Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 50

Árný Huld ætlar að reka verslun og veitingasölu á Reykhólum

Árný Huld Haraldsdóttir og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir undirrita samninginn

Á mánudag undirrituðu þær Árný Huld Haraldsdóttir og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, samning um leigu á verslunarhúsnæði Reykhólahrepps.

Árný, sem á nýliðnum Reykhóladögum var útnefnd íbúi ársins í Reykhólahreppi, mun hefja verslunar- og veitingarekstur á Reykhólum innan tíðar og er stefnt að því að opna í október.

Til að byrja með er ætlunin að vera með venjulegan heimilismat í hádeginu og helstu nauðsynjavörur í versluninni.

Hugmyndin er líka að halda viðburði af einhverju tagi fyrir alla aldurshópa.

Þegar nær dregur verður auglýstur opnunartími og fleira sem máli skiptir.

Kjörís innkallar Hnetu toppís vegna rangrar innihaldslýsingar

Kjörís hefur ákveðið að innkalla hnetu-Toppís í 5 stk. umbúðum sem fyrirtækið hefur nýlega sett á markað og hefur nú þegar verið dreift í stórmarkaði og matvöruverslanir um allt land.


Varan er með best fyrir dagsetningunni : BF 21.02.26;BF 22.02.26;BF 23.02.26;BF 27.02.26;BF 28.02.26;BF 29.02.26;BF 30.02.26 og strikamerkingunni 5690581572505.


Ástæða innköllunarinnar eru rangar innihaldsmerkingar en viðbótar innihaldsefni hafa slæðst með í innihaldslýsingum á ytri umbúðum. Þar kemur fram að varan innihaldi smjör, þrúgusykur og karamellu sem er rangt og þessum innihaldsefnum því ofaukið í innihaldslýsingu.
Verslanir hafa verið beðnar um að taka vöruna úr sölu og eru sölumenn Kjörís að sækja þessar pakkningar á sölustaði.

Jafn­framt tek­ur fyr­ir­tækið fram að breyt­ing­ar á umbúðum og inn­köll­un vör­unn­ar tengj­ast ekki at­huga­semd­um sem Em­mess­ís hef­ur gert við umbúðir vör­unn­ar og viðvör­un þess fé­lags um að það kunni að krefjast lög­banns við dreif­ingu.

Stórfellt laxeldi áformað í Fjallabyggð

Mynd af Trölli.is

Hug­mynd­ir eru uppi um eldi á ófrjó­um laxi í Fjalla­byggð og er áformað að fram­leiðslu­geta eld­is­ins verði 20 þúsund tonn ár­lega, áætluð velta 26 millj­arðar króna á ári.

Það er fyr­ir­tækið Kleif­ar fisk­eldi sem stend­ur að þessu verk­efni, en í fyr­ir­svari fyr­ir það fé­lag er Ró­bert Guðfinns­son, stofn­andi Genís og einn eig­enda Hóls­hyrnu. Einnig kem­ur Árni Helga­son verktaki í Ólafs­firði að verk­efn­inu, ásamt öðrum fjár­fest­um.

Í bréfi sem Vigdís Häsler verkefnisstjóri Kleifa fiskeldis ehf hefur skrifað sveitarfélögunum á svæðinu kemur fram eldi á laxi hafi aukist mikið á undanförnum áratugum og að útflutningsverðmæti árið 2022 hafi verðið um 49 milljarðar og að samkvæmt skýrslu Boston Consulting, sem unnin var að beiðni matvælaráðherra, verður umfang lagareldis á Íslandi um 245.000 tonn og verðmætasköpun áætluð um 242 milljarðar íslenskra króna árið 2032.

Þá segir einnig í bréfinu að forsvarsmenn Kleifa séu meðvitaðir um að forsenda þess að atvinnugreinin fái að blómstra og að nærumhverfið njóti góðs af, þá þurfi þau sveitarfélög þar sem fiskeldi fer fram og áform eru um að byggja upp atvinnugreinina, að fá sanngjarnt afgjald af auðlindinni sem sveitarfélögin og samfélög þeirra geti nýtt til innviðauppbyggingar. Núverandi kerfi með umsóknarferli í Fiskeldissjóð, sem er samkeppnissjóður, hefur ekki reynst vel og komið í veg fyrir að sveitarfélögin geti gert fjárhagsáætlanir um innviðauppbyggingu til lengri tíma þar sem ekki er hægt að treysta á stöðugt fjármagn úr sjóðnum.

Því er lagt til í samþykktum félagsins að sveitarfélögin Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppur, Hörgársveit, Grýtubakkahreppur, Eyjafjarðarsveit og Akureyrarkaupstaður eiga ávallt rétt á greiðslu sem nemur samtals 10,1% af þeim fjármunum, eignum eða verðmætum sem ráðstafað er til hluthafa við útgreiðslu arðs, í réttu hlutfalli við hlutafjáreign.

Innviðafélag Vestfjarða stofnað -14 atvinnufyrirtæki

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.

Fjórtán atvinnufyrirtæki á Vestfjarða hafa stofnað félag til þess að vinna að bættum innviðum í fjórðungnum. „Að baki félaginu standa kraftmikil fyrirtæki á Vestfjörðum sem öll vilja tryggja vöxt og velsæld samfélagsins“ segir í kynningu. „Sterkir innviðir eru forsenda áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu með tilheyrandi aukningu lífsgæða og framlagi til þjóðarbúsins.“

Innviðafélag Vestfjarða vill sterka framtíðarsýn og átak í uppbygginu innviða,, einkum samganga og orkuinnviða á Vestfjörðum til að styðja við áframhald efnahagsuppgangsins sem nú á sér stað á Vestfjörðum.

Félagið vill fara nýjar leiðir til fjármögnunar, aukinn kraftur og forgangsröðun og samstarf atvinnulífs, íbúa og hins opinbera til að greiða niður innviðaskuldina á svæðinu og tryggja vöxt og velsæld fyrir alla.

Talsmaður félagsins er Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis.

Félögin fjórtán eru:

  • Arctic Fish, Ísafirði
  • Arna, Bolungarvík
  • Arnarlax, Bíldudal
  • Fiskvinnslan Íslandssaga hf., Suðureyri
  • Háafell ehf., Ísafirði
  • Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., Hnífsdal
  • Íslenska kalkþörungafélagið, Bíldudal
  • Jakob Valgeir ehf., Bolungarvík
  • Kerecis, Ísafirði
  • Klofningur ehf., Suðureyri
  • Kubbur ehf., Ísafirði
  • Norðureyri ehf., Suðureyri,
  • Oddi hf., Paterksfirði
  • Sjótækni ehf., Tálknafirði

 

Malbik á Suðurtanga: ótímabært að kveða upp úr með ábyrgðina

Nýlagt malbik á Suðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir aðspurð um nýlagt malbik á Suðurtanga að hún eigi eftir að funda með verkeftirlitinu og fá betri upplýsingar um hvað hafi farið úrskeiðis, þannig það sé ekki tímabært að kveða á um ábyrgðina að svo stöddu.

„Ljóst er að þetta er ekki eins og þetta á að vera og þurfum við komast í botns í þessu.“ segir Arna Lára.

Í gær sagði Jóhann B. Helgason eftirlitsmaður Ísafjarðarbæjar að það væri verið að skoða malbikið og athuga hvort það yrði ekki í lagi. Hann sagði að undirlagið væri ekki nægilega gott. „Gatan var gerð fyrir nokkrum árum síðan og því var bara sett 15 cm burðarlag á götuna, það hefði þó mátt vera betra. Hins vegar virðist gatan fljóta ofan á sandinum, við tókum ekki eftir þessu fyrr en rétt fyrir malbik.“

Ísafjörður: glæpakviss á bókasafninu á morgun

Fimmtudaginn 5. september býðst áhugafólki um glæpasögur og spurningakeppnir að taka þátt í einstökum viðburði sem sameinar þetta tvennt, þegar Hið íslenska glæpafélag efnir til laufléttrar en þó skuggalega spennandi spurningakeppni um íslenskar glæpasögur í samstarfi við 21 almenningsbókasafn hringinn í kringum landið.

Keppnin, sem er með hefðbundnu kráarkeppnissniði, er ýmist haldin á bókasöfnunum sjálfum eða á kaffi- eða öldurhúsi í næsta nágrenni, og spurningarnar eru alstaðar þær sömu, þótt umhverfi, veitingar og verðlaun séu með ýmsum hætti.

Allir unnendur glæpasagna – og spurningakeppna eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í fordæmalausri og þaulskipulagðri glæpagleði!

Glæpakvissið er liður í  Glæpafári á Íslandi, afmælisdagskrá Hins íslenska glæpafélags, sem fagnar 25 ára tilvist sinni og velgengni íslenskra glæpasagna í ár með fjölmörgum og fjölbreytilegum viðburðum víða um land. Flestir – en þó ekki allir – viðburðir Glæpafársins eru haldnir í samvinnu við almenningsbókasöfn landsins. Allar upplýsingar um kvissið og aðra viðburði Glæpafársins má finna á Facebook-síðu Hins íslenska glæpafélags: https://www.facebook.com/hidislenskaglaepafelag (og hér er kvissið sjálft: https://www.facebook.com/events/1145274173237578?ref=newsfeed

Á Ísafirði verður spurningakeppnin í Safnahúsinu í bókasafninu og hefst kl 16:30.



Þingeyri: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti styrkir fráveituframkvæmdir um 30% af kostnaði

Fyrirhugguð staðsetning við Vitann.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt Ísafjarðarbæ formlega um veitingu á styrk til framkvæmda við fráveitur í sveitarfélaginu á þessu ári. Styrkfjárhæðin nemur 30% af staðfestum heildarkostnaði vegna framkvæmda á árinu 2024.

Fram kemur í gögnum bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að um er að ræða fráveituframkvæmd á Þingeyri og uppsetningu hreinsistöðvar. Styrkfjárhæðin er 30.598.714 kr.

Bæjarráðið fagnaði styrkveitingunni.

Greint var frá því fyrr í sumar að framkvæmdir væru hafnar við skolphreinistöðina á Þingeyraroddanum. Hún er í 20 feta gám á svæði við hliðina á vitanum, Víkinga svæðinu og um 55 metra frá tjaldsvæðinu. Það var umdeilt en Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri sagði þá að svigrúm væri til þess að færa stöðina innan lóðarinnar.

Ísafjörður: fjórða Piff hátíðin í október

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin PIFF á Ísafirði verður sú stærsta til þessa er hún verður haldin í fjórða sinn dagana 10.-13 október. Hátt í 40 myndir verða sýndar í ár. Þar af tólf stuttmyndir, fimm heimildarmyndir, sex teiknimyndir, fimm nemendamyndir og tíu kvikmyndir í fullri lengd.

Fjögurra daga hátíðin hefst á heimildamyndinni „Afsakið meðanað ég æli“ þar sem Ísfirðingurinn Spessi kafar ofan í líf tónlistarmannsins Megasar. Sýningar fara svo fram á Ísafirði og í Súðavík frá fimmtudegi til sunnudags – og ættu allir kvikmyndaunnendur að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allt frá íslensku morðgátunni Eftirleikir og sannsögulega pólska njósnadramanu Doppelganger til indversku barnamyndarinnar Return of the Jungle. Dagskránni lýkur svo með verðlaunahátíð sem streymt verður um allan heim.

Von er á mörgum erlendum gestum sem fylgja myndum sínum á hátíðina. Má þar nefna sem dæmi kanadíska leikstjórann og framleiðandann Avi Federgreen sem segist afar spenntur að koma í fyrsta skipti til Íslands til að frumsýna ástríðuverkefni sitt til átta ára.  „Mér finnst ég mjög lánsamur að eftir yfir 30 ára reynslu af framleiðslu yfir 70 kvikmynda í fullri lengd mun frumraun mín sem leikstjóri, myndin HOME FREE, verða frumsýnd á alþjóðlegu Pigeon kvikmyndahátíðinni.“ Myndin er angurvært en fallegt fjölskyldudrama sem lætur engan ósnortinn og verður sýnd laugardaginn 12. október kl. 18.

Einnig er von á gestum frá Spáni, Póllandi, Íran, Bandaríkjunum og fleiri löndum. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á vefsíðum PIFF. https://www.facebook.com/isafjordurpiff

Samþykkja jarðvegsskipti vegna lóðar Kerecis

Kerecis, Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja jarðvegsskipti á Suðurtanga 24, en það er lóð sem Kerecis áformar að byggja á.

Það er umhverfis- og og eignasvið sem óskar eftir heimild bæjarráðs til að fara í jarðvegsskipti á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun.

Í minnisblaði verkefnisstjóra á sviðinu kemur fram að til þess að meta magn á rusli á lóðinni verður farið í prufugröft á tveimur 10 x 10 m (100 fermetra) rannsóknarsvæðum til að kanna magn rusls á þeim svæðum. Niðurstöður á hlutfalli rusl í lóð úr þessum tveimur 100 fermetra svæðum verður svo notað til að finna út umfang ruslsins á allri lóðinni. Grafið verður niður fyrir ruslalagið, niður í sandlag, um 3,0-4,0 m niður fyrir núverandi yfirborð. Núverandi landhæð er í kóta um 2,0.
Áætlað er að vinna við gröft á báðum rannsóknarsvæðunum taki um 6 daga, á sama tíma verður ruslið grófflokkað í gáma. Þetta yrði unnið með tveimur gröfum, önnur grefur upp jarðveg og rusl og hin grófflokkar ruslið í gáma (með krabba). Síðan þarf væntanlega meiri flokkun og meta hversu stórt hlutfall rusls er á fermetra. Það ætti að gefa vísbendingar um heildarmagns rusls í jarðvegi á allri lóðinni. Eftir flokkun er ruslið flutt í Fíflholt.

Áætlaður kostnaður við þessa vinnu og leigu á gámum er um 7 -9 mkr.

Þær upplýsingar sem fást úr þessari vinnu ættu að gefa nokkuð góðar vísbendingar um hlutfall rusls á lóðinni og þar með líklegan kostnað ef fjarlægja þarf ruslið til að gera lóðina byggingarhæfa.

Aðgerðir á sjó samhæfðar

Ljósmynd: Anton Brink

Áhöfnin á varðskipinu Þór, sérsveit ríkislögreglustjóra, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar og liðsmenn bandaríska sjóhersins hafa í síðustu viku æft aðgerðir á sjó, þar á meðal uppgöngu í skip og eftirför, sem er liður í varnaræfingunni Norður-Víkingi. 


Sveitirnar æfðu meðal annars með áhöfn flutningaskips á Faxaflóa þar sem farið var um borð í skipið. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kom einnig að æfingunni sem heppnaðist vel. Mikil áhersla er lögð á samhæfingu sveita og búnaðar í æfingu sem þessari þannig að bandalagsþjóðir geti unnið skipulega að samræmdum markmiðum.

 
Norður Víkingur er haldin á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fer að jafnaði fram á tveggja ára fresti.

Meginþungi æfingarinnar fer fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en æfingin fer einnig fram á sjó. 


Alls taka um 1.200 manns þátt í æfingunni, þar af um 200 Íslendingar frá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Landhelgisgæslunni, Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum og öðrum stofnunum.

Nýjustu fréttir