Föstudagur 6. september 2024
Síða 69

Aukaúthlutun úr Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Sjókvíar í Reyðarfirði.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna og verkefna sem styðja við markmið sjóðsins um lágmörkun umhverfisáhrifa af völdum sjókvíaeldis, samkvæmt reglugerð nr. 874/2019 um Umhverfissjóð sjókvíaeldis.

Til úthlutunar í aukaúthlutun á árinu 2024 eru kr. 111.746.000 kr.

Stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar geta sótt um styrki til sjóðsins.
Hlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats og vöktunar. Sjóðurinn getur jafnframt greitt kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður eftir því sem fjármagn leyfir. Verkefnum er forgangsraðað í samræmi við framangreint hlutverk og áherslur stjórnar hverju sinni.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á allar umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkfjárhæð, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 874/2019.

Í stjórninni eiga sæti:

Aðalmenn:
• Kolbeinn Óttarsson Proppé, án tilnefningar, formaður stjórnar sjóðsins.
• Hildur Hauksdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
• Þorgils Torfi Jónsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga.
• Valgerður Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.

.

Umsóknarfrestur er til klukkan 16:00, 16. júlí 2024

Lýðveldishátíð á Hrafnseyri 16.-17. júní 2024

Hrafnseyri.

Þann 16. og 17. júní verði hátíðardagskrá á Hrafnseyri í tilefni 80 ára afmælis íslenska lýðveldisins og 1150 ára sögu byggðar á Íslandi.

Þann 16. júní verður sjónum sérstaklega beint að landnámsminjum á Hrafnseyri þegar sýningin „Landnám í Arnarfirði“ verður opnuð. Í kjölfarið verður gestum boðið í leiðsögn um minjastaði á Hrafnseyri og börnin fá einnig að kynnast fornleifafræði af eigin raun í fornleifaskóla fyrir börn.

Íbúar af erlendum uppruna eru sérstaklega boðnir velkomnir á Hrafnseyri þennan dag í samstarfi við verkefnið Gefum íslensku séns. Verkefnið „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið“ verður einnig kynnt og boðið upp á smiðjur sem tengjast verkefninu fyrir börn.

Á 17. júní fer fram hátíðardagskrá með messu, hátíðarræðu Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, tónlist, opnun myndlistarsýningar sumarsins og lýðveldisköku.

Fólki fæddu 1944 sérstaklega boðið í kaffisamsæti á Hrafnseyri. Að lokum fer einnig fram Háskólahátíð Háskólaseturs Vestfjarð á þjóðhátíðardaginn.

Aðsóknarmet skiptinema í Landbúnaðarháskóla Íslands

Nú á haustönn hefur verið skráður metfjöldi skiptinema sem kemur til Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Skiptinemarnir koma og búa á nemendagörðunum á Hvanneyri og stunda þar nám sitt.

Nemendurnir koma frá samstarfsháskólum í Svíþjóð, Finnlandi, Frakklandi, Tjékklandi, Þýskalandi, Austurríki og Hollandi. Þau stunda nám á mismunandi sviðum eins og landbúnaðarvísindi, skógfræði, lífvísindi, umhverfisvísindi, náttúruvernd og landslagsarkitektúr.


Á síðustu árum hefur áhugi skiptinema aukist til muna á að koma til okkar á Hvanneyri í gegnum Erasmus+ og nýta þannig frábæra aðstöðu og umhverfi til náms á Hvanneyri.

Christian Schultze alþjóðafulltrúi segir: „Skiptinemarnir njóta þess sérstaklega að koma og búa í litlu háskólaþorpi í allri þeirri náttúrufegurð sem Hvanneyri hefur uppá að bjóða.

Við fáum mjög góðar umsagnir frá nemendum sem hafa verið hér og erum afar stollt af því að sjá hversu vinsælt skiptinámið hjá okkur er.

Í umsögnum sínum um dvölina nefna þau meða annars að „aðstaðan til náms sé frábær og andrúmsloftið einstakt“. Christian nefnir einnig „að auki njóta staðarnemar okkar góðs af kynnum við skiptinemana sem koma oft úr virtustu háskólum Evrópu, skiptinemarnir deila með okkar nemendum og kennurum reynslu sinni úr sínu námsumhverfi og námsleiðum sem eflir okkar nám“.

Efling alþjóðastarfs

Christian segir að Landbúnaðarháskóli Íslands sé orðinn að alþjóðlegum miðpunkti á síðustu árum. Að auki við skiptinemana þá er einnig aukning í að alþjóðlegir nemendur komi og hefji sitt nám á Hvanneyri á meistarastigi þar sem við bjóðum nú tvær alþjóðlegar námsleiðir og svo er stækkandi hópur doktorsnemar við skólann sem og starfsfólk frá ýmsum löndum sem starfar við skólann. Þannig að hjá okkur við Landbúnaðarháskólann vinna 23 aðilar frá 18 mismunandi löndum. Þá er Landbúnaðarháskólinn aðili að Evrópska háskólanetinu UNIgreen ásamt 7 öðrum háskólum sem nú þegar hefur skilað sér í eflingu starfseminnar.

Könnun um búsetuskilyrði: Strandir og Reykhólar koma verst út

Í könnun sem landshlutasamtökin utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Byggðastofnun stóðu að um mat íbúa á búsetuskilyrðum koma Strandir og Reykhólar verst út. Svæðið er lægst í matinu af 24 landsvæðum og það lækkar frá síðustu könnun.

Sunnanverðir Vestfirðir eru einnig neðarlega í könnuninni eða í 21. sæti en þó hafa búsetuskilyrðin batnað frá síðustu könnun þegar svæðið varð lægst. Norðanverðir Vestfirðir eru í 11. sæti og búsetuskilyrðin hafa heldur batnað að mati svarenda.

Íbúar Stranda og Reykhóla voru óánægðastir allra svæða með þjónustu sveitarfélags síns.

Eyjafjörður kom best út úr þessari könnun, Skagafjarðarsýsla var í öðru sæti og Akureyri í því þriðja.

Könnuð var afstaða til 40 atriða. Könnunin fór af stað í október 2023 og svör voru enn að berast í febrúar 2024. Könnunin var sent út á þremur tungumálum. Könnunin var síðast gerð 2020.

Kannaður var hugur íbúa til búsetuskilyrða, aðstæður á vinnumarkaði og afstöðu til nokkurra mikilvægra atriða, s.s hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum.

Á Vestfjörðum voru send út til um 3.500 manns. Svarhlutfall var 42% á norðanverðum Vestfjörðum, 18% á sunnanverðum Vestfjörðum og 15% á Ströndum og Reykhólum. Samtals voru svörin um 930.

Á sunnanverðum Vestfjörðum koma þættirnir laun og atvinnuöryggi vel út, en afþreying, málefni aldraðra og vegakerfi illa.

Á norðanverðum Vestfjörðum fá menning, mannlíf og tónlistarskóli háa einkunn en rafmagnsöryggi er það lægst á blaði.

Maður stunginn í Súðavík

Súðavík. mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því fyrir stuttu að í gærkvöldi hafi orðið átök í heimahúsi í Súðavík. Maður hafi verið stunginn með hnífi. Lögregla og sjúkralið fór þá þegar á vettvang.

Karlmaður var fluttur með sjúkrabíl á heilbrigðisstofnun Vestfjarða, á Ísafirði og í kjölfarið með sjúkravél á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var með lífshættuleg stungusár sem þurfti að meðhöndla frekar. Hann er nú kominn úr lífshættu.

Grunaði, ungur karlmaður, var handtekinn á staðnum og færður í fangahús á Ísafirði. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum mun í dag leggja fram kröfu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um að hann sæti gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki tímabært að gefa frekari upplýsingar um málið.

Þjóðskrá: fjölgar á norðanverðum Vestfjörðum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði um 54 á sex mánaða tímabili, frá 1. desember 2023 til 1.júní 2024. og voru þeir orðnir 7.531. Fjölgunin er 0,7% en á landsvísu fjölgaði landsmönnum um 1,1%. Nemur mannfjölgun á Vestfjörðum um 2/3 af fjölgun landsmanna á þessu tímabili.

Á þremur og hálfu ári , frá 1. desember 2020, hefur Vestfirðingum fjölgað um 6%. Heildarfjölgunin á landinu er liðlega 9% á sama tíma.

Fjölgunin á Vestfjörðum síðustu sex mánuði er nær eingöngu á norðanverðum Vestfjörðum. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 45 íbúa, um 7 íbúa í Bolungavík og í Súðavík fjölgaði um 5 manns. Samtals fjölgaði um 57 manns á svæðinu. Fjölgunin í Ísafjarðarbæ var 1,1% eða sú sama og var á landsvísu.

Á sunnanverðum Vestfjörðum virðist fjölgunin síðustu ár hafa stöðvast. Í Vesturbyggð fækkaði um 5 manns en fjölgaði í Tálknafjarðarhreppi um 7 íbúa. Samtals þá fjölgaði um 2 íbúa á svæðinu.

Í Strandasýslu og Reykhólahreppi varð fækkun um 5 manns. Í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 6 íbúa, en fækkaði í Árneshreppi um 4, einnig um 4 í Reykhólahreppi og í Strandabyggð fækkaði um 3.

Flestir íbúar eru í Ísafjarðarbæ 3.980 og nálgast sveitarfélagið 4.000 íbúa markið. Í sameinuðu sveitarfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðar voru 1.457 íbúar þann 1. júní sl. og 1.025 í Bolungavík.

Athuga ber að Þjóðskrá Íslands og Hagstofunni ber ekki saman um íbúafjölda og hefur Hagstofan gefið út tölur um íbúafjölda um síðustu áramót og telur landsmenn vera um 18 þúsund manns færri en tölur Þjoðskrár bera með sér.

Arnarlax leiðréttir ummæli þingmanns

Lagt er til að hafnasjóðu verði heimilt að innheimta sérstakt eldisgjald af eldisfiski.

Í tilkynningu frá Arnarlax segir af orðum Gísla Rafns Ólafssonar, þingmanns Pírata, í ræðu hann sem hann flutti á Alþingi á mánudag mátti skilja að Arnarlax hafi greitt út mikinn arð.

Vegna þessa vill Arnarlax koma því á framfæri að fyrirtækið hefur aldrei greitt út arð í 15 ára sögu þess.

„Reyndar kom fram hjá þingmanninum á einum stað í ræðu hans að hann átti þarna við stærsta hluthafann í Arnarlaxi, sem er áratugagamalt norskt fiskeldisfyrirtæki sem gengur afar vel. Hins vegar eignaði hann svo Arnarlaxi arðgreiðslurnar skömmu síðar í sömu ræðu og það gerði matvælaráðherra einnig í svörum við ræðu þingmannsins. Þarna var því ekki gerður greinarmunur á stórum hluthafa og hinu íslenska fyrirtæki. Þetta væri svipað því og ef Icelandair yrði gert ábyrgt fyrir arðgreiðslum Bain Capital, sem er stærsti hluthafinn í því mikilvæga fyrirtæki okkar Íslendinga.“

Fram kemur að Arnarlax er með hundruði hluthafa, bæði íslenska og erlenda. Flestir af þeim eru sjóðir sem leggja fé í atvinnustarfsemi í þeirri von að hún gangi vel og geti skilað sparifjáreigendum sem greitt hafa í sjóðina, ávöxtun til langs tíma.

„Uppbygging Arnarlax hefur tekið langan tíma og tapaði félagið umtalsverðu fjármagni framan af en hefur æ síðan varið rekstrarafgangi félagsins til uppbyggingar á starfsemi sinni á Vestfjörðum og Suðurlandi.

Fiskeldi er erfið atvinnugrein sem krefst mikilla fjárfestinga, þolinmóðs fjármagns og áratugalangrar þekkingar á ræktun og eldi. Fiskeldi er hins vegar líka umhverfisvæn grein í þeim skilningi að kolefnisspor við framleiðslu á laxi er lítið og varan heilnæmur prótíngjafi í heimi þar sem þörf er á að auka umhverfisvæna matvælaframleiðslu.“

Vikið er að því upp hafi komið alvarleg slysasleppingarmál og því sé skiljanlegt að Alþingi vilji setja skýrari lagaramma um starfsemi þessarar atvinnugreinar og skapa sem mestan hvata fyrir fyrirtækin að vanda til verka. „Arnarlax vill vinna í sátt við samfélagið og byggja upp traust til greinarinnar. Þar skiptir líka máli að þingmenn og ráðherrar séu vel upplýstir og haldi ekki fram röngum staðreyndum um íslensku fyrirtækin í greininni.“

Hlekkur á umræðuna: https://www.althingi.is/altext/raeda/154/rad20240610T153940.html

Nýr veitingastaður á Ísafirði

Mamma Nína var áður til húsa í húsnæðinu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Veitingarstaðurinn Bubbly hefur verið opnaður á Austurvegi 1 á Ísafirði. Það er fyrirtækið Pasta og Panini ehf sem stendur að rekstrinum. Það hefur skipt um nafn og heitir nú Vaikee ehf. Forsvarsmaður er Oddur Andri Thomasson Ahrens.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir á mánudaginn erindi frá Sýslumanninum á Vestfjörðum þar sem óskað var umsagnar um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II.

Hámarksgestafjöldi er 35. Þá er óskað eftir því að fá að setja 2- 3 borð út á sólardögum en þau verði tekin in fyrir kl 21.

Bæjarráð gerði ekki athugasemdir við veitingu rekstrarleyfis Bubbly á Ísafirði.

Aukinn áhugi á lánveitingum frá Byggðastofnun

Frá undirritun samningsins við evrópska fjárfestingasjóriðinn um bakábyrgðir við Byggðastofnun vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í dreifðum byggðum landsins.

Byggðastofnun segir að merkja megi vaxandi áhuga á lánum frá Byggðastofnun eftir undirritun samkomulags stofnunarinnar við Fjárfestingabanka Evrópusambandsins í síðustu viku.

Samningurinn tekur til bankaábyrgðar vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landsbyggðunum. Samkomulagið nú tekur við af öðru samkomulagi sem gerði það að verkum að hægt var að stofna nýja lánaflokka, sér í lagi lán til kynslóðaskipta í landbúnaði en í gegnum þann lánaflokk hefur Byggðastofnun veitt 31 ungum bændum lán til að hefja búrekstur.

Nú verður auk þess hægt að veita enn frekari lán með sveigjanlegri skilmálum til stuðnings atvinnurekstri kvenna, til umhverfisvænna verkefna, auk lána til fiskvinnslu og útgerða í viðkvæmum byggðarlögum.

Gert er ráð fyr­ir að styðja við að minnsta kosti 50 lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki á Íslandi, en sam­komu­lagið við Byggðastofn­un er fyrsta ábyrgðarsam­komu­lagið á Íslandi sem stutt er af In­vestEU áætl­un­inni. „Innviðaupp­bygg­ing í dreifðum byggðum er krefj­andi og kostnaðar­söm. Ábyrgðar­kerfi In­vestEU veit­ir Byggðastofn­un nauðsyn­leg úrræði til að bjóða mik­il­væga og hag­kvæma láns­mögu­leika í lands­byggðunum til að jafna lífs­kjör allra lands­manna,“ sagði Arn­ar Már Elías­son, for­stjóri Byggðastofn­un­ar, við und­ir­rit­un samn­ings­ins.

OV varar við heita vatninu í Tungudal

Frá borstæðinu í Tungudal. Mynd: Eggert Stefánsson.

Orkubú Vestfjarða hefur varað fólk við heita borholuvatninu í Tungudal. Vatnið sé um 58 gráður á Celsius en hitastigið sé breytilegt og því beri að hafa varann á sér við notkun á vatninu.

„Hitastigið á frárennslinu er aðallega háð því hversu miklu vatni er dælt upp úr borholunni en einnig því magni af köldu vatni sem dælt er niður í holuna hverju sinni. Borunin stendur enn yfir og því má einnig búast við því að hitastig heitu uppsprettunnar geti breyst.“ segir í tilkynningu Orkubúsins.

„Hitastigsbreytingar á vatninu geta verið skjótar og það borgar sig þess vegna að fara varlega í kringum frárennslið. Við biðjum því fólk að gæta sérstaklega að börnunum.“

Mikill áhugi er á borholunni og vatninu sem frá henni rennur. „Við erum ótrúlega ánægð með það heita vatn sem hefur fundist í Tungudal. Það er gaman að sjá áhugann og spenninginn hjá bæjarbúum, gestum og gangandi. Fólk stoppar og virðir fyrir sér borinn, heitu vatnsbununa, svarfið og heita lækinn sem rennur frá verkstaðnum. Það er spennandi að velta því fyrir sér hvernig best sé að nýta vatnið til framtíðar og það er líka spennandi að fá að njóta þess núna, dýfa höndunum í vatnið eða jafnvel baða sig í því.“

Nýjustu fréttir