Mánudagur 28. október 2024
Síða 5

Vegna greinar Gunnlaugs Sighvatssonar: Uppbygging atvinnulífs í Strandabyggð

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri. Mynd: visir.is

Gunnlaugur Sighvatsson, ráðgjafi og stjórnarmaður í Vilja fiskverkun ehf., skrifar grein í bb um síðastliðna helgi.  Það er alltaf gott að fá fram ólík sjónarmið og í þessu tilviki koma þau frá einstaklingi sem þekkir vel atvinnulíf á Ströndum og í Strandabyggð.  En, það eru hins vegar nokkur atriði í greininni sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Fyrst er þó rétt að taka undir með Gunnlaugi, að atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd hefði vel mátt vera virkari.  Er þar fyrst og fremst um að kenna mannabreytingum í formennsku nefndarinnar og tómarúmi sem myndast við þær.  Og enn verða breytingar í formennsku þessarar nefndar, þar sem síðasti formaður hefur nú óskað lausnar frá störfum í sveitarstjórn.  En við munum manna formannssætið að nýju og auka tíðni funda.  Hins vegar er rétt að undirstrika, að þó nefndin hafi ekki fundað reglulega, þá hefur mikil og góð umræða farið fram innan sveitarstjórnar um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu og er ávallt reynt að miðla þeirri umræðu til íbúa.

Og auðvitað erum við öll sammála Gunnlaugi um að Strandabyggð á sér að sjálfsögðu viðreisnar von og það er alger óþarfi að tala um brotna byggð. Íbúar eiga betra skilið.  Strandabyggð hefur vissulega gengið í gegnum mikla erfiðleika og áföll sem tengjast atvinnulífinu, en ávallt risið upp aftur. 

Lögbundin starfsemi eða styrkir

Það er svo, að kjörnir fulltrúar verða, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, að huga að heildarhagsmunum og hafa það í huga við ákvörðunartöku um ráðstöfun fjármagns.  Í því felst ekkert tilfinningalegt mat á hin og þessi verkefni, heldur einfaldlega sá lagarammi sem okkur ber að starfa innan.  Og það er ekki alltaf auðvelt að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármagns, en við erum engu að síður kosin til þess að taka slíkar ákvarðanir.  Það er ljóst að íbúar hafa skoðanir á þeim ákvörðunum sem teknar eru og líta þá yfirleitt til þess hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið, í ljósi aðstæðna á hverjum tíma.  Í lýðræðissamfélagi eru slíkar skoðanir eðlilegar og réttmætar.

Mikið hefur verið skrifað um Galdrasafnið og Sauðfjársetrið og þá styrki sem þessi söfn hafa þegið frá sveitarfélaginu sl tvo áratugi eða svo.  Og menn geta og meiga hafa ólíkar skoðanir á því.  Þannig virkar lýðræðið.  En hitt ættum við hins vegar öll að geta verið sammála um, að mikilvægi þessara safna fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Strandabyggð, á Ströndum og á Vestfjörðum, er óumdeilt.  Þar hafa einstaklingar unnið og vinna enn mikið og gott starf og það er mikilvægt að við hlúum að því starfi með jákvæðni.  Um mikilvægi þessara safna hefur aldrei verið efast eða deilt, amk ekki af hálfu meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar.

Lokun Hólmadrangs og byggðakvóti

Það var mikið áfall þegar Hólmadrangur lokaði.  Um og yfir tuttugu manns misstu þar með vinnuna.  Það er rétt að það komi fram að sveitarstjórn Strandabyggðar, þingmenn kjördæmisins, Vestfjarðastofa og Gunnlaugur Sighvatsson, þá sem ráðgjafi eigenda Hólmadrangs, mynduðu eins konar neyðarhóp sem tók strax til starfa og leitaði leiða til að finna eða búa til ný störf.  Þarna unnu allir saman að því að finna lausn.

Eitt af því sem strax var rætt var, sértækur byggðakvóti.  Fyrsti þingmaður kjördæmisins, Stefán Vagn Stefánsson, studdi okkur mikið í þessari vinnu og talaði fyrir slíkum kvóta innan Byggðastofnunar.  Þann 4. október 2023, sendi sveitarstjórn Strandabyggðar, Byggðastofnun „beiðni um viðræður um úthlutun sértæks byggðakvóta til Strandabyggðar, í kjölfar lokunar Hólmadrangs og áhrifa þess á atvinnulíf í Strandabyggð“.  Í framhaldinu fór oddviti fór sérstaka ferð á Sauðárkrók til fundar með forstjóra og starfsmönnum Byggðastofnunar vegna málsins.  Framhaldið var síðan að úthlutað var hingað 500 tonnum af sértækum byggðakvóta.  Þarna unnu allir saman og sveitarstjórn og sveitarstjóri beittu sér sérstaklega fyrir því að fá hingað kvóta og tryggja uppgang veiða og vinnslu.  Sé síðan stiklað á stóru, var auglýst aftur á þessu ári eftir umsóknum um sértækan byggðakvóta til Strandabyggðar og niðurstaðan varð sú að Vilji fiskverkun ehf fékk sértækan byggðakvóta til næstu ára.  Því fögðuðu allir, enda gríðarlega mikilvægt skref í uppbyggingu atvinnulífs í Strandabyggð.

Það er því rangt af Gunnlaugi að halda því fram í sinni grein, að sveitarstjóri hafi unnið markvisst gegn því að hópur heimamanna fengi úthlutun.  Þetta eru alvarlegar ásakanir sem ekki er hægt að sitja undir.  Það var skýr krafa sveitarstjórnar og sveitarstjóra í allri umræðu um sértækan byggðakvóta til Strandabyggðar, að hann færi til heimamanna.  Aldrei var reynt á nokkurn hátt að koma þeim kvóta út úr sveitarfélaginu, enda sá lagarammi sem Byggðastofnun styðst við hvað úthlutun hans varðar, nokkuð skýr hvað það varðar.  Hins vegar var í umræðunni hugsanlegt samstarf við stórt fiskvinnslufyrirtæki frá Grindavík, Stakkavík og töldum við það mjög áhugavert og æskilegt í ljósi stærðar, getu og áhuga þess fyrirtækis á að byggja hér upp fiskvinnslu. Var talað um að Stakkavík myndi leggja til viðbótar kvóta jafnvel 1500-2000 tonn og það hljóta allir að sjá hvaða þýðingu það hefði haft í för með sér fyrir sveitarfélagið.  Eins spiluðu aðstæður í Grindavík á þeim tíma þarna inn í og litum við því á þetta sem mikið, en sjálfsagt tímabundið tækifæri.  En svo það sé alveg skýrt; umræðan um aðkomu þeirra var alla tíð sett fram sem samstarf við heimamenn, ekki án þeirra.  Allt tal um annað er einfaldlega ekki rétt.

Öll aðkoma sveitarstjóra var með vitund Byggðastofnunar, sem taldi ekkert óeðlilegt við það að sveitarstjóri tæki þátt í umræðunni, enda um að ræða eitt mesta hagsmunamál þessa sveitarfélags í atvinnumálum í áratugi.  Og það hefði án efa heyrst kvartað einhvers staðar í okkar ágæta sveitarfélagi, ef sveitarstjórn eða sveitarstjóri hefði ekki sýnt málinu áhuga. 

Það er vonandi að þessi samantekt leiðrétti þessi ósannindi, eða misskilning í grein Gunnlaugs

Viljayfirlýsingar, hótel og aðrar fjárfestingar

Það er erfitt að skilja skrif Gunnlaugs í greininni öðruvísi en svo, að hann hafi ekki trú á þessum verkefnum og telji tíma sveitarstjóra illa varið í slíkar viðræður og undirbúning.  Á sama tíma er kvartað yfir stefnuleysi í atvinnumálum.  Þarna fara ekki sama hljóð og mynd.

Það liggur fyrir viljayfirlýsing Strandabyggðar og  Fasteignaumsýslunar ehf um byggingu hótels á Hólmavík.  Hótelið er komið inn á aðalskipulag og verið er að vinna deiliskipulagslýsingu. Framundan er kynning á verkefninu meðal íbúa.  Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjst snemma næsta árs og að hótelið verið opnað síðla árs 2026.  Ef það er ekki liður í atvinnusköpun að reyna að fá til Hólmavíkur 20-25 manna vinnustað, með tilheyrandi tekjum fyrir sveitarfélagið, þá er bleik brugðið.

Og síðan liggur fyrir viljayfirlýsing við Íslensk Verðbréf um aðkomu þeirra og tengdra fyrirtækja að haftengdri uppbyggingu í Steingrímsfirði.  Unnið hefur verið að því að fá leyfi fyrir burðarþolsmati í Steingrímsfirði, m.a. vegna þararæktunar og hefur oddviti fundað með matvælaráðherra vegna þessa.  Eins er þrýst á að stjórnvöld tryggi fjármögnun á heitavatnsleit á Gálmaströnd til að hægt sé að kanna forsendur landeldis á regnbogasilungi í Steingrímsfirði.  Allt hefur þetta tekið tíma, m.a vegna þess að frumvarp matvælaráðherra um Lagareldi er í óvissu og eins vegna þess að boranir á Gálmaströnd liggja niðri. 

Í vinnu svokallaðrar Strandanefndar eru tillögur frá Strandabyggð um verkefni sem myndu efla atvinnu í sveitarfélaginu.  Þar á meðal er tillaga um framlengingu á verkefninu Brothættar byggðir, tillaga um fjármögnun lokaframkvæmda við heitavatnsleit á Gálmaströnd ofl.  Hvort þessar tillögur ná fram að ganga er óvíst og ekki í okkar höndum.  Mikil óvissa ríkir nú um stjórn þessa lands eftir kosningar og afdrif þeirra verkefna sem nú liggja fyrir.  En, við verðum að reyna og vona að þetta gangi eftir.

Við ættum að taka höndum saman um að tala þessi verkefni upp, í stað þess að gera lítið úr þeim. 

Niðurlag

Atvinnuuppbygging er langtímaverkefni sem kallar á úthald, framsýni og þor til að leita nýrra leiða.  Það teljum við okkur í meirihluta sveitarstjórnar hafa gert og raunar sveitarstjórn öll, þó spjótin standi á meirihlutanum í grein Gunnlaugs.  Viljayfrlýsingar eru oft fyrsta skref slíkrar uppbygginar.  Stundum ganga verkefnin eftir, stundum ekki.  En það er öruggt mál, að ef við gerum ekkert, gerist ekkert.

Það er gott að fá reynslumikla menn inn í atvinnulífið hér í Strandabyggð og við fögnum því, um leið og við köllum eftir samstarfi og auknum samskiptum um okkar sameiginlegu hagsmuni.

Þorgeir Pálsson

Oddviti Strandabyggðar

Fjórðungsþing: þrjár vegaframkvæmdir í forgang

Unnið að vegagerð á Dynjandisheiði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var um síðustu helgi, lýsti yfir „miklum vonbrigðum með frestun útboða á árinu 2024, verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar og ítrekuð loforð innviðaráðherra um samhangandi framkvæmdir á Dynjandisheiði og Gufudalssveit.“

Þingið skoraði á innviðaráðherra og Alþingi setja í forgang eftirfarandi þrjú verkefni:

  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að ljúka við næsta áfanga í vegagerð um
    Dynjandisheiði og verkefninu verði lokið á árinu 2025.
  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að hefja útboð til brúarsmíði yfir Gufufjörð
    og Djúpafjörð á árinu 2025 og miðað við að verkefninu sé lokið 2026.
  • Tryggt verði fjármagn til endurbóta og nýframkvæmda á Strandavegi norður í
    Árneshrepp, minnt er hér á fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í sveitarfélaginu.

Í annarri ályktun þingsins er því beint til stjórnvalda að fjármagn verði tryggt til vegaframkvæmda í samræmi við framkvæmdaáætlun um Bíldudalsveg nr. 63 niður Trostansfjörð að Bíldudalsflugvelli, og að sú framkvæmd verði í beinu framhaldi af næsta áfanga um Dynjandisheiði.

Laxeldi á Vestfjörðum: 3.522 tonn í september

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Alls var 3.522 tonnum af eldislaxi slátrað á Vestfjörðum í septembermánuði. Í Drimlu í Bolungavík var slátrað 2.056 tonnum og 1.466 tonn fóru í gegnum húsið á Bíldudal.

Verð á eldislaxi á erlendum mörkuðum er lágt í septembermánuði og er útflutningsverðmætið því áætlað tæplega 3 milljarðar króna. Aðra mánuði ársins er verðið hærra og allt að 70-80% hærra þegar það er hæst. Engu að síður skilaði laxeldið 700 -800 m.kr. á viku í útflutningsverðmætum í síðasta mánuði.

Vinstri grænir: fjórir Vestfirðingar á framboðslista í Norðvesturkjördæmi

Þrjú efstu á listanum: Bjarki Hjörleifsson, Stykkishólmi 2. sæti, Álfhildur Leifsdóttir, 1. sæti og Sigríður Gísladóttir 3. sæti.

Framboðslisti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi var samþykktur á kjördæmisráðsfundi hreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi í gærkvöldi.

Bjarni Jónsson alþm. flokksins sem kosinn var í síðustu kosningum 2021 hefur sagt skilið við flokkinn. Í efsta sæti er Álfhildur Leifsdóttir, Sauðárkróki, frá Keldudal í Skagafirði.

Ísfirðingurinn Sigríður Gísladóttir er í þriðja sæti listans. Auk hennar eru María Maack, Reykhólum í 6. sæti, Matthías Lýðsson, Húsavík í Strandabyggð er í 8. sæti og Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Ísafirði skipar 11. sætið.

Þá er reyndar fimmti Vestfirðingurinn á listanum, en það er Björg Baldursdóttir frá Vigur í Ísafjarðardjúpi, en hún er búsett í Skagafirði og skipar heiðurssæti listans.

Öxin, Agnes og Friðrik

Öxin, Agnes og Friðrik. Síðasta aftakan á Íslandi – aðdragandi og eftirmál nefnist ný bók eftir Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum.

Sagan af Agnesi og Friðriki og morðinu á Natani Ketilssyni á Illugastöðum hefur lifað með þjóðinni í bráðum tvær aldir. Í bókinni fer sagnamaðurinn Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum á kostum í magnaðri frásögn af þessum örlagaríku atburðum en þeir standa honum nær en mörgum öðrum.

Þrístapar, þar sem aftakan fór fram, eru í landi Sveinsstaða. Meira en 100 árum eftir aftökuna kom Agnes skilaboðum til afa Magnúsar, sem þá bjó á jörðinni, um það hvar bein þeirra Friðriks lægju og bað um að þau yrðu færð í vígða mold. Hann fann ásamt Ólafi, föður Magnúsar, líkamsleifarnar og grófu þeir þær upp – og töluðu aldrei um það síðan.

Magnús hefur kafað ofan í söguna af morðinu á Illugastöðum, ástæður voðaverksins og örlög helstu persóna og leikenda. Sýning hans í Landnámssetrinu, Öxin, Agnes og Friðrik, naut mikilla vinsælda og þá hefur hann í mörg ár farið með hópa, ýmist ríðandi eða gangandi, um sögusviðið og sagt þessa örlagaríku sögu.

Æfðu viðbrögð við bráðamengun í hafi

Árleg bráðamengunaræfing Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu fór fram í Reyðarfirði fimmtudaginn 17. október 2024.  Hafnaryfirvöld á Reyðarfirði og Heilbrigðiseftirlit Austurlands tóku einnig þátt í æfingunni. 

Mengunarvarnargirðing um borð í varðskipinu Þór var dregin út með aðstoð dráttarbátsins vattar og olíuupptökutæki (e. skimmer) varðskipsins var sett út innan girðingar. Í kjölfarið var mengunarvarnargirðing hafnarinnar dregin út í kringum skip í Reyðarfjarðarhöfn.

Þá var farið yfir þann mengunarvarnarbúnað sem er til staðar í höfninni og kynntar aðferðir við sýnatökur á olíumengun með sýnatökubúnaði í eigu Umhverfisstofnunar.

Æfingar sem þessar eru mikilvægar til að æfa samskipti á milli viðbragðsaðila, þjálfa notkun á mengunarvarnabúnaði og athuga ástand búnaðarins.

Landssamband smábátaeigenda geri stjórnvöldum tilboð

Á aðalfundi LS var samþykkt tillaga frá formönnum fimm svæðisfélaga um tilboð til stjórnvalda, að félagsmenn í LS veiði 10 þúsund tonn af þorski og greiði fyrir það einn milljarð.   Aflinn yrði viðbót við heildarafla.

„Landssamband smábátaeigenda geri stjórnvöldum tilboð um að félagsmenn veiði 10 000 tonn af þorski á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2025.  Fyrir hvert veitt kílógramm greiðast krónur eitthundrað í ríkissjóð.“  

Í greinargerð með tillögunni er til viðbótar greiðslu fyrir þorsk gert ráð fyrir að fjórðungur af aflaverðmæti meðafla renni í ríkissjóð.  

Óskað verður eftir að Reiknistofa fiskmarkaða sjái um að halda eftir við uppgjör fjárhæð sem fer til ríkissjóðs, en skylt verður að selja aflann gegnum fiskmarkaði.  Veiðar skulu fara fram á þeim tíma sem viðkomandi stundar ekki strandveiðar.  Þá verði þátttakendur að afsala sér rétti til að flytja frá sér veiðiheimildir í þorski á viðkomandi fiskveiðiári. 

„Aðaltilgangur tilboðsins er að auka tekjur ríkissjóðs af auðlindinni um einn milljarð.  

Sjö taka þátt í prófkjöri Pírata í NV kjördæmi

Framboðsfrestur í prófkjöri Pírata rann út klukkan 16:00 á sunnudag og hófst prófkjörið á sama tíma. Kosningin mun standa til klukkan 16.00 í dag, þriðjudag.

Á landsvísu eru alls 69 í framboði en í Norðvesturkjördæmi eru sjö í framboði.

Það eru eftirtalin: Agga Ragnheiður Steina Ólafsdóttir, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, Sunna Einarsdóttir, Sigríður Elsa Álfhildardóttir, Pétur Óli Þorvaldsson, Magnús Kr Guðmundsson og Herbert Snorrason.

Könnun Maskínu: mikil dreifing fylgis í Norðvesturkjördæmi

Fylkið dreifist verulega milli flokkanna í Norðvesturkjördæmi og eiga átta flokka mökuleika á að fá mann kjörinn í næstu Alþingiskosningum samkvæmt októberkönnun Maskínu sem Morgunblaðið greindi frá í gær.

Samkvæmt könnuninni fengju sex flokkar kjördæmafjörinn þingmann, einn hver. Það eru Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins.

Ekki langt undan eru Viðreisn og Píratar og virðast þeir eiga möguleikaa.

Vinstri grænir og Lýðræðisflokkurinn eru hins vegar alllangt frá því að eygja möguleika á kjördæmakjörnum þingmanni.

Ekki eru birtar fylgistölur en samkvæmt súluriti sem fylgir með fréttinni í Morgunblaðinu fengi Miðflokkur 16% atkvæða, Sjálfstæðisflokkur 15%, Framsókn 13%, Samfylking 12%, Sósíalistaflokkur 9,5%, Flokkur fólksins 9%, Viðreisn 8%, Píratar 7% og Lýðræðisflokkurinn og Vinstri grænir 4% hvor.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.772, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar. Könnunin fór fram dagana 2. til 18. október 2024.

Hver er maðurinn og hvað vill hann upp á dekk?

Björn Bjarki Þorsteinsson.

Á fjölmennu kjördæmisþingi Sjálfstæðismanna sunnudaginn 20. október sl. hlaut undirritaður kosningu í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar sem fram fara þann 30. nóvember 2024. Fyrir þann stuðning er ég afar þakklátur og mun nálgast komandi verkefni bæði af auðmýkt en ekki síður metnaði fyrir hönd kjördæmisins alls.

Frá unga aldri hef ég tekið þátt í pólitísku starfi en aldrei hef ég setið á framboðslista í Alþingiskosningum. Ég var oddviti Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Borgarbyggðar í 12 ár og í 16 ár sat ég samfellt í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ég taldi að ég væri hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum og í raun pólitík en í júlí 2022 bauðst mér starf sveitarstjóra í Dalabyggð og það skemmtilega starf og þau verkefni sem ég hef tekist á við í Dölunum hafa kveikt þann neista í huga mér að ég ákvað að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslista D-listans í kjördæminu víðfeðma.

Í 15 ár gegndi ég starfi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi og sat jafnframt í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í 10 ár, lengst af sem varaformaður stjórnar en seinustu misseri þeirrar stjórnarsetu gegndi ég hlutverki formanns. Sú reynsla sem ég hlaut af starfi í heilbrigðisgeiranum mun nýtast mér vel auk þeirrar reynslu sem ég hef af vettvangi sveitarstjórnarmála. 

Það hefur verið afar gefandi og skemmtilegt að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem við höfum verið í undanfarin rúmlega tvö ár í Dölunum. Kraftur og samkennd einkennir samfélagið og hef ég reynt eftir fremsta megni að vekja athygli á þeim innviðum sem þarfnast úrbóta við í Dölunum og í raun út um allt land í samstarfi og samráði við mína umbjóðendur. Ég tel mig ekki vera að hlaupast frá borði með því að gefa kost á mér til setu á Alþingi og mögulega yfirgefa mitt góða starf því á Alþingi gefast tækifæri til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins áfram en í víðari mynd með því að hafa kjördæmið og í raun landið allt undir.

Mitt leiðarstef snýr fyrst og síðast að aðstæðum okkar íbúa kjördæmisins alls og hvernig lífsskilyrði við viljum búa við og hvernig við búum að atvinnulífinu. Þar kemur megininntak og grunnstef Sjálfstæðisstefnunnar sterkt inn í mínum huga, stétt með stétt, og frelsi einstaklings til athafna, þann kjarna þurfum við að nálgast í störfum okkar, þau okkar sem mögulega veljast til setu á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins út um land allt.

Kjördæmið er bæði víðfeðmt og atvinnulíf fjölbreytt. Staða bænda stendur mér nærri nú eftir að ég hóf störf í Dalabyggð sem er ein af matarkistum landsins ef svo má segja, líkt og mörg önnur svæði innan kjördæmisins, við þurfum að ná fram ásættanlegum lífsskilyrðum fyrir þá sem í þeirri grein starfa líkt og í öðrum atvinnugreinum.

Efnahagsmál og hvernig haldið er á þeim skipta miklu máli og að mínu mati eru gríðarleg tækifæri til þess að nýta fjármuni með skilvirkari hætti en nú er gert í ríkisrekstrinum. Einnig er mitt hjartans mál allir dýrmætu innviðirnir okkar og skiptir þá engu hvar borið er niður fæti, í heilbrigðismálum, vegamálum, menntamálum, raforkumálum, umhverfismálum og áfram mætti telja. Það er svo sannarlega verk að vinna til að bæta aðbúnað, í kjördæminu öllu, sama í hvaða horni er. 

Ágæti lesandi, til glöggvunar á því hvað ég hef m.a. verið að brölta síðustu misseri til að vekja athygli á málstað Dalabyggðar og í raun landshlutans og landsbyggðarinnar allrar hef ég m.a. ritað greinar til að vekja athygli á ákveðinni mismunun sem við í Norðvesturkjördæmi búum við sem má nálgast hér.

Við hlökkum til að hitta ykkur um allt kjördæmi

Ég mun leggja mig fram um að verða þingmaður kjördæmisins alls, hlusta eftir sjónarmiðum íbúa, atvinnulífs, sveitarstjórna og allra annarra hagsmunaaðila því í mínum huga er þingmannsstarfið fyrst og síðast þjónustuhlutverk í þágu skattgreiðenda og landsmanna allra.

Ágæti lesandi, það er verk að vinna og við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, sem öll erum búsett í kjördæminu og munum búa þar áfram, erum svo sannarlega tilbúin til að berjast fyrir hagsmunum kjördæmisins á komandi misserum og árum. Það munum við gera í samstarfi við ykkur kjósendur og hlökkum til að hitta ykkur og eiga samtal um allt kjördæmi á næstu vikum.

Björn Bjarki Þorsteinsson

Undirritaður skipar 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og gegnir starfi sveitarstjóra í Dalabyggð.

Nýjustu fréttir