Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 46

Veiðar á rjúpu verða svæðisbundnar

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Umhverfisstofnun hefur birt drög að stjórnunar- og Verndaráætlun rjúpu. Þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi.

Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Samstarfshópurinn fékk einnig aðstoð frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Í áætluninni er nýtt kerfi veiðistjórnunar kynnt, en í því felst meðal annars að veiðistjórnun verður svæðisbundin þar sem landinu er skipt í sex hluta. Auk þess hafa ný stofnlíkön hafa verið þróuð sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Áætlunin er mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. Enn fremur er markmiðið með áætluninni að stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.

Um miðjan júlí mun Umhverfisstofnun senda tillögur að rjúpnaveiðitímabili 2024 til umhverfis- orku- og loftstlagsráðuneytis sem verða byggðar á áætluninni og nýju stofnlíkönunum.

Afturelding í Reykhólahreppi hélt upp á 100 ára afmælið

Ungmennafélagið Afturelding Reykhólum hélt upp á 100 ára afmælið sitt í síðustu viku og bauð gestum og gangandi upp á hamborgara, galdrasýningu, gögl námskeið og teymt var undir yngstu þátttakendunum. Jafnframt var líkamsræktin Grettir sterki tekin í notkun eftir miklar endurbætur.

Undanfarið ár hefur verið viðburðaríkt hjá Aftureldingu og jafnvel eitt það viðburðaríkasta í sögu félagsins. Mikil vinna fór í endurbætur á líkamsræktaraðstöðu ungmennafélagsins í kjallara sundlaugarinnar. Sagaður var niður veggur til að stækka rýmið og opna það. Ungmennafélagið keypti mikið af nýjum búnaði fyrir ræktina og fékk mikla aðstoð frá starfsmönnum sveitarfélagsins við vinnuna.

Næst á dagskrá er að koma upp aðstöðu fyrir þrek tækin ásamt því að starfsfólk áhaldahússins munu skipta um hurðir og koma upp salernisaðstöðu þarna niðri.

Þátttaka í bogfimi á árinu var mjög góð og en um 20 iðkendur mættu á æfingar . Fjórir keppendur frá félaginu þóku þátt í íslandsmeistaramóti innandyra og komu þeir allir með medalíur heim, ásamt 2 íslandsmeistaratitlum og einu íslandsmeti.

Félagið telur mörg tækifæri í þátttöku fullorðna fólksins og erum að stefna á að hafa regluleg námskeið fyrir fullorðið fólk með yfirskriftinni SAMEINUMST Í ÞÁTTTÖKU. 

Spessi opnar sýningu í Úthverfu

F A U K

12.7 – 4.8 2024

Föstudaginn 12. júlí kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Spessa í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið FAUK og stendur til sunnudagsins 4. ágúst. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall. 

,,Ég flutti í Öræfi í ágúst síðastliðinn, sem var töluverð áskorun fyrir mig. Þá var haustið að byrja og veturinn með myrkrinu sem varð svartara dag frá degi. Eftir smá tíma áttaði ég mig á því að ég hafði ekkert á móti þessum kröftum í náttúrunni hérna í Öræfum. Krafturinn er þvílíkur að þú hneigir þig auðmjúkur. Hérna sérðu sjóndeildar hringinn þegar bjart er, og á veturnar sest sólin vestur frá þér þar sem þú stendur. Vindurinn og tómið haldast í hendur í þessu verki og vísa í tómið sem ég horfði inn í, þessi grái suddi sem varð dekkri með hverjum deginum. Einnig vísar verkið til tómsins sem ég upplifði í sálinni við að flytja svona afskekkt. Nú er sumarið komið og ég sé sjóndeildarhringinn; hinn eiginlega og sjóndeildarhringinn í sjálfum mér.’’

Ljósmyndarinn Sigurþór „Spessi“ Hallbjörnsson er einn af mikilvægustu sjónrænum annálahöfundum Íslands. Stíll hans er djarfur, einfaldur og afhjúpandi, en hlaðinn húmor, samúð og skilningi á viðfangsefnum, stöðum eða aðstæðum sem hann myndar. www.spessi.com.

Uppreisnarhaf íslenskunnar

Dagurinn var kaldur; eins og allir dagar á Íslandi. Ég man hvað ég var spennt. Ég var búin að læra ómissandi orð. Ég var búin að læra að segja góðan daginn “gondain” og tölurnar upp í tíu: „ein, tueir, trir, fiorir, fim, secs, shiu, auta, niu, tiu.“ Svo var ég með aðra setningu upp í erminni: „eki ropa nuna,“ endurminning úr kvöldmatarboði með krökkum, en ég átti ekki von á því að þurfa að nota hana; ekki heldur „tac firir matin“ eða „lugreglan“ – nauðsynlegt orð fyrir konu sem er ein í nýju landi.

          Bónus var eins og venjulega: Fólk að sinna sínum málum, nokkur börn grátandi hér og þar; hver einasta fullorðna manneskja viss um hvað hún væri að gera, nema ég. Ég labbaði um og þóttist vita hvað ég væri að gera og einbeitti mér meira að því sem ég átti að segja heldur en því sem ég þurfti að kaupa. „Gondagin-eit boca… gondain-eitboca… gon dagin, eitt poca… I’ve got this!“ sagði ég við sjálfan mig og allt í einu fannst mér eins og ég væri líka viss um hvað ég væri að gera.

          Ég brosti til konunnar við afgreiðslukassann:

„Góðan daginn, viltu poka?“ sagði hún á fullkominni íslensku.

„Gondagin,” svaraði ég. Ég opnaði muninn til að segja restina, en ekkert kom út. „how was it?… Una boca?… how do I say one’ in Icelandic?”

Ég var með fáa hluti og það var löng röð fyrir aftan mig, ég hafði ekki mikinn tíma til að hugsa. „I cannot remember… should I use English?“ spurði ég sjálfa mig. Ég kunni allar tölurnar upp í tíu en á þessari stundu mundi ég bara eftir einni. „Fuck it“.

„Trir boca“. Ég næstum því hvíslaði.

„Ha?“

„Trir poca,“ how do I say, please, hugsaði ég.

„Ha?“ endurtók konan starandi á mig. Augnaráð hennar brenndi mig.

„Trir poka,“ sagði ég hratt og sýndi henni þrjá putta.

„Ah … Þrjá poka,” sagði hún og rétti mér þrjá poka sem ég hafði ekki þörf fyrir.

„Tac firir mic,“ sagði ég, kom öllu fyrir og yfirgaf búðina.

Þetta var með mínum fyrstu alvöru samskiptum á íslensku; eins og hjá mörgum, áttu þau sér stað í Bónus. Það sem gerðist í huga mínum næst myndi ákveða framtíð mína og íslenska tungumálsins og líka ákveða hver einustu samskipti sem ég myndi eiga á íslensku í framtíðinni.

Eftir á að hyggja … ég gæti hafa verið réttilega pirruð við afgreiðslukonuna; tungumála-egóið mitt eyðilagt, hugur minn að berjast fyrir lífi sínu í uppreisnarhafinu sem býr í öllu. „Þau eru ekki einu sinni að reyna“ bylgja hvolfist yfir hausinn. „Ég læri þetta aldrei“ bylgjan dregur mig niður „Þau vilja ekki hafa okkur útlendingana“ vatnið seytlar inn í lungun.“ Þetta hefur ekkert upp á sig,“ drukknuð. En ég var samt himinlifandi! Ég massaði þetta, ég náði að tala íslensku og ég fór út úr Bónus með allt sem mig vantaði (og aðeins meira en það). Mér fannst ég hafa öðlast vald og mig langaði að líða svona áfram.

          Það er ekki þar með sagt að uppreisnarhaf útlendingahaturs sé ekki til. Það er sannleikur; stundum eru sumir Íslendingar ekki að reyna, ekki að reyna að skilja hreim, ekki að reyna að svara þeim á íslensku sem vilja þó tala og læra íslensku. Það er staðreynd; því miður, sumir Íslendingar vilja ekki okkur útlendingana hér. Uppreisnarhafið er til og er mjög raunverulegt fyrir okkur, en ég svíf fyrir ofan það með litla flekann minn gerðan úr hálf-íslenskum orðum ásamt vilja mínum til að halda áfram, fleki sem ég batt saman með spennunni sem ég fann alltaf þegar ég fékk að tala íslensku og hélt í flekann eins þétt og fast og ég gat. Ég ákvað að flekinn minn myndi verða ósökkvanlegur og að á honum myndi ég sigla á öldunum til eilífðar; uppreisnarhafið gæti verið eins villt og vont og það vildi vera, en enginn og ekkert gæti tekið flekann af mér.

Og svona byrjaði íslenskuævintýrið mitt.

Ég fattaði strax að ég myndi aldrei ná fullum tökum á ein, einn, eitt eða þrír, þrjár, þrjá, þrjú og ég fann lausn með því að kaupa og fá alltaf fimm af öllu: Fimm poka, fimm súkkulaði, fimm mandarínur, fimm bananar. Ef ég væri ekki viss um orð, sagði ég svona… „fimm svona, takk.” Það tókst, ég var að tala hið ólæranlega tungumál.

Hrós fólks byrjaði að falla á mig eins og rigning:

„Hvað ertu búin að vera lengi á Íslandi?“

„Fimm mánuði.“

„Vá, þú talar svo góða íslensku.“

„Takk fyrir,“ svaraði ég sigri hrósandi við mastrið á æ stöðugri fleka mínum „Mér finnst íslenska mjög fallegt tungumál. Mjög skemmtilegt að tala.“

Ég trúði því að ég væri að tala góða íslensku, þannig að fólkið trúði því líka.

Ég segi alltaf að engin sagði við mig að íslenska væri erfitt tungumál; engin lagði stein í götu mína áður en ég byrjaði að labba hana. Ég var aldrei með kennara sem sagði mér að ég yrði að læra að biðja um einn poka í staðinn fyrir að gera mig ánægða með fimm, tölu sem ég kunni alltaf að nota rétt. Að læra íslensku var meira en bara að læra tungumál, meira en að finna vinnu, vináttu eða viðurkenningu, meira en að sanna eitthvað fyrir mér eða öðrum.

Ég var, og ég er, að læra íslensku til að sjá hina ósýnilegu hluta fólks. Já, tungumál, orð, geta látið mann sjá hið hulda og ég er meira en til í það.

Tungumál er eins og fjársjóðskista sem ber með sér alla okkar persónutöfra, sjarma og persónuleyndarmál. Það er innan tungumálsins sem hugsanir okkar verða til og það eru þær hugsanir sem móta okkur. Menningin býr innan tungumálsins; tungumálið er fyrsti gripur sköpunar, einkenni, persónuleiki og samskipti. Ef mig langaði að sjá Ísland (og mig langaði það), var nauðsynlegt að geta hlustað á Ísland.

En þótt  skemmtilegt sé hefur þetta ekki verið auðvelt verkefni; oftlega pirrandi, ferð mín í gegnum íslensku er líka þversögn: Því meira sem ég get séð Íslendinga í gegnum hulu tungumálsins, því minna sjá þeir mig eins og ég er þegar ég tala móðurmálið mitt.

Þegar ég tala íslensku finnst mér ég vera heimsk, ég veit að ég er ekki eins mælsk og örugglega ekki eins skemmtileg og ég er á spænsku, og þegar það er erfitt að segja það sem mig langar að segja á íslensku, fer ég að hugsa: „Ég lofa að ég er klárari en þetta.“ Þegar ég næ ekki að verja sjálfan mig eða rétt minn á íslensku, langar mig að öskra reiðilega: „Ef ég væri að segja þetta á spænsku myndir þú sannarlega sjá eftir að vera svona við mig… Þú myndir ekki líta niður á mig.“

Stundum verður litli flekinn minn fyrir miklum ágangi öldugangs uppreisnarhafs íslenskunar, svo miklum að ég spyr sjálfa mig „Why do you bother, Helen? What do you gain?“, en sannleikurinn er að ég elska konuna sem ég er þegar ég tala íslensku. Ég er hrifinn af ferðalaginu sem ég hef farið í gegnum. Ég er þakklát fyrir allt það sem ég hef lært á meðan ég læri íslensku.

Þetta fallega tungumál rís hátt og fallega eins og fjöllin á Vestfjörðum, og eins og fjöllin hefur íslenskan sýnt mér hversu lítil ég er, hversu mikið ég á eftir að ná tökum á, hversu mikið málið snýst ekki um mig, heldur um sjálft sig og sína leið og flækist og raknar upp fyrir framan augu mín og eyru. Á spænsku er ég betri og skemmtilegri viðmælandi; með því að læra íslensku er ég betri hlustandi, betra vitni að heiminum, að menningunni sem umvefur mig. That’s why I bother.

Ég sakna samt gömlu daganna, þegar ég sat hljóðlát á meðal móðurmálshafa og rödd þeirra hljómaði eins og bjölluhljómur í mín eyru. Ég lenti í draumkenndu hugarástandi við að heyra á fólk tala á íslensku. Ég mun aldrei aftur finna fyrir þessari flóknu bjöllutónlist. Íslenska verður aldrei aftur tungumál sem ég skil ekki (að hluta til að minnsta kosti). Í gamla daga blönduðust öll orð saman við dulspeki málkattanna og mér var gefin sérstakur séns (sérstaklega í nútíma samfélaginu) og gat sest niður í þögn og fylgst með, gat hlustað og fundið fyrir öllu, án þess eiga mér samskiptamarkmið. Þetta var gjöf til núvitundarinnar; sú sem maður fær einnig aðgang að þegar maður dýfir sér niður (hausinn fyrst) í ókunnuglegt tungumál.

Ef ég flytti einhvern tímann úr landi myndi ég finna aftur fyrir þessari tilfinningu og endurupplifa þær dýrmætu stundir þegar ég var að byggja upp samband mitt við íslenskuna.

Ég mun aldrei fá þessa núvitundargáfu til baka í gegnum íslensku, að læra tungumál er eins og að finna óskabrunn. Tungumálið heldur áfram að gefa, vatn þess þurrkast aldrei upp, en bara ef maður heldur áfram að drekka. Að geta lesið á íslensku, skilið texta eða lög sem mér líkar við, að geta horft á íslenska bíómynd í bíó, þetta eru allt hversdagsgjafir; kirsuberið á kökunni, minn eigin straumur valdeflingar; hlutir sem ég er stolt af og hlutir sem allir íslenskir móðurmálshafar taka sem sjálfsögðum hlut. Þetta gerir samband mitt við landið, sem er heimili mitt, djúpt, en á annan hátt, á hátt sem er aðeins minn.

Þegar ég heyri einhverja tala íslensku, hlusta ég á þá, horfi á þá, elska þá, vegna alls þess sem ég hef gengið í gegnum til að vera akkúrat á þessum stað, á þessari stundu, þar sem ég skil. That’s why I bother og ég myndi alltaf nenna að halda áfram að læra þetta tungumál eða hið næsta. Tungumál skipta máli og það að búa til örugg rými fyrir fólk til að læra þau, æfa sig að tala þau (með eða ekki með hreim) skiptir eins miklu máli, eða kannski meira máli.

Þegar ég lít til baka á meðan ég skrifa þetta fer ég næstum því að tárast; íslenskan hefur sameinað hluta af mér og hún hefur sameinað mig við landið, fólkið, fjallið, snjóinn, hrafnana, árnar og jöklana; samt, í öllu þessu frábæra tungumálaferli og sameiningarferðalagi finnst mér fyndið að vera enn tvær Helen; ein sem mun sjarma þig með mælsku og fá þig til að hlæja með svolítið óviðeigandi húmor á spænsku og sú sem fær enn fimm poka í Bónus.

Helen Cova

Höfundur er rithöfundur og skáld búsett á Flateyri.

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituð af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Vestri: fjármagna yngri flokka starf með veitingasölu

Þrír hjúkrunarfærðingar að störfum í veitingasölunni: Þórunn Pálsdóttir, Þuríður K. Vilmundardóttir og Hildur Elísabet Pétursdóttir. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nokkrar duglegar konur bera hitann og þungan af sölu veitinga á leikjum Vestra í Bestu deildinni og hafa gert á undanförnum árum. Tekjurnar renna óskertar til yngra flokka starfsins en þær gefa vinnu sína og baka auk þess hluta af veitingunum.

Nú eru þær stórhuga og hafa sett stefnuna á að stækka og bæta aðstöðuna fyrir veitingasöluna með því að byggja ofan á aðstöðuna innan til við stúkuna. Þar á að vera veitingasala og salur fyrir gesti. Sif Huld Albertsdóttir, er ein þeirra sem stendur að þessu starfi. Hún segir að ætlunin sé að byggja hæðina í haust og ljúka því fyrir veturinn. Sif Huld var hvergi banginn og sagði að hópurinn hafi aðgang að mörgum velunnurum sem muni leggja lið við öflun fjár og leggi auk þess fram vinnu.

Vonast er til þess að með þessari viðbót fáist áfram fjármagn til yngri flokka starfsins og það kannski aukist eitthvað.

Sif Huld Albertsdóttir við störf á leik Vestra gegn Breiðablik.

Ofan á þennan flöt er ætlunin að byggja nýja aðstöðu til veitingasölu.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Skák: Magnús Pálmi efstur í afmælisskákmóti

Jón Páll Hreinsson leikur fyrsta leikinn. Sæbjörn til vinstri og Magnús til hægri.

Á föstudaginn var hélt Taflfélag Bolungavíkur í Verbúðinni í Bolungavík afmælisskákmót í tilefni af áttræðisafmæli Sæbjarnar Larsen Guðfinnssonar og sjötugsafmæli Magnúsar Sigurjónssonar. Er þetta annað árið í röð sem haldið er afmælismót, en í fyrra var það áttræðisafmæli Daða Guðmundssonar sem var tilefni mótshaldsins.

Alls voru 14 keppendur í mótinu og urðu úrslitin :

1. Magnús Pálmi Örnólfsson 12.5 v af 13

2. Unnsteinn Sigurjónsson 11 v

3. Guðmundur Halldórsson 10 v

4. Magnús Sigurjónsson 9.5 v

5.- 7. Guðmundur Daðason, Daði Guðmundsson og Sæbjörn Guðfinnsson 8.5 v.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri setti mótið með því að leika fyrsta leikinn í skák afmælisbarnanna.

Unnsteinn Sigurjónsson með verðlaun sín.

Yngsti og eldi keppandinn eigast við. Daði Guðmundsson var aldurforseti mótsins.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Akranes – 58% fjölgun á 26 árum

Íbúaþróun á Akranesi 1998 - 2024. Íbúum fjölgaði um 58%. Heimild: Hagstofa Íslands.

Íbúum í Akraneskaupstað hefur fjölgað frá 1998 til 2024 úr 5.125 í 8.071 manns miðað við 1. janúar ár hvert samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Er það töluvert umfram fjölgun landsmanna á sama tímabili.

Íbúar á landinu voru 1. janúar 1998 272.381 en voru um síðustu áramót orðnir 383.726. Fjölgunin er 41%. Íbúafjölgunin á þessum 26 árum er algert einsdæmi í sögunni vegna þess hve mikil hún hefur verið. Engu að síður hefur fjölgunin á Akranesi verið enn meiri eða 58%.

Ísafjörður – 9,5% fækkun

Á Ísafirði, þ.e. þéttbýlinu í Skutulsfirði, hefur á sama tíma íbúum fækkað um 9,5%. Þeir voru 2.960 í ársbyrjun 1998 en 2.679 um áramótin síðustu samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ef íbúum á Ísafirði hefði fjölgað eins og á Akranesi hefði þeir verið 4.662 þann 1. janúar sl. eða um 2.000 fleiri en þeir voru.

Línurit sem sýnir íbúaþróun á Ísafirði 1998 – 2024. Heimild: Hagstofa Íslands.

Vestri: jafntefli gegn Breiðablik á Kerecis vellinum

Frá leiknum á laugardaginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Knattspyrnulið Vestra lék sinn þriðja heimaleik á Kerecis vellinum á Torfnesi og náði í sitt fyrsta stig gegn liði Breiðabliks sem er í toppbaráttunni í Bestu deildinni. Leiknum lauk 2:2, þar sem jafnt var í hálfleik, hvort lið hafði skorað eitt mark.

Vestri átti góðan leik og var betra liðið í fyrri hálfleik. Breiðablik fékk dæmda vítaspyrnu snemma í leiknum og tók forystuna með marki úr henni. Var það afar strangur dómur svo ekki sé meira sagt. Eftir það var Vestri betra liðið og Sergine Fall jafnaði skömmu síðar. Í seinni hálfleik var nokkurt jafnræði með liðunum og Blikarnir áttu betri spretti en í fyrri hálfleik. Þeir náðu forystunni aftur með góðu skallamarki eftir aukaspyrnu en þá kom aukinn kraftur í Vestramenn og Benedikt V. Warén jafnaði leikinn öðru sinni eftir fyrirgjöf frá Sergine Fall.

Eftir leikinn er Vestri í 11. sæti með 11 stig, jafnmörg og KA í 10. sætinu en Akureyringarnir eiga þó leik til góða.

Vestri sýndi ágætan leik gegn liðinu í þriðja sæti deildarinnar og staðfestu að þeir eiga fullt erindi í Bestu deildina. Aðeins þrjú stig eru upp í liðið í 8. sæti, KR og framundan er spennandi keppni milli nokkurra liða um að halda sæti sínu í deildinni.

Bolungavík: húsfyllir á tónleikum með lögum Ólafs Kristjánssonar

Ólafur á sviðinu á tónleikunum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Lokaatriðið á velheppnuðum Markaðsdögum í Bolungavík um helgina voru tónleikar í Félagsheimili Bolungavíkur með lögum Ólafs Kristjánssonar fyrrverandi skólastjóra Tónlistarskóla Bolungavíkur og einnig fyrrverandi bæjarstjóra.

Leikin voru jasslög sem eru á nýútkomnum diski „Bjórkvöld með vinum“. Hljómlistarmenn voru Ísfirðingarnir Halldór Smárason og Bjarni Sveinbjörnsson og á trommunum var Pétur Grétarsson. Ólafur Kristjánsson, sem er á 89. aldursári fór upp á sviðið í lokin og lék tvö lög með tríóinu. Seinna lagið átti svo sannarlega heima á þessum stað en það var Í Bolungavíkinni er björgulegt lífið og ekki vantaði neitt upp á undirtektir tónleikagesta.

Húsfyllir var á tónleikunum og var tónlistarmönnunum og Ólafi Kristjánssyni vel og lengi fagnað.

Félagsheimilið var þétt setið.

Orkumálastjóri hættir um áramótin

Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi mun hætta um næstu áramót. Orkustofnun verður þá lögð niður sem og starf orkumálastjóra.

Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar og var starf forstjóra þeirrar stofnunar auglýst í Morgunblaðinu í morgun.

Starfsstöð forstjóra verður á Akureyri en stofnunin verður með starfsstöðvar víða um land.

Þrjár stofnanir í stað fimm

Alþingi samþykkti fyrir þinglok í vor lög um sameiningu stofnana og verða til þrjár nýjar stofnanir sem leysa fimm af hólmi.

Auk Umhverfis- og orkustofnunar verða til um Náttúrufræðistofnun og Náttúruverndarstofnun og er embætti forstjóra beggja stofnanan auglýst í Morgunblaðinu í dag.

Náttúruverndarstofnun tekur um næstu áramót við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Náttúruverndarstofnun sinnir verkefnum á sviðum náttúruverndar og sjálbærrar þróunar, friðlýstra svæða, þ.m.t. þjóðgarða, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Verður starfsstöð forstjóra á Hvolsvelli.

Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn voru sameinaðar Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fékk heitið Náttúrufræðistofnun og tók ný sameinuð stofnun til starfa 1. júlí sl.. Starfsstöð forstjóra mun vera á Vesturlandi en starfsstöðvar stofnunarinnar eru víða um land.

Nýjustu fréttir