Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 62

ÍS 47: áformar 2.500 tonna eldi í Önundarfirði

ÍS 47 ehf hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um áform um aukið eldi sem nemur 600 tonnum af regnbogasilungi og laxi í sjókvíum í Önundarfirði. Heildar eldismagn ÍS 47 er því áætlað verða 2.500 tonn sem það sama og burðarþolsmat fyrir Önundarfjörð.

ÍS47 er með rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna hámarks lífmassa af regnbogasilungi og þorski í Önundarfirði. Félagið tilkynnti um 900 tonna framleiðsluaukningu á regnbogasilung og laxi í október 2022 sem Skipulagstofnun ákvarðaði að væri ekki matskyld. Nú er tilkynnt um 600 tonna aukningu til viðbótar.

Í tilkynningunni er lýst helstu umhverfisþáttum á svæðinu. Farið er yfir framleiðsluaukningu um 600 tonna eldi, eldisstofni, fóðurnotkun og losun á næringarefnum. Þá er lýst hugsanlegum umhverfisáhrifum aukins eldis, þeim gögnum sem til eru og þeim rannsóknum sem þarf að gera og hugsanlegum mótvægisaðgerðum.

Eldi ÍS47 á regnbogasilungi hófst 2014, en áður hafði félagið stundað þorskeldi í Önundarfirði frá árinu 2010 og þar áður í Skutulsfirði. ÍS47 elur aðeins regnbogasilung þrátt fyrir að rekstrarleyfi sé einnig fyrir þorsk og hefur leyfi á tveimur sjókvíaeldissvæðum Valþjófsdalur (A) og Ingjaldssandur (B). Í dag er eldi stundað við Valþjófsdal (A) en fyrirhugað er að hefja einnig eldi við Hundsá (B).

Í tilkynningunni segir að engar náttúrulegar laxár séu í Önundarfirði. Eldi ÍS47 sé fjarri þekktum laxveiðiám á Vestfjörðum og að regnbogasilungur getur ekki blandast öðrum laxfiskum sem finnast villtir á Íslandi.

Regnbogasilungsseiðin koma frá Ásmundarnesi í Bjarnafirði í Strandasýslu. Gert er ráð fyrir um 12% afföllum við eldi á regnbogasilungnum en allt að 17% við eldi á laxi. Eldisferill hverrar kynslóðar tekur 18-24 mánuði. Svæði er hvílt í 3 mánuði að lokinni slátrun áður en næsta kynslóð er sett út. Fram kemur að aukning ÍS47 um 600 tonn af regnbogasilungi og frjóum laxi muni hafa hverfandi áhrif í för með sér m.t.t. áhættu á erfðablöndun.

Verði fyrirhuguð aukning ekki talin vera matskyld getur fyrirtækið farið að sækja um leyfi fyrir aukinni framleiðslu.en annars verður fyrst að vinna umhverfismat.

Fyrirtækið Rorum ehf vann tilkynninguna fyrir ÍS 47 ehf.

Framtíðarfortíð: sýning Listasafns Ísafjarðar var opnuð á þjóðhátíðardaginn

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra var við opnun sýningarinnar. Mynd: Áslaug Helgudóttir.

Framtíðarfortíð Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar er fyrsta sýningin í röð sýninga sem marka samvinnu Listasafns Íslands og safna á landsbyggðinni. Sýningin var opnuð í Safnahúsinu á Ísafirði á þjóðhátíðardaginn, afmælisdegi Jóns Sigurðssonar sem fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, opnaði sýninguna.

Yfirskrift sýningarinnar Framtíðarfortíð (2023) er fengin úr heiti á myndlistarverki eftir Kristin E. Hrafnsson. Í hluta verksins má lesa setninguna Framundan: endalaus fortíð. Stafagerðin gefur til kynna að hún sé skrifuð af barni sem er nánast við upphaf ævinnar. Að baki: endalaus framtíð er annar hluti þessa sama verks og lokar sýningunni. Sú setning er rituð af gamalli, þjálfaðri hendi sem er að ljúka sinni lífsgöngu. Setningarnar í verkinu eru skrifaðar af raunverulegum manneskjum, hvorri á sínum enda ævinnar. Hver erum við? má spyrja. Erum við þau sömu ævina á enda?  

Sýningin er haldin til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar. Valin hafa verið verk úr safneign Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar og hvað það þýðir að vera þjóð.

Á sýningunni er meðal annars verk eftir Ólöfu Nordal en hún hefur beint sjónum að íslenskri menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar. Í verkaröðinni Das Experiment Island (2012) dregur hún fram í dagsljósið umfangsmikið lífsýnasafn dr. Jens Pálssonar (1926–2002), prófessors við Háskóla Íslands, sem stundaði mannfræðilegar rannsóknir á lifandi Íslendingum á síðari hluta 20. aldar.  

Með myndbandsverkinu Nýlendan (2003) eftir Ragnar Kjartansson má segja að annar tónn sé sleginn á sýningunni. Þar sést hvernig Íslendingurinn, sem leikinn er af listamanninum sjálfum, er húðstrýktur af dönskum draugfullum nýlenduherra. 

Sýningin stendur til 19. október 2024.

Frá opnun sýningarinnar.

Jóhanna Eva Gunnarsdóttir, sem var fjallkona á Ísafirði og Dagný Heiðdal, listfræðingur Listasafns Íslands.

Myndir: Safnahúsið.

Messuferð í Aðalvík á laugardaginn

Kirkjan að Stað í Aðalvík. Mynd: átthagafélag Sléttuhrepps.

Messað verður í kirkjunni að Stað í Aðalvík laugardaginn 22. júní kl. 14:30. Prestur er séra Magnús Erlingsson.

Bátur fer frá Sjóferðum kl. 10:30 og aftur til baka til Ísafjarðar kl. 22:30, með viðkomu á Látrum í báðum ferðum. 

Hægt er að bóka siglingu á heimasíðu Sjóferða, https://sjoferdir.is

Að lokinnu messu verður kaffi í Prestsbústaðnum á vegum Átthagafélaganna á Ísafirði og Reykjavík.

Um kvöldið verður svo ball i skólahúsinu á Sæbóli við undirleik Húsbandsins.

Skólinn verður opinn allan daginn og gestum er velkomið að borða nestið sitt þar.  

Allir sem ættir eiga að rekja til Sléttuhrepps og aðra áhugasamir eru hvattir til að nýta þetta einstaka tækifæri til að koma í dagsferð til Aðalvíkur og njóta samveru með ættingjum og vinum.

Jón Gunnar vann Landsbankamótið – Shiran efstur í Hamraborgarmótaröðinni

Landsbankamótið í golf fór fram á síðustu helgi en þar fór með sigur Jón Gunnar Shiransson með 40 punkta. Næstur kom Sævar Þór Ríkarðsson, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, með 39 punkta og Hákon Dagur Guðjónsson endaði í þriðja sæti einnig með 39 punkta. Nánari úrslit má finna hér.

Þrjár keppnir hafa farið fram í Hamraborgarmótaröðinni og er Shiran Þórisson í efsta sæti sem stendur. Næsta keppni er einmitt í kvöld og hefst kl 18:00.

Það er einnig nóg um að vera á næstunni því á laugardaginn hefst hin árlega Sjávarútvegsmótaröð með Hampiðjumótinu og er skráning hafin á Golfbox.

Á næstunni verður svo holukeppni Golfklúbbs Ísafjarðar og eru þegar 14 kylfingar skráðir til leiks en skráningarfrestur rennur út á sunnudaginn.

Blábankinn: fjögurra daga vinnustofa um nýtingu gervigreindar í ferðaþjónustu á Vestfjörðum

Blábankinn á Þingeyri ásamt Vestfjarðastofu munu standa fyrir SW24, fjögurra daga vinnustofu sem einblínir á nýtingu AI (gervigreindar) til að bæta ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Viðburðurinn fer fram frá 10. til 14. okt. og mun samanstanda af leiðandi sérfræðingum, ferðaþjónum og sveitastjórnum sem koma saman til að kanna og þróa nýstárlegar lausnir fyrir svæðið.

Persónulegar ferðaupplifanir: Vinnustofan mun kanna hvernig AI verkfæri geta hjálpað ferðaþjónum að bjóða upp á sérsniðnar ferðaupplifanir. Með AI er hægt að greina ferðamannagögn til að mæla með viðburðum, veitingastöðum og afþreyingu sem henta hverjum og einum.

Markaðssetning og auglýsingar: AI getur nýst til að greina markaðsgögn og búa til markvissar auglýsingaherferðir sem ná til rétts markhóps. Þetta eykur sýnileika Vestfjarða og laðar fleiri ferðamenn að svæðinu.


Rekstur og þjónusta: Með notkun AI geta ferðaþjónustufyrirtæki bætt rekstur sinn með því að nýta spágreiningar til að aðstoða við vöruþróun. Þetta tryggir betri nýtingu á auðlindum og aukið arðsemi.

Sjálfbærni í ferðaþjónustu: AI getur einnig hjálpað við að greina og minnka umhverfisáhrif ferðaþjónustu. Vinnustofan mun skoða leiðir til að mæla og stýra umhverfisáhrifum, sem stuðlar að sjálfbærari ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Þekkingar- og hæfniaukning: Þátttakendur í SW24 munu fá tækifæri til að læra af leiðandi sérfræðingum í AI og ferðaþjónustu. Þetta mun auka hæfni þeirra og færni til að nýta AI til fulls í rekstri sínum.

Samstarf og tengslamyndun: Vinnustofan býður upp á tækifæri til að mynda tengsl við aðra ferðaþjóna og sveitastjórnir, sem getur leitt til aukins samstarfs og nýrra verkefna.

Blábankinn hefur áður staðið fyrir vel heppnuðum viðburðum og SW24 er næsta skref í að styrkja ferðaþjónustu á Vestfjörðum með hjálp nýjustu tækni. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að bæta ferðaþjónustu, skilja betur eða bara mynda brýr á svæðinu að taka þátt og nýta sér þessi tækifæri.

Skráning er hafin  og eru öll velkomin að taka þátt.

Nánari upplýsingar má finna á startupwestfjords.is.

Dýrafjörður.

Noregur: dregur úr blöndun í laxveiðiám – í 90% ánna er blöndunin minni en 4%

Í nýútkominni skýrslu norsku Fiskistofunnar um eftirlit með laxveiðiám í Noregi kemur fram að dregið hefur úr blöndun milli villts lax og eldislax. Það er Hafrannsóknarstofnunin sem annast framkvæmdina í samstarfi við nokkra aðra aðila.

Frá 2014 hefur verið fylgst kerfisbundið með blöndun laxa í ánum. Í skýrslunni fyrir 2023 eru upplýsingar um 189 ár og reyndist blöndunin vera innan við 4% í 90% ánna eða í 171 ám. Er það hærra hlutfall en var 2022 þegar hlutfallið var 86%. Þá voru upplýsingar um 195 ár í skýrslunni.

Fyrsta árið 2014 voru 20% ánna með blöndun yfir 10% en síðan hefur það farið lækkandi og síðustu fjögur árin hefur svo mikil innblöndun verið í færri en 10% ánna.

Miðað er við hvað hvað margir laxar í hrygningarstofni viðkomandi ár eru blandaðir eldislaxi. Í áhættumati erfðablöndunar á Íslandi er miðað við að laxeldið leiði ekki til þess að hlutfallið fari yfir 4%.

Í fyrra reyndust stofnar í 9 ám í Noregi vera með blöndun á bilinu 4% til 10%. Eru það helmingi færri ár en árið áður þegar hlutfallið var 10%. Aðeins í 9 ám reyndist blöndunin vera meiri en 10% sem er 5% af ánum sem fylgst var með.

Á síðasta ári voru aðeins 1.537 eldislaxar sem skráðir voru í ánum sem er það minnsta sem verið hefur. Framleiðslan er um 1,5 milljón tonna af eldislaxi á ári.

Fjöldi eldislaxa sem sleppur hefur farið mjög lækkandi síðasta aldarfjórðunginn. Mest var það um 1,6 lax pr framleitt tonn en er síðustu ár að nálgast núllpunktinn.

Úr skýrslu norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar, Havforskningsinstituttet.

Lítil áhrif : úr 60% í 90% af ánum

Fyrsta árið var blöndun innan við 4% í 60% ánna en síðan hefur hlutfallið hækkað og á síðasta ári var svo lítil blöndun í 90% ánna eins og sést á myndinni að neðan úr skýrslunni og tekur til áranna 2014 – 2023.

Vesturbyggð: gjaldskrár halda gildi sínu

Patreksfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar í gær var samþykkt að gjaldskrár Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps haldi gildi sínu út fjárhagsárið 2024. Gjaldskrárnar voru samræmdar að mestu leyti við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024. Jafnframt samþykkti bæjarstjórn að ef vafi léki á um hvor gjaldskráin eigi að gilda þá gildir gjaldskrá Vesturbyggðar.

Sumarleyfi í tvo mánuði

Bæjarstjórnin samþykkti einnig að sumarleyfi bæjarstjórnar hæfist í dag, 20. júní og stæði til og með 20. ágúst nk. og á þeim tíma hafi bæjarráð heimild til fullnaðarafgreiðslu skv. 32. gr. samþykktar um stjórn Sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbygðar. Næsti fundar bæjarstjórnar verður 21. ágúst nk.

Kerecis völlurinn á Torfnesi að verða tilbúinn

Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur. Mynd: Ásgeir Hólm.

Vel hefur gengið að leggja gervigrasið á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði. Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður frá Verkís með verkinu sagði í samtali við Bæjarins besta í gær að gervigrasið væri komið niður og verið væri að setja festingu niður fyrir mörkin. Næsta verk verður að setja sand yfir grasið. Hann bjóst við því að búið yrði að merkja völlinn seinni partinn í dag og að hann yrði tilbúinn fyrir leikinn gegn Val á laugardaginn.

KSÍ sendir fulltrúa sína til þess að taka út völlinn og verður það væntanlega seinna í dag. Búist er við því að eftir úttektina verði gefin út leikheimild.

Jóhann Birkir segir að verkið hafi gengið vonum framar, þar veðrið var hagstætt meðan vinnan fór fram og margir sjálfboðaliðar voru tilbúnir til þess að leggja hönd á plóg.

Jóhann Birkir var einn þeirra sem tóku höndum saman og söfnuðu fyrir hitalögnum í völlinn sem voru settar í hann þrátt fyrir að Ísafjarðarbær hafi ákveðið að sleppa því. Bærinn samþykkti að styrkja verkið um 4,8 m.kr. og Orkubú Vestfjarða veitti 3 m.kr. styrk. Aðspurður segir Jóhann að aðrir hafi lagt fram 16 m.kr. til þess að af því yrði að leggja hitalagnirnar í völlinn, en hann vildi ekki upplýsa hverjir það voru, sagði aðeins að núna þegar fundist hafi heitt vatn í Tungudal væru allir fegnir að lagnirnar væru komnar í völlinn.

Jóhann Birkir Helgason.

Vesturbyggð og Gerður Björk ráðin bæjarstjóri

Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og Tálknafjarðar ákvað á fundi sínum í dag að ráða Gerði Björk Sveinsdóttur í starf bæjarstjóra. Formanni bæjarráðs var falið að ganga frá ráðningasamningi sem lagður verður fyrir bæjarráð til staðfestingar.

Þá samþykkti bæjarstjórnin einnig með sex atkvæðum að nafn nýja sveitarfélagið yrði Vesturbyggð. Einn bæjarfulltrúi, Jóhann Örn Hreiðarsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í könnun meðal íbúa um nafnið greiddu 347 atkvæði í könnuninni og eru niðurstöður þannig að 90,5% völdu nafnið Vesturbyggð. Það nafn sem fékk næstflest atkvæði var nafnið Suðurfjarðabyggð sem fékk 5,5% atkvæða.

Matvælastofnun gerir athugasemdir við landeldisstöð Arctic Smolt í Tálknafirði

Laxaseiði úr landeldisstöð Arctic Smolt í Tálknafirði lentu í sjónum í óhappi sem þar varð 24. maí.

Matvælastofnun  tók málið til rannsóknar eftir að svör frá fyrirtækinu eftir strokið gáfu tilefni til frekari athugana og fór í kjölfarið í óboðað eftirlit.

Matvælastofnun telur að ekki hafi verið til staðar nægjanlegur mannskapur til þess að sinna fyrsta viðbragði í kjölfar strokatburðar en samkvæmt upplýsingum voru tveir starfsmenn á svæðinu umrætt kvöld. Matvælastofnun telur að einungis hafi verið sinnt fyrstu viðbrögðum innanhús en ekki gætt að stroki við frárennsli.

Matvælastofnun telur ljóst að fiskeldisstöð sé ekki útbúin með seinni vörnum í frárennsli úr niðurföllum á gólfi og seiði hafi því átt greiða leið úr stöðinni.

Ljóst er að töluvert ferskvatn er fyrir utan stöð og líkur á að seiðin hafi lifað af og synt upp í Botnsá enda liðu rúmar 14 klst. frá strokatburði þar til net voru lögð.

Nýjustu fréttir