Síða 6

Alþjóðlegt þaraverkefni í Strandabyggð

Hólmavík í Strandabyggð. Mynd: Jón Jónsson.

Verkefni fyrirtækisins Fine Foods Íslandica ehf og samstarfsaðilar hefur hlotið rúmlega 10 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu til að styðja við framkvæmd IceKelp verkefnisins 2024-2026.

Verkefnið er samstarf Fine Foods Íslandica ehf., Háskólaseturs Vestfjarða og Strandabyggðar, sem kemur að verkefninu sem opinber ábyrgðaraðili. Markmiðið er að hanna líkan fyrir sjálfbæra þararækt og blátt hagkerfi í dreifbýli.

Verkefnaáætlunin var kynnt af Fine Foods Íslandica ehf fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar í nóvember 2024 sem samþykkti að styðja við verkefnið. Meðal markmiða verkefnisins eru:

  • Að eiga samskipti við hagsmunaaðila á staðnum með upplýsingafundum og opnum vinnustofum um þararækt.
  • Að miðla fræðslu og þekkingu varðandi þararækt í Strandabyggð.
  • Að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við þararæktun.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri er fulltrúi Strandabyggðar. Jamie Lee hjá Fine Foods Íslandica ehf. er framkvæmdastjóri verkefnisins og ber rekstrarlega ábyrgð á verkefninu. Hún, ásamt Bergsveini Reynissyni hjá Nesskel ehf. munu miðla sinni þekkingu, og veita þjálfun í verklegri framkvæmd.

Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir rannsóknum á líffræðilegum fjölbreytileika í kringum þararæktun og mun Alexandra Tyas, fjórða árs Ph.D. nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands stýra rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni.

Dr. Catherine Chambers er fulltrúi Háskólaseturs Vestfjarða og sér um að upplýsa hagsmunaaðila varðandi þær rannsóknir.  Fine Foods Íslandica hefur unnið mikla rannsólknarvinnu að undanförnu og verður sú vinna notuð sem grunnur í rannsóknir Háskólaseturs Vestfjarða.

Styrkurinn mun standa undir mestum kostnaði við verkefnið og Fine Foods Íslandica ehf. mun einnig leggja fram um 2,5 milljónir króna til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem geta komið upp. 

Íbúum Strandabyggðar verður boðið á opinn fund í Hnyðju fimmtudaginn 27. mars kl 16.00-17.30, þar sem verkefnið í heild sinni verður kynnt fyrir áhugasömum.

Hrafna Flóki : metþátttaka á héraðsmóti

Metþátttaka var á Héraðsmóti HHF í frjálsum innanhúss en 50 þátttakendur mættu til leiks á laugardaginn síðastliðinn í Bröttuhlíð. Alls mættu 21 í aldurshópnum 9 ára og yngri og 29 í aldurshópnum 10-16 ára.

Yngri hópurinn spreytti sig í fimm þrautum; boðhlaupi, boðstökki, skutlukasti, langhlaupi og langstökki.

Eldri hópurinn keppti í kúluvarpi, skutlukasti, langstökki, þrístökki, hástökki og langhlaupi.

Sex félög eru aðilar að Hrafna Flóka. Það eru ÍH, UMFT, ÍFB, UMFB, GP, GBB, sem eru Íþróttafélgið Hörður á Patreksfirði, Ungmennafélag Tálknafjarðar, Íþróttafélag Bíldudals, Ungmennafélag Barðastrandar, Golfklúbbur Patreksfjarðar og Golfklúbbur Bíldudals.

Yngri hópurinn að keppa í hlaupi.

Verðlaunafhending. Myndir: HHF.

Vegagerðin: býður út vetrarþjónustu í Vestur Ísafjarðarsýslu

Núpur í Dýrafirði.

Á föstudaginn bauð Vegagerðin  út vetrarþjónustu, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir með vörubifreið í vestur Ísafjarðarsýslu.

Akstur vörubifreiða er áætlaður 11 þúsund km á ári. Gildistími samnings er þrjú ár, þ.e. veturna 2025-2026, 2026-2027 og 2027-2028. Heimild er til framlengingar samnings í allt að tvö ár með samþykki beggja aðila, eitt ár í senn,

Tilboðum skal skilað fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 29. apríl 2025.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Landvernd fær styrk

Jóhann Páll Jóhansson, alþm. og ráðherra.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur úthlutað rúmlega 54 milljónum króna í rekstrarstyrki til 25 frjálsra félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins á grundvelli umsókna og er það tæplega 4% heildarhækkun frá úthlutun síðasta árs.

Markmið styrkjanna er að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfis- og auðlindamál og að efla almenna vitund um gildi umhverfismála. Ráðuneytið hefur veitt frjálsum félagasamtökum sem starfa að umhverfismálum rekstrarstyrki frá árinu 2000.

Landvernd fær hæsta styrkinn 17.380 þús. krónur. Náttúruverndarsamtök Íslands fá 7.600 þús kr´styrk og ungir umhverfissinnar 5.020 þús. kr.

Í tilkynningu ráðuneytisins er haft eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni, ráðherra að

„Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Þau halda okkur við efnið á sviði umhverfismála, þau veita stjórnvöldum mikilvægt aðhald þegar þess þarf og sinna mikilvægum verkefnum á sviði fræðslu og vitundarvakningar. Rekstrargrundvöllur þeirra verður að vera sterkur. Ég hlakka til áframhaldandi samtals og samstarfs við umhverfisverndarsamtök og önnur félagasamtök á kjörtímabilinu.“

Borgaryfirvöld tryggi rekstrarskilyrði Reykjavíkurflugvallar

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið var á föstudaginn, lögðu 10 bæjar- og sveitarstjórar á landsbyggðinni fram tillögu um Reykjavíkurflugvöll sem var samþykkt með yfirgnæfandi fjölda atkvæða.

Meðal flutningsmanna voru bæjarstjórarnir í Vesturbyggð og í Ísafjarðarbæ.

Þar eru borgaryfirvöld hvött til þess að tryggja rekstrarskilyrði vallarins þannig að flugöryggi sé ekki ógnað. Hvorki verði þétt byggð meira í nágrenni flugvallarins né á öryggissvæði hans.

Ályktunin í heild:

„Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga leggur ríka áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir
flugsamgöngur landsmanna, sérstaklega í ljósi hlutverks hans í sjúkraflugi og öryggi fólks sem þarf á
bráðri heilbrigðisþjónustu að halda.
Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga hvetur borgaryfirvöld til að tryggja rekstrarskilyrði Reykjavíkurflugvallar með þeim hætti að flugöryggi sé ekki ógnað. Það felur í sér að hvorki verði þétt meira í nágrenni flugvallarins né á öryggissvæði hans umfram það sem þegar hefur verið gert, hvorki með mannvirkjum né gróðri, fyrr en raunhæf og skýr lausn um nýjan flugvöll sem uppfylli skilyrði til sjúkraflugs í tengslum við Landsspítalann er komin í notkun.“

Stjórnlaus bátur út af Horni

Rétt upp úr eitt í nótt barst Landsbjörgu aðstoðarbeiðni frá fiskibát sem var þá staddur rétt norður af Hornbjargi. Það óhapp hafði orðið að olía fór af stýriskerfi og báturinn því stjórnlaus. Fjórir menn eru um borð, veður ágætt og ekki mikil hætta á ferðinni.

Varðskipið Þór, sem var statt í Grundarfirði, var sent af stað vestur ásamt því að áhöfnin á björgunarskipinu Gísla Jóns á Ísafirði var boðuð út. Bæði skip lögðu úr höfn rétt um hálf tvö í nótt.

Klukkan fimm í morgun kom svo Gísli Jóns að bátnum og rétt um 10 mínútum síðar var búið að koma taug á milli skipanna og skipstjóri Gísla Jóns setti stefnuna inn á Ísafjörð. Drátturinn hefur ekki gengið alveg áfallalaust fyrir sig, en eftir um klukkustundar drátt hafði einn þáttur dráttartaugar um borð í fiskibátnum slitnað og þurfti að stöðva ferð meðan áhöfn bátsins lagaði það. Því verki var lokið snöfurmannlega og nú rétt um hálf átta í morgunsárið var hægt að halda ferð áfram. Skipin voru um kl 8 í morgun á um 6 sjómílna hraða eða 11 km á klukkustund, í vesturátt fyrir norður af Hornvík.

Varðskipið Þór heldur áfram för norður fyrir Vestfjörðum áleiðis í átt að Gísla Jóns og fiskibátnum.

Ísafjörður: ný forysta Sjálfstæðisflokksins með opinn fund í Edinborgarhúsinu

Nýkjörin forysta Sjálfstæðisflokksins er á fundaferð um landið með opna fundi. Fyrsti fundurinn var í Garðabæ á laugardaginn. Í hádeginu í dag kl 12 hefst fundur í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Fundaherferðin heitir Til fundar við fólkið og segir í tikynningu að forystan sé á ferð til fundar við landsmenn.

Á fundinn mæta Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins, Jens Garða Helgason, varaformaður og Vilhjálmur Árnason, ritari.

Vestfirskir listamenn: Guðmundur Jónssson frá Mosdal

Brjóstmynd af Guðmundi frá Mosdal eftir Ríkharð Jónsson.

F. 24. september 1886 í Villingadal Ingjaldssandi. D. 3. júlí 1956 á Ísafirði.

Öndvegisverk: Göngustafur með handfangi úr fílabeini, Trésvipa með slöngumynstri, Kýrhorn með drekamynstri.

Það má alveg segja að Guðmundur Jónsson er kenndi sig við æskustað sinn, Mosdal, hafi verið allur í verkinu. Allt er hug hans snerti vann hann að svo mikilli ástríðu og áhuga að til eftirbreytni er. Í því samhengi má nefna að sagt var að strax í æsku hafi hann gjarnan verið með bók í annarri hendi en hrífu í hinni, gaf þó ekkert eftir við búverkið. Sköpunina hafði hann vissulega í höndunum og varð einn besti myndskeri síns landsfjórðungs. Sportið átti líka hug hans allan og þar var ástríðan alla leið hvar hann bæði stofnaði og stýrði ungmennafélögum á sínu æviskeiði. Þá er ótalið áhugi hans á varðveislu sögu sem muna enda var hann bæði ötull liðsmaður Sögufélags Ísfirðinga og Byggðasafnsins vestra.

Sólarlistamaður og bæjarins þjónn í Sóltúni

Hin fyrstu jól snáðans Gvendar voru eigi góð því faðir hans fórst í snjóflóði skömmu fyrir ljóssins hátíð. Þá var sá stutti sendur í fóstur til frændfólks í Mosdal sem var ysti bærinn í Mosvallahreppi. Allra heilla líkaði honum þar vel enda kenndi hann sig við æskustaðinn. Þar nam hann líka það sem átti eftir að móta og fylgja honum alla tíð. Áhuga á bókmenntum og þjóðlegum fróðleik. Einsog títt var í þá tíð var pilturinn Gvendur snemma byrjaður að hjálpa til við lífsbrauðið í Mosdal bæði á landi sem á sjó. Puðið var samt þó eigi það mikið að hann gat einnig gefið sér tíma til lesturs og ekki síður við að tálga undursins hluti. Í hans höndum varð saklaus trékstubbur að listaverki í formi hins fyrsta landnema lágfótunnar eða melrakkans einsog sá fótafimi er nefndur stundum. Enda stefndi hugurinn snemma í átt þeirra miklu myndskurðalistar því strax árið 1911 er hann kominn til Reykjavíkur til að nema tréskurðarlistina hjá einum færasta listamanni þeirra listar á þeim tíma Stefáni Eiríkssyni. Þar var hann við nám næstu fimm árin og gaf seinna sínum lærimeistara hagalega gjörðan reykjarpípuhaus með dreka- og ormamyndum. Líkt og fyrir vestan þá var Gvendur liðtækur í félagsmálunum á sínum Reykjavíkurárum þá einkum fyrir ungmennafélagið og svo til góðverka bindindisfélaga sem höfðu þá hið fagra heiti templarar.

Sóltún hús listamannsins á Ísafirði.

Einsog margur Vestfirðingurinn togar fjórðungurinn ávallt í mann svo hann fór fljótlega aftur vestur og nú á Ísafjörð hvar hann miðlaði sinni skurð- og teiknilist. Eitthvað fannst honum þó sig eiga vanlært í listinni því árið 1919 siglir hann í norður og dvelur næstu tvö árin ýmist í Noregi, Svíþjóð eða Danmörku. Hvar hann bætti við þekkingu sína í myndskurðinum með áherslu á fornnorrænan tréskurð. Einnig stúderaði hann bókband. Mætir svo aftur á Ísafjörð hvar hann starfar allt til enda. Æviverk hans var fjölbreytt og vilja margir meina um of. Einkum hafi það kannski verið félagsstörfin sem trufluðu hann fullmikið við listastarfið. Alla tíð var hann iðinn við að kenna æskunni vestra tréskurð, teikningu og bókband. Þá má leikandi segja að hann hafi verið mikill vormaður enda stofnaði hann eigi færri en 3 ungmennafélög í Önundarfirði og síðar einnig á Ísafirði. Starfaði hann mikið í þágu ungmennasportsins og var meira að segja ritstjóri þeirra rits, Skinnfaxa. Svo var það áhuginn er kviknaði á æskuheimilinu í Mosdal hinn þjóðlegi arfur. Var hann velvirkur í Sögufélagi Ísfirðinga og í framvarðasveit Byggðasafns Vestfjarða enda fór það svo að hann arfleiddi safnið af sínu merka húsi Sóltúni sem og hins stóra bókasafns síns. Talandi um húsið er hann reisti og nefndi Sóltún. Er það mikið listaverk og sannlega eitt af þeim húsum sem gestir Ísafjarðar láta eigi óséð enda er það mjög vel séð. Guðmundur var trúmaður var í sóknarnefnd og gengdi meðhjálparastarfi.  

Samferðamenn Guðmundar kváðust ávallt koma fróðari af hans fundi. Hann var enda sífellt að bæta þekkingu sína sem hann sótti ekki síst í bækur. Segja má að Gvendur hafi verið einsog Google þess tíma á Ísafirði.

Listsins hlutir

Fjölbreytileiki listaverka Guðmundar frá Mosdal er mikill allt frá smíði á langspili til göngustafs. Marga hlutina smíðaði hann eftir pöntun. Má þar nefna staf er hann smíðaði að beiðni Guðrúnar í Æðey er hún sína gaf doktórnum og tónskáldinu Sigvalda Kaldalóns. Er hinn þarfi stafur mikil listasmíð með handfangi er gjört var úr fílabeini og í það rist hin fegursta harpa sem var sannarlega viðeigandi. Þar fyrir neðan er svo gullhólkur með þakkarkveðju gefandans til þyggjarans. Systkini nokkur fengu Gvend til að gjöra sérstakt skrivstatív í tilefni af silfurbrúðkaupi foreldra þeirra. Á heimili Járngerðar Eyjólfsdóttur á Kirkjubóli í Valþjófsdal var svo að finna haganlega gjörða trésvipu með slöngumynstri er einn kunnasti listamaður Önundarfjarðar gjörði. Marga listmuna Guðmundar Jónssonar frá Mosdal er nú að finna í safninu sem hann átti stóran þátt í að koma á fætur Byggðasafni Vestfjarða. Má þar nefna listilega útskorið kýrhorn með drekamunstri.

Elfar Logi Hannesson

Heimildir:

Alþýðublaðið 26. september 1946.

Eiríkur J. Eiríksson. Guðmundur Jónsson frá Miðdal. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1956.

Morgunblaðið 17. júlí 1956.

Bessastaðir: ráðherraskipti í dag

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er barna- og menntamálaráðherra.

Ríkisráðsfundir verða haldnir í dag þar sem verða ráðherraskipti. Kl. 15 hefst fundur forseta Íslands með ríkisstjórninni og annar fundur verður 15 mínútum síðar.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráðherra hefur ákveðið að láta af störfum og vænta má þess að henni verði á fyrri fundinum veitt lausn frá störfum og á þeim síðari verði annar skipaður í hennar stað.

Ekkert hefur verið gefið upp um það hver tekur við ráðherraembættinu.

Framsókn: Sigurður Ingi vill leiða flokkinn áfram

Fram kom í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, fomanns Framsóknarflokksins á miðstjórnafundi flokksins,sem nú stendur yfir á Akureyri, að hann vildi halda áfram að leiða flokkinn.

Í framhaldi af slæmri útkomu flokksins í Alþingiskosningunum í lok nóvember sl. sagðist Sigurður Inga hafa ferðast um landið og haldið um 40 fundi og niðurstaðan væri að hefja uppbyggingarstarf með stefnumótunarvinnu og málefnastarfi.

„Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi.“

Um stefnuna sagði Sigurður Ingi:

„Framsókn er flokkur framkvæmda og atvinnu og þeirrar velferðar sem verðmætasköpunin býr til. Við lítum ekki á stjórnmál sem keppni í því hver getur talað hæst, heldur sem vettvang til að skapa raunverulegar breytingar til batnaðar.“

Nýjustu fréttir