Í síðustu viku voru nýir samningar um Aflamark Byggðastofnunar á Hólmavík, Drangsnesi og Suðureyri undirritaðir í vinnsluhúsnæði samningsaðila.
Samningarnir eru til næstu sex fiskveiðiára og fela í sér áframhaldandi samstarf stofnunarinnar við vinnslu- og útgerðaraðila í viðkomandi byggðarlögum.
Tilgangurinn er sem áður að styrkja byggðafestu í byggðarlögunum með stuðningi í formi árlegs aflamarks sem stofnunin afhendir samningsaðilum gegn skuldbindingum þeirra um veiðar og vinnslu, viðhald og/eða fjölgun starfa og annan stuðning við nærsamfélagið.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar og Jóhann Páll Jóhannsson alþingismaður boða til opinna funda á Vestfjörðum dagana 3. og 4. september. „Við hlökkum til að eiga samtöl við heimamenn um húsnæðismálin, kjörin og málefni fjölskyldna,“ segir Kristrún en fundirnir eru liður í umfangsmiklu málefnastarfi flokksins um allt land.
Málin verða diskúteruð yfir ljúffengri súpu í Reykhólabúðinni á Reykhólum þriðjudaginn 3. september kl. 12:00. Á Ísafirði verður boðið upp á fjölskyldugrill í Edinborgarhúsinu kl. 17:00 sama dag þar sem Arna Lára bæjarstjóri slæst í hópinn – og hver veit nema leynigestur heilsi upp á börnin? Loks verður haldinn morgunfundur á Kaffi Galdri á Hólmavík miðvikudaginn 4. september kl. 9:00.
Málefnastarfið opnað upp á gátt
„Það hefur verið kappsmál hjá okkur að opna málefnastarf Samfylkingarinnar upp á gátt þannig að fólk um allt land geti tekið þátt í að leggja grunn að áherslum og forgangsröðun flokksins í veigamestu málaflokkum. Það er öllum velkomið að taka þátt í samtalinu og koma á framfæri sínum sjónarmiðum,“ segir Kristrún. „Heilbrigðismálin voru í forgrunni í fyrra, svo atvinna og samgöngur síðasta vetur og nú erum við að taka hringferð um húsnæðis- og kjaramálin.“
Jóhann Páll er formaður stýrihópsins sem fer fyrir vinnunni. „Við erum meðal annars að kortleggja hvernig er hægt að byggja meira, hraðar og betur til að koma jafnvægi á íbúðamarkaðinn, hvernig er skynsamlegt að styðja betur við barnafólk og tryggja að eldra fólk njóti ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði.“
Vestri fékk Fylki úr Árbænum í heimsókn í gær á Kerecis völlinn á Ísafirði. Mikið var undir í leik tveggja liða sem berjast um að forðast fall úr deildinni. Ljóst var að liðið sem tapaði leiknum væri komið í erfiða stöðu og leikurinn bar þess merki. Bæði lið spiluðu af varkárni og gættu þess að gefa ekki færi á sér. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli þar sem Vestri var greinilega betra liðið og átti fleiri markverð færi. Í síðari hálfleik var nánast um einstefnu að ræða að marki Fylkis þótt færin væru fá og undir lok leiksins gerðu Vestramenn harða hríð að marki Fylkis, en þó án árangurs.
Þar sem bæði KR og HK unnu sína leiki í gær eru Vestri og Fylkir í botnsætunum fyrir lokaumferðina í deildina.
Fyrir liggur hvaða lið munu skipa neðri hluta deildarinnar. Liðin frá 7. – 12. sæti munu eftir umferðirnar 22 leika fimm umferðir hvert við annað. Tvö neðstu liðin að því loknu munu falla úr deildinni.
Vestri á því enn góða möguleika á að halda sæti sínu.
Það var frekar hráslagaelgt á Torfnesinu í gær, en engu að síður voru margir mættir til að styðja Vestra.
Það viðraði ekki nógu vel á Sæunnarsundkappana þetta árið, gul viðvörun og talsverð bára. En, það gengur ekki að stefna fjölda manns vestur á firði og bjóða þeim bara upp á heimsókn í pottinn á Flateyri, með fullri virðingu fyrir þeim afbragðspotti.
Þess vegna var tekin ákvörðun um að í stað þverunar á firðinum líkt og Sæunn gerði forðum, var farið í klaufann bróður hennar, hinum óheppna og ofstopafulla Moðhausi. En hann synti sér ekki til lífs þegar hann slapp frá slátraranum á Flateyri, hann synti beint upp í fjöru neðan við Kaldá, rauk þar í fjós og braut allt og bramlaði. Til hans spurðist ekki eftir það. Nú var sem sagt ákveðið að synda í klauffar hans og lagt var upp neðan við strompinn og synt inn í höfnina á Flateyri, altsvo öfuga þá leið sem Moðhaus fór á sínum tíma.
Það voru 23 ofurhugar sem lögðu af stað þetta árið, sinadráttur lagði einn kappann að velli og þáði hann aðstoð björgunarsveitar en hinir náðu takmarki sínu og var vel fagnað þegar komið var að rampinum inn í Flateyrarhöfn.
Þetta átti að vera sjötta Sæunnarsundið en endaði sem fyrsti Moðhausaspretturinn.
Alls hafa nú verið teknar 127 sundferðir í Önundarfirði á vegum Sæunnarsunds og það eru 90 einstaklingar sem hafa tekið þessi sund, margir koma ár eftir ár. Til dæmis hefur Erna Héðinsdóttir mætt fimm sinnum.
„Þessi skemmtilegi viðburður á Flateyri nýtur víðtæks stuðnings og í ár eru það Vestfirskir Verktakar, Hampiðjan, Dokkan, Arctic Fish og Orkubú Vestfjarða sem leggja okkur til aura, Snerpa vistar heimasíðuna og Arna, MS og Dokkan leggja til góðgæti í keppnistöskurnar. Þessi stuðningur gerir stjórninni kleift að greiða okkar frábæru björgunarsveitum örlítinn þakklætisvott því svo sannarlega er ekki synt án þeirra og bjóða syndurum upp á öryggisbúnað sem þarf.“ segir Bryndís Sigurðardóttir einn af forsprökkum sundsins.
Skipulag- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við bæjarstjórn að samþykkt verði tillaga að lýsingu aðalskipulagsbreytingar um landfyllingu meðfram Strandgötu á Patreksfirði fyrir nýtt íbúðarsvæði og stækkun á miðsvæði og svæði fyrir samfélagsþjónustu. Skipulagsbreytingin fari svo í almenna kynningu.
Vísað er til þess að samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins er talin þörf á að byggja 229 nýjar íbúðir í Vesturbyggð á næstu 10 árum. Mikil ásókn er í íbúðarlóðir á Patreksfirði og byggingarhæfum lóðum fer sífellt fækkandi.
Aðalskipulagsbreytingin felst í skipulagningu landfyllingar meðfram Strandgötu fyrir nýtt íbúðarsvæði og stækkun á miðsvæði og svæði fyrir samfélagsþjónustu. Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er þríþætt:
Að auka byggingarland á Patreksfirði og tryggja nægt og fjölbreytt framboð íbúðar-, verslunar og þjónustulóða, í samræmi við meginmarkið aðalskipulags, húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og Sóknaráætlun Vestfjarða. .
Að styrkja miðbæ Patreksfjarðar með því að skapa tækifæri til að þétta byggðina miðsvæðis. Með nýjum miðbæ og aðgengi fólks að þjónustu á sama svæði yrði bæjarbragur betri á Patreksfirði, þangað sem fólk sækir þjónustu og afþreyingu.
Að færa þungaumferð frá leikskólalóðinni við Araklett og skapa möguleika á stækkun lóðarinnar með stækkandi byggð.
Aðalskipulagsbreytingin muni skapa byggingarland og tryggja framboð af íbúðalóðum.
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir aðspurð að Ísafjarðarbær hafi lagt mikla áherslu á breikkun Breiðadalsleggjar Vestfjarðaganga vegna öryggissjónarmiða og vaxandi umferðar. „Við höfum bent á þá slysahættu sem einbreið göng með lélegri lýsingu hefur í för með sér og þakka má fyrir að ekki hafi orðið alvarleg slys á fólki. Göngin bera ekki þá miklu umferð sem er í gegnum þau, og þá sérstaklega yfir sumartímann þegar rútur flykkjast í gegnum göngin frá Ísafjarðarhöfn á leið sinni á Dynjanda. Við höfum líka bent á þá staðreynd að göngin uppfylla ekki allar kröfur í reglugerð um öryggi, t.a.m. hvað varðar kantljós og atvikamyndavélar, og við höfum farið fram á að settur verði upp búnaður til umferðastýringar þar til gögnin verða breikkuð.“
Varðandi göngin til Súgandafjarðar segir Arna Lára að „ekki hefur verið lögð mikil áhersla á breikkun Súgandafjarðarleggjar Vestfjarðaganga, þar sem umferðarþungi þar er minni. Betri lýsing og umferðastýring mun hafa þar mikið að segja til að greiða fyrir umferð.“
Í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á Alþingi síðasta haust er að finna tillögu um 10 jarðgangakosti sem lagt er til að ráðist verði í á næstu 30 árum. Þar er lagt til að Múlagöng, einbreið jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, verði leyst af hólmi með tvíbreiðum gögnum og að Breiðadalsleggur Vestfjarðaganga verði breikkaður og gerður tvíbreiður.
Áfram er því gert ráð fyrir að verði einbreið göng til Súgandafjarðar, sem er 3 km kafli Vestfjarðaganga. Suðureyri verður því eina byggðarlagið á landinu þar sem samgöngur til og frá því eru um einbreið jarðgöng ef tillagan nær fram að ganga óbreytt.
Strákagöng við Siglufjörð verða leyst af hólmi með nýjum tvíbreiðum göngum í Fljótin, Siglufjarðarskarðsgöngum.
Geirnaglinn ehf er langt kominn með að vinna stórt útboðsverk fyrir Ísafjarðarhöfn. Steypt var um 6.300 fermetra þekja fyrir höfnina við Sundabakka og steypt fyrir þjónustuhús vegna skemmtiferðaskipa.
Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að búið sé að steypa þekjuna og þjónustuhús. Geirnaglinn sá einnig um að leggja vatns og rafmagnsrör í kantinn og undirbúa undir malbikun. „Það sem eftir er af þeirra verki er að reisa ljósastaura og setja gólf, glugga og hurðir í þjónustuhúsin.“
Verklok eru áætluð í september 2024 og taldi Hilmar að það myndi klárast í mánuðinum.
Tilboð Geirnaglans ehf var 263.993.980 kr. sem var nærri 6% undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Að sögn Hilmars var ekki um umframkostnað að ræða vegna steypunnar.
Karl Sigurðsson, Ísafirði er látinn. Hann varð 106 ára 14. maí síðastliðinn.
Karl fæddist árið 1918 á Ísafirði, í húsi sem kallast Rómaborg og tilheyrir í dag Sundstræti. Á fyrsta ári Karls flutti fjölskyldan út í Hnífsdal og þar bjó hann stærstan hluta ævi sinnar. Eiginkona hans var Kristjana Hjartardóttir. Hún lést árið 2013. Kristjana átti fyrir einn dreng, Grétar. Saman áttu þau fimm börn að auki – Ásgeir Kristján, Guðrúnu, Hjördísi, Sigríði Ingibjörgu og Halldóru.
Karl átti farsælan skipstjórnarferil en lengstan tíma var hann á Mími eða alls 25 ár.
Karl var heiðursfélagi í félagi eldri borgara á Ísafirði og nágrenni.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra mun heimsækja Patreksfjörð, Raufarhöfn og Þórshöfn dagana 2.-7. september.
Heimsóknirnar eru gerðar með það að markmiði að íbúar byggðarlagana geti hitt ráðherra og átt milliliðalausar samræður um þau málefni sem heyra undir ráðherra.
„Ég tel það skyldu okkar sem störfum í þágu þjóðarinnar að eiga bein samskipti við fólkið í landinu, ekki síst í hinum dreifðari byggðum“ segir matvælaráðherra. „Það er mikilvægt að við fáum að kynnast þeirra sjónarmiðum, besta leiðin til þess er í gegnum samtal“ segir Bjarkey Olsen.
Hægt er bóka fund með því að senda póst á mar@mar.is eða bjarki.hjorleifsson@mar.is
Bjarkey mun heimsækja Patreksfjörð mánudaginn 2. september og verður í Ráðhúsinu, Aðalstræti 75.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða, bjóða til kynningarfundar um samstarf Innviðafélagsins og Bláma mánudaginn 2. september kl. 13.
Í tilkynningu um fundinn segir að atvinnulífið á Vestfjörðum hafi margfaldast að stærð á undanförnum árum, með auknum umsvifum og fjárfestingu í nýsköpun, sjávarútvegi, lagareldi og þjónustu. Velta 100 stærstu fyrirtækjanna á Vestfjörðum hafi vaxið um rúmlega 140% á árunum 2016-2022, og er hækkandi húsnæðisverð og aðflutningur á svæðið til marks um efnahagsævintýrið sem á sér stað á svæðinu.
Innviðauppbygging á Vestfjörðum hefur lengi setið á hakanum sem hefur leitt til ótryggra samgangna og reglulegs orkuskorts sem hvorutveggja skerðir lífsgæði íbúa og hamlar uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.
Innviðafélag Vestfjarða og Blámi hefja samstarf við að finna leiðir til að flýta uppbyggingu og fjármagna samgönguinnviði og að orkuröyggi verði tryggt á svæðinu, svo hægt verði að halda uppbyggingu áfram á Vestfjörðum.
Innviðafélag Vestfjarða er nýstofnað félag sem hefur það að markmiði að hvetja til og efla innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Aðilar að félaginu eru stöndug fyrirtæki af öllum Vestfjörðum.
Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar.
Kynningin fer fram hjá Vestfjarðastofu, Suðurgötu 12, Ísafirði og er fjölmiðlum og hagaðilum velkomið að vera viðstaddir kynninguna.