Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 50

Meta á magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í leiðangri Árna Friðrikssonar

Hér má sjá þau Önnu Heiðu Ólafsdóttur, leiðangursstjóra makrílleiðangursins, Kristján H. Kristinsson skipstjóra á Árna Friðrikssyni og Sverri Daníel Halldórsson, umsjónarmann hvalatalningaverkefnis. Þau eru kampakát um borð í Árna í bolum sem voru hannaðir af Charlotte Matthews til að fagna 15 ára afmæli leiðangursins.

Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar Árni Friðriksson fór úr Hafnarfjarðarhöfn 1. júlí til þátttöku í árlegum alþjóðlegum uppsjávarleiðangri. Eitt af meginmarkmiðum hans er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi.

Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við vöktun og fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins eins og ástandi sjávar, mælingar á átumagni og rannsóknir á miðsjávarfiskum og -hryggleysingjum. Í ár verður einnig umfangsmikil hvalatalning í leiðangrinum.

Þetta er fimmtánda árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í þessum leiðangri ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Yfirferðasvæði Árna er fyrir norðan, austan, sunnan og vestan landið ásamt svæði í grænlenskri landhelgi fyrir norðan Ísland.

Líkt og áður er hægt að fylgjast með staðsetningu og feril Árna á slóðinni: https://skip.hafro.is/.

Leiðangurinn á Árna stendur í 34 dag og verða sigldar tæplega 5500 sjómílur eða um 9400 km og 55 yfirborðstogstöðvar verða teknar á fyrirfram ákveðnum stöðum.

Um borð eru 15 vísindamenn og 17 manna áhöfn.

Nemendur Háskólaseturs rannsaka sjávarspendýr á Húsavík

Meistaranemar Háskólaseturs Vestfjarða hafa í mörg ár tekið þátt í vettvangsnámskeiði á Húsavík sem er haldið yfir sumartímann á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík. Námskeiðið kallast “Aðferðir við rannsóknir á sjávarspendýrum” og er hluti af Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.

Í ár var í fyrsta sinn gert samkomulag milli Háskólaseturs Vestfjarða og Háskóla Íslands þar sem komið var á formlegu samstarfi um námskeiðið á Húsavík.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að tilteknum fjölda nemenda í meistaranámi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða sé tryggður aðgangur að námskeiðinu.

“Í sambandi við þetta staka vettvangsnámskeið hefur árum saman töluverður fjöldi þátttakenda komið frá Háskólasetri og er því eðlilegt að formgera samstarfið betur” – segir Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetur Vestfjarða.

Bolungavík: Markaðshelgin hefst á morgun

Markaðshelgin í Bolungavík hefst á morgun og stendur fram á sunnudag. Dagskráin er einkar vegleg enda á kaupstaðurinn hálfrar aldar afmæli á þessu ári.

Eins og undanfarin ár mun efri bærinn skreyta allt, hátt og lágt í rauðum lit og neðri bærinn skreytir í bláum. Litirnir tákna hafið og eldmóð bæjarbúa. Fyrirtæki bæjarins taka sér græna litinn til skreytinga.

Á morgun verða valið best skreyttu húsin. Þá verður konukvöld í Bjarnabúð og dansskemmtun í Félagsheimilinu.

Á föstudaginn verður m.a. matarveisla í Einarshúsi og brekkusöngur í Stebbalaut.

Markaðstorg verður á laugardaginn við Félagsheimilið og útitónleikar um kvöldið.

Á sunnudaginn verður Ólafur Kristjánsson, fyrrverandi bæjarstjóri með tónleika í Félagsheimilinu.

Fimmtudagur 4. júlí

17:00 Skrautfjaðrir Bolungarvíkur – verðlaunakeppni hefst!
19:30-21:30 Konukvöld í Bjarnabúð – tilboð og léttar veitingar
20:00 Sigga Ózk og dansarar í Félagsheimili Bolungarvíkur

Föstudagur 5. júlí

11:00-14:00 Söngnámskeið Siggu Ózkar í Tónlistarskóla Bolungarvíkur í tilefni 60 ára afmæli Tónlistarskólans.
16:30-18:30 Sundlaugarpartý í Musteri vatns og vellíðunar með Húgó og DJ Eysa – frítt í sund allan daginn!
17:00 Markaðsmótið á Syðridalsvelli
17:30-20:00 Matarveislan „Frá fjöru til fjalls“ í Einarshúsinu – bókið borð í síma 456-7901
19:30-20:00 Skrúðganga litanna – Skrautfjaðrir Bolungarvíkur
20:00-21:00 Brekkusöngur í Stebbalaut með Bigga Olgeirs. Boðið verður upp á grillaðar pylsur fyrir gesti.
21:00 Kráargáta (pubquiz) á Verbúðinni

Laugardagur 6. júlí

13:00-17:00 Markaðstorg Bolungarvíkur ! Fjölbreytt, alþjóðlegt og skemmtilegt við Félagsheimili Bolungarvíkur

  • Andri Ívars verður kynnir
  • Tónleikar söngnemenda eftir námskeiðið með Siggu Ózk
  • Hoppukastalar
  • Andlitsmálning
  • Stigið á bak með hestamannafélaginu Gný
  • Fornbílasýning

17:30-20:00 Matarveislan „Frá fjöru til fjalls“ í Einarshúsinu – bókið borð í síma 456-7901
19:00-21:00 Gleðistund (happy hour) á Verbúðinni
20:00-23:00 Útitónleikar á Aðalstræti

  • Hipsumhaps
  • Húgó og Nussun
  • Floni
  • Bríet

23:30-02:00 Ball með hljómsveitinni Húsið á sléttunni í Félagsheimili Bolungarvíkur

Sunnudagur 7. júlí

15:00-17:00 Tónleikar Ólafs Kristjánssonar  í Félagsheimili Bolungarvíkur

ATH að frítt er inn á alla viðburði helgarinnar

Noregur: 4 m.kr. fyrir tonnið í uppboði á eldisheimildum

Mynd: Intra Fish.

Norsk stjórnvöld buðu upp í síðasta mánuði heimildir til þess að ala liðlega 17 þúsund tonn af eldisfiski, laxi, silungi og regnbogasilungi. Sextán norsk fyrirtæki keyptu heimildir og greiddu fyrir nærri 69 milljarða íslenskra króna sem gerir nærri 4 m.kr. íslenskra króna fyrir hvert tonn af framleiðsluheimildum.

Þetta kemur fram i frétt á norska vefnum Intra Fish.

Um er að ræða eignarréttindi eða varanlega sölu.

Um 55% teknanna renna til sveitarfélaga og fylkjanna í gegnum sjóðinn Havbruksfond.

Í Noregi gilda þær reglur að unnt er að auka framleiðsluna ef ástand er gott á framleiðslusvæði, svo sem lítil vandamál vegna lúsar. Er þá aukningin boðin upp. Frá 2018 hefur fjórum sinnum verið efnt til uppboðs, eða annað hvert ár. Samtals hafa framleiðsluleyfi fyrir 93 þúsund tonn verið seld í uppboðunum sem er um 6% af framleiðslu Norðmanna á eldislaxi. Eldisfyrirtækin hafa samtals greitt um 20 milljarða norskra króna fyrir leyfin, sem jafngildir um 360 milljarða íslenskra króna eða að meðaltali tæplega 4 milljónir íslenskra króna fyrir hvert tonn.

Fjögur stór fyrirtæki hafa keypt um helming allra uppboðinna heimilda. Eru það SalMar, Mowi, Cermaq og Eidsfjord Sjøfarm, en það síðastnefnda er umsvifamikið í veiðum og vinnslu á hvítfisk. Kvóti á þorski hefur síðustu árin verið skorinn niður og horfur eru á að það haldi áfram. Fyrirtækið er því að færa sig yfir í eldið. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir verðið vera of hátt og það muni draga úr uppbyggingunni í laxeldinu.

Ljósleiðaravæðing landsins klárist innan þriggja ára

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í gær áform um að klára ljósleiðaravæðingu landsins. Opinbert markmið stjórnvalda um aðgengi að ljósleiðara hefur verið að allir þéttbýlisstaðir og byggðakjarnar á landinu nái a.m.k. 80% hlutfalli tengdra lögheimila fyrir árslok 2028. Nýju áformunum sem kynnt voru í gær er aftur á móti ætlað að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026, á grundvelli samvinnu íbúa, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja og ríkisins. Um er að ræða langþráða heildstæða uppfærslu fjarskipta gagnvart þúsundum heimila um land allt og einstakan árangur á heimsvísu segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

628 lögheimili á Vestfjörðum

Í könnun Fjarskiptastofu um áform fjarskiptafyrirtækja um uppbyggingu ljósleiðara í þéttbýli árin 2024 – 2026 kom fram að þau ná ekki til um 4.900 ótengdra heimilisfanga í þéttbýli með rúmlega 5.600 lögheimilum.

Því stendur til að gera sveitarfélögum tilboð um 80.000 kr. styrk til að kosta jarðvinnu við að tengja hvert slíkt heimilisfang fyrir árslok 2026. Sú upphæð jafngildir áætluðum meðaltals jarðvinnukostnaði fyrir hvert heimilisfang og er jafnframt sambærileg upphæð og fjarskiptafyrirtæki setja upp sem tengigjald fyrir lögheimili í þéttbýli á markaðsforsendum. Samþykki öll viðkomandi sveitarfélög slíkt tilboð og ná að tengja öll heimilisföngin þá gera það 392 m.kr.

Fjármögnun ríkisins er þegar tryggð með fjárveitingum fjarskiptasjóðs árin 2024 – 2025 og aðgerðar A.1. í byggðaáætlun árin 2024 -2026. Sveitarfélög hafa til 16. ágúst að tilkynna hvort þau þiggja tilboðið og verður gengið til samninga strax í kjölfarið.

Af 5.641 lögheimilum sem ákvörðun ráðuneytisins nær til eru 628 á Vestfjörðum:

Þrífösun : leggja jarðstreng til Breiðuvíkur

Orkubú Vestfjarða lagði í fyrra þriggja fasa jarðstreng frá Kvígindisdal í Patreksfirði með þjóðveginum og fyrir Örlygshöfnina að Gjögrum. Halldór Magnússon, framkvæmdastjóri Veitusviðs Orkubús Vestfjarða segir að í ár séu áform Orkubúsins að halda áfram samstarfi með Vesturbyggð og ná að leggja nýjan jarðstreng ásamt ljósleiðara upp úr Örlygshöfn og yfir í Breiðuvík.

Fram kemur í ársreikningi Orkubús Vestfjarða fyrir 2023 að á undanförnum árum hafi verið fjárfest umtalsvert til að styrkja dreifikerfið með jarðstrengjum í stað loftlína og er þá kerfið jafnframt þrífasað. Þessum breytingum fylgir svo fjárfesting í jarðspennistöðvum. Orkubúið er vel á veg komið í þrífösun dreifikerfisins á Vestfjörðum og er um 94% notkunar á Vestfjörðum á þremur fösum.

Ríkissjóður hefur veitt styrki til þrífösunar í dreifbýli.

Bolungavík: gatnaframkvæmdir að hefjast

Stofnbrautin Brekkulundur í Lundahverfinu nýja verður lögð í ár.

Framkvæmdir eru að hefjast í Bolungavík við gatnagerð í nýja Lundahverfinu. Bæjarráð ákvað í síðustu viku að áfangaskipta framkvæmdunum. Fyrsti áfangi, sem unnin verður á árinu 2024, gerir ráð fyrir gatnagerð á Brekkulundi frá Þjóðólfsvegi að Völusteinsstræti. Bæjarráð leggur til að samið verði við tilboðsgjafa í útboði um verkið í samræmi við útboðsskilmála þess. Tvö tilboð bárust og var heildartilboðsfjárhæðin mun hærri en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun. Annað þeirra var lægra en kostnaðaráætlun og hitt var nálægt henni. Var báðum tilboðum hafnað. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði að unnið væri að gerð samnings.

Þá liggur fyrir að farið verður í gatnagerð og malbikun í samvinnu við lóðahafa við Brimbrjótsgötu. Er það ný gata frá Brjótnum og farið fyrir neðan Íshúsið og upp að Hafnargötu fyirr utan það við Steinhúsið.

Hafist verður handa við viðamikla endurnýjun á lögnum og yfirborði ásamt malbikun á Völusteinsstræti. Verður byrjað frá gatnamótum Skólastígs og farið í sumar að gatnamótum við Traðarstíg.

Miðað er við að báðum framkvæmdum verði lokið um miðjan ágúst en þá verði komin malbikunarsstöð og lagt malbik á göturnar.

Ísafjarðarbær áfram með í FabLab í Menntaskólanum

Frá undirritun samningsins um Fablab 2018. Mynd: Aðsend.

Ísafjarðarbær verður áfram með í rekstri FabLab í Menntaskólanum á Ísafirði. Bæjarráð telur mikilvægt að gerður verði nýr samningur um reksturinn fyrir árslok og segir jafnframt mikilvægt að auka tengsl við grunnskóla Ísafjarðarbæjar og styrkja þjálfun og kennslu leiðbeinenda þar.

Samningur íslenska ríkisins, Menntaskólans á Ísafirði, Bolungarvíkurkaupstaðar, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps um rekstur Fab lab-smiðjunnar er útrunninn og beðið er eftir nýjum samningi um rekstur smiðjunnar með aðkomu ráðuneyta barna- og menntamála annars vegar og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar hins vegar. Vonast er til að fljótlega verði gerður nýr samningur um rekstur smiðjunnar.

Menntaskólinn hefur nú þegar sent erindi á háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar um að gengið verið frá slíku samningi.

Þrátt fyrir að samningurinn sé útrunninn hefur Menntaskólinn sent út reikninga til Ísafjarðarbæjar vegna reksturs Fab labs-smiðjunnar. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti að greiða reikninginn.

Framlengt FabLab um þrjú ár

Í gær tilkynntu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að ákveðið hafi verið að framlengja samninga ráðuneytanna við Fab Lab-smiðjurnar á Íslandi um þrjú ár. Samhliða verða framlögin hækkuð um samtals 91 m.kr. á samningstímabilinu, eða úr 324 m.kr. í 415 m.kr. á næstu þremur árum. Ákveðið hefur verið að endurnýja samningana og er unnið að því í samtali við þessa samstarfsaðila, en 11 smiðjur eru styrktar með þessum hætti hringinn í kringum landið. 

LÝÐHÁSKÓLASTYRKIR

UMFÍ og Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn eru með samstarfssamning um verkefni tengd námsdvöl íslenskra ungmenna í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið fjölbreytt.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn. Einnig tækifæri til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.

Umsóknarfrestir eru tvisvar sinnum á ári. Á haustin er opið fyrir umsóknir fyrir haustönn og heilt skólaár. Um áramót er opið fyrir umsóknir fyrir vorönn. 

Sögustund með sagnameistaranum Einari Kárasyni

Sögustund með vestfirska sagnameistaranum Einari Kárasyni verður næstkomandi sunnudag kl. 16:00 í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal.

Þetta er sögustund um mann sem var öllum öðrum klárari þegar kom að útreikningum og rökhugsun þeim tengdum, enda varð hann heimsmeistari í erfiðustu hugaríþrótt sem mannkynið hefur fundið upp.

En þrátt fyrir sína snilligáfu þá kunni hann ekki fótum sínum forráð í daglegu lífi og mannlegum samskiptum.

Útkoman varð sú að þessi maður sem varð heimsmeistari í skák með meiri yfirburðum en sést hafa, fyrr eða síðar, varð útskúfaður fangi eigin fordóma og ranghugmynda, og hefði endað æfi sína í illræmdum fangelsum ef gamlir vinir á Íslandi hefði ekki frelsað hann hingað heim. En þar sem misskilningurinn átti líka eftir að taka á sig grátbroslegar myndir

Nýjustu fréttir