Sunnudagur 1. september 2024
Síða 6

Dagverðardalur: Fjallasýn tekur við af Fjallabóli

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að fyrirtækið Fjallasýn taki við  samningi um afnot af landi milli Ísafjarðarbæjar og Fjallabóls ehf. á Dagverðardal. Fyrirtækin eru í eigu sama aðila Friðfinns Hjartar Hinrikssonar.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Fjallaból eru eignir fyrirtækisins, sem er fyrir 2022, 269 m.kr. en skuldir 290 m.kr. Fjallasýn ehf er ekki skrá fyrir neinum eignum og skuldum en var gert upp fyrir 2022 með 1,3 m.kr. tapi.

Samningur Fjallabóls og Ísafjarðarbæjar er frá 2022 og heimilar fyrirtækinu að reisa allt af 50 frístundahús á skipulagsreit I9 á Dagverðardal. Áætlað er að mannvirkin verði tilbúin eigi síðar en í október 2036.

Víðidalur: laxveiðiréttindi leggja bújarðir í eyði

Skjáskot úr Bændablaðinu.

Í bændablaðinu sem kom út 15. ágúst er viðtal við ung hjón Ásgeir Ósmann Valdemarsson og Karen Ósk Guðmundsdóttir sem keyptu Litlu-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu í apríl 2022 og reka þar kúabú bæði mjólkurframleiðslu og holdanaut. Láta þau vel af tekjumöguleikum.

Þau segja að það hafi verið lán að tekjur jarðarinnar af laxveiðiréttindum í Víðidalsá séu ekki miklar. Það hafi gert kaupverðið á jörðinni viðráðanlegt.

„Það er fullt af frábærum jörðum hérna allan dalinn sem er búið að leggja í eyði út af þessari laxveiðiá hérna,“ segir Ásgeir í viðtalinu. Hann segir að nóg sé til að fólki sem vilji komast í búskap.

Vestri: tap á Hlíðarenda en mikil barátta

Knötturinn í marki Vals eftir þrumuskot Gunnars Jónasar Haukssonar. Skjáskot/Visir.is

Karlalið Vestra lék í gær á Hlíðarenda í Reykjavík við Val og mátti þola tap í miklum baráttuleik. Strax í byrjun leiks var einum varnarmanni Vestra vísað að velli og lék liðið einum færri nánast allan leikinn. Dómurinn um brottvikninguna var býsna harður og Davíð Smári Lamude þjálfari Vestrasagði eftir leikinn að rauða spjaldið hefði verið býsna ódýrt og bara galin ákvörðun. Davíð Smári sagði liðið hafa sýnt mikla baráttu og hafði aldrei gefist upp þrátt fyrir mótlætið.

Engu að síður náði Vestri forystunni á 12. mínútu með góðu marki Gunnars Jónasar Haukssonar. Valsmenn náðu að jafna leikinn fyrir leikhlé og sóttu svo ákaft í síðari hálfleik. Um miðjan seinni hálfleikinn náði Valur forystunni. undir lok leiksins fór Vestri að taka meiri áhættu og sækja og þegar komið var fram í uppbótartíma munaði litlu að liðið kæmist í áskjósanlegt færi en Valsmenn náðu boltanum og fóru í skyndisókn sem skilaði marki þar sem fáir voru til varnar. Lokatölur 3:1 fyrir Val.

Fylkir lék einnig í gær og tapaði sínum leik. Fyrir vikið er Vestri enn í 10. sæti og fyrir ofan fallsæti. HK er í 11. sæti með jafnmörg stig og Vestri og leikur í kvöld við Stjörnuna. Næsti leikur Vestra er á Ísafirði næsta sunnudag á Kerecis vellinum gegn Fylki. Fylkir er í neðasta deildarinnar einu stigi á eftir Vestra svo um er að ræða alvöru fallslag.

Evrópusambandið styrkir vistkerfi í íslenskum ám

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur auglýst eftir umsóknum um styrki frá Evrópusambandinu vegna verkefna sem miða að því að hreinsa ár og styrkja vistkerfi þeirra.

Hægt er að sækja um styrki vegna margvíslegra verkefna sem tengjast ám og hér er hægt að sjá dæmi um verkefni sem hægt er að nýta sem innblástur eða til að endurtaka. Styrkir geta verið allt að 100.000 Evrur sem er um 15 m.kr. og er umsóknarfrestur til 16. október.

Það eru sveitarfélög eða landshlutasamtök þeirra sem geta sótt um.

Verkefnið er sprottið upp úr átaki átta Evrópusambandslanda til þess að bæta vistkerfi Dónár, sem rennur um löndin og er ærlunin að nýta þekkingu og reynslu sem þar fékkst til úrbóta í öðrum löndum. Að átakinu komu stjórnvöld landanna, háskólar og áhugasamtök segir í kynningarefni um átakið.

Fimm prósent af alþingismanni

Fámennasti þingflokkurinn á Alþingi eins og staðan er í dag, Miðflokkurinn, telur einungis tvo þingmenn af 63 eða sem nemur rétt rúmlega 3% af heildarfjöldanum. Vitanlega er það ekki ávísun á mikil áhrif þó vissulega megi segja að flokkurinn eigi „sæti við borðið“ eins og það er kallað. Hins vegar er vægi Miðflokksins margfalt á við það vægi sem Ísland hefði allajafna innan Evrópusambandsins kæmi til inngöngu landsins í það.

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins við ákvarðanatöku á vettvangi þess tekur þannig í langflestum tilfellum mið af íbúafjölda þeirra. Til að mynda yrði vægi Íslands í ráðherraráði sambandsins einungis um 0,08% eða á við það að eiga 5% hlutdeild í þingmanni á Alþingi. Á þingi sambandsins yrði staðan eilítið skárri. Þar hefði landið sex þingmenn af 720 eins og staðan er í dag. Hliðstætt við að hafa hálfan þingmann á Alþingi.

Hvað varðar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eiga ríki þess í raun ekki fulltrúa í henni. Þeir sem þar sitja eru fyrst og síðast embættismenn sambandsins enda óheimilt að draga taum heimalanda sinna. Hliðstætt á til að mynda við um forseta þings Evrópusambandsins. Einstaklingurinn sem vermir það sæti hverju sinni er ekki fulltrúi heimalands síns heldur einungis þingflokksins sem hann tilheyrir innan þingsins.

Danir þurftu að refsa Færeyingum

Mörg dæmi eru um það að margfalt fjölmennari ríki en Ísland hafi orðið undir í ráðherraráði Evrópusambandsins þegar miklir hagsmunir þeirra hafa verið í húfi. Líkt og þegar Írar urðu um árið að sætta sig við makrílsamning við Færeyinga þvert á eigin hagsmuni eða þegar Danir urðu að taka þátt í refsiaðgerðum sambandsins gegn Færeyjum, hluta af danska konungdæminu, vegna síldveiða Færeyinga í eigin lögsögu.

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrðum við Íslendingar eftirleiðis einfaldlega að vona að þær ákvarðanir sem teknar yrðu á vettvangi þess væru okkur hagfelldar enda ljóst að þær yrðu seint teknar með íslenzka hagsmuni og aðstæður í huga og að við yrðum ekki lengur við stjórnvölinn í þeim efnum. Þó einhverjar þeirra gætu mögulega hentað sæmilega skipti vitanlega mestu þegar sú yrði ekki raunin.

Málflutningur talsmanna þess að Ísland gangi í Evrópusambandið breyttist ekki að ástæðulausu fyrir 15-20 árum síðan úr því að landið þyrfti að ganga þar inn til þess að hafa áhrif yfir í tal um áðurnefnt „sæti við borðið“. Það er jú engin trygging fyrir því að hlustað yrði á þann sem þar sæti. Sérstaklega ekki þegar hægt væri að taka nánast hvaða ákvörðun sem er án þess að viðkomandi einstaklingur gæti haft áhrif á það.

Lokaskrefið evrópskt sambandsríki

Milliríkja- og alþjóðasamstarf miðast allajafna við það að ríki sitji við sama borð þegar teknar eru ákvarðanir. Eitt ríki, eitt atkvæði. Áherzla Evrópusambandsins á íbúafjölda þegar vægi ríkja þess er annars vegar er hins vegar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan sambandsins í átt að einu ríki. Fjöldi þingmanna hvers ríkis Bandaríkjanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings miðast til dæmis við íbúafjölda þeirra.

Fram kom þannig í Schuman-ávarpinu 1950, sem markaði upphaf samrunans innan Evrópusambandsins og forvera þess, að fyrsta skrefið væri að koma kola- og stálframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokaskrefið evrópskt sambandsríki. Síðan þá hafa jafnt og þétt verið tekin fleiri skref á þeirri vegferð. Nú síðast var til dæmis lögð áherzla á áframhaldandi þróun í þá átt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands.

Hver þróunin hefur verið innan Evrópusambandsins og hvert hún stefnir er eðli málsins samkvæmt lykilatriði þegar rætt er um sambandið og hvort rétt væri fyrir Ísland að verða hluti þess. Þá er ekki síður mikilvægt hver staða landsins yrði innan Evrópusambandsins þegar kæmi að því að hafa áhrif á ákvarðanir. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er einu sinni setið við sama borð.

Hjörtur J. Guðmundsson
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Hesteyri: slökkviliðið gerir engar athugasemdir

Læknishúsið á Hesteyri.

Fram kom á bb.is í síðustu viku að slökkvilið Ísafjarðarbæjar hefði fallist á leyfi fyrir 16 manna gististað í Læknishúsinu á Hesteyri með fyrirvara þó.

Hermann Hermannsson hjá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar segir að tafist hafi hjá slökkviliðinu að gera sína úttekt á staðnum fyrri hluta sumar vegna anna og erfiðleika við að fá far norður. Var því ákveðið að gefa jákvæða umsögn með fyrirvara til þess að tefja ekki útgáfu rekstrarleyfisins.

Slík afgreiðsla telst til undantekninga hjá sjökkviliðinu. Eftirlitsmaður komst norður nokkrum dögum síðar. „Úttektin var án athugasemda þ.e allar eldvarnir voru í lagi.“ segir Hermann.

Súðavíkurhlíð: talin hætta á skriðuföllum

Frá Súðavíkurhlíð. Ekki ný mynd.

Vegagerðin telur hættu á skriðuföllum á Súðavíkurhlíð vegna mikillar úrkomu.

Búið er að opna veginn norður í Árneshrepp, en þar er þó áfram hætta vegna skriðufalla og grjóthruns. 

Á Snæfjallastrandarvegi frá Skjaldfönn að Unaðsdal eru talsverðar skemmdir á vegi vegna vatnavaxta.

Strandabyggð: auglýstir frístundastyrkir

Íþróttamiðstöðin á Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Strandabyggð veitir foreldrum/forráðamönnum barna og ungmenna á aldrinum 6 að 18 ára, styrki vegna íþrótta- og frístundaiðkunar. Meginmarkmið íþrótta- og frístundastyrkja er að stuðla að aukinni hreyfingu og félagsþátttöku barna í sveitarfélaginu.

Styrkur er veittur vegna æfinga- og þátttökugjalda fyrir börn á aldrinum 6 að 18 ára með lögheimili í Strandabyggð.

Styrkhæft er hvers konar reglulegt íþrótta- og frístundastarf. Fjárhæð styrks er ákveðin ár hvert í sveitarstjórn að fengnum tillögum frá tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd. Styrkur nemur aldrei hærri fjárhæð en sem nemur greiddum gjöldum.

Styrkur árið 2024 er 30.000 kr.

Umsóknir vegna æfingagjalda frá 1. september  til 31. ágúst  þurfa að berast í síðasta lagi 15. september ár hvert til skrifstofu Strandabyggðar á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is.

Styrkir eru greiddir fyrir lok október.

Samgöngustyrkir til opinberra starfsmanna

Í Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geri samning við Strætó um niðurgreidd fargjöld (samgöngustyrki).

Miðað er við að fyrirkomulaginu sé stillt upp í tvo áfanga, annarsvegar að frá árinu 2029 þá munu 10% starfsmanna nýta sér fyrirkomulagið og í síðari áfanga árið 2031 aukist hlutfallið í 15%. Gert er ráð fyrir að fjöldi starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum sé um 31.000, um 17.500 hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og 13.000 sé starfsmannafjölda ríkisins sé á höfuðborgarsvæðinu.

Í fyrri áfanga fyrirkomulags er gert ráð fyrir að niðurgreiðsla tímabilskorta nemi 216 m.kr.. á ári, nýti 10% starfsmanna sér fyrirkomulagið og nemur framlag starfsmanna 180 m.kr.

En áætlun gerir ráð fyrir að útsöluverð 12 mánaða tímabilskorta til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga muni vera 35.000 kr. í síðari áfanga fer framlag ríkis og sveitarfélaga í 324 m.kr. og framlag starfsmanna í 270 m.kr.

Áhrifin eru talin verða þau að sala á 12 mánaða kortum, almennum mánaðarkortum og stakra almennra fargjalda muni minnka og tekjur dragast saman. Á móti komar tekjur frá starfsmönnunum sem nota sér niðurgreiddu fargjöldin. Samanlagt er gert ráð fyrir aukningu tekna Strætó. Fyrst um 235 m.kr. á ári og svo um 352 m.kr. á ári.

Sandeyri: engar leirur og sjávarfitjar

Kort sem sýnir afstöðu kvínna undan Sandeyri, dýpi og fjarlægð frá landi. Kringur utan um kvíarnar er með 115 m radíus, en það er vegalengd frá stórstraumsfjöruborði sem tilheyri landareign.

Í gögnum kærumáls landeiganda Sandeyrar fyrir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál eru ýmiss gögn sem varpa ljósi á samskipti kæranda við opinbera aðila.

Eitt af því sem Katrín Oddsdóttir, lögmaður Gunnars Arnar Haukssonar, landeiganda greip til var að á landi hans Sandeyri við Snæfjallaströnd væru leiru- eða sjávarfitjasvæði sem falli þar með skýrlega undir verndarákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga. Óvissa væri um hvort byggingarframkvæmdin ( þ.e. útsetning eldiskvíanna undan Sandeyri) hefði áhrif á leirurnar og sjávarfitin og því yrði að framkvæma vettvangsrannsókn til þess að skera út um það.

Vísaði Katrín til svara frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem sagði að ekki væri til skráningar og því ekki hægt að útiloka þessar vistgerðir væru til staðar á Sandeyri.

Þó segir í svari stofnunarinnar: „Við getum ekki staðfest að þarna sé um að ræða leiru- eða sjávarfitjasvæði. Samkvæmt vistgerðakorti Náttúrufræðistofnunar eru ekki skráðar leirur eða sjávarfitjar á Sandeyri.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnunin, sem gaf svo út byggingarleyfið fyrir kvíunum, sendi erindi til Arctic Fish og spurði hvort mat hefði farið fram á því hvort vistkerfi i formi sjávarfitja eða leira séu á svæðinu sem félagið sótti um byggingarleyfi.

Arctic Fish fékk Rorum til þess að svara erindinu. Í greinargerð Rorum kemur fram að sjávarfitjar séu aðeins skráðar á tveimur stöðum við Ísafjarðardjúp utan Jökulfjarða. Annars vegar innst í Skutulsfirði og hins vegar við Nauteyri. Fitjarnar séu í 15 km og 25 km fjarlægð frá eldissvæðinu. Þá séu leirur að finna á tveimur svæðum, við Kaldalón og við Nauteyri. Fjarlægð sé a.m.k. 15 km frá eldissvæðinu. Þá beri að hafa í huga að sjávarfitjar og leirur séu við fjöruborð en kvíarnar séu í a.m.k. 40 metra dýpi og þaðan af meira.

„Það er því með öllu ómögulegt að slík mannvirki geti með nokkru móti haft áhrif á vistgerðirnar sjavarfitjar og leirur.“ segir í svari Rorum.

Ekki verður séð að frekar hafi verið rætt um þetta atriði eftir þessi afgerandi svör frá Rorum ehf.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun endaði svo á því að tilkynnan landeigandanum að eldið væri utan landareignar hans og hann því ekki aðili máls og gaf út í framhaldinu byggingarleyfið fyrir eldiskvíarnar. Sem var svo staðfest með niðurstöðu úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál í síðustu viku.

Lögmaðurinn hélt engu að síður áfram tilraunum sínum til þess að stöðvar framgang leyfisveitingarinnar. Krafðist þess tvívegis að umboðsmaður Alþingis tæki málið til skoðunar, krafðist þess að HMS afturkallaði útgefið leyfi og gerði einnig kröfu á Skipulagsstofnun um að stöðva málið. Allt var þetta árangurslaust. Umboðsmaður Alþingis sagðist ekki geta tekið fyrir mál sem væru ekki útkljáð í stjórnkerfinu og kæruréttur væri til staðar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafnaði því að afturkalla byggingarleyfið , sagði það vera í samræmi við lög og að kærandi væri ekki málsaðili. Ekkert að að finna um svör Skipulagsstofnunar en væntanlega hefur stofnunin ekkert aðhafst.

Nýjustu fréttir