Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 6

Bíldudalsvegur : ekki kominn á verkhönnunarstig

Mynd af Bíldudalsvegi í samgönguáætluninni frá 2020.

Framkvæmdir við veginn frá flugvellinum innan við Bíldudalsvog í Arnarfirði og upp á Dynjandisheiði eiga að hefjast á þessu ári samkvæmt samþykktri og gildandi samgönguáætlun Alþingis fyrir árin 2020 – 2034. Framkvæmdum á að vera lokið árið 2029. Staða verksins er þannig að búið er að ljúka frumdrögum, sem er fyrsta hönnunarstigið, en vegurinn er ekki kominn á verkhönnunarstig. Verkið er ekki fullhannað nema að litlum hluta segir í svörum Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

Ný tillaga að langtíma samgönguáætlun 2024 – 2038 var lögð fram á Alþingi í byrjun október 2023. Þar er lagt til að seinka framkvæmdum við Bíldudalsveg, 30 km. og og að verkið verði unnið á árunum 2029-2033. Kostnaður er áætlaður 6.500 milljónir króna er tekið fram að nokkur óvissa sé í áætluninni.

Ekki náðist samkomulag um afgreiðslu nýju samgönguáætlunarinnar og dagaði málið uppi á Alþingi vorið 2024 og hefur ekki verið lagt fram að nýju.

Samgönguáætlunin sem samþykkt var í júní 2020 er því enn í gildi. Verkið ætti því að vera fullhannað nú og jafnvel búið að bjóða verkið út.

Ljóst er því að Vegagerðin miðar undirbúning við tillöguna sem ekki var samþykkt en fer ekki eftir ákvörðun Alþingis um að hefja verkið í ár.

-k

Svæðisskipulag Vestfjarða í mótun

Frá því er greint á vefsíðu Vestfjarðastofu að í lok desember voru gefin út frumdrög Svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050 sem lýsa niðurstöðu samráðs við íbúa og aðra aðila sem fram fór á fyrri hluta síðasta árs. Þar segir að „ljóst er að trú íbúa og sveitarfélaga er að vöxtur samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum á síðustu árum muni halda áfram með fjölgun íbúa, eflingu innviða og öflugra atvinnulífi.“

Svæðisskipulag Vestfjarða verður fyrsta heildstæða skipulagsáætlunin um þróun samfélags á Vestfjörðum og að því standa öll sveitarfélögin á Vestfjörðum í gegnum Fjórðungssamband Vestfirðinga. Það er VSÓ ráðgjöf og Úrbana skipulagsráðgjöf sem sjá um gerð Svæðisskipulags Vestfjarða fyrir Fjórðungssambandið og svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða.

Við gerð frummatsins var ákveðið að vinna með ólíka valkosti samfélagsþróunar næstu 25 árin, byggða á spám um mannfjöldaþróun. Í frumdrögunum er að finna umfjöllun um þær framtíðarmyndir sem lagðar voru til grundvallar í skipulagsvinnunni. Þær voru upphaflega fimm og vísaði heiti þeirra til veðrabrigða: mótvindur, andvari, meðbyr, gustur og ofsi. Þessar framtíðarmyndir voru svo speglaðar við sviðsmyndir sem voru unnar fyrir Vestfirði, „Vestfirðir á krossgötum“ og við lýðfræðilega þróun samfélaga á Íslandi og Norðurlöndum.

íbúar verði 10.000 árið 2050

Meðbyr þótti líklegastur til að raungerast og spá um mannfjöldaþróun verði hin sama og á landsvísu og gerir m.a. ráð fyrir að íbúum hafi fjölgað um 38% árið 2050 og verði þá um 10.000. Það sem íbúar vildu helst sjá rætast var gustur, en hann kveður m.a. á um íbúafjölgun um 2,5% ár hvert sem er umfram mannfjöldaspá á landsvísu. Með þessa niðurstöðu voru framtíðarmyndirnar mótvindur og ofsi teknar út og unnið áfram með andvara, meðvind og gust.

Sveitarstjórnarfólk á 69. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Bjarnafirði sl. haust, kaus um andvara, meðbyr og gust til að verða viðmið við mótun svæðisskipulagsins. Óhætt er að segja að kosningin hafi verið æsispennandi. Andvari komst ekki á blað, en meðbyr sigraði með 51% greiddra atkvæða og gustur kom fast á hæla hans með 49%.

Frumdrög svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050 má nálgast hér. Frumdrögin munu nú leggja línurnar hver verða næstu skref í mótun svæðisskipulagsins og hvernig á að útfæra stefnumótun í samræmi við framtíðarsýn og lykilatriði frumdraganna. 

Bíldudalur: framleiðslumet Ískalk

Halldór forstjóri og Josie við veislutertuna.

Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal fagnaði í gær góðum árangri á síðasta ári. Sett var nýtt framleiðslumet og voru framleidd rúmlega 82.000 tonn af kalkþörungum til útflutnings á árinu 2024. Eru það um 1.000 tonnum meira en fyrra metárið sem er frá 2022.

„Af því tilefni fögnuðum við með okkar starfsfólki og verktökum í dag með því að gæða okkur á fallegri og gómsætri tertu“ sagði Halldór Halldórsson, forstjóri Ískalk. „Við erum þakklát starfsfólki okkar fyrir að leggja sig fram við að gera þetta mögulegt.“

Um þrjátíu manns starfa hjá verksmiðju Kalkþörungafélagsins. Árlegar tekjur félagsins eru nálægt 2 milljörðum króna. Félagið hefur gert samninga um nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík, sem mun vinna úr kalkþörunganámum í Ísafjarðardjúpi og áformað er að hefji starfsemi á árinu 2027. Nýja verksmiðjan á að geta framleitt úr 125.000 m3 á ári og er vinnustaður fyrir 20-25 manns auk afleiddra starfa.

Ewa er gæðaeftirlitsmaður í fyrirtækinu.

Almar framleiðslustjóri og Josie sem sér um öll þrif og hefur starfað í ein 15 ár hjá fyrirtækinu.

Myndir: aðsendar.

Nýir starfsmenn Byggðastofnunar

Í byrjun desember sl. auglýsti Byggðastofnun eftir sérfræðingi á þróunarsvið stofnunarinnar. Alls bárust 18 umsóknir, 11 frá konum og sjö frá körlum. Nú hefur verið ákveðið ráða Hebu Guðmundsdóttur og Sigfús Ólaf Guðmundsson, segir á heimasíðu Byggðastofnunar.

Heba er með BSBA gráðu í viðskiptafræði frá University of Southern Mississippi og viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Heba hefur starfað sem verkefnisstjóri í atvinnu-, menningar- og kynningamálum fyrir sveitarfélagið Skagafjörð síðastliðin sjö ár. Í starfinu hefur hún m.a. komið að vinnu við Sóknaráætlun Norðurlands vestra og unnið með opinberum stofnunum og samtökum sem tengjast atvinnu- og byggðaþróun. Heba hefur víðtæka reynslu í viðburðastjórnun, verkefnastjórnun, samningagerð, þekkingarmiðlun og stefnumótun á sviði atvinnu- og byggðamála og þekkir vel þær áskoranir sem byggðir landsins standa frammi fyrir.

Sigfús er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og lýkur MS gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun frá Háskólanum á Bifröst vorið 2025. Sigfús hefur starfað við verkefnastjórn síðan 2012 og síðustu sex ár verið deildarstjóri atvinnu-, menningar- og kynningamála hjá sveitarfélaginu Skagafirði. Á sviði atvinnu- og byggðamála hefur hann m.a. haft umsjón með byggðakvóta, gerð húsnæðisáætlunar og verið í miklum samskiptum og samstarfi við atvinnulífið s.s. ferðaþjónustuna auk þess að sjá um kynningar á fjárfestingatækifærum. Starf hans sem deildarstjóri felur einnig í sér skýrsluskrif, áætlanagerð og þekkingarmiðlun. Þá hefur Sigfús leitt stefnumótun og innleiðingu á stafrænni þróun og upplýsingatækni fyrir sveitarfélagið.

Fær styrk til að kanna sjálfboðaliðastarf og áhættustýringu á Íslandi

Christoph Pfülb meistaranemi

Christoph Pfülb, meistaranemi á öðru ári í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur hlotið rannsóknarstyrk frá Byggðastofnun fyrir lokaverkefnið sitt „Sjálfboðaliðastarf og áhættustýring á Íslandi: Rannsókn á hlutverki staðartengsla og staðbundinnar þátttöku í björgunarsveitum og hjálparstarfi“.

Christoph mun vinna með leiðbeinendum sínum, Dr. Jóhönnu Gísladóttur og Dr. Matthias Kokorsch, sem hafa mikla reynslu á þessu sviði í gegnum CliCNord-verkefnið.

Christoph segir að hann hafi fengið innblástur fyrir rannsókninni í gegnum tvö námskeið sem hann tók hjá Háskólasetri sem hluti af meistaranáminu. Námskeiðin voru Fólkið og hafið: Landfræðilegt sjónarmið sem er kennt af Dr. Kokorsch og Bjargráð við hamförum sem er kennt af Dr. Uta Reichardt. Christoph hefur lengi haft áhuga á mannúðarstarfi og áhættustýringu vegna náttúruváar enda hefur hann lengi verið félagi í þýsku björgunarsamtökunum DLRG.

„Ísland stendur frammi fyrir ólíkum tegundum af náttúruvá og er sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, sem geta aukið hættu á hamförum,“ segir Christoph. „Viðbrögð við neyðartilvikum byggja að miklu leyti á staðbundnu sjálfboðaliðastarfi, einkum í dreifbýli.“

Styrkurinn frá Byggðastofnun mun standa straum af kostnaði við rannsóknina, svo sem hugbúnaði fyrir gagnaúrvinnslu og ferðakostnaði vegna viðtala við sérfræðinga. „Þótt verkefnið krefjist ekki mikilla fjárfestinga veitir styrkurinn mér svigrúm til að einbeita mér algjörlega að ritgerðinni og nýta niðurstöðurnar sem best,“ segir Christoph

Aukið viðbúnaðarstig vegna jarðhræringa í Ljósufjöllum

Veðurstofan mun auka vöktunarstig við Ljósufjöll vegna vaxandi skjálftavirkni á svæðinu undanfarnar vikur.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur, segir í samtali við fréttavefinn Vísi, það vera sérstakt að skjálftavirkni mælist svo lengi á jafnmiklu dýpi og raunin er nú. Skjálfti að stærðinni 2,9 varð við Grjótárvatn í morgun.

„Við erum semsagt að meta það sem svo  að þetta kalli á að við hækkum vöktunarstig hjá okkur varðandi Ljósufjöll og Ljósufjallakerfið. Það er ekki algengt að við fáum skjálfta á svona miklu dýpi eins og við erum að sjá við Grjótárvatn, þeir eru á 15-20 kílómetra dýpi, og það eru vísbendingar sem benda til þess að þetta séu einhvers konar kvikutengdar hreyfingar. Gos á þessu svæði hafa ekki verið algeng, þau hafa verið á fjögur hundruð ára fresti að meðaltali. Þetta eru lítil hraungos eða lítil sprengigos á stuttum sprungum. Þannig að áhrifin af þessu yrðu mjög takmörkuð “ segir Salóme.

Þverhyrna er ný fiskitegund á íslensku hafsvæði

Þverhyrna (Lophodolos acanthognadus). Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Fyrir nokkru lauk árlegu haustralli Hafrannsóknastofnunar en í þeim leiðangri er meðal annars togað á miklu dýpi eða allt að 1400 metrum.

Þegar togað er svona djúpt finnast fjölmargar tegundir sem eru lítt þekktar þótt sumar séu nokkuð algengar. Einnig fást sjaldgæfar tegundir og sumar þeirra hafa fundist aðeins nokkrum sinnum á þeim 25 árum sem haustrallið hefur farið fram.

Í haustralli ársins veiddist tegundin þverhyrna (Lophodolos acanthognadus) í fyrsta sinn í íslenskri efnahagslögsögu og getur hún því hér með talist til íslenskrar fiskafánu..

Þverhyrna tilheyrir hyrnuætt af ættbálki kjaftagelgna en flestir fiskar þessa ættbálks eru djúpfiskar, ýmist botnfiskar eða botn- og miðsævisfiskar.

HVEST: mannauðsstjórinn á förum

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Auglýst hefur verið laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra mannauðs hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Framkvæmdastjóri mannauðs heyrir undir forstjóra og er hluti af framkvæmdastjórn. 

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri staðfestir við Bæjarins besta að Hanna Þóra Hauksdóttir,mannauðsstjóri sé á förum en verði í starfi út marsmánuði.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfa um 270 manns sem veita almenna heilbrigðisþjónustu á heilsugæslu-, hjúkrunar- og sjúkrasviði. Heilsugæslustöðvar eru á Ísafirði og Patreksfirði og heilsugæslusel í öllum byggðakjörnum heilbrigðisumdæmisins. 

Árið framundan

Gylfi Ólafsson.

Í pistli sem birtist á dögunum hér á BB rak ég ýmsar fréttir síðustu árs sem mér fannst rétt að rifja upp. En hvað ber nýtt ár í skauti sér?

Á vettvangi Ísafjarðarbæjar fer nú í hönd síðasta heila ár kjörtímabilsins. Nú þegar tímafrekt Suðurtangaskipulag er tilbúið, vonum við að fyrirtæki sem vilja byggja þar hefji sem fyrst framkvæmdir. Þar lítum við til Kerecis, HG/Háafells og Þryms, sem öll hyggja á stórtækar byggingar.

Skipulagsmegin verður áhersla Ísafjarðarbæjar á miðbæjarskipulagið. Þar erum við komin að ákveðnum krossgötum við að ákveða framtíð hafnarinnar, íbúðabyggðar, legu Pollgötu og framtíð sjóvarna. Mikil undirbúningsvinna hefur átt sér stað en íbúasamráð þarf að fara fram nú snemmvetrar til að geta haldið áfram þessum pælingum. Hér er jafnvægiskúnstin að skoða málin heildstætt og vel, en samt gleyma sér ekki í of tímafrekri vinnu að ekkert potast áfram. Þær hugmyndir sem komið hafa fram eru margar áhugaverðar en stundum innbyrðis ósamrýmanlegar, svo góð umræða er lykilatriði til að sátt skapist.

Árið 2025 er afmælisár. Safnahúsið var byggt sem sjúkrahús fyrir 100 árum, og í ár lýkur umfangsmiklum viðhaldsverkefnum þar, sem einkum hafa snúið að kjallara. Skíðasvæðið í Tungudal er 30 ára og þangað fara talsverðir fjármunir við endurnýjun lyftumannvirkja, en auk þess fara stórir peningar í tjaldsvæði á Þingeyri, fjárgirðingar, viðhald gatna og margt fleira.

Nú þegar fótboltavöllurinn á Torfnesi er að mestu klár, færist fókus í fjárfestingum yfir á slökkvistöð sem byggja á á Suðurtanga. Stefnt er að því að hanna og steypa plötu nýs húss í ár. Hafnarsjóður stendur áfram í stórræðum og mun leggja torg og stæði fyrir rútur, og eftir því sem færi gefst leggja göngustíga og stuðla að öruggi gangandi skipafarþega. Áfram halda framkvæmdir við fráveitu og verður lokið við hreinsimannvirki á Suðureyri og Þingeyri, en þegar hefur verið gengið frá þeim á Flateyri. Með stórum Evrópustyrk verður svo hægt að byrja á úrbótum í Skutulsfirði, en það er að minnsta kosti sex ára verkefni.

Á Vestfjarðavísu heldur innleiðing nýrrar sóknaráætlunar áfram. Vinna við svæðisskipulag heldur áfram og mun vonandi taka mikla athygli sveitarstjórnarfulltrúa á árinu. Áhersla verður á framleiðslugreinar sem undirstöðu hagsældar og byggðafestu á svæðinu.

Auk þess bíðum við spennt frétta af ýmsum málum sem varða fjórðunginn. Til dæmis er unnið að samfélagsgreiningu á mögulegri virkjun í Vatnsfirði, frétta er að vænta af Hvalárvirkjun, nýtt áhættumat erfðablöndunar í laxeldi kemur væntanlega fram og Alþingi mun vonandi taka til meðferðar ýmis mál sem hafa þurft að bíða vegna pólitísks óróa. Þar má helst nefna lagareldi og málefni jöfnunarsjóðs.

Gylfi Ólafsson

formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

Skjól fyrir spillta stjórnmálamenn

Fjölmargir einstaklingar hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á liðnum árum sem verið hafa með dóma á bakinu fyrir spillingu heima fyrir, til rannsóknar fyrir meinta spillingu eða verið sakaðir um slíkt. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að þeir tækju sæti í henni með blessun þings sambandsins. Framkvæmdastjórnin hefur fyrir vikið oft virkað í gegnum tíðina líkt og skjól fyrir spillta stjórnmálamenn.

Meðal annars á þetta við um núverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen sem var þegar hún tók við embættinu til rannsóknar fyrir að hafa sem varnarmálaráðherra Þýzkalands ráðstafað háum fjárhæðum af skattfé í trássi við lög. Forveri hennar, Jean Claude Juncker, bar sem forsætisráðherra Lúxemborgar ábyrgð á hundruðum leynilegra skattasniðgöngusamninga við stórfyrirtæki.

Meðal áhugaverðari dæma um slíkt er Peter Mandelson sem neyddist tvisvar til þess að segja af sér sem ráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi í kringum síðustu aldarmót vegna hneykslismála. Að lokum var brugðið á það ráð að tilnefna hann í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem hann fór með viðskiptamál þess 2004-2008. Miklu valdameira embætti og utan seilingar kjósenda.

Hættu að spyrja um spillinguna

Mikill meirihluti íbúa ríkja Evrópusambandsins taldi spillingu þrífast innan stofnana þess samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn sambandsins árið 2013 eða 70%. Þar af 84% aðspurðra í Svíþjóð, 82% í Þýzkalandi og 80% í Austurríki. Hliðstætt hafði komið fram árin á undan. Viðbrögð Evrópusambandsins voru þau að hætta að spyrja um spillingu í stofnunum þess.

Hins vegar var áfram spurt um spillingu í opinberum stofnunum ríkja Evrópusambandsins í skoðanakönnunum fyrir framkvæmdastjórnina. Samkvæmt nýjustu könnuninni fyrir árið 2023 töldu 70% aðspurðra að spilling væri landlæg í heimalöndum sínum. Þar af til að mynda 97% í Grikklandi, 93% í Portúgal, 89% á Spáni, 85% á Ítalíu, 69% í Frakklandi, 60% í Austurríki, 59% á Írlandi, 57% í Þýzkalandi og 47% í Hollandi.

Þrír af hverjum fjórum (74%) töldu spillingu þrífast í ríkisstofnunum heimalanda sinna og 73% að sú væri raunin í opinberum stofnunum á vegum þarlendra héraðs- og sveitarstjórna. Þá töldu 78% að náin tengsl viðskiptalífs og stjórnmála geta af sér spillingu í löndunum, 60% töldu að spilling væri hluti af viðskiptamenningu þeirra og 57% að eina leiðin til þess að ná árangri í viðskiptum í þeim væri að hafa pólitísk sambönd.

Fjöldi þingmanna sakaður um lögbrot

Hvað þing Evrópusambandsins varðar kom til að mynda upp umfangsmikið spillingarmál innan þess í desember 2022 þar sem Eva Kaili, sem þá var einn af varaforsetum þingsins, var handtekin af belgísku lögreglunni ásamt fleiri þingmönnum sökuð um að þiggja mútur frá stjórnvöldum í Katar um árabil í tengslum við störf þeirra sem þingmenn. Til að mynda fundust pokar fullir af reiðufé við húsleit á heimili hennar.

Fjallað var um það í evrópskum fjölmiðlum fyrr á árinu, í aðdraganda kosninga til þings Evrópusambandsins sem fram fóru í júní, að fjórðungur þeirra ríflega 700 þingmanna sem sæti áttu á þinginu fyrir kosningarnar, hátt í 200 manns, hefði verið sakaður um ýmis lögbrot og misferli. Þar á meðal um spillingu, fjárdrátt og kynferðislega áreitni. Þá var í ófáum tilfellum um að ræða vafasöm tengsl við erlenda ráðamenn.

Haustið 2018 hafnaði dómstóll Evrópusambandsins kröfu um að þingmenn á þingi sambandsins upplýstu með hvaða hætti þeir ráðstöfuðu til að mynda mánaðarlegum greiðslum til þeirra, til þess að standa undir útgjöldum vegna reksturs skrifstofa í kjördæmum þeirra, á þeim forsendum að það færi í bága við friðhelgi einkalífs þeirra. Rannsókn blaðamanna leiddi í ljós að fjölmargar slíkar skrifstofur voru ekki til í raun.

Milljörðum evra varið á óljósan hátt

Fjölmiðlar fjölluðu enn fremur um það síðasta haust að milljörðum evra hefði verið varið með óljósum hætti á árinu 2022 af stofnunum Evrópusambandsins samkvæmt skýrslu endurskoðunarsviðs þess. Um væri að ræða útbreitt vandamál líkt og fyrri ár og tilfellum fjölgað ár frá ári. Fram kemur í skýrslunni að tveir þriðju útgjalda sambandsins á þarsíðasta ári hafi verið berskjaldaðir fyrir slíku misferli með skattfé.

Málið teygir sig raunar áratugi aftur í tímann. Árum saman var bókhald Evrópusambandsins ekki staðfest af endurskoðendasviðinu í ljósi þess hversu margt var á huldu varðandi útgjöld þess. Fyrir tuttugu árum síðan var Marta Andreasen, þáverandi yfirmaður sviðsins, rekin fyrir skort á hollustu eftir að hafa vakið athygli fulltrúa í fjárlaganefnd þings sambandsins á málinu sem leiddi til umfjöllunar um það í fjölmiðlum.

Fyrstu viðbrögð Andreasen voru hins vegar þau að hafa samband við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það kom henni í opna skjöldu að yfirmenn hennar þar voru fyllilega meðvitaðir um stöðu mála. Var henni ráðlagt að láta sem ekkert væri sem hún taldi faglega óásættanlegt. Andreasen er sú eina í stjórnkerfi sambandsins sem þurft hefur að axla ábyrgð vegna málsins og enn er bókhald þess í verulegum ólestri.

Toppurinn á ísjakanum og varla það

Hvers kyns spilling hefur raunar verið svo landlæg í stjórnkerfi Evrópusambandsins að komið hafa upp slík mál innan OLAF, stofnunar sambandsins sem ætlað er að berjast gegn spillingu innan þess. OLAF beitti sér til dæmis fyrir því 2004 að belgíska lögreglan gerði húsleit hjá þýzka blaðamanninum Hans-Martin Tillack, sem hafði skrifað um fjármálaóreiðu innan stofnunarinnar, til þess að ná til heimildarmanns hans.

Tillack var handtekinn, hald lagt á tölvur hans, gögn og síma og hann vistaður í fangaklefa. Málið endaði að lokum hjá Mannréttindadómstól Evrópu fjórum árum síðar sem dæmdi Tillack skaðabætur. Hafnaði dómstóllinn þeirri fullyrðingu OLAF að stofnunin hefði veitt belgísku lögreglunni áreiðanleg gögn sem leitt hefðu getað til sakamálarannsóknar. Einungis hefði verið um að ræða óljósan og órökstuddan orðróm.

Dæmin hér að ofan eru aðeins toppurinn á ísjakanum og varla það. Innan Evrópusambandsins yrði þessi spilling að okkar vandamáli. Vart er að furða að einungis 4% íbúa ríkja sambandsins treysti stofnunum þess bezt til þess að taka á spillingarmálum. Tal um að innganga í Evrópusambandið væri til þess fallin að draga úr spillingu hér á landi stenzt þannig alls enga skoðun. Með því yrði einfaldlega farið úr öskunni í eldinn.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Nýjustu fréttir