Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 5

Vikuviðtalið: Ingibjörg Birna Erlingsdóttir

Ég heiti Ingibjörg Birna Erlingsdóttir og er kölluð Inga Birna af þeim sem þekkja mig. Ég er fædd á Patreksfirði 1970, dóttir Jóhönnu Björnsdóttur og Erlings Rafns Ormssonar. Ég er elst minna systkina en við eru þrjú.  Auk þeirra á ég mér eldri hálfbróður.

Fyrstu árin bjó ég á Pateksfirði þar sem móðurfjölskyldan mín bjó, eða til fjögurra ára aldurs, þá fluttu foreldrar mínir með mig og systur mína til Selfoss.  Við flutningana fórum til Reykjavíkur með skipinu Örvari og ég man aðeins eftir ferðinni um borð. Við bjuggum í eitt ár á Selfossi, þegar leiðin lá til Hafnarfjarðar. Pabbi hafði alist upp í Hafnarfirði sem drengur, en hann átti heima stutta stund á Rauðasandi á unglingsaldri áður en hann fluttist að heiman og fór til Patreksfjarðar, þannig æxlaðist það að hann og mamma kynntust. Mörg systkina pabba komu sér fyrir á Tálknafirði.  Þannig átti ég stóra fjölskyldu bæði á Patró og á Tálknafirði. En Patreksfjörður heillaði, þar leið mér alltaf vel, ég dvaldir þar hvert sumar hjá ömmu og afa eða hjá systkinum mömmu, allt fram á framhaldsskólaaldur og var ólm í að komast þangað um leið og skóla sleppti í Hafnarfirði.

Afi á Patró var trillusjómaður og amma húsmóðir þegar ég fór að muna eftir mér. Amma var mikil sauma- og prjónakona og við áttum það til að segja að henni félli aldrei verk úr hendi.  Ég naut þess að sitja á tröppunum hjá ömmu á sumrin á Brunnunum og borða nýsprottinn rabbabara með sykri, dýfði rabbabarnum í sykurglasið sem amma mín hafði fært mér. Ég gekk um hjallana og týndi ber þegar sá var tíminn. Amma lánaði mér berjatínu og fötu til verksins og oft koma maður hlaðinn berjum heim. Amma átti dýrindis skrautgarð og gróðurhús. Hún safnaði íslensku fánunni, þ.e.plöntum af öllu tagi. Löngum gekk ég með henni um garðinn þar sem hún þuldi upp nöfnin á plöntunum og bý ég að því enn í dag að þekkja þær. Afi fór með okkur í hjallinn sinn þar sem hann verkaði hárkarl og grásleppu og þurrkaði rauðmaga fyrir reykingu.  Þar fékk ég að smakka á sælgætinu eins og hann kallaði það. Afi kallaði mig alltaf kerlinguna sína þegar ég var lítil og bjó enn á Patró, hún Inga væri nú meiri kerlingin þegar hún gerði hitt og þetta.  Eitt sinn var afi búin að brjóta upp stofugólfið á Brunnunum, þar sem hann og amma bjuggu, til þess að lagfæra frálagnir hússins. Þegar ég kom þangað í heimsókn með mömmu minni og sá stofuna alla á hvolfi, á ég að hafa sagt við hann “þú ert nú meiri kerlingin afi, að fara svona illa með stofuna hennar ömmu”. Mér hafði lærst af honum að þannig tæki maður til orða og ég nota það enn í dag. Ég var í dálitlu uppáhaldi hjá ömmu og afa, því ég var fyrsta barnabarnið þeirra og er skýrð í höfuðið á dóttur þeirra, systur mömmu sem dó ung.

Það var mikið frelsi að komast á Patró og þar eignaðist ég marga góða vini sem ávallt tóku mér opnum örmum um leið og ég mætti í plássið.  Það var ekki leiðinlegt að upplifa það.  Ég tók þátt í frjálsum íþróttum og keppti fyrir Hrafnaflóka í hlaupi. Ég vann í frystihúsinu HP frá 13 ára aldri, passaði frændsystkini mín sem voru mörg og vann í vinnuskóla Patreksfjarðarhrepps og var svo heppin að taka þátt í því að klára frágang á íþróttavellinum Wembley eins og við kölluðum hann og var þá nýr íþróttavöllur sem verið var að taka í notkun fyrir ofan Mikladal. Þar týndum við vinnuskólabörnin stórgrýti af vellinum og rökuðum hann dögunum saman svo hægt yrði að koma vellinum í notkun. Ég man svo vel eftir snjóflóðunum á Patró, því þá sátum við fjölskyldan í Hafnarfirði og hlustuðum á fréttir í úrvarpi og sjónvarpi og gátum ekki annað en beðið fregna af afdrifum ættingja og vina

Í Hafnarfirði átti ég líka góðar stundir. Ég bjó á Álfaskeiðinu, nr. 78, 96 og síðast nr. 100. En mamma mín var á því að við systkinin skyldum ekki þurfa að skipta um skóla þótt fjölskyldan stækkaði og stækka þyrfti húsnæðið. Ég gekk því í Lækjarskóla alla grunnskólagönguna og fór þaðan í Flensborg þar sem ég útskrifaðist sem stúdent árið1991. Þá hafði ég eignast kærasta sem seinna varð eiginmaður minn og var frá Siglufirði, en við skildum skiptum árið 2022.

Eftir útskriftina lá því leiðin til Siglufjarðar þar sem við stofnuðum heimili. Ég var svo heppin að fá starf sem aðstoðakona tannlæknis ég vann við það í stuttan tíma, varð fljótlega ófrísk af frumburði mínum sem kom í heiminn 1993. Fyrir átti kærasti minn 3 börn og eitt þeirra bjó alfarið hjá okkur. Ég vann ýmis störf á Siglufirði þau sex ár sem ég bjó þar,  í rækjuverksmiðju Þormóðs ramma og síðan í frystihúsinu, var leiðbeinandi í grunnskólanum. Þá fluttum við til Hafnarfjarðar þar sem ég fór að vinna í skóverslun um tíma. Síðan lá leiðin til flugfélagsins Íslandsflugs.  Þar var mjög gaman að vinna, ég byrjaði sem matráður í mötuneytinu þar og fékk svo að vinna mig upp í að verða ritari á skrifstofunni.

Um þrítugt var ég orðin gift kona þegar við fluttumst í Hvalfjörð eða Hvalfjarðarstrandahrepp, þar eignast ég tvö börn með stuttu millibili.  Ég átti því orðið 3 börn og 3 stjúpbörn.

Við fengum góðar viðtökur í Hvalfirði og eignuðumst góða kunningja fljótlega. Á þessum tíma var verið að sameina sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar í eitt sveitarfélaga og ég var svo heppin að fá vinnu sem fyrsti ritari hins nýja sveitarfélags sem fékk nafnið Hvalfjarðarsveit. Fyrsti dagurinn í vinnunni fór í að keyra suður til Reykjavíkur og kaupa skrifstofuhúsgögn og tölvur. Síðan var að koma upp öllu kerfi alveg frá grunni og hefja störf. Það var mjög lærdómsríkt. Ég bjó að því lengi hversu mikla ábyrgð ég fékk í Hvalfjarðarsveit og hversu vel mér var treyst fyrir verkefninu að koma skrifstofunni í starfhæft horf og allar götur eftir það, þá tók ég þátt í mörgum verkefnum sem sneru að sveitarfélaginu og fékk því mjög góð verkfæri í bakpokann fyrir framtíðina, seinna varð ég skrifstofustjóri sveitarfélagsins.

Sumarið 2010 var þáverandi eiginmaðurinn farinn að safna að sér gömlum súðbyrðingum til að gera upp og hafði komist í samband við áhugamannafélaga um Bátasafn á Breiðafirði sem er staðsett á Reykhólum.  Hann mærði staðinn og stóð til að hann myndi setja upp sýningu sem nú er Báta- og hlunnindasýningi á Reykhólum. Ég hafði aðeins komið einu sinni til Reykhóla í mörgum af ferðum mínum með foreldrunum á milli Hafnarfjarðar og Patró í æsku.   Akkúrat á þessum tíma vill svo til að auglýst er eftir sveitarstjóra Reykhólarhepps og ég ákvað að láta á það reyna að sækja um starfið. Þóttist nógu hæf til þess.   Ég komst í viðtal, en fékk ekki starfið. En hlaut það nokkrum vikum seinna, þegar í ljós kom að sá sem hafði fengið starfið í upphafi gat ekki sinnt því vegna ákveðinna persónulegra mála.

Þá fluttum við með tvö yngstu börnin á Reykhóla, seinna kom það eldra til okkar. Síðan eru liðin 14 og ½ ár og margt vatn runnið til sjávar. 

Starf sveitarstjórans er ekki auðvelt starf og fylgir því mikil vinna og utanumhald. Sérstaklega í litlu sveitarfélagi eins og Reykhólahreppi. En starfið er mjög gefandi. Eftir að ég tók við starfinu hefur lífið  verið ein rússibanareið og tíminn hefur því verið mjög fljótur að líða.  Það hefur alltaf verið nóg að gera og í mörg horna að líta.  Það var ákaflega vel tekið á móti okkur hér í Reykhólahreppi og gaman að vinna að málefnum sveitarfélagsins bæði heimavið, á Vestfjarða- og landsvísu.  Ég tók mér tveggja ára frí frá sveitarstjórastarfinu árin 2018-2020 og vann þá sem framleiðslustjóri hjá Norðursalti á Reykhólum, ég saknaði fljótlega mannlega þættinum, að hitta fólk og vera í deiglunni þar sem allt gerist.

Ég myndi því segja að ég hafi átt viðburðaríka starfsævi hingað til og er afar þakklát fyrir það. Því miður hef ég lítið haft tíma fyrir áhugamálin, Ég tók upp á því að fara í háskólanám árið 2019, hef ekki klárað það enn.  Ég er dugleg við hannyrðir þegar ég gef mér tíma, finnst gaman að lesa bækur og njóta náttúrunnar. Mér líður best í góðum gír með fjölskyldunni minni.

Kvótasetning grásleppu skaðleg á Patreksfirði

Frá löndun grásleppu í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Sigurgeir S. Þórarinsson.

Patreksfjörður er sú höfn sem verst kemur út í kvótasetningu á grásleppu sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári og tók gildi 1. september sl. Þetta ke,ur fram í minnisblaði Vestfjarðastofu sem lagt var fyrir stjórn Fjórðungssambands Vestfiðinga skömmu fyrir jól.

Fyrsta úthlutun aflahlutdeildar verður að óbreyttu 1. mars 2025 og „Við mat á veiðireynslu skal miða við þrjú bestu veiðitímabil leyfisins sem skráð er á skipið frá og með árinu 2018 til og með árinu 2022 að undanskildu árinu 2020.“

Árið 2023 var lönduð grásleppa á Vestfjörðum yfir 991 tonnum að verðmæti 233 milljónum króna.

Grásleppuveiðar eru svæðisbundnar á Vestfjörðum og eru veigamikill hluti útgerðar á Ströndum og í Vesturbyggð, þar sem útgerð grásleppu er mikilvægur hluti útgerðarmynstursinns. Í Vesturbyggð hefur orðið nýliðun þar sem menn hafa komið og hafið smábátaútgerð þar sem veiðar á grásleppu hafa verið mikilvægur hluti heildartekna ársins. Þannig hefur verið hægt að stunda grásleppuveiðar og strandveiðar og lengja þannig veiðitímabil smábátasjómanna segir í minnisblaðinu.

Það voru 26 bátar sem lönduð grásleppu á Vestfjörðum á síðustu vertíð. Það eru tvö svæði sem skera sig úr en flestir bátar gera út á grásleppu frá Drangsnesi og Hólmavík samtals 10 bátar og svo Brjánslækur og Patreksfjörður með 10 báta. Á norðanverðum Vestfjörðum voru 6 bátar sem gerður út á grásleppu.

Það sem skiptir sköpum er hvert viðmiðunartímabilið er við ákvörðun á kvóta. Strandir þar sem grásleppuveiðar hafa verið nokkuð stöðugar í gegnum tíðinni, halda sínu hlutfalli á heildina litið.


Patreksfjörður er aftur á móti sú höfn sem kemur verst úr kvótasetningu, einmitt sú höfn þar sem vöxtur hefur verið í lönduðum afla undanfarin ár. En vegna þess að tímabil veiðireynslunnar nær ekki þessum vexti þá hljóta nýliðarnir á Patreksfirði skarðan hlut frá borði. Þeir sem hófu veiðar árin 2023 og 2024 eru ekki taldir sem nýliðar en einmitt þau ár jókst landað magn á Patreksfirði hvað mest. Það var 6,1% árið 2023 af afla ársins en áætlað er að kvótinn við úthlutun í ár verði aðeins 2,3%.

Stjórn Fjórðungssambandsins ályktaði ekki um úthlutunina en ákvað að að efni minnisblaðs verði kynnt sveitarstjórnum.

Aldrei fleiri nemendur í MÍ

Innritun á vorönn er nú lokið í Menntaskólanum á Ísafirði og er netfjldi nemenda við skólann en þeir eru nú 606 talsins. Næstfjölmennasta önnin til þessa er haustönnin árið 2021 þegar 544 nemendur voru innritaðir.

Af 606 nemendum skólans eru 204 í dagskóla og er heimavistin þétt setin eins og á haustönn. Nemendur frá sunnanverðum Vestfjörðum eru þar fjölmennasti hópurinn eða 11 talsins.

Nú á vorönn fer af stað nám í múraraiðn í dreifnámi en það er í fyrsta sinn síðan Menntaskólinn á Ísafirði og Iðnskólinn á Ísafirði voru sameinaðir sem það nám er í boði. Dreifnám er vinsælt námsform innan skólans en það er nám fyrir fólk í vinnu sem kennt er í fjarkennslu og í lotum á kvöldin og um helgar. Húsasmíði, iðnmeistaranám, sjúkraliðanám og vélstjórnarnám A er sömuleiðis kennt í dreifnámi.

Fjarnemendur við skólann eru samtals 335 en fjarnámsnemendum hefur farið fjölgandi síðustu ár. Af þeim eru 116 nemendur í iðnmeistara- og sjúkraliðanámi. Iðnmeistaranámið er samstarfsverkefni MÍ og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en sjúkraliðanámið er samstarfsverkefni sömu skóla og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Af öðrum fjarnemendum, sem eru samtals 202, eru 81 síðan að fylgja námsbrautum innan MÍ og stefna á útskrift frá skólanum að námi loknu.

Hér má sjá hvernig nemendur skólans skiptast eftir ólíkum námsformum:

Dagskóli204
Dreifnám (húsasmíði, iðnmeistaranám, múraraiðn, sjúkraliðanám og vélstjórn A)67
Fjarnám í gegnum samstarfsskóla (m.a. iðnmeistaranám og sjúkraliðanám)133
Fjarnemendur með MÍ sem heimaskóla81
Fjarnámsnemendur121
SAMTALS606

Hvar er myndin tekin ?

Þessi mynd sem er á Byggðasafninu á Skógum er þangað komin frá Matthildi Elísabetu Gottsveinsdóttur (1890-1977).

Myndin mun vera frá árunum 1940 -1955.

Á bakhlið myndarinnar stendur: Með bestu kveðju til Matthildar. Myndin er líklega frá Vestfjörðum en þangað ferðaðist Matthildur með Skógræktarfélagi.

Nú er það spurningin hvort einhver getur sagt til um það hvar myndin er tekin og hvaða fólk er á myndinni.

Körfuknattleikur – Leikur til styrktar fyrrum leikmanni

Góðgerðarleikur körfuknattleiksdeildar Vestra fer fram laugardaginn 11. janúar 2025, kl. 16:30

Leikurinn er til styrktar Steinunni Jónsdóttur eða Steinku eins og hún er jafnan kölluð meðal vina og vandamanna en hún hefur þurft að kljást við eftirköst bílslyss sem hún lenti í fyrir um 15 árum síðan.

Sökum þess hefur hún þurft á ýmsum krefjandi inngripum að halda auk þess að fara í afar kostnaðarsama aðgerð erlendis sem eðli máls samkvæmt hefur reynt á fjárhagslega.

Körfuknattleiksdeild Vestra vill gera sitt besta við að aðstoða. Við vonumst því til að sjá sem allra flesta á leik mfl. Vestra gegn Fjölni b, laugardaginn 11. janúar kl. 16:30 og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að mæta á leikinn sem/og hvetja vini og ættingja til að mæta einnig.

Aðgangseyrir er sem fyrr enginn, en öll frjáls framlög eru afar vel þegin enda munu þau öll renna í sjóð til hennar Steinku.

Kaffi, vöfflur og dýrindis bakkelsi verður til sölu, en ágóði þeirrar sölu mun sömuleiðis renna í sama sjóð.

Þeir sem ekki sjá sér fært að mæta, en vilja engu að síður veita málefninu lið, geta lagt beint inn á reikning Steinku sem er eftirfarandi: 0150-05-061466, kt. 060883-5139.

Ný kuðungategund uppgötvuð

Á vef Hafrannsóknastofnunar er sagt frá því að nýlega hafi ný kuðungategund uppgötvaðist í hafinu við Ísland en slíkt er fátítt og í þessu tilviki afrakstur mikillar vinnu.

Nýja tegundin hefur verið nefnd eftir fyrrum starfsmanni Hafrannsóknastofnunar Jónbirni Pálssyni og heitir Buccinum palssoni Fraussen, Delongueville & Scaillet, 2024 en tegundin hefur enn ekki fengið íslenskt nafn.

Hafrannsóknastofnun hefur áður sagt frá gjöfulu samstarfi Jónbjörns og belgísku dýrafræðingana Christiane Delongueville og Roland Scaillet.

Nú hefur þessi samvinna orðið til þess að áður óþekkt kuðungategund fannst. Kuðungurinn er um 3 cm á hæð og tilheyrir ættkvíslinni Buccinum eins og beitukóngur.

Það er ekki algengt að nýjar tegundir finnist yfirhöfuð og sömuleiðis eru ekki miklar líkur á að fá tegund nefnda eftir sér. En margt býr í hafinu og allt getur gerst.

Hér til hægri má sjá Jón Sólmundsson fiskifræðing, Jónbjörn Pálsson fiskifræðing sem um árabil starfaði hjá Hafrannsóknastofnun, og Svanhildi Egilsdóttur sjávarlíffræðing að ígrunda þverhyrnu, nýja fiskitegund sem fannst á íslensku hafssvæði árið 2022

Íbúum fjölgar hlutfallslega mest í Árneshreppi

Frá Árneshreppi

Íbúum Reykjavíkurborgar fækkaði um 56 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2024 til 1. janúar 2025 og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 47 íbúa.

Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 11 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fækkað um 60 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 5 íbúa.

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Árneshrepps fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2024 um 6,9% en íbúum þar fjölgaði um 4 íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Fljótsdalshreppi og Kjósarhreppi eða um 2%.  Af 62 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 27 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 35 sveitarfélögum. 

Í Vesturbyggð fjölgaði um 7 og um 4 í Árneshreppi eins og áður kom fram. Annars staðar fækkaði eða íbúafjöldi stóð í stað. Á Vestfjörðum fækkaði um 11 manns.

Strandabyggð: miklar endurbætur á íþróttamiðstöð og sundlaug

Heitu pottarnir eftir endurbætur. Myndir: aðsendar.

Lokið er miklum endurbótum á íþróttamiðstöð og sundlaug á Hólmavík. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir að í „sundlauginni höfum við verið að gera við tvo stærri pottana. Það hefur staðið til í mörg ár og lá lengi á borði fyrrverandi sveitarstjórnar.  Forstöðumaður íþróttamiðstöðvar hafði þrýst á viðgerð lengi.  Búið var að endurgera vaðlaugina og flísaleggja hana að nýju en stóru porrarnir voru eftir.  Það þurfti að laga leka á milli þeirra með tilheyrandi múrbroti og steypuviðgerð, og síðan voru þeir flísalagðir í stíl við vaðlaugina.  Að auki var nuddkerfi sett í annan pottinn og er verið að ganga frá tengingum við það núna.

Í tíð núverandi sveitarstjórnar hefur að auki verið sett nokkuð fjármagn í endurnýjun ýmissa tækja sem tengjast sundlauginni, en mikið af þeim tækjabúnaði sem stýrir klórmagni í pottum, hitastigi, gegnumflæði o.s.frv  var löngu úreldur.  Fyrir nokkrum árum var sundlaugarbakkinn allur tekinn í gegn og lagðar í hann hitalagnir. Saunaklefinn, var tekinn í notkun að nýju sumarið 2023 eftir gagngera endurnýjun og er hinn glæsilegasti.

Það má því segja að nú sé sundlaugin kominn í eðlilegt horf og er sveitarfélaginu til mikils sóma.“

Þá hefur einnig veið unniða endurbótum í íþróttahúsinu. Þar er búið að setja varmadælur á íþróttsalinn og skipt um glugga á þaki. „

Þá hefur einnig veið unniða endurbótum í íþróttahúsinu. Þar er búið að setja varmadælur á íþróttsalinn og skipt um glugga á þaki. „

Þá hefur einnig veið unniða endurbótum í íþróttahúsinu. Þar er búið að setja varmadælur á íþróttsalinn og skipt um glugga á þaki. “ Strandabyggð getur verið stolt af sinni íþróttamiðstöð og sundlaug, sem vekur verðskuldaða athygli gesta.“ segir Þorgeir.

Gufubaðið eftir endurbætur.

Íþróttasjóður : fjórir styrkir til Vestfjarða

Íþróttanefnd hefur ákveðið að úthluta 21,15 milljónum til 71 verkefna fyrir árið 2025. Nefndinni bárust alls 194 umsóknir að upphæð tæplega 230 m. kr. um styrki úr Íþróttasjóði vegna ársins 2025. Mennta- og barnamálaráðherra hefur samþykkt tillögu Íþróttanefndar.

1 m.kr. til Vestfjarða

Eftir því sem næst verður komist voru fjórir styrkir til verkefna á Vestfjörðum, samtals að fjárhæð 1 m.kr.

Íþróttafélagið Hörður á Patreksfirði fékk 200.000 kr styrk til inngildingar í íþróttastarfi á sunnanverðum Vestfjörðum.

Barna- og unglingaráð Kkd Vestra fékk 400.000 kr. styrk til verkefnisins Vestri körfubolti – Special Olympics.

Sunddeild UMF Bolungarvíkur fékk 200.000 kr. styrk til verkefnis sem heitir samskipti í kafi.

Trausti Salvar Kristjánsson fékk 200.000 kr. styrk til borðtennis hjá UMFB, sem er ungmennafélag Bolungavíkur.

Bílddælingur verður framkvæmdastjóri alþjóðlegs flutningafyrirtækis

Jón Garðar Jörundsson.

Alþjóðlega flutningafyrirtækið Kuehne+Nagel hefur ráðið Jón Garðar Jörundsson sem framkvæmdastjóra fyrir starfsemina á Íslandi.

Jón Garðar kemur til Kuehne+Nagel með víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og starfaði áður m.a. sem sviðsstjóri viðskiptasviðs hjá Faxaflóahöfnum sf. og sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arnarlaxi ásamt því að sitja í stjórn félagsins á árunum 2014-2015. Hann er með MSc gráðu í fjármálum og fjárfestingum auk MBA gráðu frá Edinborgarháskóla.

Kuehne+Nagel, sem eitt stærsta flutningafyrirtæki heims, var stofnað árið 1890 og starfar á um 1.300 stöðum í yfir 100 löndum með yfir 79.000 starfsmenn. Fyrirtækið þjónar fjölbreyttum þörfum viðskiptavina um sérhæfðar flutningalausnir um allan heim.

 „Ég er þakklátur fyrir þetta skemmtilega tækifæri og hlakka til að takast á við ný verkefni hjá Kuehne+Nagel og vinna með frábæru alþjóðlegu teymi að því að efla og byggja upp starfsemi fyrirtækisins á Íslandi,“ segir Jón Garðar Jörundsson.

Nýjustu fréttir