Föstudagur 6. september 2024
Síða 68

Sveitarfélög: vilja virkja og jafna raforkukostnað

Frá jarðhitaleit í Tungudal í Skutulsfirði.

Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum héldu fund í gær ályktuðu um stöðuna í orkumálum. Á fundinum voru fulltrúar frá 31 sveitarfélagi.

Samþykkt var eftirfarandi áskorun á Alþingi og ráðherra:

  • Að Alþingi setji lög sem tryggi rétt almennings og minni fyrirtækja til að fá raforku.
  • Að raforkuverð til húshitunar á köldum svæðum verði ásættanlegt og ekki hærra en meðalverð hjá hitaveitum.
  • Að tryggð verði raforka til húshitunar.
  • Að tryggð verði raforka til minni fyrirtækja á sanngjörnu verði.
  • Að finna nýjar leiðir til þess að jafna kostnað við húshitun þar sem niðurgreiðslukerfið sem er í dag er virkir er komið að endastöð.
  • Hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir til að mæta orkuþörf landsmanna.
  • Að bæta innviðina og tryggja að hægt sé að flytja raforku á þá staði sem þarf á hverjum tíma.
  • Raforkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu. Mikilvægt er að til verði raforka fyrir fyrirtæki alls staðar á landinu.

Nú er komin tími til að fara strax í framkvæmdir. Framkvæmdir í raforkumálum á Íslandi sem verða öllum til hagsbóta, það er ekki lengur tími til að hugsa bara, tími framkvæmda er kominn– „Vilji er allt sem þarf“.

Strandabyggð: vinnslutillaga samþykkt að nýju aðalskipulagi fyrir 2021 – 2033

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samykkti 14. maí vinnslutillögu að aðalskipulagi fyrir Strandabyggð sem gildir fyrir 2021 – 2033. Um er að ræða endurskoðun á gildandi aðalskipulagi sem gilti fyrir árin 2010 – 2022.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að þegar núverandi sveitarstjórn tók við, fyrir um tveimur árum, hafði talsverð vinna þegar átt sér stað hjá fyrrverandi sveitarstjórn og Landmótun, en það er fyrirtækið Landmótun sem sér um faglegt utanumhald þessarar vinnu.  „Núverandi sveitarstjórn tók fljótlega þá ákvörðun að gefa sér tíma í að skoða þau gögn sem þegar lágu fyrir og eins að gefa sér tíma í að afla nýrra gagna.  Var samstaða um að skoða sem flesta þætti samfélagsins, taka ákvarðanir um landnýtingu einstakra svæða með framtíðar uppbyggingu í huga og breyta núverandi skilgreiningum á landrými og eða landnotkun, ef þess þótti þurfa.“

Þorgeir segir að síðan gildandi skipulag var samþykkt hafi ýmsar forsendur tekið breytingum s.s. atvinnulíf og fólksfjöldi og ýmis ný tækifæri og áskoranir litið dagsins ljós. 

Aðspurður um helstu áherslur nefnir hann einkum fjögur atriði:

Brandskjól.  Lengi hefur verið rætt um Brandskjól sem framtíðar íbúðahverfi Hólmavíkur.  Núverandi sveitarstjórn hefur tekið málið lengra og liggur fyrir frumgerð hugmyndar um skipulag hverfisins.  Rétt er þó að taka fram að deiliskipulagsvinna er eftir, en ljóst að við munum ýta þessu verkefni áfram eins og hægt er.  Í vinnslutillögu aðalskipulags segir:“ Nýtt íbúðarsvæði. Gert verður ráð fyrir lágreistri byggð á einni hæð með fjölbreyttum húsagerðum, þ.e. einbýli, par‐ og raðhús á einni hæð. Nánari útfærslur í deiliskipulagi“.

Aukið iðnaðarsvæði.  Á skeiði og í framhaldi af vinnusvæði vegegerðarinnar, er gert ráð fyrir fjölgun iðnaðarlóða og er þar horfti til þess að sveitarfélagið geti boðið fyrirætkjum góðar iðnaðarlóðir

Hótelbygging á Hólmavík.  Á svæðinu við íþróttamiðstöðina, er gert ráð fyrir byggingu um 60 herbergja hótels í háum gæðaflokki.  Hótelreiturinn svokallaði er nú i deiliskipulagsvinnuferli.

Skeljavík, frístundabyggð.  Lengi hefur verið horft til þessa svæðis með uppbyggingu sumarhúsa í huga, en núverandi sveitarstjórn jefur klárar þessa vinnu og er málið nú í yfirferð Skipulagsstofnunar.  Í vinnslutillögu aðalskipulags segir:“ Svæðið er óbyggt en deiliskipulagt að hluta. Heimilt er  að reisa allt að 12 frístundahús. Hönnun byggðarinnar  skal miða að því að byggðin falli vel að landslagi, s.s.  með staðsetningu húsa, hæðarsetningu, formi  bygginga og efnis‐ og litavali“.  Verður svæðið nú auglýst eins fljótt og kostur er. 

Hann segir alla umræðu um aðalskipulag af hinu góða og það sé mikilvægt að við lítum á þetta ferli sem þróunarferli hugmynda og sviðsmynda. 

Frekari upplýsingar: https://skipulagsgatt.is/issues/2023/85

Vestfjarðavíkingur!

Opið bréf til Vestfirðinga.

Hafandi búið utan Vestfjarða nú í fjögur ár hefi ég haft tækifæri til að skoða „landsvæðið“ með augum utanaðkomandi. Það hefur vissulega glatt mig að innstu hjartarótum að sjá að Vestfirðir eru að ná vopnum sínum aftur! Aftur! kann einhver að spyrja? Já það er auðskilið því fæstir þekkja sögu Vestfjarða!

Vestfirðir og íbúar þess hafa að nokkru leiti skapað sögu Íslands og samskipti þess við umheiminn. Í því sambandi leyfi ég mér að nefna Fóstbræðrasögu með fóstbræðrunum Þormóði Kolbrúnarskáld og Þorgeiri Hávarðarsyni, hvar annar var vígamaður en hinn kvennamaður. Ekki má gleyma Þorbjörgu digru í Vatnsfirði, sem kom Gretti sterka Ásmundarsyni undan lífláti heimamanna. Skilt er mér að nefna fyrsta lækni íslendinga, Hrafn Sveinbjarnarson og ekki má gleyma „fyrsta forseta Íslands Jóni Sigurðssyni. Hér ber mér skylda að nefna fyrsta véldrifna bát á Íslandi „Stanley“ og fyrstu alvöru utanríkisverslun Íslendinga Ásgeirsverslun.

Já það mætti bæta sitthverju við þessa upptalningu, en lítum til dagsins í dag.

Þá ég kom að sveitarstjórnamálum á Vestfjörðum fann ég til vanmáttar okkar hvað atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun varðaði, þá kom til umræðu olíuhreinsistöð, því öllum var ljóst að e-ð nýtt þurfti til atvinnuuppbyggingar. Nú hafa Vestfirðir, í kjölfar uppbyggingar sjávareldis á laxi, náð að því er virðist, vopnum sínum á ný. Svo grátlegt sem það kann að hljóma þá virðist það ÞYRNIR í augum „góða fólksins“ og einkum þeirra sem búa utan Vestfjarða! Með það í huga flýgur að mér ferskeytla er ég heyrði og nam í æsku;

Höfðingjar og heiðurkrans
héðan burtu fýkur.
Æðst embætti innanlands
allt til Reykjavíkur.

Frá því að þetta var kveðið hefur fátt breytst. Góða fólkið og landverndarsinnarnir syðra, sem hamla allri framför íslensks samfélags, hvort heldur á sviði samgangna, orkuöflunar eða atvinnutækifæra,  sjá ofsjónum yfir því að fallandi byggðir nái að rétta úr „kútnum“. Landsbyggðin á því miður formælendur fáa, sem  reyna á málefnalegum  grunni, að mótmæla eða gagnrýna skoðanir þessara „BESSERWISSERA“, sem ekki sjá fram fyrir tærnar á sér og hugsa sjaldnast um hvað landinu og íbúum þess er fyrir best.

Vestfirðingar, við erum heppin að eiga talsmann, sem áður var á alþingi okkar Íslendinga, sem nú berst með „sleggju“ og klóm fyrir framtíð okkar frábæra samfélags. Þessi maður er; Kristinn H. Gunnarsson og legg ég til að hann verði „Útnefndur VESTFJARÐA Vkingurinn“

Kæru Vestfirðingar til hamingju með 80 ára afmæli lýðveldis Íslands, sem ekki væri haldið uppá ef ekki hefðu Vestfirðingar komið við sögu! Saga lands og þjóðar eftir þennan dag er óskrifuð, en þar munu Vestfirðir sem hingað til koma við sögu.

Vestfjörðum allt til heilla
Þorsteinn Jóhannesson, skurðlæknir
Yfirlæknir og forstöðulæknir HVEST til 27 ára,
bæjarfulltrúi í 8 ár í Ísafjarðarkaupstað og Ísafjarðarbæ og forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.

„Situr í helga steininum“

Ísafjörður: ný slökkvistöð gæti kostað 460 m.kr.

Slökkvistöð Ísafjarðar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignarsviðs Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs segir að áætlað sé að kostnaður vegna slökkvistöðvar sé um 460.000 kr./fm. Um er að ræða viðmiðunartölu.

Þannig myndi 1.000 fermetra slökkvistöð kosta um 460 m.kr. og 800 fermetra stöð um 368 m.kr.

Sviðsstjórinn lagði til við bæjarráð eftirfarandi tillögu:

  1. heimila undirbúningsvinnu, sem felur í sér faglegt mat á stærð húsnæðis m.t.t. fjölda starfsmanna og tækjabúnaðar.
  2. vinna nákvæmt kostnaðarmat þegar niðurstaða þarfagreining liggur fyrir um helstu stærðir og búnað húsnæðisins.
  3. leiða málið áfram í fjárhagsáætlun næsta haust. Verkinu mætti eflaust skipta niður á 2-3 ár.

Fyrir liggi að töluvert er af uppsöfnuðu viðhaldi sl. ára á núverandi slökkvistöð , sem- og stöðin er komin til ára sinna. Elstu hlutar frá 1938 og stöðin frá 1950 með síðari stækkun 1978.

Helstu verkþættir fela í sér, að skipta um hluta af þaki, t.a.m. yfir þjónusturými, niðurrif innanhúss þ.e. rakaskemmd byggingarefni og síðast en ekki síst endurbygging. Útveggi þarf að háþrýstiþvo, sprunguþétta, múrviðgerðir og málning. Elstu hluta (skúrar ) væri æskilegast að klæða og einangra.

Um töluverðar fjárhæðir sé að ræða og skoða þurfi þær í samhengi við nýja slökkvistöð.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að láta gera þarfagreiningu á stærð og búnaði nýrrar slökkvistöðvar.

Vesturbyggð: nýr bæjarstjóri fyrir 19. júní

Ráðhús Vesturbyggðar.

Í gær var haldinn fyrsti bæjarráðsfundur í nýju sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Páll Vilhjálmsson, formaður bæjarráðs segir að stefnt sé að því að búið verði að ganga frá því að ráða bæjarstjóra fyrir bæjarstjórnarfund þann 19. júní.

Auk Páls eru í bæjarráði Jenný Lára Magnadóttir, varaformaður og Friðbjörg Matthíasdóttir.

Nýja sveitarfélagið varð formlega til þann 19. maí sl.

Rammaáætlun: tillaga um þrjá virkjunarkosti á Vestfjörðum í nýtingarflokk

Skúfnavatnavirkjun. Mynd: Orkustofnun.

Verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur kynnt tillögu sína um flokkun á fimm virkjunarkostum. Lagt er til að fjórir þeirra fari í nýtingarflokk og einn í verndarflokk. Þrír virkjunarkostanna eru á Vestfjörðum og er lagt til að allir flokkist í nýtingarflokk.

Það eru Tröllárvirkjun í Vattarfirði, sem er með 13,7 MW uppsett afl, Hvanneyrardalsvirkjun í Ísafirði 13,5 MW og Skúfnavatnavirkjun á Langadalsströnd 16 MW.

Hvanneyrardalsvirkjun byggir á miðlun vatns úr sjö vötnum á Glámuhálendinu og hluti vatnanna eru þau sömu og framkvæmdaraðili Tröllavirkjunar hyggst nýta. Það er því val um aðra hvora virkjunina en ekki báðar.

Hinir tveir virkjunarkostirnir eru Bolaalda, 100 MW jarðvarmavirkjun á Hellisheiði og Hamarsvirkjun Í Hamarsdal í Múlaþingi á Austurlandi. Lagt er til að Hamarsvirkjun fari í verndarflokk.

Fjórir undirhópar lögðu mat á kostina og gáfu einkunn frá 1 upp í 5. Hærri tala þýðir meiri hagkvæmni, minni umhverfisáhrif, meiri jákvæð samfelagsleg áhrif og minni áhrif á aðra hagsmuni. Háar tölur gera því virkjunarkostinn álitlegan:

Eins og sjá má þá er Skúfnavatnsvirkjun álitlegust af vestfirsku kostunum þremur og fær heldur hærri einkunn en Hvanneyrardalsvirkjun. Tröllárvirkjun fær afar lága einkunn í hagkvæmni en góða í samfélagslegum áhrifum og á aðra hagsmuni.

Allir fá virkjunarkostirnir þrír þá einkunn að áhrif þeirra á orkuöryggi verði verulega jákvætt. Kostnaðarverð raforkunnar er reiknað lægst fyrir Skúfnavatnavirkjun 4,9 kr/kWh en hærra fyrir hinar tvær. Fyrir Tröllárvirkjun er það 6,6 kr/kWh og fyrir Hvanneyrardalsvirkjun 7,5 kr/kWh.

Verkefnisstjórnin gerir grein fyrir sjónarmiðum að baki vali sínu og segir að orkuöryggi sé ekki tryggt á Vestfjörðum og landhlutinn er ekki nægjanlega tengdur dreifikerfinu í landinu.

„Því eru rík sjónarmið um orkuöflun innan svæðisins og þá sérstaklega nærri þeim tengivirkjum sem fyrir eru og þeim hluta Vestfjarða þar sem notendur eru flestir. Þau sjónarmið vógu sérstaklega í mati verkefnisstjórnar á virkjunarkostunum tveimur á Glámuhálendinu, þrátt fyrir að þeir hafi allnokkur áhrif á náttúruverðmæti svæðisins.“

Þá er bent á að þegar eru í nágrenni þessara kosta, einkum Skúfnavatnavirkjunar tveir virkjunarkostir í nýtingarflokki, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal og það hafi áhrif á hagkvæmni.

Þessir kostir eru opnir í tvær vikur fyrir almenning til þess að gefa umsögn og rennur tíminn út 21. júní n.k. Í framhaldi af því er svo gert ráð fyrir að hefja formlegt 12 vikna umsagnarferli um tillögur verkefnisstjórnar.

Gyðingar á faraldsfæti

Út er komin hjá bókaútgáfunni Uglu bókin Gyðingar á faraldsfæti eftir Joseph Roth

Í þessari bók bregður rithöfundurinn Joseph Roth (1894-1939) upp einstakri mynd af hlutskipti gyðinga í Austur-Evrópu á öndverðri tuttugustu öld – fátækt þeirra, rótleysi, ótta og vonum sem varð til þess að þeir freistuðu gæfunnar á fjarlægum slóðum.

Roth fylgir þeim eftir og lýsir með ljóslifandi hætti nýjum heimkynnum gyðinga, afkomu þeirra og aðlögun í stórborgunum Vín, Berlín, París og New York.

Bókin er í senn merkileg söguleg heimild og áhugaverð greining á átakamiklu efni í sögu Evrópu á tuttugustu öld.

Bókinni fylgir eftirmáli sem Roth ritaði árið1937, tíu árum eftir að bókin kom fyrst út, en þá þegar hafði hann gert sér grein fyrir þeirri lífshættulegu ógn sem gyðingum stafaði af nasistum.

Joseph Roth er meðal fremstu rithöfunda Austurríkis á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Jón Bjarni Atlason íslenskaði og ritaði eftirmála.

Skipulagsstofnun staðfestir breytingu á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps vegna frístundabyggðar í Hveravík

Skipulagsstofnun staðfesti, 10. júní 2024, breytingu á Aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030 sem samþykkt var í sveitarstjórn 15. janúar 2024.

Í breytingunni felst að skilgreind er um 23 ha frístundabyggð (FS14) fyrir 6 frístundahús á landbúnaðarsvæði sem minnkar samsvarandi. Um 2,4 ha verslunar- og þjónustusvæði (AS-VÞ-1) er fært til og svæðinu jafnframt skipt í tvo landnotkunarflokka: 1,2 ha verslun- og þjónustu (VÞ9) og 1,2 ha athafnasvæði (AS-5).

Breytingin hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Aukaúthlutun úr Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Sjókvíar í Reyðarfirði.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna og verkefna sem styðja við markmið sjóðsins um lágmörkun umhverfisáhrifa af völdum sjókvíaeldis, samkvæmt reglugerð nr. 874/2019 um Umhverfissjóð sjókvíaeldis.

Til úthlutunar í aukaúthlutun á árinu 2024 eru kr. 111.746.000 kr.

Stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar geta sótt um styrki til sjóðsins.
Hlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats og vöktunar. Sjóðurinn getur jafnframt greitt kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður eftir því sem fjármagn leyfir. Verkefnum er forgangsraðað í samræmi við framangreint hlutverk og áherslur stjórnar hverju sinni.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á allar umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkfjárhæð, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 874/2019.

Í stjórninni eiga sæti:

Aðalmenn:
• Kolbeinn Óttarsson Proppé, án tilnefningar, formaður stjórnar sjóðsins.
• Hildur Hauksdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
• Þorgils Torfi Jónsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga.
• Valgerður Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.

.

Umsóknarfrestur er til klukkan 16:00, 16. júlí 2024

Lýðveldishátíð á Hrafnseyri 16.-17. júní 2024

Hrafnseyri.

Þann 16. og 17. júní verði hátíðardagskrá á Hrafnseyri í tilefni 80 ára afmælis íslenska lýðveldisins og 1150 ára sögu byggðar á Íslandi.

Þann 16. júní verður sjónum sérstaklega beint að landnámsminjum á Hrafnseyri þegar sýningin „Landnám í Arnarfirði“ verður opnuð. Í kjölfarið verður gestum boðið í leiðsögn um minjastaði á Hrafnseyri og börnin fá einnig að kynnast fornleifafræði af eigin raun í fornleifaskóla fyrir börn.

Íbúar af erlendum uppruna eru sérstaklega boðnir velkomnir á Hrafnseyri þennan dag í samstarfi við verkefnið Gefum íslensku séns. Verkefnið „Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið“ verður einnig kynnt og boðið upp á smiðjur sem tengjast verkefninu fyrir börn.

Á 17. júní fer fram hátíðardagskrá með messu, hátíðarræðu Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, tónlist, opnun myndlistarsýningar sumarsins og lýðveldisköku.

Fólki fæddu 1944 sérstaklega boðið í kaffisamsæti á Hrafnseyri. Að lokum fer einnig fram Háskólahátíð Háskólaseturs Vestfjarð á þjóðhátíðardaginn.

Nýjustu fréttir