Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 49

Áhrif saumavélarinnar á íslenskt samfélag 1865–1920

Ísfirðingurinn Arnheiður Steinþórsdóttir, MA- í sagnfræði,  heldur erindi í í stofu 304 í Árnagarði, þriðjudaginn 10. september kl. 16:00-17:00.

Málstofa í félags- og hagsögu í Háskóla Íslands er umræðuvettvangur fyrir hvers konar viðfangsefni í félags- og hagsögu á hvaða tímabili sem er. Málstofan er með óformlegu sniði þar sem fólki gefst tækifæri til að kynna rannsóknir sínar, verk í vinnslu jafnt sem útgefin verk, prófa nýjar hugmyndir og kenningar eða taka fyrri rannsóknir til gagnrýnnar skoðunar. Á eftir framsögum verður gefinn góður tími til fyrirspurna og almennra umræðna. 

Erindið nefnist Frá munaðarvöru yfir í þarfaþing. Áhrif saumavélarinnar á íslenskt samfélag 1865–1920. 

Fyrstu saumavélarnar bárust til Íslands upp úr miðri 19. öld. Með fjölgun þeirra varð athyglisverð þróun og fylgdu þeim alls kyns breytingar, ekki síst þegar kom að störfum kvenna innan og utan heimilis.

Í erindinu verður sagt frá innleiðingu saumavélarinnar í íslenskt samfélag og skoðað hvernig saumavélar fóru úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing sem finna mátti á nær hverju heimili.

Auk þess verður fjallað um saumavélar á uppboðum og hvaða þýðingu það hefur að nýta slíkar heimildir til þess að rannsaka sögu saumavélarinnar á Íslandi. 

Það er ómögulegur andskoti að læra íslensku!

Ég hefi aðeins verið að velta fyrir mér þeirri afsökun sem oft er notuð þegar því er haldið fram að ómögulegt sé að læra íslensku sem annað mál verandi í fullri vinnu á Íslandi.

Sem sagt fólk sem býr á Íslandi, vinnur hugsanlega hjá íslensku fyrirtæki, er hluti af íslensku samfélagi, með börn í íslenskum skóla eða á íslenskum leikskóla eða þá í íslensku íþróttafélagi getur samt ómögulega lært íslensku eða tekið framförum í málinu vegna íslensks annríkis. Og svo kann vel að vera að sama fólki eigi íslenska vini, íslenskan maka eða jafnvel íslenska fjölskyldu. Það lifir og hrærist í íslenskum veruleika þar sem íslenska var, síðast er ég vissi, opinbert tungumál. Er ekki dálítið öfugsnúið og skrýtið að það læri ekki íslensku, að það æfist ekki dag fyrir dag í íslensku og verði stöðugt betra í meðförum málsins?

Nú vill nefnilega svo til að oftlega kemur fólk til hingað landsins á íslenskunámskeið sem býr erlendis. Fólks sem hefir langt, langt, langt og langt í frá daglegan aðgang að íslensku, fólk sem er í fullri vinnu, oftast vinnu sem tengist tungumálum ekki rassgat. Þetta sama fólk hefir kannski lagt stund á íslensku í eitt til þrjú ár (stundum lengur). Svo kemur það til Íslands á námskeið og að því loknu tekur það próf á B2-stigi (framhaldsstig), sem það stenst og talar auk þess barasta afbragðs íslensku við alla á meðan þeir sem hér búa til margra ára standa lúpulegir við hliðina á viðkomandi (sumir) og babbla áfram á ensku. Undarlegur andskoti það.

Já, er ekki eitthvað skrýtið við það að á Íslandi búi margt fólk til margra, margra og margra ára og kann lítið sem ekkert fyrir sér í málinu og notar enn, eftir t.d. átta ár í landinu, ensku, misgóða ensku. Ég er viss um að margir þekki þess ófá dæmi.

Nú ætla ég alls ekki að halda því fram að þetta sé vegna leti eða þess að fólk sem hingað flyst sé almennt vitlausara en annars staðar. Ástæðan er önnur. Ég tel mig raunar vita ástæðuna og að hún felist í hugafari (aðallega móðurmálshafa) í fremur víðri merkingu. En hvað heldur þú?

Viljir þú leggja þitt lóð á vogarskál máltileinkunar íslensku veður það hægt á Ísafirði 9. September  á Bókasafninu og 19. september á Dokkunni. Nánari upplýsingar má finna á Flettismettisíðu átaksins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.

Höfundur er verkefnastjóri átaksins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag

Heimastjórn Patreksfjarðar: vilja flýta Suðurfjarðagöngum

Mynd úr jarðgangaskýrslu Vegagerðarinnar frá júní 2023.

Heimastjórn Patreksfjarðar afgreiddi á fundi sínum í gær eftirfarandi bókun um Suðurfjarðagöng undir Mikladal og Hálfdán:

„Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar því að aukin áhersla sé lögð á að flýta undirbúningi jarðgangaframkvæmda í jarðgangaáætlun samgönguáætlunar, til að tryggja öryggi vegfarenda, m.a. með vísan til umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2. september sl. um að flýta jarðgangaframkvæmdum á norðanverðu landinu.

Heimastjórn Patreksfjarðar telur afar brýnt að flýtt verði undirbúningi og framkvæmd nauðsynlegra rannsókna vegna jarðgangaframkvæmda undir Mikladal og Hálfdán, Suðurfjarðagöng,  á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Suðurfjarðagöng eru skv. jarðgangaáætlun Vestfjarða frá 2021 og ályktunar 68. Fjórðungsþings Vestfirðinga í október 2023 næstu jarðgöng sem ráðast skal í á Vestfjörðum ásamt Álftafjarðargöngum, en engum jarðgöngum er til að dreifa á sunnanverðum Vestfjörðum og ekki aðrar samgönguleiðir í boði fyrir íbúa en aka yfir fjallvegi allt árið um kring, til að sækja þjónustu og vinnu.

Heimastjórn Patreksfjarðar bendir á þá áherslu sem lögð var á Suðurfjarðagöng í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna í vor og nauðsyn þess að tryggja að samgöngur innan sveitarfélagsins Vesturbyggðar séu öruggar. Brýnt er að tryggja öruggar samgöngur milli byggðakjarnanna til að íbúar og fyrirtæki geti notað grunnþjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu án áhættu árið um kring. Má í því sambandi benda á sjúkraflug á flugvöllinn á Bíldudal en þangað er yfir tvo erfiða fjallavegi að fara.

Heimastjórn Patreksfjarðar hvetur því bæjarstjórn Vesturbyggðar til að þrýsta á að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun, til að tryggja öryggi íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, bæta aðgengi að grunnþjónustu og tryggja atvinnusókn innan sunnanverðra Vestfjarða.“

Vesturbyggð : kostnaður við gatnagerð fjórfaldast

Patreksfjörður. Horft yfir Mýrar og fær Urðarveg.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt hækkun á framlagi til gatnagerðar um 53 m.kr. Er það vegna gatnagerðar við Brunna á Patreksfirði. Fyrir var í fjárhagsáætlun gert ráð fyrir 18 m.kr. framlagi til gatnagerðar og innviða.

Á móti þessum auknum útgjöldum koma til styrkir frá Fiskeldissjóði fyrir byggingu leik og grunnskóla á Bíldudal, skólalóðar á Patreksfirði, varmadælu í Bröttuhlíð og rannsóknarrýmis við verbúð á Patreksfirði. Í tilfellum skólalóðar á Patreksfirði og grunn og leikskólabyggingar á Bíldudal kemur styrkurinn til lækkunar á heildarfjárfestingu þar sem gert var ráð fyrir fullri fjármögnun í fjárhagsáætlun og bætir það stöðuna um 69 m.kr.

En í tilfellum Varmadælu í Bröttuhlíð og fjármuna sem fengust í rannsóknarrýmið er fjárfesting hækkuð á móti þar sem ekki var gert ráð fyrir fullri fjármögnun í áætlun.

Breytingarnar fara til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Ísafjörður: skúta strand við Pollgötu

Skútan í grjótinu við Pollgötuna. Mynd: Valur Richter.

Skúta sem legið hefur við legufæri í Skutulsfirði, síðan í vor er komin upp í grjótið við Pollgötuna. Björgunarsveitin og björgunarskipið Gísli Jónsson komin á staðinn og lóðsbáturinn bíður átekta. Björgunaraðgerðir eru hafnar. Allhvasst er á Ísafirði.

Um er að ræða stálbát smíðaður á Siglufirði og eru íslenskir eigendur að honum.

Uppfært kl 10:33. Búið er að draga skútuna út úr grjótinu.

Samfylkingin: vilja auka framboð á húsnæði

Fundurinn var vel sóttur.

Tveir þingmenn Samfylkingarinnar komu vestur í vikubyrjun og héldu fundi á Reykhólum, Ísafirði og Hólmavík. Það voru þau Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Jóhann Páll Jóhannsson alþm. Fundurinn á Ísafirði var síðdegis á mánudaginn í Edinborgarhúsinu og Samfylkingin notaði blíðviðrið og grillaði pylsur á planinu fyrir utan húsið og bauð gestum áður en sjálf fundarhöldin hófust.

Yfirskrift fundarinar var um húsnæðis- og kjaramál og reifuðu þingmennirnir áherslur Samfylkingarinnar í þeim málum. Fram kom að tillögur flokksins eru til þess að auka framboð á húsnæði og leiðrétta markaðsbrest víða um land þar sem byggingarkostnaður er hærri en markasverð íbúða.

Þá er vilji til þess að ríkið komi fastar að málaflokki leikskóla. Rætt var einnig um almannatryggingar og þar eru áherslurnar að styðja að tekjulægri njóti frekari ávinnings af söfnun í lífeyrissjóði.

Varðandi tekjuöflun hins opinbera var bent á frekari tekjuöflun af auðlindagjöldum á heildrænan hátt , svo sem af sjávarútvegi og orkuframleiðslu svo og að jafna skattbyrði milli launa og fjármagns.

Jóhann Páll alþm í góðum hópi Ísfirðinga.

Grillað var úti í góða veðrinu.

Myndir: Samfylkingin.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar með Sif Friðleifsdóttur, fyrrv. ráðherra sem þarna var stödd í öðrum erindagjörðum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bolungavíkurhöfn : 1.393 tonn í ágúst

Bolungavíkurhöfn í lok ágúst. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 1.393 tonnum af fiski af 17 skipum og bátum í Bolungavíkurhöfn í síðasta mánuði. Togarinn Sirrý hóf veiðar að nýju eftir slipp og stopp í sumar og kom með 513 tonn eftir 6 veiðiferðir.

Fimm bátar voru á dragnót. Heimabátarnir Ásdís ÍS og Þorlákur ÍS voru með 151 tonn og 149 tonn hvor, Ásdís ÍS eftir 13 veiðiferðir en Þorlákur fór 10 róðra.

Þrír bátar frá Snæfellsnesi voru á dragnótaveiðum, Saxhamar SH landaði 58 tonnum, Magnús Sh 54 tonnum og Steinunn SH var með 30 tonn.

Fjórir bátar voru á línuveiðum. Fríða Dagmar ÍS var með 181 tonn, Jónína Brynja ÍS 168 tonn hvor fór um 20 róðra, Bíldsey SH 11 tonn eftir einn róður og Tryggvi Eðvards SH 9 tonn og landaði einu sinni.

Kiddi RE var á handfæraveiðum og fór þrjár veiðiferðir og landaði 4 tonnum.

Loks var Jóhanna ÁR á sæbjúguveiðum og landaði 23 tonnum eftir þrjá róðra.

Stúdentagarðar Ísafirði: gengið frá veðlánum

Stúdentagarður Háskólaseturs Vestfjarða, fyrra húsið. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að veita Stúdentagörðum Háskólaseturs Vestfjarða hses leyfi til þess að veðsetja lóð og 40 íbúðir að Fjarðarstræti 20 Ísafirði fyrir lánum frá Húsnæðissjóði að fjárhæð 682 m.kr.

Byggingarkostnaður var um 1,2 milljarður króna. Stofnframlög fengust frá ríkinu 18% af kostnaði og Ísafjarðarbæ 12%, samtals um 400 m.kr. auk þess sem sérstakt byggðaframlag 189 m.kr. var veitt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lánar það sem upp á vantar til langs tíma og gert er ráð fyrir að húsleiga standi undir láninu og rekstri húsanna.

Guðlaugur Þór undirritar verndaráætlun fyrir Látra­bjarg

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra undirritaði í gær stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg að viðstöddum Nönnu Lilju Sveinbjörnsdóttur staðgengli bæjarstjóra, Freyju Ragnarsdóttur Pedersen formanni umhverfis- og loftlagsráðs og Eddu Kristínu Eiríksdóttur frá Umhverfisstofnun.

Með stjórnunar- og verndaráætluninni er verið að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og áætlun um hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um.

Í áætluninni er sett fram stefnumótun til framtíðar, ásamt aðgerðaráætlun til þriggja ára.

Áætlunin var unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, fulltrúum landeigenda og fulltrúa Vesturbyggðar, einnig var hún unnin í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Árný Huld ætlar að reka verslun og veitingasölu á Reykhólum

Árný Huld Haraldsdóttir og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir undirrita samninginn

Á mánudag undirrituðu þær Árný Huld Haraldsdóttir og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, samning um leigu á verslunarhúsnæði Reykhólahrepps.

Árný, sem á nýliðnum Reykhóladögum var útnefnd íbúi ársins í Reykhólahreppi, mun hefja verslunar- og veitingarekstur á Reykhólum innan tíðar og er stefnt að því að opna í október.

Til að byrja með er ætlunin að vera með venjulegan heimilismat í hádeginu og helstu nauðsynjavörur í versluninni.

Hugmyndin er líka að halda viðburði af einhverju tagi fyrir alla aldurshópa.

Þegar nær dregur verður auglýstur opnunartími og fleira sem máli skiptir.

Nýjustu fréttir