Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 48

52 milljarðar/ári x 30 ár = EES

EES er 30 ára í ár.

Milljarðarnir í fyrirsögninni eru niðurstaða þýskrar rannsóknarstofnunar á því, hvað EE-samningurinn hafi reynst vera Íslendingum mikil búbót á þessum 30 árum.

Og Háskóli Íslands taldi þetta nægilegt tilefni til að bjóða í partý, afmælisbarninu til heiðurs. Það var vel til fundið. Þó ekki væri nema vegna þess að ætla má, að meira en helmingur núlifandi Íslendinga muni ekki það Ísland, sem einu sinni var – fyrir EES. Og þakkarvert, að háskólinn leitaði til hins virta álitsgjafa Morgunblaðsins, Björns Bjarnasonar, fv. ráðherra, til að hressa upp á þjóðarminnið. Og hann fékk m.a.s. einn fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu – og það er nóg til af þeim – í lið með sér. Og tvær konur – aðra norska – sem vonandi höfðu báðar náð lögaldri, þegar EES leit dagsins ljós. Norska, þó ekki væri nema vegna þess, að Norðmenn borga reikninginn að mestu.

OG EKKI VEITIR AF að hressa upp á minnið. Það eru nefnilega flestir búnir að gleyma því, að á sínum tíma – í alþingiskosningunum 1991, sem snerust nær eingöngu um EES – voru eiginlega allir á móti EES. Kenndu samninginn jafnvel við landssölu og landráð. M.a.s. hin ástsæli forseti Íslands, þáverandi, breytti ríkisráðsfundinum, þar sem EES öðlaðist löggildingu, í eftirmynd af líkvöku við flöktandi kertaljós (sjálfstæðisins).

SJÁLFUR BJÖRN BJARNASON var þá einn helstitalsmaður flokks síns, Sjálfstæðisflokksins, sem var eindregið á móti EES-samningnum. Í staðinn vildu þeir bara tvíhliða tollasamning til að forðast íþyngjandi skuldbindingar við Evrópusambandið.Björn viðurkenndi að vísu síðar, að slíkur tvíhliðasamningur stæði ekki til boða. Þetta hefði því bara verið venjulegt kosingablöff.

EES ER SUMSÉ skilgetið afkvæmi vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar (1988-91). Þar var Alþýðubandalag Ólafs Ragnars Grímssonar, þá fjármálaráðherra, þriðja hjól undir vagni. Öll var samningsgerðin undir verkstjórn þáverandi utanríkisráðherra – nefnilega undirritaðs – frá byrjun til enda. Nema hvað: þegar kom að kosningunum 1991, snerust þeir félagar, Steingrímur og Ólafur Ragnar, alfarið líka á móti – af ótta við fylgistap ella. Þeir snerust m.ö.o. gegn sinni eigin ríkisstjórn, sem veitti samningsumboðið. Steingrímur kallar þetta í ævisögu sinni sín stærstu pólitísku mistök. Réttilega. Gleymi ég einhverju? Já, Kvennalistanum. Já, hann var auðvitað á móti. Þær sáu ekki fyrir, að EES-samingurinn myndi fjölga opinberum starfsmönnum, þ.e.a.s.háskólamenntuðum konum, verulega.

VISNSTRI STJÓRNIN lifði af þessi fjörráð – með eins atkvæðis þingmeirihluta. Hann hefði getað heitið Páll frá Höllustöðum eða eitthvað þaðan af verra.Og þau voru fleiri. Með framhaldi vinstri stjórnarinnar hefði EES því verið fórnað á altari heimaalinnar þjóðrembu eða grámyglaðrar hugmyndafræði. Alla vega – ég ætlaði ekki að taka þátt í þeirri galdrabrennu. Hvað var til ráða? Að láta reyna á stefnufestu Sjálfstæðisflokksins. Ég hafði þá þegar reynslu af því, að hún væri ekki upp á marga fiska, þegar á reyndi. „Hvar er planið?“, spyrja ungir sjálfstæðismenn nú í öngum sínum. Ef þeir eru að leita að stefnufestunni, fara þeir enn villir vega. ÉG BAUÐ NÝKJÖRNUM formanni Sjálfstæðisflokksins stól forsætisráðherra, gegn einu skilyrði: EES. Kúvendið ykkar afstöðu og þiggið upðhefðina. Það gekk eftir.

Þess vegna fögnum við 30 ára afmæli EES á þessu ári.

ÞESS VEGNA gat Björn Bjarnason sagt eftirfarandi í skýrslu um EES samstarfið, sem hann ritstýrði af lofsverðri vandvirkni árið 2019. (Tilvitnunin lýsir niðurstöðu þýskrar rannsóknarstofnunar, Bertelsmann Stiftung, á efnahagsáhrifum EES fyrir Ísland):

Sé litið til heildaráhrifa á Íslandi eru uppreiknuð áhrif á efnahag Íslands 380 milljónir evra. Sú tala er fengin með því að reikna út velferðarávinning hvers einstaklings og margfalda með íbúafjölda. Er þar um að ræða 52 milljarða króna á ári hverju. Það er um 2. 07% af vergri landsframleiðslu Íslands“.

52 milljarðar króna á ári í 30 ár = 1.560 milljarðar á 30 árum. Það munar um minna. Heimamarkaður okkar stækkaði úr 300 þúsundum í 500 milljónir manna. Langvarandi kreppu (1988-94) með atvinnuleysi og landflótta var snúið í langvarandi vaxtarskeið. EES reyndist vera lyftistöng fyrir nýsköpunarfyrirtæki, sem eiga tilveru sína algerlega undir hindrunarlausum aðgangi að erlendum mörkuðum. Fjöldi fyrirtækja í upplýsingatækni, sérfræðiþjónustu, lyfjaframleiðslu og ferðamannaiðnaði blómstruðu. Ísland var á hraðri leið inn í nútímann. Gefum Herði Arnarsyni, þáverandi forstjóra Marels en nú Landsvirkjunar, lokaorðin:

Ég held í raun og veru, að fyrirtæki eins og Marel og Össur hefðu ekki orðið til í þeirri mynd,sem þau eru, hefðum við ekki orðið aðilar að evrópska efnahagssvæðinu…“(Viðskiptablaðið í apríl 2019)

Þetta er trúverðugur vitnisburður um 30 ára reynslu af EES. Í upphafi voru flestir á móti, líka þeir sem vilja nú (næstum) allir „þá Lilju kveðið hafa“.

Jón Baldvin Hannibalsson

Höfundur var pólitískur verkstjóri EES-samningsins í tveimur ríkisstjórnum (1988-1995). Honum var ekki boðið að miðla þeirri reynslu á 30 ára- afmæli EES í Háskóla Íslands.

Fjölgar á Vestfjörðum

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum hefur fjölgað um 61 frá 1. desember 2023 til 1.9. 2024 eða á níu mánaða tímabili. Fjölgunin nemur 0,8%. Landsmönnum hefur fjölgað um 1,7% á sama tímabili eða um nærri 7.000 manns. Fjölgunin á Vestfjörðum er tæpur helmingur af fjölguninni á landsvísu. Mest hefur fjölgunin verði á Suðurlandi 3,2% og næst mest á Vesturlandi 2,4%. Á Suðurnesjum hefur íbúum fækkað um 1,9% vegna eldsumbrotanna í Grindavík.

Fjölgunin í Ísafjarðarbæ hefur verið 1,8%, sem er aðeins meira en landsmeðaltalið og eru íbúar sveitarfélagsins nú 4.004 og hefur fjölgað um 69. Í Bolungavík eru nú 1.030 manns og hefur fjölgað um 12 frá 1. desember 2023.

Öll fjölgunin á Vestfjörðum er á norðanverðum Vestfjörðum, en þar nemur fjölguninni 74 manns. Á sunnanverðum Vestfjörðum, í nýja sveitarfélaginu Vesturbyggð hefur fækkað lítillega, úr 1.455 í 1.447. Í reykhólahreppi fækkaði um einn íbúa og á Ströndum fækkaði um 4. Þó var þar fjölgun í Kaldrananeshreppi um 9 manns eða 8,4% en á móti varð fækkun í Strandabyggð um 14 manns.

Patreksfjörður: OV færir spennustöð á Þúfneyri

Þúfneyri við Patreksfjörð. Guli kassinn sýnir nýju staðsetninguna, sæstrengurinn er bláa línan og háspennustrengurinn er rauða línan.

Heimastjórn Patreksfjarðar hefur samþykkt 120 metra færslu á lóð undir spennistöð sem Orkubú Vestfjarða fékk úthlutað á síðasta ári.

Staðsetningin var óhentug fyrir Orkubúið og segir í erindi fyrirtækisins að hún sé berskjölduð fyrir ofanflóði úr hlíðinni fyrir ofan og einnig er hún þannig staðsett að spennistöðvarhúsið mun vera mjög áberandi frá veginum.

Frá spennistöðinni mun liggja sæstrengur sem liggur út í fóðurpramma en fyrir utan eyrina eru eldiskvíar.

Kostir þessarar staðsetningar eru að mati OV þarna er mun styttra að fara í 19kV háspennustrenginn sem liggur niður á eyrina og sýnileikinn frá veginum verður mun takmarkaðri.

Vikuviðtalið: Lilja Rafney Magnúsdóttir

Þjóðarsál okkar Íslendinga rímar oft við ljóð Hannesar Hafsteins fyrrum sýslumanns á Ísafirði.

Lífið er dýrt,dauðinn þess borgun. Drekkum í kveld og iðrumst á morgun.

Þessi vísa hefur lifað með þjóðinni um ár og öld og á rætur sínar að rekja til þess að langa langaafi minn hann Friðbert Guðmundsson frá Vatnadal í Súgandafirði var í verslunarferð á Flateyrar sem var mikill verslunarstaður á þeim árum. Friðbert var glaður á góðri stund og hafði fengið sér vel í tána og Torfi kaupmaður sagði „Friðbert minn er þetta ekki komið gott hjá þér vinur“. Þá á Friðbert að hafa sagt „drekkum í kveld og iðrumst á morgun„ og Hannes sýslumaður frétti af þessum orðum og úr því varð til þessi vísa sem lifir enn í dag með landanum.

Sumarið og samveran.

Ég er þeirrar náttúru gerð að ég er fljót að gleyma leiðinlegu veðri og á auðveldara með að muna góðu dagana og í æsku var alltaf gott veður í minningunni. Sumarið í ár hefur verið að stríða okkur svoldið og bleytt vel í móður jörð en mörg okkar höfum getað skroppið suður um höf og sótt okkur sól og yl. Við Hilmar vorum svo gæfusöm að ná allri stórfjölskyldunni með okkur á sólarströnd, börnum og barnabörnum og góðum fylgifiskum. Þetta eru dýrmætar stundir og skapa minningar sem ylja því þegar upp er staðið þá eru það stundir með manns nánustu sem skipta öllu máli hvort svo sem það er um  vetur ,sumar,vor eða haust.

Pólitíkin er vanabindandi áhugamál.

Ég hef vasast í verkalýðsmálum,félagsmálum og pólitík í gegnum tíðina og haft gaman að þó stundum geti það verið súrt en það gleymist fljótt eins og vont veður. Nú stend ég á hliðarlínunni sem varaþingmaður sem reynt hefur að hafa áhrif en ekki haft alltaf erindi sem erfiði svo ég steig til hliðar eftir 25 ára starf í VG og þar af 12 ár á Alþingi þar sem dýrmæt reynsla og þekking skapaðist með góðu fólki innan sem utan þings. Það er nefnilega þannig að á Alþingi eins og á öðrum vinnustöðum skapast góð vinátta þvert á flokka. Ég tel mjög mikilvægt að á þeim vettvangi séu kjörnir fulltrúar með fjölbreyttann bakgrunn og þekkingu á lifinu í landinu sem nýtist til þess að skapa laga umgjörð um gott samfélag um allt land með innviðum sem þjóna öllum landsmönum.

Heimur versnandi fer.

Það sker í hjartað að horfa uppá fréttir hvern einasta dag um þjóðarmorð og styrjaldir víðsvegar í heiminum þó hörmungarnar á Gaza og í Úkraínu séu þar efstar á blaði þá er víða ömurlegt ástand sem fer hljóðar í hinum vestræna heimi eins og hörmungarnar í Súdan. Maður spyr sig er það virkilega svo að mannskepnan sé í raun grimmasta skepna jarðar og hversvegna geta vitibornir menn ekki stöðvað þessa vitfirringu sem blasir við dagsdaglega í fréttum. Eru það peningar,valdasýki, og kapítalísk hagkerfi heimsins sem stuðla að því að kynnt sé undir styrjaldir með vopnaframleiðslu og ásókn og græðgi í auðlindir fátækari ríkja. Eru Vesturlöndin svo saklaus í þessu hernaðarbrölti sem skilur eftir sig sviðna jörð því ef vopnaframleiðsla þeirra leggðist af þá hefði það mikil áhrif á efnahag ríkjanna. Nú þurfa friðflytjendur um heim allann að leggjast á eitt með friðarboðskap og tala fyrir samningaviðræðum því við leysum aldrei deilur með drápum,gjöreyðingu og styrjöldum það eru heimskra manna ráð.

Margt er í mörgu.

Lífið er ólíkindatól og margt breyttist vegna veikinda í fjölskyldunni minni en samt er alltaf hægt að þakka fyrir að ekki fór verr og maður aðlagar sig breyttum aðstæðum. Ég hef sinnt ýmsum verkefnum síðustu misseri en ekki verið í fastri vinnu og var m.a. í starfshóp á vegum Umhverfisráðherra ásamt öðru góðu fólki sem skilaði metnaðarfullri skýrslu í vor um „Orkunýttni og ný tækifæri til orkuöflunar „ Vestfirðir eiga mikið inni svo bæta megi raforkuöryggið og flutningskerfið og vil ég að skoðaðar verði allar skynsamlegar leiðir til orkuöflunar og betri orkunýtingar þó ég sé mjög gagnrýnin á vindmyllugarða sem nú er mikil ásókn í og þar þarf að setja öfluga lagaumgjörð um hvar og hvort yfir höfuð megi setja vindmyllur niður. Einnig þurfa kjörnir fulltrúar okkar að vera miklu kröfuharðari svo hraða megi samgöngubótum og að fá fleiri jarðgöng og  breikkun á hættulegum einbreiðum Vestfjarðargöngum framar í samgönguáætlun. Mér finnst stundum eins og að menn séu of lítillátir og hógværir í kröfum sínum því þó það þokist eitthvað áfram sem er mjög gott þá hafa Vestfirðir allir setið á hakanum alltof lengi og þar þarf að jafna leikinn á landsvísu og ríkið á í mikilli innviðaskuld við þennan landshluta að öðrum ólöstuðum.

Lífið og tilveran.

Langa langaafi minn hann Friðbert í Vatnadal sagði „drekkum í kveld og iðrumst á morgun „ Hann var þó ekki neinn drykkjumaður en stundum þurfum við að gleðjast yfir því góða sem við höfum og stíga uppúr dægurþrasinu þó margt megi betur fara í okkar þó tiltölulega friðsama og góða samfélagi. Hörmulegir atburðir undanfarið og hnífaburðir ungs fólks vekja okkur til vitundar um að við þurfum að standa saman sem samfélag og hlú að unga fólkinu okkar og öllum þeim sem eiga við geðræn vandamál að stríða og þurfa gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það sem einkennir gott samfélag er samhjálp,vinátta og samtakamáttur og að standa með þeim sem minnst mega sín. Þannig samfélagi hef ég alist upp í hér á Suðureyri og þekki það vel á Vestfjörðum og það er sem betur fer þannig víða um land allt. Nú um stundir er ég í stjórn TR en er tilbúin til að taka að mér þau verkefni sem lífið færir mér. Þú færð ekki allt sem þú vilt og vilt ekki allt sem þú færð er stundum sagt,en það er mikilvægt að gera það besta úr hlutunum hverju sinni það er mitt mottó !

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Landsbyggðarkona og varaþingmaður.

Ísafjarðarhöfn: 200 þúsund farþegar og 642 m.kr. í tekjur

Stór dagur í höfninni 20. júlí sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í yfirliti frá Ísafjarðarhöfnum kemur fram að 22. ágúst sl. höfðu 163 skemmtiferðaskip komið í sumar, þar af þrjú til Þingeyrar og höfðu skilað 641.576.141 kr. tekjum til hafnanna.
Farþegafjöldi var þá kominn í 198.813. Aðeins 7 skip hafa afbókað vegna veðurs.

Framkvæmdir

Framkvæmd við þekju og lagnir á nýja kantinum voru komnar á lokasprettinn og malbikað þann 22. ágúst. Þá átti eftir að reisa ljósastaura, klára vatn og rafmagn og setja hurðir og glugga í þjónustuhúsin og setja
upp myndavélakerfi. Stefnt er að því að þær framkvæmdir klárist fyrir áramót.
Búið er að malbika ný rútubílastæði og næst er að koma gangstígagerð í útboð. Unnið er að hönnun á móttökuhúsi.

Ekkert gengur með dýpkun

Varðandi dýpkun þá hefur ekkert gengið með þá dýpkun sem eftir er við Sundabakka og Sundin. Álfsnesið kom í endaðan júlí, byrjaði á 5 daga stoppi í viðhald, náði ekki einum sólahring við vinnu áður en það bilaði aftur.


Er búið að vera bilað síðan.

Glöggt er gamalla Ísfirðinga augað ..

Um síðast liðna helgi  hér á Ísafirði , voru haldin mörg árgangsmót , það voru fermingar , Gaggó , stórafmæli og að minnsta kosti 5 árgangar og hátt á annnað hundrað manns komu heim í faðminn fjalla blárra til að hittast, faðmast og njóta samverunna við okkur heimafólkið. Þetta voru yndislegar stundir sem allir njóta ,að rifja upp æskuminningar, bernskubrek ,skoða bæinn okkar og við minn árgangur var svo heppin að við fengum einkatónleika í Hömrum hjá núverandi og fyrrverandi skólastjórum, ásamt fjölda uppákoma  bara frábær tveggja daga gleði. Og um næstu helgi eru alla vega 3 árgangsmót.

En að erindinu. Við hittum marga úr öðrum skólamótum um helgina og og ég verð að viðurkenna að sem Ísfirðingur I marga ættliði og gróin  heimakona , þá sveið það svolítið sárt að ótrúlega margir sem komu heim, þeim fannst bærinn virkilega ósnyrtilegur og illa hirtur og ég sem er svo montin með bæinn minn spurði hvað það væri sem öskraði svona á þau og það stóð ekkert á svarinu. Þeim fannst miðbærinn, Silfurtorgið,  vera sjabbý  var eins og illgresis garður grös og arfi með öllum veggjum og  Silfurgatan og með öllum gangstéttum á Eyrinni kafloðin með fram Pollgötunni, sjávarmegin eru hnéhá grös og arfi. Flestir sögðu að gömul bílhræ væru um allan bæ, sérstaklega við atvinnusvæði á höfninni og fyrir neðan nýju skúrana og svona mætti lengi telja. Þá höfðu þau haft spurnir af því að það hefði ekki verið unglingavinna hér nema í mýflugumynd sl 2 ár og fannst bærinn bera þess illa merki  og ekki síst að það er komin endurnýjaður fótboltavöllur og verið að malbika að og við hann en það er bara njóli og órækt á göngustígnum með fram, og tala nú ekki um kerfilinn og óræktina I kringum Hlíðarvegsblokkina og þar um kring.

Hitti svo fjölda fólks á stórum vinnustað í gær og fyrradag og minntist á það sem okkar fólki fannst og var hálf brugðið, að það tóku flestir undir þetta .

En ég vildi bara koma þessu á framfæri þvi þetta er mjög þarft til ráðamanna sem verða að gera betur og fjarlægja þessu bílhræ sem eru öllum till ama strax.

PS. Í sambandi við fótboltavöllinn sem var endurvígður I sumar en hann er 60.ára, þá hringdi ég niður á bæjarskrifstofur á föstudaginn fyrir vígsluna og ég vildi koma þvi á framfæri að þegar hann var tekinn í notkun á sínum tíma, þá var hann svo til eingöngu unnin í sjálfboðavinnu af m.a. pabba mínum Didda málara , Pétri Sig, Mugg á Grængarði, Jonna Kristmanns og ótal félögum í Vestra og Herði á sínum tíma og held að Siggi Sveins frá Góustöðum hafi gefið vinnu sína líka, og það eru ekki margir eftirlifandi af þessum höfðingjum. En ég náði ekki í bæjarstjórann en kom þvi til skila til hennar að mér fyndist það eiginlega heilög skylda að heiðra Bjössa Helga og Jens Kristmanns fyrir ómælda sjálfboða vinnu á sínum tíma og gegnum árin í tilefni endurvíglunnar, nei það var ekki hægt, ekki einu sinni að færa þeim  blómvönd og mér í hjartans einlægni fannt það aumt.

Nenni ekki neinum blaðaskrifum I sambandi við þessa grein en vildi svo hjartans koma þessu á framfæri fyrir fjölda Ísfirðinga og líka brottfluttra.

Með kveðjum

Bjarndís málari.

Ljósvíkingar á hátíðarforsýningu í Ísafjarðarbíói í kvöld

Á myndinni eru Snævar Sölvason leikstjóri, Helgi Björnsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson sem leika í myndinni. Von er á fleiri aðstandendum myndarinnar til Ísafjarðar.

Í kvöld kl. 19 verður hátíðarforsýning á myndinni í Ísafjarðarbíói að viðstöddum aðalleikurum, leikstjóra og öðrum aðstandendum. Almennar sýningar á Ljósvíkingum hefjast á morgun, föstudaginn 6. september um land allt.

Myndin var að mestu leyti skotin á Ísafirði haustið 2023. Fjöldi Ísfirðinga og nærsveitarfólks tók þátt í gerð myndarinnar, bæði sem leikarar og í öðrum störfum við framleiðsluna.

Það ríkir því eftirvænting í bænum.

Kvikmyndin Ljósvíkingar var frumsýnd í Smárabíói þriðjudagskvöldið 3. september.

Myndin fjallar um æskuvinina Hjalta og Björn sem reka vinsælan fiskveitingastað á Ísafirði. Um leið og þeim býðst óvænt að hafa staðinn opinn árið um kring kemur Björn út úr skápnum sem kona. Hjalta veitist erfitt að skilja stöðu vinar síns.

Höfundur Ljósvíkinga er Snævar Sölvi Sölvason en með hlutverk þeirra Hjalta og Björns fara þau Björn Jörundur Friðbjörnsson og Arna Magnea Danks.

Í kvikmyndinni hljómar lagið Í faðmi fjallanna samið af Helga Björnssyni.

Kvikmyndin verður forsýnd í Ísafjarðarbíói í dag fyrir aðstandendur, leikara og aðra sem koma að myndinni.

Almennar sýningar hefjast í bíóinu á föstudag kl 8.

Neyðarkall á Vestfjörðum

Seinni skútan í grjótinu við Pollgötuna. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því fyrir skömmu að borist hefði um hádegisbilið í dag neyðarkall á rás 16 á VHF fjarskiptum. Lögreglan segir að ekki sé fullljóst hvaðan kallið barst en er horft til neyðarskýlisins í Hornvík. Né heldur hvers eðlis neyðarkallið er. En ekki hefur náðst aftur í þann sem kallaði.

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum var virkjuð og óskað var eftir aðstoð varðskipsins Þórs, sem statt var við Snæfellsnes. Vonir standa til þess að varðskipið verði komið í Hornvík um kl.21:00 í kvöld.

Mikið hvassvirði er á Vestfjörðum. Þakplötur fuku af húsi í Bolungavík og var björgunarsveitin Ernir kölluð út. Tvær skútur hafa rekið upp í grjótið á Pollgötu á Ísafirði. Önnur hefur verið dregin út aftur en hin er landföst.

Spáð er því að vindi lægi með kvöldinu.

RÚV Orð

RÚV Orð hefur nú verið formlega opnaður fyrir almenning.

Eftir vel heppnaðar notendaprófanir er RÚV Orð nú aðgengilegt öllum sem vilja efla íslenskukunnáttu sína á sínum hraða.

Verkefnið er afrakstur samstarfs menningar- og viðskiptaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra ásamt RÚV við Språkkraft, óhagnaðardrifið sænskt félag sem hefur þróað nýstárlega máltæknilausn þar sem notendur velja eigið færnistig í tungumálinu. 

RÚV Orð bætir verulega aðgengi innflytjenda að íslenskukennslu, þar sem fólk getur lært á eigin forsendum og á eigin hraða. Notendur eiga möguleika á að velja sjónvarpsefni úr fjölbreyttri dagskrá RÚV og tengja það við sitt eigið tungumál; valið stendur á milli ensku, frönsku, þýsku, lettnesku, litáísku, pólsku, rúmensku, spænsku, taílensku og úkraínsku.

Notendur geta svo stillt íslenskufærni sína eftir sex færnistigum Evrópska tungumálarammans, frá byrjendum upp í að geta auðveldlega lesið nánast allt ritað mál á íslensku.

Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn og verkfærakista ætluð sveitarfélögum

Byggðabragur sveitarfélaga er viðfangsefni rannsóknarskýrslu sem nýverið var gefin út af Rannsóknasetri byggða og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst. Skýrslan ber heitið Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum. Rannsóknin var styrkt af Byggðarannsóknasjóði vorið 2023. Samhliða skýrslunni var gefin út handbók, Byggðabragur: Verkfærakista ætluð sveitarfélögum. Höfundar beggja rita eru dr. Bjarki Þór Grönfeldt og dr. Vífill Karlsson.

Sveitarfélögin Dalabyggð, Húnaþing vestra og Húnabyggð tóku þátt og var byggðabragur þeirra viðfangsefni rannsóknarinnar.

Rannsakendur leituðu meðal annars eftir breytum eða mögulegum ástæðum sem gætu skýrt þann mun milli sveitarfélaganna sem áður hafði sést í íbúakönnunum í þáttum sem efla jákvæðan byggðabrag. Byggðabragur er skilgreindur í skýrslunni þannig að átt er við hver ánægja íbúa er með sveitarfélagið og þjónustuna þar sem þeir búa, hversu bjartsýnir þeir eru á framtíðina og hvort þeir vilji halda áfram búsetu á svæðinu.

Samhliða skýrslunni kom út handbókin „Byggðabragur: Verkfærakista ætluð sveitarfélögum“. Handbókinni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir sveitarfelög sem vilja byggja upp jákvæðan byggðabrag og auka lífsgæði íbúanna. Bent er á mikilvægi virkrar hlustunar stjórnenda og jafnframt að skýr stefna og tilgangur séu grundvallaratriði. Hlustun á íbúa og menning sem stuðlar að virkni þeirra og þátttöku í samfélagi þar sem allir tilheyra sé dýrmæt. Mikil verðmæti fyrir sveitarfélög sé fólgin í því að efla stolt íbúa.

Nýjustu fréttir