Síða 5

Ísafjörður: Innanlandsflug er hluti af almenningssamgöngum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti bókun um innanlandsflug á fundi sínum í gær. Var það í tilefni þess að Icelandair hefur ákveðið að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar haustið 2026.

„Í ljósi þeirrar ákvörðunar Icelandair að leggja af áætlunarflug til Ísafjarðar í lok sumars 2026 lýsir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ánægju með þann skýra vilja sem komið hefur frá yfirvöldum samgöngumála, þingmönnum og nágrannasveitarfélögum um að finna varanlega og hágæða lausn á flugsamgöngum milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Flugið er nauðsyn fyrir íbúa, fyrirtæki, stofnanir og ferðaþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum. Innanlandsflug er hluti af almenningssamgöngum og sem slíkt á ábyrgð ríkisins. Ríkið þarf að vera reiðubúið, ef þarf, að styðja flugið með sértækum hætti þar sem um er að ræða stórt byggðamál. Tíminn er naumur. Bæjarstjórn hvetur stjórnvöld til þess að tryggja að þessa sjáist merki í fjármálaáætlun sem lögð verður fram fljótlega.“

Bjóðum íslenskuna fram 

Við Íslendingar höfum ávallt verið talin gestrisin þjóð, tökum vel á móti fólki og leggjum okkur fram við að sýna okkar bestu hliðar og draga fram úr búrinu þau bestu föng sem völ er á. Það fáum við að heyra frá þeim sem sækja okkur heim, erlendir gestir flykkjast hingað og dásama þjóð og land.   

Nýlega fór íbúatalan hér á landi yfir 400 þúsund og þar af eru 80 þúsund með erlent ríkisfang eða um 20%. Um síðustu aldarmót bjuggu á Íslandi 280 þúsund manns og aðeins örfá prósent af erlendu þjóðerni. Við getum með sanni sagt að Ísland hafi aðdráttarafl og sé samkeppnishæft land sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu. Það er ánægjuefni enda erum við þjóð meðal þjóða og viljum búa í frjálsu landi og teljum að fjölmenning auðgi bæði mannlíf og atvinnulíf hér á landi. 

Það sem við höfum upp á að bjóða er fallegt land, heilbrigt samfélag, öflugt velferðar- og menntakerfi, falleg náttúra og svo er það íslenskan. 

Berum íslenskuna á borð 

Það að flytja til annars lands í nýtt málumhverfi er áskorun. Að læra nýtt tungumál ásamt því að aðlaga sig breyttu umhverfi er áskorun. Íslendingar hafa upp til hópa viljað halda í gestrisni þjóðarsálarinnar og verið fljótir að svara gestum og nýbúum á ensku, jafnvel þrátt fyrir að viðkomandi sé alls ekki enskumælandi, en enskan má heita útbreitt tungumál. Við virðumst vera svo sannfærð um að það sé svo erfitt að læra málið að það sé ókurteisi að bjóða það fram.  

Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Það er á ábyrgð stjórnvalda og okkar að unnt sé að nota hana á öllum sviðum íslensks samfélags. Íslenskan gegnir veigamiklu samfélagslegu hlutverki og því mikilvægt að allir íbúar landsins hafi tækifæri til að geta tjáð sig á henni, því umræða og þjóðmál eru að mestu leyti á íslensku. Það er því á ábyrgð okkar sem kunnum tungumálið og okkar sem lifum í þessu málumhverfi að miðla málinu til nýbúa sem eru að fóta sig í samfélaginu.  

Almannakennari 

Við verðum að axla ábyrgð, við erum öll almennakennarar. Tungumál lærist með því að iðka það. Nú búum við í breyttum veruleika og fólk með annað móðurmál en íslensku er nú stór hluti samfélagsins. Við gerumst almannakennarar með því að tala íslensku, sýna þolinmæli, hlusta og endurtaka. Það er líka okkar að auka meðvitund og virkni samfélagsins við að hjálpa fólki við máltileinkun íslenskunnar. Áfram er það réttur fólks að geta nýtt sitt móðurmál þegar það er að ná fram persónulegum réttindum til að mynda í heilbrigðiskerfinu og í samskiptum við stofnanir.  

Gefum íslensku séns ! 

Halla Signý Kristjánsdóttir 

Verkefnastjóri Gefum íslensku séns Ísafirði 

Baráttudagur kvenna á morgun: boðið í bíó á Ísafirði í tilefni 50 ára afmælis

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er 8. mars verður öllum boðið í bíó á Ísafirði kl. 14 þennan dag. Sýnd verður kvikmyndin Dagurinn sem Ísland stöðvaðist. 

Bryndís Friðgeirsdóttir segir að um sé að ræða heimildarmynd um Kvennafríið sem konur tóku sér þann 24. október 1975 til að vekja athygli á mikilvægi sitt í íslensku atvinnulífi og krefjast breytinga í átt til jafnréttis.

„Allar götur síðan hafa konur komið saman um land allt þann 24.október og krafist breytinga. Í fyrra var metþátttaka víða um land og á Ísafirði var safnast saman á Silfurtorgi og haldið þaðan í kröfugöngu og skundað á baráttufund í Edinborgarhúsinu. Nú eru liðin 50 ár síðan konur lögðu niður launuð og ólaunuð störf á miðjum degi og stöðvuðu þannig samfélagið. Af því tilefni hafa samtök launafólks, kvenna, feminista, hinsegin fólks, fatlaðs fólks og fleiri tekið höndum saman og blásið til Kvennaárs 2025 þar sem kröfunni verður fylgt eftir með því að standa fyrir viðburðum, stórum sem smáum um allt land allt árið.“

Verkalýðsfélag Vestfirðinga styrkir sýninguna. 

Myndirnar tók Matthildur Helgadóttir Jónudóttir á Ísafirði í fyrra.

Vikuviðtalið: Valur Richter

Með stærsta hreindýrið.

Ég heiti Valur Richter, fæddist í Reykjavik fyrir nokkrum árum, foreldrar mínir bjuggu á Suðureyri þegar ég kom undir en fluttu suður við fæðingu. Ég var alltaf sendur í sveit á sumrin,og var látin vinna fyrir vistinni og matnum, þar sem ég var mjög ofvirkur. Fór mjög snemma að vinna fyrir mér, man sérstaklega um 12 ára aldur var ég oft að vinna frá 6 á morgnana til 11 á kvöldin í sauðburði og fleirri verkum. Ég var sendur ungur á Þingeyri og átti að vera í vist hjá bróðir mömmu, Dolla í Svalvogum, en fór mjög fljótlega á sjó á Framnesinu Ís 608. Endaði með að Ég giftist á Þingeyri og eignaðist 2 stráka Ívar Má  og Ólaf Brynjar. Skildi svo og fluttist á Ísafjörð 1995 eftir snjóflóð á Flateyri.

Það má geta þess að ég var að vinna á þessum tima með Þórði Júlíussyni pípara á Flateyri og átti að vera á Flateyri þegar snjóflóðið var, var búinn að reyna að komast á Flateyri á jeppa og snjósleða en allt bilaði, var búinn að reyna 3 sinnum að komast en ekkert gekk. Líklega ekki verið feigur þá! En ég eins og margir aðrir á Þingeyri fórum á Flateyri reyna að hjálpa til eftir snjóflóðið. Það reyndist mjög erfitt bæði andlega og likamlega ,  ég gróf ég upp vin og vinnufélaga minn, þar sem ég hefði átt að vera bara í næsta herbergi. En erfiðast var að grafa upp ung börn , við grófum allan daginn og langt fram á kvöld ,án þess að hugsa um okkur, svo mörg ár eftir þetta var sálin og bakið í klessu og enn koma inn í hugann svipmyndir af fólki sem við grófum upp og margt fleira sem festist í hausnum á manni.

En á Ísafirði fór ég að vinna hjá Rörtækni ehf og fljótlega fór ég að spá í að reyna að læra eitthvað til að fá einhver réttindi. Það kom svo í ljós að ég sem alltaf hafði verið stimplaður sem tossi í skóla gat allt í einu lært svo ég kláraði sveinspróf í pípulögnum og húsasmíði og meistaranám í pípulögnum, meistaranám í húsasmiði, vélstjórann , rennismíð ,auk skipstjórnarréttinda og fl. minna gagnlegt. Einnig er ég meindýraeyðir og er það lika töluverður partur af starfinu. auk þess að hafa verið við refa og minkaveiðar frá árinu 1987.

Ég og Össur Össurason stofnuðum Rörás ehf um 2010 og seinna hætti Össur vegna aldurs og keypti ég þá hans hluta og hef rekið Rörás síðan. Nú starfa á bilinu 4 – 8 manns hjá Rörás ehf.

Á Ísafirði kynnist ég Teresu frá Póllandi og erum við gift í dag og á ég með henni tvær stelpur, Söndru Mariu  og Karen Rós.  Við keyptum Aðalstræti 9 (sem var  verslun Pólsins áður ) og gerðum það hús upp frá grunni og búum í því í dag.

Svo má ekki gleyma að minnast á áhugamálin, sjálfsögðu skotfimi  og veiðar bæði skotveiðar og stangveiðar og svo snjósleðar og fjórhjól, siglingar, fjallaferðir, kajak og siglingar og fl. og fl. Og svo að sjálfsögðu skotfélagið Skotís sem útheimtir mjög mikla sjálfboða vinnu.

Kannski ein smá saga í lokin. Ég fór eitt sinn fyrir mjög löngu síðan á svartfuglsveiðar á mjög litlum gúmmibát út í Djúp. Einhvers staðar utarlega í Djúpinu  í miklu logni rekst ég á nokkra háhyrninga sem komu mjög nálægt mér og voru þeir að reyna að velta bátnum hjá mér. Bardaginn við þennan sem var ágengastur endaði með því að ég skaut hann, enda sá ég að hann myndi ná að hvolfa bátnum og éta mig en við það urðu hinir eitthvað æstir og ætluðu greinilega að hefna sín og reyndu aftur og aftur að velta tuðrunni. Ég gaf allt í botn á þessari litlu tuðru og stefndi til Ísafjarðar þeir eltu mig og reyndu að komast sitt hvoru meginn við mig og króa mig af, en ég náði alltaf að beygja frá þeim og þeir voru komnir mjög nálægt mér við Hnifdalsbryggu. Ég hef sjaldan verið jafn feginn þegar ég komst loksins í land.

Og svo að lokum lifsmottóið, þar sem ég man ekki eftir að hafa gleymt neinu, verið jákvæð, þetta reddast.

Patreksfjörður: Fjölval gefur 2,5 m.kr.

Verslunin Fjölval á Patreksfirði afhenti í vikunni Björgunarbátasjóði Vestur Barðastrandasýslu 2,5 miljónir til kaupa á nýju björgunarskipi.

Nýtt björgunarskip Landsbjargar á að koma til Patreksfjarðar á næsta ári og þurfa heimamenn að safna fyrir um fjórðungi kaupverðsins. Ríkissjóður greiðir helming og Landsbjörg greiðir fjórðung. Hlutur heimamanna er um 85 m.kr.

Stendur yfir söfnun fyrir þeim hlut. Oddi hf gefur gefið 30 m.kr. og strandveiðisjómenn hafa safnað 25 m.kr. svo nefnd séu tvö dæmi um framlög sem þegar hafa borist.

Byr í seglum á fundi um vindorku

Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála.

Það var fullur salur á vindorkufundi KPMG og Orkuklasans sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í gærmorgun. Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála ávarpaði fundinn og tók fram að beislun nýrra orkuleiða væri lykilatriði til að stuðla að bættu orkuöryggi og auknum sveigjanleika orkukerfisins. 

Í tilkynningu frá aðstandendum fundarins segir að Jóhann Páll hafi rættum nauðsyn þess að skapa sátt um vindorku. „Við þurfum að leysa úr óvissu þegar kemur að greiðslu fasteignagjalda af orkumannvirkjum. Ég held að ef við náum ekki samstöðu um þetta þá komumst við ósköp lítið áfram og náum engri samfélagslegri sátt um vindorkukosti. Því tel ég einboðið að teikna verði upp skýra mynd af því hvernig ávinningur af vindorku, sem og öðrum orkukostum, skili sér með sanngjarnari hætti í nærsamfélagið,“ sagði ráðherra. 

Ætlar að ryðja í burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum

„Hér er úrlausna þörf og það kallar á samhæfða vinnu milli míns ráðuneytis og svo fjármála- og efnahagsráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins,“ sagði Jóhann Páll og tók fram að rík samstaða um mikilvægi þessara mála ríkti innan ríkisstjórnarinnar: „Markmið okkar í orkumálum eru skýr. Við ætlum að ryðja burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum. Við ætlum að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við raforkuöryggi, orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.“

Ný aðferðafræði við framkvæmd fasteignamats

Sylvía Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri hjá KPMG, fór í erindi sínu yfir aðferðarfræði, sem KPMG hefur þróað ásamt COWI og Gnaris fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, við framkvæmd fasteignamats á orkumannvirki og dreifingu skatttekna til nærsamfélaga með það að markmiði að sveitarfélög fá sanngjarna hlutdeild. „Við höfum nú lagt fram tillögu að aðferðafræði og tæknilegum lausnum sem hægt er að nýta til grundvallar útreikningum og skiptingu skatttekna á nærsamfélög,“ sagði Sylvía. „Hluti af því er hönnun sýnileikamódels, þar sem áhrifasvæði vindorkuvera eru metin út frá radíus umhverfis túrbínu, en þannig er hægt að reikna sanngjarna dreifingu skatttekna af virkjunum, fyrir þau sveitarfélög sem eru í nánd við þær” 

Sjálfbært orkukerfi bæði umhverfisvænna og hagkvæmara

Anna-Bryndís Zingsheim Rúnudóttir, verkefnastjóri hjá KPMG, fjallaði um bestunarlíkan til hönnunar á framtíðarorkukerfi Íslands til fullra orkuskipta árið 2050. Þar sýndi hún fram á að lausnir eins og orkugeymsla í formi rafgeyma og geymslutanka fyrir vetni og rafeldsneyti auk sveigjanlegrar eftirspurnar geta leitt til hagkvæmara og umhverfisvænna orkukerfis. Auk þess er hægt að nýta þessar lausnir í jöfnun á óstöðugleika vinds.  „Samkvæmt grófum útreikningum má áætla að sparnaður við að byggja upp snjallt, grænt orkukerfi til framtíðar hlaupi á tugmilljörðum króna á ári hverju ef borinn saman við kostnað við innflutning á jarðefnaeldsneyti í dag. Og þá eru umhverfisáhrifin ótalin,“ sagði Anna-Bryndís.

Vestfirskir listamenn: Guðmundur Ingi Kristjánsson

F. 15. janúar 1907 á Kirkjubóli í Bjarnardal Önundarfirði. D. 30. ágúst 2002.

Öndveigsverk: Eiginkonan í orlofi, Selja, Vornótt.

Það er ekkert svo hugljúft sem hlátur

er hann hljómar frá einlægri sál.

Hann er gæfunnar leikandi geisli,

hann er gleðinnar fegursta mál.

Eigi annað hægt er fjalla skal um skáld að hefja erindið úr ranni þess er fjallað er um. Bóndann, félagsmanninn og sjálft sólarskáldið Guðmund Inga Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnardal firði Önundar þess er fyrst byggði fjörðinn. Elsta kvæðið í hans fyrstu ljóðabók Sólstafir, 1938, er einmitt um Önundarfjörð en kvæðið orti Ingi aðeins 17 ára að aldri. Alla tíð átti hann eftir að yrkja um sína sveit og ekki síðar sveitunga. Síðar samdi sveitungi hans Brynjólfur Árnason, á Vöðlum, lag við ljóðið Önundarfjörður og vilja margir meina að það sé hinn eini sanni þjóðsöngur Önundarfjarðar enda ekki ónýtt upphaf einsog hér má lesa.

Ó, fjörður, okkar fóstursveit,

við finnum yndi hér

er yljar landið eygló heit

og eins er mjöllin þekur reit

því, fjörður kær, í faðmi þér

er fagurt nær sem er.

Ljóðabóndi

Fæddur og uppalinn á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði (til gamans má geta þess að Kirkjubólin eru fjögur í firðinum). Foreldrar hans voru ekki bara bændur heldur og hagyrðingar ágætir auk þess sem bækur voru hafðar uppi á heimilinu. Segin saga en þó eigi of oft sögð að krakkarnir læri það sem fyrir þeim er haft enda áttu börn þeirra auðvelt með að kveða þó Ingi sé þeirra þekktastur. Tók hann loks við búi foreldra sinna á Kirkjubóli lýðveldisárið, 1944, og sama ár flutti hann hátíðarljóð er Vestfirðingar fögnuðu saman lýðveldinu á Hrafnseyri á afmælisdegi þekktasta sonar þess staðar. Ári síðar sendi hann frá sér aðra ljóða bók er vitanlega hafði sólarheiti eða Sólbráð, 1945. Þar brá aðeins við nýjan tón frá fyrri ljóðasólinni enda hafði mannlegt myrkur staðið yfir síðustu ár, heimsstyrjöldin hin síðari. Víst var skáldið friðarsinni einsog margur listamaðurinn og bara hinn almenni heimsborgari það eru bara þessi fáu skemmdu epli sem skapa ófriðinn. Ingi tók virkan þátt í hinum þörfu störfum hernámsandstæðinga. Líklega er hans þekktasta ljóð einmitt sótt í hersarpinn kvæðið Selja um hina hina vestfirsku stúlku er flytur suður hvar hún þjónar á knæpu hermanna. Ríkan þátt í vinsældum Seljukvæðis er án efa sú að það fékk utanum sig lag er Jón Jónsson frá Hvanná samdi og var þá búsettur vestra. Reyndar fékk tónskáldið ljóðaskáldið til að breyta kvæðinu dulítið og taka hernámstenginguna út svo það mundi ekki lenda á bannlista útvarpsins fyrir einhverja stríðspredikun. Ingi var eigi á sama máli en lét undan þar sem hann vissi að tónmaðurinn væri eitthvað veikur fyrir hjarta og eitthvað svona ljóðauppnám gæti jafnvel fjölgað slögum þessi músíkalska um of.

Líklega er ljóðið og músíkin einmitt ein besta tvenna listasögunnar enda hafa ófá ljóðin einmitt lærst meðal þjóðarinnar einmitt í gegnum tónlistina. Það var ekki bara hjartatónskáldið Jón sem heillaðist af ljóðum ljóðabóndans á Kirkjubóli því fjölda margir hafa búið til músík við kvæðin. Nægir þar að nefna Jónas Tómasson, Sigvalda Kaldalóns, Bjarna Guðmundsson og svo áðurnefndan sveitunga skáldins Brynjólf Árnason. Eigi að ástæðulausu sem músík skáldin heilluðust því yrkisheimur Inga var fjölbreyttur ekki bara bændalífið og Önundarfjörðurinn heldur orti hann um landið, þjóðarsálina og hið daglega amstur. Ljóðin urðu einmitt til við daxins verk og best þótti að láta þau mjattla soldið í kollinum áður en skáldið settist niður og ritaði þau á blaðið. Hann var og listaskrifari enda vinsæll í ritarastarfið í þeim fjölda mörgu félögum sem hann tók virkan þátt í alla tíð. Allt frá umgmennafélagsstarfi til búnaðar- og sveitarstjórnarstarfa. Oddviti var hann í sinni sveit í ein 26 ára auk þess að vera í framboði fyrir Framsókn í þrígang. Þó margt hafi nú verið talið og í raun ótrúlegt hvað maðurinn getur afrekað þá er ótalið að Ingi var lengi kennari í sinni sveit og meira að segja skólastjóri á Holti til fjölda ára. Menntun átti sannlega sinn þátt í hans lífshjóli en til gamans má geta þess að hann stúderaði hið merka mál esperanto og flutti meira að segja um það sérstakt erindi á Alþingishátíðinni á Framnesi í Dýrafirði árið 1930. Nema hvað örfáum árum síðar eru allt í einu staddir á hlaðinu á Kirkjubóli ungir menn frá Tírol. Munaði minnstu að andlitið yrði eftir á bæjarmottunni hjá hinum erlendu gestum þegar Ingi talaði esperantó einsog það væri hans móðurmál.

Árið 1962 gekk Ingi að eiga Þuríði Gísladóttur frá Mýrum í Dýrafirði en hún átti fyrir son sem ólst upp hjá þeim. Árið 1984 fékk Ingi verðskuldað riddarakrossinn og heiðursborgari var hann bæði Mosvallahrepps og Ísafjarðarbæjar. Alls urðu hans ljóðabækur fimm og allar báru þær upphafið bjarta sól og það gerði einnig hans ljóðasafn Sóldagar er kom fyrst út 1993 og svo árið 2007 með þremur áður óbirtum ljóðum. Það voru sveitungar og frændsystkyni sem stóðu að útgáfunni.

Elfar Logi Hannesson, blekbóndi Dýrafirði.

Heimildir:

BB.is. Menningar-Bakki. 15.1. 2021.

Morgunblaðið 7. 9. 2002.

Sóldagar. Guðmundur Ingi Kristjánsson, 2007.

Kirkjuból í Bjarnadal.

Mósaíkhekl á Ísafirði

Ef þig langar til að læra að hekla mósaíkmunstur er um að gera að mæta í Heimabyggð 7. mars kl. 18:00-20:00

Mósaík munstur eru ótrúlega skemmtileg og einföld hekl munstur sem hægt er að nota í allskonar verkefni.

Á námskeiðinu er kenndur grunninn og tæknin í mósaíkmunstur hekli.

Námskeiðið er ætlað þeim sem kunna aðeins að hekla og henta því ekki algjörum byrjendum, þá er nóg að kunna bara grunninn: loftlykkjur, fastalykkjur og stuðla.

Kennarinn er Tinna Þórudóttir Þorvaldar sem hefur heklað og stundað hannyrðir síðan hún man eftir sér. Hún hefur gefið út 3 heklbækur, þær Þóru, Maríu og Havana, og ritstýrt þeirri fjórðu, Heklfélaginu. Hún er þaulreynd í heklkennslu og hefur haldið heklnámskeið sl. 15 ár og kennt mörg hundruð nemendum handtökin.

Náttúruverndarstofnun er með starfsemi og þjónusta vítt og breitt um landið

Náttúruverndarstofnun tók til starfa um áramót og fer með stjórnsýslu og eftirlit sem og önnur verkefni á sviði náttúruverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, verndar villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar.

Náttúruverndarstofnun rekur átta gestastofur um allt land. Fimm þeirra eru staðsettar í Vatnajökulsþjóðgarði, tvær í Snæfellsjökulsþjóðgarði og ein á Ísafirði. Gestastofurnar þjóna sem hlið inn á friðlýst svæði og þjóðgarða og veita gestum margvíslega þjónustu og upplýsingar. Einnig eru landvörslustöðvar og skrifstofur á gestastofunum.

Auk gestastofanna eru landvörslustöðvar á láglendi og hálendi víðs vegar um landið. Starfsemi þeirra er háð árstíðum en landvarsla gegnir lykilhlutverki í að tryggja verndun náttúrunnar og góða upplifun gesta á friðlýstum svæðum.

Náttúruverndarstofnun annast veiðistjórnun villtra fugla og spendýra. Í því fellst áætlanagerð, alþjóðlegt samstarf og þjónusta við veiðimenn.

Höfuðstöðvar Náttúruverndarstofnunar eru á Hvolsvelli en starfsfólk stofnunarinnar vinnur einnig á skrifstofum víðs vegar um landið. Flest störf eru á landsbyggðinni en yfir 100 manns starfa hjá stofnuninni að jafnaði. Á sumrin fjölgar í hópnum með landvörðum og þjónustufulltrúum sem bætast við til að mæta auknum gestafjölda.

Sextíu milljónir í námsefni um hvali og hafið

Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, og samstarfsfólk hennar hefur fengið veglegan styrk til að búa til stafrænt námsefni um hafið sem byggjast mun m.a. á myndefni úr rannsóknarleiðangrum um norðurhöf.

Styrkurinn nemur 400.000 evrum, jafnvirði um 60 milljóna króna.

Styrkurinn kemur frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og er vegna verkefnisins „Visual Storytelling for Ocean Education (ViSOE): developing an innovative digital resource to facilitate ocean education training, based on visual, personal stories from an Arctic sailing expedition“. 
Markmið ViSOE-verkefnsins að er leggja kennurum til nýstárlegt og myndrænt námsefni sem styrkir þekkingu og vitund nemenda um hafið og lífið í því. Námsefnið, sem verður aðgengilegt á netinu, verður bæði nýtt í kennaranámi og þá ætla aðstandendur þess einnig að þróa stutt námskeið um efnið fyrir starfandi kennara. Kennsluefnið er hugsað fyrir 12-14 ára nemendur og verður á ensku til að byrja með en markmiðið er að þýða það líka yfir á Norðurlandamálin.

Verkefnið kemur í kjölfar annars verkefnis sem Marianne vann að með hluta hópsins og naut stuðnings Nordplus-áætlunarinnar. „Þar notuðum við sýndarveruleika til þess að gefa nemendum innsýn í líf hvala og þá mengun sem ógnar þeim í heimshöfunum. Þar byggðum við m.a. á gögnum úr rannsóknaskipinu Barba. Við verðum ekki með sýndarveruleika í nýja verkefninu en munum byggja að hluta til á efninu sem þróað var í fyrr verkefninu,“ segir Marianne.

Þar að auki verður bætt við efni sem byggist á rannsóknarleiðagri sem er að hefjast. „Andreas Heide og samstarfsfólk í Barba-verkefninu (barba.no) leggur af stað í siglingu frá Skervöy í Norður-Noregi eftir um tvær vikur og mun safna myndbandsefni og öðru efni tengdu hafinu fyrir verkefnið á næstu mánuðum á svæðum þar sem háhyrningar og hnúfubakar eiga fæðustöðvar. Þau hafa fengið lánaða neðansjávarhljóðnema hjá okkur á Rannsóknarsetrinu á Húsavík og munu vonandi safna upptökum af hljóðum hvalanna sem geta nýst í kennsluefnið,“ segir Marianne og bætir við að starfsfólk Rannsóknasetursins hafi áður unnið með Andreas og efni úr því samstarfi verði einnig nýtt við þróun kennsluefnisins.

Nýjustu fréttir