Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 56

Götuveislan á Flateyri hefst á morgun

Um helgina verður hin árlega götuveisla á Flateyri. Dagskrá hefst á morgun , fimmtudag með ljósmyndasýningu í Bryggjukaffi og barsvar keppni á Vagninum annað kvöld. Á föstudaginn verður frá kl 20 Popphátíðin í Ólafstúni og vísar nafnið auðvitað til hins landsþekkta tónlistarmanns og trillukarls Óla Popp. Síðan verður dansleikur á Vagninum.

Á laugardaginn verður mikið um dýrðir og dagskrá allan daginn , frisbýgolf, götumarkaður , valið best skreytta húsið á Flateyri, tónlist á Bryggjukaffi, sumarhátíð Lýðskólans, grill og kvöldvaka.

Á sunnudaginn verður svo grillað fyrir þátttakendur.

Magnús Einar Magnússon, einn forsvarsmanna hátíðarinnar sagði að aldrei hafi fleiri skrá sig á götumarkaðinn en í ár eða 20 söluaðilar.

Frá götuveislunni í fyrra.

Vestfirðir: fjórðungur raforku framleidd af einkaaðilum

Staðsetning smávirkjana á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði fram á Aþingi fyrir þingfrestun skýrslu um smávirkjanir. Það eru virkjanir með uppsett afl minna en 10 MW. Samkvæmt skýrslunni eru samkvæmt gagnagrunni Orkustofnunar smávirkjanirnar 62 sem voru í notkun á Íslandi í árslok 2023. Samanlagt uppsett afl þeirra
var tæplega 100 MW og áætluð orkuvinnslugeta um 549 GWst á ári. Smávirkjanir eru með tæplega 3% af heildar raforkuframleiðslu landsins. Til samanburðar þá er orkunotkun heimilanna 5% af raforkuframleiðslu landsins.

Vestfirðir: fjórðungur framleiðslu frá einkaaðilum

OV rekur 9 virkjanir (Mjólkárvirkjun skipt í tvær), með samanlagt afl upp á 16,7 MW.
Auk þess framleiða 10 virkjanir í einkaeigu raforku inn á dreifikerfi OV með samanlagt afl
uppá 5,7 MW. Samanlagt afl þessara virkjana er 22,5 MW. Nemur því hlutur einkaaðila fjórðungi af heildarframleiðslunni á Vestfjörðum.

Samkvæmt RARIK framleiða 39 vatnsaflsvirkjanir undir 10 MW inn á dreifikerfi RARIK. Uppsett afl þessara virkjana er á bilinu 13-9.900 kW. Samanlagt afl þessara virkjana er 66,5 MW.

Fjórar smávirkjanir í eigu Fallorku framleiða inn á dreifikerfi NO. Uppsett afl þeirra er á bilinu 290 -3.300 kW. Samanlagt afl þessara virkjana er 6,4 MW.

Listi yfir vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum:

Strandabyggð: frestað að heimila undirskriftasöfnun

Sveitarstjórn Strandabyggðar frestaði því í síðustu viku að taka afstöðu til erindis um undirskriftasöfnun meðal íbúa. Það var Jón Jónsson á Kirkjubóli sem tilkynnti sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftasöfnun. Málið snýst , að sögn Jóns, um ásakanir frá lykilstarfsfólki Strandabyggðar um „sjálftöku fjármuna úr sjóðum sveitarfélagsins á meðan ég sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili. Einungis er miðað við þær skriflegu ásakanir sem bornar hafa verið fram af starfsfólki sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili. Ég vil semsagt að meintir glæpir mínir verði rannsakaðir af óháðum aðila og þessar ásakanir um leið. Það er allra hagur að öll þessi mál séu upplýst og ef um sjálftöku úr sveitarsjóði er að ræða á auðvitað að krefjast endurgreiðslu.“

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að sveitarstjórn skuli „innan fjögurra vikna eftir að hún hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun meta hvort ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um viðkomandi mál og skal hún tilkynna ábyrgðaraðila um þá niðurstöðu sína án tafar. Sveitarstjórn skal jafnframt leiðbeina ábyrgðaraðila um orðalag tilkynningarinnar og önnur framkvæmdaratriði eftir því sem þörf er á og veita honum frest til að bæta úr annmörkum, sé tilefni til.“ og ennfremur segir: „Í samræmi við ofangreint mun bréfritara verða tilkynnt um afstöðu sveitarfélagsins til erindisins innan þess frests sem sveitarstjórn hefur til þess.“

Meirihluti sveitarstjórnar, þrír fulltrúar T lista samþykktu að undirskriftasöfnunni yrði að sinni frestað og leitað yrði til lögfræðings sveitarfélagsins, til þess að undirskriftasöfnunin standist lög og reglugerðir. Og sveitarfélagið nýti tímafrestinn til að afla sér gagna, en reynir þó að flýta svörum eins og hægt er.

Einn fulltrui A lista greiddi atkvæði gegn þessari afgreiðslu og annar sat hjá.

Áður hafði sveitarstjórn fellt tillögu um að samþykkja undirskriftasöfnunina með þremur atkvæðum gegn einu, einn fulltrúi sat hjá.

Besta deildin: Vestri mætir Fram á morgun

Næsti leikur Vestra í Bestu deild karla verður á morgun kl 18 þegar Fram kemur í heimsókn. Leikið verður á Kerecis vellinum á Torfnesi.

Nýi gervigrasvöllurinn var vígður á laugardaginn þegar Valur kom í heimsókn og höfðu Hlíðarendapiltar sigur. Vel var mætt á völlinn og komu um 450 manns, sem er glæsileg mæting. Þetta verður aðeins annar heimaleikur Vestra á keppnistímabilinu þar sem völlurinn var ekki tilbúinn fyrr en núna. Þess í stað verða næstu vikurnar heimaleikir nokkuð þétt og gefur það Vestra aukið tækifæri á að sækja stig. Liðinu var spáð falli úr deildinni en þrátt fyrir skort á heimaleikjum er liðið með 10 stig og er fyrir ofan fallsæti þegar deildakeppnin er hálfnuð, leiknir hafa verið 11 leikir af 22.

Fram er í 7. sæti með 13 stig svo það skilur aðeins einn sigurleikur liðin að.

Vestramennirnir Vla­dimir Tufegdzic og Ibra­hima Baldé verða í leikbanni á morgun vegna gulra spjalda og missa af leiknum.  

Það verða borgarar á grillinu og því tilvalið að skella sér á Kereceisvöllinn með fjölskylduna og hvetja okkar menn til sigurs. 

Kerecis fær 20 m.kr. styrk frá utanríkisráðuneytinu

Frá afhendingu verðalunannan. Mynd: utanríkisráðuneytið.

Fjögur fyrirtæki fengu í síðustu viku styrki frá utanríkisráðuneytinu úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs vegna samstarfsverkefna í þróunarríkjum. Markmið sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Fyrirtækin sem um ræðir eru Hananja, VAXA Technologies, Íslenski sjávarklasinn og Kerecis. 

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu metnaðarfull og ólík verkefnin eru sem nú hljóta styrki. Aðkoma atvinnulífsins og sú fjölbreytta þekking sem þar er að finna eru mikilvægir liðir í því að styðja við þróunarríki og auka þar velsæld. Ég hlakka til að fylgjast með framkvæmd verkefnanna þegar fram líða stundir,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Meðhöndlun brunasára hjá börnum í Afganistan

Kerecis hlaut 24.210.400 króna styrk í alþjóðlegt samstarfsverkefni sem snýr að því að bæta meðferð brunasára í Afganistan en Kerecis framleiðir roð til sáragræðinga. Tækni fyrirtækisins hefur reynst afar vel í meðferð vefjaskaða, hvort sem um er að ræða þrálát sár eða sár af völdum bruna segir í tilkynningu ráðuneytisins. Verkefnið sem um ræðir snýr að meðhöndlun brunasára afganskra barna á brunadeild Indira Gandhi-barnaspítalans, þeim að kostnaðarlausu. Börn í Afganistan verða ósjaldan fyrir alvarlegum bruna, meðal annars vegna opinna eldstæða sem notuð eru til matseldar. Markmiðið er einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í Afganistan til notkunar á þeirri árangursríku meðferð sem sáraroð Kerecis byggir á, til að bæta meðhöndlun sjúklinga og byggja þannig upp langtímahæfni starfsfólks í sjúkraþjónustu.

Fasteignir Ísafjarðarbæjar: tap 49 m.kr. – skuldir 1 milljarður króna

Tap varð af rekstri Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf á síðasta ári um 49 m.kr. Er það verulegur viðsnúningur frá fyrra ári þegar hagnaður varð um 35 m.kr. Staðan versnaði því um 84 m.kr. milli ára. Mestu munar um minni hagnað af sölu eigna. Í fyrra varð hann 57 m.kr. en hafði verið árið 2022 mun meiri eða 123 m.kr.

Þá varð veruleg hækkun á rekstrarkostnaði íbúða. Hann varð 83 m.kr. í fyrra og hækkaði um 29 m.kr. Einkum er það liðurinn viðhald og rekstur sem hækkar, varð 47 m.kr. en hafði árinu áður verið 20 m.kr.

Þessir tveir liðir skýra að mestu breytinguna á afkomu félagsins milli ára. Þriðji liðurinn sem tekur nokkrum breytingum milli ára er þátttaka í sameiginlegum kostnaði Ísafjarðarbæjar sem hækkar um 4 m.kr. og var 17 m.kr. en hafði verið 13 m.kr. 2022.

Að frátöldum bókfærðum hagnaði af sölu íbúa er rekstur félagsins með um 100 m.kr. tapi á ári síðustu tvö ár.

Skuldir félagsins eru 1 milljarður króna og eigið fé er neikvætt um 534 m.kr.

Bæjarráð bókaði á mánudaginn um ársreikninginn að rekstur Fasteigna Ísafjarðarbæjar hafi verið „þungur um árabil og er það stefna bæjaryfirvalda að minnka umfang rekstarins. Stór viðgerðarverkefnni vegna myglu setja mark sitt á ársreikning síðasta árs.“

Í stjórn Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf eru Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri, sem er formaður. Auk hennar eru bæjarfulltrúarnir Nanný Arna Guðmundsdóttir og Kristján Þór Kristjánsson í stjórn. Stjórnarmenn fá ekki greitt fyrir fundasetu.

Súla

Súlan er stór, ljós og rennilegur sjófugl. Fullorðin súla er nær alhvít, með gulleitan haus og svarta vængenda. Vængir eru langir, oddmjóir og stélið fleyglaga. Ungfugl er margbreytilegur að lit en þó alltaf auðþekktur á stærð, lögun og hegðun frá öðrum sjófuglum. Nýfleygir ungar eru aldökkir með ljósum dílum, en lýsast smám saman þangað til þeir skrýðast fullorðinsbúningi fjögurra ára gamlir. Kynin eru eins.

Súlan er oft nefnd drottning Atlantshafsins vegna þess hve tíguleg hún er. Er venjulega félagslynd og flýgur oft í litlum hópum lágt yfir haffleti. Flugið er kraftmikið með djúpum vængjatökum, brotið upp af svifflugi með aftursveigðum vængjum. Er fremur létt á sundi.


Súlukast er það kallað þegar súlan stingur sér eftir æti með aðfelldum vængjum, lóðrétt úr allt að 40 m hæð, en einnig á ská úr minni hæð á grunnu vatni. Fæðan er fiskur, eins og síld, loðna, makríll, þorskfiskar, sandsíli o.fl., jafnvel úrgangur frá fiskiskipum.

Súlan er að mestu farfugl. Um helmingur íslenskra súlna verpa í Eldey, sem er eitt stærsta varp í heimi. Vetrarstöðvar eru í Norður-Atlantshafi. Íslenskar súlur hafa fundist á Grænlandi og með ströndum Vestur-Evrópu suður til Vestur-Afríku. Þær hverfa að mestu frá landinu í október−desember. Varpheimkynni auk Íslands eru í Kanada, Færeyjum, á Bretlandseyjum, í Noregi, Þýskalandi og Frakklandi.

Af fuglavefur.is

RÁÐHERRA OPNAÐI SÝNINGUNA FRAMTÍÐARFORTÍÐ

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, opnaði sýninguna FRAMTÍÐARFORTÍÐ í Safnahúsinu á Ísafirði á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Sýningin er haldin til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar og er sú fyrsta í röð sýninga sem marka samvinnu Listasafns Íslands og safna á landsbyggðinni.

Valin hafa verið verk úr safneign Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar og hvað það þýðir að vera þjóð.

Efla þarf nám í lagareldi

Í skýrslu um lagareldi sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri (SHA) vann fyrir matvælaráðuneytið kemur m.a. fram að efla þurfi nám í lagareldi.

Þar kemur einnig fram að fyrirtæki í lagareldi þurfi að marka sér skýra mannauðsstefnu og
auka þurfi námsframboð þeirra háskóla sem nú þegar bjóða upp á nám í lagareldi á háskólastigi og að kynna þurfi atvinnugreinina á meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla, til þess mætti nýta hugmyndafræði Fiskeldisskóla unga fólksins sem nú þegar er starfræktur.

Lagt er til í skýrslunni að fagráð um nám í lagareldi verði stofnað sem samanstandi af m.a. af fulltrúum fyrirtækja í lagareldi, frá ráðuneytum matvæla og menntamála og hagaðilum.
Að auki kemur fram í skýrslunni að tryggja þurfi nægt fjármagn til að eftirlitsstofnanir og aðrar stofnanir sem koma að lagareldi geti ráðið það starfsfólk sem þarf til að stofnanirnar geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum.

Yfirlit um nám og námsframboð í fiskeldi á Íslandi er að finna í skýrslunni og er það borið saman við nám í Noregi og Færeyjum.

Sex sæmd heiðursmerki úr silfri

Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og Jörundur Áki Sveinsson starfandi framkvæmdastjóri KSÍ voru viðstaddir fyrsta heimaleik Vestra á nýjum knattspyrnuvelli, Kerecis velli

Þar afhentu þeir Gylfa Ólafssyni formanni bæjarráðs og Svavari Þór Guðmundssyni formanni knattspyrnudeildar Vestar fallegan platta og um leið óskuðu þeir félaginu og bænum til hamingju með nýjan völl.

Af þessu tilefni voru sex aðilar sæmdir heiðursmerki úr silfri frá KSÍ, en það voru þau Garðar Sigurgeirsson, Hildur Elísabet Pétursdóttir, Svavar Þór Guðmundsson, Jón Hálfdán Pétursson, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir og Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg.

Þessi merki eru veitt þeim sem unnið hafa vel og dyggilega að eflingu knattspyrnuíþróttarinnar í áratug eða lengur. 

Nýjustu fréttir