Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 61

Vikuviðtalið: Jóhann Bæring Gunnarsson

Ég heiti Jóhann Bæring Gunnarsson og er uppalinn á Ísafirði. Ég er giftur Sædísi Maríu Jónatansdóttir framkvæmdastýru Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Saman eigum við fjögur börn, tengdason, tvö barnabörn og einn hund. Ég starfa í dag sem framkvæmdastjóri hjá Ístækni ehf. Foreldrar mínir eru Sigurborg Þorkelsdóttir athafnakona frá Keflavík og Gunnar Albert Arnórsson skipstjóri frá Ísafirði. Ég er einn af fjórum systkinum, númer tvö í röðinni. Tengdaforeldrar mínir eru Lilja Ósk Þórisdóttir umsjónarmaður í félagsstarfi eldri borgara í Súðavík og Jónatan Ingi Ásgeirsson skipstjóri.

Hjá Ístækni vinn ég með frábæru fólki að skemmtilegum verkefnum. Ístækni tók til starfa í lok síðasta árs og á þessum stutta tíma hafa verkefni framkvæmdastjóra verið afar fjölbreytt. Ístækni framleiðir sérhæfðan búnað fyrir matvæla- og lækningaiðnað og sjávarútveg svo eitthvað sé nefnt. Við veitum einnig þjónustu sem snýr að viðhaldi á búnaði. Ístækni hefur þau megin markmið að skila sem bestum árangri fyrir viðskiptavininn, að gera vandaða framleiðsluvöru og veita frábæra þjónustu. Það skemmtilegasta við starfið eru samskipti við viðskiptavini og samstarfsfólkið, ásamt því að sjá hvernig hugmynd verður að fullbúinni lausn. Ég lít á það sem forréttindi að vinna í svona skapandi umhverfi með hópi af fólki sem býr yfir mikilli sérþekkingu og reynslu í að finna lausnir fyrir viðskiptavini okkar.

Fyrir utan vinnuna ver ég tíma með fjölskyldunni en mér finnst ég vera orðinn stórríkur af börnum og barnabörnum. Ég stunda útivist og gönguferðir með konu minni ásamt því að fara á svig- eða fjallaskíði þegar ég get. Einn af mínum uppáhalds stöðum á Vestfjörðum yfir vetrartímann er Botnsdalur í Súgandafirði sem er paradís fyrir þá sem stunda fjallaskíði. Á sumrin förum við hjónin í gönguferðir í góðra vina hópi og höfum gert það árlega í rúm 20 ár. Flestar af þessum ferðum eru farnar með allan búnað á bakinu í nokkra daga. Það er mjög endurnærandi. Síðasta haust byrjuðum við að hjóla og fórum í okkar fyrstu hjólaferð erlendis þegar við hjóluðum hluta af Jakobsveginum. Það var mögnuð upplifun og vonandi munum við geta klárað þá leið sem fyrst. Svo er ég virkur í Framsóknarfélaginu og sit í stjórn Skógræktarfélags Ísafjarðar. Einnig hef ég verið virkur í ýmsu íþrótta- og foreldrastarfi fyrir börnin mín í gegnum árin.

Við Djúpið: hádegistónleikar í Edinborgarhúsinu

Halldór Smárason.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið stendur yfir á Ísafirði þessa dagana. Í hádeginu verður Ísfirðingurinn Halldór Smárason með tónleika í Edinborgarhúsinu ásamt hinum ameríska Ellis Ludwig-Leone. Þeir kynntust á tónlistarhátíðinni Við Djúpið 2012 og urðu nánir vinir. Ári síðar flutti Halldór til New York á heimaslóðir Ellis og nam þar tónsmíðar. Síðan þá hafa þeir haldið góðu vináttu- og tónlistarsambandi og skipa sér nú saman í lið undir heitinu Tvífarar. Á tónleikunum hljóma tónsmiðar eftir þá félaga í þeirra flutningi. Þeim til stuðnings verða söngkonurnar Herdís Anna Jónasdóttir og Eliza Bagg.

Aðgengi að Bryggjusalnum er gott. Miðasala á netinu og við innganginn. Hátíðarpassi gildir. Miðaverð 1.000 kr.

Tónleikarnir hefjast kl 12:10 og standa til kl 12:50.

Í kvöld verða þeir félagar svo á Dokkunni frá kl 22.

Við getum öll orðið að liði

Hvers virði er það að eiga sér tungumál? Á Íslandi ríkir talsverð meðvitund um að vernda þurfi íslenskuna og kannski þess vegna virðist hverri kynslóð tamt að ætla að þær sem á eftir koma séu á góðri leið með að glutra henni niður. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri ógn sem steðjar að örmáli á tímum alþjóðavæðingar og það má kannski segja að um leið og einangrun okkar sem eyþjóðar sleppti þá hafi málið verið í ákveðinni hættu, þó síðan séu liðin allnokkur ár. Í því samhengi sem öðru er vert að minnast á að tungumál eru ekki steinsteyptar einingar þess óhagganlega. Tungumál eru lifandi og á meðan þau eru notuð þá halda þau áfram að þróast – og lifa. Íslenskan á því mikið undir því að við höldum áfram að nota hana.

Ísland er ekki lengur einangruð lítil eyja í norðri með læsum og skrifandi kotbændum sem reiða sig á mátt orðsins sem andans fóður öðru fremur. Við erum hluti af heiminum og heimurinn er hluti af okkur. Í áraraðir hefur nú fólk sem fæðst hefur í öðrum löndum flust hingað og auðgað samfélögin með kröftum sínum. Hér á Vestfjörðum nær sú saga yfir aldirnar. Síðustu áratugi hefur fjöldi innflytjenda þó aukist talsvert, en ég hef ekki upplifað annað hér á Vestfjörðum en við séum stolt af því að vera hluti af því fjölmenningarsamfélagi sem hér þrífst. Lengi vel vorum við sá landshluti sem státaði af flestum innflytjendum og strax upp úr aldamótum var farið að efna til ýmissa viðburða til að fagna fjölmenningunni. Fagna því að samfélögin byggði allskonar fólk sem legði til við að gera lífið hér auðugra með því að gefa okkur persónulega glugga inn í framandi menningarheima.

Hér hefur margt verið gert til að hlúa að fjölmenningarsamfélaginu og var til að mynda rétt upp úr aldamótum stofnað Fjölmenningarsetur. Það var til að geta veitt fólki sem sest hér að sem besta þjónustu til að það mætti sem best geta orðið hluti af samfélaginu en þyrfti ekki að hanga úti á jaðrinum, óstutt og einangrað. Síðustu ár hefur verið ráðist í nokkur eftirtektarverð verkefni sem styðja við ferli inngildingar af alúð. Má þar nefna Tungumálatöfra sem er sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn og verkefnið Gefum íslensku séns. Ég hef fengið að koma aðeins að báðum þessum verkefnum og verð að segja að ég tek ofan fyrir brautryðjendunum sem komu þessum fallegu verkefnum á koppinn. Á báðum stöðum hef ég fengið að sjá fólk spreyta sig á íslensku og öðlast meira sjálfstraust til að beita henni. Á báðum stöðum er líka gleðin við völd og mistökum er fagnað, því hvernig eigum við svo sem einhvern tímann að geta talað íslensku án þess að sú vegferð sé vörðuð allra handa ambögum. Við ættum að fagna þeim.

Það er nefnilega þannig í pottinn búið með Gefum íslensku séns að verkefnið er alls ekki bara ætlað þeim sem vilja læra íslensku heldur þeim sem tala hana. Því allir þeir sem þegar tala íslensku geta sannarlega verið notadrjúgir kennarar þegar kemur að máltileinkun nýrra íbúa – burtséð frá öllum kennararéttindum, því eins og mikið var imprað á við upphaf verkefnisins þá erum við öll almannakennarar. Ég vil því hvetja alla málhafa (þá sem þegar tala íslensku) til að sperra eyrun og taka þátt í verkefnum á vegum átaksins. Við getum öll lagt rækt við að vernda okkar ástkæra, ylhýra tungumál með því að beita því og verða að liði í máltileinkun annarra. Við getum alltaf spurt okkur: Er ég hluti af vandamálinu eða er ég hluti af lausninni? Með því að taka virkan þátt í máltileinkun annarra af höfðingsskap en ekki með háði getum við öll verið hluti af lausninni – íslenskunni til heilla.

Höfundur: Anna Sigríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu og fyrrum verkefnastjóri Tungumálatöfra og kennari hjá Gefum íslensku séns

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Patrekshöfn: strandveiðar 391 tonn í maí

Frá löndun úr strandveiðibát í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Alls barst að landi í Patrekshöfn 391 tonn af um 50 strandveiðibátum í maímánuði. Er það ívið meiri afli strandveiðibáta en í Bolungavíkurhöfn og er Patrekshöfn líklega aflahæsta höfn stranveiðibáta í mánuðinum.

Af öðrum afla var landað 274 tonnum. Patrekur BA var á dragnót og kom með 205 tonn í 14 veiðiferðum. Sjö bátar voru á grásleppuveiðum og lönduðu samtals 69 tonnum.

Oddvitaskipti í Reykhólahreppi

Jóhanna Ösp Einarsdóttir er oddviti í Reykhólahreppi.

Á miðvikudaginn var á dagskrá sveitarstjórnar að kjósa oddvita til eins árs skv. samþykkt um stjórn Reykhólahrepps. Árný Huld Haraldsdóttir hefur verið oddviti og gaf hún kost á sér áfram. Auk hennar gaf Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti kost á sér. Leynileg kosning fór fram og hlaup Jóhanna 3 atkvæði og Árný 2 atkvæði. Var Jóhanna ösp því réttkjörin nýr oddviti.

Við kjör varaoddvita gaf Árný Huld ekki kost á sér og var Hrefna Jónsdóttir kjörin varaoddviti með öllum greiddum atkvæðum.

Skemmtiferðaskip: 453 m.kr. í tekjur til Ísafjarðarhafna í fyrra

Norwegian Prima var í Ísafjarðarhöfn um daginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í skýrslu Reykjavík Economics, sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, að áætlaðar tekjur Ísafjarðahafna í fyrra af komu skemmtiferðaskipa hafi verið 453 m.kr. Heildartekjur voru 630 m.kr. og eru nærri því 3/4 teknanna af skemmtiferðaskipum. Alls komu 187 skip með um 184 þúsund farþega.

Komum skemmtiferðaskipa til hafna Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað um 78% frá árinu 2018 til ársins 2023 og farþegum hefur fjölgað um 152%.

Efnahagslegu áhrifin 775 – 5.000 m.kr.

Lagt er mat á efnahagsleg umsvif af komu skemmtiferðaskipa til hafnar í skýrslunni og stuðst við þrjár kannanir um eyðslu farþega. Elst er könnun GP Wild frá 2018 og tvær eru frá síðasta ári, annars vegar könnun Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, RMF, og hins vegar greining Cruise Lines International
Association (CLIA). Samkvæmt þeim er meðaleyðsla pr farþega 4.210 kr. í könnun RMF, 21.000 kr. í CLIA könnuninni og 27.027 kr. í könnun GP Wild.

Miðað við þær forsendur og að í fyrra komu 184 þúsund farþegar til Ísafjarðahafna þá eru efnahagslegu áhrifin talin hafa verið frá 775 m.kr. upp í 5 milljarða króna.

Í öllum tilvikum eru áhrif á Ísafirði þau þriðju mestu á landinu á eftir Reykjavík og Akureyri.

Heildar efnahagslegu áhrifin á landinu öllu eru talin vera á bilinu 22 – 30 milljarðar króna af komu skemmtiferðaskipa á síðasta ári. Tekjur hafnanna voru 3,4 milljarðar króna á síðasta ári og tvöfölduðust frá árinu 2022.

Áætluð efnahagsleg áhrif á síðasta ári skv. könnun GP Wild.

Bættir lánamöguleikar fyrir unga bændur

Frá undirritun samningsins í fjármálaráðuneytinu

Ungir bændur, viðkvæm byggðalög og frumkvöðlafyrirtæki leidd af konum hafa nú aðgang að lánsfjármagni með sveigjanlegum skilmálum frá Byggðastofnun.

Undirritaður hefur verið samningur á milli Evrópska fjárfestingarsjóðsins (EIF) og Byggðastofnunar um bakábyrgðir að upphæð allt að 3,2 milljörðum króna vegna lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Verkefnið er stutt af InvestEU áætlun Evrópusambandsins. Samningurinn tekur við af öðru samkomulagi sem rann út um áramótin. Veitt voru um 30 lán til ungra bænda vegna kynslóðaskipta undir því samkomulagi.

Sögur af Haukdælum

Sunnudaginn 23. júní kl: 20:00 verða sagðar sögur af Haukdælum og úr Haukadal í Dýrafirði í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal.

Þetta er létt spjall með myndum þar sem rifjaðar verða upp minningar, frásagnir og heimildir um byggðina í dalnum, þorpið og fólkið sem bjó þar, mannlíf, framkvæmdir og nýsköpun atvinnu í upphafi íslenskrar heimastjórnar.

Sögumaðurinn, Bjarni Guðmundsson frá Kirkjubóli, hefur skoðað ýmsar heimildir um Haukadal á árunum um og upp úr fyrri aldamótum. Bjarni var nemandi í Haukadalsskóla 1952-1954 og farkennari þar 1960-1961.

Hús leikhússins var vígt sem samkomuhús árið 1936 en hefur verið í eigu Kómedíuleikhússins síðan árið 2005.

Lundastofninn í hættu

Samkvæmt nýjustu gögnum um stöðu lundastofnsins þá hefur lunda fækkað mikið á síðustu 30 árum. Þetta sýna gögn frá Náttúrustofu Suðurlands, sem sér um vöktun lundastofnsins við Íslandsstrendur.

Það er því mikilvægt að gætt sé hófs við lundaveiðar og sölu á lundakjöti.

Við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir lundastofninn fékk Umhverfisstofnun nýverið tvo óháða sérfræðinga, Dr. Fred A. Johnson og Dr. Carl Walters, til að rýna gögn Náttúrustofu Suðurlands og hugsanleg áhrif veiða á lundastofninn.

Helstu niðurstöður eru  þær að langtímafækkun lundastofnsins á Íslandi sé líklega vegna uppsafnaðra áhrifa veiða og óhagstæðra umhverfisaðstæðna, til að mynda hás sjávarhita. Hlýskeið í Atlantshafi síðustu þrjá áratugi hefur valdið því að minna framboð er af helstu fæðu lundans. Líkur eru leiddar að því áframhaldandi veiðar, sambærilegum þeim sem hafa áður verið, muni valda frekari fækkun í viðkvæmum stofninum.

Rúmur milljarður til uppbyggingar öldrunarþjónustu

Rúmlega einum milljarði króna hefur verið úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þetta er hæsta úthlutun úr sjóðnum til þessa.

Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Veitt voru framlög til 73 verkefna á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið. Við úthlutun lagði stjórn Framkvæmdasjóðsins áherslu á verkefni sem stuðla að bættum aðbúnaði og auknu öryggi íbúa. Þar má nefna breytingu tvíbýla í einbýli, endurbætur á einkarýmum og sameiginlegum rýmum íbúa, bætta aðstöðu til endurhæfingar og þjálfunar, greiðara aðgengi innanhúss og utan og ýmis fleiri öryggismál auk almennra viðhaldsverkefna.

Af einstökum verkefnum sem hlutu framlag úr sjóðnum í ár má nefna 91 milljón króna til nýbyggingar við Hjúkrunarheimilið Skjólgarð á Höfn þar sem verður framleiðslueldhús og fjölnotasalur. Þá fær dvalarheimilið Naust í Langanesbyggð um 106 milljónir króna til viðbyggingar við heimilið og endurbóta innan- og utanhúss. Enn fremur fær hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík samtals um 140 milljónir króna til endurbóta á baðherbergjum, endurnýjunar á lyftu og vegna viðamikilla framkvæmda á loftum og lýsingu. Hjúkrunarheimilin Grund og Eir fá bæði framlög til að breyta tvíbýlum í einbýli, auk framlaga til ýmissa fleiri viðhalds- og endurbótaverkefna.

Eftirtaldar framkvæmdir á Vestfjörðum fengu úthlutun að þessu sinni:


Ísafjarðarbær, Hlíf Framkvæmdir á hreinlætisaðstöðu á Hlíf 2.193.200
Ísafjarðarbær, Hlíf Bættur aðbúnaður í mötuneyti 1.192.985
Ísafjarðarbær, Hlíf Carendo rafknúinn sturtustóll 210.602
Ísafjarðarbær, Hlíf Innri endurbætur 5.850.030

Nýjustu fréttir