Fimmtudagur 5. september 2024
Síða 53

Landbúnaður: meta áhrif af kuldatíð í júní

Matvælaráðuneytið hefur sett á fót viðbragðshóp vegna erfiðleika sem skapast hafa í landbúnaði vegna kuldatíðar undanfarið. Þar sitja fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta, Bændasamtakanna, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Almannavarna og lögregluembættanna á Norðurlandi vestra og eystra. Fleiri kunna að koma að verkefninu eftir því sem því vindur fram.

Matvælaráðherra mun á næstu dögum setja á stofn smærri vinnuhóp sem ætlað er að leggja mat á umfang tjóns til lengri tíma og koma með tillögur um aðgerðir. Fyrsta verkefni hópsins er að formfesta tjónaskráningu. Fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta og bænda munu skipa hópinn, auk annarra hagaðila sem kallað verður til eftir atvikum. Lögð verður áhersla á miðlun upplýsinga til bænda eftir því sem verkefninu vindur fram.

Hópnum verður jafnframt falið að gera tillögu að viðbragðsáætlun þegar áföll sem þessi verða. Mikilvægt er að bændur skrái allt tjón sem þeir kunna að verða fyrir ásamt því að taka myndir.

Hafró: veiðiráðgjöf á langreyði er byggð á vísindalegum grundvelli

Hafrannsóknarstofnun hefur sent frá sér tilkynningu og segir að ráðfjöf stofnunarinnar um veiðar á langeyði sé byggð á úttektum vísindanefnda bæði Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (NAMMCO).

Tilefni tilkynningarinnar er umræða vegna ákvörðunar Matvælaráðherra um að víkja frá ráðgjöf stofnunarinnar og heimila veiðar á mun færri dýrum en lagt er til í ráðgjöfinni.

Hafrannsóknarstofnunin segir að ráðgjöfin byggi á sama grunni og önnur veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir nýtingu sjávarauðlinda. Í ráðgjafarferlinu séu teknar inn upplýsingar um fjölda í skipulögðum hvalatalningum, aldur- og kynjasamsetning stofnsins, frjósemi, lifun, auk veiðitalna. Ólíkt stofnmati og veiðiráðgjöf flestra fiskistofna sem gefin eru árlega, nær ráðgjöfin fyrir langreyði yfir langt tímabil, eða 9 ár í senn. Segir stofnunin það ekki vandamál hjá svo langlífum dýrum eins og langreyðum, sem verða vel yfir 100 ára gamlar.

„Rétt er þó að árétta að vegna hugmyndafræðilegs ágreinings um nýtingu hvala innan framkvæmdanefndar IWC (sem er ekki skipuð vísindamönnum og að mörgu leiti aðskilin frá vísindanefnd ráðsins) veita þau ekki ráðgjöf um nýtingu hvalastofna nema þegar um frumbyggjaveiðar eru að ræða.“

Þá segir í tilkynningunni:

„Bent hefur verið á ráðgjöfin víki frá ráðgjafareglum IWC, þar sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og NAMMCO byggði á því að halda stofnstærðinni yfir 60 % af hámarksstofnstærð en framkvæmdaráð IWC ákvað að stefna á að halda stofnum við 72 % gefi það út ráðgjöf. Engin vísindaleg rök eru fyrir því að velja þessa 72% tölu frekar en aðra á bilinu 60-72%, og má rekja ákvörðunina til þessa sama hugmyndafræðilega ágreinings innan framkvæmdanefndar ráðsins og áður hefur verið minnst á. Vísindanefnd IWC hefur gefið það út að markmiðið um halda stofnum við 60% samræmist varúðarnálgun og markmiðum um hámarksafrakstur. Því byggði NAMMCO sýna ráðgjöf fyrir stórhvalaveiðar á 60% af hámarksstofnstærð fyrir tímabilið 2017-2025, að beiðni íslenskra stjórnvalda.“

Næsta veiðiráðgjöf fyrir langreyðar verður birt að vori 2026 ef stjórnvöld óska eftir slíkri ráðgjöf, byggð á niðurstöðu hvalatalninga sem fara nú fram.

Útflutningstekjur: lax í öðru sæti

Útflutningsverðmæti einstakra fisktegunda. Heimild:Radarinn.

Síðustu fimm árin hefur útflutningur á eldislaxi skilað næstmestum útflutningstekjum af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Þorskurinn er langmikilvægasta fisktegundin og skilaði 136 milljörðum króna í útflutningstekjur á síðasta ári. Eldislaxinn var í öðru sæti með 37 milljarða króna tekjur og hefur skotist fram úr loðnuafurðum, sem voru í fyrra í þriðja sæti.

Þetta kemur fram í frettabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Radarnum.

Þar er vakin athygli á vaxandi hlutdeild eldislaxins og þar segir um framtíðarhorfurnar:

„Hvað sem því líður mun lax vafalaust hreppa annað sætið þetta árið og jafnframt næstu ár. Enda er vandséð annað en að hlutur laxins muni vaxa enn frekar á komandi árum og að hann muni þar með festa sig rækilega í sessi sem annar tekjuhæsti fiskurinn þegar kemur að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Að sjálfsögðu geta aðrar fisktegundir bætt við sig, en þegar veitt er úr náttúrulegum stofnum er magnaukning þeirra miklu óvissari.“

13% af útflutningsverðmæti sjávarafurða

Hlutdeild eldislaxins fer vaxandi í útflutningtekjum landsmanna og segir í Radarnum að að á fyrstu fimm mánuðum ársins vógu útflutningsverðmæti af laxi einum og sér rúmlega 13% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og 5% af verðmæti alls vöruútflutnings. Þessi hlutföll hafa aldrei mælst hærri á þessum tíma árs.

Vægi lax í samanlögðum útflutningstekjum af vöru- og þjónustuviðskiptum, en þær tölur eru einungis birtar ársfjórðungslega hefur einnig farið vaxandi. Þar er hlutdeild lax á fyrsta fjórðungi í ár 3,6% og hefur aldrei mælst hærri á fjórðungnum, sé undanskilið það tímabil sem áhrifa COVID-faraldursins gætti hvað mest.

Stöplarit úr Radarnum.

Fyrsta skipti út fyrir höfuðborgina eftir tveggja ára búsetu

Tæplega 4000 manns hefur komið til Íslands frá Úkraínu síðan átök hófust þar í landi fyrir um tveimur árum.

Á fréttavef Rauða krossins er sagt frá því að meðal þeirra sé stór, en oft ósýnilegur hópur eldri kvenna sem neyddust til að skilja allt eftir í heimalandinu – börnin sín, barnabörn og heimilin sem þær höfðu búið í áratugum saman.

Hópur þessara kvenna hittist einu sinni í viku og prjónar saman í Hvítasunnukirkju Fíladelfía ásamt íslenskum konum. Þeir viðburðir eru hjá mörgum þeirra eina félagslífið sem þær stunda og margar þeirra lýstu því að þær hefðu ekki fengið tækifæri hingað til að skoða nýja heimalandið.  

Rauði krossinn ásamt Reykjavik Excursions, Friðheimum og Úkraínsk-íslenska prjónaklúbbnum, skipulagði ferð þann 31.maí fyrir hóp 20 úkraínskra og íslenskra eldri kvenna. Þær heimsóttu Geysi, Gullfoss, Þingvelli og Friðheima gróðurhús. „Þetta var fyrsta ferð mín út fyrir höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir að hafa búið á Íslandi í næstum 2 ár,“ segir ein kvennanna. 

Strandveiða – Umframafli 171 tonn

Samtals hefur 764 bát­um verið út­hlutað strand­veiðileyfi en 753 bát­ar hafa landað afla á fyrstu tveim­ur mánuðum veiðanna.

Á þessum tveimur mánuðum hefur verið landað 171 tonn um­fram leyfi­legt há­mark í veiðiferð eða að meðaltali 227 kg.

Þeir tutt­ugu bát­ar sem landað hafa mest­um um­framafla hafa landað samtals um 14,5 tonnum um­fram há­mark.

Þá hef­ur einn bát­ur landað rétt rúm­lega tonni í þorskí­gild­um um­fram há­mark.

Íbúafundur í Árneshreppi

Ljósmynd Kristján Þ Halldórsson

Fimmtudaginn 20. júní var íbúafundur í félagsheimilinu í Trékyllisvík.

Fundurinn var haldinn undir merkjum verkefnisins Áfram Árneshreppur, sem er heiti á þátttöku Árneshrepps í verkefninu Brothættar byggðir með aðkomu Byggðastofnunar. Verkefnið hefur staðið síðan í ársbyrjun 2018 og hófst raunar með íbúaþingi sumarið 2017, en því lauk um síðustu áramót.

Við tekur nú svipað starf, en í umsjón heimamanna sjálfra undir forystu nýskipaðrar framtíðarnefndar Árneshrepps.

Talsverð innviðauppbygging hefur átt sér stað í Árneshreppi að undanförnu og vonast er til að hægt verði að ljúka þrífösun rafmagns í sveitarfélaginu í sumar og samhliða henni er lagður ljósleiðari í nær öll hús, enda fékkst til þess styrkur úr Fjarskiptasjóði. Framkvæmdum við Norðurfjarðarhöfn er að ljúka, en þær miða einkum að því að auka öryggi ferðamanna og eru unnar með styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Íbúum hefur fjölgað nokkuð í Árneshreppi að undanförnu og nú eru komin tvö börn á grunnskólaaldri. Verið er að vinna að útfærslu á skólahaldi fyrir þau og stefnt er að því að rekstur Finnbogastaðaskóla hefjist að nýju 2025.

Hundasvæðið við Suðurgötu á Ísafirði tilbúið

Langþráð hundasvæði við Suðurgötu á Ísafirði er nú loks tilbúið og opið. Þó að uppsetning svæðisins hafi virst einfalt verkefni í upphafi urðu miklar tafir á því, meðal annars vegna langrar biðar eftir afhendingu á réttum hliðum og mikilla anna verktaka.

Nú er þó allt klárt á svæðinu, bekkir og ruslafötur komnar á sína staði og eru allir hundar og eigendur þeirra boðnir hjartanlega velkomnir. 

Nokkrar einfaldar reglur gilda á hundasvæðinu, til að halda því snyrtilegu, öruggu og skemmtilegu:

  • Gætið þess að loka hliðum á eftir ykkur.
  • Hundar eiga að vera í taumi þegar svæðið er yfirgefið.
  • Hundar eiga að vera í kallfæri við eiganda sinn öllum stundum.
  • Hundar skulu vera í fylgd einstaklinga sem eru 13 ára og eldri.
  • Grimmir hundar mega ekki vera á svæðinu.
  • Sýni hundur árásargirni ber eiganda að fjarlægja hann samstundis.
  • Tíkur á lóðaríi mega ekki vera á svæðinu.
  • Eigendur skulu, líkt og annars staðar, taka upp skít eftir hundinn sinn og setja í ruslatunnuna.

Hvalárvirkjun: landsréttur hafnar landakröfum Drangavíkur

Landamerki Drangavíkur sem Héraðsdómur og Landsréttur hafa dæmt rétt.

Í gær féll dómur í Landsrétti í máli sem  eigendur 74,5% hluta Drangavíkur höfðuðu á hendur eigendum jarðanna Engjaness, Ófeigsfjarðar og Laugalands og sameigendum sínum að jörðinni Drangavík, sem saman áttu 25,5% hluta Drangavíkur, auk þess að stefna til réttargæslu eiganda jarðarinnar Dranga og íslenska ríkinu sem fer með yfirráð þjóðlendu á austanverðum Drangajökli.

Kröfðust þeir að landamerki milli jarðanna Engjaness og Drangavíkur yrðu með tilteknum hætti þannnig að land Drangavíkur yrði mun stærra en þaður hafði verið talið. Héraðsdómur Vestfjarða hafnaði kröfunum og áfrýjuðu stefnendur, þó að frátöldum þremur þeirra, málinu til Landsréttar. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms frá 5. júlí 2022 og dæmdi stefnendur til þess að greiða samtals 7,2 m.kr. í málskostnað.

Kort sem sýnir kröfu þeirra sem höfðuðu málið fyrir dómstólum og Landsréttur féllst ekki á.

Undirtónninn í málaferlunum er Hvalárvirkjun en ef landakröfur stefnenda hefðu verið teknar til greina hefðu vatnsréttindin fylgt með og fyrirliggjandi samningar Vesturverks við landeigendur um virkjun vatnsfallanna hefðu verið í uppnámi.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur og nú Landsréttar er í samræmi við það sem lögmaður eiganda Engjaness, Felix von Longo-Liebenstein sagði í viðtali við Bæjarins besta þann 27.6. 2019 að hann hefði ekki stórar áhyggju af þessum landakröfum. Lögmaðurinn sagðist ekki geta lesið þetta út  landamerkjabréfum. Hann sagði að kröfurnar komi eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það hafi aldrei verið ágreiningur við nokkurn mann um landamerkin milli jarðanna.

Kómedíuleikhúsið: Fyrst í Djúpuvík svo í Haukadal

Á laugardag verður forsýning í Djúpuvík á leikritinu Ariasman eftir Tapio Koivukari. Afhverju í Djúpuvík spyr jafnvel margur. Jú, það er vegna þess að í Djúpuvík er verið að setja upp Baskasetur og Ariasman er einmitt leikstykki sem fjallar um hin illvígu Baskavíg. Það er Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, sem setur Ariasman á svið og gaman er að geta þess að þetta er 54. verkefni þessa velvirka vestfirska leikhús. Leikari er Elfar Logi Hannesson, ljósameistari er Sigurvald Ívar Helgason, búningahönnuður Þ. Sunnefa Elfarsdóttir, Björn Thoroddsen semur tónlist leiksins og leikstjórn annast Marsibil G. Kristjánsdóttir. Eftir frumsýningu í Djúpuvík á laugardag taka við sýningar í Kómedíuleikhúsinu Haukadal Dýrafirði í næstu viku.

Ariasman er áhrifa- og átakamikið leikverk um eitt mesta óhæfuverk Íslandssögunnar, Baskavígin. Að haustlagi 1615 var 31 baskneskur skipsbrotsmaður veginn af vestfirskum bændum. Ariasman er leikgerð sem er byggð á samnefndri sögulegri skáldsögu Tapio Koivukari, um Baskavígin sem eru í raun fyrstu og vonandi einu fjöldamorð Íslandssögunnar. Þessir hrottalegu atburðir gerðust fyrir vestan haustið 1615 þegar 31 baskneskur skipbrotsmaður var veginn á miskunarlausan hátt af vestfirskum bændum undir forystu Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri, en Baskarnir þekktu hann undir nafninu Ariasman.

Miðasala á Ariasman í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal fer fram í midix.is

Tapio Koivukari,.

Bolafjall: framkvæmdir hefjast við bílastæði

Mynd af Bolafjalli. Ratsjárstöðin blasir við og fyrirhugaður útsýnisstaður. Mynd: Bolungarvik.is

Framkvæmdir eru að hefjast við gerð bílastæða á Bolafjalli. Að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra verður varið um 15 m.kr. í sumar til þess að gera bílastæðin og í framhaldinu er gert ráð fyrir að fara í lagfæringar og viðhald á veginum uppá fjall í samstarfið við Landhelgisgæsluna, sem er eigandi vegarins.

Til þess að afla fjár fyrir framkvæmdunum mun gjaldtaka hefjast frá og með 4. júlí fyrir bílastæðin uppi á Bolafjalli. Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar hefur samþykkt gjaldskrá fyrir bílastæðin.

Gjaldskráin verður eftirfarandi:

Mótorhjól 500 kr.

Fólksbílar og jeppar 1.000 kr.

Minni rútur ( að 19 manna) 2.000 kr.

stærri rútur skv. samkomulagi.

Í bókun bæjarráðs segir að tilgangurinn með þessari gjaldtöku sé að fá inn fjármagn til að greiða fyrir framkvæmdir á áfangastaðnum Bolafjall. Þetta sé í samræmi við stefnumótun sem unnin var fyrir Bolafjall á síðasta ári, sem gerir ráð fyrir að bílastæðagjald verði sett á til að fjármagna þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að þróa áfram áfangastaðinn Bolafjall.

Nýjustu fréttir