Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 55

Vegagerðin: vinna 3.000 rúmmetra af malarslitlagsefni

Ennisháls í apríl 2021. Vefmyndavél Vegagerðarinnar.

Strandabyggð hefur samþykkt að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi á Ennishálsi, sem er milli Kollafjarðar og Bitrufjarðar í Strandasýslu.

Þar er samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar ætlunin að vinna 3.000 rúmmetra af malarslitlagsefni í námunni Ennisháls nr. 22599 í sumar.

Gerður var verksamningur í gær við Steypustöðina- Námur ehf , sem er fyrirtæki í Hafnarfirði. Efnið er ætlað í almennt viðhald á malarvegunum á svæðinu.

Gestir skemmtiferðaskipanna GEFA ÍSLENSKU SÉNS

Glöggir vegfarendur hafa ef til vill rekið augun í skilti eða veggspjöld sem komið hefir verið fyrir víðsvegar um Ísafjörð, bæði á staurum svo og inn í verslunum og á veitingahúsum. Hugsanlega hafa þeir hinir sömu spurt sig hverju sætir. Er ekki úr vegi að útlista það ögn.

Þannig er mál með vexti að átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag var úthlutað verkefnisstyrk úr sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæjar. Styrkinn hlaut verkefnið til að standa að eins konar samkvæmisleik fyrir gesti skemmtiferðaskipana og annað ferðafólk.

Nú er vitað mál að sumum þeirra erlendu gesta sem sækja Ísafjörð heim leikur forvitni á að vita hvernig maður segir hitt eða þetta á íslensku. Sumir þeirra eiga það til að spyrja þjónustuaðila eða jafnvel fólk á förnum vegi um slíkt. Framandi eða öðruvísi tungumál, ásamt öðruvísi menningu, er jú hluti þess að vera gestur í erlendu landi, hluti af því að upplifa eitthvað nýtt, læra eitthvað nýtt.

Fæddist því sú hugmynd hvort ekki væri sniðugt að útbúa veggspjöld og skilti með QR-kóða sem leiðir fólk inn á þessa síðu: www.gefumislenskusens.is/godandaginnisafjordur. Þar gefur að líta fjóra þjóðfána sem standa fyrir ensku, þýsku og frönsku. Smelli gesturinn til dæmis á þýsku fær hann algenga frasa á íslensku með hljóðskrá ásamt þýðingu á þýsku. Slíkt hið sama á auðvitað við um hina þjóðfánana nema hvað þýtt er á ensku og frönsku. Ætti gesturinn því að vera í stakk búinn til að bjóða manni og öðrum góðan daginn á íslensku og ef til vill panta sér kaffi á íslensku. Til þess er leikurinn gerður.

Viljum við því hvetja Ísfirðinga og aðra til að benda fólki á veggspjöldin og skiltin fái þeir fyrirspurn um hvernig maður segir þetta eða hitt á íslensku. Það ætti að geta sett skemmtilegan svip á bæinn ef hjarðar túrista rölta um bæinn vopnaðar myndavél og bjóða gestum og gangandi góðan daginn hægri vinstri. Auk þess sem það ætti tvímælalaust að geta skapað Ísafirði sérstöðu sem áfangastaður á Íslandi eða allavega þangað til einhver annar tekur þessa hugmynd upp.

Ísafjörður var allavega fyrstur til þess að gera eitthvað þessu líkt eftir því sem við best vitum.

Fyrir hönd Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri

Strandabyggð: fagna byggðakvóta – leggjast ekki gegn vali á útgerð

Hólmavíkurhöfn í vikunni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar afgreiddi í síðustu viku umsögn sína um ráðstöfun 500 tonna byggðakvóta Byggðastofnunar til Hólmavíkur vegna fiskveiðiársins 2023/24.

Svonefnd aflamarksnefnd innan Byggðastofnunar lagði til að útgerðarfyrirtækinu Vissa ehf og samstarfsaðilar þess fengju kvótann.

Í bókun sveitarstjórnar segir:

„Sveitarstjórn Strandabyggðar fagnar ákvörðun Aflamarksnefndar Byggðastofnunar um úthlutun aflamarks til Hólmavíkur. Sveitarstjórn leggst ekki gegn niðurstöðu Aflamarksnefndar og starfsmanna Byggðastofnunar um að veita Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum þennan kvóta. Sveitarstjórn óskar Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum til hamingju með ákvörðun Byggðastofnunar“.

Vissa útgerð ehf á bátinn Hlökk ST 66 sem er gerður út á grásleppu og hefur 177 tonna þorskkvóta og 156 tonna kvóta af ýsu.

Málið var áður rætt í sveitarstjórninni í byrjun apríl sl. og þá lýsti Strandabandalagið yfir vonbrigðum að ekki hafi tekist samkomulag milli heimamanna og Stakkavíkur frá Grindavík, sem hafði hug á að flytja fiskvinnslu sína til Hólmavíkur. Hvatti Strandabandalagið alla hlutaðeigandi, þar með talið Byggðastofnun, til þess að hugleiða „samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma, þegar það ferli fer í gang af hálfu Byggðastofnunar á næstu vikum.“

Sturluhátíðin verður haldin 13. júlí

Frá Sturluhátíðinni í fyrra 2023.

Nú fer að styttast í árlegan viðburð. Sturlufélagið heldur árlega Sturluhátíð laugardaginn 13. júlí  nk. Hátíðin er kennd er við sagnaritarann mikla Sturlu Þórðarson, sem bjó að Staðarhóli í Dölum. Hátíðin hefst við Staðarhól, Saurbæ í Dölum,  með afhjúpun söguskilta sem Sturlufélagið hefur látið útbúa og gefa innsýn í sögu sagnaritarans, Staðarhóls og héraðsins. Að því loknu verður farið í sögugöngu með leiðsögn um Staðarhól.

Að lokinni þessari dagskrá á Staðarhóli verður haldið að Laugum í Sælingsdal, þar sem dagskráin heldur áfram og verða bornar fram kaffiveitingar, í boði Sturlufélagsins, að gildum og góðum íslenskum sið.

Hátíðirnar undanfarin ár hafa verið afar fjölsóttar og nægir að geta þess að í fyrra komu ríflega 200 manns á Sturluhátíðina sem þá var meðlíku sniði og verður nú.

Formaður Sturlufélagsins er Einar K. Guðfinnsson, fyrrv. ráðherra og alþm.

Dagskrá:

Kl. 13:  Staðarhóll, Saurbæ í Dölum. Afhjúpun söguskilta og Söguganga á Staðarhóli.

Kl. 15:  Sturluhátíð að Hótel Laugum í Sælingsdal.

Ræður  flytja:

Einar K. Guðfinnsson formaður Sturlufélagsins, setur hátíðina.

Guðrún Nordal Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:

Konurnar í Sælingsdalstungu: Laxdæla og Íslendingasaga Sturlu.

Sverrir Jakobsson, deildarforseti og prófessor við Háskóla Íslands:

Minni og vald. Sagnaritun Staðarhólsmanna í breiðfirsku samhengi.

Óttar Guðmundsson, geðlæknir.

Snorri Sturluson, erfiði frændinn.

Tómas R. Einarsson bassaleikari ásamt Ómari Guðjónssyni gítarleikara flytja tónlist. Sömuleiðis mun Tómas, sem er uppalinn á Laugum, lesa kafla úr ný útkominni endurminningabók sinni, Gangandi bassi.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og eru allir velkomnir.

Sturlufélagið býður upp á kaffiveitingar að hætti heimamanna.

Einar K. Guðfinnsson.

Eyjólfur Ármannsson ræðukóngur Alþingis

Eyjólfur Ármannsson, almþm. ræðukóngur Alþingis í ár.

Eyjólfur Ármannsson, alþm (F) flutti flestar ræður þingmanna Norðvesturkjördæmis á 154. þingi og talaði auk þess lengst. Reyndar var hann ræðukóngur Alþingis þennan veturinn.

Eyjólfur flutti 562 ræður og talaði í samtals 1.936 mínútur, sem gerir rúmlega 32 klukkustundir. Í öðru sæti af þingmönnum kjördæmisins varð Bergþór Ólason (M). Hann flutti 288 ræður og talaði í 816 mínútur. Svo vill til að þeir eru báðir stjórnarandstæðingar. Allir hinir sex þingmenn kjördæmisins eru stjórnarliðar og þeir töluðu mun minna en stjórnaandstæðingarnir.

Næst þeim í þriðja sæti kemur utanríkisráðherrann Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, sem reyndar um tíma í vetur var fjármálaráðherra. Þórdís flutti 165 ræður og talaði í 410 mínútur.

Nýir rekstraraðilar á tjaldsvæðunum á Flateyri og Ísafirði

Nýir rekstraraðilar hafa tekið við tjaldsvæðunum á Ísafirði og Flateyri. Fyrirtækið Tjald ehf. bauð lægst í rekstur tjaldsvæðisins í Tungudal í Skutulsfirði 2024-2030 og á Flateyri er það Rajath Raj sem mun sjá um reksturinn í sumar.

Rektsturinn felur í sér að sjá um gjaldtöku á tjaldsvæðinu, þrif á húsnæði, umhirðu svæðisins, garðslátt og ýmsa þjónustu við gesti tjaldsvæðisins. Gistinætur á tjaldsvæðinu síðustu tvö ár hafa verið rúmlega 11.000. Samingstími hófst 15. maí 2024 og lýkur 15. september 2030.

Á Flateyri hefur, sem fyrr segir, verið samið við Rajath Raj um rekstur tjaldsvæðisins í sumar. Í samningi er kveðið á um að leigutaki sinni gjaldtöku og hafi af því tekjur, sjái um þrif á húsnæði, umhirðu svæðisins auk annarrar þjónustu við gesti svæðisins. Eingöngu er samið um rekstur fyrir árið 2024.

Tjaldsvæðið á Flateyri opnar á morgun, fimmtudag, en laga þurfti vatnslagnir og gera úttekt á svæðinu áður en hægt var að bjóða gesti velkomna.

Engar vísbendingar um fuglainflúensu

Engar vísbendingar eru um að fuglainflúensa hafi borist með farfuglum til landsins í vor og smit í villtum fuglum með skæðu afbrigði H5N5 virðist hafa fjarað út. Því er óvissustigi vegna fuglainflúensu aflétt. Litlar líkur eru á smiti í villtum fuglum.

Það sem af er ársins, hafa sýni verið rannsökuð úr 42 fuglum af 16 fuglategundum sem fundust veikir eða dauðir víðsvegar á landinu. Öll sýnin voru neikvæð. Því eru taldar litlar líkur á fuglainflúensu í villtum fuglum um þessar mundir.

Þó er mikilvægt að halda áfram vöktun nú í sumar þegar ungfuglar komast á legg, sem geta verið næmari fyrir sýkingu. Ekki er heldur útilokað að smit berist til landsins í haust með farfuglum sem koma frá varpstöðvum sínum á norðlægari slóðum og því ítrekar Matvælastofnun beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. 

Dýptarmælingar á Húnaflóa

Frá því um miðjan maí hefur sjómælingabáturinn Baldur verið við dýptarmælingar með fjölgeislamæli í vestanverðum Húnaflóa en fyrir liggur að endurnýja sjókort af þessu svæði með það að leiðarljósi að auka öryggi sjófarenda enn frekar.

Kerfisbundnar fjölgeisladýptarmælingar á svæðinu hófust í fyrra og til að byrja með er lögð áhersla á hafsvæðið frá Horni að Gjögri og út fyrir Óðinsboða. Mikið er um grunn og boða á svæðinu og eru mælingar því bæði erfiðar og varasamar og reynir talsvert á áhöfn Baldurs við slíkar aðstæður. Vegna þessa er svæðið afar seinlegt til mælinga og er talið að um 3-4 sumur taki að mæla þetta svæði.

Þegar ekki viðrar til dýptarmælinga þar norður frá sinnir áhöfnin á Baldri mælingum innar í Húnaflóa ef veður leyfir og hefur Steingrímsfjörðurinn til að mynda að mestu verið fjölgeislamældur.

Flestar mælingar sem núgildandi sjókort af svæðinu byggja á eru frá fyrri hluta síðustu aldar, og er nokkur hluti þeirra mælinga handlóðsmælingar. Dýptartölur sem notaðar eru í sjókortin eru því ansi gisnar og má því segja að tímabært hafi verið að hefja endurmælingar á svæðinu með nútíma tækni og nákvæmni.

Með fjölgeislamælingum má segja að hver steinn á hafsbotni sé mældur og eru frávik í staðsetninganákvæmni einungis örfáir sentimetrar. Með tilkomu nýrra mælinga sem settar verða í sjókortin á komandi árum verða sjókortin mun ítarlegri og nákvæmari og mun öryggi í siglingum á svæðinu þannig aukast til muna.

Kynning á umhverfismatsskýrslu Vindorkugarðs í Garpsdal

Kynning á niðurstöðum umhverfismatsskýrslu Vindorkugarðs í Garpsdal fer fram í gamla kaupfélagshúsinu í Króksfjarðarnesi í Reykhólahreppi, fimmtudaginn 4. júlí. kl. 18:00.

Fyrir þá sem ekki sjá sér fært að mæta þá verður opnað Virtual Room eftir kynninguna sem verður opið þar til frestur til athugasemda rennur út.

Í Virtual Room er hægt að skoða allt efni umhverfismatsins og horft á upptöku af kynningunni. Virtual Room verður aðgengilegt frá heimasíðu EM Orku frá og með mánudagi 8. júlí og þar til athugasemdafrestur rennur út.

Kynningunni verður ekki streymt, en upptaka verður gerð aðgengileg í Virtual Room.

Fjarfundarkynning (Webinar) verður einnig haldin í vikunni 8.- 12. júlí. Nákvæm dagsetning auglýst síðar.

Götuveislan á Flateyri hefst á morgun

Um helgina verður hin árlega götuveisla á Flateyri. Dagskrá hefst á morgun , fimmtudag með ljósmyndasýningu í Bryggjukaffi og barsvar keppni á Vagninum annað kvöld. Á föstudaginn verður frá kl 20 Popphátíðin í Ólafstúni og vísar nafnið auðvitað til hins landsþekkta tónlistarmanns og trillukarls Óla Popp. Síðan verður dansleikur á Vagninum.

Á laugardaginn verður mikið um dýrðir og dagskrá allan daginn , frisbýgolf, götumarkaður , valið best skreytta húsið á Flateyri, tónlist á Bryggjukaffi, sumarhátíð Lýðskólans, grill og kvöldvaka.

Á sunnudaginn verður svo grillað fyrir þátttakendur.

Magnús Einar Magnússon, einn forsvarsmanna hátíðarinnar sagði að aldrei hafi fleiri skrá sig á götumarkaðinn en í ár eða 20 söluaðilar.

Frá götuveislunni í fyrra.

Nýjustu fréttir