Föstudagur 6. september 2024
Síða 66

Aflamark Byggðastofnunar – umsýsla stofnunarinnar góð að mati Ríkisendurskoðunar

Tindur ÍS veiðir sértæka byggðakvótann á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á ráðstöfun byggðakvóta sem nú er komin út kemur fram að aflamark Byggðastofnunar sé minna umdeilt en almenni byggðakvótinn og úthlutun þess feli í sér meiri fyrirsjáanleika hvað varðar úthlutun til  byggðarlaga.

Úttektin var gerð að beiðni Alþingis sem samþykkti í maí 2023 að óska eftir því við Ríkisendurskoðanda að hann gerði stjórnsýsluúttekt á ráðstöfun almenns byggðakvóta og sértæks byggðakvóta þ.e. aflamarks Byggðastofnunar. Í skýrslubeiðni Alþingis segir einnig: „Jafnframt verði athugað hvort framkvæmdin stuðli að jákvæðri byggðaþróun, hvort framkvæmdin samrýmist góðum stjórnsýsluháttum, hvort jafnræðis sé gætt við úthlutun byggðakvóta og hvort framkvæmdin samrýmist þeim markmiðum sem stefnt var að með setningu þeirra lagaákvæða sem úthlutun byggðakvóta byggir á.“

Ábending Ríkisendurskoðunar

Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að Aflamark Byggðastofnunar sé minna umdeilt en almenni byggðakvótinn og úthlutun þess feli í sér meiri fyrirsjáanleika hvað varðar úthlutun til  byggðarlaga og ætlaða þýðingu fyrir byggðafestu. Þá metur Ríkisendurskoðun umsýslu Byggðastofnunar góða hvað varðar jafnræði og stjórnsýslu.

Í tilkynningu Byggðastofnunar um skýrsluna segir að í henni sé ábending til Byggðastofnunar og Fiskistofu um að verklagsreglur um byggðakvóta þurfi að endurspegla framkvæmd úthlutunar og eftirlit með nánari hætti. Byggðastofnun hefur þegar brugðist við þessari ábendingu og uppfært verklagsreglur stofnunarinnar í samræmi við framkomnar ábendingar þannig að þær endurspegli ítarlegar framkvæmd úthlutunar og eftirlits stofnunarinnar varðandi Aflamark Byggðastofnunar og voru þær samþykktar af stjórn stofnunarinnar þann 6. júní sl. Jafnframt því mun stofnunin fela innri endurskoðun að yfirfara verkferla og stjórnsýslu vegna Aflamarks Byggðastofnunar í sinni reglubundnu úttekt á starfsemi stofnunarinnar.  Byggðastofnun tekur fram að ráðstöfun stofnunarinnar á sértækum byggðakvóta hefur ávallt verið í samræmi við lög, reglugerð og gildandi verklagsreglur eins og m.a. þeir stjórnsýsluúrskurðir og dómar sem fallið hafa vegna verkefnisins bera með sér.  

Mat Ríkisendurskoðunar er að Byggðastofnun beri að geta í skýringum með ársreikningi um magn og verðmæti þess aflamarks sem stofnunin úthlutar hverju sinni og er þeim tilmælum beint til Byggðastofnunar að gera úrbætur á framsetningu ársreikninga hvað þetta varðar.  Það mun stofnunin gera en rétt er að  geta þess að magnið var tiltekið í skýringum með ársreikningi stofnunarinnar fyrir árið 2023 án þess að lagt hafi verið mat á verðmæti þess.

Búið að opna veginn upp á Bolafjall

Útsýnispallurinn á Bolafjalli í ágúst 2022. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í dag var opnaður vegurin nupp á Bolafjall. Þetta kemur fram í tilynningu frá Vegagerðinni.

Þá hefur Vegagerðin gefið út hálendiskort nr 3 og má nálgast það á hlekknum hér: https://www.vegagerdin.is/vgdata/halendi/halendi.pdf

Helstu breytingar frá síðasta korti eru:

Búið er að opna Lakaveg (F206) upp að Fagrafossi

Búið er að opna yfir Kjöl (35) (Einungis fært fjallabílum norðan Kerlingarfjalla.)

Búið er að opna Fjallabaksleið nyrðri (208) frá Sigöldu og að Landmannalaugum.

Búið er að opna Fjallabaksleið nyrðri (F208) upp að Hólaskjóli að austan.

Búið er að opna Arnarvatnsheiði (F578) milli Surtshellis og Úlfsvatns

Ert þú í tengslum?

Gott að eldast er aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem byggir á nýrri hugsun í þjónustu við þennan stækkandi hóp í samfélagi okkar. Áætlunina fékk ég samþykkta á Alþingi í fyrra. Með henni er leitast eftir að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk, meðal annars með því að gera hana einstaklingsmiðaðri. Jafnframt er áhersla lögð á andlega, líkamlega og félagslega heilsueflingu en með virkni og félagslegri samveru er stuðlað að heilbrigðri öldrun.

Tengiráðgjafar eiga að rjúfa einangrun fólks

Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi og rannsóknir sýna að til mikils er að vinna með aukinni félagslegri virkni enda félagsleg einangrun stór áhættuþáttur einmannaleika. Nú hafa sex sveitarfélög hafið þátttöku í spennandi tilraunaverkefni með ráðningu svokallaðra tengiráðgjafa. Hlutverk tengiráðgjafa er að leitast við að rjúfa einangrun eldra fólks með símtölum og heimsóknum og því að finna leiðir til að auka virkni. Það getur verið auðvelt úrlausnar, eins og með því að tengja saman fólk með svipuð áhugamál, eða krafist flóknara samstarfs milli þjónustustofnana.

Nærsamfélagið virkjað gegn einmanaleika

Tengiráðgjafi þarf að hafa yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti viðkvæmra hópa og vinna gegn einmanaleika. Tengiráðgjafi er þannig í góðum tengslum við aðila úr nærsamfélaginu til að nýta sem best þær bjargir sem fyrir eru í nærsamfélaginu, ryðja úr vegi hindrunum á milli mismunandi þjónustuaðila og byggja upp tengingar á milli þjónustuveitenda í sveitarfélaginu. Á flestum stöðum mun þetta fela í sér samtal á milli félagsþjónustu og heilsugæslu, félagasamtaka, trúfélaga, sjálfboðaliðasamtaka o.s.frv. Með þessu er nærumhverfið virkjað til þess að taka betur utan um þau sem eru félagslega einangruð eða einmana. Hlutverk tengiráðgjafa er þannig að stíga inn og finna lausn sem hentar hverjum og einum.

Það á að vera Gott að eldast

Í minni tíð sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hef ég lagt áherslu á að öll séu með í samfélaginu. Tengiráðgjafarnir munu fjölga tækifærum fyrir margt eldra fólk til félagslegrar virkni, draga úr einangrun og ég hlakka til að sjá hvernig útkoman verður. Það á að vera Gott að eldast.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra

Ahoy allir saman Svavar Knútur vestra

Á miðvikudag lukust upp dyrnar í Sumarleikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal Dýrafirði hvar boðið var upp á sögugönguna Fransí Biskví.

Núna á helginni á laugardag kl.20.00 mætir í hið kómíska leikhús í Haukadal Önfirska söngvaskáldið Svavar Knútur. Hann fagnar nú útgáfu á nýjustu plötu sinni, Ahoy! Side B, með tónleikum um landið vítt og breitt og auðvitað er mikilvægt að heimsækja frændfólkið sitt á Vestfjörðum og syngja fyrir gesti, gangandi, vini, velunnara og alls konar.

Í kveld föstudag er hann í Skrímslasetrinu á Bíldudal og á morgun, laugardag, kl.20.00 í Kómedíuleikhúsinu Haukadal. Á tónleikunum mun Svavar Knútur syngja lög vítt og breitt af ferli sínum og segja sögur af ferðlögum, löndum og lýðum. Börn eru auðvitað velkomin í fylgd með foreldrum.

Miðasala er á www.midix.is

GJALDSKRÁR LEIKSKÓLA Á VESTFJÖRÐUM

Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefur kannað hvort sveitarfélögin á Vestfjörðum hafi staðið við samkomulag um að að gjaldskrárhækkanir á leikskólum yrðu ekki umfram 3,5% eins og um var rætt í kjarasamningum sem gerðir voru fyrr á þessu ári.

Niðurstaða könnunar Verk Vest er að aðeins eitt sveitarfélag á Vestfjörðum er innan 3,5% markanna í gjaldskrárhækkunum, en það er Strandabyggð.

Eitt sveitarfélag rekur ekki leikskóla og eitt sveitarfélag býður ekki upp á 8,5 klst vistun og einnig er rétt að benda á að Súðavík og Reykhólahreppur er með lang lægstu leikskólagjöldin.

Vindorkugarður í Garpsdal

EM Orka hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna vindorkugarðs í Garpsdal í Reykhólahreppi.

Þar segir að til standi að byggja upp um 90 MW vindorkugarð á Garpsdalsfjalli í Reykhólasveit þar sem allt að 21 vindmyllu sem hver um sig yrði 159,5 m á hæð með spaða í efstu stöðu yrðu settar upp.


Framkvæmdaraðili er EM Orka, sem er íslenskt fyrirtæki í eigu EMP Holdings, sem er sameiginlega í eigu EMP IN og Vestas, en Vestas er einn stærsti vindmylluframleiðandi heims með um 115 GW framleiðslugetu í 81 landi.

Garpsdalur er talið vera svæði sem er vel til þess fallið að nýta fyrir vindorkugarð og er þar horft til hagstæðra vindskilyrða, nálægð í tengivirki og fjarlægðar frá byggð.

Alls er áætlað að þegar vindmyllugarðurinn verði fullbyggður fari um 445 ha landsvæði undir vindmyllur og tengdar framkvæmdir, en vindorkuframleiðslan mun ekki hafa áhrif á landbúnað innan jarðarinnar.

Engin mannvirki eru í dag á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.

Allir geta kynnt sé umhverfismatsskýrsluna og veitt umsögn til Skipulagsstofnunar.

Kynningarfundur um niðurstöður verður haldinn í byrjun júlí.

Nákvæm dagsetning verður auglýst síðar.

A10 almenningssamgönguverkefninu Flateyri – Ísafjörður er lokið

Styrkurinn fyrir tilraunaverkefnið A10 — almenningssamgöngur um land allt er nú uppurinn.

Þetta þýðir að verkefninu í gær fimmtudaginn 13. júní, þar sem fjárheimildir þess hafa verið fullnýttar.

Þær ferðir sem þegar hafa verið pantaðar verða farnar en lokað hefur verið fyrir fleiri pantanir.

Næsta skref er að vinna úr þeim gögnum sem hafa safnast saman og skila lokaskýrslu. 

Árið 2022 samdi Ísafjarðarbær við Byggðastofnun um tilraunaverkefni í almenningssamgöngum mill Flateyrar og Ísafjarðar. Verkefnið fólst í niðurgreiðslu á pöntunarakstri á leigubílum. Horft verður til reynslu af verkefninu sem fordæmisgefandi fyrir þjónustu við Suðureyri og Þingeyri.

Umframafli á strandveiðum í maí

Frá Bolungarvík

Fiskistofa hefur tilkynnt 567 útgerðaraðilum á strandveiðum að skip þeirra hafi veitt umfram það afla hámark sem heimilt er að veiða í hverri veiðiferð strandveiða í maí.

Samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla er lagt á gjald vegna umframafla á strandveiðum.

Eftir 20. júní verður hægt að greiða gjaldið í heimabanka en þá munu reikningar vegna gjaldsins verða aðgengilegir í stafrænu pósthólfi á Ísland.is.

Umframafli skipa á strandveiðum var um 83 tonn.

Þá hefur Fiskistofa einnig birt áætlun um fjölda veiðidaga sem eftir eru á strandveiðum.

Áætlunin byggir á meðalveiði þeirra veiðidaga sem þegar er lokið, miðað við hana má gera ráð fyrir að strandveiðum ljúki í annarri viku júlí mánaðar eða um 10 júlí.

Vestfjarðastofa: Skapa með skapa.is

Ný og endurbætt Skapa.is er komin í loftið. Um er að ræða nýsköpunargátt, upplýsingaveitu og fræðsluvef fyrir frumkvöðla og aðra aðila sem eru að stíga sín fyrstu skref í nýsköpunarumhverfinu. Skapa.is er ætlað að vera einn af grunninnviðum í stuðningi við frumkvöðla til að láta hugmyndir þeirra verða að veruleika.

Skapa.is er gjaldfrjáls og opin öllum. Fræðsluhlutverk síðunnar getir öllum kleift að fræðast um nýsköpun og fá stuðning til að taka hugmyndir sínar áfram. Skapa.is var upphaflega sett á laggir í upphafi árs 2023 af Ólafi Erni Guðmundssyni en hefur nú fengið stærra hlutverk með stuðningi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Meðal þess sem finna má á Skapa.is er nýsköpunardagatal þar sem upplýsingar er að finna um alla helstu viðburði tengda nýsköpun sem eru á döfinni. Einnig má nálgast styrkjadagatal þar sem umsóknarfrestir styrkja eru tilgreindir ásamt upplýsingum um alla þá íslensku styrki sem frumkvöðlar og sprotafyrirtæki geta sótt um.

Skapa.is sinnir einnig mikilvægu fræðsluhlutverki fyrir bæði frumkvöðla og fjárfesta. Þar má m.a. finna greinargóðar upplýsingar og gagnlega hlekki um fyrstu skrefin í nýsköpunarumhverfinunýsköpun á landsbyggðinni, nýsköpunar- og viðskiptahraðla, klasa, setur, ýmis verkfæri og mismunandi fjármögnunarleiðir, fjárfestingasjóði, englafjárfestingar o.fl. Þar að auki er notendum beint á leiðir til að sækja ráðgjöf, endurgjöf og aðgengi að mentorum fyrir nýsköpunarverkefni.

Nýsköpunargáttin er einnig vettvangur fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að sjá hvort þeirra lausnir geti leyst áskoranir hins opinbera. Þar er að finna upplýsingar um opinberar stofnanir sem leita til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja til að leysa þær áskoranir sem glímt er við og í framhaldinu mögulega semja um kaup á lausninni.

Ingólfur krítar liðugt

Ingólfur Ásgeirsson, stofnandi Icelandic wildlife fund, íslenska náttúruverndarsjóðsins, skrifar í gær á visir.is og telur laxeldið á Vestfjörðum skipta litlu máli fyrir Vestfirðinga. Honum tekst að halla réttu máli svo að jafnast á við starfsmann hans, Jón Kaldal, í nýlegum greinaskrifum.

Ársverkin eru a.m.k. fimm sinnum fleiri

Ingólfur skrifar: “Ársverk í sjókvíaeldi á öllu landinu (Austfirðir meðtaldir) eru 330 samkvæmt nýjustu ársreikningum fyrirtækja í þessum iðnaði.“

Þessi fullyrðing er tekin úr skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla íslands sem heitir Áhrif laxeldis í opnum sjókvíum á byggð og efnahagslíf og dagsett er í nóvember 2023 og lagfærð í apríl 2024. Skýrslan var unnin fyrir Ingólf og félaga. En í skýrslunni segir líka, og því sleppir Ingólfur, að samkvæmt staðgreiðsluskrám hafi starfsmenn árið 2022 í fiskeldi verið orðnir 710. Því ber vel saman við tölur frá samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem gefa upp 723 starfsmenn í maí 2023 og fá þá tölu frá Hagstofu Íslands. Vestfjarðastofa telur að beinu störfin á Vestfjörðum einum séu um 300. Nýrri tölur hef ég ekki en víst er að þeim hefur fjölgað. Svo þarf að bæta við afleiddum störfum til þess að hafa heildaráhrifum af atvinnugreininni. Þar er talið að þau sé 0,8 til 1 starf fyrir hvert eitt beint starf. Því má ætla að 1.500 – 2.000 störf séu vegna fiskeldisins. 

Engir erlendir farandverkamenn

Ingólfur skrifar í framhaldi af fullyrðingu sinni um 330 ársverkin: „Þar af sinna þeim að stórum hluta erlendir farandstarfsmenn, sem dvelja hér á landi tímabundið.“

Svo vill til að í októberbyrjun 2023 fullyrti Inga Lind Karlsdóttir, sem situr í stjórn þessa sama sjóðs með Ingólfi, í þætti á Bylgjunni að mest væri það erlendir farandverkamenn sem ynnu við fiskeldið. Í framhaldi af var þetta athugað. Þá fengust þau svör að enginn af 189 starfsmönnum Arnarlax væri erlendur farandverkamaður. Á sunnanverðum Vestfjörðum voru þá 136 starfsmenn og allir með lögheimili á svæðinu. Hjá Arctic Fish voru 125 starfsmenn og allir búsettir á Vestfjörðum, enginn var frá starfsmannaleigum. Þriðja stóra eldisfyrirtækið á Vestfjörðum er Háafell. Þar voru þá 22 starfsmenn, þar af 6 erlendir og alir búsettir við Djúp. Tvö önnur minni eldisfyrirtæki voru með 15 starfsmenn og aðeins einn þeirra var erlendur. Sá hafði unnið við eldið í þrjú ár ásamt því að leika handknattleik á Ísafirði.Niðurstaðan er skýr: enginn erlendur farandverkamaður var starfandi við fiskeldið á Vestfjörðum í október 2023. Ég hef ekki neinar fréttir um að það hafi breyst síðan. Þetta má lesa í fréttum á vefnum Bæjarins besta 25.október sl.

Fjöldi barna í samræmi við landsmeðaltal

Ingólfur heldur því fram í grein sinni og vísar til skýrslu Hagfræðistofnunar því til stuðnings að á sunnanverðum Vestfjörðum hafi börnum fækkað, fjölskyldum fækkað og að karlar séu orðnir hlutfallslega fleiri en konur svo um muni. Svo fullyrðir Ingólfur: „Tölurnar í skýrslunni afsanna að sjókvíaeldi á laxi styrki varanlega búsetu í brothættum sjávarbyggðum.“

Í heildina er verið að draga upp þá mynd að svæðið sé verstöð fyrir fiskeldið, mönnuð af erlendum farandverkamönnum. Það er öðru nær og sjálf skýrsla Hagfræðistofnunar dregur það skýrt fram.

En fyrst að fullyrðingunni um fækkun barna. Hagfræðistofnun telur sama börn 15 ára og yngri í þorpunum þremur á svæðinu og ber saman við landsmeðaltalið í byrjun árs. Þá voru 19,5% landsmanna á þessum aldri. Samkvæmt tölum Hagfræðistofnunar var hlutfallið 19% á Patreksfirði, 18% á Tálknafirði og 14% á Bíldudal. Hér þarf að leiðrétta Hagfræðistofnun lítillega. Það býr fólk utan þorpanna og þar eru börn. Að teknu tilliti til þess þá búa 238 börn á svæðinu en ekki 224. Það gerir 19,1% af íbúunum sem er nánast það sama og á landsvísu.  Hlutfall barna 15 ára og yngri er ekkert frábrugðið því sem er á landinu að meðaltali.

Börnum á svæðinu hefur fækkað frá 2014 til 2024 um 8% eða úr 259 í 238. Skýringin er einföld og Hagfræðistofnun yfirsást hún. Haustið 2016 hætti fiskvinnslan á Tálknafirði starfsemi og þessum stærsta vinnustað á Tálknafirði var lokað. Íbúum sveitarfélagsins fækkaði á skömmum tíma úr 303 í 231 eða um 23%. Þá flutti margar fjölskyldur burt. Það var ekki fiskeldið sem orsakaði lokunina heldur annað. Þvert á móti hefur fiskeldið hjálpað til að milda höggið. En enn hefur plássið ekki jafnað sig og síðustu tölur eru að 267 búi í firðinum.

Varðandi kynjahallann þá er það ekki nýtilkomið vandamál. Áður en fiskeldi kom til sögunnar var það áberandi. Í skýrslu Byggðastofnunnar frá júlí 2008 var fjallað um alvarlegt ástand víða á landsbyggðinni. Þar segir um Vesturbyggð að íbúum hafi fækkað um 37,7 % frá 1991 til 2007. Karlar hafi þá verið allt að 11% fleiri en konur.

Íbúum hefur fjölgað vegna fiskeldisins, fasteignaverð þrefaldast

En Hagfræðistofnun bendir líka á jákvæðu áhrifin, þótt Ingólfur Ásgeirsson vilji ekki vísa til þess. Þau eru að laun eru góð , að meðaltali um 6% yfir landsmeðaltali, íbúaþróun hefur snúist við, íbúum er hætt að fækka og þeim  hefur fjölgað töluvert og það sem eru jákvæðustu teiknin er að íbúðaverð á Patreksfirði hefur þrefaldast á fáum árum eftir að fiskeldið komst á koppinn. Þetta eru allt merki um framfarir í samfélaginu og sveitarfélagið þarf að stækka leikskólana svo dæmi sé tekið. Íbúðaverð á Patreksfirði er ekki lengur það lægsta á landinu , en er að vísu enn lágt miðað við höfuðborgarsvæðið.

Eitt er alveg víst að ef krafa Ingólfs , Jóns Kaldal og félaga um bann við laxeldi nær fram að ganga að þá munu þessi áhrif á Vestfjörðum ganga til baka mjög hratt. Um 300 bein störf munu hverfa, um eitt þúsund manns munu væntanlega flytjast burt og fasteignaverðið mun falla í sama far og ef til vill verða enn lægra en það áður var lægst.

Tjón einstaklinganna  verður talið í milljörðum króna og tjón þjóðarbúsins til viðbótar myndi verða talið í tugum milljarða króna á hverju ári.

Hver ætlar að borga okkur skaðann?

-k

Nýjustu fréttir