Ég heiti Baldur Smári Einarsson og ég er Víkari.
Sennilega er það ágætis skilgreining á því hver ég er enda hefur Víkin fagra verið mér oft hugleikin í gegnum tíðina. Ræturnar liggja í Bolungarvík og þar finnst mér gott að vera. Umfram allt er ég þó faðir tveggja yndislegra dætra, Önnu Dagnýjar sem er að verða 13 ára og Írisar Emblu sem er tvítug. Þær eru auðvitað það mikilvægasta í mínu lífi, þær gera tilveruna svo miklu betri með sinni lífsgleði og öllum þeim góðu stundum sem við eigum saman. Ég er einstaklega stoltur af stelpunum mínum sem hafa sér svo margt gott til brunns að bera. Með okkur á heimilinu er líka hundurinn Svala sem er þriggja ára gömul. Í dag gegni ég starfi fjármálstjóra hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish og hef ég starfað í fjármáladeild fyrirtækisins undanfarin fimm ár.
Bernskuárin í Bolungarvík
Sagan mín hefst á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík þar sem ég kom í heiminn 21. apríl 1976. Ég er sonur Guðríðar Benediktsdóttur bankastarfsmanns og Einars Hálfdánssonar skipstjóra, en þau eru bæði látin. Ég er yngstur í hópi barna þeirra en eldri systkini mín eru Hálfdán, Benedikt, Halldór Grétar og Anna.
Ég ólst upp á Holtastígnum í Bolungarvík sem var miðpunktar félagslífs krakkanna í neðri bænum á þeim tíma. Minningarnar um alla leikina sem við krakkarnir fórum í á kvöldin er ótal margar, “spýtan fallin” var líklega vinsælasti leikurinn fyrir utan fótboltann sem var stundaður af miklum krafti á Afatúni og Ingutúni. Við fórum líka í brennibolta og fleiri leiki og í minningunni var alltaf gaman hjá okkur. Þegar foreldum okkar þóttu lætin í kringum fótboltann í húsagörðunum vera orðin of mikil var lagt á ráðin með að gera okkar eigin fótboltavöll í lautinni sem liggur að götunni. Við fundum gott svæði, jarðvegurinn var grjóthreinsaður og sléttaður og eitt foreldrið reddaði möl á völlinn. Annað foreldri smíðaði mörkin að það þriðja útvegaði net í þau. Að lokum varð “Lautardalsvöllur” að veruleika og færðist boltasparkið þá nær alfarið á hann.
Lautin okkar var reyndar uppsprettra margra ævintýra á bernskuárunum, þar var dálítil órækt í bland við ófrágenginn jarðveg og þar var kjörið að mæta með Dúa-bílana og leikfangagröfurnar og hefja umfangsmikla vegavinnu í lautinni. Við tókum þessu alvarlega og þarna voru skipulagðir fullir vinnudagar með matartímum og kaffitímum og passað var upp á að mæta á réttum tíma til vinnu. Sökum óræktarinnar átti það stundum til á vorin að það myndaðist sina í lautinni og okkur félögunum fannst það einhvern tímann góð hugmynd að kveikja í sinunni, reyndar við litla hrifningu fullorðna fólksins. Blessunarlega tókst okkur að slökkva eldinn áður en hann barst í næstu garða og þar sluppum við með skrekkinn. Ég man þó eftir því að við fórum líka upp í fjall til að leika okkur með eld og þar brunnu oft stór svæði sem urðu svo iðagræn þegar leið á sumarið. Einhvern tímann fór slíkur leikur úr böndunum – að mig minnir – en ég held að ég hafi ekki komið neitt nærri þegar hálf hlíðin fyrir ofan bæinn brann eitt vorið.
Skólagangan
Skólagangan hófst í Grunnskóla Bolungarvíkur og var ég stilltur og prúður nemandi sem átti auðvelt með bóknámið. Það stendur allavega á einkunnaspjöldunum. Sökum mikillar feimni var ég lítið virkur í félagslífinu en æfði þó flestar íþróttir sem hægt var að æfa – fyrir utan sund en vatnshræðslan var þar minn helsti andstæðingur. Á unglingsárunum man ég eftir að hafa æft fótbolta, körfubolta, handbolta, borðtennis, golf og skák.
Eftir grunnskólann lá leiðin í Framhaldsskóla Vestfjarða sem nú heitir Menntaskólinn á Ísafirði. Þar stækkaði heimurinn örlítið með nýjum skólafélögum og fjölbreyttara námi. Nú var tölvuáhuginn búinn yfirtaka íþróttaáhugann og stóð hugur minn til þess að verða forritari og valdi ég viðskipta- og hagfræðibraut því þar voru flestir tölvuáfangar í boði. Þetta reyndist vera góð ákvörðun sem varð þó til þess að áhuginn á forritun minnkaði en í staðinn kolféll ég fyrir bókfærslunni en þar var ég algjörlega á heimavelli og átti það eftir að marka grunninn að framtíðarstörfum mínum. Svo tók við fjögurra ára háskólanám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þaðan sem ég útskrifaðist með kandídatspróf í reikningshaldi og endurskoðun.
Störfin á vinnumarkaðnum
Frá því ég lauk háskólanámi hefur starfsvettvangurinn að mestu leyti verið helgaður bókhaldi, reikningsskilum og hvers kyns skýrslugerð. Eftir útskrift úr háskóla starfaði ég lengi hjá Endurskoðun Vestfjarða þar sem ég fékk mikilvæga reynslu í framsetningu og greiningu fjárhagsupplýsinga. Rétt fyrir bankahrunið skipti ég um starfsvettvang og hóf störf sem aðalbókari hjá Sparisjóði Bolungarvíkur og starfaði þar allt þar til sjóðurinn var sameinaður Landsbanka Íslands. Þó að þetta hafi ekki verið bestu árin í rekstri sparisjóðsins þá voru þessi ár einstaklega lærdómsrík. Ég gekk aftur til liðs við Endurskoðun Vestfjarða eftir að hafa misst vinnuna við sameiningu sparisjóðsins við Landsbankann og var þá gott að komast í starf sem ég kunni vel og gat skapað mér svigrúm til að búa dætrum mínum öruggar og góðar aðstæður í lífinu.
Svo kom að því að ég vildi fá nýjar áskoranir í vinnu og stóð valið á milli þess að fara í frekara nám í endurskoðun eða skipta um starfsvettvang. Úr varð að ég sótti um starf í fjármáladeild Arctic Fish en mér fannst spennandi að fá tækifæri til að starfa í nýrri atvinnugrein sem gæti í framtíðinni orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum Vestfjarða. Sannarlega hafa áskoranirnar verið miklar í störfum mínum hjá Arctic Fish þar sem ég byrjaði sem sérfræðingur í reikningshaldi. Það að starfa í nýrri atvinnugrein hefur það í för með sér að það þarf að læra mikið að nýjum aðferðum og tileinka sér nýja tækni og verklag. Á sama tíma og tækninni hefur fleytt fram höfum við getað nýtt okkur hana til að auka skilvirkni í uppgjörsvinnu og reynum alltaf að vera eins framarlega og mögulegt er hvað snertir gæði í vinnu okkar.
Árin hjá Arctic Fish hafa verið mjög skemmtileg – auðvitað krefjandi líka – og fyrir utan lærdóminn í kringum fjárhagsvinnuna þá hefur verið gaman að fá að kynnast sjálfu laxeldinu þar sem góð þekking á líffræðilegum þáttum skiptir miklu máli til að ná árangri. Undanfarna mánuði hef ég starfað sem fjármálastjóri Arctic Fish og var það stórt skref að taka út fyrir þægindarammann en ég held að mér hafi gengið ágætlega að takast á við þau nýju verkefni sem starfinu hafa fylgt. Það er mín skoðun að framtíð laxeldis sé björt og að atvinnugreinin eigi eftir að snúa byggðaþróun á Vestfjörðum til betri vegar með auknum umsvifum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum fyrir þá sem viljast setjast hér að.
Bæjarmálin
Þegar þú býrð í litlu samfélagi þá er það í raun borgaraleg skylda að taka að einhverju leyti þátt í bæjarmálunum. Fljótlega eftir útskrift úr háskóla byrjaði ég að koma að framboðsmálum fyrir bæjarstjórnarkosningar í Bolungarvík. Eftir bæjarstjórnarkosningarnar 2002 náði ég kjöri sem varabæjarfulltrúi og sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í desember 2003. Þremur árum síðar var ég orðinn bæjarfulltrúi og sat í bæjarstjórn samfleytt í rúmlega 17 ár þar til ég sagði skilið við sveitarstjórnarmálin í desember síðastliðinn.
Ég er stoltur af þeim breytingum sem orðið hafa í Bolungarvík á undanförnum árum og er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að hafa áhrif á framþróun bæjarfélagsins. Í dag er staða Bolungarvíkur sterk, atvinnulífið er öflugt og það ríkir bjartsýni meðal íbúanna. Á sama tíma og nýr og öflugur atvinnuvegur er að byggjast upp í sveitarfélaginu er búið að klára skipulag á nýju hverfi við Hreggnasa þar sem mun verða vel staðsett íbúabyggð. Framtíð Bolungarvíkur er sannarlega björt, það er uppgangur í atvinnulífinu og tækifærin liggja víða. Á undanförnum áðurm hefur Bolungarvík breyst úr því að vera talið deyjandi samfélag yfir í að vera vaxandi bæjarfélag þar sem sótt er fram á mörgum sviðum.
Áhugamálin
Það verður að viðurkennast að áhugamálin hafa ekki fengið mikið pláss í mínu lífi undanfarin ár en þó hef ég reynt að sinna golfíþróttinni að einhverju marki. Skemmtilegast finnst mér þó að taka góða göngutúra og taka myndir af landslaginu og náttúrunni sem fyrir augu ber á meðan á göngunni stendur. Ljósmyndirnar rata oft á tíðum inn á samfélagsmiðla því mér finnst gott að geta leyft fleirum að njóta myndanna.
Þegar aldurinn er farinn að nálgast fimmta tuginn fer maður ósjálfrátt að líta tilbaka og hugsa hvað maður hefur lært af brasinu í lífinu til þessa. Það sem ég hef lært er að þú verður að ganga í gegnum erfiðleika til að geta þroskast sem einstaklingur, lífið er ekki dans á rósum og það er ekkert skemmtilegt ef engar áskoranir verða á vegi þínum. Þú eflist við hverja þraut sem þú tekst á við og það má aldrei gefast upp.
Bestu kveðjur frá Bolungarvík
Baldur Smári Einarsson