Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 59

Hafnalög: eldisgjald lögfest

Þjónustubátur siglir inn í Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykkti á laugardaginn nýtt gjald til hafnasjóða, svonefnt eldisgjald, sem verður lagt á eldisfisk, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Var það samþykkt með 52 samhljóða atkvæðum en 9 þingmenn frá Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu sátu hjá.

Breytingartillaga frá stjórnarandstöðunni um að ákvæðum um aflagjald yrði breytt þannig að það næði til eldisfisks og yrði í samræmi við tillögur sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum var felld með 34 atkvæðum gegn 22.

Hafnasamband sveitarfélaga og samband íslenskra sveitarfélaga vildu að núverandi lagaákvæði um aflagjald yrði rýmkað og sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur vildu að aflagjaldið yrði minnst 0,7% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjólegs markaðsverðs á Atlandshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram.

Ferðafélag Ísfirðinga: Álftafjarðarheiði á laugardaginn

Álftafjarðarheiði  — 2 skór —
Laugardaginn 29. júní
Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina

Fararstjórn: Barði Ingibjartsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum að Seljalandi í Álftafirði.
Gengið verður frá Seljalandi í Álftafirði um Álftafjarðarheiði að Kroppstöðum í Korpudal í Önundarfirði.
Þetta var hestfær leið og sést gatan nokkuð vel á köflum. Búast má við að ganga í snjó á köflum.
Vegalengd: um 13 km, göngutími: um 6 klst., upphækkun: 725 m.

Kaffiveitingar gegn vægu gjaldi í hlöðunni á Kirkjubóli að ferð lokinni.

Patreksfjörður: bátur fékk rekald í skrúfuna

Frá aðgerðunu í morgun. Mynd: Landsbjörg.
Frá aðgerðunum í morgun. Mynd: Landsbjörg.

Rétt fyrir hálf sjö í morgun var áhöfn björgunarskipsins Varðar II á Patreksfirði kölluð út vegna fiskibáts sem hafði fengið rekald í skrúfuna og gat ekki haldið áfram veiðum. Vörður II fór úr höfn á Patreksfirði rétt fyrir sjö og hélt áleiðis að bátnum sem var þá staddur í mynni Patreksfjarðar. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og var Vörður II tók stefnuna inn til Patreksfjarðar með bátinn í togi og kom inn til hafnar nú rétt upp úr klukkan 9.

Einnig voru útköll í nótt vegna vegna skipverja á smærri fiskibát út af Norðfirði sem hafði slasast á fæti og ekki í ástandi til að sigla bátnum til hafnar og á Djúpavogi vegna fiskibáts sem hafði misst stýri rétt austur af Papey.

Þingeyri: deilt um staðsetningu á hreinsistöð

Fyrirhugguð staðsetning við Vitann.

Ísafjarðarbær hefur hafið framkvæmdir við skolphreinsistöð á Þingeyraroddanum. Settur verður upp 20 feta gámur með hreinsistöðinni við á svæði við hliðina á vitanum, Víkinga svæðinu og um 55 metra frá tjaldsvæðinu, þar sem bæjar búar og ferðamenn fara og njóta ósnortinar fjörunnar og þaðan er stundað sjósund.

Mjög skiptar skoðanir hafa komið fram meðal Þingeyringa um staðsetninguna á hreinsistöðinni. Almennt er vel tekið í það að koma upp hreinsistöðinni en deild um staðsetninguna. Óðinn Hauksson er einn þeirra og hann er mjög ósáttur við þetta og segir hægt að finna aðra betri staði fyrir gáminn og frárennslið frá honum.

Bent er á að á tjaldsvæðinu hafi í fyrra verið 5.900 gistinætur. Sjósundstaðurinn hafi verið með um 850 skráðum sjósundferðum frá þessum stað og þetta sé ekki besti staðurinn til þess að safna saman skólpi og leiða í sjó, jafnvel þótt grófhreinsað verði.

Útrásirnar eru margar og hreinsistöðin er sett niður efst á myndinni.

Ísafjarðarbær: verulegar breytingar á gjaldskrá leikskóla

Leikskólinn Sólborg. Mynd: Ísafjarðarbær.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku umtalsverðar breytingar á gjaldskrá fyrir leikskóla í sveitarfélaginu.

Lokunardögum verður fjölgað um fimm á ári.

Auk þess verða teknir upp svonefndir skráningardagar 7 – 10 dagar á ári. Foreldrar þurfa að óska sérstaklega eftir skóladvöl þessa daga með þriggja vikna fyrirvara. Greitt er sérstaklega fyrir þessa daga og er gjaldið 2.700 kr. fyrir hvern skráningardag.

Dvalargjald frá kl. 8:00-14:00 lækkar um 6% og aðrir liðir í gjaldskrá leikskóla lækka um 3%. Gjald fyrir umframtímana fyrir kl. 8:00 og eftir kl. 16:00 verður áfram dýrasti tíminn.

Dvalartími 12-16 mánaða barna verður einungis til kl. 15.00 á daginn.

Leikskólarýmum í Skutulsfirði verði fjölgað.

Í minnisblaði bæjarstjóra til bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær greiði að stærstum hluta kostnað við dvöl barna í leikskólum bæjarins. Foreldar greiða hluta kostnaðar í hlutfalli við þann tíma sem börn þeirra dvelja í leikskólanum. „Kostnaðarhlutfall foreldra er í dag um 10-15% af raunkostnaði við að hafa barn í fullri dvöl á leikskóla en því yngri sem börn eru því meiri mannafla þarf til að manna leikskóladeild.“

Þá segir í minnisblaðinu að með breytilegum vistunartíma geti fjölskyldur sniðið leikskóladvöl barna sinna að eigin þörfum. Vistunartími geti þannig verið mismunandi eftir vikudögum og greiði fjölskyldur aðeins fyrir þann tíma sem barnið er skráð í leikskólann. Þannig skapast möguleiki til að lækka leikskólagjöld.

Breytingarnar voru samþykktar með atkvæðum bæjarfulltrúa Í lista og D lista en bæjarfulltrúar B lista sátu hjá.

Bæjarfulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ skilja mikilvægi þess að gera breytingar á fyrirkomulagi leikskólanna til að mæta þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir og samþykkja því þessar tillögur. Sjálfstæðisflokkurinn leggur þó til að skoðað verði í komandi fjárhagsáætlunarvinnu að veita enn meiri afslátt af leikskólavistun frá kl.8:00-14:00, líkt og önnur sveitarfélög hafa gert. Markmiðið með lækkuninni er að gefa foreldrum leikskólabarna raunverulegan kost til að stytta vistunartíma barna sinna, með hag barnanna að leiðarljósi. Foreldrar hafa þá val um að lækka leikskólagjöldin og ná meiri tíma með börnunum sínum. Í leiðinni minnkar álag á starfsfólk leikskólanna og auðveldara verður að manna þá.“

Grásleppan kvótasett

Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra flutti upphaflega frumvarpið um kvótasetningu á grásleppu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykti á laugardaginn frumvarp til laga um kvótasetnngu grásleppuveiða. Lögin taka gildi 1. september 2024. Aflahlutdeild einstakra skipa verði ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengist hefur á grundvelli réttar til grásleppuveiða á árunum 2018 – 2022, að árinu 2020 undanskildu. Einungis fiskiskip undir 15 brúttótonnum fái úthlutað grásleppuleyfi. Samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í grásleppu í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild en 1,5%. Fiskistofa skal úthluta aflahlutdeildum fyrir 1. mars 2025. Framsal aflahlutdeilda verður óheimilt til 31. ágúst 2026.

Landinu verður skipt í fimm staðbundin veiðisvæði á grásleppu. Vestfirðir og Breiðafjörður verður eitt svæði. Veiðileyfi gildir aðeins á tilgreindu svæði og er óheimilt að veiða á öðrum veiðisvæðum. Óheimilt verður að framselja aflahlutdeild og aflamarki á skip sem ekki er skráð á sama staðbundna sveiðisvæðið. Þó verður ráðherra heimilt í reglugerð að kveða á um flutning á aflamarki milli veiðisvæða á yfirstandandi veiðitímabili ef náttúrulegar aðstæður breytast verulega innan veiðisvæðis.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir (V) flutti frumvarpið í fyrra en á þessu þingi var það meirihluti atvinnuveganefndar sem flutti málið.

Í atkvæðagreiðslu um frumvarpið var felld breytingartillaga frá Eyjólfi Ármannssyni (F) um að óheimilt yrði að framselja eða leigja aflahlutdeild í grásleppu. Aðeins 11 þingmenn studdi þá tillögu en 29 greiddu atkvæði gegn henni. Það voru þingmenn Pírata og Flokks fólksins sem studdu framsalsbannið en þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felldu tillöguna svo og annar þingmaður Miðflokksins. Allir þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við tillöguna, þar með talið allir þrír ráðherrar flokksins. Aðrir þingmenn sátu hjá , þ.e. þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar og annar þingmaður Miðflokksins.

Það var svo Bjarni Jónsson (V) sem flutti tilllögu við lokaafgreiðslu málsins um að banna framsal aflahlutdeildar næstu tvö árin og var hún samþykkt með 41 samhljóða atkvæðum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi og þingmaður flokksins í 12 ár sagði sig úr flokknum á laugardaginn vegna þessarar lagasetningar.

Lögðust gegn kvótasetningunni

Frá Vestfjörðum barst umsögn um frumvarpið frá Króki, félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu. Þar segir að félagið hafni „öllum hugmyndum um kvótasetningu grásleppu þar sem engin fiskifræðileg rök liggja fyrir. Grásleppa er ekki ofveidd og einvörðungu verið að reyna hagræða fyrir fámennan hóp.“ Landssamband smábátaeigenda lagðist einnig gegn kvótasetningunni. Í umsögn þess segir að „Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur að vel athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að
veiðistýring á grásleppu með aflamarki svarar engu af því sem ekki er hægt að uppfylla í
núverandi veiðikerfi.“

Verbúðin í boði VG !

Ég segi mig úr VG vegna svika flokksins við eigin sjávarútvegsstefnu !

VG er að færa Grásleppuna yfir í gjafakvótakerfið í nafni sérhagsmuna og almannahagsmunir og og stjórnarskrávarin atvinnuréttindi eru fótum troðin. Ekkert í verndun fiskistofna kallar á kvótasetningu með framsali né heldur það að fénýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar í þágu fjármagnseigenda.

Ekkert gert til að efla smábátaútgerð og byggðafestu.

Þar tók steininn úr þegar VG samþykkti við þinglok frumvarp um kvótasetningu og framsal á Grásleppu og tók þar með upp stefnu stefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sjávarútvegsmálum.

Vinstri græn hafa verið með Matvælaráðuneytið þetta kjörtímabil og ekkert hefur verið gert til þess að styrkja Strandveiðar eða efla félagslega hluta kerfisins heldur þvert á móti tíminn nýttur í vinnu fjölmennrar Auðlindanefndar sem ekkert kom út úr fyrir þá minnstu í kerfinu og félagslega hlutann og Strandveiðarnar. Heldur var þar lagt til að hækka enn frekar kvótaþakið fyrir stórútgerðina í stað þess að taka á þeim veruleika að í mörg ár hefur verið gagnrýnt að þar væru kross eignatengsl og allt benti til þess að útgerðir væru komnar yfir leyfilega aflahlutdeild.

Trúverðugleiki VG í sjávarútvegsmálum brostinn.

Frá því að VG hafði forystu um að koma Strandveiðum á árið 2009 þá höfum við í VG talað fyrir því að styrkja félagslega hluta kerfisins og það er stefna flokksins.  Kjósendur sem hafa viljað meira réttlæti í fiskveiðistjórnarkerfið  til hagsbóta fyrir brothættar sjávarbyggðir hafa lagt traust sitt á VG og þekki ég það mjög vel eftir 12 ára setu á Alþingi búandi á Vestfjörðum og með þekkingu á þessum málaflokki .  Það fer ekki á milli mála hvað það viðhorf og traust til VG hefur hrunið að undanförnu þó VG hafi haft málaflokkinn á sinni könnu frá árinu 2021.

Áhersla á kvótasetningu með samþjöppun veiðiheimilda.

 Þess í stað hefur verið lögð áhersla á kvótasetningu og framsal veiðiheimilda,veiðar með öflugri botnvörpur á grunnslóð að hækka kvótaþak stórútgerða og að hafa ótímbundin leyfi í lagareldi  sem er með ólíkindum að hafi verið lagt til.

Í anda stefnu VG hefði verið gæfulegra að einbeita sér að afmörkuðum þáttum sem margoft hefur verið bent á að hægt sé að lagfæra bæði fyrir lítil og meðalstórar útgerðir og  styrkja þar með veikari sjávarbyggðir og koma í veg fyrir enn meiri samþjöppun  aflaheimilda til stórútgerða með tilheyrandi byggðaröskun og eignatilfærslu eins og hefur verið að gerast undanfarin ár og á bara eftir að versna með kvótasetningu á Grásleppu.

Hvað kemur næst  ? Kvótasetning á Strandveiðar ?  Það er búið að gefa vont fordæmi.

Þverpólitískri vinnu kastað fyrir róða.

Það var lögð mikil þverpólitísk vinna í að efla Strandveiðar á síðasta kjörtímabili undir minni forystu sem formanns Atvinnuveganefndar  árin 2017 til 2021 og hafði maður vonast til þess að Matvælaráðherra VG tæki upp  keflið þar sem frá var horfið og fylgdi þeirri vinnu áfram í anda stefnu VG en það var því miður öðru nær.

 Ég hef sem varaþingmaður  VG frá árinu 2021 og sem fyrrum þingmaður til 12 ára verið í miklum samskiptum við talsmenn lítilla og meðalstórra fyrirtækja og forystu hagsmuna aðila í Strandveiðum s.s. Landssamband smábátaeigenda og Strandveiðifélagið  og lagt mig fram um að tala máli landsbyggðarinnar og lítilla og meðalstórra útgerða og við forystu VG og á fundum VG undanfarin ár en það hefur ekki borið tilætlaðan árangur síðustu 3 ár.

Kvótasetning Grásleppu veikir Strandveiðikerfið.

 Samspil Grásleppuveiða og Strandveiða er mikið og ef annað kerfið fer í kvóta og framsal þá veikir það ennfrekar Strandveiðikerfið og nóg er nú samt þegar Strandveiðar eru stöðvaðar um mitt sumar.

Það bíða eflaust margir spenntir eftir því að fá að selja frá sér Grásleppukvóta í boði VG og annara fylgifiska í Sjáfstæðisflokki og Framsókn . Þeir sem bíða eftir að fá gjafakvótann og selja  gleðjast nú mjög og fá þar með mikla fjármuni sem annars væru ekki í boði á meðan aðrir hrökklast úr greininni og nýliðun verður einungis hjá þeim sem eru fjármagnseigendur/stærri útgerðir og samþjöppunin heldur áfram á kostnað sjávarbyggðanna. En þetta er langt í frá sjávarútvegsstefnu VG  heldur er verið að þjóna sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna og svíkja kjósendur VG. Einnig hefur verið bent á að ríkið geti skapað sér skaðabótakröfur af hálfu þeirra sem muna vara illa út úr  kvótasetningu á Grásleppu.

Að leiðarlokum með VG.

Ég kveð VG með sorg í hjarta en er þakklát fyrir margt gott sem VG hefur staðið fyrir og komið í verk sem ekki er sjálfgefið í ólgusjó stjórnmálanna þau12  ár sem ég sat á Alþingi . Ég var ein af stofnfélögum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og hef lagt mitt af mörkum í flokksstarfinu síðustu 25 árin en finn að ég á ekki samleið lengur með flokksforystunni þó stefna VG sé um margt mjög góð. Ég óska fyrrum félögum mínum alls góðs en þegar maður finnur sig ekki lengur eiga samleið með flokki sínum þó stefnan sé heilt yfir góð þá fer ekki saman hljóð og mynd. Þá er best að kveðja í stað þess að daga uppi ósátt talandi út í tómið

Lilja Rafney Magnúsdóttir fyrrum þingmaður VG.

Rampur á Hólmavík

Greint er frá því á vefsíðu Strandabyggðar að í undirbúningi sé að koma upp rampi á Hólmavík. Verður hann verður líklegast við Grunnskólann á Hólmavík og eru teikningar þegar komnar.

Er þetta liður í átakinu römpum upp Ísland viðkomandi að kostnaðarlausu og sinnir aðgengi að verslunum, veitingastöðum og annarri þjónustu í eigu einkaaðila sem og aðgengi að byggingum hins opinbera hvort sem þær eru í eigu sveitarfélaga eða ríkis. 

Átakið sendir hellur á staðinn og mannskap og tæki til að vinna verkið en óskar eftir því að sveitarfélagið útvegi húsnæði og fæði á meðan á verkinu stendur. 

Að átakinu stendur Haraldur Þorleifsson, fyrrverandi stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno og er tilgangurinn að bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Nýlega var rampur nr 1.200 settur upp á Patreksfirði.

Súðavíkurhreppur: hafnað að smala ágangsfé

Áfltaver í Súðavík þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru.

Atvinnu- og landbúnaðarnefnd Súðavíkurhrepps hafnaði erindi um að smala ágangsfé úr landi Dvergasteins. Ekki kemur fram frá hverjum erindið er. Nefndin segir í bókun sinni að ekki liggi fyrir með óyggjandi hætti hversu mikill ágangur er eða hvert sé umfang tjóns sé fyrirsjáanlegt þannig að brýnt sé að smala verði land Dvergasteins.

Þá vísar nefndin til þess að ekki sé í gildi bann við lausagöngu búfjár utan þéttbylis í Súðavík. Ekki liggi fyrir í hvaða mæli búfé leitar inn á eignarland í óþökk eiganda og ekki liggi heldur fyrir hvort leitað hafi verið vægari úrræða til þess að bregðast við ástandinu sem lýst er í erindinu.

Leggur nefndin til að leitast verði við að finna viðunandi lausn á ágangi fjár með því að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir þeirra aðila er málið varðar. Er þeim tilmælum beint til sveitarstjórnar að endurskoða reglur umbúfjárhald til samræmis við réttarástand varðandi ágangsfé.

Í afgreiðslu sveitastjórnar segir að hún taki undir bókun nefndarinnar.

Ísafjarðarbær: Sigríður Júlía forseti bæjarstjórnar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á fimmtudaginn fóru fram árlegar kosningar. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir var kosin foseti bæjarstjórar til eins árs, Magnús Einar Magnússon fyrsti varaforseti og Kristján Þór Kristjánsson var kosinn annar varaforseti bæjarstjórnar.

Kosið var í bæjarráð. Gylfi Ólafsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Jóhann Birkir Helgason voru kosin aðalfulltrúar og Magnús Einar Magnússon, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Steinunn Guðný Einarsdóttir voru kosin varafulltrúar.

 Kristján Þór Kristjánsson var kosinn áheyrnarfulltrúi í bæjarráði næsta árið og Elísabet Samúelsdóttir var kosin varaáheyrnarfulltrúi. Formaður bæjarráð var kosinn Gylfi Ólafsson og varaformaður Nanný Arna Guðmundsdóttir.

Bæjarstjórn í tveggja mánaða sumarleyfi

Þá var samþykkt tillaga forseta bæjarstjórnar um að sumarleyfi bæjarstjórnar verði tveir mánuðir, júlí og ágúst 2023, og að bæjarstjórn komi saman til fyrsta fundar að loknu sumarleyfi þann 5. september 2024.

Nýjustu fréttir