Sunnudagur 1. september 2024
Síða 5

Tvö skilti Gefum íslensku séns tekin ófrjálsri hendi

Í tilkynningu frá Háskólasetri Vestfjarða, íslenskunámskeiðum er vakin athygli á því að tvö skilti átaksins Gefum íslensku sjens hafa verið tekin ófrjálsri hendi:

Sennilega hefir átakið Gestir skemmtiferðaskipana gefa íslensku séns ekki farið framhjá mörgum Ísfirðingum. Er það von okkar sem að átakinu stöndum að það hafi almennt vakið lukku og ánægju meðal ferðamanna svo og aðila þjónustugeirans á Ísafirði. Alltént hefir okkur ekki borist annað til eyrna. Auk þess hafa Ísfirðingar og aðrir almennt lýst yfir ánægju sinni með uppátækið.

Því er mjög leitt að þurfa að greina frá því að búið er að stela tveim skiltum átaksins. Annað þeirra var staðsett við Silfurtorg hitt við strætóskýlið við Pollgötu. Þjófnaðurinn hefir verið tilkynntur til lögreglu enda kostar hvert skilti dágóðan skildinginn auk þess sem mest allt starf Gefum íslensku séns er unnið í sjálfboðavinnu og þar með talið að hengja upp skiltin. Gefum íslensku séns ríður ekki feitum hesti hvað fjármuni varðar og er þetta því tilfinnanlegt tjón. Við biðjum auðvitað viðkomandi aðila um að skila skiltinu eða skiltunum. Það má gera í Háskólasetur Vestfjarða eða skilja það eftir þar fyrir framan bygginguna.

Patreksfjörður: þrettánda blúshátíðin um næstu helgi

Um næstu helgi verður á Patreksfirði blúshátíðin Milli fjalls og fjöru haldin í þrettánda sinn. Fyrsta hátíðin var árið 2012 að sögn Páls Haukssonar, eins forsvarsmanna hátíðarinnar. Hátíðin verður í Félagsheimili Patreksfjarðar föstudags- og laugardagskvöldið 30. og 31. ágúst.

Dagskráin verður byggð á dægurlaga- og rokktónlist í bland við blúsinn sem skipar stóran sess í hjörtum Vestfirðinga sem og annarra landsmanna.Það verður ekki slegið af kröfunum í ár frekar enn endranær, eins og dagskráin ber með sér. Þungaviktarmenn í Íslensku tónlistarlífi stíga á svið í ár og skemmta vestfirðingum sem og öðrum gestum með góðum blús og fantagóðu rokki. 

Dagskrá hátiðarinnar er á þessa leið:

Föstudagur 30 ágúst.

Litli Matjurtagarðurinn. Er gamalt og gott blúsband sem eru mikið í Jimmy Hendrix og tónlist frá þeim tíma. Þarna eru valinkunnir reynsluboltar á ferð sem opna dagskrána á föstudagskvöld í þetta sinn.

Bjartmar og Bergrisarnir. Þetta er eitt vinsælasta band landsins. Við erum stoltir yfir þessum feng á blúshátíð, sem eiga fjöldan allan af vinsælum lögum sem of langt yrði að telja hér.

Laugardagur 31 ágúst.

Rock Paper Sisters. Er hágæða rokkband með Eyþór Inga í fararbroddi og það verður engin lognmolla. Eyþór er mikill skemmtikraftur, tónlistamaður og rokksöngvari af guðs náð.

The Vintage Caravan, Páll segir að heiður að fá þetta fræga band í heimsókn á svæðið. Þeir ljúka blúshátíðinni í ár með þrumurokki og hávaða sem er ekki fyrir viðkvæma. Óskar Logi forsprakki hljómsveitarinnar kom á hátíðina með blúsband sitt árið 2020 og gerði stormandi lukku. „Enginn sannur rokkaðdáandi má missa af hátíðinni í ár.  The Vintage Caravan fyllir tónlistarhallir og knattspyrnuvelli um allan heim, slíkar eru vinsældir þeirra. Í vetur fluttu þeir ásamt Eyþór Inga og fl. tónleika með lögum Led Zeppelin í tvígang fyrir fullu húsi Hörpu á einum degi.“

Miðasala er í fullum gangi á tix.is og er miðaverði styllt í hóf aðeins 5,000 kr. hvort kvöld eða ef keypt er bæði kvöldin kostar það aðeins 9.000 kr.

Húsið opnar kl: 19.30 og dagskrá hefst stundvíslega kl: 21.00.

Hnífsdalur: úthlutað lóð undir einbýlishús

Ísafjarðarvegur 6. Mynd af Google.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar um að úthluta lóðinni Ísafjarðarvegur 8 í Hnífsdal til Friðriks Rúnars Hólm Ásgeirssonar, Þorlákshöfn. Áformað er að byggja húsið næsta sumar og kaupa tilbúið hús.

Setur bæjarráðið vengubundin skilyrði, sem eru að lóðarumsókn falli úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 6 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

Lóðin Ísafjarðarvegur 8 er 258 fermetrar að stærð.

Súðavík: stækka landfyllinguna á Langeyri

Langeyri í síðustu viku. Unnið við að setja niður stálþil. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur segir í bókun að þörf sé á stærra landfyllingarsvæði á Langeyri úr 32.000 fermetrum í 38.000 fermetrum og telur þörf á að lengja garðinn til suðurs sem því nemur. Fyllingarefni hefur til þessa verið fengið úr Skutulsfirði. Lagt er til að staðir til efnistöku verði skoðaðir í samráði við Vegagerðina.

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal sem mun reisa nýja kalkþörungaverksmiðju á landfyllingunni segir að áform fyrirtækisins séu að hefja starfsemi eigi seinna en vorið 2027.

Áætluð framleiðslugeta er 120 þúsund tonn á ári, við verksmiðjuna vinni 18 – 20 manns auk óbeinna starfa og kostnaður verði 3 – 4 milljarðar króna.

Oddi hf Patreksfirði: 551 m.kr. í fjárfestingu í fyrra

Nýja skipið Örvar SH siglir inn í Patrekshöfn um áramótin. MYnd: Patrekshöfn.

Oddi hf á Patreksfirði varði 551 m.kr. í fjárfestingu á síðasta ári. Segir í skýrslu stjórnar að það sé til þess að til að þróa og styrkja grunninn fyrir aukin umsvif fyrirtækisins.

Þar af voru um 385 millj.kr. vegna nýs fiskveiðiskips sem á að taka við af gamla Núp BA-690 sem er kominn til ára sinna. Fékk félagið skipið afhent í desember 2023. Einnig var tekin sú ákvörðun að endurnýja allt frystikerfi í húsinu og er sú fjárfesting áætluð um 150-170 millj.kr.

Hagnaður ársins varð um 215 m.kr. eða um 100 m.kr. lægri en árinu áður og segir stjórnin það vera annars vegar vera vegna minni afla og hins vegar vegna samdráttar í framleiðslu og sölu í laxavinnslu, en Oddi hefur keypt eldislax og unnið hann í verktöku.

Rekstrartekjur fyrirtækisins voru 3,3 milljarðar króna og framlegð fyrir afskriftir og fjármagnskostnað var 405 m.kr.

Laun og tengd gjöld voru 1.020 m.kr. og stöðugildin voru 64. Fækkaði þeim um 2 frá fyrra ári.

Eignir félagsins voru bókfærðar um áramótin á 4,4 milljarða króna, þar af eru fiskveiðiheimildir 2.452 þorskígildi færð á 2,3 milljarða króna.

Eigið fé nam 1.753 m.kr. og er það 40% af eignum.

Samþykkt var að greiða arð 0,4 kr. á hvern hlut.

Hluthafar eru þrír. OPO ehf á 89,94% hlutafjár, Sigurður Viggósson og Skjöldur Pálmason eiga 0,03% hvor um sig og félagið á 10% í sjálfu sér.

OPO ehf er að jöfnu í eigu Sigurðar og Skjaldar.

Hvalárvirkjun: sótt formlega um vegabætur

Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður VesturVerks, kynnti stöðu í undirbúningi Hvalárvirkjunar og næstu skref á íbúafundi í Árneshreppi. Mynd:aðsend.

Vesturverk ehf sem hyggst reisa vatnsaflsvirkjun í Hvalá í Árneshreppi sótti formlega 2. ágúst síðastliðinn í bréfi til Vegagerðarinnar um miklar vegabætur á veginum frá Veiðileysihálsi og norður í Ófeigsfjörð. Þetta kom fram á kynningarfundi Vesturverks með íbúum Árneshrepps sem haldinn var í gær.

Þar kemur fram að gera þurfi verulegar endurbætur á veginum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Efst á blaði er Veiðileysuháls og nýr vegur framhjá byggðinni í Djúpavík. Þá þarf að athuga burðarþol brúarinnar yfir Reykjafjarðará og bæta veginn við Selvíkurhöfða. Laga þarf vegin yfir hálsinn í Ingólfsfjörð og um fjörðinn.

Óskað er eftir viðræðum við Vegagerðina um endurbætur á veginum. Afrit afbréfinu var sent til tveggja ráðherra, Innviðaráðherra og umhverfis- orku og loftslagsráðherra.

Kynningarglæra Vesturverks.

Um þrjátíu manns sátu íbúafundinn auk fulltrúa Landsnets sem gerðu sömuleiðis grein fyrir undirbúningi fyrir tengingu virkjunarinnar við flutningskerfið.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks og HS Orku sagði í samtali við Bæjarins besta að sér þótti takast ágætlega til með fundinn. „Góðar umræður sköpuðust og þótt skiptar skoðanir verði ávallt um svo stórar framkvæmdir leggjum við höfuðáherslu á að upplýsa íbúa og gefa þeim kost á koma spurningum og vangaveltum á framfæri sem hugsanlega geta haft áhrif á framvindu verkefnisins og betrumbætt það. Okkur er fyrst og síðast annt um að vinna að þessu verkefni í samvinnu og sátt við nærsamfélagið.“

Það væri sömuleiðis jákvætt að Landsnet og VesturVerk munu stilla saman strengi í þessu verkefni og samræma sem mest má tímalínur og framkvæmdir.

Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslunnar 

Í þessari bók er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina.

Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá þyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar og æði misjafnar í gegnum tíðina, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra.

Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru okkar reyndustu þyrluflugmenn og hafa í gegnum tíðina komið mörgum til bjargar, en þriðji í hópi höfundanna er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir, sem margar hverjar hafa ekki komið fyrir sjónir almennings áður, prýða bókina sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar við sögu nánast á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem eru í hættu staddir.

Golfklúbbur Bolungarvíkur upp um eina deild

Íslandsmót golfklúbba 2024 í 4. deild karla 50 ára og eldri fór fram á Syðridalsvelli í Bolungarvík 22. ágúst.

Lokastaðan í 4. deild karla +50. 
1. GBO, Golfklúbbur Bolungarvíkur
2. GHH, Golfklúbbur Hornafjarðar
3. GHD, Golfklúbburinn Hamar Dalvík

GBO leikur i 3. deild á næsta ári. 

Golfklúbbur Bolungarvíkur var stofnaður árið 1982. 

Syðridalsvöllur var formlega tekinn í notkun árið 2002 en eitt af einkennum vallarins er að þrátt fyrir að holurnar séu aðeins níu eru mismundandi teigasett á hverri holu og töluverður munur er oft á þeim teigum. 

Landið við Syðridalsvöll er mjög sendið en Landgræðsla ríkisins hafði áður lagt mikla vinnu í að hefta sandfok á þessum slóðum. Syðridalsvöllur er strandvöllur í stórbrotnu umhverfi, umlukinn sandhólum og melgresi.  

Svartserkur er víða á Vestfjörðum

Á vef Hafrannsóknastofnunar er sagt frá því að Svartserkur sé ný framandi tegund í fjörum hér við land.

Svartserkur er sæsnigill sem ber fræðiheitið Melanochlamys diomedea. Áður hafði hann einungis fundist í Kyrrahafi og eini fundarstaðurinn utan þess er á Íslandi.

Fyrst varð vart við eggjasekkina, sem eru frekar stórir og áberandi , árið 2020 í Sandgerði og síðar sáust þeir í Fossvogi. Í júní 2022 fundust eggjasekkir við innanverðan Breiðafjörð en það var svo í ágúst 2023 sem fyrstu dýrin fundust í Breiðafirði.

Óskað var eftir upplýsingum um frekari útbreiðslu og nú hafa bæst við all margir fundarstaðir bæði við Faxaflóa og víða í Breiðafirði, m.a. í Hvallátrum.

Í byrjun ágúst voru starfsmenn Hafrannsókna- stofnunar staddir í Dýrafirði, nánar tiltekið í botni Dýrafjarðar þegar þeir rákust á eggjasekki og dýr.

Eins fundust svartserkir og egg í Arnarfirði og á Barðaströnd. Nyrsta þekkta útbreiðsla svartserks er því Dýrafjörður en trúlega er hann að finna víðar á Vestfjörðum.

Svartserkur hefur aðallega fundist á skjólsælum leirum. Dýrin ferðast um hulin seti og því getur verið erfitt að koma auga á þau, en eggjasekkina er auðvelt að sjá. Hvaða áhrif þessi nýja tegund hefur á lífríkið í fjörum við landið er ekki vitað en fróðlegt verður að fylgjast með hvernig tegundinni reiðir af.

Óbyggðanefnd – Kröfulýsingarfrestur framlengdur

Kröfulýsingarfrestur landeigenda á svæði 12 (eyjar og sker) hefur verið framlengdur til 2. desember 2024. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögmönnum ríkisins er von á endurskoðuðum kröfum um mánaðamótin ágúst–september 2024 og endurskoðuð kröfugerð verður birt þegar hún liggur fyrir.

Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 bárust óbyggðanefnd 2. febrúar 2024, sbr. 10. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1998, en svæðið tekur til landsvæða utan strandlengju meginlandsins.

Kröfulýsingarfrestur var upphaflega veittur ráðherra til 31. ágúst 2023 en síðar framlengdur. Þá bárust 27. mars 2024 leiðréttingar vegna landsvæða sem voru tilgreind í kröfulýsingu en reyndust utan svæðis 12.

Enn fremur barst nefndinni 5. apríl 2024 erindi fjármála- og efnahagsráðherra þar sem því var lýst yfir að ráðherra hefði ákveðið að taka kröfugerð ríkisins á svæði 12 til ítarlegrar endurskoðunar.

Í bréfinu var farið fram á að óbyggðanefnd frestaði frekari málsmeðferð á svæðinu og veitti ráðherra frest til að endurskoða kröfur ríkisins. Í kjölfarið yrði landeigendum veittur frekari frestur til að lýsa sínum kröfum.

Nýjustu fréttir