Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 63

Enn hvasst og ófærð á sunnanverðum Vestfjörðum

Ráðhús Vesturbyggðar.

Dynjandisheiði er lokuð og enn er hvasst á sunnanverðum Vestfjörðum. Snjó hefur tekið af vegum og eru hálkublettir en á Kleifaheiði er þungfært en mokstur stendur þar yfir.

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því að í gærkvöldi, eða um kl.22:45 lýsti Veðurstofa Íslands yfir hættustigi á Patreksfirði hvað varðar nálæg hús við Stekkagil. Í kjölfarið voru 7 hús rýmd. Eitt þessara húsa hýsa er atvinnuhúsnæði (bæjarskrifstofan á staðnum).

Alls voru 14 íbúar í þessum húsum og fóru nokkrir til vina og vandamanna en hinir í gistingu á vegum sveitafélagsins og RKÍ deildarinnar á staðnum. Rýming gekk vel og íbúar tóku henni með rósemd segir í færslu lögreglunnar.

Auglýsing
Auglýsing

Árnesheppur: samþykkt breytingu á deiliskipulagi Dranga

Heppsnefnd Árneshepps samþykkti á fundi sínum í janúa erindi frá eiganda jaðarinnar Dranga, Fornaseli ehf, um breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar. Verður tillagan send í auglýsingu.

Markmiðið með skipulagsbreytingunni er að samræma mismunandi óskir og útfærslur landeigenda Dranga en jafnframt að tryggja að uppbygging verði í sátt við umhverfið. Breytingartillagan felst í breyttum lóðamörkum og stækkun lóða. Áformin og markmiðin eru í grundvallaratriðum þau sömu og í gildandi deiliskipulagi og fjöldi lóða breytist ekki. Heimilt er að byggja allt að 80 fm frístundahús innan byggingarreits á hverri lóð, líkt og í gildandi deiliskipulagi, en auk þess smáhýsi skv. ákvæðum byggingarreglugerðar.  Áhrif skipulagsbreytingar eru metin óveruleg.

Auglýsing
Auglýsing

Arctic Fish semur við Snerpu

Á myndinni handsala þeir Baldur Smári Einarsson og Stein Ove Tveiten hjá Arctic Fish samninginn við Jóhann Egilsson, þjónustustjóra hjá Snerpu

Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur gert langtímasamning við Snerpu um áframhaldandi tölvutækniþjónustu við fyrirtækið. Arctic Fish var stofnað árið 2011 og er eitt umsvifamesta laxeldisfyrirtækið á Íslandi. Snerpa hefur þjónustað fyrirtækið á síðustu árum og segir á vef Snerpu að mikil ánægja sé með áframhaldandi samstarf.

Auglýsing
Auglýsing

Uppskeruhátíð HHF fyrir árið 2024

Héraðssambandið Hrafna Flóki hélt uppskeruhátíð HHF í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði 15. janúar 2025.

Árið 2024 var mjög öflugt íþróttaár á starfssvæði HHF. Nýjar deildar voru stofnaðar á haustmánuðum í bogfimi hjá Herði á Patreksfirði og rafíþróttadeild hjá Íþróttafélagi Bílddælinga ásamt því að haldið var körfuboltamót í Bröttuhlíð á vegum HHF í samstarfi við önnur íþróttafélög á Vestfjörðum sem tókst einstaklega vel og ákveðið að halda það aftur á þessu ári.

Stærsti viðburður ársins var þegar öflugur hópur frjálsíþróttakrakka fór til Gautaborgar í júli að keppa á alþjóðlegu móti. Annars var keppt á 14 frjálsíþróttamótum á árinu 2024. Krakkarnir settu 47 ný héraðsmet innan og utanhúss á árinu.

Í knattspyrnu var starfið með hefðbundnu sniði og keppt á öllum þeim mótum sem hægt var eða 6 talsins og svo á HHF marga iðkendur sem spila nánast um hverja helgi frá maí til sept á Íslandsmótinu í knattspyrnu með Vestra frá Ísafirði. 

Körfuboltaæfingar hafa verið mjög öflugar síðasta árið og stefnan sett á keppnisferðalag til Stykkishólms núna í mars. Mikill áhugi á körfubolta hjá HHF og mikilvægt að efla hann með því að gera eitthvað skemmtilegt eins og t.d þetta að fara í keppnisferðalag.

Allir iðkendur sem æfðu á vegum aðildarfélaga HHF árið 2024 fengu viðurkenningu og gjöf fyrir þátttökuna á árinu en það voru skærgular HHF húfur, markmiðabók og stressbolti með hvatingarorðum. 

Meðal viðurkenninga sem veittar voru á uppskeruhátíðinni:

Auglýsing
Auglýsing

Blaðhaus

Blaðhaus er stuttvaxinn og nokkuð þykkvaxinn fiskur, hausstór með stór augu og er þvermál þeirra meira en trjónulengdin og um fimmtungur af hauslengdinni.

Fremst á haus er mjög stuttur naggur og aftan hans mjög lágur kambur eða faldur. Skoltar eru endastæðir og tennur smáar. Uggar eru vel þroskaðir. Bakuggi er styttri en á kambhaus, hinni tegund ættkvíslarinnar sem finnst einnig a Íslandsmiðum. Raufaruggi byrjar um eða aftan við miðjan bakugga. Kviðuggarætur eru framan við rætur eyrugga. Sporður er stór og spyrðustæði frekar grannt, grennra en á kambhaus. Hreistur er allstórt. Blaðhaus getur náð um 14 cm lengd. Litur er grár til brúnleitur.

Heimkynni blaðhauss eru í austan- og vestanverðu Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi. Hann er við Grænland og á Íslandsmiðum. Hér fannst blaðhaus fyrst í júní árið 2001 en þá veiddust nokkrir í flotvörpu á rúmlega 500 m dýpi djúpt suður af landinu . Þeir voru 8-13 cm langir. Einnig veiddust nokkrir djúpt suðaustur af Hvarfi á Grænlandi um svipað leyti og allt niður á um 2000 m dýpi. Þá varð blaðhauss vart í júní árið 2003 utan fiskveiðilögsögu suðvestur af landinu.

Lífshættir: Blaðhaus er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem lifir á meira en 400-500 m dýpi og niður á um 2000 m dýpi.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Auglýsing
Auglýsing

Styrkir fyrir vottaða lífræna bændur

Matvælaráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir um styrki til tækjakaupa fyrir vottaða lífræna bændur. Þessir styrkir eru ætlaðir til kaupa á sérhæfðum búnaði sem stuðlar að aukinni framlegð í lífrænum landbúnaði og/eða bættri nýtingu lífræns áburðar.

Helstu dæmi eru róbótar, niðurfellingarbúnaður til áburðardreifingar, tæki til safnhaugagerðar, tækni fyrir nákvæmnislandbúnað, illgresishreinsarar og önnur tæki sem uppfylla framangreind markmið.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 10. febrúar nk. 

Verkefnið er tímabundið og eru alls 30 milljónir króna til ráðstöfunar.

Bændur sem eru í aðlögun að lífrænni ræktun geta einnig sótt um styrk.

Auglýsing
Auglýsing

Vísitala neysluverðs lækkar milli mánaða

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í janúar 2025, er 635,5 stig (maí 1988=100) og lækkar um 0,27% frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar,

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 510,2 stig og lækkar um 0,29% frá desember 2024.

Verð á áfengi og tóbaki hækkaði um 3,9% (áhrif á vísitöluna 0,10%) og kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,5% (0,11%). Einnig hækkaði verð á bensíni og olíum um 3,6% (0,13%).

Vetrarútsölur eru víða í gangi og lækkuðu föt og skór um 6,9% (-0,26%), húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 4,6% (-0,23%) og raftæki um 9,5% (-0,11%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 16,1% (-0,36%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,6% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,0%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2025, sem er 635,5 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2025.

Auglýsing
Auglýsing

Viltu læra að klifra

Klifurfélag Vestfjarða býður upp á byrjendanámskeið í klifri sunnudaginn 16. febrúar kl. 19-20. Námskeiðið fer fram í húsnæði félagsins, gamla Skátaheimilinu við Mjallargötu 4 á Ísafirði.

Á námskeiðinu verður farið í grunnatriðin í klettaklifri innanhúss og mismunandi tegundir klifurs.

Einnig verður farið yfir hvað þarf til að læra íþróttina, sértækan orðaforða sem er notaður og gefin góð ráð fyrir byrjendur.

Ef tími og fjöldi leyfir verður klifurstund á eftir fyrirlestrinum.

Allir aldurshópar eru velkomnir en efnið miðar að iðkendum sem eru 13 ára og eldri.

Nánari upplýsingar á klifra,is

Auglýsing
Auglýsing

Vestfirðir: Spáð óveðri í dag

Vegagerðin vekur athygli á því að Veðurstofan spáir miklu óveðri í dag eftir kl. 13:00 og hefur sett alla vegi á óvissustig.

Veðurstofan gefur út viðvörun og spáir suðaustan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Snjókoma eða slydda, síðan rigning og hláka. Varasöm akstursskilyrði vegna vinds og einnig hálku þar sem blaut svell eru á vegum.

Dynjandisheiði er lokuð svo og vegurinn yfir á Rauðasand frá Patreksfirði. Á Kleifaheiði er stórhríð svo og á Mikladal og þæfingsfærð.

Vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaðist í nótt vegna snjóflóðs en opnað var í morgun. Lögreglan á Vetsfjörðum vekur athygli á þessu og segir í tilkynningu að veðurspáin sé þó með þeim hætti að það gæti komið til lokunar með litlum fyrirvara.

Auglýsing
Auglýsing

Landsréttur : málflutningur í dag í áfrýjun Vesturbyggðar

Mynd tekin af vef Arnarlax ehf.

Í dag fer fram í Landsrétti málflutningur í máli sem Vestubyggð höfðaði á hendur Arnarlax um greiðslu á 18,8 m.kr. í hækkuðu aflagjaldi fyrir löndun á eldislaxi í höfnum Vesturbyggðar.  Í Héraðsdómi Vestfjarða var Arnarlax í nóvember 2023 sýknað af kröfunni og var Vesturbyggð að auki gert að greiða Arnarlaxi 4 m.kr. í málskostnað.

Vesturbyggð áfrýjaði málinu til Landsréttar. Búist er við að dómur falli innan fjögurra vikna.

Deilt var um lögmæti aflagjalds og þær breytingar sem Vesturbyggð gerði á gjaldskránni árið 2019. Arnarlax mótmælti breytingunum og greiddi áfram samkvæmr eldri gjaldskrá.

Gjaldskrá hafnasjóðs Vesturbyggðar var breytt í lok ársins 2019. Þá var aflagjald hækkað úr 0,6% í 0,7% af aflaverðmæti auk annarra breytinga. Rebekka Hilmarsdóttir, þáverandi bæjarstjóri sagði að sveitarfélagið telji sig hafa verið innan heimilda hafnalaga þegar gjaldskrá hafnasjóðs var breytt, en breytingin fól í sér breytta aðferðafræði og afsláttur til fiskeldisfyrirtækja var lækkaður.

Stefndi, Arnarlax, benti á að aflagjald skv. hafnalögum nái ekki til eldisfisks og hann verði ekki talinn sjávarafli. Engu að síður hafi Arnarlax ekki vikið sér undan því að greiða sanngjarnt gjald fyrir sannarlega veitta þjónustu og því kosið að gera ekki gagnkröfu um oftekin gjöld heldur eingöngu að verjast kröfu Vesturbyggðar.

Dómurinn féllst á það að eldisfiskur væri ekki sjávarafli og félli ekki undir ákvæði laganna um aflagjald. Því bæri að sýkna stefnda. Að því fengnu taldi dómurinn ekki ástæðu til þess að fjalla um aðrar málsástæður sem málsaðilar byggðu á.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir