Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 57

Efla þarf nám í lagareldi

Í skýrslu um lagareldi sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri (SHA) vann fyrir matvælaráðuneytið kemur m.a. fram að efla þurfi nám í lagareldi.

Þar kemur einnig fram að fyrirtæki í lagareldi þurfi að marka sér skýra mannauðsstefnu og
auka þurfi námsframboð þeirra háskóla sem nú þegar bjóða upp á nám í lagareldi á háskólastigi og að kynna þurfi atvinnugreinina á meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla, til þess mætti nýta hugmyndafræði Fiskeldisskóla unga fólksins sem nú þegar er starfræktur.

Lagt er til í skýrslunni að fagráð um nám í lagareldi verði stofnað sem samanstandi af m.a. af fulltrúum fyrirtækja í lagareldi, frá ráðuneytum matvæla og menntamála og hagaðilum.
Að auki kemur fram í skýrslunni að tryggja þurfi nægt fjármagn til að eftirlitsstofnanir og aðrar stofnanir sem koma að lagareldi geti ráðið það starfsfólk sem þarf til að stofnanirnar geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum.

Yfirlit um nám og námsframboð í fiskeldi á Íslandi er að finna í skýrslunni og er það borið saman við nám í Noregi og Færeyjum.

Sex sæmd heiðursmerki úr silfri

Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og Jörundur Áki Sveinsson starfandi framkvæmdastjóri KSÍ voru viðstaddir fyrsta heimaleik Vestra á nýjum knattspyrnuvelli, Kerecis velli

Þar afhentu þeir Gylfa Ólafssyni formanni bæjarráðs og Svavari Þór Guðmundssyni formanni knattspyrnudeildar Vestar fallegan platta og um leið óskuðu þeir félaginu og bænum til hamingju með nýjan völl.

Af þessu tilefni voru sex aðilar sæmdir heiðursmerki úr silfri frá KSÍ, en það voru þau Garðar Sigurgeirsson, Hildur Elísabet Pétursdóttir, Svavar Þór Guðmundsson, Jón Hálfdán Pétursson, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir og Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg.

Þessi merki eru veitt þeim sem unnið hafa vel og dyggilega að eflingu knattspyrnuíþróttarinnar í áratug eða lengur. 

Innviðaráðuneyti þrýstir á sameiningu sveitarfélaga

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra hefur ritað Reykhólahreppi bréf og spyrst fyrir um hvernig sveitarstjórnin hafi tekið ákvörðun um hvort hefja eigi sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög og hvort sveitarstjórnin hafi kynnt ákvörðun sína fyrir íbúunum.

Að fengnum upplýsingum sveitarfélagsins mun ráðuneytið leggja mat á hvort tilefni sé til
þess að taka stjórnsýslu sveitarfélagsins til formlegrar umfjöllunar á grundvelli
eftirlitshlutverks ráðuneytisins með stjórnsýslu sveitarfélaga sbr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Ráðuneytið lét á síðasta ári gera úttekt á getu sveitarfélagsins til þess að sinna lögbundnum verkefnum sínum og þar var bent á að hagkvæmast væri að Reykhólahreppur, Dalabyggð og Strandabyggð myndu sameinast annaðhvort Stykkishólmi eða Húnaþingi vestra og þannig yrði til sveitarfélag með öflugri stjórnsýslu.

Bent er á í úttektinni að árið 2022 hafi Reykhólahreppur verið tekjuhæsta sveitarfélagið pr íbúa á landinu, en að 42% teknanna hafi verið framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og að nokkur fjárhagsleg áhætta sé fólgin í þessari tekjusamsetningu.

Lögum samkvæmt ber sveitarfélaginu að kynna álit ráðuneytisins og svar sitt fyrir íbúum , ræða málið á tveimur fundum og taka ákvörðun hvort efnt verði til sameiningarviðræðna. Verði það niðurstaða sveitarstjórnar að hafna sameiningarviðræðum geta 10% íbúa farið fram á atkvæðagreiðslu um þá ákvörðun.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps brást við erindin ráðuneytisins með því að ákveða að halda íbúaþing um málefni sveitarfélagsins fimmtudaginn 29. ágúst nk.

Nýtt og betra fyrirkomulag grásleppuveiða

Alþingi samþykkti nýverið frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um breytt fyrirkomulag veiðistjórnunar á grásleppu. Það er fagnaðarefni að þingheimur skuli loksins hafa afgreitt og leitt í lög þetta framfaraskref við veiðar á grásleppu en frumvörp sama efnis höfðu áður verið lögð fram á síðustu þingum en ekki náðst samstaða um að klára málið fyrr en nú. Nýtt fyrirkomulag mun tryggja ábyrgar fiskveiðar sem eru til þess fallnar að viðhalda fiskistofnum og betri umgengni um vistkerfi sjávar og bæta rekstrarskilyrði greinarinnar.

Núverandi kerfi meingallað

Það hefur legið fyrir og verið viðurkennt um talsvert skeið að gildandi fyrirkomulag grásleppuveiða er meingallað og tryggir ekki viðunandi arðsemi af þessari auðlind. Það er ómarkvisst og ófyrirsjáanlegt fyrir þá sem veiðarnar stunda og nýliðun er svo til engin. Óvissa um dagafjölda og heildarmagn hefur ríkt við upphaf hverrar vertíðar síðastliðin ár. Þá hefur fyrirkomulagið ýtt undir ólympískar veiðar þar sem að haldið er á sjó í tvísýnum veðrum því afkoman er bundin dögum sem telja niður fyrir hvern bát. Það er til mikils unnið eitt og sér að koma á skynsamlegu kerfi sem dregur úr þessu og hefur öryggi sjómanna að leiðarljósi.

Fyrirsjáanlegri veiðistjórn

Nýtt fyrirkomulag kveður á um að grásleppa verður hlutdeildarsett frá og með árinu 2025 og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til aflareynslu sem fengin hafi verið á grundvelli leyfis sem skráð er á viðkomandi skip á tilteknu tímabili. Þá er mælt fyrir að aflaheimildir í grásleppu verði svæðisskiptar og framsal aflaheimilda eingöngu heimilt innan tiltekinna svæða. Til að tryggja nýliðun í greininni verður ráðherra heimilað að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem halda til grásleppuveiða í fyrsta skipti.

Ábyrg fiskveiðistjórn varðar almannahag og með hlutdeildarsetningu grásleppu er verið að fylgja eftir meginstefnu stjórnvalda í fiskveiðistjórn sem reynst hefur vel síðustu áratugi um að auka verðmætasköpun til lengri tíma og bæta umgengni við auðlindina. Breytingin mun ýta undir hagræðingu og bætta afkomu í rekstri með fyrirsjáanlegri fiskveiðistjórn, auknum sveigjanleika fyrir þá sem stunda veiðarnar og einfaldari stjórnsýslu.

Traustur meirihluti

Breyting á fiskveiðistjórn grásleppu hefur verið lengið í deiglunni eins og fyrr er getið og þegar breytingar ná loksins fram að ganga er viðbúið að ekki séu allir á eitt sáttir. Við þinglega meðferð málsins var vandað til verka, hlustað var eftir ólíkum sjónarmiðum og tillit tekið til margvíslegra athugasemda. Eftir stóðu einstaka úrtöluraddir gegn kvótakerfinu almennt án þess að vikið væri að kostum breytinganna fyrir grásleppuútgerðir eða því hvað kerfið sem hefur verið við lýði er lélegt.

Viðbúið var að þetta hefði ýmis áhrif á afstöðu flokka á þinginu. Til að mynda þá voru það eingöngu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem afgreiddu málið út úr atvinnuveganefnd með meirihlutaáliti. Allur þingflokkur Viðreisnar sat hjá við lokaafgreiðslu málsins en einn þingmaður Viðreisnar hafði verið meðflutningsmaður frumvarpsins og studdi þannig ekki eigið frumvarp. Tveggja manna þingflokkur Miðflokksins tókst að klofna í afstöðu sinni til málsins þar sem einn þingmaður var fylgjandi málinu en annar á móti. Samfylking, Píratar og Flokkur fólksins kusu svo gegn málinu. Að endingu var málið borið uppi og samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna.

Grásleppuútgerð efld

Hlutdeildarsetning mun efla grásleppuútgerðir og þar með þær byggðir landsins þar sem veiðarnar eru stundaðar. Ennfremur mun breytingin leiða til hættuminni sjósóknar, betri og vistvænni nýtingar veiðarfæra, t.a.m. fækka netum í sjó og þar með tjónum á netum og umhverfi og draga úr óæskilegum meðafla.

Mest um vert er að nýtt fyrirkomulag grásleppuveiða er til þess fallið að tryggja samfélagslega, umhverfislega og efnahagslega sjálfbærni til framtíðar litið auk þess að stuðla að nýsköpun og nýliðun í greininni.

Teitur Björn Einarsson,

þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Fiskeldi: 80% starfa eru á landsbyggðinni

Fram kemur í skýrslu sem Háskólinn á Akureyri vann í vetur fyrir Matvælaráðuneytið að um 80% starfsmanna sem vinna við fiskeldi búi á landsbyggðinni. Árið 2022 fengu um 700 manns laun frá fiskeldi. Árið 2009 störfuðu einungis um 40 manns við sjókvíaeldi á Íslandi.

Gerð var könnun meðal fiskeldisfyrirtækja og kom þar fram að í 4 fyrirtækjum af 8 voru 100 % starfsmanna með íslenskt ríkisfang. Tvö fyrirtæki eru með um 80% starfsmanna með íslenskt ríkisfang og tvö fyrirtæki þar sem starfmenn með íslenskt ríkisfang eru undir 80%.

Matvælaráðuneytið birti skýrsluna fyrst í gær. Skýrslan fjallar um mannauðsmál í fiskeldi og þar eru greiningar á ýmsum atriðum sem lúta að þeim.

Fram kemur að bjóða þurfi upp á fagskólanám bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi þannig að nemandi sem aflar sér þekkingar á sviði lagareldis allt frá byrjun framhaldsskóla náms eigi greiða leið inn í BS nám í lagareldi á háskólastigi.

Það kom m.a. fram í könnun sem gerð var á meðal forsvarsmanna eldisfyrirtækja að nauðsynlegt sé að koma diplómanáminu sem er boðið upp á við Háskólann á Hólum upp á BS stig auk þess að tengja háskólanám í lagareldi námsbrautum á borð við m.a. lögfræði, viðskiptafræði, líffræði og tækni- og verkfræði svo og líffræði ásamt öðrum greinum sem nú þegar er boðið upp á í háskólum landsins.

Auk þess þurfi að sjá til þess að starfmenn hinna ýmsu eftirlitstofnana og þeirra stofnana sem sjá um leyfisveitingar eigi þess kost að sækja sér endurmenntun og þjálfun eins og þurfa þykir.

Þá segir í skýrslunni að þörf sé á að samræma vinnulag eftirlitstofnana og annarra stofnana sem umsýsla lagareldi og sjá til þess að þær hafi úr nægu fjármagni að spila til að geta sinnt lögbundnum hlutverkum sínum og einnig er nauðsynlegt að veita auknu fé inn í menntakerfið til að auka við námsframboð.

Mannaflsfrek atvinnugrein og ört stækkandi

Í samantekt segir að lagareldi sé ört stækkandi atvinnugrein í landinu. „Greinin er mannaflsfrek og gert er ráð fyrir að þörf fyrir starfmenn aukist mjög á næstu árum. Störfin eru fjölbreytt og krefjast mismunandi
þekkingar og færni.“

Ennfremur segir: „Fjárfesting í menntun og gott framboð á öflugu námi í matvælatengdum greinum eru forsenda fyrir áframhaldandi samkeppnishæfi íslenskrar matvælaframleiðslu.“

Fasteignamat hækkað um 400% fra 2011

Í skýrslunni segir að mikill viðsnúningur hafi orðið í byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum með tilkomu fiskeldis:

„Fjöldi fólks í Vesturbyggð hefur lífsviðurværi sitt af atvinnugreininni, meðaltekjur fólks í sveitarfélaginu hafa aukist til muna og þar með einnig tekjur sveitarfélagsins. Með tilkomu fyrirtækja á borð við Arnarlax og Arctic Fish urðu til ný störf sem krefjast ýmis konar sérfræðiþekkingar, bæði, tækni- og háskólamenntunar og þar með hækkar menntunarstig og fleiri eru tilbúnir til að flytja á svæðið. Fasteignamat hefur einnig hækkað umtalsvert (Gunnlaugur Snær Ólafsson, 2023).“

Þá segir að á Vestfjörðum hafi farið fram mikil uppbygging innviða og fasteignamat hafi hækkað um 400% frá árinu 2011.

Vatnsfjörður: rífandi sala á eldisfiski

Hjónin Sveinn Viðarsson og Kristín Ósk Matthíasdóttir.

Hjónin Sveinn Viðarsson og Kristín Ósk Matthíasdóttir sem reka fiskeldi í Vatnsfirði hófu að selja afurðir sínar í sjálfsafgreiðslu fyrir tveimur vikum og hefur verið rífandi sala. Sveinn sagði í samtali við Bæjarins besta að selst hafi fyrir 600-700 þúsund krónur á þessum tveimur vikum.

Í Vatnsfirði er jarðhiti nýttur til þess að ala bleikju. Eru hrognin fengin frá Hólum úr stofni þar í nágrenninu og þau klakin út í Vatnsfirði. Bleikjan er hraðvaxta og holdmikil og því góð til eldis. Þá er fóðrið lífrænt og allt unnið úr þörungum og fengið frá Laxá í Eyjafirði.

Sveinn segir að eldið í Vatnsfirði sé orðið 42 ára gamalt og hafi alla tíð verið lyfja- og sjúkdómalaust. Verið sé að byggja nýtt eldishús og auk þess að koma upp íbúðarhúsi.

Hann segir að þau hjón séu með um 20 tonna lífmassa pr. mánuð og framleiðslan sé um 24 – 26 tonn yfir árið af flökum sem sé selt á innanlandsmarkað. Þetta sé nóg fyrir þau.

En það er ekki bara fiskeldi sem er stundað í Vatnsfirði. Þau eru líka með aliendur og selja andaregg og hænsnaegg og til það krydda þetta frekar eru til sölu jarðarber og hindber.

Í afgreiðsluhúsinu eru vörurnar pakkaðar og verðmerktar og geta vegfarendur keypt sína vöru og skilið eftir pening eða millifært á reikning.

Sjálfsafgreiðsluaðstaðan í Vatnsfirði.

Fjallvegir: Steinadalsheiði ófær

Hálendiskort Vegagerðarinnar sem tók gildi 24.6. 2024.

Ástand fjallvega á Vestfjörðum er nokkuð gott samkvæmt nýju hálendiskorti frá Vegagerðinni. Steinadalsheiði er lokuð, en hún er milli Kollafjarðar í Strandasýslu og Gilsfjarðar. Þorskafjarðarheiði var í gær tekin úr því að vera sögð ófær og er talin fær en vegurinn grófur. Það var fyrir helgi um 5 metra skafl á heiðinni en hann er talinn farinn nú. Á næstu dögum verður heiðin hefluð.

Þá var áformað að senda jarðýtu á Kollafjarðarheiði í byrjun vikunnar og ástand heiðarinnar var óþekkt í gær.

Hrafnseyrarheiði er fær öllum bílum en grófur vegur. Opið er úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð að Lokinhamradal og er vegurinn sagður vel fær.

Vegurinn út Patreksfjörð að Hvallátrum er ósléttur en fær.

Þá er búið að opna veginn yfir í Ingólfsfjörð úr Norðurfirði í Árneshreppi og þaðan til Ófeigsfjarðar og er hann fær fjórhjóladrifsbílum.

Þingeyri: svigrúm til að færa hreinsistöðina

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

„Við höfum verið í samskiptum við íbúa vegna staðsetningar á hreinsistöðinni auk þess sem verkefnið var kynnt á íbúafundi í maí sl.“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Gert er ráð fyrir að hreinsistöðin verði staðsett á iðnaðar- og athafnalóð sem Ísafjarðarbæ á Þingeyararodda. Arna Lára segir að verið sé að skoða með hönnuði verksins hvaða leiðir eru færar til að koma betur til móts við ábendingar íbúa. „Svigrúm er til staðar að færa stöðina innan lóðarinnar.“

Ísafjarðarbær hefur hafið framkvæmdir við skolphreinsistöð á Þingeyraroddanum. Þar verður settur upp 20 feta gámur á svæði við hliðina á vitanum, Víkingasvæðinu og um 55 metra frá tjaldsvæðinu, þar sem bæjar búar og ferðamenn fara og njóta ósnortinar fjörunnar og þaðan er stundað sjósund.

Sú staðsetning hefur sætt gagnrýni meðal íbúa á Þingeyri.

Lítill fiskibátur strandar í Patreksfirði

Rétt um 8 tímum eftir að áhöfn björgunarskipsins Vörður II á Patreksfirði var kallað út vegna smábáts sem hafði fengið rekald í skrúfuna í mynni Patreksfjarðar, var áhöfnin kölluð út á ný um 14 í dag. Þá hafði lítill fiskibátur strandað í fjörunni inn af bænum. Þegar að var komið var ljóst að lítið yrði að gert, báturinn á þurru og útfall. Skipverja sakaði ekki.

Farið var að athuga með bátinn um kl. 17 á aðfallinu. Þegar Vörður og smærri bátur frá Björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði komu að bátnum var hann kominn á flot og lítið annað en að koma taug í hann. Báturinn var svo dreginn eitthvað skemmdur til hafnar á Patreksfirði.

Myndir: Landsbjörg.

Heim í Búðardal 2024

Birt hafa verið drög að dagskrá Bæjarhátíðarinnar Heim í Búðardal sem verður haldin 5. – 7. júlí 2024.

Hátiðin er haldin í júlíbyrjun annað hvort ár, á sléttri tölu.

Það kannast eflaust flestir við texta Þorsteins Eggertssonar; „Er ég kem heim í Búðardal, bíður mín brúðarval. Og ég veit það verður svaka partý…“

Á bæjarhátíðinni „Heim í Búðardal“ er kannski minna um brúðarval sem bíður í röðum en með sanni má segja að það sé svaka partý og veislunni margt í.

Hátíðin er vel sótt af heimamönnum og gestum þeirra, þar á meðal brottfluttum Dalamönnum. Áherslan er lögð á fjölskylduvæna og heimatilbúna dagskrá og viðburði.

Bærinn er skreyttur hátt og lágt. Íbúar og fyrirtæki hafa opið fyrir gesti og gangandi. Dalamenn skemmta sér við leiki og með þátttöku í ýmsum dagskrárliðum!

  
Dagskráin er uppfull af skemmtun fyrir alla aldurshópa eins og sjá má af meðfylgjandi dagskrá sem er birt með fyrirvara um að fleira á eftir að bætast við.

FIMMTUDAGUR 4. JÚLÍ:

22:00 – Pub quiz og trúbador á Vínlandssetrinu

FÖSTUDAGUR 5. JÚLÍ:

10:00 – 17:00 – Eldhátíð að Eiríksstöðum 

13:00 – 17:00 – Frumkvöðlar fortíðarinnar – örsýning í Nýsköpunarsetri Dalabyggðar, Miðbraut 11

16:00 – 18:00 – Grillaðar pylsur hjá KM þjónustunni og Kata, Vesturbraut 2

18:00 – Bátakeppni við Búðardalshöfn

20:00 – Tónleikar í Dalíu, Miðbraut 15

LAUGARDAGUR 6. JÚLÍ:

10:00 – 17:00 – Eldhátíð að Eiríksstöðum 

11:00 – Sápubolti á íþróttavellinum í dalnum (fyrir neðan Dalbraut)

13:00 – 15:00 – 60 ára afmæli MS Búðardal, Brekkuhvammi 15

13:00 – 17:00 – Frumkvöðlar fortíðarinnar – örsýning í Nýsköpunarsetri Dalabyggðar, Miðbraut 11

13:00 – 17:00 – Markaður í Dalabúð

14:00 – Bestu lög barnanna í Dalabúð

15:00 – 17:00 – Blaðrarinn í Dalabúð

18:00 – Íslenskar heimsbókmenntir miðalda í Dalabúð

20:00 – Madame TouRette uppistand í Dalíu, Miðbraut 15

SUNNUDAGUR 7. JÚLÍ:

10:00 – 17:00 – Eldhátíð að Eiríksstöðum 

11:00 – Fjörumó á Fellsströnd, Staðarfelli

12:00 – 17:00 – Prjónakaffi á Stóra Múla, Saurbæ

13:00 – Hreinn Friðfinnsson – Heimkoma, í Árbliki

13:00 – Bókakynning í Dalabúð – Barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir

14:00 – BMX Bros á planinu við Dalabúð – sýning og námskeið

SKREYTINGAR verða eins og síðustu ár, þ.e.:
Grænn 💚 og/eða appelsínugulur 🧡 sunnan megin í þorpinu.
Rauður ❤️ og/eða blár 💙 norðan megin í þorpinu.
Gulur 💛 og/eða fjólublár 💜 í dreifbýlinu!

Nýjustu fréttir