Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 58

Þingeyri: svigrúm til að færa hreinsistöðina

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

„Við höfum verið í samskiptum við íbúa vegna staðsetningar á hreinsistöðinni auk þess sem verkefnið var kynnt á íbúafundi í maí sl.“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Gert er ráð fyrir að hreinsistöðin verði staðsett á iðnaðar- og athafnalóð sem Ísafjarðarbæ á Þingeyararodda. Arna Lára segir að verið sé að skoða með hönnuði verksins hvaða leiðir eru færar til að koma betur til móts við ábendingar íbúa. „Svigrúm er til staðar að færa stöðina innan lóðarinnar.“

Ísafjarðarbær hefur hafið framkvæmdir við skolphreinsistöð á Þingeyraroddanum. Þar verður settur upp 20 feta gámur á svæði við hliðina á vitanum, Víkingasvæðinu og um 55 metra frá tjaldsvæðinu, þar sem bæjar búar og ferðamenn fara og njóta ósnortinar fjörunnar og þaðan er stundað sjósund.

Sú staðsetning hefur sætt gagnrýni meðal íbúa á Þingeyri.

Lítill fiskibátur strandar í Patreksfirði

Rétt um 8 tímum eftir að áhöfn björgunarskipsins Vörður II á Patreksfirði var kallað út vegna smábáts sem hafði fengið rekald í skrúfuna í mynni Patreksfjarðar, var áhöfnin kölluð út á ný um 14 í dag. Þá hafði lítill fiskibátur strandað í fjörunni inn af bænum. Þegar að var komið var ljóst að lítið yrði að gert, báturinn á þurru og útfall. Skipverja sakaði ekki.

Farið var að athuga með bátinn um kl. 17 á aðfallinu. Þegar Vörður og smærri bátur frá Björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði komu að bátnum var hann kominn á flot og lítið annað en að koma taug í hann. Báturinn var svo dreginn eitthvað skemmdur til hafnar á Patreksfirði.

Myndir: Landsbjörg.

Heim í Búðardal 2024

Birt hafa verið drög að dagskrá Bæjarhátíðarinnar Heim í Búðardal sem verður haldin 5. – 7. júlí 2024.

Hátiðin er haldin í júlíbyrjun annað hvort ár, á sléttri tölu.

Það kannast eflaust flestir við texta Þorsteins Eggertssonar; „Er ég kem heim í Búðardal, bíður mín brúðarval. Og ég veit það verður svaka partý…“

Á bæjarhátíðinni „Heim í Búðardal“ er kannski minna um brúðarval sem bíður í röðum en með sanni má segja að það sé svaka partý og veislunni margt í.

Hátíðin er vel sótt af heimamönnum og gestum þeirra, þar á meðal brottfluttum Dalamönnum. Áherslan er lögð á fjölskylduvæna og heimatilbúna dagskrá og viðburði.

Bærinn er skreyttur hátt og lágt. Íbúar og fyrirtæki hafa opið fyrir gesti og gangandi. Dalamenn skemmta sér við leiki og með þátttöku í ýmsum dagskrárliðum!

  
Dagskráin er uppfull af skemmtun fyrir alla aldurshópa eins og sjá má af meðfylgjandi dagskrá sem er birt með fyrirvara um að fleira á eftir að bætast við.

FIMMTUDAGUR 4. JÚLÍ:

22:00 – Pub quiz og trúbador á Vínlandssetrinu

FÖSTUDAGUR 5. JÚLÍ:

10:00 – 17:00 – Eldhátíð að Eiríksstöðum 

13:00 – 17:00 – Frumkvöðlar fortíðarinnar – örsýning í Nýsköpunarsetri Dalabyggðar, Miðbraut 11

16:00 – 18:00 – Grillaðar pylsur hjá KM þjónustunni og Kata, Vesturbraut 2

18:00 – Bátakeppni við Búðardalshöfn

20:00 – Tónleikar í Dalíu, Miðbraut 15

LAUGARDAGUR 6. JÚLÍ:

10:00 – 17:00 – Eldhátíð að Eiríksstöðum 

11:00 – Sápubolti á íþróttavellinum í dalnum (fyrir neðan Dalbraut)

13:00 – 15:00 – 60 ára afmæli MS Búðardal, Brekkuhvammi 15

13:00 – 17:00 – Frumkvöðlar fortíðarinnar – örsýning í Nýsköpunarsetri Dalabyggðar, Miðbraut 11

13:00 – 17:00 – Markaður í Dalabúð

14:00 – Bestu lög barnanna í Dalabúð

15:00 – 17:00 – Blaðrarinn í Dalabúð

18:00 – Íslenskar heimsbókmenntir miðalda í Dalabúð

20:00 – Madame TouRette uppistand í Dalíu, Miðbraut 15

SUNNUDAGUR 7. JÚLÍ:

10:00 – 17:00 – Eldhátíð að Eiríksstöðum 

11:00 – Fjörumó á Fellsströnd, Staðarfelli

12:00 – 17:00 – Prjónakaffi á Stóra Múla, Saurbæ

13:00 – Hreinn Friðfinnsson – Heimkoma, í Árbliki

13:00 – Bókakynning í Dalabúð – Barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir

14:00 – BMX Bros á planinu við Dalabúð – sýning og námskeið

SKREYTINGAR verða eins og síðustu ár, þ.e.:
Grænn 💚 og/eða appelsínugulur 🧡 sunnan megin í þorpinu.
Rauður ❤️ og/eða blár 💙 norðan megin í þorpinu.
Gulur 💛 og/eða fjólublár 💜 í dreifbýlinu!

Teistu talningar í Vigur og Æðey

Á fyrstu tveimur vikum maímánaðar lauk Náttúrustofa Vestfjarða þriðju árlegu athuguninni á teistubyggðum í Vigur. Í ár var Æðey einnig bætt við vöktunarverkefnið sem hófst árið 2022 og voru fjórar talningar framkvæmdar í Vigur og tvær í Æðey. 

Í Vigur er að öllum líkindum stærsti varpstofn teistu á landinu með að hámarki 779 pör þetta árið. Þrátt fyrir að talan hafi minnkað eilítið frá þeim 835 pörum sem sáust í fyrra gæti munurinn einnig orsakast af náttúrulegu fráviki í mætingu fuglanna. Þekkt er að meðal annars geti veður og tímasetning sjávarfalla haft áhrif á mætingu teistanna. Búast má við dálitlum sveiflum í langtíma vöktunarverkefnum en eftir lengri tíma mun það koma í ljós hvort stofninn sé stöðugur, í vexti eða hvort fækkun sé í honum.  

Í Æðey var einnig töluverður fjöldi teista eða um 667 pör en árið 2000 var áætlað að um 500 pör væru í eyjunni. Ísafjarðardjúp, með svo stóra varpstofna í eyjunum tveimur, er því augljóslega ákaflega mikilvægt fyrir teistur á landinu.

Tegundin er á Válista íslenskra fugla sem tegund í hættu vegna marktækrar fækkunar síðustu áratugi.  

Þjónustugjöld við Dynjanda

Þjónustugjöld hafa verið innleidd við Dynjanda. Greitt er fyrir hvern bíl sem lagt er, samkvæmt gjaldskrá Umhverfisstofnunar sumarið 2024:

  • Einkabíll (5 sæta): 750 kr
  • Einkabíll (6-9 sæta): 1000 kr
  • Rútur (10-18 sæti): 2000 kr
  • Rútur (19-32 sæti): 4000 kr
  • Rútur (33-64 sæti): 7500 kr
  • Bifhjól: 300 kr

Aðgangur að salernum er innifalinn í þjónustugjaldi.

 

Gestir greiða þjónustugjald með því að fara inn á greiðslusíðu eða með því að skanna QR-kóða á skiltum á staðnum. 

Búnaður til sjálfvirkrar gjaldheimtu verður settur upp síðar í sumar.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað við Dynjanda samhliða fjölgun gesta undanfarin ár. Sumarið 2024 standa yfir framkvæmdir við nýja útsýnispalla og tengingar við þá. 

Aukin aðsókn að Menntaskólanum á Ísafirði

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Innritun fyrir haustönn er senn að ljúka í Menntaskólanum á Ísafirði en innritun nýnema lauk í dag. Í haust munu 69 nýnemar hefja nám við skólann. Áfram er mikil aðsókn í verk-, starfs- og listnám en 43% nýnema munu hefja nám í þeim greinum og er grunnnám málm- og véltæknigreina vinsælasta brautin en alls 19 nemendur munu hefja nám á brautinni í haust. Áfram er opna stúdentsbrautin vinsælust í bóknámi.  

Nemendum utan norðanverðra Vestfjarða er að fjölga í skólanum, bæði nýnemum og eldri nemendum. Af nýnemum koma 15% þeirra utan norðanverðra Vestfjarða sem er aukning frá því sem verið hefur. „Þetta er mikið gleðiefni fyrir okkur sem komum að skólanum. Ekki bara að nemendum sé að fjölga heldur einnig að það sé að fjölga nemendum utan norðanverðra Vestfjarða, t.d. frá suðursvæði Vestfjarða en líka utan Vestfjarða. Í fyrsta sinn í mjög langan tíma er heimavistin fullsetin. Dagskólanemendum mun í heildina fjölga um 17% milli skólaára sem er mikil aukning og styrkir allt skólastarfið okkar að hafa fleiri nemendur.  Við göngum full tilhlökkunar inn i nýtt skólaár„  segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Innritun í fjarnám stendur enn yfir og sömuleiðis eru laus pláss á nokkrum brautum í dagskóla s.s. í húsasmíði og vélstjórn A. Hægt er að hafa samband í gegnum netfang  fjarnam@misa.is þegar skrifstofa skólans opnar að nýju eftir verslunarmannahelgi til að innrita sig í skólann.

Alberta Gullveig í nýtt starf

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir hefur verið ráðin tengiráðgjafi í þróunarverkefninu Gott að eldast sem er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur, sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, vinna saman að þróunarverkefninu sem styrkt er af stjórnvöldum sem gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk.

Tengiráðgjafi starfar fyrir sveitarfélögin að verkefnum sem stuðla að virkni og vellíðan eldra fólks til að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun.

Alberta Gullveig lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2010. Hún lauk B.A. námi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands 2016 og MLM í forystu og stjórnum frá Háskólanum á Bifröst árið 2019. Einnig lauk hún viðbótardiplómu á framhaldsstigi í öldrunarþjónustu frá Háskóla Íslands 2024.

Alberta Gullveig hefur starfað innan velferðarþjónustu Ísafjarðarbæjar frá 2017 í fjölbreyttum verkefnum sem verkefnastjóri, ráðgjafi og deildarstjóri félagsþjónustu. Einnig hefur hún verið rekstrarstjóri tjaldsvæðisins í Tungudal á árunum 2014-2021. Þar áður hafði hún meðal annars starfað að félags- og tómstundamálum barna og stýrt Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar.

Framkvæmdaleyfi veitt fyrir landmótun í Tungudal

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur veitt framkvæmdaleyfi fyrir landmótun á skíðasvæðinu í Tungudal í Skutulsfirði.  Skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til að leyfið yrði veitt en lagði áherslu á að vandað yerði til við frágang og að nýr skurður sem mótaður yrði vegna afrennslis vatns, fylgi línum í landslagi og verði sem náttúrlegastur.

Um er að ræða landmótun á Dalbotnsbrekku frá Sandfellslyftu upp fyrir Miðfellslyftu. Loka þarf skurðum og slétta út holt og hæðir, moka skurð meðfram brekkunni að ofanverðu til þess að veita vatni út úr brekkunni og meðfram henni. Breyta þarf aðkomu að Sandfellslyftunni og hækka rampinn.

Mð þessum aðgerðum er vonast til þess að minni snjó þurfi til þess að opna Dalbotnsbrekkuna og byrjendasvæðið. Gert er ráð fyrir að brekkan verði um 40 metra breið. Þetta er fyrsti áfangi framkvæmdanna og nær eingöngu til neðsta hluta Dalbotnsbrekkunnar. Næstu áfangar verða upp á Miðfellslyftunni.

Hafnalög: eldisgjald lögfest

Þjónustubátur siglir inn í Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykkti á laugardaginn nýtt gjald til hafnasjóða, svonefnt eldisgjald, sem verður lagt á eldisfisk, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Var það samþykkt með 52 samhljóða atkvæðum en 9 þingmenn frá Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu sátu hjá.

Breytingartillaga frá stjórnarandstöðunni um að ákvæðum um aflagjald yrði breytt þannig að það næði til eldisfisks og yrði í samræmi við tillögur sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum var felld með 34 atkvæðum gegn 22.

Hafnasamband sveitarfélaga og samband íslenskra sveitarfélaga vildu að núverandi lagaákvæði um aflagjald yrði rýmkað og sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur vildu að aflagjaldið yrði minnst 0,7% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjólegs markaðsverðs á Atlandshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram.

Ferðafélag Ísfirðinga: Álftafjarðarheiði á laugardaginn

Álftafjarðarheiði  — 2 skór —
Laugardaginn 29. júní
Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina

Fararstjórn: Barði Ingibjartsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum að Seljalandi í Álftafirði.
Gengið verður frá Seljalandi í Álftafirði um Álftafjarðarheiði að Kroppstöðum í Korpudal í Önundarfirði.
Þetta var hestfær leið og sést gatan nokkuð vel á köflum. Búast má við að ganga í snjó á köflum.
Vegalengd: um 13 km, göngutími: um 6 klst., upphækkun: 725 m.

Kaffiveitingar gegn vægu gjaldi í hlöðunni á Kirkjubóli að ferð lokinni.

Nýjustu fréttir