Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 55

Glæpasögudrottningar í Bókasafninu á Ísafirði

Í tilefni af 25 ára afmæli Hins íslenska glæpafélags býður Bókasafnið Ísafirði í höfundaspjall við glæpadrottningar tveggja landa – Satu Rämö (Finnland/Ísland) og Yrsu Sigurðardóttur (Ísland).


En það er von á fleiri gestum: Eiríkur Örn Norðdahl opnar viðburðinn og flytur glæpsamlegt ljóð, nýtt og frumsamið af tilefninu.

Anna Sigríður Ólafsdóttir stýrir spjallinu eins og henni einni er lagið.

Um höfundana:

Satu Rämö er finnsk en hefur lengi búið á Íslandi og á heima á Ísafirði í dag. Hún hefur gefið út fjölda bóka um Ísland, m.a. ferðabækur, minningar og… prjónabók! Nýverið kom út þýðing á fyrstu bók hennar í þríleiknum um ísfirsku rannsóknarlögreglukonuna Hildi sem slegið hefur í gegn í Finnlandi og Þýskalandi.

Yrsa Sigurðardóttir hefur gefið út fjölda bóka, m.a. glæpa- og spennusögur en einnig barnabækur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tugi tungumála og sitja á metsölulistum bæði hér á landi og erlendis. Sögusvið sumra bóka hennar er sérstaklega vel þekkt Vestfirðingum, t.d. skáldsagan sem gerist á Hesteyri í Jökulfjörðum og heitir Ég man þig

Salmonella í kökum

Matvælastofnun varar við neyslu á nokkrum framleiðslulotum af frönskum makkarónukökum með pistasíukremi frá Joie De Vivre sem Costco Iceland hefur flutt inn, vegna salmonellumengunar.

Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness innkallað vörurnar.

Þeir sem keypt hafa vör­una er bent á að neyta henn­ar ekki held­ur farga eða skila henni til versl­un­arinnar.

Vöru­heitið er French Macarons 36pk og inn­köll­un­in á við um fram­leiðslu­lot­ur sem eru með best fyr­ir dag­setn­ing­arn­ar 14/​08/​2024, 19/​08/​2024, 09/​09/​2024, 18/​09/​2024 og 27/​09/​2024.

Réttir 2024

Sveitarstjórnir eða fjallskilanefndir skulu árlega fyrir 20. ágúst, semja fjallskilaseðil þar sem mælt er fyrir um hvernig fjallskilum skuli hagað og réttir ákveðnar. Þar skal tilnefna leitarstjóra og réttarstjóra, einn eða fleiri, sem stjórni því að réttir og leitir fari vel og skipulega fram.

Þetta hefur nú víðast hvar verið gert og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yfir helstu réttir landsins og hér fyrir neðan má sjá réttardaga á Vestfjörðum.

Vestfirðir
Eyrarrétt á Eyri í Kollafirði, Reykhólahreppi, A-Barð.Laugardaginn 7. sept.
Grundarrétt í Reykhólahreppi, A-Barð.Sunnudaginn 15. sept.
Hjarðardalsrétt í Hjarðardal í DýrafirðiSunnudaginn 22. sept.
Hraunsrétt við Hraun í Hnífsdal í SkutulsfirðiLaugardaginn 21. sept.
Innri-Múlarétt á Barðaströnd, V-Barð.Mánudaginn 23. sept.
Kinnarstaðarrétt í Reykhólahr., A-Barð.Ekki réttað í ár
Kirkjubólsrétt í Steingrímsfirði, Strand.Sunnudagana 22. sept. og 6. okt. kl. 14.00.
Kirkjubólsrétt við Kirkjuból í Engidal í SkutulsfirðiLaugardaginn 21. sept.
Kjósarrétt í Árneshreppi, Strand.Laugardaginn 21. sept.
KrossárréttLaugardaginn 14. sept. kl. 16.00
Króksfjarðarnesrétt í Reykhólasv., A-Barð.Laugardaginn 21. sept.
Melarétt í Árneshreppi, Strand.Laugardaginn 14. sept.
Miðhús í Kollafirði, Strand.Vantar upplýsingar
Ný rétt í Kollafirði í stað MiðhúsaréttarSunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 16.00
Minni-Hlíð í Hlíðardal, BolungarvíkLaugardaginn 21. sept.
Skarðsrétt í Bjarnarfirði, Strand.Laugardaginn 21. sept. kl 14.00
Skeljavíkurrétt í Steingrímsfirði, Strand.Föstud.13. sept. og laugard. 28. sept. kl. 16.00.
Staðardalsrétt í Steingrímsfirði, Strand.Sunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 15.00.
Staðarrétt í Reykhólahreppi, A-Barð.Sunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 15.00.
Staðarrétt í Steingrímsfirði, Strand.Sunnudagana 22. sept. og 6. október kl. 15.00.
Staður, Reykhólahrepp A-Barð.Sunnudaginn 15. sept.
Syðridalsrétt í BolungarvíkLaugardaginn 14. sept.
Traðarrétt við Tröð í Bjarnardal í ÖnundarfirðiLaugardaginn 21. sept.
Vaðalsrétt á Barðaströnd, V-Barð.Sunnudaginn 22. sept.

Gott að eldast þróunarverkefni á Vestfjörðum

Nú standa stjórnvöld fyrir vegferðinni „Gott að eldast“ þar sem tekið er utan um málefni eldra fólks með nýjum hætti þar sem aðgerðaráætlun er fylgt eftir til að tryggja betri þjónustu við eldra fólk, meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni.

Sex svæði á landinu voru valin til þátttöku í þróunarverkefnum um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þar á meðal á Vestfjörðum, þar sem Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður og sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, ásamt Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfa í samvinnu við að efla og þróa þjónustu fyrir eldra fólk. Verkefnið er styrkt af stjórnvöldum og ætlað til þess að vera leiðarvísir um skýra framtíðarsýn og heildræna nálgun í málefnum eldra fólks.

Virkni og vellíðan eldra fólks

Með verkefninu er sérstök áhersla lögð á virkni og vellíðan eldra fólks til þess að draga úr áhættu á félagslegri einangrun og einmanaleika. Með því að styðja heilsu og vellíðan, félagslega þátttöku og öryggi eldra fólks má hafa jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra. Tækifærin á Vestfjörðum eru fjölmörg til þess að efla aldursvænt samfélag. Horfa þarf til styrkleika, mikilvægi framlags og þátttöku eldra fólks sem ávinning fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Tengiráðgjafi til starfa

Það verður í höndum tengiráðgjafa, sem nýverið hóf störf fyrir sveitarfélögin innan þróunarverkefnis Gott að eldast á Vestfjörðum, að huga að verkefnum sem styðja við einstaklinga til virkni og vellíðanar. Við búum að verðmætum tækifærum til þátttöku, heilsueflingar, félagsstarfs, fræðslu og tómstunda eldra fólks í samfélaginu okkar. Markmið okkar ætti að vera að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni fólks til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins.

Tengiráðgjafi er til taks fyrir einstaklinga sem og aðstandendur eldra fólks. Einnig tengir hann íbúa við bjargir sem fyrir eru í samfélaginu og fjölbreytt úrval virkni úrræða. Undirstaðan í starfi tengiráðgjafa er að styðja við fólk til að geta átt gefandi líf alla ævi.

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir

Höfundur er tengiráðgjafi Gott að eldast á Vestfjörðumalbertag@isafjordur.is

Gott að eldast – Hér má lesa aðgerðaráætlun í heild sinni.

Besta deildin: Vestri mætir Fylki á sunnudaginn

Það verður hörku slagur á sunnudaginn á Kerecis vellinum á Ísafirði í 21. umferð deildarinnar þegar Vestri fær Fylki í heimsókn. Þetta verður síðasti heimaleikur Vestra í deildakeppninni og eru bæði lið í mikilli baráttu um að halda sæti sínu í Bestu deildinni. Vestri er í 10. sæti með 17 stig en Fylkir í 12. og neðsta sæti deildarinnar með 16 stig. Á milli þeirra er HK með 17 stig eins og Vestri en verri markamun. Tvö neðstu liðin falla úr deildinni. Sigur í þessum leik styrkir stöðu Vestra verulega.

Þegar umferðunum 22 lýkur tekur við önnur keppni sex neðstu liðanna, sem spila fimm umferðir, hvert við annað og fær Vestri þar líklega tvo heimaleiki. Samanlögð stig úr deildarkeppninni og viðbótarkeppninni ræður því hvaða lið halda sæti sínu í deildinni og hvaða lið falla.

Að sögn Samúels Samúelssonar, formanns meistaraflokksráðs Vestra  verður einn leikmaður verði í leikbanni en hnn sagði að öðru leyti væri gott ástand á leikmannahópnum.

Frítt verður inn á leikinn í boði styrktaraðilans Kerecis.

Neðri hluti Bestu deildarinnar eftir 20 umferðir af 22. Fimm umferðir bætast svo við og geta mest skilað 15 stigum fyrir hvert lið. Það eru liðin í 9. – 12. sem raunverulega eru í fallbaráttu. Tvö af þeim munu líklega falla.

Verðið lækkar mest í Nettó

Gunnar Egill Sigurðsson.

Verð í verslunum Nettó lækkaði mest allra verslana á milli júlí og ágúst samkvæmt mælingum Verðlagseftirlits ASÍ. Er tekið fram í greiningu ASÍ að hjá Nettó hafi verð í langflestum vöruflokkum lækkað, þeirra mest flokkur léttmjólkur, um 4,4%.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkaupum.

„Frá því í janúar hefur verð lækkað í helstu vöruflokkum í Nettó, og mun verslunin halda áfram að spyrna gegn verðhækkunum með markvissum hætti. Síðustu vikur höfum við gengið enn lengra en áður í þessari vegferð og lækkað verð verulega á mörgum mikilvægum nauðsynjavörum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.

„Árangurinn sést meðal annars í nýlegri greiningu frá Verðlagseftirliti ASÍ, en þar kemur fram að á milli júlí og ágúst lækkaði matvöruverð mest í verslunum Nettó. Við þetta má bæta að Verðlagseftirlitið mælir ekki verð á öllum vörum og að lækkanir Nettó eru enn meiri en mælingar ASÍ gefa til kynna,“ bætir hann við.

Stefna Nettó er að bjóða eftir fremsta megni fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili, ásamt því að tryggja samkeppnishæft verð á helstu nauðsynjavörum heimilisins. Á þessu ári hefur Nettó endurskoðað verðlagningu í ýmsum vöruflokkum, með það að markmiði að lækka verðið á innkaupakörfunni.

„Þessi vegferð verðlækkana hefur kallað á mikla vinnu og krafist útsjónarsemi, en það er ánægjulegt að sjá árangurinn raungerast. Í dag birti Hagstofan nefnilega nýjar verðbólgutölur og þar sést að í fyrsta skipti í þrjú ár lækkar matvöruverð á milli mánaða. Nam lækkunin 0,5% og hefur það áhrif til lækkunar vísitölu neysluverðs. Markmið okkar allra á að vera að ná verðbólgu niður og við erum stolt af þeim árangri sem við hjá Nettó höfum náð.“

Vikuviðtalið: Baldur Smári Einarsson

Ég heiti Baldur Smári Einarsson og ég er Víkari.

Sennilega er það ágætis skilgreining á því hver ég er enda hefur Víkin fagra verið mér oft hugleikin í gegnum tíðina. Ræturnar liggja í Bolungarvík og þar finnst mér gott að vera. Umfram allt er ég þó faðir tveggja yndislegra dætra, Önnu Dagnýjar sem er að verða 13 ára og Írisar Emblu sem er tvítug. Þær eru auðvitað það mikilvægasta í mínu lífi, þær gera tilveruna svo miklu betri með sinni lífsgleði og öllum þeim góðu stundum sem við eigum saman. Ég er einstaklega stoltur af stelpunum mínum sem hafa sér svo margt gott til brunns að bera. Með okkur á heimilinu er líka hundurinn Svala sem er þriggja ára gömul. Í dag gegni ég starfi fjármálstjóra hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish og hef ég starfað í fjármáladeild fyrirtækisins undanfarin fimm ár.

Bernskuárin í Bolungarvík

Sagan mín hefst á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík þar sem ég kom í heiminn 21. apríl 1976. Ég er sonur Guðríðar Benediktsdóttur bankastarfsmanns og Einars Hálfdánssonar skipstjóra, en þau eru bæði látin. Ég er yngstur í hópi barna þeirra en eldri systkini mín eru Hálfdán, Benedikt, Halldór Grétar og Anna.

Ég ólst upp á Holtastígnum í Bolungarvík sem var miðpunktar félagslífs krakkanna í neðri bænum á þeim tíma. Minningarnar um alla leikina sem við krakkarnir fórum í á kvöldin er ótal margar, “spýtan fallin” var líklega vinsælasti leikurinn fyrir utan fótboltann sem var stundaður af miklum krafti á Afatúni og Ingutúni. Við fórum líka í brennibolta og fleiri leiki og í minningunni var alltaf gaman hjá okkur. Þegar foreldum okkar þóttu lætin í kringum fótboltann í húsagörðunum vera orðin of mikil var lagt á ráðin með að gera okkar eigin fótboltavöll í lautinni sem liggur að götunni. Við fundum gott svæði, jarðvegurinn var grjóthreinsaður og sléttaður og eitt foreldrið reddaði möl á völlinn. Annað foreldri smíðaði mörkin að það þriðja útvegaði net í þau. Að lokum varð “Lautardalsvöllur” að veruleika og færðist boltasparkið þá nær alfarið á hann.

Lautin okkar var reyndar uppsprettra margra ævintýra á bernskuárunum, þar var dálítil órækt í bland við ófrágenginn jarðveg og þar var kjörið að mæta með Dúa-bílana og leikfangagröfurnar og hefja umfangsmikla vegavinnu í lautinni. Við tókum þessu alvarlega og þarna voru skipulagðir fullir vinnudagar með matartímum og kaffitímum og passað var upp á að mæta á réttum tíma til vinnu. Sökum óræktarinnar átti það stundum til á vorin að það myndaðist sina í lautinni og okkur félögunum fannst það einhvern tímann góð hugmynd að kveikja í sinunni, reyndar við litla hrifningu fullorðna fólksins. Blessunarlega tókst okkur að slökkva eldinn áður en hann barst í næstu garða og þar sluppum við með skrekkinn. Ég man þó eftir því að við fórum líka upp í fjall til að leika okkur með eld og þar brunnu oft stór svæði sem urðu svo iðagræn þegar leið á sumarið. Einhvern tímann fór slíkur leikur úr böndunum – að mig minnir – en ég held að ég hafi ekki komið neitt nærri þegar hálf hlíðin fyrir ofan bæinn brann eitt vorið.

Skólagangan

Skólagangan hófst í Grunnskóla Bolungarvíkur og var ég stilltur og prúður nemandi sem átti auðvelt með bóknámið. Það stendur allavega á einkunnaspjöldunum. Sökum mikillar feimni var ég lítið virkur í félagslífinu en æfði þó flestar íþróttir sem hægt var að æfa – fyrir utan sund en vatnshræðslan var þar minn helsti andstæðingur. Á unglingsárunum man ég eftir að hafa æft fótbolta, körfubolta, handbolta, borðtennis, golf og skák.

Eftir grunnskólann lá leiðin í Framhaldsskóla Vestfjarða sem nú heitir Menntaskólinn á Ísafirði. Þar stækkaði heimurinn örlítið með nýjum skólafélögum og fjölbreyttara námi. Nú var tölvuáhuginn búinn yfirtaka íþróttaáhugann og stóð hugur minn til þess að verða forritari og valdi ég viðskipta- og hagfræðibraut því þar voru flestir tölvuáfangar í boði. Þetta reyndist vera góð ákvörðun sem varð þó til þess að áhuginn á forritun minnkaði en í staðinn kolféll ég fyrir bókfærslunni en þar var ég algjörlega á heimavelli og átti það eftir að marka grunninn að framtíðarstörfum mínum. Svo tók við fjögurra ára háskólanám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þaðan sem ég útskrifaðist með kandídatspróf í reikningshaldi og endurskoðun.

Störfin á vinnumarkaðnum

Frá því ég lauk háskólanámi hefur starfsvettvangurinn að mestu leyti verið helgaður bókhaldi, reikningsskilum og hvers kyns skýrslugerð. Eftir útskrift úr háskóla starfaði ég lengi hjá Endurskoðun Vestfjarða þar sem ég fékk mikilvæga reynslu í framsetningu og greiningu fjárhagsupplýsinga. Rétt fyrir bankahrunið skipti ég um starfsvettvang og hóf störf sem aðalbókari hjá Sparisjóði Bolungarvíkur og starfaði þar allt þar til sjóðurinn var sameinaður Landsbanka Íslands. Þó að þetta hafi ekki verið bestu árin í rekstri sparisjóðsins þá voru þessi ár einstaklega lærdómsrík. Ég gekk aftur til liðs við Endurskoðun Vestfjarða eftir að hafa misst vinnuna við sameiningu sparisjóðsins við Landsbankann og var þá gott að komast í starf sem ég kunni vel og gat skapað mér svigrúm til að búa dætrum mínum öruggar og góðar aðstæður í lífinu.

Svo kom að því að ég vildi fá nýjar áskoranir í vinnu og stóð valið á milli þess að fara í frekara nám í endurskoðun eða skipta um starfsvettvang. Úr varð að ég sótti um starf í fjármáladeild Arctic Fish en mér fannst spennandi að fá tækifæri til að starfa í nýrri atvinnugrein sem gæti í framtíðinni orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum Vestfjarða. Sannarlega hafa áskoranirnar verið miklar í störfum mínum hjá Arctic Fish þar sem ég byrjaði sem sérfræðingur í reikningshaldi. Það að starfa í nýrri atvinnugrein hefur það í för með sér að það þarf að læra mikið að nýjum aðferðum og tileinka sér nýja tækni og verklag. Á sama tíma og tækninni hefur fleytt fram höfum við getað nýtt okkur hana til að auka skilvirkni í uppgjörsvinnu og reynum alltaf að vera eins framarlega og mögulegt er hvað snertir gæði í vinnu okkar.

Árin hjá Arctic Fish hafa verið mjög skemmtileg – auðvitað krefjandi líka – og fyrir utan lærdóminn í kringum fjárhagsvinnuna þá hefur verið gaman að fá að kynnast sjálfu laxeldinu þar sem góð þekking á líffræðilegum þáttum skiptir miklu máli til að ná árangri. Undanfarna mánuði hef ég starfað sem fjármálastjóri Arctic Fish og var það stórt skref að taka út fyrir þægindarammann en ég held að mér hafi gengið ágætlega að takast á við þau nýju verkefni sem starfinu hafa fylgt. Það er mín skoðun að framtíð laxeldis sé björt og að atvinnugreinin eigi eftir að snúa byggðaþróun á Vestfjörðum til betri vegar með auknum umsvifum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum fyrir þá sem viljast setjast hér að.

Bæjarmálin

Þegar þú býrð í litlu samfélagi þá er það í raun borgaraleg skylda að taka að einhverju leyti þátt í bæjarmálunum. Fljótlega eftir útskrift úr háskóla byrjaði ég að koma að framboðsmálum fyrir bæjarstjórnarkosningar í Bolungarvík. Eftir bæjarstjórnarkosningarnar 2002 náði ég kjöri sem varabæjarfulltrúi og sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í desember 2003. Þremur árum síðar var ég orðinn bæjarfulltrúi og sat í bæjarstjórn samfleytt í rúmlega 17 ár þar til ég sagði skilið við sveitarstjórnarmálin í desember síðastliðinn.

Ég er stoltur af þeim breytingum sem orðið hafa í Bolungarvík á undanförnum árum og er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að hafa áhrif á framþróun bæjarfélagsins. Í dag er staða Bolungarvíkur sterk, atvinnulífið er öflugt og það ríkir bjartsýni meðal íbúanna. Á sama tíma og nýr og öflugur atvinnuvegur er að byggjast upp í sveitarfélaginu er búið að klára skipulag á nýju hverfi við Hreggnasa þar sem mun verða vel staðsett íbúabyggð. Framtíð Bolungarvíkur er sannarlega björt, það er uppgangur í atvinnulífinu og tækifærin liggja víða. Á undanförnum áðurm hefur Bolungarvík breyst úr því að vera talið deyjandi samfélag yfir í að vera vaxandi bæjarfélag þar sem sótt er fram á mörgum sviðum.

Áhugamálin

Það verður að viðurkennast að áhugamálin hafa ekki fengið mikið pláss í mínu lífi undanfarin ár en þó hef ég reynt að sinna golfíþróttinni að einhverju marki. Skemmtilegast finnst mér þó að taka góða göngutúra og taka myndir af landslaginu og náttúrunni sem fyrir augu ber á meðan á göngunni stendur. Ljósmyndirnar rata oft á tíðum inn á samfélagsmiðla því mér finnst gott að geta leyft fleirum að njóta myndanna.

Þegar aldurinn er farinn að nálgast fimmta tuginn fer maður ósjálfrátt að líta tilbaka og hugsa hvað maður hefur lært af brasinu í lífinu til þessa. Það sem ég hef lært er að þú verður að ganga í gegnum erfiðleika til að geta þroskast sem einstaklingur, lífið er ekki dans á rósum og það er ekkert skemmtilegt ef engar áskoranir verða á vegi þínum. Þú eflist við hverja þraut sem þú tekst á við og það má aldrei gefast upp.

Bestu kveðjur frá Bolungarvík

Baldur Smári Einarsson

Suðureyri: framkvæmdum að ljúka við fjórar nýjar íbúðir

Nýju íbúðirnar við Aðalgötu. Mynd: aðsend.

Um þessar mundir er framkvæmdum að ljúka við byggingu á fjórum nýjum íbúðum við Aðalgötu 17-19 á Suðureyri, hver íbúð er um 100 fermetrar. Framkvæmdir hófust fyrir rúmu ári og hafa fjölmargir verktakar og þjónustuaðilar í Ísafjarðarbæ komið að verkefninu. Höfðastígur ehf var framkvæmdaaðili verksins en leigufélagið Bríet hefur keypt þessar íbúðir til að setja á almennan leigumarkað.  

„Það er mikið gleðiefni að þessi kraftmikli hópur verktaka er að skila þessu verki nokkuð vel af sér“, segir Elías Guðmundsson eigandi Höfðastígs. „Það voru tafir á afhendingu á lóðinni í upphafi svo verkið er smávegis á eftir áætlun. Það er langt frá því sjálfsagt né auðvelt verkefni að byggja íbúðarhúsnæði í litlum samfélögum út á landi þar sem aðgengi að fjármagni og aðföngum er af skornum skammti. Hópurinn sem kom að þessu á mikið hrós skilið og menn fara vonandi almennt stoltir frá þessu verkefni.“

Verkefnið er að ganga upp fyrir alla og segist Elías vona að húsin muni skapa gott mannlíf í þessu litla þorpi um langa framtíð. 

Snerpa: Gígabit á fleiri staði

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að útskiptingum á búnaði Snerpu sem gerir kleift að bjóða 1 Gbps hraða á ljósleiðara Snerpu. Nú eiga allir notendur á ljósleiðara Snerpu að geta fengið 1 Gbps nettengingu en þó verða notendur í Súðavík og Hnífsdal að bíða eitthvað í viðbót.

Björn Davíðsson framkvæmdastjóri Snerpu segist reikna með að uppfært verði í Súðavík innan 2ja vikna en stækkun í Hnífsdal verður mögulega ekki fyrr en í lok september þar sem töf er á afgreiðslu búnaðar erlendis frá.

Beitukóngur

Beitukóngur er hvítur, gulur eða brúnn á litinn, með odddregna hyrnu sem er venjulega 7–10 cm á hæð. Skelin hefur gróft kaðalmynstur sem liggur í reglulegum, bugðóttum röðum þvert á vindingana. Vindingar skeljarinnar eru 7–9 talsins. Munnopið er egglaga, ytri vörin er lítið eitt sveigð út. Neðst í munnopinu er renna sem öndunarpípa dýrsins liggur í.

Lokan, sem hylur munnopið þegar dýrið dregur sig inn í skelina, er sporöskjulaga með baugum sem myndast við breytilegan vöxt dýrsins eftir árstímum. Með því að telja baugana má greina aldur dýrsins. Elstu beitukóngar sem hafa verið aldursgreindir á þennan hátt hér á landi voru 13 ára.

Dýrið sjálft er kjötmikið með stóran hvelfdan fót, sem er hvítur eða svartflekkóttur og er höfuð dýrsins samvaxið fætinum. Það er með tveimur fálmurum og eru augun á fálmurunum. Á fullvöxnum karldýrum situr stórt vöðvamikið typpi á hægri hlið fótarins frammi við höfuð. Upp af fætinum er dýrið uppsnúið innan í kuðungnum.

Hann finnst allt frá neðri hluta fjörunnar og niður á 1200 m dýpi. Algengastur er hann þó á leir-, malar- og klapparbotni á minna en 50 m dýpi.

Fæða kuðungsins er fjölbreytt. Hann lifir mest á samlokum og burstaormum en einnig marflóm og öðrum smákrabbadýrum.

Æxlun á sér stað síðla vetrar eða snemma vors. Við mökun bregður karldýrið typpinu inn undir skel kvendýrsins og frjóvgar eggin. Við hrygningu límir kvendýrið mörg egghulstur saman í klasa. Í hverju egghulstri eru allt að 128 frjóvguð egg. Flest eggin í egghulstrinu verða fæða fyrir þá fáu kuðunga sem þroskast í ungviði. Aðeins 3–10 litlir kuðungar skríða fullþroskaðir úr hverju egghulstri eftir um það bil tveggja mánaða þroskunartíma.

Við veiðar á samlokum beitir beitukóngurinn allsérstæðri aðferð. Beitukóngurinn festir sig við aðra skel samlokunnar og bíður þar til hún opnar sig. Þá bregður hann skelröndinni í skyndi inn á milli skeljanna svo að bráðin getur ekki lokað á ný. Síðan smeygir beitukóngurinn rananum með skráptungunni inn á milli skeljanna og tekur að matast.

Við veiðar á bráð í botninum notar beitukóngurinn aðra aðferð. Á mjúkum botni getur hann grafið sig niður í botninn og ráðist þar á bráð sem getur litla björg sér veitt. Einnig getur beitukóngur teygt rana sinn ofan í botninn og gripið með honum bráðina sem eru til dæmis burstaormar eða marflær.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Nýjustu fréttir