Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 63

Nýtt aðkomutákn við Búðardal

Á hátíðarhöldunum 17. júní var tilkynnt um nýtt aðkomutákn við Búðardal.

Formaður menningamálanefndar Dalabyggðar, Þorgrímur Einar Guðbjartsson kynnti verkið og upplýsti um höfund þess en hann er Svavar Garðarsson frá Hríshóli í Reykhólasveit. 

Auglýst var eftir verki í febrúar og senda átti inn tillögu að frumhönnun ásamt útskýringu á verkinu og hvaða tengingu það hafi við sveitarfélagið.
Tekið var fram að verkið þyrfti að þola íslenskt veður, vera endingargott og raunhæft í framkvæmd.

Ekki var gerð krafa um úr hvaða efni verið yrði eða frekari framsetningu þess, þ.e. hvort um væri að ræða skilti, frístandandi verk eða annað.
Í lok apríl 2024 kom hópurinn saman og fór yfir innsendar tillögur sem voru fjórar talsins en mjög ólíkar og skemmtilegar og var það niðurstaðan að velja tillögu Svavars Garðarssonar.

Tónlistarhátíðin VIÐ DJÚPIÐ – Amerískur dagur

Í hádeginu í dag var á dagskrá tónlistarhátíðainnar VIÐ DJÚPIÐ Antigone sem er píanótríó frá Bandaríkjunum og í kvöld er í Hömrum kl. 20:00 False We Hope sem er söngvasveigur eftir bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone.

Sönglögin, sem eru samin við ljóð eftir Karen Russell og Carey McHugh, urðu til í uppnáminu árið 2020. Í þeim eru trúin, fjölskyldan og leitin að tilgangi brotin til mergjar, til að varpa ljósi á þrá okkar eftir tengslum mitt í óreiðu tilverunnar.

Í fyrra kom út samnefnd hljómplata með sönglögunum þar sem Eliza Bagg syngur og tónskáldið leikur á hljóðgervil og píanó ásamt Attacca-strengjakvartettinum. Á plötunni er strengjakvartetti tónskáldsins Speech after the Removal of the Larynx (Tal eftir að raddböndin hafa verið fjarlægð) ofið saman við söngvasveiginn.

Á tónleikum verður sami háttur hafður ár. Söngvasveigurinn og strengjakvarettinn hljóma í heild sinni í flutningi tónskáldsins, Eliza Bagg og strengjakvartetts úr þýsku hljómsveitinni Orchester im Treppenhaus.

Háskólahátíð á Hrafnseyri 

Háskólahátíð fór fram á Hrafnseyri á þjóðhátíðardaginn 17 júní í afar fallegu veðri.

Eins og öll árin áður var háskólahátíð hluti af hátíðardagskrá á Hrafnseyri. Að venju var kökuhlaðborð og súpa, tónlistaratriði og ræður frá fyrrverandi nemendum Háskólaseturs hlutur af dagskrá dagsins.

Útskriftarnemar fengu skírteini afhent frá Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri. Þeir fengu einnig prjónaða skotthúfu í þjóðlegum stíl ásamt trjáplöntu sem nemendur gróðursettu í brekkunni seinna.

Alþingi: stjórnarandstaðan vill ekki eldisgjald

Bíldudalur. Um Bíldudalshöfn fer mikið magn af eldisfiski sem landað er þar til slátrunar.

Nefndarálit stjórnarandstöðunnar um breytingar á hafnalögum er komið fram. Leggst hún gegn því að tekið verði upp sérstakt eldisgjald af lönduðum eldisfiski. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar segir í áliti sínu að betur fari á því að búa betur um þann tekjustofn sem aflagjald hefur verið, þar sem það tekur mið af verðmæti þeirrar vöru sem um hafnirnar fer.

Í álitinu segir minnihlutinn:

„Það var hins vegar ákvörðun ráðherra að leggja til nýjan tekjustofn, svokallað eldisgjald, á umskipun, lestun og losun afla úr sjókvíaeldi í höfnum landsins. Við útfærslu eldisgjalds leggur ráðherra hins vegar til þá leið að velta því yfir á hafnirnar sjálfar að komast til botns í því hvert gjaldið geti verið, frekar en að skilgreina eðlilegan ramma utan um gjaldið líkt og gert er með aflagjaldið. Í stað þess að leysa úr þessum hnút beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að leysa úr þeim álitamálum einhvern tímann seinna, þótt þar sé um að ræða sömu álitamálin og hefði átt að leysa í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.“

 Minni hlutinn tekur undir þær athugasemdir sem fram koma í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnasambandsins um málið og við umfjöllun í nefndinni og segir að eðlilegt væri að hafnir gætu lagt aflagjald, sem er hlutfallsgjald af verðmæti afla, á eldisfisk rétt eins og annan sjávarafla sem um hafnirnar fer, enda er eldisfiski landað með sama hætti og uppsjávarfiski. 

Undir álitið rita þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar.

Frumvarpið er komið til annarrar umræðu og er á dagskrá þingfundar í dag.

Líkamsárás í Súðavík: gæsluvarðhald framlengt

Áfltaver í Súðavík þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í morgun á kröfu lögreglustjórans á Vestfjörðum um áframhaldandi gæsluvarðhald til 17. Júlí 2024 manns sem handtekinn var vegna alvarlegrar líkamsárásar og tilraunar til manndráps í heimahúsi í Súðavík að kvöldi 11. júní sl.

L0greglan á Vestfjörðum segir í tilkynningu að rannsókn málsins hafi gengið vel og liggi fyrir nokkuð greinagóð mynd af atburðarrás.

Vesturbyggð og Tálknafjörður: ráðning bæjarstjóra í dag

Patrekshöfn.

Annar fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar verður haldinn í dag. Á dagskrá er m.a. ráðning bæjarstjóra og nafn á nýja sveitarfélgið.

Ekkert hefur verið gefið upp um það hver verður ráðinn bæjarstjóri, en Gerður Björk Sveinsdóttir, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, er starfandi bæjarstjóri.

Líklegt er að hún verði ráðin bæjarstjóri.

Fram fór rafræn könnun meðal bæjarbúa um nafn á sveitarfélagið þar val stóð á milli sex nafna, Barðsbyggð
Kópsbyggð
Látrabyggð
Suðurfjarðabyggð
Tálknabyggð
Vesturbyggð

Niðurstöðurnar hafa ekki verið birtar en verða notaðar til hliðsjónar við ákvörðun bæjarstjórnar um nafn á Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Árneshreppur: íbúafundur á morgun

Frá fyrri íbúafundi í Árneshreppi. Mynd: Skúli Gautason.

Fimmtudaginn 20. júní verður haldinn íbúafundur í Félagsheimilinu í Trékyllisvík.
Þetta verður síðasti íbúafundurinn undir merkjum Áfram Árneshrepps, en það er heiti á þátttöku Árneshrepps í Brothættum byggðum á vegum Byggðastofnunar. Verkefnisstjóri er Skúli Gautason, en formaður verkefnisstjórnar er Arinbjörn Bernharðsson.
Á fundinum verður stutt og myndræn yfirferð á því sem hefur áunnist í verkefninu, en það hefur staðið frá árinu 2017.  Þá verður stutt ávarp frá fulltrúum Byggðastofnunar, sagt verður frá störfum Strandanefndarinnar, sem var skipuð í byrjun árs af ríkisstjórninni og starfar á vegum forsætisráðuneytisins. Stutt kynning verður á Baskasetri Íslands, en það opnaði með formlegum hætti sýninguna 1615 nú í byrjun júní í einum af síldartönkunum í Djúpavík. Sýningin fjallar einkum um Spánverjavígin og framundan er frekari uppbygging á sýningunni. Að lokum verður hópavinna á borðum með þátttöku gesta og má vænta þess að það verði líflegar umræður.

Slíkir íbúafundir hafa verið haldnir árlega frá árinu 2017 og stundum tvisvar á ári. Verkefnisstjórnin hefur rekið málefni Árneshrepps gagnvart ríkinu og lagt höfuðáherslu á að byggja upp innviði í sveitarfélaginu. Auk þeirra hefur hún staðið fyrir súpufundum, bjórkvöldum og kvikmyndasýningum í félagsheimilinu.

Allir íbúar og aðrir velunnarar Árneshrepps eru velkomnir á fundinn sem hefst kl. 15:00 fimmtudaginn 20. júní.

Rósa Björk Barkardóttir sæmd fálkaorðunni

Rósa Björk Barkardóttir.

Einn þeirra sextán einstaklinga sem var sæmd fálkaorðunni á þjóðhátíðardaginn er Súðvíkingurinn Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur. Riddarkrossinn fékk Rósa fyrir framlag til vísinda og krabbameinsrannsókna. Foreldrar hennar voru Börkur Ákason, framkvæmdastjóri Frosta og Kristín Margrét Jónsdóttir. Rósa ólst upp í Súðavík. Maki hennar er Haraldur Leifsson frá Ísafirði.

Rósa starfar á Landsspítalanum og hefur frá 2016 verið formaður vísindaráðs spítalans.

Þegar hún tók við sem formaður vísindaráðs kynnti Landsspítalinn störf hennar svo:

Rósa Björk hefur verið mjög virkur vísindamaður, hefur haft umsjón með umfangsmiklum rannsóknum og tekið þátt í mörgum alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Hún hefur skrifað og verið meðhöfundur á fjölda greina sem birst hafa í erlendum tímaritum og tilvitnanir í þessar greinar skipta þúsundum. Markverðustu vísindaniðurstöður Rósu Bjarkar og samstarfsfólks hennar tengjast brjóstakrabbameini og meðfæddri áhættu til myndunar meinsins. Þau taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um leit og einangrun brjóstakrabbameinsgena sem hafa m.a. leitt til einangrunar brjóstakrabbameinsgenanna BRCA1 og BRCA2. 

Bolafjall: mikill snjór á pallinum en hann stóðst öll áhlaup vetrarins

Það er s.s. búið að opna uppá fjall. Vegagerðin er búinn að fara yfir veginn, hefla hann og rykbinda. „Vegurinn er í frábæru standi og hefur aldrei verið svona góður að mínu mati“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík.

„Það var gríðarlega mikill snjór á Bolafjalli í vetur og fyrir viku var enn mikill snjór á pallinum og í kringum hann. Hinsvegar hefur mikið tekið upp af snjó og það fór mikið af honum um helgina. Pallurinn er því vel aðgengilegur og aðkoman góð fyrir bíla og gangangi.“

Jón Páll segir að handrið hafi gefið sig en það hafi ekki áhrif á öryggi pallsins.

„Mikill snjór á pallinum er ekki áhyggjuefni og er pallurinn hannaður fyrir mun meira álag. Það kom hins vegar í ljós í vor að handriðin gáfu sig undan snjónum í vetur. Við erum búinn að skoða þetta og hanna nýtt handrið sem tekur tillit til þessa álags. Það verður sett upp við fyrsta tækifæri. En staðan á handriðinu hefur hinsvegar enginn áhrif á öryggi pallsins. Handriðið er fyrir gesti til að styðja sig við, en er ekki hluti af burðarviki grindverksins. Grindverkið, eins og pallurinn sjálfur, stóðst öll áhlaup vetrarins og ber hann þess merki hversu traust og gott mannvirki útsýnispallurinn er.“

Myndband af pallinum:

https://www.facebook.com/stories/102561728578522/UzpfSVNDOjQ0MTMxMzYzMjAxNjI4MQ==/?view_single=1

Patreksfjörður: Rampur númer eitt þúsund og tvö hundrað vígður á Vestfjörðum

Frá Vinstri: Ástþór Skúlason (bóndi á Melanesi), Gunnþórunn Bender (forseti bæjarstjórnar), starfsmaður Rampa, Magnús Árnason (Verkefnastjóri Tálknafjarðar og Vesturbyggð), Páll Vilhjálmsson (formaður bæjarráðs), Gerður Björk Sveinsdóttir (Starfandi bæjarstjóri Sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar) og Arnheiður Jónsdóttir (Sviðstjóri fjölskyldusviðs Tálknafjarðar og Vesturbyggð).

Átaki Haraldar Þorleifssonar, Römpum Upp Ísland, vindur áfram og í síðustu viku var rampur númer 1.200 vígður við hátíðlega athöfn við Skor á Patreksfirði. Umræddur rampur er jafnframt sá fyrsti sem er reistur í átakinu Römpum upp á Vestfjörðum. Þessi atburður markar tímamót í átakinu „Römpum upp Ísland”, sem stefnir að því að byggja 1.500 rampa í þágu hreyfihamlaða fyrir 11. mars 2025.

Viðburðurinn vakti mikla athygli heimamanna og fékk góðar undirtektir. Ástþór Skúlason, íbúi á Melanesi á Rauðasandi í Vesturbyggð og ötull baráttumaður fyrir auknu aðgengi í sínu sveitarfélagi klippti á borðann.

Við athuöfnina flutti Gerður Björk Sveinsdóttir, starfandi bæjarstjóra í Sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar ávarp og sagði m.a. : “Við skulum vona að við munum ekki láta staðar numið hér heldur líta á þetta sem hvatningu til okkar og hafa ávallt í huga aðgengismál fyrir alla, bæði  þegar kemur að aðkomu og aðgengi að húsnæði sveitarfélagsins og eins að öðrum stöðum þar sem aðgengismál eiga að vera í lagi.“

Á næstu dögum munu starfsmenn verkefnisins halda för sinni áfram um Vestfirðina og halda áfram að reisa rampa. Þar bíða þeirra verkefni meðal annars á Ísafirði, Hólmavík og Bolungarvík. 

Átakið Römpum upp Ísland hefur nú reist 1.200 rampa og var sá fyrsti tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa þúsund rampa, en var sú ákvörðun svo tekin að ganga einu skrefi lengra og reisa eitt þúsund og fimmhundruð rampa. 

Að verkefninu koma margir styrktaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsborg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og Innviðaráðuneytið. Að auki hefur fjölmargt stuðningsfólk lagt hönd á verkið.

Ástþór Skúlason klippti á borðann.

Gerður Björk Sveinsdóttir, starfandi bæjarstjóri flutti ávarp.

Myndir: aðsendar.

Nýjustu fréttir