Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 47

Ísafjörður: neyðarblysi skotið á loft að tilefnislausu

Horft yfir Ísafjörð.

Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því í morgun að á laugardaginn lhafi hún fengið í gegnum Neyðarlínuna, tilkynningu frá íbúa á Ísafirði sem sagðist hafa séð fleiri en eitt neyðarblys á lofti í firðinum. Hafin var strax eftirgrennslan og þegar hún bar ekki árangur var áhöfn björgunarskipsins Gísla Jóns kölluð út.

Rétt fyrir miðnættið var viðbragð áhafnarinnar afturkallað þar sem fréttir bárust um að blysin stöfuðu frá hópi fólks sem komið hafði saman vegna hátíðarhalda, fyrir utan veitingastað á Skutulsfjarðareyri.

Skrímaslasetrið Bíldudal : 4000 gestir í sumar

Valdimar Ottósson og Elfar Steinn Karlsson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á laugardaginn bauð Skrímslasetrið gestum og gangandi upp á vöfflur og kaffi í tilefni af því að sumarvertíðinni var að ljúka. Veitingasalurinn var þéttsetinn af ungum sem öldnum sem þáðu ókeypis veitingarnar og gerðu sér dagamun. Um kvöldið að svo pubkviss og félagarnir Viðar og Gísli héldu uppi stemmningunni.

Valdimar Ottósson og Elfar Steinn Karlsson eru eigendur að Skrímslasetrinu og létu vel af rekstrinum í sumar. Um 4.000 gestir komu til að skoða skrímslasafnið og góð aðsókn að veitingasölunni.

Nú þegar skólastarfið er hafið færist hluti af starfi Grunnskóla Bíldudals inn í húsakynnin og verður því Skrímslasetrið lokað. Mygla kom upp í Grunnskólanum og var skólastarfið fært í nærliggjandi hús, gamla grunnskólann og Skrímslasetrið. Ákveðið hefur verið að byggja nýja skóla og er unnið að samningum við verktaka.

Skrímslasetrið á Bíldudal.

Ísafjarðarbær: ýta á að klára Dynjandisheiði

Nýi vegurinn endar við Dynjandisá. Þaðan eru um 6,5 km að nýja veginum í Dynjandisvoginum. Ekkert er minnst á þennan lokaáfanga í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.

Suðurverk vinnur að því þessa dagana að ljúka við að setja slitlag á nýjan vegarkafla á norðanverðri Dynjandisheiði sem endar við Dynjandisá. Þegar því verður lokið verða um 6,5 km milli slitlagsenda að nýja veginum í Dynjandisvoginum.

Útboði á lokakaflanum hefur ítrekað verið frestað og hefur Vegagerðin ekki vilja gefa neitt út um það hvenær það verður.

Búist er við því að verktakinn taki saman nú í haust tæki og vinnubúðir og flytja af heiðinni.

Bæjarins besta sendi fyrirspurn til Gylfa Ólafssonar, formanns bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjori og innti þau eftir því hvort Ísafjarðarbær hafi farið fram á það við stjórnvöld að þegar í stað verði haldið áfram.

Í svörum Gylfa Ólafssonar segir að Ísafjarðarbær hafi ýtt á þessi mál beint og í gegnum Vestfjarðastofu, bæði í umsögnum um þingmál og í samtölum við stjórnmálamenn á ýmsum vettvangi. „Þá bindum við vonir við að áhersla atvinnulífsins á málin í gegnum Innviðafélagið verði spark í rass stjórnvalda.“

Óskýr svör stjórnvalda

Gylfi bætti við „Það sem hefur náttúrulega gert umræðu um Dynjandisheiðina afkáralegri er að svör stjórnvalda og Vegagerðarinnar og stjórnmálamanna hafa aldrei verið skýr heldur hafa þau dregið svör og gefið ádrátt um eitthvað sem ekki hefur orðið. Það er alveg rétt hjá þér að það verður að klára þetta. Tækifærið er núna áður en vélarnar fara og kostnaður við flutning tækja fram og til baka bætist við.“

Gylfi sagði umbyltinguna sem Dýrafjarðargöng, þverun Þorskafjarðar og verulegar vegbætur á Dynjandisheiðinni hafa skapað vera óumdeilda, meðal annars í samþættingu samfélaganna á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum, sem og styttingu aksturstíma til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Óþolandi staða

„Í þessari syrpu eru það þverun fjarðanna á suðursvæðinu og þessir örfáu kílómetrar á Dynsunni sem eru eftir, en að því loknu eru engin göng sem gert er ráð fyrir að opni fyrr en 2039. Sú staða er óþolandi, en einmitt í því ljósi ætti ekki að láta afgreiðslu þessara samgöngubóta dragast. Vestfirðir hafa þrefaldað verðmætasköpun sína á síðustu 7 árum, og þar eru það ekki bara útflutningsvörurnar sem þurfa að komast á milli, heldur einnig starfsfólkið í þeim geirum og öðrum tengdum.

Við þurfum að fara áfram veginn og ekkert stopp.“

Hann er glæsilegur nýi vegur yfir Dynjandisheiði.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Háskólasetur Vestfjarða: ráðstefna um frjálsu félagasamtökin – forseti Íslands mætir

Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki frjálsu félagasamtökin, björgunarsveitirnar, kvenfélögin, íþróttafélögin, leikfélögin og hin ýmsu sjálfboðaliðasamtök?

Þessi félög tilheyra “Félags og samstöðuhagkerfinu” og eiga það sameiginlegt að sækjast ekki eftir hagnaði heldur vilja bæta heilsu, vellíðan og lífsgæði fólks og auka samheldni og samstöðu í nærsamfélaginu.

Þann 13. september verður haldin ráðstefna í Háskólasetri Vestfjarða um félags- og samstöðuhagkerfið frá klukkan 12:00 – 17:45.  Fyrirlesarar  koma bæði að utan og frá svæðinu. Markmiðið með ráðstefnunni er að vekja athygli almennings og bæjaryfirvalda á mikilvægi slíkra félaga fyrir samfélögin á Vestfjörðum. Ef vel er á haldið þá getur þátttaka hins almenna borgara í þessu hagkerfi styrkt hann sjálfan og lýðræðið í bæjunum og aukið samneytið og samheldnina innan þeirra.

12:00 – 12:10  Léttar veitingar í boði Háskólaseturs Vestfjarða

12.10 – 12:15  Setning ráðstefnu –  Valdimar J. Halldórsson, Suðureyri.

12:15 – 12:25  Forseti Íslands – Halla Tómasdóttir.

12:25 – 12:40  Félags- og samstöðuhagkerfið í dönsku dreifbýli (á ensku) Prófessor Linda Lundgaard Andersen. Forstöðumaður Miðstöðvar um Félagslega Sjálfbærni, Roskildeháskóla, Danmörku.

12:45 – 13:00  Samvinnufélög í dag og í framtíðinni (á ensku). Dr. Giulia Galera. Rannsakandi hjá Evrópsku rannsóknarstofnuninni um samvinnufélög og önnur félagsleg fyrirtæki (Euricse), Trenton háskóla, Ítalíu.

13:05 – 13:20  Félags og samstöðuhagkerfið og sköpun mannsæmandi

starfa – Magnús M. Norðdal, sérfræðingur á sviði alþjóða- og vinnumarkaðsmála, ASÍ.

13:25 – 13:40  Ófjárhagsleg félög: Helstu valkostir? – Prófessor Ómar H. Kristmundsson, Stjórnmálafræðideild, Félagsvísindasviði, Háskóla Íslands. Kennir Stjórnun og skipulag félagasamtaka og fleira.

13:45 – 14:00  Menntun í samfélagslegri nýsköpun – Prófessor Steinunn Hrafnsdóttir, Félagsráðgjafardeild, Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Kennir Stjórnun og rekstur félagasamtaka, Sjálfboðastörf og fleira.

14:05 – 14:20  Kaffihlé

14:25 -14:40  Björgunarsveitir – Ólafur Halldórsson, formaður björgunarsveitarinnar Bjargar,  Suðureyri.

14:45 – 15:00  Act alone – Elfar Logi Hannesson, Þingeyri.

15:05 – 15:20  Vesturbros – Katrín Ugla Kristjánsdóttir og Rebekka Líf Karlsdóttir, Bolungarvík.

15:25 – 15:40  Jafningjaþróun innan og utan kerfisins – Freymar Marinóson, Tálknafirði.

15:45 – 16:05  Kaffihlé

16:05 – 16:20  Gróandi – Hildur Dagbjört Arnardóttir, Ísafirði.

16:25 – 16:40  Netagerðin, skapandi vinnustofur – Heiðrún Björk Jóhannesdóttir, Ísafirði.

16:45 – 17:00  Íslenskukennsla fyrir útlendinga – Helga Konráðsdóttir, Suðureyri.

17:00 – 17:45  Pallborðsumræður – Bæjar- og sveitarstjórar á Vestfjörðum: Arna Lára Jónsdóttir (Ísafjarðarbær), Jón Páll Hreinsson (Bolungarvík), Bragi Þór Thoroddsen (Súðavíkurhreppur), Þorgeir Pálsson (Strandabyggð), Gerður Björk Sveinsdóttir (Tálknafjörður og Vesturbyggð), Ingibjörg Birna Erlingsdóttir (Reykhólahreppur). Spyrjandi: Gylfi Ólafsson.

17:45  Ráðstefnulok – Kynnir Valdimar J. Halldórsson.

18:10  Rúta á flugvöllinn

Ráðstefnan er öllum opin og er gjaldfrjáls.

Laxeldi: 87% á Vestfjörðum 2023

Mynd frá mælaborði fiskeldis sem sýnir framleiðslu á Vestfjörðum.

Á síðasta ári var slátrað 44.504 tonnum af eldislaxi. Þar af voru 35.683 tonn úr sjókvíaeldi á Vestfjörðum. Á Austurlandi var aðeins slátrað 5.164 tonnum. Hlutur Vestfjarða í framleiðslunni á síðasta ári var því 87%.

Þetta er óvenjuhátt hlutfall. Till samanburðar þá var framleiðslan á Austfjörðum árið 2021 17.514 tonn. Það ár var hlutur Vestfjarða 61% af heildarframleiðslunni. Skýringin er að ISA veira greindist í kvíum í Berufirði og Reyðarfirði var ákveðið að slátra öllum eldisfiski og hvíla svæðin áður en fiskur var settur út að nýju.

Laxeldið á Vestfjörðum hefur vaxið mikið síðustu ár. Árið 2015 var slátrað 2.472 tonnum en í fyrra 35.683 tonnum eins og fyrr greinir. Magnið hefur því liðlega fjórtánfaldast eða nákvæmlega aukist um 1.343% á átta árum.

Samkvæmt tölum úr mælaborði fiskeldis hjá Matvælastofnun eru tæplega 18 þúsund tonn af lífmassa af eldislaxi í vestfirskum fjörðum miðað við tölur í júlí. Heimilt er að hafa 62.000 tonn af lífmassa samkvæmt útgefnum leyfum og burðarþol fjarðanna er 82.500 tonn.

Litlu var slátrað af eldislaxi í júlímánuði, aðeins 52.761 fiskur. Sláturfiskurinn kom úr eldi í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi, en bæði í Dýrafirði og Patreksfirði/Tálknafirði var engu slátrað.

Samtals voru í júlímánuði 12,4 milljónir fiska í sjó í laxeldinu á Vestfjörðum. Flestir eru þeir í Dýrafirði 3,8 milljónir fiska, 3,3 milljónir fiska í Arnarfirði, 2,7 milljónir í Patreksfirði og Tálknafirði og 2,5 milljónir fiska í Ísafjarðardjúpi.

Á Austfjörðum er verið að ala upp sláturfisk í þremur fjörðum. Þar eru flestir fiskar í Reyðarfirði 4,2 milljónir fiska, í Fáskrúðsfirði voru í júlí 2,9 milljónir fiska og 2,7 milljónir fiska í Berufirði, samtals 9,8 milljónir fiska.

Í – listinn: hrókeringar í nefndum

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi færði sig í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd

Á bæjarstjórnarfundi í Ísafjarðarbæ voru samþykktar þrjár breytingar á nefndaskipan hjá Í listanum.

Nanný Arna Guðmundsdóttir, var kosinn aðalfulltrúi Í-lista og jafnframt formaður í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd, í stað Finneyjar Rakelar Árnadóttur.

Í stað Nannýjar Örnu Guðmundsdóttur sem fulltrúi Í-lista og sem formaður í umhverfis- og framkvæmdanefnd, var kosin Halldóra Björk Norðdahl.

Og í stað Halldóru Bjarkar Norðdahl, fulltrúa Í-lista í velferðarnefnd, var kosin Finney Rakel Árnadóttir.

Einar Hálfdáns ÍS 8

Líkan af bátnum Einar Hálfdáns ÍS 8 smíðað af Grími Karlssyni.

Einar Hálfdáns ÍS 8 var smíðaður á Seyðisfirði 1947 úr eik. 38 brl. 140 ha. Alpha díesel vél. Báturinn hét Einar Hálfdáns ÍS 8. Eigandi bátsins var Ríkissjóður Íslands, frá 4. júlí 1947.

Báturinn var seldur 2. júlí 1948 Völusteini h/f, Bolungavík. Seldur 12. jan 1957 Samvinnufélaginu Björgu, Drangsnesi, báturinn hét Völusteinn ST 50. 1954 var sett í bátinn 200 ha. Alpha díesel vél. Seldur 28. sept 1960 Ástgeiri Ólafssyni, Vestmannaeyjum, báturinn hét Uggi VE 52. Seldur 1. okt 1971 Bátanausti h/f, Reykjavík. Þá fór fram stórviðgerð á bátnum í Reykjavík, þá var sett í hann 240 ha. Cummins díesel vél.

Seldur 27. sept 1974 Jóni Karli Einarssyni og Sólmundi Jóhannssyni, Sandgerði, báturinn hét Ari Einarsson GK 400. Seldur 7. júní 1978 Magnúsi Helga Friðgeirssyni, Grindavík, báturinn hét Friðgeir Trausti GK 400. 1979 var sett í bátinn 340 ha. GM díesel vél. Seldur 10. jan 1983 Árna F. Vikarssyni, Keflavík, báturinn hét Vikar Árnason KE 121. Frá 22. jan heitir báturinn Hvalsnes GK 376, sami eigandi og áður. Báturinn er skráður í Sandgerði 1988.

Kallmerki TFMH, skipskrárnúmer 865.

Heimild: Íslensk skip eftir Jón Björnsson

Af vefsíðunni sarpur.is

Heildaraflinn dróst saman um 3% á milli ára

Páll Pálsson ÍS 102.

Heildarafli íslenskra skipa árið 2023 var 1.375 þúsund tonn sem er 3% minni afli en landað var árið 2022. Aflaverðmæti við fyrstu sölu jókst um 1% á milli ára og nam rúmum 197 milljörðum króna árið 2023.

Alls veiddust tæplega 402 þúsund tonn af botnfiski sem er 7% minna en árið 2022. Á sama tíma dróst aflaverðmæti botnfiskaflans saman um 7%, úr 136 milljörðum króna í 126 milljarða króna.

Af botnfiski var þorskaflinn alls 220 þúsund tonn árið 2023 og aflaverðmæti hans við fyrstu sölu nam tæplega 81 milljarði króna.

Afli uppsjávartegunda var rúm 946 þúsund tonn árið 2023 sem er um 1% minni afli en árið 2022. Af uppsjávarafla veiddist mest af loðnu, tæp 326 þúsund tonn og tæp 293 þúsund tonn af kolmunna. Aflaverðmæti uppsjávaraflans jókst um 22% frá fyrra ári og var 58 milljarðar króna sem skiptist nokkuð jafnt á milli kolmunna, loðnu, makríls og síldar.

Af flatfiski veiddust tæp 21 þúsund tonn árið 2023 að verðmæti 12 milljarða króna. Löndun skelfiska og krabbadýra dróst saman um 5% og var tæplega 5,8 þúsund tonn að verðmæti 1,2 milljarða króna.

Prís enn ódýrast – stærstu verslanir lækka verð

Stærstu fjórar matvörukeðjur landsins lækkuðu verð milli ágústbyrjunar og ágústloka. Bónus lækkaði verð á 19% þeirra vara sem til skoðunar voru, Krónan og Nettó 9% og Hagkaup 3%. Verð voru athuguð dagana fram að 11. ágúst og dagana fram að 29. ágúst. 

Þetta kemur fram í verðkönnun ASÍ.

Þótt Bónus hafi lækkað verð á flestum vörum hefur meðalverð þar lækkað minnst af þessum fjórum verslunum, eða um 0,3. Nettó hefur lækkað mest, eða um 0,8 (og um 6,1% eftir byrjun afsláttardaga) þegar allar verðbreytingar í samanburðinum voru skoðaðar. Þetta skýrist að hluta af krónu-fyrir-krónu verðstríði við Prís í t.d. mjólkur- og kjötvörum. 

Ekki er um afmarkaða lækkun að ræða. Vörur í öllum flokkum allra fjögurra verslana lækka. Eini flokkurinn sem var rétt yfir núlli var flokkurinn kjöt og fiskur í Nettó áður en heilsudagar hófust, en hann hafði hækkað um 0,3%. Eftir upphaf heilsudaga var sá flokkur líka kominn undir núll, í 0,3% lækkun. 

Prís er enn ódýrasta matvöruverslunin í samanburði verðlagseftirlitsins. Af 340 vörum sem finna mátti í Bónus, Krónunni og Prís þann 5. september voru 97% á lægsta verðinu í Prís. Í Bónus voru 7% á lægsta verðinu og í Krónunni ein vara – Kjarnafæðis-bratwurst sem kostaði 612 krónur, eins og í Bónus. Í Prís kostaði varan 613 krónur og í Nettó 614 krónur. 

Ársreikningaskil stjórnmálasamtaka í ólestri – Í listinn á Ísafirði í lagi

Ríkisendurskoðun hefur nú birt á vefsíðu sinni upplýsingar um skil kirkjugarða, stjórnmálasamtaka og einstaklinga í persónukjöri (þ.m.t. kjöri til forseta Íslands) á fjárhagslegum uppgjörum til embættisins.

Samkvæmt lögum ber flokkum eða samtökum sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna skylda til að skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir 1. nóvember ár hvert fyrir síðastliðið ár.

Líkt og sjá má áskilalistum hefur verið mikill misbrestur á skilum ársreikninga framangreindra aðila á undanförnum árum.

Aðeins hafa um 31,5% þeirra flokka eða samtaka sem sæti áttu á Alþingi eða buðu fram í kosningum til sveitarstjórna árið 2022 staðið skil á ársreikningi ársins 2022.

Er þessi niðurstaða sérstaklega ámælisverð í ljósi þess að margir þeirra aðila sem ekki hafa staðið skil á uppgjörum hafa þegið fjármuni frá sveitarfélögum en það er skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum að viðkomandi flokkar eða samtök hafi staðið skil á reikningum sínum til ríkisendurskoðanda og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra.

Enn fremur er vakin athygli á að annað skilyrði fyrir úthlutun fjár úr ríkissjóði og frá sveitarstjórnum er að þeir flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitastjórna séu skráð sem stjórnmálasamtök hjá ríkisskattstjóra og séu birt á stjórnmálasamtaka skrá .

Athygli vekur að aðeins 21 aðili er skráður á umrædda skrá í dag en samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar þáðu um 150 aðilar greiðslur frá sveitarfélögum á árinu 2022.  

Á Vestfjörðum er það aðeins Í listinn á Ísafirði er á skrá yfir þá sem hafa skilað reikningum fyrir árið 2022.

Á vanskilalista eru Máttur manna og meyja í Bolunarvík, Ný sýn stjórnmálasamtök í Vesturbyggð, Strandabandalagið í Strandabyggð, Almennir borgarar í Strandabyggð og Sjálfstæðisflokkurinn í Vesturbyggð.

Þeir sem ekki eru á þerssum listum kunna að vera þeir sem ekki hafa skráð sig.

Nýjustu fréttir