Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja jarðvegsskipti á Suðurtanga 24, en það er lóð sem Kerecis áformar að byggja á.
Það er umhverfis- og og eignasvið sem óskar eftir heimild bæjarráðs til að fara í jarðvegsskipti á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun.
Í minnisblaði verkefnisstjóra á sviðinu kemur fram að til þess að meta magn á rusli á lóðinni verður farið í prufugröft á tveimur 10 x 10 m (100 fermetra) rannsóknarsvæðum til að kanna magn rusls á þeim svæðum. Niðurstöður á hlutfalli rusl í lóð úr þessum tveimur 100 fermetra svæðum verður svo notað til að finna út umfang ruslsins á allri lóðinni. Grafið verður niður fyrir ruslalagið, niður í sandlag, um 3,0-4,0 m niður fyrir núverandi yfirborð. Núverandi landhæð er í kóta um 2,0. Áætlað er að vinna við gröft á báðum rannsóknarsvæðunum taki um 6 daga, á sama tíma verður ruslið grófflokkað í gáma. Þetta yrði unnið með tveimur gröfum, önnur grefur upp jarðveg og rusl og hin grófflokkar ruslið í gáma (með krabba). Síðan þarf væntanlega meiri flokkun og meta hversu stórt hlutfall rusls er á fermetra. Það ætti að gefa vísbendingar um heildarmagns rusls í jarðvegi á allri lóðinni. Eftir flokkun er ruslið flutt í Fíflholt.
Áætlaður kostnaður við þessa vinnu og leigu á gámum er um 7 -9 mkr.
Þær upplýsingar sem fást úr þessari vinnu ættu að gefa nokkuð góðar vísbendingar um hlutfall rusls á lóðinni og þar með líklegan kostnað ef fjarlægja þarf ruslið til að gera lóðina byggingarhæfa.
Áhöfnin á varðskipinu Þór, sérsveit ríkislögreglustjóra, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar og liðsmenn bandaríska sjóhersins hafa í síðustu viku æft aðgerðir á sjó, þar á meðal uppgöngu í skip og eftirför, sem er liður í varnaræfingunni Norður-Víkingi.
Sveitirnar æfðu meðal annars með áhöfn flutningaskips á Faxaflóa þar sem farið var um borð í skipið. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kom einnig að æfingunni sem heppnaðist vel. Mikil áhersla er lögð á samhæfingu sveita og búnaðar í æfingu sem þessari þannig að bandalagsþjóðir geti unnið skipulega að samræmdum markmiðum.
Norður Víkingur er haldin á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fer að jafnaði fram á tveggja ára fresti.
Meginþungi æfingarinnar fer fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en æfingin fer einnig fram á sjó.
Alls taka um 1.200 manns þátt í æfingunni, þar af um 200 Íslendingar frá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Landhelgisgæslunni, Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum og öðrum stofnunum.
Krassandi og kynngimögnuð þjóðtrúarkvöldvaka verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi laugardaginn 7. september og hefst kl. 21.
Þjóðfræðingar miðla fróðleik og krassandi hryllingssögum og Agnes Jónsdóttir frá Hólmavík sér um viðeigandi tónlistaratriði.
Eftirtalin erindi, bæði stutt og „skemmtileg“, verða flutt á kvöldvökunni:
# Rósa Þorsteinsdóttir: Fullur skór af blóði. Ofbeldi í ævintýrum. # Dagrún Ósk Jónsdóttir: Járnteinar og töfraspeglar: Útilegumenn og heimilisofbeldi í íslenskum sögnum. # Jón Jónsson: Þumalskrúfur og gapastokkar: Viðurkenndar pyntingar fyrr á tímum.
Einnig verður boðið upp á yfirnáttúrulegt kaffihlaðborð sem Ester Sigfúsdóttir töfrar fram.
Um síðustu helgi voru æfð viðbrögð ef til hópslyss kæmi í Árneshreppi.
Æfingin fór fram á flugvellinum á Gjögri og var líkt eftir flugslysi.
Margir komu að æfingunni og undirbúningi hennar svo sem ISAVIA, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á Vestfjörðum, sjúkraflutningar og slökkvilið í Strandasýslu, björgunarsveitafólk í Árneshreppi og nálægum sveitum og starfsfólk Landspítalans.
Eins og við er að búast mæddi mest á heimafólki í Árneshreppi.
Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum var virkjuð, en hún hefur aðsetur í húsnæði Björgunarfélags Ísafjarðar, í Guðmundarbúð. Sömuleiðis var Samhæfingamiðstöð almannavarna virkjuð í Skógarhlíð.
Æfingin gekk vel og stóð heimafólk í Árneshreppi sig með miklum ágætum að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum.
Fram kemur í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri, RHA, frá 2022 um jarðgöng sem unnin var fyrir Vegagerðina og uppfærð í maí 2023 að Klettháls er versti farartálminn af þeim 22 skoðaður var hvað varðar ófærð. Meðaltal áranna 2010 – 2020 fyrir lokunartilvik er það hæsta eða 32 og eru þau fleiri en á Fjarðarheiði , þar sem þau eru 28. Lokað er í 18 sólarhringa á ári að meðaltali, reiknað út frá lokunarklukkutímum, meðalfjöldi daga þegar lokað er 10 tíma eða lengur í senn. Það er langmesta lokunina, næst er Fjarðarheiði með tæplega 10 sólarhringa og Siglufjarðarvegur er með svipað.
Fjarðarheiði og Siglufjarðarskarðsgöng eru tvö efstu verkefnin á tillögu Vegagerðarinnar og ríkisstjórnarinnar að næstu jarðgöngum en Klettháls er aðeins í 9. sæti. Þá er lagt til að hefja framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng og gera rannsóknir og undirbúa Siglufjarðaskarðsgöngin en engin slík ákvörðun varðandi Klettháls og ekkert fé er sett í þau göng. Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir lýsti því yfir í vikunni að hún vilji flýta Siglufjarðarskarðsgöngum.
Spurningin er hvers vegna fær Klettháls þessa hraksmánarlegu afgreiðslu hjá Vegagerðinni og ríkisstjórninni þrátt fyrir að vera versti farartálminn?
Línurit úr skýrslu RHA um jarðgöng.
Miklar samgöngutruflanir vegna lokana á Kletthálsi
RHA segir í skýrslu sinni að ástandið hafi verið verst á Kletthálsi hvað varðar ófærð af þeim fjallvegum sem skoðaðir voru og eru með reglubundna þjónustu. „Miklar samgöngutruflanir verða því á Vestfjarðavegi vegna lokana á Klettshálsi.“ segir í skýrslunni.
Bent er á að samkvæmt snjómokstursreglum er vegurinn um Klettsháls þjónustaður kl. 10:00-17:30 virka daga og kl. 11:30-17:30 um helgar. „Ófærð utan þess tíma er því ekki skráð með sama hætti í upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og kann því raunveruleg lokun/ófærð að vera meiri en opinber skráning gefur til kynna.“
Umferð talin munu aukast mikið með bættum vegum á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit og „Klettsháls er því líklegur til að verða hlutfallslega meiri þröskuldur í framtíðinni en hann er í dag og valda meiri umferðartruflununum.“ Umferð eftir jarðgöng er talin verða fyrta árið 580 bílar á sólarhring að meðaltali yfir árið sem er talsvert meira en umferð um væntanleg Sigufjarðarskarðsgöng – 413 bílar.
Klettsháls er fjarri þjónustumiðstöðvum Vegagerðarinnar sem gerir örðugra um vik að sinna þjónustunni. Auknir flutningar m.a. vegna fiskeldis gera það að verkum að útrýma þurfi hindrunum og að göng munu hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf í landshlutanum.
Veggjöld standa undir 62% af stofnkostnaði og vöxtum
Göng undir Klettsháls henta vel fyrir töku veggjalds segir RHA. Út frá vegstyttingu og tímasparnaði er í arðsemisútreikningum miðað við veggjaldið 357 kr. fyrir fólksbíla og þrefalt hærra gjald á þunga bíla. Ef jarðgöngin væru fjármögnuð með láni og ef raunvextir á láni væru 1,25% getur það staðið undir 62% af stofnkostnaði og vaxtakostnaði á framkvæmdatíma.
Vegagerðin: jarðgöng ekki mjög brýn
Í jarðgangatillögu Vegagerðarinnar sem unnin var eftir að RHA hafði skilað af sér sinni skýrslu segir að Klettháls sé mikill farartálmi þegar horft sé til færðar og veðurs. En þar sem ferjan Baldur sé til staðar telji Vegagerðin að jarðgöng séu ekki mjög brýn í samanburði við aðra jarðgangakosti.
Þarna er óvænt niðurstaða af hálfu Vegagerðarinnar. Til þessa hefur það verið eindregin afstaða Vegagerðarinnar að telja vegi betri samgöngur en ferjur og hefur stofnunin lagst gegn áframhaldandi rekstri á ferjum svo sem í Ísafjarðardjúpi og bent á kostnað við rekstur á ferjum og talið betra að verja fénu til vegagerðar. Það fer ekki á milli mála að RHA telur jarðgöng undir Klettháls vera brýnt verkefni.
Enginn rökstuðningur er fyrir þessari breyttu afstöðu Vegagerðarinnar og engar upplýsingar um kostnað við kaup og aðstöðusköpun fyrir ferju og rekstur á henni yfir t.d. 20 ára tímabili og það borið saman við jarðgangagerðina.
Bæjarins besta hefur óskað eftir því við Vegagerðina á fá samanburð á stofnkostnaði og rekstri ferjunnar við jarðgöng og nánari rökum fyrir niðurstöðu stofnunarinnar varðandi jarðgöng undir Klettháls.
Vestfirðingar geta ekki unað þessu skeytingarleysi á staðreyndum um brýna þörf fyrirjarðgöng undir Klettháls.
Laugardaginn 7. september kl. 16 opnar Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen sína fyrstu einkasýningu í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið ANOTHER ÞRYKK UP MY SLEEVE og stendur til sunnudagsins 6. október. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall.
,,Ég hef lengi safnað myndum af formum sem á vegi mínum verða, formum sem ég svo raða saman og vinn með á ýmsan hátt. Það er hins vegar ekki langt síðan að ég uppgötvaði að til er kenning sem nær yfir þessa hluti sem kallast GRAFÍSKIR VIÐBURÐIR (Graphic Events: A Realist Account of Graphic Design). Þetta er hugtak yfir hönnun sem gerist fyrir slysni, þróast með tímanum eða skondnar samsetningar hluta sem eiga ekki beinlínis samleið.
Límmiði á ljósastaur sem tilraun hefur verið gerð að kroppa í burtu, rifið plakat, veðruð auglýsing, móðublettur á glugga, rispa á gámi eða krot á vegg. Þessir svokölluðu viðburðir skilja eftir sig slóð af fallegum, óvæntum formum sem eiga það til að hverfa inn í hversdagsleikann – eitthvað sem við sjáum, en veltum kannski ekki fyrir okkur.
Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að safna myndum af þessum viðburðum og úr varð myndabók. Formin í safninu enda svo oft í prentverkum á einn eða annan hátt. Nú eru þau orðin að seríu á sýningunni “Another Þrykk Up My Sleeve”. Formunum er raðað saman á margvíslegan máta – þau ýmist dansa saman eða flækjast fyrir hvert öðru.‘‘
Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen er Ísfirðingur búsettur í Haag í Hollandi þar sem hann vinnur við grafíska hönnun, myndskreytingar og prentverk. Verk hans eru margs konar, bókahönnun, prentverk (aðallega RISO og skjáþrykk), leturhönnun, myndskreytingar, og stöku auðkenni og lógó. Á námsárunum við Konunglegu listaakademíuna í Haag – KABK – var áberandi leit hans að jafnvægi milli húmors og alvöru, sem greinilega kemur fram í list hans, hönnun og daglegu lífi.
Fjölmenni var á opnum fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðsráðherra í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gærkvöldi. Ráðherrann fór yfir þær 15 tillögur sem eru í skýrslu starfshóps ráðuneytisins um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum frá júní 2023. Rakti hann stöðu þeirra og gerði grein fyrir því sem hefði verið gert.
Fram kom að enn er til skoðunar erindi Orkubús Vestfjarða um heimild til þess að láta vinna umhverfismat fyrir Vatnsdalsvirkjun, en svæðið er væntanlegt virkjunarsvæði er innan friðlands. Þar er beðið eftir áliti Háskólans á Akureyri á almannahagsmunum þess að verða við erindinum og sagði ráðherrann að von væri á því í haust og í framhaldinu yrði erindi Orkubúsins tekið til afgreiðslu. Starfshópurinn telur mikilvægt að skoða þennan virkjunarkost nánar og elggur áherslu á að stjórnvöld svari erindi OV sem fyrst. Í starfshópnum áttu sæti Einar K. Guðfinnsson, formaður og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Jón Árnason, þáverandi forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
Varðandi Hvalárvirkjun þá er beðið niðurstöðu Óbyggðanefndar til landakröfu ríkisins sem krefst þess að stórt landssvæði sunnan og austan Drangajökuls verði lýst þjóðlenda og sagði ráðherrann að stöðufundur yrði í mánuðinum.
Unnið er að ákvörðun um tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og sagði ráðherra að niðurstöðu Landsnets væri að vænta innan skamms. Er miðað við að hann verði efst í Lágadal og þaðan liggi línan frá Hvalárvirkjun yfir í Kollafjörð austan Klettháls.
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og varamaður í stjórn Landsnets upplýsti að ákveðið hefði verið að tengja Hvalárvirkjun við landskerfið á þennan hátt og ekki með tengingu frá tengipunktinum um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar.
Urðu miklar umræður á fundinum um virkjanir og tengingar þeirra.
Blámi fær aukin verkefni
Samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu sem nefnist Blámi verður endurnýjað til þriggja ára og hefur verið ákveðið að ráða í nýtt stöðugildi á Patreksfirði. Bláma hefur m.a. verið falið að ræða við landeigendur til þess að flýta fyrir byggingu smávirkjana á Vestfjörðum.
Fundasókn var góð og greinilega mikill áhugi á orkumálum fjórðungsins.
Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina (nema í sund).
Fararstjórn: Hermann Gunnarsson og Þorgerður Kristjánsdóttir. Mæting kl. 8.30 við Bónus á Ísafirði. Gangan hefst í Miðhúsum kl. 10.00-10.30 og bílarnir skildir eftir þar. Gengið út Vatnsfjarðarháls að Grettisvörðu, niður í Vatnsfjörð þar sem staðurinn verður skoðaður. Haldið áfram að Sveinhúsum sem einnig verða skoðuð og að lokum yfir Reykjafjarðarháls í bíla á Laufskálaeyri. Mögulega farið í sund í Reykjanesi á eftir. Vegalengd: um 8-9 km, göngutími: 4-5 klst., hækkun: undir 200 m.
Nýlagt malbik á Suðurtanga er til skoðunar. Það var lagt í töluverðri úrkomu og Jóhann B. Helgason, eftirlitsmaður Ísafjarðarbæjar segir að alveg líklegt að það hafi skemmst.
Jóhann segir að undirlagið sé ekki nægilega gott. „Gatan var gerð fyrir nokkrum árum síðan og því var bara sett 15 cm burðarlag á götuna, það hefði þó mátt vera betra. Hins vegar virðist gatan fljóta ofan á sandinum, við tókum ekki eftir þessu fyrr en rétt fyrir malbik.“
Hann segir að rigningin hafði þar áhrif en svæðið er að þorna og þetta líti betur út núna.
Aðspurður hver muni bera kostnaðinn af skemmdum ef þær hafa orðið segir Jóhann að það eigi eftir að skoða það, það sé verið að skoða malbikið og sjá til hvort það verði í lagi.