Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 47

Bolungavík: húsfyllir á tónleikum með lögum Ólafs Kristjánssonar

Ólafur á sviðinu á tónleikunum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Lokaatriðið á velheppnuðum Markaðsdögum í Bolungavík um helgina voru tónleikar í Félagsheimili Bolungavíkur með lögum Ólafs Kristjánssonar fyrrverandi skólastjóra Tónlistarskóla Bolungavíkur og einnig fyrrverandi bæjarstjóra.

Leikin voru jasslög sem eru á nýútkomnum diski „Bjórkvöld með vinum“. Hljómlistarmenn voru Ísfirðingarnir Halldór Smárason og Bjarni Sveinbjörnsson og á trommunum var Pétur Grétarsson. Ólafur Kristjánsson, sem er á 89. aldursári fór upp á sviðið í lokin og lék tvö lög með tríóinu. Seinna lagið átti svo sannarlega heima á þessum stað en það var Í Bolungavíkinni er björgulegt lífið og ekki vantaði neitt upp á undirtektir tónleikagesta.

Húsfyllir var á tónleikunum og var tónlistarmönnunum og Ólafi Kristjánssyni vel og lengi fagnað.

Félagsheimilið var þétt setið.

Orkumálastjóri hættir um áramótin

Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi mun hætta um næstu áramót. Orkustofnun verður þá lögð niður sem og starf orkumálastjóra.

Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar og var starf forstjóra þeirrar stofnunar auglýst í Morgunblaðinu í morgun.

Starfsstöð forstjóra verður á Akureyri en stofnunin verður með starfsstöðvar víða um land.

Þrjár stofnanir í stað fimm

Alþingi samþykkti fyrir þinglok í vor lög um sameiningu stofnana og verða til þrjár nýjar stofnanir sem leysa fimm af hólmi.

Auk Umhverfis- og orkustofnunar verða til um Náttúrufræðistofnun og Náttúruverndarstofnun og er embætti forstjóra beggja stofnanan auglýst í Morgunblaðinu í dag.

Náttúruverndarstofnun tekur um næstu áramót við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Náttúruverndarstofnun sinnir verkefnum á sviðum náttúruverndar og sjálbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Verður starfsstöð forstjóra á Hvolsvelli.

Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn voru sameinaðar Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fékk heitið Náttúrufræðistofnun og tók ný sameinuð stofnun til starfa 1. júlí sl.. Starfsstöð forstjóra mun vera á Vesturlandi en starfsstöðvar stofnunarinnar eru víða um land.

Minning: síra Lárus Þ. Guðmundsson

f. 16. maí 1933 – d. 4. júní 2024.

Jarðsunginn frá Digraneskirkju 28. júní 2024.

Að góðklerkinum síra Stefáni á Þingeyri Eggertssyni gengnum varð síra Lárus Þorvaldur Guðmundsson í Holti í Önundarfirði prófastur  Ísafjarðarprófastsdæmis.  

Stórmikil eftirsjá var að síra Stefáni, þessum sérstæða og skemmtilega manni, sem meðal annars hafði forgöngu um gerð flugvallar á Þingeyri, bjargaði með talstöð sinni áhöfn togara sem sökk, og sneri að gamni sínu íslenskum staðarnöfnum í erlend mál. Fagurhólsmýri varð þannig á dönsku Smukkerupsmose, Sauðárkrókur á ensku Sheepriverhook og Hnífsdalur Knife Valley. 

Síra Lárus var ljúfmenni og einkar nákvæmur embættismaður. Gegndi hann  prests- og prófastsstörfum af alúð og samviskusemi.   Hann sat Holts stað af reisn og hirtni, ræktaði æðarvarpið með mikilli hind og jók það til muna. Naut eftirmaður hans góðs af heldur en ekki. Síra Lárus var útilífs-, veiði- og íþróttamaður; gekk á skíðum, átti hesta, sömuleiðis vélsleða og hlut í flugvél.  Hann kunni ekki að hræðast og fór allra sinna ferða án tillits til veðurs og færðar.  Kátir piltar kölluðu sóknarprest sinn Lalla sport.  Hann vildi öllum vel, var manna þýðastur í ávarpi og heilsaði gjarnan með orðunum “komdu fagnandi og blessaður.” 

            Utansveitarmenn voru á skemmtigöngu í  Holtsodda.  Þeir sáu mann, sem snertispöl frá landi reri gúmmbáti hljóðlátum áratogum, íklæddur felubúningi og vopnaður.  Hér var prófastur á ferð,  sívökull og óþreytandi gæslumaður æðarvarpsins og svarinn andstæðingur vargs.  Fullyrt var, að hann hefði helst viljað útrýma með öllu tegundinni hrafn (corvus corax).   

            Haldinn var prestafundur á Hrafnseyri.  Þetta var einn þeirra daga, þegar Skaparinn hefur dregið þráðbeina línu neðan við brúnir fjallanna, en fyrir ofan hana er sólbjört fönnin.  Síra Lárus hringdi  upp nágrannapresta tvo og bauð þeim að koma við í Holti hjá þeim frú Sigurveigu á leiðinni vestur.  Þekktust þeir það, gengu í bæinn og var bugað að þeim höfðinglega, enda gestrisni alla stund viðbrugðið á heimili þeirra hjóna.  Frú Sigurveig var hjúkrunarkona héraðsins, mjög vel látin og að verðleikum, því að hún var stórvel gefin og eftir því eljusöm.  

Síra Lárus spurði þá starfsbræður, hvort heldur þeir vildu aka eða fljúga yfir í Arnarfjörð.  Þeir kusu seinni kostinn, svo síður spyrðist, að þeir væru flughræddir.  Síra Lárus hringdi til góðbónda, sem kom að vörmu spori.  Settust  fjórir upp í vélina og skiptust þeir í framsætunum á orðum, sem flugmönnum byrjar, og prestunum í aftursætunum heyrðist vera  útlenska.  Ferðin var flugtak og lending.  Leið svo fundurinn af.  Bóndi kom fljúgandi að Eyri, sótti kennimennina og var svo lent á flugvellinum í Holti, gengið í bæinn og þeginn rausnarlegur beini.  Þetta var góður dagur, sem minnst hefur verið æ síðan. 

            Vel hélt síra Lárus atgervi sínu þótt árin færðust yfir.  Prestur í Reykjavík  auglýsti messu.  Ekki varð þó af því að hann fengi framið þjónustuna sökum heimsfaraldursins.  En gljáfægðri bifreið af gerðinni Mercedes-Benz var rennt í stæði við kirkjuna, og út steig prúðbúinn maður, í svörtum, skósíðum frakka, með hatt og leðurhanska:  Síra Lárus, rétt að verða níræður, hér kominn að sækja kirkju.

            Guð huggi og styrki ástvini öðlingsins síra Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar.  Guð blessi minningu góðs drengs og ógleymanlegs embættisbróður.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

Vesturbyggð: hafnar auglýsingaskiltum á Patreksfirði

Horft yfir svvæðið þar sem Vélsmiðjan Logi er en þar var óskað eftir heimild fyrir staðdetningu á auglýsingaskilti. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Heimastjórn Patreksfjarðar hefur haldið sinn fyrsta fund. Meðal mála sem fyrir voru tekin var erindi frá veitingastaðnum Skútinn – kaffi sem óskaði eftir því að fá að setja upp tvö auglýsingaskilti Skútann – kaffi annars vegar við gatnamót Aðalstrætis og Strandgötu/Þórsgötu og hins vegar neðan við Strandgötu við þvottaplan og ofan við Strandgötu við Mikladalsá.

Erindið var fyrst lagt fyrir skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar sem lagðist gegn erindinu og benti á upplýsingasvæði innan við kirkjugarðinn fyrir skiltið að höfðu samráði við Vegagerðina með þeim rökum að umbeðnar staðsetningar gætu komið til með að trufla umferðaröryggi.

Heimastjórn Patreksfjarðar tók undir afstöðu ráðsins og hafnaði erindinu þar sem staðsetningarnar kunna að hafa áhrif á umferð gangandi vegfarenda og umferðaröryggi.

Heimastjórn Patreksfjarðar leggur til við bæjarráð að unnar verði reglur fyrir þéttbýli í Vesturbyggð um uppsetningu auglýsingaskilta, staðsetningar þeirra, stærð og útlit.

Kort sem ýnir mögulega staðsetningu skiltis við Vélsmiðjuna Loga.

Laxeldi: brettin smíðuð fyrir vestan

Á myndinni eru Kristján Rúnar Kristjánsson framkvæmdastjóri laxavinnslu Arctic Fish og Aðalsteinn Ómar Ásgeirsson eigandi Heiðmýrar ehf.

Arctic Fish hefur gert samning við fyrirtækið Heiðmýri ehf á Ísafirði um smíði á brettum fyrir laxlavinnsluna í Bolungavík.

Brettin verða sett saman á Ísafirði en fram að þessu hafa þau komið frá höfuðborgarsvæðinu. Með þessu næst fram töluvert hagræði þar sem ekki þarf að halda lager fyrir bretti í vinnslunni.

Gert er ráð fyrir að það sem eftir er af árinu verði um 13.000 bretti sett saman fyrir Arctic Fish.

„Það skiptir okkur máli að lágmarka kolefnisspor af framleiðslunni. Meðal annars þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að versla í heimabyggð“ segir Kristján Rúnar Kristjánsson framkvæmdastjóri laxavinnslu Arctic Fish.

Flugreiknir Jóns H. Júlíussonar er á Flugsafni Íslands

Flugreiknir

Flugreiknir úr eigu Jóns H. Júlíussonar flugvélstjóra og flugvirkja. Flugreiknirinn er úr ljósum pappa og er framleiddur af Houghton Mifflin Company. Hann er merktur Jóni og á hann hafa verið skrifaðar mælieiningar og formúlur.

Jón Hólmsteinn Júlíusson fæddist 3. janúar 1926 á Þingeyri. Hann lést 2. febrúar 2019. Jón lauk atvinnuflugmannsnámi og nam flugvirkjun hjá Flugfélagi Íslands. Hann starfaði lengst af sem flugvélstjóri hjá Loftleiðum, síðar Flugleiðum.

Jón var einn af stofnendum flugfélagsins Flugsýnar og var einn af stofnfélögum Flugvirkjafélags Íslands. Eftir að Jón lauk störfum, gekk hann í Flugklúbbinn Þyt og sinnti eftirliti og viðhaldi á flugvélum klúbbsins um margra ára skeið.

Af sarpur.is

Sólarsellustyrkir

Orkusetur Orkustofnunar auglýsir eftir umsóknum um sólarsellustyrki.

Um er að ræða samkeppnissjóð með takmarkað fjármagn. Við val á umsóknum er horft
til verkefna þar sem notkun og framleiðslugeta fara hvað best saman. Styrkurinn nemur
aldrei meira en 50% af efniskostnaði.

Styrkjum Orkuseturs verður því einkum beint þangað sem hagsmunir notenda og
ríkis eru hvað mestir. Lagt verður því áherslu á eftirfarandi 3 þætti og hafa verkefni
sem falla undir þessar skilgreiningar forgang.
Utan samveitna
Á stöðum utan samveitna þ.e. þar sem raforkuframleiðsla fer fram með dísilrafstöðvum.
Hér niðurgreiðir ríkið allt að 50 kr/kWst sem gerir hagsmuni ríkis umtalsverða. Einnig
draga sólarsellur úr olíunotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda sem
samræmist orkustefnu ríkis og skuldbindingum.
Notendur á dreifbýlistaxta
Á stöðum þar sem notendur eru á dreifbýlistaxta. Þar eru notendur að borga hæsta
raforkuverðið eða allt að 29 kr/kWst. Eins er ríkið að borga dreifbýlisframlag sem nemur
að frádregnu jöfnunargjaldi um 3.5 kr/kWst. Fyrir hverja kWst sem framleidd er í dreifbýli
lækkar því kostnaður ríkis sem þessu nemur.
Notendur á rafhituðum svæðum
Á rafhituðum svæðum. Þar er raforkunotkun mikil og ríkið niðurgreiðir allan
raforkuflutning. Niðurgreiðsla á rafhitun er í kringum 10 kr/kWst í dreifbýli. Fyrir hverja
kWst sem framleidd er í dreifbýli lækkar því niðurgreiðslukostnað ríkis sem þessu
nemur

GÍSLASÖGUGANGA Í GEIRÞJÓFSFJÖRÐ

Laugardaginn 6. júlí kl. 10:00 verður gengið með landvörðum á sunnanverðum Vestfjörðum um Geirþjófsfjörð.

Gangan hefst á Dynjandisheiði undir fjallinu Hesti. Gengið verður frá Dynjandisheiði, áningastæði við þjóðveg undir fjallinu Hesti, sem leið liggur ofan í Geirþjófsfjörð.

Þátttakendur munu fræðast um Gísla-sögu Súrssonar en Auður Vésteinsdóttir, kona hans, bjó í Geirþjófsfirði á meðan á útlegð Gísla stóð og þar féll hann fyrir mönnum Barkar digra samkvæmt sögunni.

Náttúran, kyrrðin og fegurðin í eyðifirðinum Geirþjófsfirði er rómuð en þangað liggja engir vegir.

Gengið er um mjög gróið og bratt svæði, gangan er því talsvert á fótinn en fær þeim sem treysta sér í brattann.

Landvörður bíður við fjallið Hest á merktum bíl rétt fyrir klukkan 13:00 á tilsettum degi og aðstoðar þátttakendur við að koma bílum sínum fyrir áður en gangan hefst.

Endurnýjun á tveimur deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði

Nýlega lauk gagngerum breytingum og endurnýjun á fæðingardeild og húsnæði geðheilsuteymis fullorðinna.

Fæðingardeild

Deildin var öll máluð, öll húsgögn voru endurnýjuð ásamt skrautmunum. Nýtt fæðingarrúm er á fæðingarstofu ásamt nýju endurlífgunarborði barna.

Allt verklag hefur verið tekið í gegn og uppfært ásamt því að þjónustan hefur verið efld eins og til dæmis er nú boðið upp á regluleg fæðingarfræðslunámskeið, getnaðarvarnarráðgjöf, heilsusamtöl, nálastungur og ýmislegt annað.

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði stendur konum til boða samfelld þjónusta ljósmóður í meðgönguvernd, fæðingu og sængurlegu. Einnig má leita til ljósmóður í tengslum við brjóstagjöf frá fæðingu og út brjóstagjafatímabilið. Áhersla er lögð á vandaða og persónulega þjónustu og aðstaða fæðingardeildarinnar gerir okkur kleift að bjóða upp á samveru beggja foreldra og barns fyrstu dagana eftir fæðingu.

Við deildina starfa þrjár ljósmæður í fastri stöðu.

Eftirtaldir aðilar lögðu deildinni lið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir:

Endurskoðun Vestjarða, Þrymur, Verkalýðsfélag Bolungarvíkur, Verkvest, Oddfellowstúkan Þórey, Kvenfélagið Hvöt, Kvenfélagið Von, Kvenfélagið Framsókn og Kvenfélagið Ársól.

Geðheilbrigði

Húsnæði geðheilsuteymis fullorðinna hefur allt verið tekið í gegn og endurnýjað en teymið flutti alla sína starfsemi á þriðju hæð HVest á Ísafirði þar sem áður var gistivist.

Aðstaðan er öll hin glæsilegasta og mikill kostur að hafa alla starfsemi teymisins á sama stað og hafa biðstofu sem eingöngu er fyrir skjólstæðinga teymisins.

Geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hefur verið virkt frá 1. apríl 2020. Þjónusta teymisins er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem glíma við andlega vanlíðan og/eða eru greindir með geðsjúkdóm og þurfa á þverfaglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda.

Í teyminu starfa félagsráðgjafi, sálfræðingur, iðjuþjálfi og áfengis- og vímuefnaráðgjafi í fullu starfi auk þess sem lismeðferðarfræðingur og læknir eru í hlutastarfi við teymið.

Guðbjörg ÍS : 43 ár frá komu til heimahafnar

Í dag eru rétt 43 ár síðan Guðbjörg ÍS 46 sigldi inn Sundin til hafnar á Ísafirði. Skipið var smíðað í Flekkefjord í Noregi. það var hið sjötta i röðinni með þetta nafn og annar togarinn sem útgerðarfélagið Hrönn gerði út og var 490 brt. að stærð. Vélin í Guðbjörginni var sú stærsta sem þá þekkist í íslensku fiskiskipi eða 3.200 hestafla MAK dísilvél.

Skipstjóri var Ásgeir Guðbjartsson.

Nýjustu fréttir