Mánudagur 28. október 2024
Síða 6

Sjö taka þátt í prófkjöri Pírata í NV kjördæmi

Framboðsfrestur í prófkjöri Pírata rann út klukkan 16:00 á sunnudag og hófst prófkjörið á sama tíma. Kosningin mun standa til klukkan 16.00 í dag, þriðjudag.

Á landsvísu eru alls 69 í framboði en í Norðvesturkjördæmi eru sjö í framboði.

Það eru eftirtalin: Agga Ragnheiður Steina Ólafsdóttir, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, Sunna Einarsdóttir, Sigríður Elsa Álfhildardóttir, Pétur Óli Þorvaldsson, Magnús Kr Guðmundsson og Herbert Snorrason.

Könnun Maskínu: mikil dreifing fylgis í Norðvesturkjördæmi

Fylkið dreifist verulega milli flokkanna í Norðvesturkjördæmi og eiga átta flokka mökuleika á að fá mann kjörinn í næstu Alþingiskosningum samkvæmt októberkönnun Maskínu sem Morgunblaðið greindi frá í gær.

Samkvæmt könnuninni fengju sex flokkar kjördæmafjörinn þingmann, einn hver. Það eru Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins.

Ekki langt undan eru Viðreisn og Píratar og virðast þeir eiga möguleikaa.

Vinstri grænir og Lýðræðisflokkurinn eru hins vegar alllangt frá því að eygja möguleika á kjördæmakjörnum þingmanni.

Ekki eru birtar fylgistölur en samkvæmt súluriti sem fylgir með fréttinni í Morgunblaðinu fengi Miðflokkur 16% atkvæða, Sjálfstæðisflokkur 15%, Framsókn 13%, Samfylking 12%, Sósíalistaflokkur 9,5%, Flokkur fólksins 9%, Viðreisn 8%, Píratar 7% og Lýðræðisflokkurinn og Vinstri grænir 4% hvor.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.772, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar. Könnunin fór fram dagana 2. til 18. október 2024.

Hver er maðurinn og hvað vill hann upp á dekk?

Björn Bjarki Þorsteinsson.

Á fjölmennu kjördæmisþingi Sjálfstæðismanna sunnudaginn 20. október sl. hlaut undirritaður kosningu í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar sem fram fara þann 30. nóvember 2024. Fyrir þann stuðning er ég afar þakklátur og mun nálgast komandi verkefni bæði af auðmýkt en ekki síður metnaði fyrir hönd kjördæmisins alls.

Frá unga aldri hef ég tekið þátt í pólitísku starfi en aldrei hef ég setið á framboðslista í Alþingiskosningum. Ég var oddviti Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Borgarbyggðar í 12 ár og í 16 ár sat ég samfellt í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ég taldi að ég væri hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum og í raun pólitík en í júlí 2022 bauðst mér starf sveitarstjóra í Dalabyggð og það skemmtilega starf og þau verkefni sem ég hef tekist á við í Dölunum hafa kveikt þann neista í huga mér að ég ákvað að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslista D-listans í kjördæminu víðfeðma.

Í 15 ár gegndi ég starfi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi og sat jafnframt í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í 10 ár, lengst af sem varaformaður stjórnar en seinustu misseri þeirrar stjórnarsetu gegndi ég hlutverki formanns. Sú reynsla sem ég hlaut af starfi í heilbrigðisgeiranum mun nýtast mér vel auk þeirrar reynslu sem ég hef af vettvangi sveitarstjórnarmála. 

Það hefur verið afar gefandi og skemmtilegt að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem við höfum verið í undanfarin rúmlega tvö ár í Dölunum. Kraftur og samkennd einkennir samfélagið og hef ég reynt eftir fremsta megni að vekja athygli á þeim innviðum sem þarfnast úrbóta við í Dölunum og í raun út um allt land í samstarfi og samráði við mína umbjóðendur. Ég tel mig ekki vera að hlaupast frá borði með því að gefa kost á mér til setu á Alþingi og mögulega yfirgefa mitt góða starf því á Alþingi gefast tækifæri til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins áfram en í víðari mynd með því að hafa kjördæmið og í raun landið allt undir.

Mitt leiðarstef snýr fyrst og síðast að aðstæðum okkar íbúa kjördæmisins alls og hvernig lífsskilyrði við viljum búa við og hvernig við búum að atvinnulífinu. Þar kemur megininntak og grunnstef Sjálfstæðisstefnunnar sterkt inn í mínum huga, stétt með stétt, og frelsi einstaklings til athafna, þann kjarna þurfum við að nálgast í störfum okkar, þau okkar sem mögulega veljast til setu á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins út um land allt.

Kjördæmið er bæði víðfeðmt og atvinnulíf fjölbreytt. Staða bænda stendur mér nærri nú eftir að ég hóf störf í Dalabyggð sem er ein af matarkistum landsins ef svo má segja, líkt og mörg önnur svæði innan kjördæmisins, við þurfum að ná fram ásættanlegum lífsskilyrðum fyrir þá sem í þeirri grein starfa líkt og í öðrum atvinnugreinum.

Efnahagsmál og hvernig haldið er á þeim skipta miklu máli og að mínu mati eru gríðarleg tækifæri til þess að nýta fjármuni með skilvirkari hætti en nú er gert í ríkisrekstrinum. Einnig er mitt hjartans mál allir dýrmætu innviðirnir okkar og skiptir þá engu hvar borið er niður fæti, í heilbrigðismálum, vegamálum, menntamálum, raforkumálum, umhverfismálum og áfram mætti telja. Það er svo sannarlega verk að vinna til að bæta aðbúnað, í kjördæminu öllu, sama í hvaða horni er. 

Ágæti lesandi, til glöggvunar á því hvað ég hef m.a. verið að brölta síðustu misseri til að vekja athygli á málstað Dalabyggðar og í raun landshlutans og landsbyggðarinnar allrar hef ég m.a. ritað greinar til að vekja athygli á ákveðinni mismunun sem við í Norðvesturkjördæmi búum við sem má nálgast hér.

Við hlökkum til að hitta ykkur um allt kjördæmi

Ég mun leggja mig fram um að verða þingmaður kjördæmisins alls, hlusta eftir sjónarmiðum íbúa, atvinnulífs, sveitarstjórna og allra annarra hagsmunaaðila því í mínum huga er þingmannsstarfið fyrst og síðast þjónustuhlutverk í þágu skattgreiðenda og landsmanna allra.

Ágæti lesandi, það er verk að vinna og við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, sem öll erum búsett í kjördæminu og munum búa þar áfram, erum svo sannarlega tilbúin til að berjast fyrir hagsmunum kjördæmisins á komandi misserum og árum. Það munum við gera í samstarfi við ykkur kjósendur og hlökkum til að hitta ykkur og eiga samtal um allt kjördæmi á næstu vikum.

Björn Bjarki Þorsteinsson

Undirritaður skipar 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og gegnir starfi sveitarstjóra í Dalabyggð.

Strandabyggð: sveitarstjóri hafði bein afskipti af rannsókn KPMG

Á meðan á rannsókn KPMG á greiðslum sveitarfélagsins til Jóns Jónssonar og tengdra fyrirtækja stóð, hafði Þorgeir Pálsson oddviti og sveitarstjóri Strandabyggðar afskipti af rannsókninni.  Strandabyggð var verkkaupi að þessari úttekt sem var skilað 30. september. Forsagan var að Jón fór fram á óháða rannsókn vegna ásakana starfsmanna Strandabyggðar, Þorgeirs og konu hans, í garð Jóns um meinta sjálftöku hans á fjármunum úr sveitarsjóði upp á rúmar 60 milljónir. Jón tilkynnti um að hann myndi krefjast íbúakosningar um slíka rannsókn, en sveitarstjórn samdi þá við hann um að KPMG gerði úttekt á öllum greiðslum og styrkjum til Jóns og stofnana þar sem hann sat í stjórn á sama tíma og hann var í sveitarstjórn.

Í samþykkt sveitarstjórar 9.7. 2024 þar sem þetta var ákveðið segir að gera eigi „úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.“ Þá segir í samþykktinni að leggja eigi mat á „hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar.“ Samþykktin frá sveitarstjórnarfundinum 9. júlí var síðan send KPMG sem verklýsing.

Tæpum hálfum mánuði fyrir lokaskiladag skýrslunnar sendir Þorgeir sem oddviti og sveitarstjóri tölvupóst til KPMG um efnistök í skýrslunni og útvíkkar athugunina og vill að skoðað verði eðli styrkveitinganna, eðli samnings og mótframlag. Fer hann einnig fram á að styrkveitingarnar verði skoðuð í samhengi við fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Þetta eru athyglisvert afskipti í ljósi þess að Þorgeir lýsti sig vanhæfan til umfjöllunar um málið og vék af fundi og einnig þegar skýrslan sjálf var tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi í október.

Svo virðist sem að einhverju leyti hafi verið tekið tillit til óska Þorgeirs við skýrslugerðina sjálfa. Þannig er til dæmis fjallað um framlög sveitarfélagsins og þjónustusamninga við sjálfseignarstofnanirnar Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum, jafnvel á þeim tíma þegar Jón Jónsson var hvorki í stjórn þeirra, né í sveitarstjórn.

Niðurstaða KPMG varð engu að síður að ekki væri annað að sjá en að greiðslur til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar og að Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.

Safnahúsið Ísafirði: Marga fjöruna sopið

Ólöf Dómhildur
23.10 2024
Stigagangur Safnahússins við Eyrartún

Sýningin Marga fjöruna sopið verður opnuð miðvikudaginn 23. október 2024, kl. 17:00 á stigagangi Safnahússins við Eyrartún. Sýningin er hluti af menningar- og listahátíðin Veturnóttum á Ísafirði sem fer fram dagana 24.-27. október.

Marga Fjöruna Sopið er orðatiltæki sem táknar visku og þroska af fenginni reynslu. Sjórinn brotnar á mjúkum líkama hennar, þrýstist í sandinn, seytlar gegnum yfirborðið og gleypir strandlengjuna. Rís, breiðir úr sér, skarast. Það sem leynist undir yfirborðinu mun birtast. Breytt. Opinberað. Blautt. Höfuð stendur upp úr vatninu. Sólargeislar skína á hálflokuð augun þar sem hún horfir upp úr bláum boga sem skiptir líkama hennar í tvennt. Kampavín í krystal. Sætar búbblur leita á sprungnar varir. Saltur andvari finnur bragðið af hlátri. Lífinu fagnað með sopa. Fyrir neðan sparka fætur gegn þungu, sleikjandi salti. Gamalt sár stingur. Enginn tími til að stoppa. Ljósgeisli liðast í gegnum vatnið. Spegilmynd brostinna brosa leitar augna til að blinda. Öðruvísi sjón til að lifa af. Fjör í myrkrinu.

ÓLÖF Dómhildur (1981) útskrifaðist af myndlistarbraut frá Listaháskólanum í Reykjavík árið 2006, af ljósmyndabraut frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 2008 og í Hagnýtri menningarmiðlun 2015. Ólöf Dómhildur hefur unnið mikið með ljósmyndina sem miðil og í verkum sínum skoðar hún staðalímyndir og kynjaðar samfélagshugmyndir.

Aðgangur ókeypis
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Íþróttafélagið Hörður: sakar bæjarskrifstofuna um að vinna gegn félaginu

Bragi Axelsson.

Bragi Axelsson, forsvarsmaður íþróttafélagsins Harðar á Ísafirði segir að gegn ákveðnum aðilum sé alltaf unnið á bæjarskrifstofunum. Hann segir í tölvupósti að úthlutun tíma í íþróttahúsinu fari fram með ómálefnalegum hætti. Krafðist hann þess að bæjarstjóri hefði afskrifti af málinu.

Arn Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri sagðist í svari til Braga ekki átta sig „nákvæmlega hvað þú ert að gefa í skyn með þessum orðum þínum um ákveðna aðila á bæjarskrifstofum. Ég get ekki séð annað en að starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafi starfað af fagmennsku og komið með tillögur að tímaröðun sem endurspegla sjónarmið sem flestra.“

Bragi var ekki ánægður með svarið og kallar það kerfissvar. Segir hann að „starfsmaður tengdur félagi sá um úthlutun – sá starfsmaður er fyrrverandi stjórnarmaður og núverandi afleysingarþjálfari í einu félagi.“ og bætir svo við:

„Þú veist alveg hvað ég á við – það er ákveðin óvild tiltekinna starfsmanna í minn garð, Gísla Jóns og fleiri þegar á reynir. Getur látið eins og þú kannist ekki við en við vitum bæði að svo er.“

Loks segir í póstinum frá Braga:

„Þetta mál mun hafa eftirmála fari þetta svona. Það eru kosningar eftir 2 ár og fari svo að íþróttafélag geti ekki haft sína starfsemi hér á svæðinu er það ekki falleg kynning.
Ísafjarðarbær getur ekki farið vel útúr því að eitt félag þurfi að gefa út fréttatilkynningar um að það verði að draga lið úr keppni því sveitarfélagið vilji ekki gera neitt fyrir það.“

Þá segir Bragi Axelsson í öðrum pósti til sviðsstjóra skóla- og íþróttasviðs:

„Persónuleg heift þín og ykkar þarna á skrifstofunni virðist ætla að tryggja það að börn sem vilja stunda handbolta fá ekki að æfa.“

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra til skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar að starfsfólki skóla- og tómstundasviðs hafi borist um 70 póstar frá stjórnarmanni Harðar síðan um miðjan ágúst 2024 vegna tímaúthlutunar í íþróttahúsum til aðildarfélaga HSV.

starfsmenn upplifa óöryggi og vanlíðan vegna ásakana

Nefndin færði til bókar að fylgt hafi verið við úthlutun tíma í íþróttamannvirkjum Ísafjarðarbæjar úthlutunarreglum Ísafjarðarbæjar sem samþykktar voru 29. febrúar 2024 og bætti við:

„Nefndarmenn eru hugsi yfir framgöngu forsvarsmanna handknattleiksdeildar knattspyrnufélags Harðar gagnvart starfsmönnum skóla- og tómstundasviðs sem hafa upplifa mikið óöryggi og vanlíðan vegna þeirra ásakana sem koma fram í tölvupóstsamskiptum forsvarsmanna Harðar og umræðum á samfélagsmiðlum, sem eiga við engin rök að styðjast.“

Súðavík: rafmagnslaust og varaafl bilaði

Horft yfir Álftafjörð til Súðavíkur. Mynd: Gönguhátíð.

Súðavíkurlína leysti út skömmu fyrir kl. 11 í gærmorgun og var rafmagnslaust til kl 14.17 þegar tókst að koma varaaflsvél Orkubús Vestfjarða í gang. Að sögn Halldórs Magnússonar varð vélarbilun í varaaflinu sem tók nokkurn tíma að komast fyrir.

Súðavíkurlína er enn biluð þar sem starfsmenn Orkubúsins komust ekki upp á Rauðkoll sem er ofan Sauradals vegna veðurs.

Halldór var vongóður um að tækist að tengja Súðavíkurlínu í dag.

Arna Lára áfram bæjarstjóri

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að Arna Lára verði áfram bæjarstjóri fram að kosningum og þangað til muni kjörnir fulltrúar og embættismenn hlaupa undir bagga. Hann vill ekkert segja um framhaldið eftir kosningar. „Ég óska henni alls hins besta í uppstillingunni og kosningunum, enda hefur samstarf okkar verið með miklum ágætum.“

Gylfi svaraði ekki spurningu Bæjarins besta um það hvort hann myndi taka við starfinu.

Arna Lára sagði að ákvörðun um framboð væri tekin í góðu samtali við hennar fólk í Í-listanum. „Við tökum bara eitt skref í einu og sjáum hvernig málin þróast næstu daga. Stjórn bæjarins gengur vel og ekkert sem knýr á um breytingar að svo stöddu, enda hefur listi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi ekki verið samþykktur.“

Samfylkingin: samkeppni um efstu sætin

Gylfi Þór Gíslason, Ísafirði.

Gylfi Þór Gylfason, Ísafirði tilkynnti nú síðdegis að hann gæfi kost á sér í efstu sæti lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjödæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

„Ég hef verið virkur í Jafnaðarflokki Íslands í tugi ára. Starfaði lengi með Alþýðuflokki og er núna formaður Samfylkingarinnar á Vestfjörðm og formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Í þessum stjórnum hef ég látið verkin tala og komið þessum félögum á kortið. Eins og tekið hefur verið eftir er Samfylkingin á góðu skriði undir forystu Kristrúnar Frostadóttur. Ég brenn fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunar eins og allir vita sem mig þekkja. Ég er tilbúinn í slaginn ef ég fæ til þess brautargengi.“

Á laugardaginn gaf Hannes S. Jónsson, Akranesi kost á sér fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi. „Ég gef kost á mér á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 30. nóvember næstkomandi og sækist ég eftir því að vera í öðru af tveimur efstu sætum listans.“

Hannes var áður í Sjálfstæðisflokknum en segist hafa sagt skilið við hann fyrir nokkru. „Með nýrri forystu Samfylkingar hefur flokkurinn hrist upp í pólitíkinni og fært jafnaðarflokkinn aftur nær fólkinu í landinu. Ég tel að við sem þjóð þurfum á traustri forystu að halda á þessum tímum sem við lifum. Samfylkingin býður upp á opinská stjórnmál og nýtt upphaf fyrir Ísland.“

Fyrr í dag tilkynnti Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ um framboð sitt og sagðist hafa ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. „Ég hef verið lengi virk í Samfylkingu og verið hluti af forystu flokksins síðustu ár. Saman höfum við breytt Samfylkingunni og fært hana nær fólkinu í landinu. En nú er kominn tími á breytingar við stjórn landsins. Við erum til þjónustu reiðubúin, fáum við til þess traust hjá þjóðinni, og ég vil mitt af mörkum á Alþingi.“

Uppstillingarnefnd er að störfum og er búist við því að hún skili af sér tillögu um skipan listans í vikunni.

Arna Lára á leið í framboð

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jóns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Ísa­fjarðar, hef­ur ákveðið að gefa kost á sér til þess að leiða lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi. 

Arna Lára hefur undanfarna daga verið sterklega orðuð við framboð fyrir Samfylkinguna.

Hún segir að ákvörðunin um að fara í framboð hafi ekki verið auðveld, enda sé gaman í vinnunni og gott að fylgjast með Ísafjarðarbæ vaxa og dafna.

Hún  vonast til þess að ákvörðun uppstillingarnefndar muni liggja fyrir í lok vikunnar.

Nýjustu fréttir