Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 49

Ísfirðingur í atvinnumennsku í blaki

Ísfirðingurinn Hafsteinn Már Sigurðsson mun á komandi tímabili spila með karlaliði Habo í sænsku úrvalsdeildinni í blaki, en gengið var frá samningum um það í síðustu viku. Frá þessu er sagt á heimasíðu íþróttafélagsins Vestra.

Habo er 12 þúsund manna bær í sunnanverðri Svíþjóð, staðsett við Vatten, sem er eitt af stærstu stöðuvötnum í landinu.  Blaklið Habo er að mestu byggt upp á ungum heimamönnum en hefur engu að síður staðið sig vel í Sænsku deildinni og endað í topp 4 í deildinni síðustu tímabil.

Hafsteinn Már er uppalinn í Vestra í gegnum yngriflokka, en byrjaði að spila með karlaliðinu tímabilið 2015-16, á fyrsta tímabili Vestra í næst efstu deild í blaki.  Fjórum árum síðar hóf Vestri þátttöku í úrvalsdeild, eftir að hafa unnið 1. deild tvisvar.  Með Vestra hefur Hafsteinn Már spilað allar stöður á vellinum, en hefur undanfarin ár spilað stöðu Dió og hefur sem slíkur verið kjörinn tvisvar í draumalið úrvalsdeildarinnar síðustu fjögur ár og var eftir síðasta tímabil valinn besti íslendingurinn í deildinni.

Með Hafstein Má sem fyrirliða, náði úrvalsdeildarlið Vestra tvisvar að enda í 4 sæti í deildinni og komast jafn oft í undanúrslit í Kjörísbikarnum.  Síðustu tvö tímabil hefur Hafsteinn Már verið í námi fyrir sunnan og spilað með úrvalsdeildarliði Aftureldingar og spilaði í vor til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á móti Hamri.

Hafsteinn Már hefur spilað með Íslenska landsliðinu frá árinu 2016, þá fyrst með U17, en hefur síðustu 3 ár spilað með A-landsliðinu og verið með öflugustu leikmönnum liðsins.

Afmælisskákmót á Verbúðinni

Föstudaginn 5. júlí verður haldið afmælisskákmót á Verbúðinni í Biolungarvík kl. 14-17.

Afmælisbörnin eru tvö: Sæbjörn Guðfinnsson sem varð áttræður á árinu og Magnús Sigurjónsson sem varð sjötugur.

Báðir hafa verið athvæðamiklir í skáklífi Bolvíkinga um áratugaskeið. 

Á var þorranum árið 1901 sem stofnað var taflfélag í Bolungarvík. Síðan þá hefur taflfélag verið starfrækt á staðnum undir mismunandi nöfnum.

Í dag heitir félagið Taflfélag Bolungarvíkur og hittast bolvískir skákmenn fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og tefla.

Skaginn 3X gjaldþrota

Fyr­ir­tækið Baader Skag­inn 3X á Akra­nesi óskaði eft­ir því við dóm­ara í gær að verða tekið til gjaldþrota­skipta og munu 128 starfs­menn fyr­ir vikið missa vinn­una.

Þetta staðfest­ir Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, við mbl.is. 

Það var í ágúst á síðasta ári sem öllum 27 starfsmönnum Skagans 3X á Ísafirði var sagt upp störfum og starfsstöðinni lokað og sameinuð þeirri á Akranesi. 

Skaginn 3X er í eigu þýska félagsins Baader, sem sérhæfir sig í matvælavinnslu. Þýska félagið eignaðist Skagann 3X fyrir fáum árum síðan.

Þingeyri: búið að loka fyrir ókeypis rafhleðslustöðina

Hin umdeilda hleðslustöð á Þingeyri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að búið sé að slá út rafhleðslustöðinni á Þingeyri við íþróttamiðstöðina „enda gengur ekki að Ísafjarðarbæ sé að gefa rafmagn þegar annarri aðili er reka hleðslustöð nánast á sama bletti.“

Á þriðjudaginn birti Bæjarins besta frétt um hleðslustöð við íþróttamiðstöðina á Þingeyri til þess að hlaða rafmagnsbíla, þar sem aðgangur var frjáls og engin greiðsla innheimt fyrir rafmagnið. Kostnaðurinn lendir því á Ísafjarðarbæ. Aðgangur að hleðslustöðinni er ekki bundinn því að viðkomandi sé gestur í íþróttamiðstöðinni eða sundlauginni.

Svo vill til að Orkubú Vestfjarða er með tvöfalda hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla á sama bílastæði en notendur hennar þurfa að greiða fyrir rafmagnið.

Ekki liggur fyrir hversu lengi þetta ástand var við lýði.

Sævangur: Fjölskylduhátíð í náttúrunni

Frá fyrri náttúrubarnahátíð á Sævangi.

Fjölbreytt útivist, náttúrutúlkun, tónlist, fróðleikur og fjör einkenna dagskránna á Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem haldin verður 12. – 14. júlí næstkomandi á Sauðfjársetrinu í Sævangi, rétt sunnan við Hólmavík.

Náttúrubarnahátíð er fjölskylduhátíð sem fer að mestu fram utandyra og gefur þátttakendum tækifæri til að finna og rækta náttúrubarnið í sér. Í upphafi hátíðarinnar er framkvæmdur veðurgaldur sem, samkvæmt Dagrúnu Ósk Jónsdóttur þjóðfræðingi og stjórnanda hátíðarinnar, tryggir sól og blíðu alla helgina.

Líkt og undanfarin ár er ókeypis að taka þátt í hátíðinni og viðburðum á henni, en hátíðin er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða og Orkubúi Vestfjarða. Það er einnig frítt fyrir hátíðargesti að gista í tjaldi hjá gistihúsinu Kirkjubóli sem er rétt hjá Sævangi, en þar er þó ekki eiginlegt tjaldstæði og ekki aðgangur að rafmagni. Það er hins vegar frábært tjaldsvæði á Hólmavík þar sem er rafmagn og líka ýmsir gististaðir í nágrenninu.

Veitingasala er á Sauðfjársetrinu (Kaffi Kind) alla helgina og er þar nóg úrval af allskonar réttum bæði fyrir grænkera og aðra.

Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér fyrir neðan:

Föstudagur 12. júlí
17:30 Fjölskyldu gönguferð í fjörunni
18:30 Setning hátíðarinnar og veðurgaldur
18:30 Hægt að kaupa súpu og grillaðar pylsur (grænmetis og ekki) í Sævangi
19:00 Með vindinum liggur leiðin heim: Mögnuð brúðuleikhússýning með Handbendi
20:00 Æsispennandi Náttúrubarnakviss

Laugardagur 13. júlí
12:00 Náttúrujóga
13:00 Stórskemmtileg töfrasýning með Jóni Víðis töframanni
13:30 Náttúrufjör: Bogfimi, hestar, eldsmiðja, kajakar, tilraunastofan, náttúrubingó, furður náttúrunnar skoðaðar með Náttúruminjasafni Íslands, grillaðar pylsur og fleira
15:00 Náttúrukórónusmiðja með Þykjó
16:30 Rykmýsóróar með Náttúruminjasafni Íslands
18:00 Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið
18:00 Hægt að kaupa grillaðar pylsur og súpu
20:00 Fjölskyldutónleikar með Gunna og Felix
21:00 Drauga- og tröllasögur í Sagnahúsinu

Sunnudagur 14. júlí
11:00 Núvitundarævintýri
12:00 Vísinda Villi með magnaða vísindasýningu
13:00 Spennandi villijurtasmiðja með Arfistanum
15:00 Fjölskylduplokk

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn – milljarðamæringar í ferðaþjónustu og fasteignafélögum

Stjórnarmennirnir í Starir ehf. Mynd: Starir.is

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn, sem einnig nefnist the Icelandic Wildlife Fund, IWF, hefur verið í fararbroddi þeirra sem berjast hatrammlega gegn laxeldi í sjó. Helsti talsmaður þeirra og umsjónarmaður vefsíðu sjóðsins er Jón Kaldal fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Ingólfur Ásgeirsson.

Megin áhersla sjóðsins er samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu hans náttúruvernd og umhverfismál, þar með talið að standa vörð um villta íslenska laxastofninn, sjóbleikju, sjóbirting og aðra ferskvatntsfiska í ám og vötnum Íslands.

Sjóður í eigu tveggja einstaklinga

Um er að ræða sjóð en ekki samtök. IWF er ekki fjöldasamtök í líkingu við Landvernd heldur sjóður í eigu tveggja einstaklinga. Stofnendur sjóðsins og eigendur eru Ingólfur Ásgeirsson og Lilja R. Einarsdóttir. Tekjur sjóðsins voru árið 2022 aðeins 24 mkr. og eru einvörðungu styrkir samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi. Aðkeypt þjónusta var 12 m.kr. og varið var 6 m.kr. í kynningar og markaðsmál.

Sjóðurinn er skattfrjáls stofnun og því er enginn tekjuskattur gjaldfærður af 3 m.kr. hagnaði segir í skýringum með ársreikningnum.

Starir ehf

Eigandinn Ingólfur Ásgeirsson er einn þriggja eiganda að fyrirtækinu Starir ehf, sem er umsvifamikið í leigu veiðiáa og sölu á veiðileyfum. Hinir tveir eigendurnir eru Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson.

Starir er með 13 veiðiár á landinu á leigu og selur veiðileyfi til stangveiði í þeim auk annarrar þjónustu við veiðimenn. Meðal ánna er Langadalsá í Ísafjarðardjúpi.

Tekjur Stara ehf árið 2022 voru 485 m.kr. og greiddi félagið 277 m.kr. í leigu fyrir árnar. Laun og tengd gjöld voru 46 m.kr. og voru stöðugildin 6 að meðaltali yfir árið.

Starir ehf er auk þess eini eigandinn að Laxabakka ehf sem annast sölu veiðileyfi. Tekjur þess voru 153 m.kr. á árinu 2022. Greiddar voru 78 m.kr. í leigu á ám og greiddar voru 7 m.kr. í laun og tengd gjöld.

Eiginfjarstaða Stara ehf var neikvæð um 16 m.kr. í lok ársins 2022.

Wings capital og Hambro – 6 milljarðar króna eignir

Eignarhaldið á Störum ehf er í tveimur einkahlutafélögum. Wings Capital á 67% og Hambro 33%.

Wings Capital fjárfestir í ferðaþjónustufyrirtækjum. Það hagnaðist um 900 m.kr. á árinu 2022 á fjárfestingum í öðrum félögum. Eignir félagsins eru bókfærðar á 2,7 milljarða króna og eigið fé þar af eru 2,3 milljarðar króna. Meðal félaga sem Wings Capital á í eru fasteignafélögin Hraunskarð 2 ehf og Skógar fasteignafélag hf. Að öðru leyti eru ekki veittar upplýsingar um félögin en þó kemur fram að lánað hafi verið til Arctic Adventures hf. sem sé tengt félag.

Wings Capital er í eigu Einibers ehf og Abols ehf sem eiga 44,44% hvort og Halldór Hafsteinsson sem á 11,11%.

Eigendur að Einiber ehf eru Davíð Másson og Lilja Ragnhildur Einarsdóttir með 50% hvort.  Umrædd Lilja er einmitt stofnandi IWF ásamt Ingólfi Ásgeirssyni. Ablos ehf er í eigu Halldórs Hafsteinssonar og Sigurlaugar Hafsteinsson.

Einiber ehf hagnaðist á árinu 2022 um 545 m.kr. af afkomu hlutdeildarfélaga og eigið fé þess var liðlega 2 milljarðar króna í lok ársins 2022. Tilgangur félagsins er eignarhaldsfélag um hluti í félögum, kaup og rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Hitt félagið Ablos ehf er svipað og Einiber ehf. hagnaður þess á árinu 2021 varð 259 m.kr. og byggðist á afkomu hlutdeildarfélaga. Eignir þess voru bókfærðar á 2,2 milljarða króna í lok árs 2021 og eigið fé þar af var 1.662 m.kr.

Samanlagt eigið fé Wings Capital, Einibers og Ablos er því um 6 milljarðar króna samkvæmt síðustu ársreikningum sem aðgengilegir eru.

Þá er ótalið Hambro ehf sem á 33% í Störum ehf og er í eigu Ingólfs Ásgeirssonar. Tekjur þess árið 2022 voru um 11 m.kr. og eignir eru 34 m.kr. þar af eigið fé 15 m.kr.

Eigendur Stara ehf eru því með um 6 milljarða króna eignir undir höndum og samanlagðar tekjur allra þessara félaga var á þriðja milljarð króna á árinu 2022. Það fer því ekki á milli mála að fjársterkir aðilar standa að útgerð á laxveiðiám landsins og sölu veiðileyfa.

Inga Lind – 850 m.kr.

Meðal stjórnarmanna í náttúruverndarsjóðunum er Inga Lind Karlsdóttir. Hún hefur verið áberandi í umræðu um laxeldið og hefur haldið fram margvíslegum firrum um það. Meðal annars hélt hún því fram ítrekað að starfsmenn væru fáir og að mestu leyti erlendir farandverkamenn. Þær staðhæfingar hafa verið hraktar og leitað eftir skýringum hennar á þessum fullyrðingum en Inga Lind hefur engu svarað. Hún virðir ekki fólkið á Vestfjörðum viðlits og ber enga virðingu fyrir störfum þess að hagsmunum. Hún virðist ekki hafa neinn skilning á því að laxeldið hefur snúið við byggðaþróun á Vestfjörðum sem sést á því að fasteignaverð í Vesturbyggð hefur þrefaldast á þeim fáum árum sem liðin eru síðan það komst á legg. Einbýlishús á Patreksfirði, 100 fermetrar er samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem reyndar var unnin fyrir IWF og stjórnarmanninn Ingu Lind, er metið á 24 m.kr. en var fyrir laxeldi aðeins 8 m.kr.

Fyrir Ingu Lind eru 24 m.kr. smámunir. Hún seldi nýlega einbýlishús í Garðabænum á 850 m.kr. og var það sagt dýrasta hús á Íslandi. Krafa Ingu Lindar er að banna laxeldið. Það mun verða til þess að fasteignaverðið fellur aftur á Vestfjörðum og fólkið mun tapa því sem verðhækkunin hefur fært því. Það finnst henni allt í lagi. Hún hefur fengið alla verðhækkun fasteigna í Garðabæ í sinn hlut.

Það virðist einkenna þá sem berjast hvað mest gegn laxeldi á Vestfjörðum á vegum íslenska náttúruverndarsjóðsins að vera vel efnaðir og búa við aðstæður sem almenningur á Vestfjörðum þekkir ekki. Ríka fólkið fer sínu fram, hugsar um sín áhugamál og krefst þess að fá að ráða – og skaða almenning á Vestfjörðum.

-k

Barnabók um bernsku Matthíasar Jochumssonar

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út barnabókina Matti. Saga af drengnum með breiða nefið. Hér er á ferðinni ævintýraleg en söguleg saga um bernsku Matthíasar Jochumssonar frá Skógum í Þorskafirði er síðar varð klerkur og meira að segja skáld, þjóðskáld. Það var ekki bara að pilturinn Matti hafi verið kallaður drengurinn með breiða nefið, heldur og drengurinn í gráa klútnum og jafnvel drengurinn í skinnsokknum. Sjálfur kallaði hann sig bara Matta, Matta Skratta, bætti hann gjarnan við og hló við. Inn í söguna fléttast fjölmargar persónur úr sagnaarfi Matta. Af þeim nægir að nefna hans þekktasta fír Skugga-Svein, einnig koma við sögu Galdra-Héðinn, Gudda, Jón sterki og meira að segja Ketill Skrækur.

Höfundar bókarinnar eru listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir frá  Þingeyri. Elfar skapar textann en Marsibil myndirnar. Þetta er önnur barnabók þeirra hjóna en fyrri bókin er einnig sótt í bernskuævi listamanns fyrir vestan. Þar er um að ræða bernsku Guðmundar Thorsteinssonar sem var kallaður Muggur. Enda heitir bókverkið Muggur. Saga af strák.

Höfundar ætla að fara í upplestraferð á árinu með Matta og stefna að því að hafa lestrastund á öllum bústöðum söguhetjunnar, Matthíasar Jochumssonar, allt frá Skógum til Akureyrar og allt þar á millum og kring.

Árið er 2024

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Í síðustu viku birtist grein með yfirskriftinni „Árið er 1990“ frá Rebekku Hilmarsdóttur á Patreksfirði. Þar er fullyrt að upplifun á ástandi vega á Vestfjörðum og Vesturlandi séu enn í dag í því ástandi og var á árinu 1990, eða fyrir aldarfjórðung.

Rebekka talar um að í boði séu margar gerðir að vegum, það er rétt. Ef við fylgjum þjóðvegi nr.1 frá Hvalfjarðargöngum, beygjum inn á á þjóðveg 60 og tökum hringveginn á Vestfjörðum þá eru það allt frá malbikuðum vegum, vegir lagðir klæðningu, vegir sem voru klæddir en hafa verið afklæddir og upprunalegir malarvegir sem ætti frekar að friða en keyra og allt kerfið kemur fyrir í margvíslegu ástandi.

En það verður varla sagt að sama staða sé á vegakerfinu á Vestfjörðum eins og það var árið 1990 þegar allur hringvegurinn á Vestfjörðum var malarvegur. Síðan eru liðin mörg ár og margar smáar og stórar framkvæmdir verið í gangi, eins og þrenn jarðgöng og þau síðustu opnuð árið 2020. Það voru stórtíðindi árið 2009 þegar hægt var að keyra á bundnu slitlagi frá Reykjavík um Djúp til Bolungarvíkur, já ! það var ekki fyrr en þá. Þeir sem ferðast frá Reykjavík í Vesturbyggð eiga enn eftir að upplífa það sama.

Undanfarin ár hafa miklar framkvæmdir verið í gangi. Uppbygging vega í Vatnsfirði og Kjálkafirði á öðrum áratugnum og endurbygging og breikkun vega í Hestfirði, Seyðisfirði og í botni Álftafjarðar lauk árið 2021, svo bara sé talað um stórar framkvæmdir.

Í samþykktri samgönguáætlun árið 2020 var lögð sérstök áhersla á vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og þá sérstaklega framkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum. Dýrafjarðargöng voru opnuð á því ári og horft var á að halda áfram vegabótum á sunnanverðum fjórðungnum. Vegbætur á Dynjandisheiðinni áttu að standa fram á árið 2025. Þá væri þessum hring lokið. Það má nefna fleiri verkefni á fyrrnefndri leið eins og framkvæmdir við breikkun vegar á Vesturlandsvegi. Framkvæmdir við vegabætur í Gufudalssveit eru í gangi þar sem unnið er að fyllingum að brúm í tveimur fjörðum.

Það er rétt að mörgum dempurum og dekkjaskiptum síðar er óvissa um að markmiðinu verði náð á tiltækum tíma, en markmið gildandi samgönguáætlunar eru enn í fullu gildi.

Samkeppnisfærir vegir

Þrátt fyrir nokkur áföll og töfum við Teigskóg, þá hefur þetta gengið nokkuð vel en er ekki lokið. Eftir er að setja tvær brýr yfir Djúpafjörð og Gufufjörð í útboð og síðasti kafli Dynjandisheiðarinnar er ekki kominn í útboð. Heiðinni var skipt upp í þrjá áfanga og er tveimur að ljúka. Í þessum rituðu orðum er verið að leggja bundið slitlag á annan kaflann og gengið hefur verið til samninga við Suðurverk um að halda áfram með 900 m. og þá er 6 km kafli eftir. Þeir 6. km eru síðan 1959 og ættu fyrir löngu að heyra sögunni til sem og Ódrjúgsháls, þessir kaflar eru frá dögum svart hvítu kvikmyndanna og ef ekki þeirra þöglu.

En þegar fyrrgreindum markmiðum verður náð gætum við farið að tala um samkeppnisfæra vegi við aðra landshluta, eða hvað? Eru vegir á Snæfellsnesi, Vesturlandi og Norðurlandi eitthvað sem við viljum bera okkur saman við? Vestfirðingar eiga stoltir að krefjast nútíma vega, við eigum það inni og fleiri vegakafla má nefna eins og á milli þéttbýlisstaða í Vesturbyggð.

 Á vormánuðum gáfu sig klæðningar í Dölunum og á Snæfellsnesi vegna álags, þetta eru vegir sem ekki eru gerðir fyrir þá miklu umferð og þungaflutninga sem fara um þá. Þeir vegakaflar hér á Vestfjörðum sem byggðir hafa verið upp á síðasta áratug standast kröfur um vaxandi umferð og þunga og þannig viljum við hafa það um allt land.

Á langri leið

Gildandi samgönguáætlun var samþykkt á vordögum 2020, síðan þá hefur margt gengið á, heimsfaraldur, stríð í Evrópu og eldsumbrot á Reykjanesi, allt þetta hefur sett strik í reikninginn í bókstaflegri merkingu

Samgönguáætlun var lögð fyrir Alþingi á haustdögum 2023. Ekki náðist að samþykkja hana í lok þingsins í vor, þar voru áætlaðir 10.1 ma. kr í vegaframkvæmdir á Vestfjörðum á næstu fjórum árum. Já það eru vonbrigði að ekki náðist að klára hana ! vægast sagt. Nokkrar ástæður lágu þar að baki má þar nefna að stórar framkvæmdir hafa farið mikið framúr  vegna hækkunar á verðlagi. Vinna verkefnastofu um gjaldtöku samvinnuverkefna hefur tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi og hefur það áhrif á framkvæmdir á öðrum svæðum en hér um ræðir. Forsendur samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu eru nú til endurskoðunar og var ekki lokið en er á lokametrunum.  Viðhaldsframkvæmdir hafa farið umfram fjárheimildir á síðastliðnum tveimur árum m.a. vegna verðlagshækkana.

Hvenær er verkinu lokið?

Á Íslandi er vegakerfið margþætt og langt. Það verður seint sem við getum sagt að samgöngubótum sé lokið. Það er viðvarandi verkefni og strangt, samfélög breytast og þarfirnar með. Þess vegna eigum við að vera á vaktinni, bæði sem stjórnmálamenn og líka íbúar svæða sem berjast fyrir bættum samgöngum.

Það þarf líka að vera opinn fyrir nýjum leiðum og tækni til að flýta umbótum á vegakerfinu. Nefna má í þessu sambandi að setja á notendagjöld í umferðinni um allt land eins og víðast er gert um allan heim. Það er líka nauðsynlegt að hægt verði að hraða breytingum á notendagjöldum í umferðinni í takt við orkuskiptin og flýtun verkefna. Svo má ylja sér við að ný tækni sem nefnist kyndilborun við jarðgöng verði innan einhvers tíma að veruleika.

Við eigum ekki að gefast upp við verðum að fá þessar framkvæmdir sem skrifað var upp á í samgönguáætlun 2020. Um það getum við öll verðið sammála.

  • Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Bára ÍS 364

Bára ÍS 364 ex Bára SH 27. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

Bára ÍS 364 sem hér liggur við bryggju í Þorlákshöfn um árið, hét upphaflega Kristjón Jónsson SH 77 frá Ólafsvík.

Síðar Kristbjörg ÞH 44 og Kristbjörg II ÞH 244. 1980 fékk báturinn nafnið Skálaberg ÞH 244 og þegar það var selt til Flateyrar fékk það nafnið Jónína ÍS 93. 

Síðan hét báturinn Ver NS, Bára SH, Bára ÍS og Fanney RE. Kannski er ég að gleyma einhverju en alltént er búið að bryja bátinn í spað og urða fyrir allmörgum árum.

Smíðaður í Skipavík í Stykkishólmi árið 1967.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Áfastir tappar

Plasttappar eru á meðal 10 algengustu plasthlutanna sem finnast á ströndum Evrópu að því er kemur fram í frétt Umhverfisstofnunar. Þeir valda miklum skaða á lífríkinu. Þess vegna þurfa tapparnir nú að vera fastir við flöskuna.

Fuglar, fiskar og önnur sjávardýr halda oft að skærlitir tapparnir séu fæða. Dýrin geta drepist úr vannæringu ef þau innbyrða þá eða annað plast. Með því að tryggja að tapparnir haldist á flöskunum komum við í veg fyrir að þeir endi í náttúrunni og aukum líkurnar á því að þeir komist með í endurvinnslu.

Í gegnum EES samninginn hefur Ísland skuldbundið sig til þess að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um einnota plastvörur.

Nú er komið að töppunum. Drykkjarílát og -umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra af vökva verða að hafa tappa eða lok sem er áfast á meðan notkun vörunnar stendur.

Nýjustu fréttir