Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 65

Vikuviðtalið: Anna Sigríður Ólafsdóttir

Ég heiti fullu nafni Anna Sigríður Ólafsdóttir, en það vill brenna við að fólk þekki mig ekki undir því nafni því ég er iðulega kölluð Annska eða Anna Sigga. Ég er stundum spurð að því hvernig standi á þessu Önnsku nafni. Fólk hefur stundum haldið að ég væri ekki Íslendingur eða talið að ég hafi átt ógurlega flippaða foreldra sem fundu upp þessa nafngift. Sagan er sú að ég fór á flakk rúmlega tvítug og meðal annars fór ég að vinna sem þerna á skemmtiferðaskipi. Ég fékk fína, gyllta nælu með nafninu mínu þar sem á stóð Anna og svo allt í einu voru allir farnir að kalla mig það, en oftar en ekki svaraði ég ekki – grandalaus um að fólk væri að tala við mig! Ef ég reyndi að segja Anna Sigga þá endaði það yfirleitt líka í Anna. Þá rifjaði ég upp að í barnæsku spurðu vinkonur mínar iðulega eftir Önnsku (vegna hraðmælgis) sem leiddi til þess að mamma mín fór að kalla mig það og því ákvað ég að kalla mig það á erlendri grund. Þegar ég svo sneri aftur til Íslands var nafnið tekið að loða við og svo með tilkoma Facebook festi það endanlega í sessi.

Ég starfa sem verkefnastjóri miðlunar hjá Vestfjarðastofu og hef verið hluti af því góða teymi sem þar vinnur frá því í ágústmánuði 2023. Þegar ég fékk vinnuna var ég enn í meistaranámi í menningarmiðlun við Háskóla Íslands – svo starfið féll að áhugasviði mínu og menntun eins og flís við rass. Fyrsti veturinn minn var smá brekka þar sem ég var enn að klára námið en svo brautskráðist ég síðasta vor. Starfið hjá Vestfjarðastofu er einstaklega fjölbreytt, auk þess að sinna allra handa textavinnu, fréttaskrifum og gerð kynningarefnis vinn ég líka að ýmsu öðru. Ég má til með að deila með ykkur leyndarmáli, þegar ég byrjaði á Vestfjarðastofu hafði ég ekki hugmynd um hversu margbrotið og víðtækt verkefnasvið hennar er – en ég er margs vísari eftir að hafa starfað þar í eitt og hálft ár. Eitt af því sem Vestfjarðastofa hefur með höndum er Sóknaráætlun Vestfjarða, en í lok árs 2024 kláraðist tímabil síðustu sóknaráætlunar, svo á síðasta ári fór talsvert mikil vinna í að gera nýja sem gildir 2025-2029. Ef Sóknaráætlun Vestfjarða er nýtt fyrirbæri í ykkar eyrum er engin ástæða til að örvænta, heldur getið þið smellt hér og kynnt ykkur málið betur. Um þessar mundir er ég meðal annars að vinna miðlunarstefnu fyrir Vestfjarðastofu, auk þess sem hluti krafta minna er nýttur í Evrópuverkefni sem við tökum þátt í sem heitir MERSE og snýr að samfélagslegri nýsköpun og verkefnahóp barnamenningarhátíðarinnar Púkans sem fer fram dagana 31.mars-11. apríl. Einnig er ég tengiliður við hin landshlutasamtökin þar sem við erum að leggja meiri áherslu á samvinnuverkefni á sviðum sem við eigum sammerk. Má þar nefna net-fyrirlestraröðina Forvitnir frumkvöðlar sem á sér stað fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Næsta þriðjudag verður erindi um umsóknarskrif sem opið er öllum áhugasömum – hér getið þið tekið þátt í því. Það væri ógjörningur að ætla að telja upp allt það sem ég hef fingurna í með einum eða öðrum hætti og læt ég því staðar numið hér. Ég vil þó bæta við í lokin að við hjá Vestfjarðastofu erum til ráðgjafar fyrir frumkvöðla í víðum skilningi og hægt er að leita til okkar um hin ýmsu mál – líkt og umsóknir í sjóði. Svo ég vil hvetja fólk til að vera ekki feimið við að reka inn nefið.

Ég er búsett á Ísafirði og ég og fyrrverandi maðurinn minn og vinur, Úlfur Þór, ölum saman upp strákana okkar tvo Fróða Örn og Huga Hrafn. Í grunninn er ég Ólsari en mamma mín, Sjöfn Sölvadóttir, var Flateyringur, yngsta barn hjónanna Sölva Ásgeirssonar og Fanneyjar Annasdóttur. Pabbi, Óli Tryggva, var Stapamaður, sonur Tryggva Jónssonar og Sigríðar Guðmundsdóttur á Arnarstapa. Þrátt fyrir að ætla mér ekki að hafna því hvaðan ég kem, skilgreini ég mig mest sem Vestfirðing. Ég hef nefnilega verið hér lengur en á nokkrum öðrum stað og svo er einfaldlega hjarta mitt vestfirskt. Ég var lengi á flakki og þegar ég kom á Ísafjörð árið 2001 ætlaði ég bara að stoppa í þrjá mánuði. Ég var að vinna á veitingastaðnum Eyrin og man þá stund er ég fattaði að ég vildi ekki fara. Ég fann að ég hafði eignast heimahöfn.

Þar sem ég var spurð út í áhugamálin svarar Ísafjörður einfaldlega kalli áhugasviðsins á víðum grunni. Ég elska göngutúra, útivist og góðan félagsskap – og á Ísafirði hef ég af því nóg. Mér finnst samfélagið hlýtt og gefandi, án þess að hér sé endilega gefinn afsláttur af því að fólk tali vestfirsku. Eftir því sem ég verð eldri verður innihaldsríkt hversdagslíf án mikilla láta (fyrir utan hávaða sem við fjölskyldan erum mjög dugleg við að framkalla) mér alltaf hugleiknara. Það að lifa vel án þess að ætla sér einhverja ógurlega landvinninga er eitt mitt helsta áhugamál. Já og svo hreinlega elska ég að skrifa og vil gjarnan í hæglætislífinu sem ég vil skapa mér búa til meira pláss fyrir það.

Auglýsing
Auglýsing

Tónlistarskóli Ísafjarðar: tónleikar í Hömrum á sunnudaginn

Tónlistarskóli Ísafjarðar.

Fjórhent og sexhent- Píanótónleikar  verða í Hömrum á sunnudaginn 2.febrúar kl.17.00.

Það eru píanónemendur Beötu Joó sem halda tónleika í Hömrum sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar munu nemendur flytja fjórhent og sexhent íslensk lög í útsetningu Vilbergs Viggóssonar og Björgvins Þ. Valdimarssonar.

Allir velkomnir.

Auglýsing
Auglýsing

Daníel Már íþróttamaður HHF 2024

Daníel Má Ólafsson með veðlaunabikar. Mynd: HHF.

Daníel Már Ólafsson er íþróttamaður Héraðssambandsins Hrafna Flóka 2024. Útnefningin var kynnt á uppskeruhátíð HHF sem var haldin í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði 15. janúar 2025.

Í umsögn segir:

Daníel Már er frábær íþróttaiðkandi, með mikla íþróttahæfileika og hefur náð góðum árangri á landsmælikvarða í sinni íþróttagrein. Árangrar hans eru framúrskarandi og sjá þjálfarar miklar bætingar milli ára. Daníel Már hefur mikinn vilja til að verða enn betri íþróttamaður og leggur sig allan fram í að sinna æfingum til þess að gera enn betur en síðast.

 
Á árinu 2024 var árangur hans eftirfarandi:

Gautaborgarmeistari í kúluvarpi

Tvöfaldur Unglingalandsmótsmeistari

Frjálsíþróttamaður ársins

Besta afrek ársins á Íslandi 12 ára pilta í hástökki, þrístökki og kúluvarpi

Annað besta afrek ársins á Íslandi 12 ára pilta í 60m hlaupi

Auglýsing
Auglýsing

Raknadalshlíð – aukin snjóflóðahætta

Fyrir stundu varaði lögreglan á Vestfjörðum við aukinni snjóflóðahættu á Raknadalshlíð við Patreksfjörð.

Í tilkynningu segi að aukin snjóflóðahætta er yfir veginum um Raknadalshlíð og ef veðurspáin gengur eftir megi búast við að veginum verði lokað kl.20:00 í kvöld.

Vegagerðin muni skoða aðstæður snemma í fyrramálið m.t.t. opnun.

Sem stendur hefur veginum um Kleifaheiði verið lokað en Vegagerðin skoðar opnun eða fylgdarakstur nú síðdegis. Það er stefnt að mokstri yfir Kleifaheiði í tengslum við Baldur. Moksturstækið bilaði á Kleifaheiði og það tefur fyrir mokstri og er heiðin lokuð nú kl 18:22.

Vegfarendum sem hyggja á ferðalag milli byggðalaga eru hvattir til þess að skoða áður aðstæður og veðurspá. En það má gera annars vegar á heimasíðu Veðurstofa Íslands og hins vegar vefsiðu Vegagerðin eða hringja í upplýsingasímann 1777.

Auglýsing
Auglýsing

22 umsóknir í verkefnasjóð Púkans

Púkinn, barnamenningarhátíð á Vestfjörðum, verður haldin dagana 31. mars til 11. apríl.

Í desember var opnað fyrir umsóknir um verkefnastyrki og var hægt að sækja um til 23. janúar.

22 spennandi umsóknir bárust og sinnir úthlutunarnefnd nú því vandasama verki að ákvarða styrkveitingar. Von er á niðurstöðum hennar í næstu viku.

Undirbúningur er kominn á fullt skrið og vonumst við til að hátíðin verði sem ánægjulegust fyrir börn um alla Vestfirði.

Breytingar eru að eiga sér stað á verkefnisstjórn Púkans en Vilborg Pétursdóttir tekur við stjórnartaumunum af Skúla Gautasyni sem verður þó áfram í vinnuhóp Púkans auk Önnu Sigríðar Ólafsdóttur.

Auglýsing
Auglýsing

Bókleg próf fyrir aukin ökuréttindi verða rafræn

Rafræn próftaka í bóklegum prófum fyrir aukin ökuréttindi (ÖR-próf) hefst föstudaginn 31. janúar næstkomandi um allt land.

Prófinu hefur verið breytt á, þannig að í stað 30 spurninga með 3 svarmöguleikum verða 50 fullyrðingar sem svarað er rétt/rangt. Hver fullyrðing gefur eitt stig og próftaki þarf að fá 45 stig til að standast prófið.

Ekki verður lengur um A og B hluta að ræða heldur er prófið ein heild.

30 fullyrðingar tengjast umferðarmerkjum, forgangi, merkjum lögreglu o.s.frv. en 20 fullyrðingar eru almenns eðlis.

Prófin verða í boði á íslensku, ensku, pólsku og arabísku. Upplestur er í boði fyrir alla próftaka á öllum tungumálum með aðstoð vefþulu.

Auglýsing
Auglýsing

Uppbygging á fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar

Verkefnisstjórn,  hefur skilað af sér tillögum um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar.

Tillögurnar ganga út á metnaðarfulla uppbyggingu á staðnum þar sem aðgengi að fólkvangi og náttúru staðarins er tryggt og gert ráð fyrir nýstárlegri menningarmiðlun, m.a. um framlag Jónasar til íslenskrar menningar. Skýrsluna má nálgast hér.

Alþingi samþykkti árið 2017 að stuðla að uppbyggingu að Hrauni til að heiðra minningu þjóðskáldsins. Jónas er óumdeilanlega eitt af ástsælustu skáldum Íslendinga og er framlag hans til menningararfsins ómetanlegt. Þannig samþykkti ríkisstjórn Íslands árið 1995 að 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar, yrði dagur íslenskrar tungu.

Fyrrnefnd verkefnisstjórn, sem skipuð var af þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, skilaði tillögum sínum að uppbyggingu að Hrauni í desember síðastliðnum en í hópnum sátum fulltrúar  Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal, sveitarfélagsins Hörgársveitar auk sérfræðinga ráðuneyta.  Megintillögur verkefnisstjórnarinnar eru fjórþættar en miða að því að jörðin Hraun sé skipulögð sem ein heild þar sem bæjarstæðið, fólkvangurinn og náttúran alltumlykjandi myndi vettvang fræðslu, útivistar og menningarviðburða.

Við vinnu starfshópsins var leitað til arkitektastofunnar Kollgátu varðandi frumhönnun á gestastofu á staðnum. Þegar nýr ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla tók við embætti gerði hann þegar grein fyrir tengslum sínum við arkitektastofuna og að hann hefði tilkynnt meðeigendum sínum að stofan gæti ekki unnið frekar að þessu verkefni.

Auglýsing
Auglýsing

Gul veðurviðvörun yfir alla helgina

Um helgina hefur Veðurstofan settá gula veðurviðvörun á allt landið frá kl. 17 á föstudegi og fram að miðnætti á sunnudagskvöldi. En í dag eru gular viðvaranir á Vetustlandi, Vestfjörðum og miðhálendinu

Verst virðist veðrið ætla að verða á Vestfjörðum um á miðjan dag á laugardag en þá er reiknað með hvassri sunnan átt og mikilli rigningu

Á laugardagsmorgni er gert ráð fyrir allt að tíu stiga hita en það kólnar þegar líður á helgina, hiti í kringum frostmark á sunnudegi og mánudegi en þá er spáð slyddu eða snjókomu.

Auglýsing
Auglýsing

Vetrardagskrá Gefum íslensku séns – bjóðum nú fólk velkomið í íslenskt málsamfélag

Það er sannlega vöxtur í starfi Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Fólk hefir ef til vill eigi farið varhluta af þeirri staðreynd að viðburðum á vegum verkefnisins hefir fjölgað til muna. Bjóða nú fleiri staðir á Vestfjörðum reglulega upp á viðburði þar sem unnið er samkvæmt hugmyndafræði verkefnisins. Reglulega eru haldnir viðburðir í Bolungarvík, á Flateyri og Ísafirði. Svo voru Patreksfjörður og Þingeyri að bætast í hópinn. Gott mál. Auk þess hefir einnig verið unnið samkvæmt hugmyndafræðinni á Akureyri hjá Símey. Við bindum og vonir við að fleiri staðir bætist í hópinn á þessu ári.

Við megum því til með að vekja athygli á vetrardagskrá verkefnisins sem komin er á veraldarvefinn. Þessi hlekkur leiðir ykkur þangað. Ekki er loku fyrir það skotið að fleiri staðir og viðburðir bætist í hópinn. Það er von vor fróm. Tékkið endilega á hraðíslensku sem er núna á laugardaginn 1.2.

Því kristaltært er að ekki hefir gengið sem skyldi að bjóða fólk (innflytjendur) velkomið í íslenskt (mál)samfélag. Tölulegar staðreyndir benda sterklega til þess. Og án kunnáttu í málinu er ljóst að fólk mun ávallt standa fyrir utan málsamfélagið, fyrir utan íslenskt samfélag. Það er þyngra en tárum tekur. Gefum íslensku séns telur það þar af leiðandi einstaklega brýnt samfélagslegt verkefni að búa til aðstæður þar sem fólk (innflytjendur) fær tækifæri til að æfa sig í notkun málsins, fær hvata (og smá pressu) til að nota það og þeir sem hafa málið að móðurmáli hjálpi þar til.

Tungumál lærist nefnilega seint og illa (oft alls ekki eins og mörg dæmi sýna fram á og við þekkjum) sé það ekki notað, sé því ekki haldið að fólki. Það er alls ekki hægt að kvarta undan íslenskuleysi í samfélaginu geri samfélagið ekkert til að veita fólki liðsinni við máltileinkunina ef samfélagið fer ekki fram á íslensku (án alls gæsagangs og uppréttra handa á ská). Þar af leiðandi hvetjum við allt áhugafólk um íslensku, íslenskt málsamfélag, íslenskt samfélag til að tékka á viðburðum verkefnisins og láta sjá sig. Eins oft og efni standa til. Best væri þá auðvitað að bjóða einhverjum með sér sem vill eða þarf að læra íslensku, sem vill komast inn í íslenskt málsamfélag sem vill fá fleiri tækifæri í samfélaginu. Við vitum öll að lykillinn að íslensku samfélagi er tungumálið og því ótækt að stór hluti þess fólks sem á Fróni býr kunni ekki góð skil á því. Það er kominn tími til að bjóða innflytjendur hjartanlega velkomna í (mál)samfélagið og leyfa allra handa íslensku að heyrast og njóta sín.

Vilt þú ekki leggja þitt lóð á vogarskálina? Málið er jú  í okkar höndum ellegar tröntum. Við berum ábyrgðina.

Með íslenskuvænum kveðjum.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Tékkið líka á Gefum íslensku séns á Facebook

Auglýsing
Auglýsing

Drónaflugið: litið alvarlegum augum

Drónamynd af Silfurtorgi. Mynd: Bragi Axelsson.

„Starfsfólk bæjarskrifstofu upplifði það þannig að verið væri að fylgjast með þeim, þess vegna var atvikið tilkynnt til lögreglu.“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

„Þegar af þeirri ástæðu og einnig að um flug ómannaðra loftfara gilda lög og reglur nærri viðkvæmum opinberum innviðum er málið litið alvarlegum augum og er til frekari skoðunar hjá sveitarfélaginu.“

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir