Föstudagur 6. september 2024
Síða 65

Alþingi: eldisgjald verði lögfest

Lagt er til að hafnasjóðu verði heimilt að innheimta sérstakt eldisgjald af eldisfiski.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur afgreitt úr nefndinni frumvarp innviðaráðherra um breytingu á hafnalögum og leggur til að samþykkt verði að taka upp nýtt gjald til hafnasjóða, svonefnt eldisgjald. Telur meirihlutinn ekki tilefni til þess að breyta tillögu ráðherra en  beinir því til ráðherra að taka til athugunar hvort unnt sé að útfæra ákvæði um eldisgjald þannig að gjaldstofn miðist við verðmæti eldisfisks, áþekkt því sem mælt er fyrir um í e-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr hafnalaga um aflagjald.

Hafnasamband sveitarfélaga og samband íslenskra sveitarfélaga vildu að núverandi lagaákvæði um aflagjald yrði rýmkað þannig að það nái einnig til eldisfisks. Ráðuneytið lagðist gegn því og sagði í umsögn til nefndarinnar að reynsla síðustu ára hafi sýnt að þörf væri á sérstöku ákvæði um gjaldtöku af eldisfiski.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur vildu að eldisgjald miðist við aflaverðmæti þeirra sjávarafurða sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfnum og að það yrði skilgreint sem sérstakt hlutfall af aflaverðmæti líikt og gert er varðandi aflagjald af öðrum sjávarafurðum. Lögðu sveitarfélögin til að eldisgjaldið yrði minnst 0,7% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjólegs markaðsverðs á Atlandshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram.

Ráðuneytið lagðist gegn þeirri tillögu og taldi mikilvægt að þjónustuveitandinn reikni út þann gjaldagrunn sem gjaldið er byggt á. „Er það eðli þjónustugjalda að þeim er ætla að standa straum af kostnaði við veitingu þeirrar þjónustu sem innheimt er fyrir.“

Að meirihlutaálitinu standa þingmenn stjórnarflokkanna þriggja. Formaður nefndarinnar er Bjanri Jónsson (V) og framsögumaður meirihlutans verður Halla Signý Kristjánsdóttir (B), bæði þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Álit fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna er ekki komið fram. Þingmálið er til annarrar umræðu á þingfundi í dag.

Tap í Kópavoginum

Hörður frá Ísafirði mætti Smára í Fagralundi í Kópavogi á laugardaginn í B-riðli 5. deildar karla.

Harðarmenn komust í 1-0 með marki Birkis Eydals á 52 mínútu en Kristján Gunnarsson jafnaði leikinn fyrir heimamenn níu mínútum síðar.

Alexander Fannberg Gunnarsson gerði svo út um leikinn fyrir Smára með tveimur mörkum á fjórum mínútum þegar innan við 20 mínútur lifðu leiks og tryggði heimamönnum 3-1 sigur.

Með sigrinum skaust Smári upp í efsta sæti á meðan Hörður féll niður í það fimmta.

Suðureyri: Hollvinasamtök gera upp bát á róló

Ísafjarðarbær hefur gert samning við Hollvinasamtökin fyrir bátinn Ágústu ÍS 65 um viðgerð hans.

Ágústa ÍS 65 er gamall bátur sem verið hefur leiktæki á leikvellinum á Suðureyri um áratugaskeið. Báturinn er síðasti trébáturinn sem smíðaður var á Suðureyri og verður hann 60 ára í ár. Smíðaður af Hólmbergi Arasyni. Ósk um undanþágu frá reglugerð 1025/ 2022 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim var hafnað af Umhverfisstofnun veturinn 2023–24 þar sem óskað var eftir undanþágu fyrir bátinn í núverandi ástandi.

Hollvinasamtökin eru tilbúin að vinna strax að endurbótum á bátnum þannig að ekki stafi slysahætta af honum. Samtökin eru tilbúin að leggja til vinnu sjálfboðaliða og eftir atvikum fjármuni til að koma bátnum
í viðeigandi ástand þannig að undanþága fáist fyrir hann hjá Umhverfisstofnun.

Í samkomulaginu felst að Ísafjarðarbær leggur til 1.950.000 kr. í peningum, og timbur sem bærinn á nú þegar, sem verðmetið er á 400.000 kr. Um er að ræða lerki (afgangur frá viðgerð á Svarta pakkhúsinu á Flateyri) og fura (afgangur frá endurbótum á Faktorshúsinu í Neðstakaupstað).

Hollvinasamtökin leggja til:
a. Skipulagningu og vinnu við endurbætur samkvæmt lista hér að neðan.
b. Kaup á timbri og öðru smíðaefni, málningu og þess háttar sem upp á vantar.
c. Merkingar á bátnum.
d. Verkfæri, flutning og annað sem þarf til verksins.
e. Kaup á þjónustu utanaðkomandi aðila, svo sem smiða eða verkstæða.

Ef framlag bæjarins dugar ekki til, skuldbinda samtökin sig til að safna því fé sem upp á vantar.
Fjárhæðin greiðist út í tvennu lagi, helmingur 1. júlí 2024 og helmingur við verklok 2025.

Ferðafélag Ísfirðinga: á slóðum Jóns Sigurðssonar forseta

Gljúfrá – Hrafnseyri – Auðkúla : 1 skór + 1 bíll

Laugardaginn 22. júní

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Jörundur Garðarsson. Ásamt honum munu Ingi Björn Guðnason staðarhaldari á Hrafnseyri og Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur fræða þátttakendur um ýmislegt sem viðkemur fræðasviði þeirra.
Mæting kl. 9:00 við Bónus á Ísafirði. Farið þaðan á einkabílum.
Keyrt sem leið liggur að Gljúfrá í Arnarfirði þar sem gengið verður upp að bæjarrústum Gljúfrár. Eyðibýlið Gljúfrá tekur nafn af ánni sem fellur í þröngu gljúfri innantil við túnið. Bærinn stendur í nær 80 metra hæð og er sjávargatan nokkuð brött. Við hana stendur Hvíldarsteinn. Þar hvíldu menn sig væri byrðin þung. Jón Sigurðsson kemur mjög við sögu staðarins. Greint frá ýmsum atburðum sem snerta búskaparsögu staðarins en moldin þar geymir minningar af tvennum toga, sárar bæði og sigurglaðar. Frá Gljúfrá er síðan keyrt út á Hrafnseyri þar sem Ingi Björn mun leiða þátttakendur um safnið. Þar gefst fólki einnig kostur á að kaupa sér kaffi og kökur í gömlu uppgerðu bæjarhúsunum. Margrét Hrönn tekur svo við af honum en hún mun ganga með fólki um túnið á Hrafnseyri og segja frá rannsóknunum þar eftir stuttan fyrirlestur. Að lokum verður svo haldið að Auðkúlu þar sem gengið verður um uppgreftrarsvæðið. Margrét mun þá ræða við þátttakendur í ferðinni um þann uppgröft og þær rannsóknir sem þar hafa átt sér stað undanfarin ár. Hér er greinilega ferð sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Tími alls: 6-7 klst.

Arnarlax fær rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi

Matvælastofnun hefur gefið út rekstrarleyfi til Arnarlax fyrir 10.000 tonnum af ófrjóum laxi. Gildir leyfið til 13.6. 2040.

Arnarlax sótti um rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonnum af frjóum og ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi og var umsókn móttekin 21. maí 2019. Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfi á vef stofnunarinnar 29. febrúar 2024 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 28. mars 2024. Engar kærur bárust til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps er metið 30.000 tonn og heimilar áhættumat erfðablöndunar 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Djúpinu. Matvælastofnun hefur þegar úthlutað 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi til Háafells og Arctic Fish og fær Arnarlax því einungis leyfi fyrir ófrjóum laxi.

Fyrirhugað eldi fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá útgáfu leyfisins sem var 14.6. 2024.

Heimilt verður að vera með kvíar á þremur svæðum, Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð.

Sett eru nokkur skilyrði í leyfinu. Vegna nálægðar við eldi annarra fyrirtækja verður óheimilt að setja út seiði nema fyrir liggi samstarfssamningur við Hábrún og Arctic Fish sem tryggi samræmdar forvarnir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum. Jaðar eldiskvínna skulu ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeisla en 50 metra í Drangshlíð og Eyjahlíð og við Óshlíð eru mörkin 200 metrar.

Arnarlax vildi að gefið yrði svigrúm til þess að breyta skilyrðinu um mörk hvíts ljósgeisla í ljósi mótvægisaðgerða sem leiðbeiningar IALA gera ráð fyrir að unnt verði að grípa til til þess að tryggja örugga för. Matvælastofnun bar þetta undir Vegagerðina sem staðfesti að þessi möguleiki væri fyrir hendi en lagðist gegn því heimila hann og sagði í svari sínu: „Vegagerðin lítur svo á að slíkar undantekningar séu ekki réttlætanlegar nema aðstæður séu með þeim hætti að ekki sé hægt að tryggja örugga leið með öðrum hætti.“ Matvælastofnun svaraði Arnarlax á þann hátt að komi til þess að áhættumat um siglingaöryggi verði breytt m.t.t. mótvægisaðgerða hafi Matvælastofnun heimild til þess að endurskoða útgefin rekstrarleyfi.

Athugasemdir Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu

Landhelgisgæslan gerði athugasemd við eldissvæðin Eyjahlíð og Óshlíð og taldi eldið á þessum stöðum hafa í för með sér hættu fyrir öryggi sjófarenda og vísaði gæslan í áhættumat siglingaöryggis. „Þess vegna er varasamt að veita leyfi fyrir starfsemi á umræddum svæðum. Þess vegna telur Landhelgisgæslan afar mikilvægt að Matvælastofnun endurskoði tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arnarlax ehf. í Ísafjarðardjúpi með öryggi sjófaranda í huga.“ sagði í athugasemd Landhelgisgæslunnar.

Í svari Matvælastofnunar við athugasemdinni segir að í tillögu að rekstrarleyfi Arnarlax fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi séu sett skilyrði sem byggja á áhættumati siglingaöryggis fyrir þau svæði sem leyfið tekur til og með vísan til þessara skilyrða er siglingaröryggi fyrir umrædd svæði tryggt að mati Matvælastofnunar enda er rekstrarleyfishafa óheimilt að staðsetja eldissvæði innan þessara staðsetninga.

Í athugasemd Samgöngustofu er gengið enn lengra en Landhelgisgæslan gerði og fór stofnunin fram á að eldi yrði ekki leyft á svæðunum Óshlíð og Eyjahlíð, „Því fari stofnunin fram á það að umsókn Arnarlax um rekstrarleyfi á svæðunum verði hafnað.“

Matvælastofnun varð ekki við kröfu Samgöngustofu og segist líta svo á að „þar sem ekki sé útilokað, út frá leiðbeiningum IALA, að grípa til mótvægisaðgerða verði hægt að tryggja siglingaöryggi, sé ekki hægt að hafna útgáfu rekstarleyfis fyrir þau svæði rekstrarleyfisins sem eru í hvítum ljósgeira. Rekstrarleyfishafi hefur þegar hafið í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU að vinna að útfærslu siglingaöryggis m.t.t. mótvægisaðgerða á svæðinu eins og fram kemur í athugasemdum Björns Hembre forstjóra Arnalax.“

Hvorug stofnunin gerði athugasemd við eldissvæðið við Drangshlíð.

Þjóðhátíðarræða Ísafirði: lýðveldið 80 ára

Í dag á íslenska lýðveldið afmæli. 80 ára. Stórafmæli. Miklu merkilegra afmæli en 81, hvað þá 77. Í dag hefði einnig 500 kallinn Jón Sigurðsson, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811, orðið hvorki meira né minna en 213 ára gamall. Tíminn líður hratt. Það var bara í gær að húsið hér fyrir aftan mig bauð nýja Ísfirðinga velkomna í heiminn og í fyrradag sem séra Jón Magnússon þumlungur vildi ólmur láta varpa Jónum og Þuríði á bál fyrir galdra. Ekki virðist heldur svo langt síðan Þorbjörn og menn hans drápu nafna minn Ólaf, son Hávarðs Ísfirðings.

Þannig týnist tíminn og kann og að framkalla þá tilfinningu að maður hafi upplifað flest og að litlu sé hægt að breyta, að hlutirnir séu meitlaðir í stein, orðnir að eðlislögmáli og að maður sé áhorfandi fremur en þátttakandi.

En þrátt fyrir að tíminn líði á ógnarhraða og flest verði forgengileikanum að bráð eins og sjá má ykkur hér á hægri hönd, þá eru okkur náttúrlega afrek sveitunga óþekktrar konu, þess hins sama og„sigldi til Hafnar að nema þar einhver fræði“, í fersku minni. Og í hátíðarræðu sem þessari ber ræðurápara að minnast á téðan Jón forseta Sigurðsson í það minnsta sjö sinnum, á Íslands sóma, sverð og skjöld, mann sem við ræðum á helgum þegar vér gluggum í Hugvekju hans til Íslendinga frá byltingarárinu mikla 1848 og miklumst yfir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að hann hafi verið Vestfirðingur, enda ól hann manninn á Vestfjörðum í heil 17 ár, og því megi að sjálfsögðu þakka Vestfirðingum öðrum fremur fyrir sjálfstæði landsins, fyrir lýðveldið, fyrir kandíflossið, hoppu-kastalana, karamelluregnið og sölutjöldin.

Vissulega kann hér að vera um smávægilega einföldun að ræða, um túlkunaratriði, eða spurningu um tilfinningu. Annar vestfirskur forseti, Túngötuforsetinn, bjó hér umtalsvert skemur en spyrðir sig samt einarðlega við Vestfirði eins og reyndar fyrrum stéttbróðir hans á sviði stjórnmálanna og sérlegur forvígismaður hins vestfirska einhljóðaframburðar. Má því einnig þakka Vestfjörðum og Vestfirðingum veru Íslands í ESB, sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna svo og andstöðuna við ICESave.

Verðum við ekki að sjá í gegnum fingur okkar með smá einfaldanir?  Í hátíðarræðum þarf ekki að fara ofan í kjölinn á hvorki einu né neinu. Þar eru hólar hrikaleg fjöll og skítalækir stórfljót, vatnið hreinast, fólkið „bezt“, menningin mögnuðust. Við tölum um okkur og það sem er okkar, við sláum okkur á brjóst og spyrðum okkur við víkinga og boltasparkara og hundsum þá staðreynd að víkingar voru vart til staðar á Fróni auk þess sem þeir voru misyndismenn sem áttu það til að ræna, rupla og ríða án samþykkis, ásamt því að myrða mann og annan. Maður er nú ekkert að pæla í slíku í hátíðarræðu.

Í hátíðarræðu er allt umvafið bjartsýni og við alltaf, ávallt, ætíð og áreiðanlega að gera betur en í gær og gott betra; við elskum náungann, tökum flóttafólki fagnandi; drekkum freyðivín með fjölbreytileikanum við undirspil níundu sinfóníu Beethoovens; sólin er allsráðandi og baðar geislum sínum á öll Guðs börn á meðan stormurinn stælir þjóðarlíkamann og mannsandann.

Og nú skal vitna í þjóðskáld. Þjóðskáld sem má alveg titla Vestfirðing, þótt hann hafi litið dagsins ljós einhvers staðar fyrir norðan á 19. öld.

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

Já, veðrið, náttúran og allt það „stöff“ mótar og stælir vora lund, gerir oss að því sem við erum. Það fyrirfinnast allavega sjaldnast hlandbrunnin „braggabörn í barnavagni“ í hátíðarræðum og því síður engisprettufaraldur; mannkynið „það elskar frið og hatar Rudolf Hess og „þorpin eru að hjarna við“ sem „eilífðar smáblóm“ og „óréttlæti mótmælum vér allir“.

Við sammælumst í andakt um allskonar ágæti og menningarhnoss, við bendum á íslenskan sagnaarf, þrautseigju undangenginna kynslóða, stærum okkar af tungunni, sem er ekki síður einkennismerki íslenskrar þjóðar en alþýðu-vagg og veltu-hljómsveitarinnar engilsaxnesku The Rolling Stones. Og ekki erum við allskostar laus við voðalega saklausan, sárameinlausan, lítilsháttar 17. júní þjóðernisbelging. Já, tunga vor hefir þjónað íslenskri þjóð frá örófi alda í fallegum fjallasal undir heiðbláum himni hvar fegurðin ein ríkir.

EN! Nú ber að víkja málinu að stöðluðu atriði allra hátíðarræðna. Það er viðtekin venja að leiða talið að áskornum, að þrátt fyrir almenna velsældarvímu sé víða pottur brotinn, að sumir hafi ekki efni á nýjum síma eða áskrift að Stöð 2, að fitusmánun feitustu þjóðar Evrópu sé óbærileg; að vinna verði meinbug á loftmengun bílalýðveldisins; að fordómar grasseri innan fornbílaklúbba; að hvítir miðaldra karlpungar séu svo illa haldnir af forréttinda blindu að Jesús fái ekki rönd við reist. Svo er það kynlega málið, trans, BDSM og hvaðeina. Ekki

hefði nú Jón okkar Sigurðsson þurft ekki að „díla“ við viðlíka mál og hafði hann nú ærinn starfa samt.

Það er um auðugan garð að gresja, nóg af áskorunum til að bragðbæta svona ræðu umhugsandi smekkbæti mitt í gleðiærslum ísfirskra ungmenna. Verkefni það sem hér verður fært í tal ætti ekki að koma á óvart og liggur máske algerlega í augumúti“ hvað suma viðstadda áhrærir.

Our great language, our nations pride and joy: Icelandic

Vitanlega er síð-sígilt að lýsa yfir áhyggjum yfir stöðu íslenskunnar, að klifa á því að nú megi ekki sitja við orðin tóm, að málið sé vort dýrasta djásn, ástæða sjálfstæðis okkar, það sem aðgreindi okkur frá Dönum, skilgreindi og skilgreinir okkur sem þjóð, er okkar aðgangur að nið og aldanna svo og kastalar og dómkirkjur landsins. Íslenskan er aðgangur vor að hugsun forfeðranna.

Já, og svo mærir maður bókmenntirnar og orðsins fólk, rithöfundana og allt það slekt. Og væri maður pólitíkus myndi maður næsta víst lofa endalausu fjármagni til að kippa þessu og öllu öðru mögulegu og ómögulegu í liðinn og láta svo mynda sig í gríð og erg með réttum aðilum að ræðu lokinni.

Ástand tungunnar er mega „tough“! Ástand hvar hrútspungar rata trauðla á trant lengur og fólk rappar fremur en fer með rímur og styttir sér fremur stundir með Netflix en Íslendinga sögunum, Biblíunni eða Kiljan að ekki sé talað um Guðmund Hagalín, Njörð P. Njarðvík, Eyvind P. Eiríksson, Rúnar Helga, Jón Thoroddsen og fleiri af því sauðahúsi. Ungmenni eru því sem næst ólæs eftir 10 ára grunnskólagöngu og eiga í mestu erfiðleikum með að skilja íslensku liðins tíma og eru svo, að eigin mati, klárari á ensku en móðurmálið að maður tali nú ekki um ef hluteigandi aðili hefir annað móðurmál en íslensku, börnin okkar klæmast ótt og títt á engilsaxnesku, eru föst í viðjum tik-tok á meðan þeir sem líkamlega ekki teljast til barna eða ungmenna eru njörvaðir niður í hlekki Flettismettisins.

-skjárinn er ópíum fólksins-

Viðtengingarhátturinn er að deyja, þjónusta kaffihúsa, veitingahúsa, spítala fer fram á ensku, allra handa skilti eru einvörðungu á ensku, enskan er sett ofar íslenskunni á skiltum, afþreyingin er á ensku, samfélagsmiðlarnir á ensku, draumarnir eru á ensku, gott ef lóan er bara ekki byrjuð að syngja sínar vorvísur á ensku. Tæknibyltingar, búsetubyltingar og hugarfarsbyltingar sækja að íslenskunni.

Þið þekkið þennan barlómssöng, ekki satt?

Og svo bara allt í einu og óforvarandis gerist það að fjöldi fólks með erlent ríkisfang rýkur upp úr 1,8%, ESB-árið 1994, upp í hartnær 20% anno domini 2024 og samhliða því eykst, eins og gefur að skilja, herskari þeirra sem eigi hafa íslensku að móðurmáli og umtalsverður hluti þeirra kann jafnvel ekki stafkróf fyrir sér í íslensku og hefir ekki hugmynd um hver Jón Sigurðsson var eða hvaða hlutverki hann gegndi í sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar og þaðan af síður hverjir Fjölnismenn, Baldvin Einarsson eða Ásgeir Ásgeirsson voru. Eitthvað sem … allir Íslendingar þekkja auðvitað eins og hnakkasvip ömmu sinnar við eldavélina.

Já, tilfinnanlegar breytingar hafa sannlega átt sér stað. Og sama hve sterk þráin eftir þeim tíma „er hetjur riðu um héruð“kann að vera er leiðin til baka ófær. Sama hversu afturhaldssamar þið kunnið að vera þá er sá tími liðin er hér bjó einungis fólk á borð við: Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, fólk næpuhvítt á hörund, bláeygt, ljóshært og stælt með kjarnyrta íslensku á vör allan liðlangan daginn, mælandi ódauðleg gullkorn af jafnmiklum krafti og hrímhvítt jökulfljót.

Ísland, farsældarfrón

Og hagsælda, hrimhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Við endurheimtum ekki liðna tíð enda hlýtur og slíkt að bera vott um hugmyndarfæð. Nei, við verðum að „díla“ við nýjan veruleika og hluti þess er að leiða hugann að því hvort við viljum að íslenska verði áfram ríkjandi mál á Íslandi, að íslenska verði málið sem sameinar, sem veitir aðgang að sögu lands og þjóðar ásamt því að búa til nýja og sameiginlega. Og ef svarið við þeirri spurningu er jákvætt verðum við að leiða hugann að því hvernig við viljum standa að því, hvernig við viljum miðla málinu, hvernig við viljum styrkja það í sessi og ekki síst svara þeirri spurningu af hverju svo ætti að vera. Er það vegna þess að málið varðveitir menningarlega samfellu landsins? Er það vegna þess að málið er verðmæti í sjálfu sér? Eða er það vegna þess að málið er það sem

sameinar, skapar öllum þeim sem hafa það ágætlega á valdi sínu aukin tækifæri? Málum er nefnilega enn svo háttað að flest allt sem hér máli skiptir fer fram á íslensku: leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og helstu stofnanir brúka íslensku. Ætli maður sér frama er það auðveldara með íslensku á sínu valdi, íslenskan veitir hlutdeild og hvort sem okkur líkar betur eða verr brúar enskan ekki bilið, því tíð og sjálfsögð notkun ensku býr til aðgreiningu þegar til kastanna kemur.

Aðgreiningu á milli þeirra sem tala og skilja íslensku og þeirra sem tala hana ekki og skilja hana ekki.

Og þá er ekki einu sinni horft til þeirra sem hafa hvorugt málið, hvorki ensku né íslensku, almennilega á valdi sínu. Við skulum bara orða þetta sem svo að það sé oft og tíðum misskilin kurteisi að ætla að allt sé auðveldara með ensku þegar átt er í samskiptum við þá sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, burtséð frá þeim skilaboðum sem það sendir: að íslenskan sé óþörf sem sannlega ekki er raunin …

Við tölum jú ensku við túrhesta, erum við því ekki að koma fram við fólk sem hér býr eins og túrista með því að tala við það á ensku?

Og ef til vill kann að vera að við sem samfélag „fungerum“ enn best með íslensku að vopni, með íslenskuna sem sameiningarafl, ekkert ósvipuð nálgun Jóns okkar Sigurðssonar. Hans helsta vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands var jú, tungan og menningararfleifðin.

Eitt er allavega kristaltært! Íslenska lærist ekki sé enska ætíð notuð, íslenska lærist ekki sé henni ekki haldið að fólki, íslenska lærist ekki geri samfélagið ekki kröfu um að málið sé notað, íslenska lærist ekki búi samfélagið ekki til góðan grundvöll fyrir íslenskunám og máltileinkun og taki þátt í ferlinu, með bros á vör. Íslenskan lærist best sé fólki veitt tækifæri til að nota hana með allslags hreim og hugsanlega misgóðri málfræði. Það þarf að gera mistök til að geta lært af þeim. Og við, sem höfum íslensku að móðurmáli, getum verið þátttakendur í þessu ferli ekki bara áhorfendur. Kannski er það meira að segja skylda okkar að taka þátt.

Jæja, nú er tími til kominn að ljúka þessu raupi og gaspri. Hér hefir verið farið út og suður í sjálfshælni þess sem telur sig hafa málið, íslenska tungu, sómasamlega á valdi sínu. Endum þetta yfirlætistal á smá áeggjan, á fleygum orðum. Það er klassík þegar kemur að hátíðarræðum.

Við sammælumst, allavega 17. júní, um ágæti Vestfirðinga, um ágæti íslenskra fjallasala og jafnvel veðurfars, um að tungumálið sé okkar dýrasta djásn og sameiningartákn … EN hvað segir það um samfélag sem gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda aðgengi þeirra sem hér vilja setjast að, sem vilja læra málið, sem ættu að læra málið, að því menningarlega hjartfólgnasta, sem Íslendingar eiga, tungumálinu? Að kjarna þess að vera íslenskur.

Er ekki kominn tími til að Gefa íslensku, í breyttum veruleika, séns!?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson 2024

Vísað er til ýmissa skálda í ræðunni. Bubbi Morthens, Bjartmar Gunnlaugsson, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson, Megas og Mugison,

Kveðja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar á 80 ára afmæli lýðveldisins

Kæru landsmenn.
Hjartanlega til hamingju með afmælið. Í dag fögnum við því að áttatíu ár eru liðin frá stofnun lýðveldis hér á landi. Sautjánda júní kom stór hluti þjóðarinnar saman á Þingvöllum þar sem hið stóra skref var loksins stigið. Æ síðan höfum við stefnt að því að efla og styrkja okkar samfélag, veita öllum tækifæri til að
sýna hvað í þeim býr, sjálfum sér og öðrum til heilla. Því skulum við halda áfram.
Verjum áfram frelsi og réttindi hvers og eins en metum líka mikils samhjálp og samkennd.
Í áttatíu ár hefur rödd hins íslenska lýðveldis heyrst á alþjóðavettvangi. Ísland er ríki meðal ríkja, sjálfstætt smáríki sem hlýtur að styðja alþjóðasamvinnu og alþjóðalög – smáríki sem verður að berjast gegn því að vald hinna sterku ráði öllu í hörðum heimi.
Njótið dagsins, kæru landar, og ég þakka innilega fyrir samfylgdina síðustu átta ár. Gangi ykkur og Íslandi allt í haginn!

16 Íslendingar sæmdir fálkaorðunni

Forseti Íslands sæmdi 16 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, 17. júní 2024.

Þau eru:

1.Dísella Lárusdóttir óperusöngkona, riddarakross fyrir framlag til sönglistar.
2. Eiríkur Jónsson yfirlæknir, riddarakross fyrir framlag til þvagfæraskurðlækninga og
heilbrigðisþjónustu.
3. Fannar Jónasson bæjarstjóri, riddarakross fyrir þjónustu í þágu samfélagsins á
tímum hamfara.
4. Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur, riddarakross fyrir
rannsóknir, miðlun og varðveislu menningar sem tenjast íslenskum þjóðbúningum.
5. Jóna Dóra Karlsdóttir, stofnandi og fyrrverandi formaður Nýrrar dögunar,
riddarakross fyrir frumkvöðlastarf til stuðnings syrgjendum og fyrir að stuðla að
opinni umræðu um sorg og sorgarviðbrögð.
6. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, verkfræðingur og stofnandi PayAnalytics,
riddarakross fyrir framlag til nýsköpunar á sviði hugbúnaðar í þágu jafnlaunastefnu.
7. Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi,
riddarakross fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.
8. Ómar Einarsson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, riddarakross fyrir
framlag og frumkvæði í íþrótta-, tómstunda- og velferðarmálum.
9. Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur, riddarakross fyrir framlag til vísinda
og krabbameinsrannsókna.

10.Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen, stofnandi og umsjónarmaður Matargjafa,
riddarakross fyrir framlag til mannúðarmála í heimabyggð.

11. Stefán Baldvin Sigurðsson, fyrrverandi háskólarektor, riddarakross fyrir störf í þágu
menntunar, vísinda og félagsmála.

12. Svanur Ingvarsson, kennari og húsasmíðameistari, riddarakross fyrir framlag í þágu
íþróttastarfs fatlaðra.

13. Þorvaldur Jónsson bóndi, riddarakross fyrir félags- og menningarstörf í héraði.

14. Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf og
nýsköpun á vettvangi sjávarútvegs.

15. Þórey S. Kemp Guðmundsdóttir íþróttakennari, riddarakross fyrir framlag til
íþróttaiðkunar kvenna og heilsueflingar aldraðra.

16. Þórhallur Sigurðsson, leikari og leikstjóri, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar
leiklistar og brautryðjendastarf í barnaleikhúsi.

Þjóðhátíðardagurinn: lýðveldið 80 ára í dag

Frá þjóðhátíðrrdeginum 2018. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í dag eru rétt 80 ár síðan lýðveldið Ísland var stofnsett á Þingvöllum og tók við að konungsríkinu Ísland. Til þess var valinn fæðingardagur Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri, Vestfirðingsins, sem um áratugaskeið, leiddi baráttu landsmanna um aukin áhrif á eigin málefnum.

Á Hrafnseyri verður að venju lýðveldishátíð, sem að þessu sinni er óvenju vegleg og stendur í tvo daga. Í dag verður hátíðarguðsþjónusta þar sem Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður predikar og séra Fjölnir Ásbjörnsson þjónar fyrir altari. Kirkjukór Þingeyrarkirkju syngur undir stjórn Jóngunnars Biering Margeirssonar, sem einnig sér um undirspil.

Hátíðarræða flytur Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Tónlist: Bríet Vagna flytur tónlist.

Á Ísafirði verður einnig fjölbreytt dagskrá á Eyrartúni. Hátíðarræðuna flytur Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.

Þá verður opnuð í dag sýning Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar sem nefnist framtíðarfortíð.

Við Djúpið

KL 20 í kvöld verður í Hömrum Ísafirði opnunarhátíð tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið sem standa mun næstu sex daga.

Þar verður seiðandi frönsk tónlist frá síðustu öld myndar ramma utan um þrjú spennandi verk núlifandi tónskálda. Þar hljóma flauta, píanó, marimba, víbrafónn og bassaklarínett sundur og saman auk þess sem segulband kemur við sögu. Fram koma: Christine Köhler, flauta, Alexander Vorontsov, píanó, Moritz Wappler, slagverk, Sem R. A. Wendt, bassaklarínett.
Nánari upplýsingar.

Bolungavík: hátíðardagskrá við Félagsheimilið

Í Bolungavík verður hátíðardagskrá sem hefst kl 11 með fleytukeppni í Hólsá. Síðan verður skrúðganga og hátíðardagskrá við Félagsheimilið sem hefst kl 12:40.

Bíldudalur: dagskrá við Skrímslasetrið

í Vesturbyggð verður hátíðardagskrá á Bíldudal. Þau hefjast kl. 13 með skrúðgöngu frá vegamótum að Skrímslasetrinu.

822 starfandi í fiskeldi – 974 þús kr/mán í laun

Í radarnum, frérttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, sem kom út í gær kemur fram að fyrstu fjóra mánuði ársins 2024 hafi að jafnaði 822 verið starfandi í fullu starfi við fiskeldi og launagreiðslur til þeirra hafi verið 3.200 milljónir króna. Atvinnutekjur á mann í fiskeldi voru 974 þúsund krónur á mánuði og er greinin þar með í fjórða sæti yfir hæstu atvinnutekjur á mann hér á landi. Frá sama tímabili árið 2010 hefur fjöldinn fimmfaldast.

SFS bendir á að aldrei hafi fleiri einstaklingar starfað við fiskeldi hér á landi en nú um stundir. Að sama skapi hafi atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri. Þetta megi sjá í tölum sem Hagstofan birti nýverið um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, sem er stærsti hluti atvinnutekna launafólks. Samhliða birtir Hagstofan tölur um fjölda einstaklinga sem fær þær greiddar.

Atvinnutekjur á mann í fiskeldi hafa verið nokkuð hærri en að jafnaði í öllum atvinnugreinum samanlagt frá árinu 2014. Fyrir þann tíma var þessu öfugt farið. Þar hefur munurinn jafnframt verið ívið meiri á allra síðustu árum en hann var fyrst eftir að atvinnutekjur i fiskeldi tóku fram úr. Á fyrstu 4 mánuðum ársins voru atvinnutekjur á mann um 85% hærri að raunvirði en á sama tímabili árið 2010. Það er mesta aukning atvinnutekna á mann af öllum atvinnugreinum hér á landi. Að jafnaði hafa atvinnutekjur á mann í öllum atvinnugreinum samanlagt hækkað um 29% að raunvirði á sama tíma.

Nýjustu fréttir