar 42 talsins, þ.a.m. Hafrannsóknastofnun. Í kjölfarið sat ég í fimm manna stjórn Setursins, m.a. fyrir hvatningu Einars K. Guðfinnssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, og var ég hluti stjórnar sem fulltrúi rannsóknastofnana allt til ársins 2013.

Það má með sanni segja að seta í stjórn Háskólaseturs hafi verið afar ánægjuleg, bæði vegna frábærra félaga í stjórninni og afbragðs starfsfólks, en ekki síður vegna þeirrar starfsemi, sem þá var í vændum og þess eldmóðs sem til staðar var fyrir verkefninu. Í stjórninni sat í upphafi einvala lið, sem brann fyrir vöxt og viðgang setursins, þau Halldór Halldórsson, sem allan minn tíma var formaður stjórnar, Hjálmar H. Ragnarsson fulltrúi háskólastigsins, Kristján G. Jóakimsson sem tilnefndur var af aðilum vinnumarkaðarins og síðast en ekki síst Soffía Vagnsdóttir sem kosin var af aðalfundi fulltrúaráðs setursins. Síðar á þessum átta árum mínum í stjórn setursins komu um tíma frá háskólunum þeir Þorsteinn Gunnarsson og Skúli Skúlason, og Jóna Finnsdóttir, sem tók sæti Soffíu árið 2009. Það var alltaf gleði og gaman á stjórnarfundum Setursins.

Fyrsta verkefni stjórnar var að ráða forstöðumann og var Dr Peter Weiss fyrir valinu. Peter er bæverskur að uppruna, en hafði áður kennt málvísindi og bókmenntir við Háskóla Íslands, leiddi einnig starf Tungumálamiðstöðvar HÍ og gegndi stöðu forstöðumanns við Goethe Zentrum í Reykjavík. Peter hlaut doktorsgráðu með ritgerð um hugmyndasögu í málvísindum frá háskólanum í Greifswald í Þýskalandi og meistaragráðu með ritgerð í málvísindum frá háskólanum í Kiel.

Þó mikið úrval umsækjenda hafi verið um starf forstöðumanns, verður það að segjast að það var mikill happafengur að fá Peter til starfa. Vissulega var öll hans menntun og bakgrunnur áhugaverður okkur stjórnarmönnum, en það sem svo áberandi var í hans hugsun og fari, var ástríðan og einlægur áhugi hans fyrir starfinu og fyrir Vestfjörðum (sem hann gjarnan kallar Bestfirði), og áskorunum sem í því fólust. Og þess vegna ekki síst varð Peter fyrir valinu.

               Á fyrri stigum undirbúnings Háskólaseturs, voru uppi háværar kröfur um að stofnaður yrði sjálfstæður háskóli á Ísafirði, annað væri gagnslaust. Þau sjónarmið voru þó ofan á að ekki væri skynsamlegt að bæta í fjölda hérlendra háskóla – í harðri samkeppni landa á milli mætti frekar telja að háskólarnir sem fyrir væru á Íslandi væru of litlir til að skila árangri. Og úr varð að stofna Háskólasetur með bakland í öðrum háskólum landsins, en nýta m.a. styrkleika svæðisins til að þróa námsleiðir til meistarprófs. Þar kom fyrst til námsleið í Haf- og strandsvæðastjórnun, síðar námsleið í Sjávarbyggðafræðum. Jafnframt gegndi Háskólasetur Vestfjarða frá upphafi hlutverki sem þjónustumiðstöð fyrir fjarnám á svæðinu og tenging háskóla landsins við Vestfirði, miðstöð þjónustu fyrir rannsóknaraðila, og stuðningur við vettvangsskóla og sumarnámskeið á Vestfjörðum. Þá hefur alla tíð verið markmið Háskólaseturs að styðja og þjónusta starsemi rannsóknastofnana á svæðinu og vera vettvangur nýsköpunar og þróunar, einkum í tengslum við atvinnulífið.

Núna tveimur áratugum síðar, sjáum við hve vel hefur til tekist með val á námsleiðum og starfseminni allri, þar sem megin tilganginum um að stuðla að sterkara samfélagi á Vestfjörðum, hefur náðst. Á Ísafirði hefur fræðasamfélagið stækkað að mun og búseta stórra árganga aðkominna nema hefur á hverju ári sett sterkan svip á bæjarlífið og hagkerfið.

Vestfirðingar og aðstandendur Háskólaseturs geta litið stoltir um öxl og horft til bjartrar framtíðar, enda liggur í augum uppi að þessi þekkingar- og menntakjarni á Ísafirði er kominn til að vera, landi og þjóð til heilla.

Jóhann Sigurjónsson, fyrrv. forstjóri Hafrannsóknarstofnunar

Ísafjarðarbær: gjaldfæra 16,8 m.kr. framlög til íþrótta

Frá skíðasvæði Ísfirðinga.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt auka afskrift eignasjóðs að fjárhæð kr. 16.826.204, á fjárhagsárinu 2024, vegna framlaga til uppbyggingasamninga.

Um er að ræða 13,6 m.kr. framlög til uppbyggingar á skíðasvæðinu á árunum 2015 – 2022, 1,6 m.kr. framlög til strandblakvallar á árunum 2015- 2018 og sama fjárhæð til hjólagarðs á árinu 2021.

Í minnisblaði bæjarritara sem lagt var fyrir bæjarráð segir að í upphæðinni sé fullafskrift á gámi á skíðasvæði sem var keyptur í samvinnu við Skíðafélagið og er kominn í hrakvirði. Í dag eru gámar afskrifaðir að fullu og því hefur þessi tiltekni gámur verið afskrifaður.
Engin stofnun nýtir strandblakvöllinn og er því ekki um tekjuberandi eign að ræða og tímabært að fullfyrna þá eign.

Arna: nýr framkvæmdastjóri

Gunnar B. Sigurgeirsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Örnu ehf. Gunnar tekur við starfinu af Hálfdáni Óskarssyni, stofnanda félagsins, sem lætur  nú af starfi framkvæmdastjóra  að eigin ósk. Hálfdán mun áfram sitja í framkvæmdastjórn og leiða framleiðslu og vöruþróun félagsins í Bolungarvík. Arna hóf framleiðslu á mjólkurvörum í Bolungarvík árið 2013.

Í fréttatilkynningu segir að Gunnar komi með víðtæka reynslu úr rekstri leiðandi fyrirtækja á matvælamarkaði. Hann starfaði í 16 ár í Ölgerðinni, fyrst sem framkvæmdastjóri markaðssviðs en síðar sem aðstoðarforstjóri. Gunnar sinnti þar fjölbreyttum verkefnum, m.a. uppbyggingu eigin vörumerkja félagsins. Þar á undan starfaði hann sem markaðs- og sölustjóri Nóa Síríusar. Gunnar er með B.Sc. gráðu í matvælafræði og M.Sc. gráðu í hagfræði.

,,Það gleður mig að bjóða Gunnar velkominn til starfa sem framkvæmdastjóra Örnu. Gunnar hefur sýnt í sínum fyrri störfum að hann er öflugur leiðtogi með mikla þekkingu úr matvælageiranum. Þekking hans og reynsla mun styrkja félagið í áframhaldandi vexti á mjólkurmarkaði.” segir Hálfdán Óskarsson. 

,,Arna hefur náð frábærum árangri á krefjandi markaði. Saga fyrirtækisins er virkilega skemmtileg og Hálfdán og samstarfsfólk hans hafa sýnt mikla framsýni og dugnað við að byggja það upp, m.a. með framúrskarandi vöruþróunarstarfi. Ég er fullur tilhlökkunar að vinna með stjórn og starfsfólki Örnu að framgangi félagsins, “ segir Gunnar B. Sigurgeirsson.

Arna ehf. er framsækið matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á hágæða mjólkurvörum. Fyrirtækið er með framleiðslu í Bolungarvík og starfsstöð á Tunguhálsi í Reykjavík og hjá því starfa um 40 manns. 

Arna Lára: stóra verkefnið að tryggja flugsamgöngur

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

„Þetta eru alvarlegar fréttir fyrir íbúa og fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum. Það er alveg ljóst að það verður stóra verkefnið að tryggja flugsamgöngur við svæðið og að ekki verði rof á þjónustu.  Það verður að líta til þess að flugið er í raun einu almenningssamgöngurnar og margir íbúar eru algjörlega háðir þessari þjónustu. Vestfirðingar eiga mikið undir að sækja nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins sem ekki er í boði á landsbyggðinni og má þar nefna helst heilbrigðisþjónustu.“

Þetta segir Arna Lára Jónsdóttir, alþm. aðspurð um viðbrögð hennar við ákvörðun Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar haustið 2026.

eyða óvissu sem fyrst

„Stjórnvöld í samstarfi við heimamenn verða að vera samhent í því að leita lausna og eyða óvissunni sem fyrst. Það er ekki langur tími sem við höfum til stefnu. Skoða þarf málið frá ýmsum þáttum má þarf nefna vélarkosti, flugvallarstæði og þjónustuaðila.

Það ætti að vera rakið viðskiptadæmi að þjónusta íbúa og vaxandi atvinnulíf á Vestfjörðum ef innviðir svæðisins eins og flugvellir myndu styðja við slíkan vöxt.“

Er það ofstæki að efast ?

Efinn spyr og kallar eftir svörum en það er oft fátt um svör í bergmálshelli samtímans. Efasemdafólk er oft sakað um falsfréttaflutning og upplýsingaóreiðu þegar það kallar eftir heiðarlegu samtali um það sem efst er á baugi á hverjum tíma. Það er vont fyrir lýðræðið þegar samtalinu er hafnað og það er vont fyrir lýðræðið þegar fjölmiðlar bregðast vöktunarskyldum sínum – það er jú hlutverk þeirra að rýna samtímann með opnum og gagnrýnum huga – með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Það er enn mat einhverra að fjölmiðlar hafi staðið sig vel í covidfaraldrinum með þríeykið í beinni – sem hélt upp linnulausum hræðsluáróðri mánuðum saman þar sem fullyrðingarnar fóru fljótlega að rekast hvor á aðra svo úr varð mikið upplýslingaöngþveiti. það var einmitt þess vegna sem ég fór að efast. Í mínum augum var þetta ekkert annað en ákafur heilaþvottur með þátttöku fjölmiðla – sem létu að mestu fullyrðingarnar sem í ósamræmi hrópuðu hverjar á aðra framhjá sér fara. Þríeykið var ekki að upplýsa – það var að heilaþvo – það er munur á upplýsingagjöf og heilaþvotti – heilaþvottur er það þegar gagnrýni hefur verið úthýst.

Það var mikill ákafi í öllu er viðkom covid. Það kemur upp flensa á vinsælum ferðamannastað sem eitthvað hafði þó verið í umræðunni. Stuttu síðar er búið að lýsa yfir að um dauðafaraldur sé að ræða og áður en við vitum af er búið að loka heimsbyggðina inni og farið var að tala um bóluefni eins og kökuuppskrift sem hægt væri að hrista fram úr erminni bara sí svona. Og þá gaus upp mikil peningalykt af þrárlátustu flensu allra tíma. Farið var að skylda þá sem vildu hitta ættingja sína eða bara að komast út úr húsi í sýnatökur sem framkvæmdar voru með fokdýrum pinnum sem virtust þó ekki merkilegri heldur en eyrnapinnar og umdeildri grímuskyldu komið á og handspritt var alls staðar þar sem fleiri en fjórir komu saman.

Svo kom bóluefni sem átti að leysa mannskapinn undan öllum kvöðum – ekki bara frá einum framleiðanda heldur mörgum rétt eins og þeir hafi séð ósköpin fyrir í kristalkúlu ásamt uppskrift af töfralausninni.

Innilokuð heimsbyggðin sem þráði eðlilegt líf knús og kossaflens andaði léttar – skipulagðar voru hópbólusetningar og farið var að líta á þá sem afþökkuðu sem sakamenn sem væru að stofna lífi annarra í hættu og kallað var eftir skyldubólusetningu þó um klárt mannréttindabrot væri að ræða. Fljótlega kom svo í ljós að ein bólusetning dugði ekki – þrjár þurfti til jafnvel fjórar – sem sé raðbólusetningar og sem hvatningu til að þiggja þær og til að auka á örvæntinguna voru daglega fluttar fréttir af fjölda covid-andláta á heimsvísu með  myndefni af heilbrigðisstarfsfólki við störf sem litu út eins og geimverur í geislavirku umhverfi – mjög svo ýkt og yfirþyrmandi. Þegar þarna var komið var ég alveg hætt að trúa nokkrum sköpuðum hlut er viðkom covid og lét trúgirni fjöldans fara í taugarnar á mér. Í mínum huga snerist þetta um peninga – mikla peninga sem sóttir voru í sjóði almennings – sjóði sem áttu að fara í að treysta innviði samfélaga til framtíðar. Við eigum sjálfsagt flest erfitt með að gera okkur grein fyrir þeim stjarnfræðilegu upphæðum sem streymdu úr almannasjóðum í vasa lyfjaframleiðenda á tímum covid.

Það skal tekið fram að ég hef ekkert á móti bólusetningum – ég set hins vegar stórt spurningarmerki við covidglundrið sem margir hafa hloti bágt af sem og flensusprautur þar sem ég tel að þær geti veikt ónæmiskerfið rétt eins og ofnotkun á pensilíni.

Ég hef heldur ekkert á móti vísindum – vísindin eru stórkostleg – þau hafa fært mannkyninu ómæld lífsgæði í gegnum tíðina með uppgötvunum sínum og rannsóknum – en vísdómurinn er vandmeðfarinn eins og allar góðar gjafir skaparans – í röngum höndum getur hann orðið að skaðræði.

( Í bréfi til „Alþjóðaþings menntamanna“ árið 1951) skrifar Albert Einstein eftirfarandi.

Vér vísindamenn höfum brugðist köllun vorri, vér höfum brotist yfir þau landamæri, sem Guð hefur sett oss, og gjört sjálfa oss að afskræmum, já, myrkraöndum. Vér erum komnir að leiðarlokum og höfum glatað öllum frekari rétti til starfs. Með öðrum orðum: Vér höfum ekki farið eins og oss bar með þau pund, sem oss var trúað fyrir. Með síðustu uppfinningum og könnunum vorum eyðileggjum vér það, sem náð hefur verið hingað til, og færum mannkynið aftur á bak inn í myrkrið og dauðann.

Þarna er Einstein að vitna til kjarnorkusprengjunnar og það er einmitt sú uppfinning sem heimsbyggðinni stafar mesta ógnin af um þessar mundir – eða þeim sem hafa drottnunarvaldið.

Ég kaupi ekki rússagrýluna í stríðráróðrinum sem á okkur hefur dunið síðustu misseri – hún er orðin ósköp lúin og ótrúverðug. Sagt er einn daginn að rússar séu komnir að fótum fram og þurfi að sækja sér mannafl til vinaþjóða í Asíu – hinn daginn að þeir muni leggja undir sig Evrópu verði þeir ekki stoppaðir strax. En hvernig á þjóð sem ekki hefur burði til að ná undir sig skikum í einu landi að hafa bolmagn til að leggja undir sig heila heimsálfu ?

Úkraínustríðið er stríð milli stórvelda – Rússlands og Bandaríkjana – bæði á höttunum eftir auðlindum. Rússland beitir fyrir sig eigin herafla en Bandaríkin Natóríkjunum og Bandaríkin láta þau að stórum hluta fjármagna úr almannasjóðum vopnakaup Úkraínu til handa – sem að mestu fara fram í gegnum Bandaríkin. Bandaríkin eru að hagnast á þessu stríði langt frá vígaslóð á meðan hin Natóríkin eru að tapa á því – Evrópuríkin eru nefnilega að éta sig upp með fjáraustri í þetta tilgangslausa stríð. Það er auðveldara að kúga þjóðir sem eru komnar niður á fjórar heldur en uppréttar svo þar er gott fyrir stórveldi sem undirbýr landtöku á norðurslóðum – stórveldi sem hefur fengið til þess aðstöðu á Íslandi að almenningi forspurðum. Bandaríkin eru ekki hér til að vaka yfir og vernda litla Ísland – þau eru hér af því að það hentar þeim.

Þjóðarleiðtogar Natóríkjanna hafa linnulaust talað um stríð og styrki til vopnakaupa – ekki um friðarviðræður – það er ekki fyrr en Trump fer að tala á þeim nótum að sum þeirra leggja til vopnahlé. Við vitum svo sem ekki hver meining Trumps er í þessu sambandi – hann segir oft eitt og annað en breytir svo þvert á það sem áður var sagt – kannski er hann bara að reyna að hvítþvo sig svona fyrirfram – ef allt fer á versta veg þá getur hann sagt að sökin sé ekki hans. Ef svo er þá er hann varasamari nú en nokkru sinni áður – hafa ber í huga að Bandaríkin hafa kynnt undir fleiri stríðsátökum í heiminum en flest önnur ríki.

En í samningaviðræðum – friðarviðræðum verða menn að mætast á miðri leið og báðir aðilar að gefa eftir.

Að mála Putin upp sem þann versta í réttlætingarherferðinni fyrir Úkraínustríðinu  lýsir algjöru rökþroti í ljósi þess að Bandaríkin eru blóðug upp fyrir haus sem helsta stuðningsþjóð Ísrael í helförinni á Gasa ásamt hinum Natóþjóðunum. Annar eins hryllingur hefur ekki sést síðan í seinni heimsstyrjöld – sannarlega ósmekklegt að loka augunum fyrir því – ekkert annað en veruleikaflótti sem sagnfræði framtíðar mun ekki afsaka.

Volodymyr Zelensky sem ekki nýtur stuðnings heima fyrir virðist nú vera orðin óttaslegin – búin að átta sig á að stríðið sem hann hefur verið í forsvari fyrir er ekki neinn samkvæmisleikur – hann vill heldur ekki láta kenna sér um ef allt fer á versta veg – það vilja leiðtogar Natóríkja ekki heldur – þó þeir hafi grímulaust leikið sér að eldinum mánuðum saman.

En hverjum verður um að kenna ef þriðja heimsstyrjöldin verður að veruleika ?

Einn valdamesti maður heims Donald Trump er með auðkýfing sér við hlið sem sinn nánasta ráðgjafa og fer ekki leynt með – það hlýtur að vekja upp spurningu um hvort hann sé einn þjóðarleiðtoga um slíkt. 

Sannarlega hafa margar misráðnar ákvarðanir verið teknar meðal þjóða sem augljóslega hafa  verið að þjóna einhverju allt öðru en almannahagsmunum – það þekkjum við hér á fróni.

Það er því full ástæða til að velta fyrir sér hvort þjóðkjörnir fulltrúar lýðræðisríkja séu aðeins andlit auðvaldsins út á við – strengjabrúður þeirra sem vilja hafa alla þræði í hendi sér sama hvað það kann að kosta í þjáningum og mannslífum.

Ástandið í heiminum í dag er svo slæmt að bröltið í Putin eitt og sér getur ekki verið orsök þess alls – hann er hins vegar tilvalin tylliástæða fyrir þá sem vilja hanga á þessu stríði án ábyrgðar.

Málið er að almenningur um veröld víða hefur flotið sofandi að feigðarósi og látið „gulrætur“ glepja sig – hann hefur aðgerðarlaus horft upp á lýðræðið breytast í alræði auðvaldsins – sem deilir og drottnar nær og fær – ósjaldan með aðferðum sem ekki rúmast innan lagaramma.

Hvert það hæti sem borið er í vörður auðvaldsins sem varðar leið þess að alræðinu er frá öðrum tekið og verður þá um leið sem sprek á ófriðarbál – því auðsöfnun á fárra manna hendur á kostnað almennra lífsgæða getur aldrei endað öðruvísi en með ósköpum eins og mörg dæmin sanna.

Það er orðið vandræðalegt að hlusta á íslenska ráðamenn reyna að verja þetta stríð til að réttlæta þá milljarða sem fara í þessa hít og hvernig þeir reyna að sigla milli skers og báru í von um að geta verið vinir allra og komist þannig hjá óþægindum.

En vitið það eru rússar sem reynst hafa okkur vinir í raun – þeir hafa oftar en einu sinni rétt fram hjálparhönd þegar illa hefur horft hjá okkur – en íslenska kapitalið á sjálfsagt erfitt með að viðurkenna bjargirnar frá rússneska birninum.

Annars hef ég lengi haldið því fram að það sé ekki stór munur á vestrænu kapitali og rússneskum kommúisma.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Sósíalisti og lífsreyndur eldri borgari.

Bókmenntahátíð á Flateyri

Flateyri.

Bókmenntahátíð Flateyrar verður til í hjarta Karíba, sjálfstæðs forlags með aðsetur á Flateyri.

Hugmyndin að þessari hátíð er að færa rithöfunda og lesendur saman í afskekkta þorpinu Flateyri, sem er staðsett í hinum stórbrotna Önundarfirði.

Í fjóra daga munum við fagna bókmenntum og fjölbreytileika með fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fullorðna. Allir eru velkomnir til að njóta fjölda viðburða ásamt list- og bókmenntasýninga sem verða í gangi allan tímann og þessi hátíð er ókeypis.

Barnadagskráin leggur sérstaka áherslu á fjölbreytileika, og verður meðal annars boðið upp á viðburði tengda barnabókmenntum eftir höfunda úr minnihlutahópum á Íslandi.

Þessir hópar eru meðal annars af ólíkum þjóðernum, trúarhópum, kynhneigðum og kynvitundum. Dagskráin er hluti af Demos Culture verkefninu í samstarfi við Norðurlöndin.


Dagskrá fullorðinna einblínir á bókmenntir sem vettvang þar sem við getum öll hist og haldið upp á menninguna saman.

Lóa býður nýsköpunarstyrki

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Lóu – nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina. 

Lóa eru nýsköpunarstyrkir sem hafa það hlutverk að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum. Styrkjunum er aðeins úthlutað til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að styðja við atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni.

Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á verkefni sem fela í sér hagnýtingu stafrænna lausna, þróun og nýtingu tæknilausna í heilbrigðismálum og verkefni sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda eða afurða á nýskapandi hátt.

Sjóðurinn er ætlaður verkefnum sem komin eru af byrjunarstigi og er heildarfjárhæð hans í ár 100 milljónir króna. 

Umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2025.

50 ár frá friðlýsingu Hornstranda

Þann 27. febrúar 1975 voru Hornstrandir, Aðalvík, Rekavík bak Látur og Fljótavík ásamt hluta Jökulfjarða friðlýst sem friðland.

Friðlandið er 581 ferkílómetrar að stærð og eitt af aðaleinkennum friðlandsins er hve afskekkt það er og lítið mótað af umsvifum og ágangi manna. Nú er svæðinu stýrt sem óbyggðu víðerni, enda uppfyllir svæðið öll viðmið til að falla í þann flokk. En svæði í þessum flokki er skilgreind sem víðfeðm óbyggða- eða eyðibyggðasvæði sem eru lítt eða ekkert röskuð af hálfu manna og hafa haldið sínum náttúrulegu einkennum. Þau eiga að bjóða upp á tæifæri til að upplifa einveru, eftir að komið er inn á svæðið, með hljóðlátum og lítið truflandi feðravenjum. Þau geta verð opin fyrir gesti sem eru tilbúnir til að til að ferðast á eigin vegum, fótgangandi eða með bátum.

Gestir svæðisins eru þeir sem búa yfir reynslu og búnaði til að takast á við það veðurfar og aðstæður sem eru að finna á þessum svæðum, án utanaðkomandi aðstoðar.

Markmið friðlðýsingarinnar á Hornströndum er að vernda lífríki, jarðminjar og menningarminjar svæðisins en friðlandið hefur hátt verndargildi bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þar sem svæðið er mikilvægt búsvæði fyrir fjölda fuglategunda, ekki síst sjófugla, auk þess sem friðlandið er eitt mikilvægasta búsvæði refa í Evrópu.

Gestakomur hafa ávallt verið yfir sumartímann en undanfarin ár hefur þeim fjölgað mikið sem heimsækja svæðið sem og ferðatíminn hefur lengst. Nú allra síðustu ár hafa um og yfir 10.000 gestir heimsótt svæðið yfir sumartímann.

Til að halda upp á þennan merka áfanga mun Náttúruverndarstofnun ásamt Hornstrandanefnd standa fyrir málþingi um friðland á Hornströndum í maí næst komandi

Skrif­að undir verk­samn­ing vegna 3. áfanga Dynj­andis­heiðar

Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar , og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning vegna þriðja áfanga Dynjandisheiða

Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, og Atli Þór  Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks, skrifuðu undir verksamning þann 4. mars, vegna verksins; Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði, 3. áfangi.

Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 7,2 km kafla, ásamt um 0,8 km kafla á Dynjandavegi. Vegurinn verður að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð keðjunarplans og gerð áningarstaðs.

Verktaki mun hefjast handa innan skamms en Borgarverk sinnir þegar tveimur öðrum framkvæmdaverkum á svipuðum slóðum, annars vegar fyllingum vegna þverunar Gufufjarðar og Djúpafjarðar og hins vegar verkefni við varnargarða nærri Flateyri.

Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

Tölvugerðar myndir af fyrirhuguðum framkvæmdum

Í 1. áfanga verksins var byggður upp 7,7 km kafli við Þverdalsá og einnig um 4,3 km kafli fyrir Meðalnes. Þær framkvæmdir stóðu yfir frá 2020-2022. Þá bættist einnig við um 650 m kafli á Bíldudalsvegi. Auk þess var um 1 km kafli frá Pennu niður að Flókalundi lagfærður.

Í 2. áfanga verksins fólst nýbygging Vestfjarðavegar á um 12,6 km löngum kafla. Sú framkvæmd náði frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og lá um hæsta hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn var að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í gamla vegstæðinu. Inni í því verki var einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð áningarstaðar. Verklok 2. áfanga voru árið 2024.

Bolungavík: vonbrigði með stöðu innanlandsflugs

Ráðhúsið í Bolungavík.

Bæjarráð Bolungavíkur lýsir yfir miklum vonbrigðum með stöðu innanlandsflugs til og frá norðanverðum Vestfjörðum. Í bókun bæjarráðsins sem samþykkt var á fundi þess í gær segir :

„Flugsamgöngur til og frá svæðinu eru einu almenningssamgöngur við svæðið og treystir samfélagið á þessa þjónustu í daglegu lífi.

hagkvæmisrök á kostnað landsbyggðarinnar

Ísland hefur síðustu áratugi verið byggt á þann veg að landsbyggðin treystir á að geta sótt þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Heilbrigðisþjónusta, flutningar, verslun, menning og ferðalög eru dæmi um þjónustu og innviði sem fara að stórum hluta í gegnum höfuðborgarsvæðið. Fyrir þessu hafa verið færð margvísleg hagkvæmnisrök sem oft á tíðum eru þó, þegar allt kemur til alls, á kostnað íbúa landsbyggðarinnar.

treyst á gott aðgengi að höfuðborgarsvæðinu

Landsbyggðin og Bolvíkingar þar með taldir, treysta á gott, hagkvæmt og stöðugt aðgengi að höfuðborgarsvæðinu. Það er skylda höfuðborgarinnar og stjórnvalda að tryggja þetta aðgengi með öllum þeim ráðum sem í boði eru.

Bæjarráð Bolungarvíkur skorar á stjórnvöld að rækja skyldur sýnar og tryggja íbúum á norðanverðum Vestfjörðum aðgengi að höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. með flugsamgöngum. Eða að öðrum kosti snúa þróuninni við að færa þjónustuna aftur til landsbyggðarinnar.“

Nýjustu fréttir