Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 54

Vikuviðtalið: Hildur Elísabet Pétursdóttir

Bolvískur Ísfirðingur eða ísfirskur Bolvíkingur?

 Þegar ég var lítil að alast upp í Bolungarvík hefði mér aldrei dottið til hugar að ég myndi búa á Ísafirði í framtíðinni. Enda ætlaði ég bara að vera hér á Ísafirði í tvö ár… en þau eru víst að verða 27.

Ég er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði 4. ágúst 1971 en ólst upp í Bolungarvík í faðmi samheldinnar stórfjölskyldu. Ég á 4 systkini og er næstyngst í þeim hópi. Foreldrar mínir eru Helga Aspelund frá Ísafirði og Pétur Guðni Einarsson frá Bolungarvík en hann lést árið 2000. 

Eftir grunnskólann fór ég í Menntaskólann á Akureyri en ég hafði alltaf séð Akureyri í einhverjum hillingum eftir Andrésar Andarleikana sem barn. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun því þar kynntist ég manninum mínum en við höfum verið saman í 33 ár. Svavar Þór Guðmundsson er maðurinn minn, kennari við MÍ og eigum við 3 stráka, þá Tómas Helga, Pétur Erni og Guðmund Arnar og þrjú tengdabörn.  

Ég fór snemma að vinna við umönnun, byrjaði 16 ára að vinna á Skýlinu í Bolungarvík að hugsa um aldraða. Það var þá sem ég ákvað að verða hjúkrunarfræðingur. Eftir hjúkrunarnámið við Háskóla Íslands ætluðum við að vera í tvö ár á Ísafirði áður en við flyttum til Akureyrar þar sem stefnan var að búa í framtíðinni. En okkur leið svo vel hérna fyrir vestan að hér erum við enn, reyndar með smá námshléi eiginmannsins í Manchester þar sem við tókum fjölskylduna upp og fluttum út. Við höfðum á háskólaárunum tekið eitt ár í Frakklandi og vorum alltaf ákveðin í að leyfa strákunum að búa erlendis.

Ég hef starfað núna sem framkvæmdastjóri hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í 4 og ½ ár. Áður hafði ég verið deildarstjóri yfir hjúkrunarheimilunum Eyri og Bergi, aðstoðardeildarstjóri og almennur hjúkrunarfræðingur á bráðadeildinni.  Ég tók við framkvæmdastjórastarfinu 1. janúar 2020 en nokkrum dögum seinna féll snjóflóð á Flateyri og svo fljótlega skall Covid á í öllu sínu veldi. Þessi fyrstu tvö ár í starfi  voru því mjög krefjandi og lærdómsrík.

Starfið mitt er afar fjölbreytt og yfirleitt mjög skemmtilegt. Þetta er að mestu leyti stjórnunarstarf en einn dag í viku sinni ég klínísku starfi á hjúkrunarheimilunum sem veitir mér ómælda ánægju. Í vetur var ég svo sett tímabundið sem forstjóri og var það áhugaverð og góð reynsla. Ég hef því komið víða við sem starfsmaður Heilbrigðisstofnarinnar.  Hér starfa um 300 starfsmenn í rúmlega 200 stöðugildum. Stofnunin varð til í núverandi mynd árið 2014 við sameiningu þáverandi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði. Stærstu starfsstöðvarnar eru á Ísafirði, þar sem rekið er sjúkrahús, heilsugæsla og hjúkrunarheimilið Eyri. Á Patreksfirði er samþætt sjúkradeild og hjúkrunardeild auk heilsugæslu. Í Bolungarvík og Þingeyri eru hjúkrunarheimili og heilsugæslusel. Á Bíldudal, Flateyri, Súðavík, Suðureyri og Tálknafirði eru heilsugæslusel. Umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er eina umdæmið á landinu þar sem öll heilbrigðisþjónusta er rekin af einni stofnun, því enn eru einhver sveitarfélög og svo auðvitað sjálfseignarfélög að reka hjúkrunarheimili. það gefur því auga leið að starfssemin er gríðarlega mikilvæg og einn af hornsteinum samfélagsins.

Áhugamálin eru mörg og flest tengjast þau útiveru á einhvern hátt. Ég hef alla tíð verið sjúk í fjöllin, bæði sumar og vetur. Allar tegundir af skíðum eru hátt skrifaðar en á síðustu árum hafa gönguskíðin tekið mest yfir. Ekkert toppar þó fjallaskíðaferð í góðu veðri og flottu færi. Gönguferðir með allt á bakinu í góðra vina hópi eru dýrmætar. Eftir krefjandi dagsgöngu þar sem slegið er upp tjaldi, eldað við prímus og jafnvel kveiktur smá eldur í fjöruborðinu að kvöldi eru stundir sem aldrei gleymast. Við hjónin höfum verið með skotvopnaleyfi í 25 ár og reynum að ganga til rjúpna á hverju hausti með góðum vinum. Frá því í menntaskóla hef ég verið í kórum og finnst agalega gaman að syngja. Við hjónin tókum einmitt þátt í uppfærslu Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á Fiðlaranum á þakinu og erum nýkomin úr Þjóðleikhúsinu þar sem sýningin var valin áhugaverðasta áhugasýning ársins. Ég hef í mörg ár verið að skokka mér til heilsubótar og er í stjórn hlaupahópsins Riddarar Rósu. Við skipuleggjum meðal annars Hlaupahátíðina á Vestfjörðum sem er fjögurra daga hlaupa- og hjólahátið um miðjan júlí sem teygir sig frá Bolungarvík og til Þingeyrar.

Áhugamál barnanna smitast svo óneitanlega yfir á okkur foreldrana. Strákanir hafa mikið verið í fótboltanum og var ég tengiliður samfellt í 18 ár, skipulagði ferðir og fjáraflanir og fór sem fararstjóri. Enn erum við mikið viðloðandi fótboltann og reynum að missa ekki af leik hjá þeim yngsta. Ég hef alla tíð verið mikið í félagsmálum og má þar meðal annars nefna stjórn Tónlistarfélags TÍ, stjórn Héraðssambands Vestfirðinga, stjórn Landssambands Heilbrigðisstofnana, sat í Velferðanefnd Ísafjarðarbæjar, stjórn fagdeildar um forystu í hjúkrun, formaður vestfjarðardeildar FÍh og fleira.

Á kvöldin þegar ró tekur að færast yfir og amsturs dagins að líða hjá finnst mér ekkert betra en að taka upp handavinnuna og hlusta á góða bók á meðan.

Byggðakvóti: Ísafjarðarbær samþykkir ráðstöfun á Suðureyri og Þingeyri

Þingeyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar veitti umsögn sína í síðustu viku um tillögur Byggðastofnunar um ráðstöfun byggðakvóta til næstu sex fiskveiðiára.

Aflamarksnefnd Byggðastofnunar leggur til að gengið verði til samninga við Íslandssögu hf. og samstarfsaðila um nýtingu á allt að 500 þorskígildistonnum á ári á grundvelli umsóknar þeirra til næstu sex fiskveiðiára að fenginni umsögn viðkomandi sveitarfélags.

Í umsögn bæjarstjórnar um byggðakvóta Suðureyrar segir að Ísafjarðarbær samþykkir tillögu aflamarksnefndar Byggðastofnunar um að semja við Fiskvinnsluna Íslandssögu hf. og samstarfsaðila, enda eini umsækjandinn. „Þá hefur starfsemi
félagsins á Suðureyri verðið með ágætum síðustu ár, allt frá síðustu úthlutun aflamarks, og telur Ísafjarðarbær ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til athugasemda að sinni hálfu.“

Varðandi Þingeyri er lagt til að áfram verði samið við Íslenskt sjávarfang ehf og samstarfsaðila þess.

Ísafjarðarbær samþykkti tillögu aflamarksnefndar Byggðastofnunar um að semja við Íslenskt
sjávarfang ehf. og samstarfsaðila, enda eini umsækjandinn með sömu ummælum og á Suðureyri: „Þá hefur starfsemi Íslensks sjávarfangs á Þingeyri verðið með ágætum síðustu ár, allt frá síðustu úthlutun aflamarks, og telur Ísafjarðarbær ekkert í gögnum málsins gefa tilefni til athugasemda að sinni hálfu.“

Ísafjörður: Knattspyrnumaðurinn Björn Helgason heiðraður í gær

Birnir Helgasyni veitt viðurkenningin. Hann fékk m.a Vestra treyju.

Fyrir leik Vestra gegn Fram í gær á Kerecis vellinum á Torfnesi var athöfn þar sem Ísfirðingnum Birni Helgasyni var þakkað fyrir sitt ómetanlega framlag til Íslenskrar knattspyrnu.

Það voru Vestri, ÍBÍ og Knattspyrnufélagið FRAM sem stóðu fyrir athöfninni.

Vestramaðurinn Sindri Kristinsson flutti þakkarorð og sagði m.a. eftirfarandi:

Það er okkur Vestrafólki ÍBÍ og Framörum ljúft og gott að hitta hér fyrir Björn Helgason knattspyrnumann að vestan. 

 Björn, Vestri, ÍBÍ, og Fram hafa bundist órjúfanlegum böndum í gegnum tíðina.

 Björn er fyrsti landsliðsmaður Ísafjarðar í knattspyrnu, en hann lék tvo landsleiki á árunum 1959-1963, en á þessum árum voru ekki margir landsleikir árlega.

 Fyrst lék Björn sem leikmaður Íþróttabandalags Ísafjarðar, ÍBÍ, í landsliði Islands, gegn Noregi í Ósló 1959, þá 24 ára. Síðan sem leikmaður Fram í landsliði Íslands gegn Ólympíuliði Bretlands árið 1963. 

 Þá var Björn varamaður í þremur landsleikjum. Fyrst í sögufrægum leik gegn Dönum í Kaupmannahöfn 1959, 1:1.Síðan gegn áhugamannalandsliði Englands 1961 og Ólympíuliði Bretlands 1963. 

 Björn lék síðan með landsliði Íslands gegn Færeyingum í Þórshöfn 1959. Hann skoraði tvö mörk í sigurleik, sem endaði 5:2. 

 Björn kynntist fjórum leikmönnum Fram í ferðinni til Færeyja; Guðmundi Óskarssyni, Ragnari Jóhannssyni, Baldri Scheving og Grétari Sigurðssyni. 

 Það varð stór þáttur í því að Björn gekk til liðs við Íslandsmeistara Fram (1962) þegar hann dvaldist í Reykjavík 1963.

Björn var Landsliðsmaður Íslands með tveimur félögum. 

 Björn á það sögulega afrek og varð fjórði knattspyrnumaðurinn til að leika landsleik sem leikmaður með tveimur félögum.  

 Hinir þrír voru: Ríkharður Jónsson, Fram og ÍA. Helgi Daníelsson, Valur og ÍA. Albert Guðmundsson, Valur og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar. 

Í leiknum sjálfum veitti Fram betur og skoruðu þeir þrjú mörk en Vestri eitt.

Liðin komin á völlinn í blíðviðrinu á Ísafirði. Framarar til vinstri í bláum treyjum og Vestri til hægri í hvítum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Bátur í vanda norður af Bjargtöngum

Frá aðgerðum í dag. Mynd: Landsbjörg.

Vörður II var kallaður út snemma í morgun, rétt upp úr klukkan 6, vegna lítils fiskibáts sem var í vélar vandræðum. Báturinn var þá staddur um fimm sjómílur norður af Bjargtöngum. Vörður II var farinn út frá Patreksfirði klukkan 6:20 og hélt áleiðis að bátnum. Fimmtán mínútur í átta í morgun var svo taug komin frá Verði II í bátinn og haldið til Patreksfjarðar. Hæg norðan gola var á staðnum en þokuslæðingur. Rétt fyrir klukkan 11 í morgun kom Vörður svo með bátinn til hafnar á Patreksfirði.

Upp úr hálf ellefu í morgun var svo áhöfnin á Björgunarskipinu Björgu á Rifi kölluð út vegna lítils fiskibáts sem var þá staddur undan Rauðasandi með bilað stýri. Bátinn rak hægt undan norðanáttinni en annars var engin hætta á ferðum.

Björg var komin á staðinn rétt um 14 í dag, eftir siglingu yfir allan Breiðafjörð. Taug var komið á milli og er Björg nú með bátinn í togi og er stefnan sett á Grundarfjörð þaðan sem fiskibáturinn er gerður út. Áhöfnin á Björgu gerði ráð fyrir að vera komin til hafnar í Grundarfirði um 7 leitið í kvöld.

Ársreikningur Reykhólahrepps

Ársreikningur Reykhólahrepps hefur nú verið birtur á vefsíðu hreppsins.

Segja má að rekstrarstaða  sveitarfélagsins sé með ágætum og eignastaða er einnig góð.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.048,2 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 800,6 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 120,4 millj. kr., en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 104,4 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi.

Heildareignir sveitarfélagsins námu 1.009,7 millj. kr. og heildarskuldir 262,2 millj. kr.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 747,5 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 616,5 millj. kr. 

Kjarasamningar við sveitarfélögin samþykktir

Atkvæðagreiðslum um kjarasamninga sem samninganefnd sveitarfélaga og tíu aðildarfélög innan BSRB undirrituðu þann 13. júní er nú lokið, og voru þeir samþykktir með miklum meirihluta greiddra atkvæða.

Á bilinu 83% til 96% félagsmanna þeirra aðildarfélaga sem greiddu atkvæði um samningana samþykktu þá. Sameyki skrifaði einnig undir samning þann 13. júní og kemur niðurstaða úr kosningu félagsmanna þann 28. júní.

Samningurinn gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 og hefur verið kynntur fulltrúum sveitarfélaga. Í samningnum er samið um sömu launahækkanir og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði innihalda. Þau aðildarfélög sem greiddu atkvæði um samninginn eru:

• Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu,
• Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi,
• FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu,
• Starfsmannafélag Garðabæjar,
• Starfsmannafélag Húsavíkur,
• Starfsmannafélag Hafnarfjarðar,
• Starfsmannafélag Mosfellsbæjar,
• Starfsmannafélag Kópavogs,
• Starfsmannafélag Suðurnesja og
• Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar

Fjarskiptalæknir

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar fjarskiptalækni bráðaþjónustu.

Um er að ræða faglega ráðgjöf bráðalæknis fyrir Neyðarlínu, sjúkraflutninga og aðra veitendur bráðrar heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Landspítalanum var falið að koma þjónustunni á laggirnar og styðja við bakið á þessari nýju þjónustu, og hefur fjarskiptalæknirinn þegar tekið til starfa.

Með verkefninu er tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti til þess að sinna bráðri læknisfræðilegri ráðgjöf. Fjarskiptalæknirinn sinnir 1) læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga, 2) bráða-læknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli, 3) fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir, auk 4) faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til 5) ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu.

Fjarskiptalæknir er staðsettur í Björgunarmiðstöðinni í Skógahlíð og veitir faglega ráðgjöf fyrir Neyðarlínu, læknisfræðilega stjórnun, ráðgjöf við sjúkraflutninga, ráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýlum, vettvangsliða og björgunarsveitir í bráðum tilfellum. Í upphafi verður þjónusta fjarskiptalæknis í boði frá kl. 8-16 alla virka daga sem er mesti álagstími bráðatilvika, en stefnt er að því til framtíðar að bjóða upp á þjónustuna allan sólarhringinn, allan ársins hring. Tilraunaverkefnið verður metið í lok árs 2024 og ákvörðun tekin um framhaldið.

Aflaheimildir til strandveiða auknar um 2.000 tonn

Matvælaráðherra hefur undirritað breytingu á reglugerð sem heimilar aukna aflaheimild upp á 2.000 tonn af þorski á yfirstandandi strandveiðitímabili. Heildarráðstöfun í þorski til strandveiða verður því 12.000 tonn í stað 10.000 tonna.

Með þessari aukningu hækkar hlutfall strandveiða á þorski upp í rúm 55% af þorski innan félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins. Svo stórum hluta heimilda hefur ekki verið ráðstafað til strandveiða áður.

Aukningin kemur af skiptimarkaði, þar af 1.300 tonn af þorski sem fengust í skiptum fyrir heimildir á makríl.

Kanada: vilja meira laxeldi á austurströndinni

Margaret Johnson, sjávarútvegsráðherra New Brunswick.

Á austurströnd Kanada sækjast stjórnvöld eftir auknu laxeldi og hvetja fyrirtæki til frekari fjárfestingar í fiskeldi. Þetta er haft eftir Margaret Johnson, sjávarútvegs- og fiskeldisráðherra í fylkinu New Brunswick. Hún segir stjórnvöld í fylkinu haft ávallt stutt laxeldið og bendir á löggjöf og regluverk sem sett hafa verið því til stuðnings.

Frá árinu 2018 hafa norsku fyrirtækin Grieg Seafood og Mowi aukið starfsemi sína á Atlantshafsströnd Kanada. Samkvæmt því sem fram kemur á vefnum IntraFish.com eru góð skilyrði til eldis undan ströndum fylkisins og einnig er stutt á mikilvæga markaði fyrir afurðirnar.

Grieg Seafood slátraði í fyrra fyrstu kynslóð af eldislaxi sem alin var í Placentia Bay  á Nýfundnalandi og fékk um 5.000 tonn. Áætlað er að auka framleiðsluna upp í 15.000 tonn eftir tvö ár og enn frekar upp í 65.000 tonn síðar.

Mowi framleiddi í fyrra 5.574 tonn af eldislaxi á austurströndinni.

Fresta lokun á vesturströndinni

Á vesturströnd Kanada hafa stjórnvöld í Bresku Kólombíu frá 2019 stefnt að því að banna laxeldi í sjó í opnum kvíum. Í síðustu viku tilkynnti sjávarútvegsráðherra Kanada Diane Lebouthillier um fimm ára frestun á gildistöku bannsins. Verða leyfi sem renna út á þessu ári framlengd til næstu fimm ára til 30. júní 2029. Þá áforma stjórnvöld að veita leyfi til níu ára fyrir eldi í lokuðum kvíum – closed-containment systems – og hvetja þannig til eldis á þann hátt.

Eldisfyrirtæki í fylkinu gagnrýndi þessa ákvörðun samkvæmt frétt IntraFish.com. Meðal þeirra eru Grieg Seafood og Mowi sem eru með eldi á vesturströndinni. Grieg Seafood sagði í yfirlýsingu að þessi stefna myndi stöðva alla fjárfestingu í greininni í Bresku Kólombíu en sögðust bíða frekari frétta af útfærslu stefnumörkunarinnar. Mowi lýsti yfir vonbrigðum og segja að þessi stefna byggi ekki á vísindalegum grunni. Mowi er með 46 leyfi í fylkinu og framleiddi í fyrra 19.000 tonn. Þriðja stóra fyrirtækið í laxeldi í fylkinu er Cermaq. Forstjóri þess segir að þessi stutti leyfistími komi í veg fyrir fjárfestingu í greininni og vísar hann til þess að leyfistími í öðrum löndum sé frá 25 árum upp í varanleg leyfi.

Samtök eldisfyrirtækja í Kanada lýstu ákvörðun Lebouthillier sem óábyrgri, óraunhæfri og óframkvæmanlegri.

Frá 2020 hefur fiskeldi í Bresku Kólombíu dregist saman um 40%.

Diane Lebouthillier lengst til vinstri.

Súðavík: Yordanova  fékk viðurkenningu Rauða krossins

Genka Krasteva G. Yordanova fékk á þriðjudaginn viðurkenningu fyrir framúrskarandi sjálfboðið starf í þágu Rauða krossins.

Hún hefur leitt Rauða krossinn í Súðavík um árabil, en hann sameinaðist nýlega öðrum deildum við Ísafjarðardjúp. Deildin stendur í ströngu á hverjum vetri, enda lokast Súðavíkurhlíðin jafnan oft á ári vegna snjóflóðahættu. Í fámennri deild er það hlutskipti fárra að tryggja opnun fjöldahjálparstöðvar fyrir strandaglópa. Hvergi á landinu eru fjöldahjálparstöðvar virkjaðar jafn oft og einmitt í Súðavík. Og alltaf stendur Genka vaktina með traustum hópi sjálfboðaliða segir í tilkynningu Rauða krossins.

„Við getum verið stolt af því að hafa jafn öflugan sjálfboðaliða og Genku innan okkar raða. Við þurfum samt að hafa það í huga að skil milli skyldurækni og sjálfboðinnar þjónustu verða stundum óljós á fámennum stöðum. Sjálfboðaliðastarf má aldrei verða að kvöð.“

Genka komst því miður ekki á aðalfund Rauða krossins í maí, því fór Kristín S Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri félagsins, til Súðarvikur á þriðjudaginn og afhenti viðurkenninguna á Melrakkasetri Íslands að viðstöddum góðum hópi gesta.

Frá athöfninni í Melrakkasetrinu.

Ljósmyndir: Rauði krossinn og Súðavíkurhreppur.

Nýjustu fréttir