Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 64

Styrkir fyrir vottaða lífræna bændur

Matvælaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir um styrki til tækjakaupa fyrir vottaða lífræna bændur. Þessir styrkir eru ætlaðir til kaupa á sérhæfðum búnaði sem stuðlar að aukinni framlegð í lífrænum landbúnaði og/eða bættri nýtingu lífræns áburðar.

Helstu dæmi eru róbótar, niðurfellingarbúnaður til áburðardreifingar, tæki til safnhaugagerðar, tækni fyrir nákvæmnislandbúnað, illgresishreinsarar og önnur tæki sem uppfylla framangreind markmið.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 10. febrúar nk. 

Verkefnið er tímabundið og eru alls 30 milljónir króna til ráðstöfunar.

Bændur sem eru í aðlögun að lífrænni ræktun geta einnig sótt um styrk.

Auglýsing
Auglýsing

Vísitala neysluverðs lækkar milli mánaða

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í janúar 2025, er 635,5 stig (maí 1988=100) og lækkar um 0,27% frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar,

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 510,2 stig og lækkar um 0,29% frá desember 2024.

Verð á áfengi og tóbaki hækkaði um 3,9% (áhrif á vísitöluna 0,10%) og kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,5% (0,11%). Einnig hækkaði verð á bensíni og olíum um 3,6% (0,13%).

Vetrarútsölur eru víða í gangi og lækkuðu föt og skór um 6,9% (-0,26%), húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 4,6% (-0,23%) og raftæki um 9,5% (-0,11%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 16,1% (-0,36%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,6% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,0%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2025, sem er 635,5 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2025.

Auglýsing
Auglýsing

Viltu læra að klifra

Klifurfélag Vestfjarða býður upp á byrjendanámskeið í klifri sunnudaginn 16. febrúar kl. 19-20. Námskeiðið fer fram í húsnæði félagsins, gamla Skátaheimilinu við Mjallargötu 4 á Ísafirði.

Á námskeiðinu verður farið í grunnatriðin í klettaklifri innanhúss og mismunandi tegundir klifurs.

Einnig verður farið yfir hvað þarf til að læra íþróttina, sértækan orðaforða sem er notaður og gefin góð ráð fyrir byrjendur.

Ef tími og fjöldi leyfir verður klifurstund á eftir fyrirlestrinum.

Allir aldurshópar eru velkomnir en efnið miðar að iðkendum sem eru 13 ára og eldri.

Nánari upplýsingar á klifra,is

Auglýsing
Auglýsing

Vestfirðir: Spáð óveðri í dag

Vegagerðin vekur athygli á því að Veðurstofan spáir miklu óveðri í dag eftir kl. 13:00 og hefur sett alla vegi á óvissustig.

Veðurstofan gefur út viðvörun og spáir suðaustan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Snjókoma eða slydda, síðan rigning og hláka. Varasöm akstursskilyrði vegna vinds og einnig hálku þar sem blaut svell eru á vegum.

Dynjandisheiði er lokuð svo og vegurinn yfir á Rauðasand frá Patreksfirði. Á Kleifaheiði er stórhríð svo og á Mikladal og þæfingsfærð.

Vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaðist í nótt vegna snjóflóðs en opnað var í morgun. Lögreglan á Vetsfjörðum vekur athygli á þessu og segir í tilkynningu að veðurspáin sé þó með þeim hætti að það gæti komið til lokunar með litlum fyrirvara.

Auglýsing
Auglýsing

Landsréttur : málflutningur í dag í áfrýjun Vesturbyggðar

Mynd tekin af vef Arnarlax ehf.

Í dag fer fram í Landsrétti málflutningur í máli sem Vestubyggð höfðaði á hendur Arnarlax um greiðslu á 18,8 m.kr. í hækkuðu aflagjaldi fyrir löndun á eldislaxi í höfnum Vesturbyggðar.  Í Héraðsdómi Vestfjarða var Arnarlax í nóvember 2023 sýknað af kröfunni og var Vesturbyggð að auki gert að greiða Arnarlaxi 4 m.kr. í málskostnað.

Vesturbyggð áfrýjaði málinu til Landsréttar. Búist er við að dómur falli innan fjögurra vikna.

Deilt var um lögmæti aflagjalds og þær breytingar sem Vesturbyggð gerði á gjaldskránni árið 2019. Arnarlax mótmælti breytingunum og greiddi áfram samkvæmr eldri gjaldskrá.

Gjaldskrá hafnasjóðs Vesturbyggðar var breytt í lok ársins 2019. Þá var aflagjald hækkað úr 0,6% í 0,7% af aflaverðmæti auk annarra breytinga. Rebekka Hilmarsdóttir, þáverandi bæjarstjóri sagði að sveitarfélagið telji sig hafa verið innan heimilda hafnalaga þegar gjaldskrá hafnasjóðs var breytt, en breytingin fól í sér breytta aðferðafræði og afsláttur til fiskeldisfyrirtækja var lækkaður.

Stefndi, Arnarlax, benti á að aflagjald skv. hafnalögum nái ekki til eldisfisks og hann verði ekki talinn sjávarafli. Engu að síður hafi Arnarlax ekki vikið sér undan því að greiða sanngjarnt gjald fyrir sannarlega veitta þjónustu og því kosið að gera ekki gagnkröfu um oftekin gjöld heldur eingöngu að verjast kröfu Vesturbyggðar.

Dómurinn féllst á það að eldisfiskur væri ekki sjávarafli og félli ekki undir ákvæði laganna um aflagjald. Því bæri að sýkna stefnda. Að því fengnu taldi dómurinn ekki ástæðu til þess að fjalla um aðrar málsástæður sem málsaðilar byggðu á.

Auglýsing
Auglýsing

Stofna 11,2 ha lóð umhverfis hótel Breiðavík

Breiðavík. Mynd: Markaðsstofa Vestfjarða.

Framkvæma- og skipulagsáðs Vesturbyggðar hefur samþykkt að stofnuð verði 11,2 hektara lóð umhverfis hótel Breiðavík við utanverðan Patreksfjörð. Merkjalýsingin á lóðinni er í samræmi við deiliskipulag Látrabjargs.

Lóðin er eignarlóð í eigu Hótel Breiðavíkur ehf.

Breiðavík er ein af svonefndum Útvíkum og liggur milli Látravíkur og Kollsvíkur. Frá 1824 hefur verið kirkjustaður í Breiðuvík. Þar hefur verið rekin umfangsmikil ferðaþjónusta síðustu 40 árin.

Auglýsing
Auglýsing

Vikuviðtalið: Anna Sigríður Ólafsdóttir

Ég heiti fullu nafni Anna Sigríður Ólafsdóttir, en það vill brenna við að fólk þekki mig ekki undir því nafni því ég er iðulega kölluð Annska eða Anna Sigga. Ég er stundum spurð að því hvernig standi á þessu Önnsku nafni. Fólk hefur stundum haldið að ég væri ekki Íslendingur eða talið að ég hafi átt ógurlega flippaða foreldra sem fundu upp þessa nafngift. Sagan er sú að ég fór á flakk rúmlega tvítug og meðal annars fór ég að vinna sem þerna á skemmtiferðaskipi. Ég fékk fína, gyllta nælu með nafninu mínu þar sem á stóð Anna og svo allt í einu voru allir farnir að kalla mig það, en oftar en ekki svaraði ég ekki – grandalaus um að fólk væri að tala við mig! Ef ég reyndi að segja Anna Sigga þá endaði það yfirleitt líka í Anna. Þá rifjaði ég upp að í barnæsku spurðu vinkonur mínar iðulega eftir Önnsku (vegna hraðmælgis) sem leiddi til þess að mamma mín fór að kalla mig það og því ákvað ég að kalla mig það á erlendri grund. Þegar ég svo sneri aftur til Íslands var nafnið tekið að loða við og svo með tilkoma Facebook festi það endanlega í sessi.

Ég starfa sem verkefnastjóri miðlunar hjá Vestfjarðastofu og hef verið hluti af því góða teymi sem þar vinnur frá því í ágústmánuði 2023. Þegar ég fékk vinnuna var ég enn í meistaranámi í menningarmiðlun við Háskóla Íslands – svo starfið féll að áhugasviði mínu og menntun eins og flís við rass. Fyrsti veturinn minn var smá brekka þar sem ég var enn að klára námið en svo brautskráðist ég síðasta vor. Starfið hjá Vestfjarðastofu er einstaklega fjölbreytt, auk þess að sinna allra handa textavinnu, fréttaskrifum og gerð kynningarefnis vinn ég líka að ýmsu öðru. Ég má til með að deila með ykkur leyndarmáli, þegar ég byrjaði á Vestfjarðastofu hafði ég ekki hugmynd um hversu margbrotið og víðtækt verkefnasvið hennar er – en ég er margs vísari eftir að hafa starfað þar í eitt og hálft ár. Eitt af því sem Vestfjarðastofa hefur með höndum er Sóknaráætlun Vestfjarða, en í lok árs 2024 kláraðist tímabil síðustu sóknaráætlunar, svo á síðasta ári fór talsvert mikil vinna í að gera nýja sem gildir 2025-2029. Ef Sóknaráætlun Vestfjarða er nýtt fyrirbæri í ykkar eyrum er engin ástæða til að örvænta, heldur getið þið smellt hér og kynnt ykkur málið betur. Um þessar mundir er ég meðal annars að vinna miðlunarstefnu fyrir Vestfjarðastofu, auk þess sem hluti krafta minna er nýttur í Evrópuverkefni sem við tökum þátt í sem heitir MERSE og snýr að samfélagslegri nýsköpun og verkefnahóp barnamenningarhátíðarinnar Púkans sem fer fram dagana 31.mars-11. apríl. Einnig er ég tengiliður við hin landshlutasamtökin þar sem við erum að leggja meiri áherslu á samvinnuverkefni á sviðum sem við eigum sammerk. Má þar nefna net-fyrirlestraröðina Forvitnir frumkvöðlar sem á sér stað fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Næsta þriðjudag verður erindi um umsóknarskrif sem opið er öllum áhugasömum – hér getið þið tekið þátt í því. Það væri ógjörningur að ætla að telja upp allt það sem ég hef fingurna í með einum eða öðrum hætti og læt ég því staðar numið hér. Ég vil þó bæta við í lokin að við hjá Vestfjarðastofu erum til ráðgjafar fyrir frumkvöðla í víðum skilningi og hægt er að leita til okkar um hin ýmsu mál – líkt og umsóknir í sjóði. Svo ég vil hvetja fólk til að vera ekki feimið við að reka inn nefið.

Ég er búsett á Ísafirði og ég og fyrrverandi maðurinn minn og vinur, Úlfur Þór, ölum saman upp strákana okkar tvo Fróða Örn og Huga Hrafn. Í grunninn er ég Ólsari en mamma mín, Sjöfn Sölvadóttir, var Flateyringur, yngsta barn hjónanna Sölva Ásgeirssonar og Fanneyjar Annasdóttur. Pabbi, Óli Tryggva, var Stapamaður, sonur Tryggva Jónssonar og Sigríðar Guðmundsdóttur á Arnarstapa. Þrátt fyrir að ætla mér ekki að hafna því hvaðan ég kem, skilgreini ég mig mest sem Vestfirðing. Ég hef nefnilega verið hér lengur en á nokkrum öðrum stað og svo er einfaldlega hjarta mitt vestfirskt. Ég var lengi á flakki og þegar ég kom á Ísafjörð árið 2001 ætlaði ég bara að stoppa í þrjá mánuði. Ég var að vinna á veitingastaðnum Eyrin og man þá stund er ég fattaði að ég vildi ekki fara. Ég fann að ég hafði eignast heimahöfn.

Þar sem ég var spurð út í áhugamálin svarar Ísafjörður einfaldlega kalli áhugasviðsins á víðum grunni. Ég elska göngutúra, útivist og góðan félagsskap – og á Ísafirði hef ég af því nóg. Mér finnst samfélagið hlýtt og gefandi, án þess að hér sé endilega gefinn afsláttur af því að fólk tali vestfirsku. Eftir því sem ég verð eldri verður innihaldsríkt hversdagslíf án mikilla láta (fyrir utan hávaða sem við fjölskyldan erum mjög dugleg við að framkalla) mér alltaf hugleiknara. Það að lifa vel án þess að ætla sér einhverja ógurlega landvinninga er eitt mitt helsta áhugamál. Já og svo hreinlega elska ég að skrifa og vil gjarnan í hæglætislífinu sem ég vil skapa mér búa til meira pláss fyrir það.

Auglýsing
Auglýsing

Tónlistarskóli Ísafjarðar: tónleikar í Hömrum á sunnudaginn

Tónlistarskóli Ísafjarðar.

Fjórhent og sexhent- Píanótónleikar  verða í Hömrum á sunnudaginn 2.febrúar kl.17.00.

Það eru píanónemendur Beötu Joó sem halda tónleika í Hömrum sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar munu nemendur flytja fjórhent og sexhent íslensk lög í útsetningu Vilbergs Viggóssonar og Björgvins Þ. Valdimarssonar.

Allir velkomnir.

Auglýsing
Auglýsing

Daníel Már íþróttamaður HHF 2024

Daníel Má Ólafsson með veðlaunabikar. Mynd: HHF.

Daníel Már Ólafsson er íþróttamaður Héraðssambandsins Hrafna Flóka 2024. Útnefningin var kynnt á uppskeruhátíð HHF sem var haldin í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði 15. janúar 2025.

Í umsögn segir:

Daníel Már er frábær íþróttaiðkandi, með mikla íþróttahæfileika og hefur náð góðum árangri á landsmælikvarða í sinni íþróttagrein. Árangrar hans eru framúrskarandi og sjá þjálfarar miklar bætingar milli ára. Daníel Már hefur mikinn vilja til að verða enn betri íþróttamaður og leggur sig allan fram í að sinna æfingum til þess að gera enn betur en síðast.

 
Á árinu 2024 var árangur hans eftirfarandi:

Gautaborgarmeistari í kúluvarpi

Tvöfaldur Unglingalandsmótsmeistari

Frjálsíþróttamaður ársins

Besta afrek ársins á Íslandi 12 ára pilta í hástökki, þrístökki og kúluvarpi

Annað besta afrek ársins á Íslandi 12 ára pilta í 60m hlaupi

Auglýsing
Auglýsing

Raknadalshlíð – aukin snjóflóðahætta

Fyrir stundu varaði lögreglan á Vestfjörðum við aukinni snjóflóðahættu á Raknadalshlíð við Patreksfjörð.

Í tilkynningu segi að aukin snjóflóðahætta er yfir veginum um Raknadalshlíð og ef veðurspáin gengur eftir megi búast við að veginum verði lokað kl.20:00 í kvöld.

Vegagerðin muni skoða aðstæður snemma í fyrramálið m.t.t. opnun.

Sem stendur hefur veginum um Kleifaheiði verið lokað en Vegagerðin skoðar opnun eða fylgdarakstur nú síðdegis. Það er stefnt að mokstri yfir Kleifaheiði í tengslum við Baldur. Moksturstækið bilaði á Kleifaheiði og það tefur fyrir mokstri og er heiðin lokuð nú kl 18:22.

Vegfarendum sem hyggja á ferðalag milli byggðalaga eru hvattir til þess að skoða áður aðstæður og veðurspá. En það má gera annars vegar á heimasíðu Veðurstofa Íslands og hins vegar vefsiðu Vegagerðin eða hringja í upplýsingasímann 1777.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir