Þriðjudagur 5. nóvember 2024
Síða 46

Milljarðatugir Jóns Baldvins

Fyrir helgi birtist athyglisverð grein á Vísir.is eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, þar sem hann hélt því fram að árlegur efnahagslegur ávinningur Íslands af aðildinni að EES-samningnum hafi numið 52 milljörðum króna. Vísaði hann þar til rannsóknar þýzku stofnunarinnar Bertelsmann Stiftung frá árinu 2019 sem fjallað er um í skýrslu starfshóps undir forystu Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra. Tilefni greinarinnar var hátíðarfundur Háskóla Íslands á dögunum vegna 30 ára afmælis samningsins.

Hvað rannsókn stofnunarinnar varðar er fyrst og fremst um tilgátu að ræða um hugsanlegan ávinning af innri markaði Evrópusambandsins sem einkum er reist á huglægum forsendum. Tekið er fram í skýrslu stofnunarinnar að takmörkuð nálgun rannsóknarinnar gæti haft áhrif á niðurstöðurnar. Einkum þær stærðir sem kveðið sé á um í þeim. Hlutfallslegur munur á milli einstakra ríkja og svæða ætti þó að standast en þar er einkum vísað til þess að mögulegur ávinningur jaðarríkja sé mun minni en ríkja staðsettum miðsvæðis.

Miðað við rannsóknina hefur Ísland minnstan ætlaðan ávinning af innri markaðinum í gegnum aðildina að EES-samningnum af þeim 30 ríkjum sem aðild eiga að honum. Einkum vegna landfræðilegrar legu landsins. Þá er einnig tekið skýrt fram að rannsóknin taki mið af stöðunni þegar hún var gerð sem þýðir eðli málsins samkvæmt að varhugavert er að yfirfæra niðurstöður hennar á þau 30 ár sem samningurinn hefur verið við líði líkt og Jón Baldvin gerir í greininni enda ljóst að staðan getur verið mjög breytileg á milli ára.

Tollfrelsi fyrir daga EES-samningsins

Fram kemur í skýrslunni að rannsóknin taki mið af hugsanlegum minni viðskiptum á milli aðildarríkja EES-samningsins ef innri markaðurinn heyrði sögunni til og að þau nytu ekki ávinnings af öðru fyrirkomulagi sem greiddi fyrir viðskiptum þeirra. Þannig er til dæmis hvorki tekinn inn í myndina fríverzlunarsamningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu, forvera Evrópusambandsins, frá 1972, sem enn er í fullu gildi, né mögulegur víðtækur fríverzlunarsamningur við sambandið líkt og það hefur samið um við önnur ríki.

Horft er í rannsókninni einkum til viðskiptahindrana og þá ekki sízt tolla þegar mat er lagt á ætlaðan ávinning ríkja af aðild þeirra að innri markaðinum. Til að mynda var þegar komið tollfrelsi með iðnaðarvörur sem framleiddar voru hér á landi um 1980 í gegnum fríverzlunarsamninginn frá 1972, mörgum árum áður en EES-samningurinn kom til sögunnar. Hið sama átti við um innflutt hráefni og vélar. Þá er samningurinn að ýmsu leyti hagstæðari en EES-samningurinn þegar kemur að útflutningi á sjávarafurðum.

Hvað varðar tilvitnun Jóns Baldvins í orð Harðar Arnarsonar, fyrrverandi forstjóra Marels, í Viðskiptablaðinu í apríl 2019 um að hann héldi að fyrirtækið hefði ekki orðið til í sömu mynd án EES-samningsins vísaði Hörður þar einmitt einkum til tolla á innflutt hráefni og útfluttar iðnaðarvörur sem þegar höfðu verið felldir niður sem fyrr segir. EES-samningurinn bætti í þeim efnum einungis við tollfrelsi með iðnaðarvörur sem ekki voru framleiddar hér á landi en í stað þess komu vörugjöld til þess að bæta upp tekjutap ríkissjóðs.

Höfum aldrei notið fulls tollfrelsis

Hins vegar er ekki nóg með að tollfrelsi í viðskiptum við ríki Evrópusambandsins og forvera þess hafi alls ekki komið fyrst til sögunnar með EES-samningnum, eins og gjarnan er haldið fram í því skyni að fegra samninginn með stolnum fjöðrum líkt og ósjaldan er gert, heldur hefur aðildin að honum aukinheldur skapað hindranir í viðskiptum við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem miklu fremur eru markaðir til framtíðar. Þá einkum tæknilegar viðskiptahindranir í gegnum kostnaðarsamt og íþyngjandi regluverk.

Verulegur hluti regluverks Evrópusambandsins er beinlínis hannaður sem tæknilegar viðskiptahindranir til þess að vernda framleiðslu í ríkjum þess. Þar er allajafna um að ræða framleiðslu sem tengist á engan hátt íslenzkum hagsmunum. Velþekkt er til dæmis að vörur séu bannaðar innan sambandsins vegna ákveðins innihaldsefnis en aðrar vörur með sama innihaldsefni leyfðar. Allt undir yfirskini neytendaverndar. Skýringin er hins vegar sú að bannaða varan er í samkeppni við framleiðslu innan sambandsins en hin ekki.

Hitt er svo annað mál að EES-samningurinn hefur til að mynda aldrei falið í sér fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir við ríki Evrópusambandsins en tollar eru einkum á unnum og þar með verðmætari afurðum. Hins vegar hefur sambandið samið um víðtæka fríverzlunarsamninga til að mynda við Kanada, Japan og Bretland þar sem kveðið er á um fullt tollfrelsi í þeim efnum. Miðað við gögn frá utanríkisráðuneytinu yrði slíkur fríverzlunarsamningur betri kostur fyrir sjávarútveginn en EES-samningurinn.

Dregizt aftur úr öðrum mörkuðum

Meðal þess sem var til umræðu á hátíðarfundinum í Háskóla Íslands var skýrsla sem Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, vann fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um innri markaðinn. Er skemmzt frá því að segja að dregin er vægast sagt upp afar dökk mynd af stöðu hans í skýrslunni með vísan í hagtölur og hvernig hann hafi dregizt aftur úr öðrum mörkuðum á undanförnum þremur áratugum. Meðal annars kemur fram að fyrirtæki innan sambandsins séu eftirbátar fyrirtækja í ríkjum utan þess.

„Hlutdeild Evrópusambandsins í heimsbúskapnum hefur dregizt saman undanfarna þrjá áratugi þar sem staða þess á meðal stærstu hagkerfa heimsins hefur versnað hratt samhliða uppgangi asískra hagkerfa. […] Jafnvel þó asísk hagkerfi séu ekki tekin inn í myndina hefur innri markaður Evrópusambandsins einnig dregizt aftur úr Bandaríkjunum. Hagkerfin tvö voru svipuð að stærð árið 1993. Hins vegar jókst landsframleiðsla á mann um 60% í Bandaríkjunum á milli 1993-2022 en innan við 30% innan sambandsins.“

Markmiðið með skýrslu Letta er að gera enn eina tilraun til þess að reyna að snúa við hlutfallslegri hnignun Evrópusambandsins sem markaðar. Hins vegar er lausnin sem boðið er upp á í meginatriðum sú sama og áður. Meiri samruni, meiri miðstýring, meira regluverk og að forræði fleiri mála verði flutt frá ríkjum sambandsins til stofnana þess. Þar á meðal og ekki sízt í orkumálum líkt og fram kemur í skýrslunni. Þetta skilar sér síðan yfir í EES-samninginn og þar með hingað til lands vegna aðildar Íslands að honum.

Minna svigrúm til að semja um viðskipti

Með aðildinni að EES-samningnum höfum við Íslendingar hengt okkur á klafa hnignandi markaðar miðað við það sem er að gerast annars staðar. Evrópusambandið mun áfram skipta máli sem markaður en í sífellt minna mæli. Framtíðarmarkaðirnir verða og eru þegar annars staðar. Þá skapar samningurinn hindranir í viðskiptum við slík markaðssvæði. Þannig bendir til að mynda flest til þess að við munum ekki geta gert fríverzlunarsamning við Bandaríkin á meðan við erum aðilar að honum vegna regluverks sambandsins.

Fram kemur til að mynda í greinargerð matvælaráðuneytisins með drögum að reglugerð, sem breyta átti reglum um matvælamerkingar í frjálsræðisátt en náðu ekki fram að ganga vegna EES-samningsins, að regluverk frá Evrópusambandinu sem tekið hafi verið upp í gegnum samninginn hafi „skapað viðskiptahindrun við nánustu viðskiptalönd Íslands utan EES og minnkað svigrúm EFTA-EES ríkjanna til að gera viðskiptasamninga við ríki utan EES.“ Regluverkið myndar þannig rammann sem hægt er að semja innan.

Mjög langur vegur er enda frá því að ríki standi í röðum eftir því að gerast aðilar að EES-samningnum. Þvert á móti hafa til dæmis bæði Bretland og Sviss ítrekað afþakkað aðild að honum. Ríki heimsins kjósa þess í stað allajafna víðtæka fríverzlunarsamninga þegar þau semja um viðskipti sín á milli og þar á meðal stærstu efnahagsveldin með sína miklu viðskiptahagsmuni. Þá skiptum við Íslendingar EES-samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning við Breta um árið án þess að nokkuð færi á hliðina.

Hleypur hæglega á tugum milljarða

Með öðrum orðum tekur rannsókn Bertelsmann Stiftung hvorki til mögulegs annars fyrirkomulags sem væri til þess fallið að greiða fyrir viðskiptum á milli Evrópuríkja samkvæmt skýrslu stofnunarinnar sjálfrar né neikvæðra áhrifa aðildar að innri markaði Evrópusambandsins og þar með EES-samningnum á viðskipti við ríki utan sambandsins fyrir utan neikvæð áhrif kostnaðarsams og íþyngjandi regluverks sem taka þarf upp í vaxandi mæli í gegnum samninginn. Samanlagt hleypur þetta hæglega á tugum milljarða króna.

Til að mynda var fjallað um það fyrir ekki alls löngu að árlegur kostnaður einungis vegna nýrrar löggafar Evrópusambandsins á sviði persónuverndar væri metinn á annan milljarð króna. Fyrir liggur einnig að stór hluti af aukum umsvifum hins opinbera hér á landi á liðnum árum og áratugum megi rekja til aðildarinnar að EES-samningnum. Þá benda rannsóknir til þess að mikill meirihluti íþyngjandi löggjafar fyrir atvinnulífið komi frá sambandinu og að gullhúðun á slíku regluverki sé einungis til að gera illt verra.

Hér erum við þó ekki farin að ræða um kröfu Evrópusambandsins um vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum EES-samninginn til stofnana sambandsins, bæði óbeint en í vaxandi mæli beint, sem verður vitanlega ekki metið til fjár og á þess utan ekki að gera að verzlunarvöru. Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem fyrr segir, víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem þýddi ekki upptöku sífellt meira íþyngjandi regluverks, viðskiptahindranir eða framsal valds yfir málum þjóðarinnar.

Hjörtur J. Guðmundsson
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Dynjandisheiði: verktakinn búinn og farinn að flytja vélar og vinnubúðir af svæðinu

Nýi vegurinn endar við Dynjandisá. Þaðan eru um 6,5 km að nýja veginum í Dynjandisvoginum. Ekkert er minnst á þennan lokaáfanga í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.

Guðmundur Ólafsson, verkefnastjóri hjá Suðurverk sagði í samtali við Bæjarins besta að verkinu á Dynjandisheiði væri lokið og byrjað væri á því að flytja burtu tæki og vinnubúðir af heiðinni. Vegagerðin hefði samið við Suðurverk um að bæta 800 metrum við útboðsverkið til þess að enda það betur en meira yrði ekki gert.

G. Petur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að ekki verði farið í þriðja áfanga Dynjandisheiðar án útboðs. Vegagerðin bíði eftir því að samgönguáætlun verði lögð fram á Alþingi og rædd aftur.

Vesturbyggð: áhyggjur af stöðu mála

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að sveitarfélagið hafi ekki nýlegt sent erindi til stjórnvalda varðandi framkvæmdir á Dynjandisheiði. En bæjaryfirvöld í Vesturbyggð hafi hins vegar miklar áhyggjur af stöðu mála þar, sem og stöðu annarra framkvæmda í fjórðungnum. „Þetta á við bæði um framkvæmdir á Dynjandisheiði og framkvæmdir við brýr í Gufudal og Djúpadal, en ekkert hefur einnig heyrst af útboðsmálum á þeim stöðum. Einnig höfum við áhyggjur af því að framkvæmdir niður Trostansfjörð dragist enn frekar en áætlað var.“ segir Gerður.

Ísafjarðarbær: kalla eftir upplýsingum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi vegagerð á Dynjandisheiði á fundi sínum á föstudaginn að beiðni Jóhanns B. Helgasonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Bókað er að í Samgönguáætlun 2020-2034 sé gert ráð fyrir að ljúka við heiðina á fyrsta tímabili. Þá hafi framkvæmdaleyfi frá Ísafjarðarbæ legið fyrir síðan á fyrsta fundi bæjarstjórnar í janúar á þessu ári.
Ísafjarðarbær óskar eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um stöðu mála á 3ja áfanga Dynjandisheiðar.

Síðasta kaflinn á Dynjandisheiði er um 6,5 km langur kafli frá Dynjandisá í Dynjandsivog. Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að gert sé ráð fyrir að kostnaður við þennan sé um 1,5 milljarðar króna.

Gulur september – Guli dagurinn er á morgun

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum.

Markmið verkefnisins er að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna.

Á morgun, 10. september, er svo Guli dagurinn og þá klæðumst við gulu til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju en 10. september er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. 

Að gulum september standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossinum, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Nánari upplýsingar um gulan september má finna á heimasíðu geðhjálpar.

Aldrei mælst jafnmikið af sandsíli

Leiðangri á Bjarna Sæmundsyni HF 30 þar sem rannsakað var ástand sjávars, sæbjúgna og sandsílis lauk um síðustu mánaðarmót.

Í ár var mesti þéttleiki sandsíla frá upphafi mælinga árið 2006.

Í leiðangrinum voru tekinn sýni með sandsílaplóg á þremur svæðum, Faxaflóa, Vestmannaeyjar að Vík í Mýrdal og Ingólfshöfða. Aukingin var mest við Vestmannaeyjar að Vík, um tvöfalt meira en árið 2021 sem var það mesta til þessa. Í Faxaflóa var magnið svipað og það hefur best verið áður. Við Ingólfshöfða fékkst mun minna af síli en á hinum svæðunum, en þar hefur fengist lítíð af sílum fyrir utan fyrstu ár vöktunar.

Við mat á nýliðun í stofninn hefur verið stuðst við fjölda eins árs sandsíla. Fjöldi seiða (0 ára) getur verið mjög breytilegur og afföllin há fyrsta árið, sem orsakar sveiflur í þéttleika, sér í lagi þegar fáir árgangar eru í stofninum. Líklegustu ástæður sveiflanna er mikið afrán fyrsta sumarið og einnig þurfa sílin að ná góðum vexti til að lifa af fyrsta veturinn, til að eiga nægan forða þegar þau liggja meira og minna grafinn í sandinn í svokölluðu vetrarástandi.

Árgangar 2019 og 2020 voru uppistaða aflans árin 2020 til 2023 en í fyrra var farið að draga verulega úr fjölda þeirra og þéttleiki minnkaði (mynd 1). Samhljómur er á milli vöktunar sandsílis og viðkomu lunda við Vestmannaeyjar en árin 2021 og 2024 eru þau bestu á þessari öld samkvæmt Náttúrustofu Suðurlands.

Út frá lengdardreifingum þá var uppstaða aflans nú í ár, seiði frá því í vor og 1 árs síli. Fyrstu árin var hlutfall stærra og eldra sílis að jafnaði hærra en síðari ár.


Myndband af sandsílatogi

Drimla – 3.000.000 laxar á einu ári

Á myndinni er Kristján Guðni Sigurðsson með fisk númer 3.000.000

Þrjár milljónir fiska fóru í gegn um Drimlu á fyrsta starfsárinu, en laxavinnslan Drimla í Bolungarvík tók til starfa fyrir um ári síðan.

Vinnslan hefur gengið vel og þar hefur farið í gegn fiskur fyrir öll fyrirtækin sem ala lax á Vestfjörðum.

Í gær var stór áfangi en þá höfðu 3 milljónir fiska farið í gegn um vinnsluna.

Ætla má að útflutningsverðmætin séu á milli 15 og 20 milljarðar.

Vetrarveður og færð gæti spillst

Útlit er fyrir hvassviðri og snjó á norðanverðu landinu og eru ýmist gular eða appelsínugular viðvaranir í gildi fyrir Strandir og austur á firði fram á miðjan dag á morgun.

Það verður norðan 8-15 m/s og rigning á Norður- og Austurlandi í fyrstu en slydda eða snjókoma til fjalla, en bjart með köflum sunnan heiða. Hvessir í kvöld og bætir í úrkomu fyrir norðan.

Norðan- og norðvestan 10-18 m/s á morgun, en snarpir vindstrengir við fjöll sunnan til. Talsverð rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi, en annars skýjað með köflum. Dregur úr vindi vestanlands og úrkomu á Norðvesturlandi um kvöldið. Hiti breytist lítið.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun segir að á norðanverðum Vestfjörðum og á Norðurlandi bætir í úrkomuna í kvöld. Snjóar ofan um 200-300 metra yfir sjó og áfram fram eftir morgni. Varasamt í nótt og fyrramálið, en þrátt fyrir kalt loftið nær hitinn yfir miðjan daginn yfir frostmarkið á flestum fjallvegum. Frystir síðan aftur annað kvöld.

Orkubú Vestfjarða kaupir forgangsorku af Landsvirkjun fyrir fjarvarmaveiturnar

Hörður Arnarson og Elías Jónatansson handsala samninginn. Mynd: Landsvirkjun.

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag samning um sölu á forgangsorku til fjarvarmaveitna á Vestfjörðum næstu fjögur árin. Þannig verður hægt að reka fjarvarmaveiturnar án þess að reiða sig á olíu sem varaafl þegar afhending raforku er skert. Í nýjum samningi eru heimildir til skerðinga en þær eru takmarkaðar við fjóra daga en ekki 120 líkt og í eldri samningi.

Fjarvarmaveitur hafa hingað til keypt skerðanlega orku sem er seld á töluvert lægra verði en forgangsorka, enda er hún aðeins í boði í góðum vatnsárum. Samningurinn tryggir fyrirsjáanleika í rekstri fjarvarmaveitna á Vestfjörðum með tryggri raforkuafhendingu næstu fjögur árin segir í tilkynningu Landsvirkjunar um samninginn.

Jarðhita hefur lengi verið leitað í grennd við Ísafjörð og í sumar fannst 58 gráða heitt vatn í Tungudal.

Samningnum er ætlað að brúa bilið á meðan Orkubú Vestfjarða þróar veiturnar þannig að þær geti nýtt þann jarðhita og bætt raforkunýtingu með varmadælum.

Orkubúið hefur skoðað framtíðarrekstur fjarvarmaveitna á Vestfjörðum og komist að þeirri niðurstöðu að þessi blandaða leið jarðvarmanýtingar og varmadælna henti best. Umbreytingin sem fram undan er dregur þannig úr þörf fyrir raforku og tryggir rekstur veitnanna til lengri tíma.

Elías Jónatansson, forstjóri OV sagði í samtali við Bæjarins besta að samningurinn myndi spara fyrirtækinu hundruð milljóna á ári miðað við að þynda með því að brenna olíu eins og verið hefur reyndin síðustu ár. Í vetur var raforkuskerðingin í samtals 104 sólarhringa en samkvæmt nýja samningnum verður hámarkið 4 sólarhringar.

Elias sagði að ætlunin væri að eftir 4 ár væri fjarvarmaveiturnar á Ísafirði og ef til vill Patreksfirði komnar með jarðhita. Þessi samningur væri millileikur til fjögurra ára.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Það er ákaflega ánægjulegt að hafa náð þessu mikilvæga samkomulagi við Orkubú Vestfjarða. Orkubúið hefur metnaðarfull áform um þróun fjarvarmaveitnanna í átt að kolefnishlutleysi og Landsvirkjun styður þá framtíðarsýn. Það er von okkar að þessi samningur marki upphaf fullra orkuskipta fjarvarmaveitna um allt land.“

Ísafjarðarbær: íbúafjölgunin að mestu í Skutulsfirði

Frá Suðureyri. Þar hefur fjölgað íbúum um 3,5%. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Siðustu 9 mánuði hefur fjölgað um 69 manns í Ísafjarðarbæ eða um 1,8%. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er fjölgunin að mestu í þéttbýlinu í Skutulsfirði. Þar hefur fjölgað um 59 manns á þessu tímabili úr 2.783 í 2.842.

Þá hefur orðið umtalsverð fjölgun á Suðureyri. Í þéttbýlinu þar voru þann 1. september sl. 322 manns en voru 311 þann 1. desember 2023. Fjölgunin er um 11 manns eða um 3,5%.

Á Flateyri voru 201 en eru nú 203. Í þéttbýlinu á Þingeyri fjölgaði um 1 á umræddu tímabili. Íbúar með lögheimili voru 274 fyrir níu mánuðum en voru 275 um síðustu mánaðamót.

Uppfært kl 13:22 með leiðréttum tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Ísafjarðarbær: FabLab 1,9 m.kr.

Frá undirritun samningsins um Fablab 2018. Mynd: Aðsend.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku viðauka við fjárhagsáætlun og hækkaði framlög vegna FabLab í Menntaskólanum á Ísafirði um 1.934.371 kr. úr 2,1 m.kr. í 4,0 m.kr.

Í skýringum segir að helmingur fjárhæðarinnar sé styrkur til FabLab til að halda úti þjónustsu við íbúa sveitarfélagsins. Helmingur greiðslu er vegna notkunar Grunnskólans á Ísafirði fyrir nemendur sína.

Ekki var gert ráð fyrir kostnaði við Fab Lab í fjárhagsáætlun 2024.

Í sumar tilkynntu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, að ákveðið hafi verið að framlengja samninga ráðuneytanna við Fab Lab-smiðjurnar á Íslandi um þrjú ár. Samhliða verða framlögin hækkuð um samtals 91 m.kr. á samningstímabilinu, eða úr 324 m.kr. í 415 m.kr. á næstu þremur árum. En 11 smiðjur eru styrktar með þessum hætti hringinn í kringum landið. Í framhaldinu samþykkti bæjarráð að vera með í rekstrinum.

Fiskeldi: framleiðslugjald tólffaldaðist á þremur árum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Framleiðslugjald sem fiskeldisfyrirtæki greiða í ríkissjóð tólffaldaðist á aðeins þremur árum. Árið 2020 voru innheimtar 53 m.kr. en árið 2023, þremur árum síðar, var framleiðslugjaldið 643 m.kr. eða tólffalt hærra en fyrsta árið. Samtals var innheimt á þessum fjórum árum 1.289 m.kr.

Þetta kemur fram í skýrslu Matvælaráðherra á Alþingi þar sem svarað er beiðni níu alþingismanna, undir forystu Höllu Signýju Kristjánsdóttur (B) um gjaldtöku í sjókvíaeldi.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir framleiðslugjaldinu og umhverfissjóðsgjaldi og þeim tekjum sem þau hafa skilað.

Ekki var litið til gjaldtöku sem innheimt er til að standa undir sérstakri fyrir fram skilgreindri þjónustu,
til að mynda þjónustugjöld sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun innheimta fyrir eftirlit eða aflagjalda sem sveitarfélög innheimta vegna aðgengis og þjónustu af höfnum og eru því ekki upplýsingar um þær greiðslur eldisfyrirtækjanna.

Af framleiðslugjaldinu rennur um þriðjungur í Fiskeldissjóð sem síðan úthlutar því til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldi er stundað og þurfa þau að sækja um til sjóðsins. Á þremur árum 2021-2023 úthlutaði sjóðurinn 538 m.kr. til sveitarfélaganna átta sem geta sótt um. Þar af eru sex á Vestfjörðum, nú fimm eftir sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

Ekki eru upplýsingar um innheimt gjöld fyrir 2024, en úthlutun Fiskeldissjóðs 2024 var 437 m.kr. og hefur aldrei verið hærri. Samtals er því úthlutun Fiskeldissjóðs á fjórum árum 2021-2024 nærri einn milljarður króna, eða nákvæmlega 975 m.kr.

Ætla má að Fiskeldisgjaldið fyrir yfirstandandi ár verði meira en milljarður króna.

Fiskeldisgjaldið er á þessu ári 37,8 kr./kg. og á eftir að taka frekari hækkun næstu tvö árin.

Umhverfissjóður 1,7 milljarðar króna

Innheimt hefur verið í Umhverfissjóð sjókvíaeldið nærri 1,7 milljarður króna á tíu árum frá 2014 til 2023. Hefur það verið um 330 m.kr. hvort ár síðustu tvö árin.

Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Greitt er fast gjald um 3.600 kr. á hvert tonn sem heimilt er að framleiða.

Nýjustu fréttir