Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 51

Samgöngustofa tengist stafrænu pósthólfi

Samgöngustofa hefur tengst stafrænu pósthólfi á Ísland.is. Með því gefst kostur á aukinni skilvirkni og betri þjónustu við viðskiptavini.

Í fyrsta áfanga verður pósthólfið nýtt til að minna fólk á skoðunartíma ökutækja sinna. Fyrsta virka dag fyrsta skoðunarmánaðar ökutækisins verður eiganda ökutækisins (aðaleiganda eða umráðamanni) sendur póstur gegnum Ísland.is um að nú sé komið að skoðun. Einnig fær fólk póst um tveimur vikum áður en vanrækslugjald fellur á. Ábyrgð á því að færa ökutæki til skoðunar liggur áfram hjá eiganda eða umráðamanni þess.

Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi á Ísland.is. Hægt er að stilla pósthólfið þannig að það sendi hnipp til eiganda þess þegar póstur hefur borist.

Vestfjarðastofa segir samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum óboðlegar

Stjórn Vestfjarðastofu lýsa miklum vonbrigðum með þá stöðu sem enn og aftur er komin upp í samgönguframkvæmdum í fjórðungnum. Í ályktuninni segir meðal annars að:

„Verið er að svíkja ítrekuð loforð ráðherra og þingmanna um að þær nýframkvæmdir sem eiga nú að vera á lokastigi framkvæmda í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði kláraðar eins fljótt og mögulegt er.“

Þá segir einnig að í mörg ár muni verða ekið með þúsundir tonna af sjávarfangi yfir ónýtan veg um Ódrjúgsháls.

„Stjórn Vestfjarðastofu beinir því til Alþingis, ríkisstjórnarinnar og Vegagerðarinnar að tryggja að unnið verði eftir gildandi samgönguáætlun og verkefni í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði boðin út strax í sumar.“

Vestfjarðastofa: verið að svíkja ítrekuð loforð

Vegurinn um Ódrjúgsháls á vondum degi. Mynd: RUV.

Stjórn Vestfjarðastofu hefur sent frá sér harðorða ályktun um frestun samgönguframkvæmda á Vestfjörðum. Í ályktuninni segir að stjórn Vestfjarðastofu lýsi miklum vonbrigðum með þá stöðu sem komin er upp í samgönguframkvæmdum í fjórðungnum.

„Verið er að svíkja ítrekuð loforð ráðherra og þingmanna um að þær nýframkvæmdir sem eiga nú að vera á lokastigi framkvæmda í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði kláraðar eins fljótt og mögulegt er.“

Tilefni ályktunarinnar er að ný liggur fyrir að vegna fjárskorts verða ekki boðnir út lokaáfangar framkvæmda á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit. Virðist það vera vegna þess að fjármagn hafi verið fært í framkvæmdir við brúargerð yfir Hornafjarðarfljót. Vegagerðin hafði áður gefið út að á þessu ári boðið yrði út brúargerðin í Gufudalssveit en óvíst væri með Dynjandisheiðina.

Stjórn Vestfjarðastofu minnir er á að í samþykkt Alþingis um breytingar á samgönguáætlun 2021, átti framkvæmdum að ljúka í Gufudalssveit á árinu 2024 og á Dynjandisheiði 2025.

„Endurskoða varð þessi áform með vísan til hækkunar kostnaðar og aukinna öryggiskrafna og í framhaldinu voru sett fram loforð um að um samhangandi framkvæmdir yrði að ræða og við það hefur verið staðið þar til á þessu ári. Ljóst er því að óbreyttu, munu gríðarlegar framkvæmdir síðustu ára ekki koma til með að nýtast þar sem enn eru erfiðir kaflar sem tefja og hamla för.“

Stjórn Vestfjarðastofu beinir því til Alþingis, ríkisstjórnarinnar og Vegagerðarinnar að tryggja að unnið verði eftir gildandi samgönguáætlun og verkefni í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði boðin út strax í sumar.

Þingeyri: frítt rafmagn á bíla við íþróttamiðstöðuna

Hin umdeilda hleðslustöð á Þingeyri.

Við íþróttamiðstöðina á Þingeyri er stöð til þess að hlaða rafmagnsbíla, þar sem samkvæmt heimildum Bæjarins besta aðgangur er frjáls og engin greiðsla innheimt fyrir rafmagnið. Kostnaðurinn lendir á Ísafjarðarbæ. Aðgangur að hleðslustöðinni er ekki bundinn því að viðkomandi sé gestur í íþróttamiðstöðinni eða sundlauginni.

Orkubú Vestfjarða er með tvöfalda hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla á sama bílastæði.

Leitað hefur verið eftir skýringum hjá Ísafjarðarbæ og Bæjarins besta bíður eftir svörum frá Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra um það hvort þetta geti verið rétt að svona sé í pottinn búið.

Golf: Íslandssögumótið á laugardaginn

Af golfvellinum í Tungudal. Mynd: Benedikt Hermannsson.

Á laugardaginn kemur fer fram mót í sjávarútvegsmótaröðinni, Íslandssögumótið.

 Íslandssaga á Suðureyri heldur upp á 25 ára afmæli um þessar mundir og í tilefni af því mun Íslandssaga færa Krabbameinsfélaginu Sigurvon styrk eftir árangri kylfinga í mótinu.  Hefur Íslandssaga heitið á kylfinga og mun greiða

10.000 kr. fyrir hvern fugl.

50.000 kr. fyrir hvern örn.

100.000 kr. fyrir holu í höggi.

Kylfingar eru hvattir til þess að skrá sig tímanlega, skráning á golfbox.

Um liðna helgi fóru fram tvö mót í sjávarútvegsmótaröðinni, Oddamótið á Patró og Arnarlaxmótið á Bíldudal.

Í Oddamótinu á Patreksfirði voru 40 keppendur, sem verður að teljast mjög góð þátttaka. Sigurvegari varð Viktor Páll Magnússon frá Golfkúbbi Ísafjarðar.

Á Arnarlaxmótinu á Bíldudal luku 64 kylfingar leik, þar af 16 konur, 3 ungl og 45 karlarÁsgrir Óli  Kristjánsson vann höggleik karla með 72 höggum og Magnús Óskar Hálfdánarson GBB vann punktsmótið 43 p, Pétur Arnar Kristjánsson vann unglingaflokinm með 38 p. Í kvennaflokki varð hlutskörpust Hrafnhildur Sigurðardóttir frá Golfkúbbnum Leyni.

Úrslit í mótunum má finna hér:

Oddamótið

Arnarlaxmótið

Uppfært kl 17:18. leiðréttar upplýsingar um Arnarlax mótið.

Dynjandisheiði: klæðning á nýjum vegarköflum – vegfarendur sýni tillitssemi

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Suðurverk ehf er að hefja þessa dagana klæðningu á töluverðum kafla Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði. Til stendur að leggja í þessum áfanga, seinna lag klæðningar frá Norðdalsá og niður í Vatnahvilft annars vegar og bæði lög þaðan og langleiðina að sýslumörkum hins vegar. Samtals eru þetta rúmir 6km af undirlagi og rúmir 9,5km af yfirlögn.

Fyrirtækið biðlar til vegfarenda að sýna aðgæslu og hægja á umferð á meðan á framkvæmdum stendur:

„Á þessum kafla erum við með umferðina á okkur meðan fínjöfnun og klæðing á sér stað og þá er gríðarlega mikilvægt að halda umferðarhraða niðri á meðan öllu þessu stendur.

Hraðakstur stefnir fyrst og fremst fólkinu okkar og öðrum vegfarendum í hættu.

Hraðakstur skapar líka aðskilnað í jöfnunarlaginu undir klæðingunni og losar steinana í nýlagðri klæðingu sem kemur mjög niður á gæðum vegarins. Í allri umræðu um bundin slitlög og skiptar skoðanir á þeim efnum sem eru og hafa verið notuð við gerð þeirra, þá vill þessi mikilvægi þáttur gleymast við nýbyggingu og viðhald vega.

Við viljum því biðla til þeirra sem þurfa að fara þessa leið á næstunni að sýna þolinmæði, fara afar gætilega og virða hraðatakmarkanir bæði á meðan þessu stendur og fyrstu dagana / vikurnar í kjölfarið. Okkar vegna, mannvirkisins vegna og ykkar vegna sem komið vonandi til með að nýta þennan veg í framhaldinu.“

Rafverk AG : tvöfalda húsnæðið

Rafverk AG ehf í Bolungavík.

Fyrirtækið Rafverk AG ehf í Bolungavík hefur í mörg ár verið til húsa í gömlu og litlu húsnæði. Með vaxandi umsvifum síðustu ár var ráðist í að byggja nýtt húsnæði á hafnarsvæðinu fyrir starfsemina sem nýlega var tekið í notkun. Þórhildur Björnsdóttir skrifstofumanneskja Rafverks AG segir að nýja húsnæðið sé um 360 fermetrar að stærð. Það séu mikil viðbrigði að þar sem gamla húsið er um 150 fermetrar. Það sé allt annað að reka fyrirtækið í nýju aðtöðunni. Ekki aðeins sé skrifstofuaðstaðan rúmgóð og björt heldur sé mun meira pláss fyrir lager, vinnuaðstöðu starfsmanna og verslun.

Þórhildur segir að 11 manns séu starfandi hjá Rafverk AG. Eigendur er hjónin Albert Guðmundsson, rafvirki og Þórhildur Björnsdóttir ásamt syn þeirra Guðmundi.

Albert Guðmundsson, rafvirki.

Þórhildur Björnsdóttir í rúmgóðu starfsmannaaðstöðunni.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vestfjarðastofa annast sumarviðburðasjóð Ísafjarðarhafna

Norwegian Prima var í Ísafjarðarhöfn um daginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjarðarbær hefur samið við Vestfjarðastofu um umsjón með Sumarviðburðasjóði Ísafjarðarhafna í ár. Umsjón sjóðsins fellst m.a. í auglýsingu umsókna um styrki í sjóðinn að vori, móttöku og skráningu umsókna, vinnslu mála fyrir úthlutunarnefnd sjóðsins, meðferð samninga og samskipti við umsækjendur og/eða málsaðila, útgreiðslu styrkja, móttöku greinargerða og gagna styrkþega í lok tímabils, og innheimtu styrkja sem krefjast endurgreiðslu, auk könnunar að hausti meðal styrkþega og íbúa um verkefnið.

Ísafjarðarbær greiðir Vestfjarðastofu í þjónustugjöld kr. 500.000 fyrir umsjónina.

Sjóðurinn var stofnsettur fyrr á árinu og hefur 5 m.kr. til ráðstöfunar.

Markmiðið með sjóðnum er að styrkja og bæta bæjarbraginn í tengslum við skemmtiferðaskipakomur, þar sem áhersla er lögð á að efla menningu og mannlíf. Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða.

Helstu skilyrði fyrir styrkveitingu;

  • Viðburðir skulu haldnir á tímabilinu maí til september
  • Viðburðir skulu vera þátttakendum/áhorfendum að kostnaðarlausu
  • Viðburðir sem haldnir eru á milli klukkan 10:00 og 15:00 njóta forgangs
  • Hægt er að sækja um styrk að hámarki 1.000.000 kr.

Hrossum fækkar en tölur um fjölda þeirra eru óáreiðanlegar

Samkvæmt tölum Hagstofunnar um búfé á landinu er fjöldi nautgripa og svína óbreyttur á milli árana 2022 og 2023.

Á sama tíma hefur sauðfé fækkað um 3% og fullorðnum ám um 4%.

Hagstofan telur að hrossum hafi fækkar um 4% en segir jafnframt að tölur um fjölda þeirra séu óáreiðanlegar.

Varphænsnum fjölgar um 2% á milli ára sé miðað við tölur frá útungunarstöðvum.

Geld­ings­skor­ar­dalur og strand togarans Dhoon

Látrabjarg.

Sunnudaginn 7. júlí mun landvörður á Látrabjargi leiða göngu frá bílastæðinu við Geldingsskorardal að bjargbrún og fræða áhugasama um strand togarans Dhoon í desember 1947 og hið stórkostlega björgunarafrek sem fylgdi.

Þeir sem vilja geta gengið lengra og endað göngu sína á Bjargtöngum. Ef þátttakendur vilja skilja bíl eftir á Bjargtöngum og fá far með landverði að Geldingsskorardal fyrir gönguna má hafa samband í síma 822-4091 (Birgitta) með góðum fyrirvara.

Til að komast að bílastæðinu við Geldingsskorar dal er beygt í átt að Keflavík af Látraheiði. Keyrt er sem leið liggur í átt að Keflavík ca. 4 km þar til komið er að vegvísi sem leiðir að Geldingsskorardal. Sá vegur er keyrður á enda og þar mun landvörður bíða gesta klukkan 13:00 á tilsettum degi.

Nýjustu fréttir