Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 62

Kindakjötsframleiðsla í sögulegu lágmarki

Framleiðsla á alifuglakjöti náði nýjum methæðum árið 2024 og fór í fyrsta skiptið yfir 10 þúsund tonn. Svínakjötsframleiðsla nam 6.756 tonnum sem gerir árið að fjórða stærsta framleiðsluári frá upphafi. Nautakjötsframleiðslan dróst lítillega saman en hefur haldist yfir 4.800 tonnum síðustu fjögur ár. Frá árinu 2008 hefur nautakjötsframleiðsla verið í nær stöðugum vexti.

Kindakjötsframleiðsla var hins vegar í sögulegu lágmarki og hefur aðeins einu sinni verið minni síðustu 40 ár eða árið 1997. Fjöldi sláturfjár var 447 þúsund og hefur ekki verið minni síðan 1954, þegar hann var 321 þúsund. Þrátt fyrir fækkun sláturfjár hefur meðalkjötmagn eftir hvern sláturgrip (fallþungi) aukist um 22% á sama tímabili.

Útflutningur á kindakjöti nam 2.048 tonnum, sem er lítillega meira en árið 2023, en er engu að síður næst minnsti útflutningur síðan árið 2008. Þá voru 331 tonn af hrossakjöti flutt út árið 2024.

Auglýsing
Auglýsing

Nýr vefur fyrir veðurspár í loftið í dag

óhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur nýjan vef í loftið í dag ásamt Hildigunni H.H. Thorsteinsson, forstjóra Veðurstofu Íslands. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson).

Fyrsti hluti af nýjum vef Veðurstofunnar fór í loftið í dag.

Þetta er fyrsta skrefið í umfangsmiklu verkefni sem snýr að endurnýjun á vefnum og öllu tækniumhverfi vefsins.

Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni gottveður.is

Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is

Í þessum fyrsta áfanga er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað.

Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá verið fjölgað verulega og smám saman mun þeim stöðum fjölga enn frekar.

„Núverandi vefur hefur þjónað okkur dyggilega í næstum 20 ár og því eru þetta mikil tímamót í dag“, segir Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum“.

„Það sem birtist í dag má segja að sé toppurinn á ísjakanum í algjörri endurnýjun á vefumhverfinu“.

„Mestu breytingarnar sem notendur taka sennilega eftir er að það er miklu betra að nota nýja vefinn í farsíma“, segir Hildigunnur.

Auglýsing
Auglýsing

Alþingi sett á morgun

Alþingi verður sett þriðjudaginn 4. febrúar. Þingsetningarathöfnin hefst kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, starfsaldursforseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu.

Biskup Íslands, séra Guðrún Karls Helgudóttir, þjónar fyrir altari ásamt séra Elínborgu Sturludóttur dómkirkjupresti. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna og prófastur í Suðurprófastsdæmi, prédikar. Guðmundur Sigurðsson dómorganisti stjórnar Kammerkór Dómkirkjunnar og leikur á orgel. Sigurður Flosason leikur á saxófón.

Að guðsþjónustu lokinni er gengið aftur til þinghússins og forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, setur Alþingi, 156. löggjafarþing. Strengjakvartett skipaður fiðluleikurunum Auði Hafsteinsdóttur og Matthíasi Stefánssyni, Þórhildi Magnúsdóttur víóluleikara og Örnólfi Kristjánssyni sellóleikara sér um tónlistarflutning við þingsetninguna.

Hlé verður gert á þingsetningarfundi til kl. 16:00 og þá verða m.a. flutt minningarorð, gerð grein fyrir áliti kjörbréfanefndar, kosinn forseti Alþingis og varaforsetar, kosið í fastanefndir og alþjóðanefndir og hlutað um sæti þingmanna.

Hljóðútsending verður frá messu og sjónvarpsútsending frá þingsetningarfundi á sjónvarpsrás og vef Alþingis. Sjónvarpsútsending verður einnig frá þingsetningarfundi á RÚV. Útvarpsútsending verður frá messu og þingsetningu á Rás 1.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 5. febrúar.

Alþingiskosningar fóru fram 30. nóvember á síðasta ári og verða á morgun liðnir 66 dagar frá kosningunum. Samkvæmt stjórnarskrá skal nýkjörið Alþingi koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar þ.e. 70 dögum.

Auglýsing
Auglýsing

Byggðakvóti Flateyri

Á síðasta fundi Bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var lagt til við bæjarstjórn að sérreglum um byggðakvóta verði óbreyttar frá árinu 2023-24. Á fiskveiðiárinu 2023-2024 lögðust niður nokkur störf hjá Walvis Ehf sem séð hefur um löndun og slægingu á Flateyri vegna hráefnisskorts, minnir að starfsemin hafi endanlega verið stöðvuð september 2024.

Nú er Byggðakvóti Flateyrar 2024-25 285 tonn eitthvað færist á milli ára þannig að hann er rúm 400 tonn. Nú er engin starfandi fiskvinnsla á Flateyri og engin löndunar þjónusta, hvað veldur jú meðal annars þessar sérreglur. Ef sett væri á löndunarskilda á þau skip sem ætluðu að nýta sé byggðakvótann á Flateyri og ekki frá því hvikað myndi það þýða að það þyrfti að landa rúmlega 800 tonnum á Flateyri það væri eitthvað til að hjálpa til við atvinnuuppbyggingu á Flateyri sem hlýtur að vera hlutverk Bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að gæta að atvinnustarfsemi í ÖLLUM byggðarlögum bæjarins.

Því til viðbótar mætti alveg setja löndunarskildu á Byggðastofnunarkvótann þar eru 400 tonn.  Flateyri er ekki Grímsey.

Það sætir mikillar furðu hjá mér að þrátt fyrir að það séu nokkrir bæjarfulltrúar úr Önundarfirði og að núverandi bæjarstjóri hafi búið og starfað í firðinum að það skuli ekki einusinni vera tekið samtalið um þetta og leitað lausna.

Ég skora hér með á alla bæjarfulltrúa og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar að funda á Flateyri um þetta mál áður en endanleg ákvörðun verður tekin, það gengur ekki lengur að það sem ætlað er til að skapa atvinnu á Flateyri geri það ekki.

Gísli Jón Kristjánsson

Auglýsing
Auglýsing

Ísafjarðarbær: 947 tonna byggðakvóti og óbreyttar reglur

Þigeyrarhöfn í júlí í fyrra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið hefu tilkynnt Ísafjarðarbæ að til byggðalaga í sveitarfélaginu hafi verið úthlutað 947 tonnum af botnfiski í byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári, ayk 169 tonna sem eru eftistöðvar af byggðakvóta síðasta árs, samtals 1.116 tonnum.

Bæjarráðið ákvað að sérreglur byggðakvóta Ísafjarðarbæjar verði eins fyrir árið 2024-2025, eins og þær voru 2023-2024.

Eftir því sem næst verður komist voru þær eins og reglurna fyrir fiskveiðiárið 2022/2023. Úthlutað er 1 tonni til hvers báts með frístundaveiðileyfi og því sem þá er eftir er skipt milli annarra báta sem til greina koma þannig að 40% er skipt jafnt og eftirstöðvum er skipt hlutfallslega milli báta eftir lönduðum afla á árinu 2021/2022.

Auglýsing
Auglýsing

Nýtt deiliskipulag fyrir Suðurtanga – fjórar lausar lóðir auglýstar

Nýtt deiliskipulag fyrir Suðurtanga á Ísafirði hefur verið auglýst í stjónartíðindum og hefur tekið gildi.

Í nýju deiliskipulagi Suðurtanga á Ísafirði eru samtals 21 nýjar lóðir. Búið er að gera samkomulag um úthlutun tveggja lóða. Annars vegar við Þrym hf. um lóðina Hrafnatanga 2 og hins vegar við Hraðfrystihúsið – Gunnvöru hf. og Háfell ehf. um Ásgeirsgötu 2. Þá er einnig gert ráð fyrir slökkvistöð við Suðurtanga 1 og Hampiðjan hf. hefur fengið Skarfatanga 6 úthlutað.

200 milljónir króna í gatnagerð

Í minnisblaði sem lagt var fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðabæja kemur fram að talsverður fjöldi lóðanna er ekki úthlutunarhæfur fyrr en að lokinni gatnagerð, á það sérstaklega við lóðir sem standa við Suðurtanga. Gert er ráð fyrir að kostnaður við gatnagerðina hlaupi á rúmlega 200 milljónum króna.

Kerecis hf. hefur lýst yfir áhuga á lóðum á Suðurtanga og hefur þar verið horft til lóðanna við Suðurtanga 24 og 26 og hefur Ísafjarðarbær staðið fyrir jarðvegsrannsóknum á lóðunum.
Einnig hefur komið til tals að Kerecis fái lóðina Æðartanga 4-6 en ekki liggur fyrir samkomulag við fyrirtækið um úthlutun og endanlega staðsetningu. Hábrún ehf. var með vilyrði um lóð við Hrafnatanga í eldra deiliskipulagi en óvíst er með áform fyrirtækisins og hvaða áhrif breytt skipulag hefur á þau.

Fjórar lóðir Hrafnatangi 4 og 6, og Æðartangi 9 og 11 eru tilbúnar til úthlutunar og var bæjarstjóra falið að setja þær á lista yfir lausa lóðir. Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur heimild til fullnaðarákvörðunar um málið.

Auglýsing
Auglýsing

Hafró: engar loðnuveiðar

Uppsjávarveiðiskipin Polar Ammassak og Aðalsteinn Jónsson hafa í samvinnu við Hafrannsóknastofnun verið við loðnumælingar suðaustan- og austan við land frá mánudegi til föstudags í síðustu viku. Markmiðið var að fá endurtekna mælingu á magn loðnu í megingöngunni á þeim slóðum til samanburðar við niðurstöður mælinga í vikunni á undan.

Bæði skipin fóru yfir allt svæðið eftir mismunandi leiðarlínum og því er um að ræða tvær óháðar mælingar á magninu þar. Bráðabirgða niðurstöður sýna ívið lægra mat á stærð veiðistofnsins en í mælingunni í vikunni á undan á sömu slóðum. Það er því ljóst að niðurstöðurnar munu leiða til óbreyttrar ráðgjafar um engar veiðar.

Þetta kemu fram í tilkynningu frá Hafannsóknarstofnun sem send var út um helgina.

Hafrannsóknastofnun ráðgerir að Árni Friðriksson fari til loðnuleitar norður að landinu öðru hvoru megin við næstu helgi. 

Auglýsing
Auglýsing

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn?

Framundan er landsfundur Sjálfstæðisflokksins þar sem við sjálfstæðismenn stöndum á ákveðnum tímamótum eftir það sem á undan er gengið. Ekki sízt með tilliti til forystumála flokksins. Við þurfum að geta sýnt kjósendum fram á það með trúverðugum hætti að um nýtt upphaf sé að ræða. Bæði þeim sem haldið hafa tryggð við flokkinn og ekki síður hinum sem ekki hafa talið sig getað haldið áfram að kjósa hann. Það verður ekki gert með því að bjóða upp á meira af því sama.

Mjög langur vegur er vitanlega frá því að allt sem gert hafi verið í nafni Sjálfstæðisflokknum á undanförnum árum hafi verið gagnrýnisvert. Hins vegar hefur fólk ríka tilhneigingu til þess að horfa fremur á það sem illa hefur tekizt til með en vel og því miður hefur þar verið af nógu að taka. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurheimta trúverðugleika sinn en til þess þurfa kjósendur trúverðuga ástæðu til að horfa til framtíðar í stað þess að einblína í baksýnisspegilinn.

Við getum þannig kosið formann sem verið hefur í framvarðssveit Sjálfstæðisflokksins um langt árabil og ber fyrir vikið sína ábyrgð á því hvernig haldið hefur verið á málum. Formann sem mun líklega þurfa að endurheimta eigin trúverðugleika áður en hann getur einbeitt sér að trúverðugleika flokksins. Eða við getum kosið formann sem getur skellt sér strax af öllu afli í það mikilvæga verkefni að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn og veita ríkisstjórninni kröftugt aðhald.

Vel til þess fallin að sameina flokkinn

Ég tel að bezti kosturinn í þeim efnum sé Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Ólíkt öðrum þeim sem helzt hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir formenn Sjálfstæðisflokksins hefur Guðrún ekki verið árum saman í stjórnmálum. Á þeim tíma sem hún hefur verið það hefur hún hins vegar stimplað sig rækilega inn sem framkvæmdamanneskja með bein í nefinu enda með mikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf meðal annars og ekki sízt að efla tengslin við atvinnulífið. Við þurfum formann sem bæði hefur skilning á hagsmunum almennings og þörfum atvinnulífsins, ekki sízt lítilla og meðalstórra fyrirtækja þaðan sem Guðrún kemur, og mikla reynslu af störfum innan þess. Aðrir sem helzt hafa verið nefndir í umræðunni sem mögulegir formenn eiga það hins vegar sameiginlegt að hafa nánast ekki reynslu af öðrum störfum en þátttöku í stjórnmálum.

Þar sem Guðrún á ekki að baki mjög langan feril í stjórnmálum, en engu að síður árangursríkan, er hún ekki brennimerkt einni fylkingu innan Sjálfstæðisflokksins umfram aðrar og fyrir vikið afar vel til þess fallin að sameina flokksmenn þvert á fylkingar. Guðrún er enn fremur af landsbyggðinni en hefur um leið verið í góðum tengslum við höfuðborgarsvæðið í gegnum tíðina. Hún er í raun hinn dæmigerði sjálfstæðismaður, frjálslyndur íhaldsmaður sem ann landi sínu og þjóð.

Sókn eða áframhaldandi varnarsigrar

Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að Sjálfstæðisflokkurinn verði mögulega í stjórnarandstöðu næstu fjögur árin. Í það minnsta næstu misserin. Ný ríkisstjórn stendur mun veikari fótum en forystumenn hennar vilja halda fram og sú staða mun að öllum líkindum aðeins þróast til verri vegar fyrir hana. Kosningar gætu fyrir vikið hæglega skollið á með skömmum fyrirvara innan ekki svo langs tíma. Flokkurinn þarf sem fyrst að vera undir það búinn og geta sótt fram.

Við þurfum þannig að sameina sjálfstæðismenn, endurheimta trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins og geta samstundis hafizt handa við að nýta til hins ítrasta þau sóknarfæri sem veik og sífellt veikari staða ríkisstjórnarflokkanna mun skapa. Við höfum einfaldlega hvorki tíma til þess né efni á því að bíða á meðan nýr formaður fer í það verkefni að reyna að sannfæra kjósendur um að hann standi fyrir nýtt upphaf þrátt fyrir að hafa verið í forystusveit flokksins árum saman.

Við sjálfstæðismenn höfum einfaldlega val um það á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að hefja strax sókn í kjölfar hans eða gera okkur líklega í bezta falli vonir um áframhaldandi varnarsigra eins og í síðustu þingkosningum. Valið á nýjum formanni hlýtur að snúast fyrst og fremst um það sem flokkurinn þarf til þess að verða aftur það forystuafl í íslenzkum stjórnmálum sem hann lengst af var í þágu lands og þjóðar. Ég er sannfærður um að sá valkostur sé Guðrún Hafsteinsdóttir.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Auglýsing
Auglýsing

Vestfirðir: vond veðurspá fyrir morgundaginn

Lögreglan á Vestfjörðum vekur í kvöld athygli á á slæmri veðurspá fyrir morgundaginn. En búast má við slæmu veðri strax í fyrramálið og síðdegis hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula veðurviðvörun fyrir okkar svæði, sem nær fram á þriðjudagsmorgun.

Hægt e að fylgjast með færðinni á vef Vegagerðarinnar umferdin.is.

Auglýsing
Auglýsing

Enn hvasst og ófærð á sunnanverðum Vestfjörðum

Ráðhús Vesturbyggðar.

Dynjandisheiði er lokuð og enn er hvasst á sunnanverðum Vestfjörðum. Snjó hefur tekið af vegum og eru hálkublettir en á Kleifaheiði er þungfært en mokstur stendur þar yfir.

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því að í gærkvöldi, eða um kl.22:45 lýsti Veðurstofa Íslands yfir hættustigi á Patreksfirði hvað varðar nálæg hús við Stekkagil. Í kjölfarið voru 7 hús rýmd. Eitt þessara húsa hýsa er atvinnuhúsnæði (bæjarskrifstofan á staðnum).

Alls voru 14 íbúar í þessum húsum og fóru nokkrir til vina og vandamanna en hinir í gistingu á vegum sveitafélagsins og RKÍ deildarinnar á staðnum. Rýming gekk vel og íbúar tóku henni með rósemd segir í færslu lögreglunnar.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir