Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 54

Matvælaráðherra heimsækir Patreksfjörð

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra mun heimsækja Patreksfjörð, Raufarhöfn og Þórshöfn dagana 2.-7. september.

Heimsóknirnar eru gerðar með það að markmiði að íbúar byggðarlagana geti hitt ráðherra og átt milliliðalausar samræður um þau málefni sem heyra undir ráðherra.

„Ég tel það skyldu okkar sem störfum í þágu þjóðarinnar að eiga bein samskipti við fólkið í landinu, ekki síst í hinum dreifðari byggðum“ segir matvælaráðherra. „Það er mikilvægt að við fáum að kynnast þeirra sjónarmiðum, besta leiðin til þess er í gegnum samtal“ segir Bjarkey Olsen.


Hægt er bóka fund með því að senda póst á mar@mar.is eða bjarki.hjorleifsson@mar.is

Bjarkey mun heimsækja Patreksfjörð mánudaginn 2. september og verður í Ráðhúsinu, Aðalstræti 75.

Innviðafélag Vestfjarða og Blámi : opinn kynningarfundur á Ísafirði

Húsnæði Vestfjarðastofu á Ísafirði.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða, bjóða til kynningarfundar um samstarf Innviðafélagsins og Bláma mánudaginn 2. september kl. 13.

Í tilkynningu um fundinn segir að atvinnulífið á Vestfjörðum hafi margfaldast að stærð á undanförnum árum, með auknum umsvifum og fjárfestingu í nýsköpun, sjávarútvegi, lagareldi og þjónustu. Velta 100 stærstu fyrirtækjanna á Vestfjörðum hafi vaxið um rúmlega 140% á árunum 2016-2022, og er hækkandi húsnæðisverð og aðflutningur á svæðið til marks um efnahagsævintýrið sem á sér stað á svæðinu.

Innviðauppbygging á Vestfjörðum hefur lengi setið á hakanum sem hefur leitt til ótryggra samgangna og reglulegs orkuskorts sem hvorutveggja skerðir lífsgæði íbúa og hamlar uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

Innviðafélag Vestfjarða og Blámi hefja samstarf við að finna leiðir til að flýta uppbyggingu og fjármagna samgönguinnviði og að orkuröyggi verði tryggt á svæðinu, svo hægt verði að halda uppbyggingu áfram á Vestfjörðum.

Innviðafélag Vestfjarða er nýstofnað félag sem hefur það að markmiði að hvetja til og efla innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Aðilar að félaginu eru stöndug fyrirtæki af öllum Vestfjörðum.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar.

Kynningin fer fram hjá Vestfjarðastofu, Suðurgötu 12, Ísafirði og er fjölmiðlum og hagaðilum velkomið að vera viðstaddir kynninguna.

Tala eingöngu um vextina

Hvers vegna skyldu talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið svo gott sem eingöngu tala um vaxtastigið á evrusvæðinu þegar efnahagsmál þess eru annars vegar? Jú, vegna þess að fæstar hagtölur innan svæðisins eru eitthvað til þess að hrópa húrra yfir. Raunar eru vextirnir það ekki heldur enda engan veginn birtingarmynd heilbrigðs efnahagsástands heldur þvert á móti viðvarandi efnahagslegrar stöðnunar.

Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Evrópusambandsins taka fyrst og fremst mið af stöðu efnahagsmála í Þýzkalandi. Efnahagleg stöðnun þar í landi um langt árabil er helzta ástæða þess að stýrivextir bankans hafa lengi verið lágir. Jafnvel neikvæðir vegna verðhjöðnunar sem er birtingarmynd mun alvarlegra efnahagsástands en verðbólga. Stöðnun felur vissulega í sér ákveðinn stöðugleika en hins vegar ekki sérlega æskilegan.

Fyrir vikið hefur efnahagsástandið víðast hvar innan evrusvæðisins á undanförnum árum og áratugum einkennzt af litlum sem engum hagvexti, viðvarandi miklu atvinnuleysi, lítilli framleiðni og takmarkaðri nýsköpun. Jafnvel á uppgangstímum í heiminum hefur efnahagsleg stöðun einkennt svæðið. Þetta er sem fyrr segir stöðugleikinn sem Evrópusambandssinnar hafa viljað koma á hér á landi. Þetta er DNA evrusvæðisins.

Krónan er ekki sökudólgurinn

Haldið hefur verið því fram í röðum Evrópusambandssinna að nokkurn veginn allt sem miður hefur farið í hérlendum efnahagsmálum sé krónunni að kenna en á sama tíma sé ekkert sem miður hefur farið efnahagslega á evrusvæðinu vegna evrunnar heldur hagstjórnar ríkja þess. Hitt er svo annað mál að það stenzt einfaldlega ekki nánari skoðun að hægt sé að kenna krónunni um háa vexti, verðtryggingu og verðbólgu.

Til að mynda hefur Ólafur Margeirsson hagfræðingur bent á það að afar veik fylgni sé á milli stærðar gjaldmiðla og vaxtastigs. Hvað verðbólgu varði hafi verðgildi krónunnar rýrnað í gegnum tíðina vegna þess að of mikið hafi verið búið til af henni. Gjaldmiðlar búi sig hins vegar ekki til sjálfir. Þar sem verðbólga sé ekki afleiðing krónunnar sé verðtryggingin, sem verið hafi viðbrögð við verðbólgu, það augljóslega ekki heldur.

Ég hef bent mörgum Evrópusambandssinnum á ítarlega umfjöllun Ólafs í þessum efnum og hvatt þá til þess að hrekja rök hans, sem einungis er farið yfir í mjög grófum dráttum hér að framan, án þess að þeir hafi treyst sér til þess. Ólafur hefur bent á það að vandamálið sé þannig ekki gjaldmiðillinn sem slíkur heldur sú umgjörð sem stjórnmálamenn hafi hannað í kringum hann. Krónan sé einfaldlega höfð að blóraböggli.

Hefði mögulega aldrei orðið til

Hið sama á við um evruna og krónuna. Hún er einungis gjaldmiðill. Efnahagsleg vandamál á evrusvæðinu eru ekki henni að kenna sem slíkri heldur þeirri umgjörð sem evrópskir stjórnmálamenn hafa hannað í kringum hana. Það er til að mynda ekki evrunni að kenna að evruríkin eigi ekki næga efnahagslega samleið til þess að mynda eitt myntbandalag. Það var ákvörðun stjórnmálamanna að svæðið næði til svo ólíkra ríkja.

Margoft hefur verið bent á það að hefði hagfræði ráðið för en ekki pólitík hefði evran líklega einungis náð til þeirra ríkja Evrópusambandsins sem ættu næga samleið efnahagslega til þess að deila sama gjaldmiðlinum. Ríkja eins og Þýzkalands, Frakklands og Benelúx-landanna þar sem hagsveiflan er til dæmis svipuð. Raunar eru góðar líkur á því að evran hefði hreinlega aldrei orðið til ef tekið hefði verið mið af hagfræðinni.

Til dæmis hefur evrusvæðið aldrei uppfyllt þau fjögur skilyrði sem lögð eru til grundvallar kenningar kanadíska hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans Roberts Mundell um hið hagkvæma myntsvæði sem það er þó sagt reist á. Mundell hefur sagt nægja að uppfylla einungis eitt af skilyrðunum en evrusvæðið hefur til þessa ekki einu sinni gert það og fátt ef eitthvað sem bendir til þess að sú verði einhvern tímann raunin.

Horfa verður á heildarmyndina

Fullyrðing um það að krónan kosti 200-300 milljarða á ári vegna vaxtamunar stenzt þannig ekki heldur skoðun. Jafnvel þó svo væri verður vitaskuld að horfa á heildarmyndina í stað þess að taka aðeins eitt atriði út fyrir sviga sem hentar pólitískt. Rétt eins og að það þýðir ekki að einblína á vextina. Þá verður að hafa í huga sem fyrr segir að vextir á evrusvæðinu eru ekki beinlínis birtingarmynd eðlilegs vaxtaumhverfis.

Meðal þess sem ríki Evrópusambandsins greiða til þess eru umfangsmikil fjárframlög sem taka mið af ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu þeirra, ákveðinni hlutdeild í greiddum virðisaukaskatti innan þeirra og öllum tollum á innfluttar vörur til þeirra frá ríkjum utan sambandsins auk annarra greiðslna. Í öllum tilfellum er um að ræða fjármuni sem koma fyrst og fremst úr vösum almennra skattgreiðenda í ríkjunum.

Hvert prósentustig í minni hagvexti hleypur þar fyrir utan á tugum milljarða króna á ári og hvert prósentustig í auknu atvinnuleysi er þjóðfélaginu að sama skapi mjög dýrt. Allt þetta telur auðveldlega hundruð milljarða króna árlega. Þá erum við ekki farin að ræða annað sem fylgdi inngöngu í Evrópusambandið eins og framsal valds yfir nánast öllum okkar málum til stofnana sambandsins sem verður ekki metið til fjár.

Reynt að nýta sér erfiðleika fólks

Mikilvægt er þannig að hafa það hugfast að mjög langur vegur er frá því að Evrópusambandið sé einungis gjaldmiðill líkt og halda mætti stundum miðað við málflutning ófárra talsmanna inngöngu Íslands í sambandið. Raunin er sú að evran og flest annað sem viðkemur Evrópusambandinu er fyrst og fremst liður í lokamarkmiði samrunaþróunarinnar innan þess um að til verði að lokum evrópskt sambandsríki.

Til að mynda kom fram í Schuman-ávarpinu árið 1950, sem markaði upphaf samrunaþróunarinnar, að fyrsta skrefið væri að koma kola- og stálframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokaskrefið evrópskt sambandsríki. Síðan þá hafa jafnt og þétt verið tekin fleiri skref í þessa átt. Nú síðast var meðal annars lögð áherzla á áframhaldandi þróun í þeim efnum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands.

Málflutningur Evrópusambandssinna snýst í raun um það að reyna að nýta sér erfiðleika fólks vegna hárra vaxta og verðbólgu í pólitískum tilgangi. Tíminn vinnur hins vegar ekki með þeim. Verðbólgan hefur til að mynda farið smám saman minnkandi sem flestir upplifa sem jákvæða þróun en líklega ekki allir. Það er ekki að ástæðulausu að forsvarsmenn Viðreisnar vilja að þingkosningar fari fram sem allra, allra fyrst.

Hjörtur J. Guðmundsson
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Kvenfélagið Brautin: fjáröflun um næstu helgi

Kvenfélagið brautin í Bolungavík stendur fyrir tónlistarveislu í Félagsheimilinu í Bolungavík næsta laugardag 6. september frá kl 20 til kl 01 eftir miðnættið. Um er að ræða eina helstu fjáröflun félagsins og rennur allur ágóði til samfélagsins.

Kvöldstund full af fjölbreyttum tónum frá vestfirskum tónlistarmönnum.
Happdrættismiði fyrlgir aðgangs miða og verða dregnir út þrír stærstu vinningarnir á kvöldinu sjálfu.
Aðrir vinningar dregnir út á Facebook síðu Brautarinnar kl 20:00 5. september.
18 ára aldurstakmark

Aðgangsmiði -> 5000kr.
Happdrættismiði -> 1000kr

Miðasala í gegnum:
Kfbrautin@gmail.com
Eða 8678937

Kvenfélagið Brautin var stofnað 24. nóvember 1911 og stóðu 38 konur að stofnuninni. Félagið starfar enn af miklum þrótti og heldur fundi reglulega í hverjum mánuði yfir vetrartímann.

Hætta á skriðum og vatnavextir á sunnanverðum Vestfjörðum

Kort Veðurstofunnar.

Veðurstofa Íslands segir að gera megi ráð fyrir talsverðri rigningu eða vætu í dag þegar lægð og lægðardrag fer yfir. Mesta úrkoman verður á Sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd og Snæfellsnesi. Uppsöfnuð úrkoma er spáð ná tæplega 140 mm á 24 klst á Sunnanverðum Vestfjörðum og Barðaströnd.

Vegna úrkomu síðustu daga sé meir bleyta til staðar í jarðvegi sem eykur hættuna á skriðuföllum. Varað er við aukinni hættu á skriðuföllum og vatnavöxtum á sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd, Snæfellsnesi og innsveitum Suðurlands.

Þá kemur fram að þrjár skriður hafi fallið á Barðaströnd, í hlíð milli Miðhlíðar Ytri og Innri-Múla. Þær náðu ekki vegi.

Uppfært kl 12:30. Veðurstofan hefur nú greint frá því að  eftir athugun reyndust þetta eldri skriður sem féllu í vatnsveðri í júlí.

Jarðgangaáætlun: Vestfirðir verði settir á oddinn

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sveitarfélagsins til röðunar á gerð jarðganga, sem fram kemur í framlagðri samgönguáætlun fyrir 2024 – 2038, að Ísafjarðarbær hafi sett fram þá meginkröfu að jafnræðis verði gætt milli landshluta hvað varðar forgangsröðun.

„Ísafjarðarbær hefur gert athugasemdir að verkefni á Vestfjörðum skuli ekki raðast ofar í framlagri samgönguáætlun Innviðaráðherra sem ekki fékkst samþykkt á vorþingi. Við höfum beint því til Innviðaráðuneytisins að breyta forgangsröðun jarðganga með því að setja Vestfirði á oddinn enda býr enginn annar landshluti við þær aðstæður sem Vestfirðir þurfa að búa við í dag. Horfa verður til þess gríðarlegs ávinnings sem jarðgöng á Vestfjörðum hafa í för með sér, hvað varðar öryggissjónarmið, sameining búsetu- og atvinnusvæða og ekki síst þeirra gríðarlega miklu þjóðhagslegu verðmæta sem verða til á Vestfjörðum. Að þessu sögðu verður að árétta mikilvægi þess að tryggja öruggar samgöngur milli Ísafjarðar og Súðavíkur með göngum til að losna við snjóflóðahættu og grjóthrun. Álftafjarðargöng munu hafa afar jákvæð áhrif á tengsl milli byggðakjarna á Vestfjörðum. Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Fjölmargir íbúar sækja atvinnu daglega byggðakjarnanna.  Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðis- og velferðarþjónustu, til Ísafjarðar.“

Í tillögu ríkisstjórnarinnar er lagt til að hafist verði handa við Fjarðarheiðargöng og sett fé til undirbúnings og rannsókna þriggja jarðganga, Siglufjarðarskarðsganga, Hvalfjarðarganga 2 og nýrra ganga milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

Sex jarðgangakostir verði til viðbótar á 10 ganga lista en ekkert fé verði sett til þeirra. Þar á meðal eru fjórir jarðgangakostir á Vestfjörðum.

Forsætisráðherra Bjarni Benediktsson lýsti því yfir í vikunni að sterk rök væru fyrir því að flýta rannsóknarvinnu fyrir Siglufjarðarskarðsgöngum en framkvæmdir við göngin eiga að hefjast 2028 skv. tillögunni.

Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar frá mars 2023. Hækkun verðlags síðan þá er 5,4%.

Umhverfisráðherra: opinn fundur um orkumál á Ísafirði

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra heldur opinn fund um orkumál í Edinborgarhúsinu, Aðalstræti 7, á mánudaginn þann 2. september kl 20:00.

Á fundinum verður einnig farið yfir stöðu þeirra aðgerða sem kynntar voru í skýrslu ráðuneytisins um tækifæri og áskoranir Vestfjarða. Einar Kristinn Guðfinnsson formaður starfshópsins verður gestur á fundinum.

Aðrir í starfshópnum voru Jón Árnason, þáverandi forsenti bæjarstjórnar Vesturbyggðar og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.

Starfshópurinn benti á að innan við helmingur raforku fjórðungsins væri framleiddur innan fjórðungs og á næstu 7 árum myndi raforkuþörf Vestfjarða aukast um 35 MW. Lagði starfshópurinn áherslu á uppbyggingu raforkuframleiðslu í fjórðungnum. Nefnar eru nokkrar vatnsaflsvirkjanir Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun, Kvíslartunguvirkjun og Vatnsdalsvirkjun og áhersla lögð á mikilvægi þess að staðsetning tengipunktar í Ísafjarðardjúpi verði ákveðin með hliðsjón af því að orkan nýtist Vestfjörðum sem best.

Skýrsla starfshópsins.

Vegagerðin: burðarlag en ekki slitlag

Nýtt burðarlag á veginn vestan Fellsenda. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Haukur Árni Hermannsson, eftirlitsmaður hjá Vegagerðinni segir það vera misskilning hjá Bæjarins besta að unnið hafi verið að lagningu á slitlagi á vegarkafla í Dölunum í vikunni milli Fellsenda og Erpsstaða.

Hann segir að í fyrradag hafi verið klárað að keyra út viðbótarburðarlagsefni sem til stendur að sementsfesta áður en slitlag verður svo lagt yfir það.  Það átti að halda áfram við þessa vinnu í gær föstudag og um helgina en fresta varð þessum aðgerðum vegna vatnsveðurs sem nú gengur yfir svæðið.  Af þessum sökum er vegyfirborð á þessum kafla laust í sér og getur verið varasamt ef ekki er ekið skv. merkingum á svæðinu segir Haukur Árni.

Aðspurður um það hvenær slitlagið verði lagt svaraði Haukur Árni því til að það verði gert strax í kjölfar af þessari sementsfestun, s.s. í næstu viku ef veður leyfir sem stefnir alveg í skv. veðurspá.

Allir með

Verkefnið „Allir með“ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF (Íþróttasamband fatlaðra). Verkefnið er þriggjá ára verkefni sem er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar eru skýr ákvæði um viðeigandi aðlögun allra í íslensku samfélagi.

Verkefnið er styrkt af Félags- og vinnumálaráðuneytinu, Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Íþróttahreyfingin sér um framkvæmd verkefnisins sem verður unnið á tímabilinu 2023 – 2025.

Í samstarfi við Íþróttafélagið Ívar ætlar körfuknattleiksdeild Vestra að bjóða upp á körfuboltaæfingar fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir börn sem til dæmis þurfa meiri stuðning, hentar betur að vera í minni hópum og hafa aðgengi að fleiri þjálfurum á æfingum.

Hópíþróttir, líkt og körfubolti, henta líka fötluðum, börnum á einhverfurófi eða með frávik í hreyfiþroska. Körfubolti er fyrir alla og finnum við leiðir til að aðlaga íþróttina að iðkendum okkar svo þau geti notið sín á æfingum á eigin forsendum, ásamt því að upplifa sig sem hluta af liði.

Yfirþjálfari hópsins verður Egill Fjölnisson. Hann hefur langa reynslu af vinnu í stoðþjónustu hjá Ísafjarðarbæ ásamt því að hafa lokið námi í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er leikmaður meistaraflokks karla í Vestra og hefur æft körfubolta frá unga aldri. Honum til aðstoðar munu vera aðrir þjálfarar frá körfuknattleiksdeild Vestra ásamt þjálfurum frá Íþróttafélaginu Ívar.

Glæpasögudrottningar í Bókasafninu á Ísafirði

Í tilefni af 25 ára afmæli Hins íslenska glæpafélags býður Bókasafnið Ísafirði í höfundaspjall við glæpadrottningar tveggja landa – Satu Rämö (Finnland/Ísland) og Yrsu Sigurðardóttur (Ísland).


En það er von á fleiri gestum: Eiríkur Örn Norðdahl opnar viðburðinn og flytur glæpsamlegt ljóð, nýtt og frumsamið af tilefninu.

Anna Sigríður Ólafsdóttir stýrir spjallinu eins og henni einni er lagið.

Um höfundana:

Satu Rämö er finnsk en hefur lengi búið á Íslandi og á heima á Ísafirði í dag. Hún hefur gefið út fjölda bóka um Ísland, m.a. ferðabækur, minningar og… prjónabók! Nýverið kom út þýðing á fyrstu bók hennar í þríleiknum um ísfirsku rannsóknarlögreglukonuna Hildi sem slegið hefur í gegn í Finnlandi og Þýskalandi.

Yrsa Sigurðardóttir hefur gefið út fjölda bóka, m.a. glæpa- og spennusögur en einnig barnabækur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tugi tungumála og sitja á metsölulistum bæði hér á landi og erlendis. Sögusvið sumra bóka hennar er sérstaklega vel þekkt Vestfirðingum, t.d. skáldsagan sem gerist á Hesteyri í Jökulfjörðum og heitir Ég man þig

Nýjustu fréttir