Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 48

Guðbjörg ÍS : 43 ár frá komu til heimahafnar

Í dag eru rétt 43 ár síðan Guðbjörg ÍS 46 sigldi inn Sundin til hafnar á Ísafirði. Skipið var smíðað í Flekkefjord í Noregi. það var hið sjötta i röðinni með þetta nafn og annar togarinn sem útgerðarfélagið Hrönn gerði út og var 490 brt. að stærð. Vélin í Guðbjörginni var sú stærsta sem þá þekkist í íslensku fiskiskipi eða 3.200 hestafla MAK dísilvél.

Skipstjóri var Ásgeir Guðbjartsson.

Ísafjörður: Sjávarútvegsskóli unga fólksins

Nemendur sjávaútvegsskólans í heimsókn hjá Arctic Fish.

Í vikunni var starfandi sjávarútvegsskóli unga fólksins á Ísafirði. Um er að ræða framtak Háskólans á Akureyri sem er kynning á sjávarútvegi fyrir nemendum í 8. bekk grunnnskóla. Tveir sjávarútvegsfræðingar Katrín Axelsdóttir og Kristianna Mjöll Arnardóttir annast námskeiðið sem er haldið víða um land. Þessa vikuna var það á Ísafirði og að sögn Katrínar verður næsta námskeið á Eskifirði.

Sjávarútvegsfyrirtækin standa straum af kostnaði með styrkjum en sjávarútvegsstofnun Háskólans á Akureyri sér um framkvæmdina.

Katrín segir að blandað sé saman leik og kynningu. Farið var til nokkurra fyrirtækja á svæðinu, HG í Hnífsdal, Kerecis, Arctic Fish, Jakobs Valgeirs og Háafells og fékk unga fólkið kynningu á starfsemi fyrirtækjanna.

Um þrjátíu nemendur sóttu sjávarútvegsskólann á Ísafirði að þessu sinni.

Vinnslusalurinn hjá Arctic Fish í laxasláturhúsinu í Bolungavík.

Nemendur sjávarútvegsskólans í laxasláturhúsi Arctic Fish.

Besta deildin: Vestri mætir Breiðablik á morgun

Þriðji heimaleikur Vestra í Bestu deildinni á Kerecis vellinum á Torfnesi fer fram á morgun þegar Breiðabik kemur vestur í heimsókn. Hefst leikurinn kl 14.

Breiðablik er sem stendur í öðru sæti deildarinnar á eftir Íslandsmeisturum Víkings með 26 stig eftir þrettán leiki. Blikarnir töpuðu síðasta leik sínum sem var gegn FH í Hafnarfirði og eru sjö stigum á eftir Víkingi en eiga leik til góða. Er ekki að efa að Blikarnir munu leggja kapp á að vinna leikinn gegn Vestra til þess að halda sér í titilbaráttunni.

Vestri er hins vegar nú í fallsæti eftir tvo tapleiki í röð og freista þess að koma sér ofar á töfluna. Liðið sýndi batamerki í síðasta leik sínum sem var gegn Fram og hefur alla burði til þess að halda sæti sínu í deildinni.

Mjög vel hefur verið mætt á heimaleikina tvo á Ísafirði og munar sannarlega um liðsinni áhorfendanna.

Áfram Vestri!

Bolvíkingur með fyrsta makrílfarminn

Birkir Hreinsson skipstjóri. Neskaupstaður í baksýn. Myndir: Samherji.

Uppsjávarskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA 11, kom til Neskaupstaðar í morgun með rúmlega 850 tonn af makríl, sem er fyrsti farmur skipsins á n‎ýhafinni makrílvertíð.

Aflinn var veiddur í Síldarsmugunni svokölluðu. Undanfarin ár hafa uppsjávarskip Samherja og Síldarvinnslunnar haft með sér samstarf um veiðar, sem skilað hefur góðum árangri. Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson voru að veiðum í Síldarsmugunni.

34 klukkustunda sigling til Neskaupstaðar

Bolvíkingurinn Birkir Hreinsson er skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni og hann segir í viðtali á vefsíðu Samherja að um sé að ræða ágætis hráefni.

Löndun í Neskaupstað

„Makríllinn er viðkvæmastur á þessum árstíma og fitnar eftir því sem líður á vertíðina. Stærðin er um og yfir 400 grömm, sem hentar ágætlega til manneldis. Siglingin úr Síldarsmugunni tók 34 klukkustundir, enda siglingaleiðin um 400 sjómílur og þá skiptir miklu máli að kælibúnaðurinn sé góður.“

Þokkalega bjartsýnn á framhaldið

Birkir segir að löndun lokinni verði væntanlega haldið á makrílveiðar í íslenskri lögsögu suð-austur af landinu. Þangað sé um eitt hundrað sjómílna sigling.

„Já, já, það var góð tilfinning að sigla inn Norðfjörðinn í morgun í blíðskaparveðri. Þegar vertíð er að hefjast er alltaf viss spenna. Ég er þokkalega bjartsýnn á framhaldið, áhöfnin er þaulvön og skipið er vel útbúið á allan hátt,” segir Birkir Hreinsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11.

Áhöfn Vilhelms Þorsteinssonar: Efri röð f.v: Stefán Pétur Hauksson yfirvélstóri. Birkir Hreinsson skipstjóri. Björn Már Björnsson 1. stýrimaður. Jóhannes Páll Jónsson matsveinn. Kjartan Hjaltason 2.stýrimaður. Fremri röð f.v.: Ægir Þormar Pálsson bátsmaður. Jóhann Valur Ólafsson netamaður. Á myndina vantar Níels Kristinn Benjamínsson 1. vélstjóra, sem var í koju.
Kort af siglingu Vilhelms Þorsteinssonar: Skipið hélt í Síldarsmuguna frá Skagen í Danmörku og þaðan til Neskaupstaðar.

Vikuviðtalið: Runólfur Ágústsson

Ég er fæddur árið 1963 að Teigi í Fljótshlíð hvar foreldrar mínir bjuggu blönduðu búi. Í þá daga byrjuðu börn til sveita snemma að vinna og sjö ára var ég settur á traktorinn og látinn snúa. Í minni sveit voru menn Framsóknarmenn, áttu Massey Ferguson og Land Róver og skiptu við Kaupfélagið og ESSÓ. Íhaldsbæirnir, sem voru örfáir, þekktust af bláum Fordtraktorum. Í minni sveit voru flestir traktorar rauðir.

Þegar ég var níu ára brugðu foreldrar mínir búi og fluttu á Selfoss. Ég, sem snemma varð eilítið einþykkur og ákveðinn, harðneitaði að flytja og úr varð að ég var skilinn eftir hjá besta vini pabba, Árna í Hlíðarendakoti sem þar bjó einn og tók að sér að fóstra mig. Hann á a.m.k. jafn mikinn hlut í uppeldi mínu og pabbi og mamma.

Við Árni bjuggum saman sumrin mörg, jól, páska og helgar. Við borðuðum þegar við vorum svangir, þvoðum okkur þegar við voru skítugir og sváfum þegar við vorum syfjaðir. Þannig liðu dagar, mánuðir og ár í Hlíðarendakoti. Dagurinn var nótt og nóttin dagur, enda Innhlíðin eitt samfellt ævintýri.

Það ríkti ávallt gleði í kotinu. Þangað komu karlar víða að úr sveitinni, reyktu London Docks vindla í eldhúsinu og drukku á stundum koníjakk. Þar var mikið rætt og deilt um stjórnmál og við mennirnir hlustuðum á Sigurð Sigurðarson lýsa fótboltalandsleikjum í útvarpinu. Flestir vorum við framsóknarmenn og allir samvinnumenn. Ég drakk kaffi með sykri og mjólk og dýfði í kleinu. Ég var 10 eða 12 ára gamall. Karlarnir sögðu að ég væri kjaftfor. Árni fóstri glotti og þótti líklega uppeldið vera að skila sér. Ólafur Jóhannesson var forsætisráðherra.

Ég flutti til Reykjavíkur þegar ég var á sautjánda ári til að fara í Menntaskólann við Hamrahlíð og hef séð fyrir mér síðan. Eftir það fór ég í lögfræði í Háskóla Íslands, en sóttist námið hægt vegna mikilla félagsstarfa. Ég hafði farið í mína fyrstu utanlandsferð sem skiptinemi til Bandaríkjanna í eitt ár og hætti þar vestra að vera framsóknarmaður og gerðist kommúnisti. Var oddviti félags vinstrimanna í kosningum til Stúdentaráðs og síðar framkvæmdastjóri SHÍ. Á þessum árum var ég einnig virkur í starfi Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins og frá þessum árum eru minnistæðir tveir leiðtogar frá síðustu öld sem ég hitti. Annars vegar Einar Olgeirsson sem eitthvert kvöldið kom og hitti okkur krakkana eftir hörmuleg úrslit kosninga í borgarstjórn Alþýðubandalagsins þar sem enginn mætti á kosningavöku nema við og hann sem drakk með okkur ódýrt rauðvín úr bastflösku alla nóttina. Hins vegar Fidel Castro sem ég álpaðist inn í garðveislu hjá sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs í miðborg Havana. Þessir menn voru báðir áhrifavaldar í sögu síðustu aldar, annar innanlands og hinn á alþjóðavettvangi. Þeir voru báðir fulltrúar gjaldþrota stjórnmálastefnu sem heillaði mig sem ungmenni líkt og mörg önnur víða um heim. Ég hef á mínum fullorðinsárum orðið frjálslyndur hægrikrati.

Eftir útskrift flutti ég í Borgarfjörðinn og gerðist sýslufulltrúi. Því starfi fylgdi sú kvöð að kenna lögfræði við Samvinnuháskólann á Bifröst, einn morgun í viku. Ég fann fljótlega að mér þótti mun skemmtilegra að kenna lögfræði en praktisera hana og varð lektor við skólann og seinna rektor hans um sjö ára skeið. Á þeim tíma óx skólinn úr rúmlega 100 nemendum í 800 og á Bifröst byggðist upp háskólasamfélag með veitingahúsi, verslun og leikskóla þar sem á þessum tíma voru 120 börn. Þar er nú Snorrabúð stekkur. Samhliða starfi á Bifröst átti ég þátt í stofnun Símenntunarstöðvar Vesturlands og Menntaskóla Borgarfjarðar.

Eftir Bifröst tók ég þátt í að stofna Keili á gamla varnarsvæðinu í Keflavík og var fyrsti framkvæmdastjóri skólans. Það má því segja að mestan partinn af minni starfsævi hafi ég unnið að skólamálum, nú síðast með Lýðskólanum á Flateyri.

Síðustu ár höfum við Áslaug Guðrúnardóttir, eiginkona mín, dvalist mikið á Flateyri, þar sem við keyptum gamalt hús í niðurníðslu árið 2016 sem við höfum verið að gera upp síðan. Júlluhús var byggt árið 1900, flutt inn tilhoggið frá Noregi af hvalstöðinni. Við Áslaug höfum einnig saman unnið að þróun sjóbaða í landi Þórustaða, innst í Önundarfirði. Við stofnuðum einnig og rákum fasteignaþróunarfélagið Þorpið vistfélag í Reykjavík en það félag hefur nú verið selt. Áslaug var áður markaðsstjóri Listasafns Reykjavíkur og þar áður fréttamaður hjá RÚV til margra ára.

Við Áslaug eigum samtals sex börn, ég átti þrjá syni af fyrra hjónabandi og hún tvær dætur úr fyrri samböndum. Saman eigum við Sigrúnu Erlu sem er að verða 10 ára. Við erum því rík af börnum.

Áhugamál mín eru lestur, ferðalög og matreiðsla. Ég hef skrifað eina bók, ferðabókina Enginn ræður för um þvæling minn einn um Ástralíu þar sem ég elti uppi slóðir Jörundar hundadagakonungs um það víðfeðma land og segi sögu hans.

Mig langar að deila með ykkur einni uppskrift hér í lokin:

Kraftmikið Chilli con carne í lúxusútgáfu með súkkulaði

Í þá daga þegar Spánverjar ríktu yfir heiminum mun nunna ein María de Ágreda að nafni hafa skrifað upp fyrst manna og kvenna hvernig elda ætti Chilli con carne. Nautakjötið þekktu Spáverjar en chilli-inu kynntust þeir í Ameríku, eftir að hafa notið gestrisni heimamanna, launað slíkt með ofbeldi og yfirgangi með því að leggja undir sig stærstan hluta Ameríku, stela gulli heimamanna, drepa þá og éta matinn þeirra.

Systir María, sem kölluð var „Bláa nunnan“ (tengist að því ég best veit ekki vondu sætu þýsku hvítvíni) fór aldrei frá Spáni nema andlega þegar hún ferðaðist í dái til Ameríku sem oft gerðist og þótti fullkomlega eðlileg hegðun hjá nunnu í spænsku klaustri. Í slíkur ferðalögum birtist hún frumbyggjum sem létu þá skírast í unnvörpum, svona rétt áður en þeir fengu mislinga eða aðrar pestir og drápust. Indjánarnir sögðu að „bláa konan“ hefði fært þeim uppskrift að kássu sem prestar á svæðinu (nú Texas) kölluðu Djöflasúpu. Þetta var chilli con carne. Þrátt fyrir að prestarnir legðust eindregið gegn þessum sterka mat og héldu heilu messurnar gegn honum, dugði slíkt ekki til. Kaþólska kirkjan hefur fyrr og síðar oftast verið á móti lífsins lystisemdum í mat og kynlífi, a.m.k. fyrir almenning, þótt þjónar kirkjunnar hafi á stundum verið undanþegnir slíkum kvöðum.

Í bandarísku borgarastyrjöldinni kynntust fölir drengir úr Norðurríkjunum, flestir af breskum, írskum og þýskum uppruna, sem ekki áttu að venjast bragðmiklum mat, chilli con carne og eftir það varð rétturinn þekktur um öll Bandaríkin. Hann er nú þjóðarréttur Texasfylkis og gildir sérstök þingályktun um slíkt.

Samþykkt fylkisþingsins frá 1977 um það mál hljóðar svo:

WHEREAS, One cannot be a true son or daughter of this state without having his taste buds tingle at the thought of the treat that is real, honest-to-goodness, unadulterated Texas chili; and

WHEREAS, Texans continue today the tradition begun in San Antonio 140 years ago of making the best and only authentic concoction of this piquant delicacy; and

WHEREAS, President Lyndon B. Johnson commented that „chili concocted outside of Texas is a weak, apologetic imitation of the real thing,“ and Will Rogers described Texas chili as „the bowl of blessedness“; and

WHEREAS, Texas has been the site of the annual International Chili Cook-Off since 1967 and is the home of the 1976 World Champion Chili Cooker, Albert Agnor, of Marshall; and

WHEREAS, It is customary for the legislature to designate certain state emblems in recognition of this state’s great heritage and rich resources; and

WHEREAS, The beauty of Texas trees and flowers is represented by the pecan and bluebonnet and the mockingbird is emblematic of our abundant and varied wildlife, but the internationally esteemed cuisine of this great state had received no official recognition and has no official symbol; now, therefore, be it

RESOLVED by the House of Representatives of the State of Texas, the Senate concurring, That the 65th Legislature in recognition of the fact that the only real „bowl of red“ is that prepared by Texans, hereby proclaims chili as the „State Dish of Texas.“

Læt þessu blaðri lokið með hinstu orðum hins fræga útlaga Billy the kid: „Wish I had time for just one more bowl of chili.“

Innihald:

250 gr. nautagúllas og 250 gr. hreint nautahakk

1 dós kjúklingabaunir

1 dós nýrnabaunir

2 gulir laukar

5 hvítlauksrif

2-3 sellerístilkar

hálf púrra

3-4 gulrætur

3 sneiðar beikon

hálf chorizopylsa

1 dós niðursoðnir tómatar (heilir)

1 dós niðursoðin tómatsósa

1 lítil dós tómatpúrra

1 stór eða 2 litlir rauðir piparávextir

1 kanilstöng

¼ bolli balsamik edik

1 ½ lítri kálfa-, grænmetis- eða kjúklingasoð

1 teskeið chilliduft

1 teskeið cumin

1 teskeið reykt paprika

1 teskeið þurrkað oregano

1 teskeið þurrkuð basilikka

smá cayennepipar

1 búnt kóríander

50 gr. gott dökkt súkkulaði (ef vill)

Saxið laukinn, púrruna, selleríið og gulræturnar frekar gróft og steikið í góðri ólífuolíu í þykkbotna potti ásamt rauða piparnum, fræhreinsuðum og smátt söxuðum… svissið vel og látið svo hvítlaukinn smátt saxaðan út í og steikið aðeins áfram… setjið síðan kryddið allt út í og hrærið saman… takið af pönnunni og setjið til hliðar.

Bætið olíu á pönnuna og brúnið kjötið vel og fallega ásamt beikoninu smátt söxuðu og pyslunni í þunnum sneiðum (munið að plokka plastið af ef slíkt er utan um umrædda pyslu). Plokkið blöðin af kóríandernum og saxið stilkana og bætið við kjötið og blandið steikta grænmetinu saman við. Hellið tómötunum yfir (niðursoðnum, sósu og púrru) ásamt baununum sem þið hafið áður látið leka af í sigti. Balsamik út í og soðið. Nú er rétti tíminn til að bæta út í súkkulaðinu ef ykkur finnst súkkulaði gott… annars bara látið þið það vera!

Látið svo sjóða við vægan hita í 2 tíma og stráið kóríandernum yfir. Snæðið með kraftmiklu rauðvíni, soðnum hrísgrónum og góðu hvítlauksbrauði, gjarnan á köldu kvöldi í góðra vina hópi!

Koma Evrópsku nýsköpunarverðlaunin til Ísafjarðar? Netkosning á lokametrunum.

Ísfirsk uppfinning er meðal þriggja uppfinninga sem tilnefnd eru til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna sem afhent verða á Möltu þann 9. júlí. Þar verða líka kynnt úrslit í netkosningu meðal almennings um áhugaverðustu uppfinninguna í nokkrum mismunandi flokkum.

Einkaleyfastofa Evrópu tilnefndi í vor Guðmund Fertram Sigurjónsson og Kerecis til verðlaunanna á grundvelli einkaleyfisins sem framleiðsla Kerecis byggir á. Tveir aðrir uppfinngamenn eru tilnefndir í sama flokki og Guðmundur Fertram.  Ísfirðingar geta lagt sitt af mörkum og greitt Kerecis sitt atkvæði daglega til 9. júlí á slóðinni https://www.epo.org/en/news-events/european-inventor-award/meet-the-finalists/g-fertram-sigurjonsson-and-team 

Guðmundur Fertram segir þessa tilnefningu afar mikilsverða, enda sjái Einkaleyfastofa Evrópu um öll einkaleyfi í Evrópu. Tilnefningin sé auðvitað mikill heiður, en hitt skipti meira máli að vekja athygli á sáraroðinu frá Kerecis og stuðla þannig að aukinni notkun. “Árangurinn af notkuninni er oft á tíðum ótrúlegur og við erum stolt af því að stuðla að bættri heilsu fólks um allan heim. Þrátt fyrir árangurinn eru enn margir sem þekkja ekki til Kerecis. Verðlaun af þessu tagi geta svo sannarlega hjálpað til við að breiða út þekkingu á íslenska sáraroðinu og þannig orðið til þess að fleiri sjúklingar í neyð fái notið hennar,” segir Guðmundur Fertram.

Bolungavíkurhöfn: 1.702 tonn í júní

Bolungavíkurhöfn í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landað var 1.702 tonnum af botnfiski í Bolungavíkurhöfn í síðasta mánuði. Er þá ótalinn eldislax í mánuðinum.

Strandveiðar skiluðu 465 tonnum af nærri 60 bátum og sjóstangveiðibátar komu með 13 tonn.

Togarinn Sirrý landaði 550 tonnum eftir 6 veiðiferðir. Einnig var Áskell ÞH á botvörpu en hann kom með 52 tonn í einni löndun.

Tveir bátar voru á dragnótaveiðum og öfluðu ágætlega. Ásdís ÍS var með 223 tonn og Þorlákur ÍS 191 tonn.

Línubátarnir Fríða Dagmar ÍS og Jónína Brynja ÍS fóru 9 og 10 róðra í júní. Fríða dagmár ÍS kom með 66 tonn að landi og Jónín Brynja ÍS var með 75 tonn.

Fjórar ferðir endurgreiddar vegna heilbrigðisþjónustu innanlands

Almennur réttur fólks til að fá greiddan ferðakostnað þurfi það að sækja sér heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar miðast við nú við fjórar ferðir á hverju almanaksári. Reglugerð þessa efnis tók gildi 1. júlí. Í byrjun þessa árs var rétturinn aukinn úr tveimur ferðum í þrjár og nú hefur fjórða ferðin bæst við.

Samhliða fjölgun endurgreiddra ferða hefur umsóknarferli Sjúkratrygginga í tengslum við endurgreiðslu ferðakostnaðar verið einfaldað. Til þessa hefur þurft að skila inn læknisvottorði vegna endurgreiðslu ferðakostnaðar en með breytingunni er sú skylda felld niður, svo nú þarf ekki læknisvottorð fyrir endurgreiðslu kostnaðar vegna fjögurra ferða á ári.

Sjúkratryggðir einstaklingar þurfa nú eingöngu að leggja fram kvittanir fyrir ferðakostnaði til Sjúkratrygginga og staðfestingu á komu ef um komu á sjúkrahús eða heilbrigðisstofnun er um að ræða. Áfram þarf þó að skila inn læknisvottorði þegar um er að ræða ítrekaðar ferðir vegna alvarlegra sjúkdóma.

Réttur til endurgreiðslu ferðakostnaðar nær til sjúkratryggðra einstaklinga vegna nauðsynlegra ferða eftir þjónustu sem ekki er fyrir hendi í heimabyggð og vegalengd milli staða er 20 km. eða lengri.

Ísfirðingur í atvinnumennsku í blaki

Ísfirðingurinn Hafsteinn Már Sigurðsson mun á komandi tímabili spila með karlaliði Habo í sænsku úrvalsdeildinni í blaki, en gengið var frá samningum um það í síðustu viku. Frá þessu er sagt á heimasíðu íþróttafélagsins Vestra.

Habo er 12 þúsund manna bær í sunnanverðri Svíþjóð, staðsett við Vatten, sem er eitt af stærstu stöðuvötnum í landinu.  Blaklið Habo er að mestu byggt upp á ungum heimamönnum en hefur engu að síður staðið sig vel í Sænsku deildinni og endað í topp 4 í deildinni síðustu tímabil.

Hafsteinn Már er uppalinn í Vestra í gegnum yngriflokka, en byrjaði að spila með karlaliðinu tímabilið 2015-16, á fyrsta tímabili Vestra í næst efstu deild í blaki.  Fjórum árum síðar hóf Vestri þátttöku í úrvalsdeild, eftir að hafa unnið 1. deild tvisvar.  Með Vestra hefur Hafsteinn Már spilað allar stöður á vellinum, en hefur undanfarin ár spilað stöðu Dió og hefur sem slíkur verið kjörinn tvisvar í draumalið úrvalsdeildarinnar síðustu fjögur ár og var eftir síðasta tímabil valinn besti íslendingurinn í deildinni.

Með Hafstein Má sem fyrirliða, náði úrvalsdeildarlið Vestra tvisvar að enda í 4 sæti í deildinni og komast jafn oft í undanúrslit í Kjörísbikarnum.  Síðustu tvö tímabil hefur Hafsteinn Már verið í námi fyrir sunnan og spilað með úrvalsdeildarliði Aftureldingar og spilaði í vor til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á móti Hamri.

Hafsteinn Már hefur spilað með Íslenska landsliðinu frá árinu 2016, þá fyrst með U17, en hefur síðustu 3 ár spilað með A-landsliðinu og verið með öflugustu leikmönnum liðsins.

Afmælisskákmót á Verbúðinni

Föstudaginn 5. júlí verður haldið afmælisskákmót á Verbúðinni í Biolungarvík kl. 14-17.

Afmælisbörnin eru tvö: Sæbjörn Guðfinnsson sem varð áttræður á árinu og Magnús Sigurjónsson sem varð sjötugur.

Báðir hafa verið athvæðamiklir í skáklífi Bolvíkinga um áratugaskeið. 

Á var þorranum árið 1901 sem stofnað var taflfélag í Bolungarvík. Síðan þá hefur taflfélag verið starfrækt á staðnum undir mismunandi nöfnum.

Í dag heitir félagið Taflfélag Bolungarvíkur og hittast bolvískir skákmenn fyrsta miðvikudag hvers mánaðar og tefla.

Nýjustu fréttir