Föstudagur 6. september 2024
Síða 67

Vesturbyggð: samið við Landsnet um streng í landi Hóls

Sameinað sveitarfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðar og Landsnet hafa gert samkomulag um lagningu jarðstrengs í Bíldudalsvogi í landi jarðarinnar Hóll. Um er að ræða 66 kV línu frá Bíldudal meðfram Bíldudalsvoginum að Litlu Eyri, en þar mun nýr sæstrengur frá Hrafnseyri koma að landi. Mun háspennujarðstrengurinn liggja innan Hóls á 260 metra kafla og vera 10 metra breitt og er lagningin heimiluð með samkomulaginu og samið um 178.000 króna bótagreiðslu Landsnets til sveitarfélagsins. Jarðstrengurinn er hluti af nýjum streng frá Mjólká, Mjólkárlína 2, sem mun bæta afhendingaröryggi raforku á svæðinu.

Vikuviðtalið: Guðrún Anna Finnbogadóttir

Ég heiti Guðrún Anna Finnbogadóttir og er fædd og uppalin á Ísafirði, gift Steinari Ríkharðssyni og við eigum saman þrjú börn. Ég starfa hjá Vestfjarðastofu sem teymisstjóri atvinnu- og byggðaþróunar með starfsstöð á Patreksfirði.

Ég er sérfræðingur á sviði sjávarútvegs, fiskeldis og umhverfismála auk þess að sinna fjölbreyttum verkefnum í hagsmunagæslu fyrir fyrirtækin og samfélögin á Vestfjörðum. Við höfum sett á laggirnar Sóknarhóp Vestfjaraðstofu sem er vettvangur fyrir öll fyrirtæki í einkarekstri á Vestfjörðum en það nær yfir fyrirtæki í iðnaði, ferðaþjónustu og menningartengdri starfsemi.

Verkefnin eru gríðarlega fjölbreytt og má nefna Sjávarútvegsklasa Vestfjarða, fjölbreytt rannsóknarverkefni með fyrirtækjum og bændum auk ýmiskonar hagsmunagæslu þegar okkur finnst á okkur halla. Einnig eru unnar viðhorfskannanir og haldnir fjölbreyttir fundir til að vera með púlsinn á viðhorfi íbúanna til hinna ýmsu mála. Undanfarið hef ég unnið að því að efla rannsóknir og menntun í fiskeldi á Vestfjörðum og 1. júní síðastliðin var opnað Samvinnurýmið Vatneyrarbúð og fyrsta eftirlitsstarf MAST á sunnanverðum Vestfjörðum komið í hús.

Það sem er skemmtilegast við starfið er hversu fjölbreytt það er, það bætist stöðugt við þekkingu mína á Vestfjörðum bæði hvað varðar atvinnulífið og ekki síður um náttúruna og þorpin. Vestfirðingar eru að bardúsa í öllu mögulegu og virkilega gaman að vera í samskiptum við það hugdjarfa fólk sem hefur valið að vinna að uppbyggingu á Vestfjörðum.

Fyrir utan vinnuna er ég í Skógræktarfélagi Patreksfjarðar og Kvenfélaginu Sif en það er gaman að sjá hvað svona sjálfboðaliðasamtök geta afkastað miklu og hafa gríðarlega mikil áhrif til að bæta samfélögin. Ég er mikill tónlistarunnandi og hef fylgst vel með starfsemi Tónlistarskóla Vesturbyggðar í gegnum börnin mín sem hafa notið góðs af því góða starfi sem þar fer fram.

Við erum svo heppin að vera með glæsilega íþróttamiðstöð og sundlaug á Patreksfirði en þangað legg ég leið mína á veturnar til að geta sinnt aðal áhugamálinu á sumrin sem eru fjallgöngur. Alveg með ólíkindum hvað gönguferðir gera mikið fyrir sálarþrekið.

Þegar á allt er litið er lífið hvort heldur í leik eða starfi svolítið eins og fjallganga. Maður byrjar neðst, paufast upp og sér ekki fram á að komast nokkru sinni á toppinn. Þegar á toppinn er komið gleymist alveg hversu erfitt og mikil vinna þetta var allt saman. Lítum svo stolt yfir farin veg og finnum okkur nýjan topp að paufast upp. Í stuttu máli brenn ég fyrir vestfirsku samfélagi og náttúru og nýt þess að vera hluti af því alla daga.

Búsetukönnunin: Hamingja íbúa mest í Skagafirði, Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í nýrri íbúakönnun landshlutanna, og íbúar Stranda og Reykhóla ásamt Vestur-Húnavatnssýslu óhamingjusamastir. Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt Byggðastofnun. Þátttakendur voru um 11.500.

Eyjamenn ánægðastir með þjónustu sveitarfélagsins

Eyjamenn eru ánægðastir með þjónustu sveitarfélagsins, eða rúmlega 80%, en fast á hæla þeirra fylgdu Akureyringar og íbúar Rangárvallasýslu. Lægst var hlutfall ánægðra íbúa í Vogum, rúmlega 50%, á Ströndum og Reykhólum auk Fjarðabyggðar. Höfuðborgarsvæðið lenti í sjötta sæti af 24 svæðum þegar íbúar voru spurðir almennt um ánægju þeirra með þjónustu sveitarfélaga, og kom Reykjavík verst út af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

 Eyfirðingar ánægðir með búsetuskilyrðin

Eyfirðingar, Skagfirðingar og Akureyringar voru ánægðastir með búsetuskilyrði í sínum sveitarfélögum, en íbúar á Ströndum og Reykhólahreppi, Skaftafellssýslum og Austur-Húnavatnssýslu óánægðastir. Ánægja í Dölum hækkaði hins vegar mest á milli kannana þegar spurt var um búsetuskilyrði en Þingeyjarsýsla, Eyjafjörður, Hérað og Norður-Múlasýsla hækkuðu líka mikið á milli kannana. Mest lækkuðu hins vegar Vestmannaeyjar, Skaftafellssýslur og Austur-Húnavatnssýsla.

Þingeyingar, Akureyringar og Skagamenn ólíklegastir til að flytja þaðan sem þeir búa

Samkvæmt niðurstöðunum eru Þingeyingar, Akureyringar og Skagamenn ólíklegastir til að flytja, en þaðan töldu 9% frekar eða mjög líklegt að þeir myndu flytja á næstu tveimur árum. Líklegastir til að flytja voru íbúar Grindavíkur, Stranda og Reykhóla og S-Vestfjarða en ekki bárust mörg svör frá Grindavík og meirihluti þeirra barst fyrir örlagadaginn 10. nóvember.

Höfuðborgarbúar hafa mest svigrúm til að vinna starf sitt óháð staðsetningu

Samkvæmt könnuninni eru það íbúar höfuðborgarsvæðisins sem hlutfallslega flestir eru í óstaðbundnu starfi eða um helmingur. Akureyringar koma næst á eftir þeim þar sem um 40% er í starfi án staðsetningar. Hlutfallslega fæstir slíkir voru í Vestmannaeyjum eða 20%.

Íbúakönnun landshlutanna er samstarfsverkefni allra landshlutasamtaka utan höfuðborgarsvæðisins, ásamt Byggðastofnun. Könnunin hófst haustið 2023 en dróst fram á veturinn 2024. Þátttakendur voru um 11.500.Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki. Könnunin var lögð fyrir á íslensku, pólsku og ensku. Íbúakönnunin var fyrst framkvæmd á Vesturlandi árið 2004 en síðan á þriggja ára fresti. Könnunin var nú framkvæmd í annað sinn á öllu landinu.

Á tæpustu tungu

Í heiminum er ekki að finna neitt tæki jafn margslungið eða vel til þess búið að varðveita og fremja menningu – hugsun, bókmenntir, tilfinningar, lærdóm – og tungumálið. Í krafti tungumálsins gerum við allt og án þess ekkert. Engin reynsla er heldur jafn umbreytandi og sú að læra nýtt tungumál. Það opnar ekki bara á heilan nýjan menningarheim – nýja hugsun, nýjar bókmenntir, nýjar tilfinningar og nýjan lærdóm – heldur ryður það bókstaflega nýjar leiðir fyrir manns eigin hugsanir og gefur manni hlutdeild í samtalinu um framtíð þess tungumáls sem maður lærði, sem er í grunninn samtal um það hvað sé hægt að hugsa á jörðinni. Það er óendanlega dýrmætt, einsog gefur að skilja, og það er bæði þrekvirki og kraftaverk í hvert einasta sinn sem það á sér stað. Fólk sem heldur að aðrir geti bara hrist það fram úr erminni ætti að reyna það á sjálfu sér fyrst.

En hinkrum samt aðeins við í háfleygninni – hvað er það að kunna tungumál? Erum við einu sinni sammála um það? Hvað þarf maður að kunna mörg orð áður en maður „kann tungumál“? Ég þekki fólk sem þýðir alvarlegar fagurbókmenntir og níðþunga heimspeki úr tungumálum sem það talar aldrei upphátt – þetta fólk gæti ekki sagt öðrum til vegar þótt líf þeirra lægi við. Og ég þekki líka fólk sem einfaldlega veður elginn á erlendum málum, mál þess úir og grúir kannski í málvillum, en það talar þó og tjáir sig – samt getur þetta fólk ekki lesið svo mikið sem dagblað á sama máli. Ég þekki þjóna erlendis sem lært hafa helstu kurteisiskveðjur og matseðilinn þar sem þeir vinna og komist þannig í gegnum vakt eftir vakt án þess að nokkur uppgötvaði að þeir kynnu ekkert annað í málinu. Ef það tekur enginn eftir því að þú kannt ekki íslensku – kanntu þá ekki íslensku? Ef þú leynir alla því að þú kannt íslensku – kanntu þá íslensku? Er nóg að kunna að stafsetja „Kringlumýrarbraut“ eða þarf líka að kunna að bera það fram? Þarf maður að geta bæði lesið Hallgrím Pétursson með upprunalegu stafsetningunni og skilið óðamála strákana í Æði? Og ef maður segir „ske“ – er maður þá alltíeinu að tala dönsku?

Ef ég væri krafinn svars? Það „kann“ aldrei neinn að tala neitt tungumál. Ekki einu sinni sitt eigið móðurmál. Maður lærir það bara. Lærir og lærir og lærir og lærir.

Sem leiðir okkur að hinu. Sá sem segir ekki „takk“ úti í búð – hvort heldur sem viðkomandi er að stunda innkaup eða afgreiðslu – á augljóslega ekki í neinum „tungumálavandræðum“. Þá er eitthvað annað sem bjátar á. Það er ekkert erfitt við að segja „takk“ annað en auðmýktin sem í þakklætinu býr. Og sá sem þarf alltaf að segja „thank you“ hvar sem hann fer í heiminum er fyrst og fremst að sýna fjölbreytileika heimsins skeytingarleysi og þar með að missa af ferðalaginu sem hann hefur greitt fyrir dýrum dómum, einsog sá sem hengir (bara) upp auglýsingar og skilti á ensku er að sýna sinni eigin staðsetningu skeytingarleysi og raunar að einhverju leyti að ræna sína heimabyggð sérstöðunni, taka þátt í versta glæp glóbalismans: að gera alla staði nákvæmlega eins, staðlaða og staðnaða.

Það er alls ekki víst að þessi þjóð sé „þjóð“ án tungumálsins. Og svo allt sé uppá borðum er víst best að ég nefni það, að ég á persónulega allt mitt undir þessu máli: starf, sjálfsmynd, líf og hugsjón, og mér þætti satt best að segja afar vænt um að það færi ekki allt til andskotans. En tungumálið má ekki vera baggi, ekki áþján, ekki vopn, ekki skilyrðislaust skylduboð, ekki svipa til þess að beita á lánlaust lágstéttarfólk, ekki tæki til þess að draga fólk í dilka eða gefa þeim stig, draga af þeim stig, banna þeim þátttöku í leiknum, svipta þau réttindum eða gera þau tortryggileg. Við sem tölum þetta mál – líka þau sem kunna bara fáein orð – berum ábyrgð á þróun þess og það er í okkar höndum að sjá til þess að íslenskan taki vel á móti þeim sem vilja fást við að læra hana. Ef við mætum því fólki af offorsi þess sem kennir með því einu að slá reglustiku á fingur nemenda sinna verður það ekki bara til þess að stilla upp ósigri gagnvart tungumálinu heldur líka gagnvart okkar eigin mennsku. Sá sem lærir tungumál af nauðung lærir samtímis í hjarta sínu óbeit á því máli sem er þvingað ofan í hann. Það krefst þrautseigju að læra tungumál og ef uppspretta þeirrar þrautseigju er ekki gleði og von verður ávöxtur námsins aldrei annað en gremja: Hvert einasta orð fellur beiskt af vörum. Við verðum öll verra fólk og enginn lærir neitt.

En við skulum horfast í augu við staðreyndir. Það er bjartsýni miðað við núverandi þróun að það verði enn töluð íslenska eftir 100 ár, nema til skrauts eða sem háskólaíþrótt – einsog latína í kirkju, danska á sunnudögum eða íslenska í Gimli. Viðnámið, að því marki sem nokkur hefur áhuga á viðnámi, snýst fyrst og fremst um að segja „takk“ en ekki „thank you“ – það hefur ekkert að segja að þýða tölvuleiki sem enginn ætlar að spila á íslensku, þýða stýrikerfi sem enginn ætlar að nota á íslensku, eða skrifa bækur á íslensku sem enginn undir fimmtugu les. Þetta er spurning um hugarfar. Að nógu margir – og nógu fjölbreyttur hópur – verði eftir sem vilji nota málið. Og misnota málið. Afbaka það. Leika sér með það. Breyta því, bæta það, stækka það. Það eina sem gæti hugsanlega verið verra en að málið hverfi er nefnilega að það verði „varðveitt einsog gersemi inni í stofu hjá okkur“ – einsog Kári Stefánsson stakk upp á í viðtali fyrir skemmstu. Ég get ekki talað fyrir aðra en mig langar ekki að búa á minjastofnun um íslenska tungu. Bara svo það sé nú sagt. Því tungumál sem ekki dansar við önnur og fær ekki að reyna á þolmörk sín staðnar og tungumál sem staðnar deyr ekki einsog Rómanoff keisari, fær ekki kúlu í hausinn, heldur einsog Lenín, þanið af smurolíu og formaldehýði, sótthreinsað og til sýnis í glerkassa, í kistulagningu sem aldrei tekur enda. Þá er betra að hverfa hratt og örugglega.

Við búum í samfélagi fólks sem þolir ekki enskuslettur. Fólks sem þolir ekki pólskuslettur. Fólks sem þolir ekki dönskuslettur. Fólks sem þolir ekki kynhlutlaust mál. Fólks sem þolir ekki kynjað mál. Fólks sem þolir ekki þágufallssýki. Fólks sem þolir ekki þýdd fræðiheiti. Fólks sem þolir ekki fag- og fræðislettur. Fólks sem þolir ekki kansellístíl. Fólks sem þolir ekki krimmastíl. Fólks sem þolir ekki gamaldags orð. Fólks sem þolir ekki nýmóðins orð. Fólks sem þolir ekki Íslendingasagnastíl. Fólks sem þolir ekki annars konar stafsetníngu. Fólks sem óþolir alternatífa málfræði. Fólks sem þolir ekki tæknimál. Fólks sem þolir ekki barnamál. Fólks sem þolir ekki orðagrín. Fólks sem þolir ekki íslenskun erlendra borgarheita. Fólks sem þolir ekki sambreiskinga. Fólks sem þolir ekki orð sem það þekkir ekki. Fólks sem þolir ekki gullaldarmál. Fólks sem þolir ekki blótsyrði. Fólks sem þolir ekki nýtt slangur. Fólks sem þolir ekki gamalt slangur. Fólks sem þolir ekki löng orð eða langar setningar. Fólks sem þolir ekki stutt orð eða stuttar setningar. Fólks sem þolir ekki ritmál. Fólks sem þolir ekki talmál. Fólks sem þolir ekki anafórur. Fólks sem þolir ekki woke-orðin. Fólks sem þolir ekki ó-woke-orðin. Fólks sem þolir ekki tungumálahræring. Fólks sem þolir ekki hreintungustíl.

     Kannski er þetta til marks um einhvers konar væntumþykju – og sannarlega legg ég ekki til að við hættum að láta okkur málið varða – en þessi væntumþykja er líka kæfandi og frek. Tökumst á um málið en gleymum því ekki að þetta snýst ekki um að við tölum öll nákvæmlega eins. Hvert einasta orð er gjöf. Hver einasta ný rödd er kraftaverk. Og á meðan það hjarir: Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Fleiri við kennslu í grunnskólum án kennsluréttinda

Skólaárið 2023-2024 voru 18,7% starfsfólks við kennslu í grunnskólum án kennsluréttinda og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá árinu 2002 að því er kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Réttindalausu starfsfólki við kennslu fjölgaði um 132 frá hausti 2022.

Hlutfallslega fleiri karlar en konur voru án réttinda. Meðal karla við kennslu var hlutfallið 26,9% en 16,9% á meðal kvenna.

Haustið 2023 störfuðu 9.475 starfsmenn í 8.415 stöðugildum í grunnskólum á Íslandi og hafði fjölgað um 0,7% frá fyrra ári. Þar af störfuðu 5.911 við kennslu.

Karlar við kennslu voru 1.089 haustið 2023 og hafa ekki verið fleiri síðan 2003. Hlufall þeirra af starfsfólki við kennslu hefur þó farið lækkandi á þessum tveimur áratugum. Þeir voru 23,3% starfsfólks við kennslu árið 2003 en hlutfallið hefur verið á bilinu 17,5% til 18,7% undanfarinn áratug.

Meðalaldur starfsfólks við kennslu lækkar lítillega frá fyrra ári, úr 46,7 árum í 46,1 ár. Ástæða þessarar lækkunar er lækkun meðalaldurs starfsfólks án kennsluréttinda úr 38,0 árum í 35,7 ár. Meðalaldur kennara með kennsluréttindi er 48,5 ár og er hann svo til óbreyttur frá fyrra ári.

Áhöfnin á varðskipinu Þór og starfsmenn Vegagerðarinnar annast viðhald á vitum landsins

Mynd Bragi Valgeirsson

Áhöfnin á varðskipinu Þór lagði á dögunum af stað í árlegan vitatúr í samstarfi við starfsmenn Vegagerðarinnar.

Áratugum saman hafa varðskip Landhelgisgæslunnar siglt meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum, skerjavitum, sjómerkjum og ljósduflum sem ekki er hægt að komast í frá landi.

Áhöfnin á varðskipinu Þór og starfsmenn Vegagerðarinnar sjá um eftirlit og viðhald á vitum og öðrum sjómerkjum í ferðinni en með í ferðinni voru einnig starfsmenn aðgerðasviðs.

Meðal verkefna í vitatúrunum er að yfirfara rafgeyma og sólarspegla auk þess að endurnýja perur auk annars tilfallandi viðhalds.

Sumarið er komið – nagladekkin af

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að hún telji að sumarið sé komið og að enginn ætti því að þurfa að aka um á negldum vetrarhjólbörðum.

Það er því eðlilegt að lögreglan hafi afskipti af þeim ökumönnum sem áfram aka um göturnar á slíkum hjólbörðum.

Ökumenn mega því búast við sektum verði þeir ennþá á nagladekkjunum eftir daginn í dag akandi um á Vestfjörðum

Messað að Stað í Aðalvík

Messað verður í kirkjunni að Stað í Aðalvík laugardaginn 22. júní kl. 14:30. Prestur er séra Magnús Erlingsson.

Bátur fer frá Sjóferðum kl. 10:30 og aftur til baka til Ísafjarðar kl. 22:30, með viðkomu á Látrum í báðum ferðum. Mikilvægt er að bóka siglingu sem fyrst https://sjoferdir.is.

Að lokinnu messu verður kaffi í Prestsbústaðnum á vegum Átthagafélaganna á Ísafirði og Reykjavík.

Um kvöldið verður svo ball i skólahúsinu á Sæbóli við undirleik Húsbandsins.

Skólinn verður opinn allan daginn og gestum er velkomið að borða nestið sitt þar.

Heilbrigðisráðherra: Netsala áfengis ógnar grundvallarmarkmiðum lýðheilsu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra bendir á í bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra að með netsölu áfengis sé grafið undan gildandi sölufyrirkomulagi á áfengi og grundvallarmarkmiðum stefnu stjórnvalda í lýðheilsumálum ógnað. Vísar hann m.a. til markmiðsákvæða áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak sem kveða á um að umgjörð smásölu áfengis skuli byggjast á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. 

Rík áhersla á lýðheilsu og forvarnir í lögum og stefnum stjórnvalda

Heilbrigðisráðherra segir tilgang einkasölufyrirkomulags áfengis á smásölustigi byggja á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felist fyrst og fremst í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna þannig gegn misnotkun og skaðlegum áhrifum þess. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, fjárhagslegir og félagslegir, að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu og forvarnir.

Þá vísar ráðherra í ályktun Alþingis um lýðheilsustefnu sem miði að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma. Stóraukið aðgengi að áfengi með opnun netverslana vinni beinlínis gegn þeirri framtíðarsýn Alþingis. Þá hafi rannsóknir sýnt að aukið aðgengi að áfengi hafi slæm áhrif á heilsufar fólks og hafi neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér. Rekja megi eitt af hverjum tíu dauðsföllum í Evrópu til áfengisneyslu, neysla þess hafi orsakatengsl við yfir 200 sjúkdóma og heilsukvilla og sé auk þess stór áhættuþáttur slysa. 

Netverslun með áfengi mögulega í andstöðu við lög

Einstaklingum hér á landi er heimilt að flytja áfengi til landsins til eigin nota, að því tilskildu að þeir standi sjálfir fyrir innflutningnum, greiði tolla og önnur opinber gjöld og að salan fari fram í öðru landi. Deilt hefur verið um hvort fyrirkomulag netverslana á íslenskum markaði brjóti gegn ákvæðum laga þar sem þær selji áfengi af innlendum lager sem þegar hafi verið flutt til landsins og tollafgreitt. Þá hafi borið á auglýsingum netverslana um heimsendingu áfengis á höfuðborgarsvæðisins innan við 30 mínútum eftir að kaupin fara fram. Ekki hefur verið skorið úr um það fyrir dómstólum hvort hér sé um að ræða einkainnflutning kaupanda á vörunni, eða hvort innflutningurinn stríði gegn lögum, líkt og nánar er rakið í bréfi heilbrigðisráðherra.

Fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með framkvæmd laganna hefur þegar brugðist við með erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem bent er á álitaefni sem tengjast starfsemi netverslana með áfengi og kunna að fela í sér brot á lögunum. Efnt var til sérstakrar umræðu á Alþingi í vikunni um forvarnir og lýðheilsu í tengslum við aukið aðgengi að áfengi og málið var sömuleiðis tekið fyrir á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Sveitarfélög: vilja virkja og jafna raforkukostnað

Frá jarðhitaleit í Tungudal í Skutulsfirði.

Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum héldu fund í gær ályktuðu um stöðuna í orkumálum. Á fundinum voru fulltrúar frá 31 sveitarfélagi.

Samþykkt var eftirfarandi áskorun á Alþingi og ráðherra:

  • Að Alþingi setji lög sem tryggi rétt almennings og minni fyrirtækja til að fá raforku.
  • Að raforkuverð til húshitunar á köldum svæðum verði ásættanlegt og ekki hærra en meðalverð hjá hitaveitum.
  • Að tryggð verði raforka til húshitunar.
  • Að tryggð verði raforka til minni fyrirtækja á sanngjörnu verði.
  • Að finna nýjar leiðir til þess að jafna kostnað við húshitun þar sem niðurgreiðslukerfið sem er í dag er virkir er komið að endastöð.
  • Hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir til að mæta orkuþörf landsmanna.
  • Að bæta innviðina og tryggja að hægt sé að flytja raforku á þá staði sem þarf á hverjum tíma.
  • Raforkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu. Mikilvægt er að til verði raforka fyrir fyrirtæki alls staðar á landinu.

Nú er komin tími til að fara strax í framkvæmdir. Framkvæmdir í raforkumálum á Íslandi sem verða öllum til hagsbóta, það er ekki lengur tími til að hugsa bara, tími framkvæmda er kominn– „Vilji er allt sem þarf“.

Nýjustu fréttir