Hér er Sigríður Magnea Óskarsdóttir náttúruvársérfræðingur að lesa veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands. Í útvarpsklefanum sem hefur verið svo til óbreyttur í rúmlega hálfa öld.
Þann 1. apríl 2025 voru gerðar smávægilegar en gagnlegar breytingar á útvarpslestri veðurfrétta frá Veðurstofu Íslands á RÁS 1.
Tímasetningar veðurfregna haldast óbreyttar, en innihaldið hefur verið tilsniðið til að veita hlustendum betri og markvissari þjónustu.
Kl. 10:03 á virkum dögum (10:05 um helgar)
Í morgunlestrinum er nú lesin sérstök veðurspá fyrir höfuðborgarsvæðið til viðbótar við spár fyrir öll spásvæði landsins. Einnig fylgir spá fyrir næstu daga og yfirlit yfir veðrið kl. 09 frá 58 veðurstöðvum um land allt. Þetta gefur góða mynd af stöðunni í dag og fram undan – hentar vel fyrir þá sem vilja skipuleggja daginn snemma!
Kl. 18:50 síðdegis: Þessi lestur fær nú aðeins lengri tíma og dýpri upplýsingar. Þar má nú heyra hæsta hita og mestu úrkomu dagsins auk mesta vinds á landinu kl. 18. Þá er farið yfir veðrið á völdum veðurstöðvum og lesin stutt veðurspá fyrir landið í heild. Einnig er lesin veðurspá fyrir miðin og djúpin í kringum landið – þar með eru sjómenn og þeir sem stunda siglingar betur upplýstir.
Kl. 22:03 á kvöldin: Kvöldlesturinn inniheldur nú spá fyrir höfuðborgarsvæðið – sem er nýtt – og sú spá er lesin fyrst, áður en farið er yfir spár fyrir önnur spásvæði landsins og veðurhorfur næstu daga.
Kl. 5:03 að morgni: Veðurlýsingin snemma morguns beinist nú sérstaklega að veðurstöðvum við ströndina. Þetta er sérsniðið fyrir sjómenn og aðra sem þurfa að vita hvernig ástandið er við sjóinn í upphafi dags.
Vordagur Gott að eldast var haldinn á Nauthóli í Reykjavík á miðvikudag.
Þátttakendur voru starfsfólk frá öllum sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum sem taka þátt í verkefni um samþætta heimaþjónustu.
Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög vítt og breitt um landið taka þátt í verkefnunum. Á vordeginum var einnig samankomið fólk úr verkefnisstjórn Gott að eldast, auk þess sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, ávarpaði samkomuna.
„Ég veit að fullorðna fólkið okkar er í góðum höndum hjá ykkur. Og ég get lofað ykkur því að það er í góðum höndum hjá fallega hópnum sem er að vinna í mínu ráðuneyti – og það er líka í góðum höndum hjá mér,“ sagði ráðherra meðal annars en hún hefur lagt mikla áherslu á málefni eldra fólks.
Ein meginaðgerðin í aðgerðaáætluninni Gott að eldast er að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Öll þjónusta er þá á hendi eins aðila.
Fyrir skömmu var komið dauðum hröfnum til Matvælastofnunar til rannsóknar. Hræin fundust á Ísafirði. Stofnunin hafði skömmu áður , þann 21. mars birt tilkynningu, þar sem vakin var athygli á því að farfuglar væru um þessar mundir að flykkjast til landsins og þeir koma frá slóðum þar sem töluvert hefur verið um inflúensusýkingar í fuglum. Það er því talin nokkuð mikil hætta á að nýjar veirur berist með þeim.
Jafnfram sagði að töluvert hafi dregið úr tilkynningum til Matvælastofnunar um dauða villta fugla og greiningar í þeim hafa verið fáar undanfarnar vikur sem stofnunin túlkar sem vísbendingu um að dregið hafi úr fuglainflúensusmiti.
Afdrif dauðu hrafnanna á Ísafirði urðu hins vegar þau samkvæmt svari Mast að Þegar héraðsdýralæknir spurðist fyrir um hrafnshræin í framhaldi af fyrirspurn Bæjarins besta var búið að henda þeim þannig að það náðist ekki að taka sýni úr þeim.
Bolungarvíkurkaupstaður gerir ekki athugasemdir við sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í þjóðareign, þ.m.t. sjávarauðlindum, segir umsögn kaupstaðarins um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda.
Sveitarfélagið lýsir hinsvegar yfir miklum áhyggjum af áhrifum frumvarpsins á minni útgerðir og fiskvinnslur. Aukin gjaldtaka muni án nokkurs vafa hafa umfangsmikil áhrif á greinina og að öllum líkindum auka samþjöppun í greininni með tilheyrandi fækkun starfa. Jafnframt er líklegt að aukin gjaldtaka muni leiða til minni samfélagsþátttöku sjávarútvegsfyrirtækja með afar neikvæðum áhrifum til lengri tíma.
Það sé hins vegar ekki að sjá af þeim gögnum sem fylgja frumvarpinu að nein greining hafi farið fram á áhrifum frumvarpsins á sveitarfélög. Stór og afgerandi hluti tekna Bolungarvíkurkaupstaðar komi frá útgerð og vinnslu í sveitarfélaginu. Frumvarpið geti því haft veruleg neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins og burði þess til að viðhalda sterku og lifandi samfélagi.
Útgerð og fiskvinnsla í Bolungarvík hefur greitt milljarða í veiðigjöld á undanförum árum. Bolungarvíkurkaupstaður bendir á að hluti eldisgjalds af fiskeldi rennur aftur til fiskeldissveitarfélagana og skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sömu pólitísku stefnumótun í þessari gjaldtöku.
Bolungarvíkurkaupstaður telur mikilvægt að samhliða framlagningu frumvarpsins verði skýr stefnumörkun um ráðstöfun veiðigjaldsins af hálfu ríkisins.
Frumvarp um breytingar á lögum um veiðigjald er enn ein aðförin að byggðastefnu Íslands, segir í umsögninni, og skorar Bolungarvíkurkaupstaður á ráðherra að hægja á ferlinu og auka samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila með betri greiningarvinnu.
Knattspyrnudeild Vestra heldur námskeið í páskavikunni (dymbilvikunni) á Kerecisvellinum á Ísafirði.
Námskeiðið er fyrir öll börn fædd 2011-2018. Um er að ræða námskeið með einstaklingsmiðuðum æfingum og leikæfingum í smáum hópum. Æfingarnar eru tvær á dag, 75 mín í hvert skipti, samtals 6 æfingar fyrir hvern og einn iðkanda.
ÞJÁLFUNARMARKMIÐ NÁMSKEIÐSINS
Þjálfa færni og sköpunargleði hjá iðkendum.
Gera leikinn skemmtilegan í æfingum og í leik.
Þjálfa góðan íþróttaanda og virðingu innan og utan vallar.
Virða sigur en ekki meira en gott hugarfar og frammistöðu.
Bjóða upp á öruggt og lærdómsríkt umhverfi sem mætir best þjálfunarmakmiðunum.
Ég heiti Valgerður María Þorsteinsdóttir og fæddist árið 1997 í Vestmannaeyjum en ólst að mestu leyti upp í Grindavík. Ég þekkti því lítið annað en hamslaust rokið áður en ég flutti í blíðuna á Bíldudal árið 2022. Faðir minn er Eyjapeyinn Þorsteinn Gunnarsson og móðir mín er Grindvíkingurinn Rósa Signý Baldursdóttir. Við erum þrjú systkinin, bræður mínir eru Guðjón Þorsteinsson nemandi í Verzlunarskólanum, kærasta hans er Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, og Gunnar Þorsteinsson, rafhlöðuverkfræðingur sem býr og starfar í Californiu, kona hans er Lovísa Falsdóttir og þau eiga þrjú yndisleg börn.
Mér finnst rétt að taka fram í þessum vestfirska fréttamiðli að mamma er einnig Ísfirðingur og er alin þar upp að hluta en móðurafi minn var Ísfirðingurinn Baldur Sigurbaldursson, skipstjóri á Þórveigu ÍS 222, kona hans og amma mín var Valgerður María Guðjónsdóttir. Nú þegar mér hefur rækilega tekist að rekja ættir mínar vestur á firði líkt og ég væri stjórnmálamaður í kosningabaráttu færi ég mig aftur yfir í samtímann.
Eftir tvær háskólagráður og endalaust flakk á milli landa og landshluta fékk ég starf hjá Vesturbyggð fyrir þremur árum sem forstöðumaður Muggsstofu og menningar- og ferðamálafulltrúi og lagði þá leið mína yfir heiðar og malarvegi til að flytja vestur. Starfið er svo fjölbreytt og víðtækt að ég á gjarnan erfitt með að svara á stuttan og laggóðan máta hvað ég ,,geri eiginlega í vinnunni.“ Sem menningar- og ferðamálafulltrúi hef ég yfirumsjón með tjaldsvæðum og félagsheimilum sveitarfélagsins og held utan um bæjarhátíðir þess, svo sem 17. júní og tendranir á jólatrjám. Þá er ég tengiliður þess um allt er varðar menningu og ferðaþjónustu og kem einnig að umsjón heimasíðu og samfélagsmiðla Vesturbyggðar. Sem forstöðumaður Muggsstofu, samfélags- og menningarmiðstöðvar á Bíldudal, sé ég um bókasafn Bílddælinga og félagsstarf eldra fólks. Í félagsstarfinu er líf og fjör, næst á dagskrá eru stífar æfingar fyrir komandi pílukeppni á móti mið- og unglingastigi Bíldudalsskóla.
Það var mikið lán í óláni fyrir mig þegar starfsemi Bíldudalsskóla flutti yfir í Muggsstofu haustið 2022 vegna myglu í skólahúsnæðinu og ég hef því daglegan félagsskap af starfsfólki skólans. Það mun síður en svo losna við mig þegar starfsemi Bíldudalsskóla færist yfir í glænýtt húsnæði í haust því ég stefni á að troða mér inn í kaffitímann þeirra reglulega, jafnvel þó ég þurfi að greiða fyrir það af og til í formi bakkelsis. Auk þess keyri ég yfir á Patreksfjörð tvisvar í viku til að vinna í ráðhúsi Vesturbyggðar. Þar hitti ég gott og reynt samstarfsfólk sem er alltaf til í að ráðleggja og hjálpa mér með vinnuna og taka þátt í fíflalátunum þess á milli.
Menning og listir eru mitt helsta áhugamál og ég myndi segja að ég væri menningarstórneytandi. Þegar ég var í námi í London fór ég vikulega í leikhús eða á myndlistarsýningar en eftir að ég flutti á Bíldudal hef ég hlustað meira á tónlist, lesið og horft á kvikmyndir. Svo reyni ég að sjálfsögðu að sækja alla þá menningarviðburði sem við íbúar Vesturbyggðar erum svo heppnir að geta sótt í heimabyggð, svo sem tónlistarhátíðirnar Alþjóðlegu píanóhátíð Vestfjarða og Blús milli fjalls og fjöru, að ógleymdri heimildamyndahátíðinni Skjaldborg.
Það skemmtilegasta sem ég geri er að syngja í góðum félagsskap og finnst því fátt betra en gott gítarpartý, sem mig vanhagar að sjálfsögðu ekki um á Bíldudal. Mér líður stundum eins og örlögin hafi leitt mig hingað, ég varð samstundis heimakær og gekk meira að segja svo langt að kaupa mína fyrstu íbúð í plássinu þar sem ég get dáðst að Byltunni á hverjum morgni. Bílddælingar eru skemmtilegir, söngelskir húmoristar með stóra persónuleika sem er akkúrat sú manngerð sem ég vil vera umkringd á hverjum degi.
Eftir að hafa tíundað ætt mína í upphafi þessa viðtals er ótalin sú vestfirska fjölskylda sem ég hef eignast í öllum mínum góðu vinum á svæðinu sem eru mér til halds og trausts og eru alltaf til í að mála fjörðinn rauðan. Þar á meðal er vinkona mín og meðleigjandi Erna Lea Bergsteinsdóttir, Hafnfirðingur sem flutti vestur nýlega til að taka við starfi verkefnastjóra farsældar hjá Vestfjarðastofu. Sambúð okkar stallanna fer einkar vel af stað, hún fer í sturtu á kvöldin en ég á morgnana og því hefur okkur ekki enn tekist að klára heita vatnið úr litla hitakútnum sem er annars daglegur fylgifiskur þess að búa á Bíldudal, eins og víðar á Vestfjörðum. Mér finnst ég heppin að búa og starfa hér og verð ævinlega þakklát fyrir móttökurnar.
Fyrr á þessu ári var stofnað rafíþróttafélag Bíldudals. Af því tileffni var rætt við Rúnar Örn Gíslason stofnanda félagsins.
Hve margir eru að stunda rafíþróttirnar og hversu lengi hefur það verið stundað á svæðinu?
Félagið fór fyrst af stað núna í janúar með æfingar og í dag eru sex iðkendur að taka þátt og nokkrir á biðlista, en fjöldinn sem getur tekið þátt er því miður bundinn við fjölda tölva/þjálfara, og þar sem þetta er nýbyrjað og ég einn að þjálfa eins og staðan er get ég bara haldið tvær æfingar í viku með sex iðkendum. Eins og staðan er í dag eru æfingar 2x í viku fyrir aldurshópinn 13-18 ára
Hvernig er skipting kynjanna?
Jafnt hlutfall, en gaman að nefna að þegar ég hélt opnar kynningaræfingar að þá var fyrsta æfingin 100% stelpur og þurftu þæri þá að skiptast á þar sem ekki voru nóg af tölvum fyrir allar. En rafíþróttir eru akkúrat ekkert bundnar kynjum eða aldri heldur bara áhuga.
Hvaða leiki er verið að spila?
Núna í byrjun hefur einbeitingin verið á að prófa sem flesta leiki svo hægt sé að finna nákvæmlega í hvaða leik áhuginn liggur mest en markmiðið er að æfa mest í leikjum þar sem liðsvinna og samskipti eru mikilvæg til þess að ná árangri.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Lið, keppnir etc.?
Framtíðarplanið er að redda húsnæði þar sem núverandi staðsetning er einungis tímabundin, en því miður er mjög lítið af húsnæði lausu í augnablikinu sem hægt væri fyrir félagið að nýta. Einnig er markmiðið að ná að fjölga tölvum og þjálfurum til þess að geta mætt eftirspurn svæðisins og komið af stað alvöru menningu fyrir rafíþróttum hérna með mótshaldi og viðburðum.
Fyrir utan það er stefna félagsins að fjölga tækifærum til íþróttaiðkunar á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem skipulagðar íþróttir geta reynst erfiðar á litlum stöðum, einnig stefnum við á að taka þátt í þeim mótum sem í boði eru á landinu.
Annars er það draumur hjá mér að fleiri félög verði stofnuð á Vestfjörðum þannig hægt verði að mynda sterkt samstarf, minnka bilið milli bæjarfélaga og búa til vettvang þar sem Vestfirðir í heild geta sameinast, þar sem keppnir í rafíþróttum þurfa ekki að vera bundnar staðsetningum þannig hægt er að hafa keppnisleiki án þess að lið þurfi að koma í persónu, sem hefur reynst erfiðlega í gegnum tíðina hérna á svæðinu.
Þá erum við að tala um hluti bara eins og Vestfjarðamót, eða æfingaleiki á móti liðum frá öðrum félögum að vestan, sameiginlegar æfingar gegnum fjarfund, eða geta sameinast iðkendum frá öðrum félögum til að mynda lið sem getur tekið þátt í þeim mótum og deildum sem eru til staðar.
Eitthvað í lokin
Mig langar að hvetja sem flesta til þess að fara af stað með að stofna rafíþróttarfélög hérna á Vestfjörðum og hafa svo samband við mig. Svo ef það eru einhverjir hérna á sunnanverðum Vestfjörðum sem myndu hafa áhuga á að taka þátt sem þjálfarar og auka þá framboð æfinga á svæðinu, endilega hafa samband. Einnig ef fólk vill koma saman, nýta aðstöðuna og stofna lið innan deildarinnar til þess að taka þátt í þeim mótum og deildum sem eru í gangi hérna á Íslandi að endilega hafa samband við mig.
Hægt er að senda póst á netfangið IFB465@Outlook.com eða senda skilaboð á facebook síðu okkar “RÍFB”
Að lokum langar mér að þakka sérstaklega okkar helstu stuðningsaðilum, Arnarlaxi, Lionsklúbbi Patreksfjarðar, Arctic Fish, Fjarðaleið, Íslenska Kalkþörungafélaginu, ScaleAQ Ísland og Nesskip án þeirra stuðnings hefði þetta ekki verið hægt.
Frá fjórðungsþinginu sem haldið var í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.
Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var á fimmtudaginn á Ísafirði lýsir í ályktun fundarins miklum áhyggjum af þreföldum sértækum Vestfjarðasköttum sem boðaðir er í fjármálaáætlun ríkisins.
“Tvöföldun veiðigjalds, hækkun fiskeldisgjalds og sérstakur skattur á skemmtiferðaskip munu eins og þau eru lögð upp hafa gríðarleg áhrif til hins verra á auðlindadrifið útflutningshagkerfi Vestfjarða. Þessir þættir, auk kílómetragjalds, kolefnisgjalds og óvissu í tengslum við flug til Ísafjarðar eru til þess fallnir að draga úr samkeppnishæfni atvinnulífs og sveitarfélaga á Vestfjörðum.
Fjórðungsþingið hvetur stjórnvöld til að endurskoða þessi áform og draga þannig úr þeirri óvissu sem framlögð fjármálaáætlun hefur skapað á Vestfjörðum. Boðaðar mótvægisaðgerðir eru enn óútfærðar og fyrirsjáanleiki að auknum tekjum ríkisins verði ráðstafað í uppbyggingu í þágu Vestfirðinga ekki til staðar.”
Óskað er eftir tilnefningum til bæjarlistamanns Vesturbyggðar árið 2025. Frestur til að senda inn tillögu er til mánudagsins 5. maí næstkomandi.
Viðurkenningin verður afhent þann 17. júní næstkomandi. Henni er ætlað að koma verkum bæjarlistamannsins á framfæri og upphefja hans góðu störf í þágu listarinnar í bæjarfélaginu.
Sú fyrsta sem fékk viðurkenninguna var Rannveigu Haraldsdóttur árið 2021, síðan Signýju Sverrisdóttur árið 2022, Guðnýju Gígju Skjaldardóttur árið 2023, og síðast Birtu Ósmann Þórhallsdóttur árið 2024 en það var í fyrsta skipti sem verðlaunin voru veitt í sameinuðu sveitarfélagi.
Tilnefna má listamenn úr öllum listgreinum, til dæmis hannyrðum, myndlist, útskurði, ritlist, leiklist, tónlist eða öðru. Tilnefningum má gjarnan fylgja rökstuðningur og upplýsingar um störf listamannsins en ekki er gerð krafa um slíkt.
Sérstök valnefnd mun velja hver hlýtur viðurkenninguna. Hún mun hafa innsendar tillögur til hliðsjónar við valið en er heimilt að veita viðurkenninguna listamanni sem var ekki tilnefndur.
Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar var meðalævilengd karla á Íslandi var 80,9 ár árið 2024 og meðalævilengd kvenna 84,3 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans.
Frá árinu 1990 hafa karlar bætt við sig rúmlega fimm árum og konur tæplega fjórum í meðalævilengd. Ævilengd karla jókst um 0,2 ár frá árinu 2023 á meðan hún jókst nokkru meira hjá konum eða um 0,5 á milli áranna 2023 og 2024.
Ungbarnadauði í Evrópu þriðji minnsti á Íslandi Árið 2024 létust 2.610 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.365 karlar og 1.245 konur. Dánartíðni var 6,8 látnir á hverja 1.000 íbúa og stóð í stað á milli ára.
Árið 2024 mældist ungbarnadauði á Íslandi 1,4 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum sem er lækkun um 0,9 frá árinu 2023 og lækkun um 0,6 samanborið við meðaltal tíu undangenginna ára (2014-2023). Þegar horft er á tíu ára tímabil (2014–2023) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 2,0 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum og var ungbarnadauði einungis fátíðari en hér á landi í Andorra (1,8), Finnlandi (1,9) og Slóveníu (2,0). Fyrir sama tímabil var ungbarnadauði að meðaltali 2,1 barn í Eistlandi og Noregi, 2,2 í Svíþjóð og 2,5 í Tékklandi og Svartfjallalandi. Tíðastur var ungbarnadauði í Aserbaídsjan, 10,9 af hverjum 1.000 lifandi fæddum yfir tímabilið 2014-2023 samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.