Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 52

Nýtt stöðugildi Bláma á Patreksfirði

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Fjölmenni var á opnum fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðsráðherra í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gærkvöldi. Ráðherrann fór yfir þær 15 tillögur sem  eru í skýrslu starfshóps ráðuneytisins um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum frá júní 2023. Rakti hann stöðu þeirra og gerði grein fyrir því sem hefði verið gert.

Fram kom að enn er til skoðunar erindi Orkubús Vestfjarða um heimild til þess að láta vinna umhverfismat fyrir Vatnsdalsvirkjun, en svæðið er væntanlegt virkjunarsvæði er innan friðlands. Þar er beðið eftir áliti Háskólans á Akureyri á almannahagsmunum þess að verða við erindinum  og sagði ráðherrann að von væri á því í haust og í framhaldinu yrði erindi Orkubúsins tekið til afgreiðslu. Starfshópurinn telur mikilvægt að skoða þennan virkjunarkost nánar og elggur áherslu á að stjórnvöld svari erindi OV sem fyrst. Í starfshópnum áttu sæti Einar K. Guðfinnsson, formaður og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Jón Árnason, þáverandi forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

Varðandi Hvalárvirkjun þá er beðið niðurstöðu Óbyggðanefndar til landakröfu ríkisins sem krefst þess að stórt landssvæði sunnan og austan Drangajökuls verði lýst þjóðlenda og sagði ráðherrann að stöðufundur yrði í mánuðinum.

Unnið er að ákvörðun um tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og sagði ráðherra að niðurstöðu Landsnets væri að vænta innan skamms. Er miðað við að hann verði efst í Lágadal og þaðan liggi línan frá Hvalárvirkjun yfir í Kollafjörð austan Klettháls.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og varamaður í stjórn Landsnets upplýsti að ákveðið hefði verið að tengja Hvalárvirkjun við landskerfið á þennan hátt og ekki með tengingu frá tengipunktinum um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar.

Urðu miklar umræður á fundinum um virkjanir og tengingar þeirra.

Blámi fær aukin verkefni

Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu sem nefnist Blámi verður endurnýjað til þriggja ára og hefur verið ákveðið að ráða í nýtt stöðugildi á Patreksfirði. Bláma hefur m.a. verið falið að ræða við landeigendur til þess að flýta fyrir byggingu smávirkjana á Vestfjörðum.

Fundasókn var góð og greinilega mikill áhugi á orkumálum fjórðungsins.

Vel var mætt frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Ferðafélag Ísfirðinga: frá Gretti til Gróu 

1 – 2 skór 

Laugardaginn 7. september

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina (nema í sund).

Fararstjórn: Hermann Gunnarsson og Þorgerður Kristjánsdóttir.
Mæting kl. 8.30 við Bónus á Ísafirði.
Gangan hefst í Miðhúsum kl. 10.00-10.30 og bílarnir skildir eftir þar. Gengið út Vatnsfjarðarháls að Grettisvörðu, niður í Vatnsfjörð þar sem staðurinn verður skoðaður. Haldið áfram að Sveinhúsum sem einnig verða skoðuð og að lokum yfir Reykjafjarðarháls í bíla á Laufskálaeyri. Mögulega farið í sund í Reykjanesi á eftir.
Vegalengd: um 8-9 km, göngutími: 4-5 klst., hækkun: undir 200 m.

Sundatangi: mögulega skemmdir á nýlögðu malbiki

Nýlagt malbik á Suðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýlagt malbik á Suðurtanga er til skoðunar. Það var lagt í töluverðri úrkomu og Jóhann B. Helgason, eftirlitsmaður Ísafjarðarbæjar segir að alveg líklegt að það hafi skemmst.

Jóhann segir að undirlagið sé ekki nægilega gott. „Gatan var gerð fyrir nokkrum árum síðan og því var bara sett 15 cm burðarlag á götuna, það hefði þó mátt vera betra. Hins vegar virðist gatan fljóta ofan á sandinum, við tókum ekki eftir þessu fyrr en rétt fyrir malbik.“

Hann segir að rigningin hafði þar áhrif en svæðið er að þorna og þetta líti betur út núna.

Aðspurður hver muni bera kostnaðinn af skemmdum ef þær hafa orðið segir Jóhann að það eigi eftir að skoða það, það sé verið að skoða malbikið og sjá til hvort það verði í lagi.

Uppsagnir hjá Vestfirskum verktökum

Á föstudaginn var 26-27 starfsmönnum sagt upp störfum hjá Vestfirskum verktökum. Garðar Sigurgeirsson framkvæmdastjóri félagsins sagði í samtali við Bæjarins besta að það væru einkum þrjár ástæður fyrir þessu.

Í fyrsta lagi væri verkefnastaðan ekki nægilega góð og reksturinn væri þungur, en þó viðráðanlegur. Því fylgdi að gera þurfti skipulagsbreytingar og störfum mun eitthvað fækka. Það mun þó skýrast á næstu tveimur vikum.

Í þriðja lagi eru að verða breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins. Auk Garðars sem á 51% er Sveinn Ingi Guðbjörnsson eigandi að 49%. Garðar segir að þeir séu að fara hvor í sína áttina. Hann segist stefna að því að halda áfram með minni einingu.

Undanfarin tvö ár hefur verið mikið að gera hjá verktökum á Vestfjörðum en Garðar telur að minna sé framundan í vetur, en þó geti það breyst með skömmum fyrirvara og ræst úr. Vestfirskir verktakar eru að vinna að brúarsmíð fyrir Vegagerðina við Klettháls og því ljúki fyrir áramótin. Vegagerðin hefur ekki auglýst frekari verk.

Ný bók NÁTTÚRUVÁ eftir Ara Trausta

Margvísleg náttúruvá hefur sannarlega fylgt landsmönnum frá upphafi en undanfarið hefur atburðum heldur fjölgað, meðal annars samfara áhrifum loftslagsbreytinga og auknum ágangi á landið.

Eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll, flóð og gróðureldar hafa verið efst á baugi síðustu árin og höggin stundum fallið óþarflega nærri okkur.

Bókin er mikilvægt innlegg í þessa umræðu. Hún geymir ítarlegan fróðleik um flestar hættur sem stafa af náttúrunni, fjallað er um forvarnir, ásamt skipulagi og uppbyggingu náttúruvarna. Hún varðar alla sem landið byggja og um það fara.

Jarðvísindamaðurinn Ari Trausti Guðmundsson býr að fjölþættri gagnlegri þekkingu og reynslu þegar kemur að náttúruhamförum og viðbrögðum við þeim.

Gott að eldast í Vesturbyggð

Fimmtu­daginn 5. sept­ember kl. 14:00-17:00 verður haldinn kynn­ing­ar­fundur á verk­efninu Gott að eldast í fund­arsal félags­heim­ilis Patreks­fjarðar.

Á fundinum verður samningur Vesturbyggðar og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um samþætta heimaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum kynntur, tómstundafulltrúi Vesturbyggðar segir frá styrkúthlutun frá EBÍ sem sveitarfélagið hlaut fyrir heilsueflingu eldri borgara á svæðinu og að lokum munu Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur og Svavar Knútur tónlistarmaður flytja erindið Vitundarvakning um heilbrigða öldrun: áhrif félagslegrar einangrunar á lífsgæði.

Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum sem ganga út á að finna góðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Allar aðgerðir miða að því að tryggja virkara og heilsuhraustara eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flest þeirra séu þátttakendur í samfélaginu – sem allra lengst.

Í lok fundar er boðið upp á kaffi og kynningu á pokavarpi og Boccia.

Mikil rigning í Árneshreppi í ágúst

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík sem Jón G. Guðjónsson hefur tekið saman kemur fram að rigningin í ágúst var næstum sex sinnum meiri nú í ágúst en í sama mánuði í fyrra og að þurrir dagar voru aðeins þrír.

Annars er yfirlitið svona:

Mæligögn:

Úrkoman mældist 233,8 mm. (í ágúst 2023: 42,6 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.

Þurrir dagar voru 3.

Mestur hiti mældist þann 31: +17,4 stig.

Minnstur hiti mældist þann 29: +1,2 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +7,5 stig. (í ágúst 2023: +9,1 stig.)

Meðalhiti við jörð var +5,57 stig. (í ágúst 2023: +4,63 stig.)

Yfirlit dagar eða vikur:

Mikil Úrkoma var 2 ágúst 44,4 mm. Skriðuföll og vegir fóru í sundur.

Mikil úrkoma var 23 og fram til 25 ágúst. Úrkoman mældist 99,9 mm. NNV 17 til 20 mm í jafnavind þ. 23. Skriðuföll og vegir í sundur.

Mikil úrkoma var í mánuðinum eða 233,8 mm. Er það rúmlega tveggja mánaða úrkoma í meðaltalsúrkomu.

Kalt var í veðri frá 15 og til 28 þá fór hlýnandi og var hlítt það sem eftir var mánaðar.

Samstarf um innviðauppbyggingu á Vestfjörðum

Frá undirskrift samstarfssamningsins. Frá vinstri: Guðlaugur Þór Þórðarson, Þorsteinn Másson, Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Gauti Geirsson.

Í dag var undirritaður samstarfssamningur milli Bláma og Innviðafélags Vestfjarða um uppbyggingu innviða. Það voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis–, orku- og loftslagsráðherra, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma sem undirrituðu samninginn í húsakynnum Vestfjarðastofu á Ísafirði.

Við það tækifæri sagði ráðherrann að innviðaátakið ynni einnig að hagkvæmari nýtingu orku og stuðlaði að orkuskiptum. Góðar samgöngur a Vestfjörðum myndu draga úr orkunotkun og væru þjóðhagslegar hagkvæmar. Það væri því greinileg samlegðaráhrif af samstarfi Bláma og Innviðafélagsins.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerrecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða sagði að síðustu 7 ár hefðu tekjur atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum þrefaldast og þar væri efnahagsávintýri í gangi. Þessi vöxtur hefði orðið þrátt fyrir slaka innviði, þá lökustu á landinu. Til þess að halda áfram þessum vexti þyrfti stórátak í uppbyggingu innviða á Vestfjörðum. Þjóðin þyrfti t.d. auknar tekjur frá atvinnulífinu til þess að starnda undir útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Betri innviði þyrfti því til þess að gera það mögulegt.

Að Innviðafélagi Vestfjarða standa fyrirtæki á Vestfjörðum sem eru með árlegar tekjur milljarð króna eða meira.

Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma sagði við Bæjarins besta að Blámi myndi leggja til þekkingu svo sem við útreikninga á áhrifum einstakra innviðaframkvæmda á orkuskipti og sparnað á orku. Hjá Bláma eru starfandi tveir verkfræðingar auk Þorsteins.

Kynningarfundurinn var vel sóttur. Hér sjást nokkrir fundarmenn.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Undirritun nýrra samninga um Aflamark Byggðastofnunar

Einar Valur Kristjánsson, Óðinn Gestsson, Arnar Már Elíasson, Þórður Emil Sigurvinsson

Í síðustu  viku voru nýir samningar um Aflamark Byggðastofnunar á Hólmavík, Drangsnesi og Suðureyri undirritaðir í vinnsluhúsnæði samningsaðila.

Samningarnir eru til næstu sex fiskveiðiára og fela í sér áframhaldandi samstarf stofnunarinnar við vinnslu- og útgerðaraðila í viðkomandi byggðarlögum.

Tilgangurinn er sem áður að styrkja byggðafestu í byggðarlögunum með stuðningi í formi árlegs aflamarks sem stofnunin afhendir samningsaðilum gegn skuldbindingum þeirra um veiðar og vinnslu, viðhald og/eða fjölgun starfa og annan stuðning við nærsamfélagið.

Frá undirritun á Drangsnesi: Halldór Logi Friðgeirsson, Arnar Már Elíasson og Óskar Torfason.
Frá undirritun á Hólmavík: Reinhard Reynisson, Sigurður Árnason, Björk Ingvarsdóttir og Arnar Már Elíasson. 

Samfylking heldur opna fundi á Vestfjörðum um húsnæði og kjaramál

Kristrún og Jóhann á hringferð um landið.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar og Jóhann Páll Jóhannsson alþingismaður boða til opinna funda á Vestfjörðum dagana 3. og 4. september. „Við hlökkum til að eiga samtöl við heimamenn um húsnæðismálin, kjörin og málefni fjölskyldna,“ segir Kristrún en fundirnir eru liður í umfangsmiklu málefnastarfi flokksins um allt land.

Málin verða diskúteruð yfir ljúffengri súpu í Reykhólabúðinni á Reykhólum þriðjudaginn 3. september kl. 12:00.  Á Ísafirði verður boðið upp á fjölskyldugrill í Edinborgarhúsinu kl. 17:00 sama dag þar sem Arna Lára bæjarstjóri slæst í hópinn – og hver veit nema leynigestur heilsi upp á börnin?  Loks verður haldinn morgunfundur á Kaffi Galdri á Hólmavík miðvikudaginn 4. september kl. 9:00.

Málefnastarfið opnað upp á gátt

„Það hefur verið kappsmál hjá okkur að opna málefnastarf Samfylkingarinnar upp á gátt þannig að fólk um allt land geti tekið þátt í að leggja grunn að áherslum og forgangsröðun flokksins í veigamestu málaflokkum. Það er öllum velkomið að taka þátt í samtalinu og koma á framfæri sínum sjónarmiðum,“ segir Kristrún. „Heilbrigðismálin voru í forgrunni í fyrra, svo atvinna og samgöngur síðasta vetur og nú erum við að taka hringferð um húsnæðis- og kjaramálin.“

Jóhann Páll er formaður stýrihópsins sem fer fyrir vinnunni. „Við erum meðal annars að kortleggja hvernig er hægt að byggja meira, hraðar og betur til að koma jafnvægi á íbúðamarkaðinn, hvernig er skynsamlegt að styðja betur við barnafólk og tryggja að eldra fólk njóti ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóði.“ 

Hér eru hlekkir á nýleg útspil Samfylkingar:

Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum – https://bit.ly/3y7dFPm

Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum – https://bit.ly/3UE77zJ

Nýjustu fréttir