Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 45

Bolungavík: Magnús Ingi Jónsson forseti bæjarstjórnar

Ráðhúsið í Bolungavík.

Í síðustu viku voru árlegar kosningar á dagskrá í bæjarstjórn Bolungavíkur. Magnús Ingi Jónsson var kosinn forseti bæjarstjórnar.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir var kosin 1. varaforseti bæjarstjórnar og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir er 2. varaforseti.

Í bæjarráð voru kosin sem aðalmenn:

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir (K), formaður
Magnús Ingi Jónsson (K), varaformaður
Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir (D)

og varafulltruar

Ástrós Þóra Valsdóttir (K)
Olga Agata Tabaka (K)
Kristín Jónsdóttir (D).

Nanný Arna: er ekki bæjarfulltrúi Vinstri grænna – eru skemmtiferðaskipin vandamál?

Skjáskot af frétt RUV.

Ríkisútvarpið birti á sunnudaginn viðtal við Nanný Örnu Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúa Í listans og sagði hana vera bæjarfulltrúa Vinstri grænna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Aðspurð segir Nanný Arna Bæjarins besta að hún sé bæjarfulltrúi Í listans og hafi allaf starfað sem slíkur. 

„Ég er fulltrúi Í-listans, var í framboði fyrir Í-listann og vinn eftir stefnu Í-listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Ég er hins vegar skráð í stjórnmálaflokkinn VG.“ segir Nanný Arna. 

Eru skemmtiferðaskipin vandamál?

Viðtalið snerust um erlend skemmtiferðaskip og fjölda ferðamanna á Ísafirði. Spurningar fréttarmannsins Gunnhildar Kjerúlf Birgisdóttur lýstu frekar neikvæðri nálgun til þessarar miklu lyftistangar í vestfirsku efnahagslífi.

Fyrst lagði hún mikla áherslu á fjöldann. Erlendu ferðamennirnir skiptu þúsundum og því væri heimamenn síður á ferli og spurði hvort þeir héldu sig meira heima. Næsta spurning var hvort nóg væri til af mat.

Þegar bæjarfulltrúinn hafði lagt sig fram í svörum sínum um að draga fram hið jákvæða sem fylgdi skemmtiferðaskipunum kom loksins spurningin en „fylgja þessum farþegum miklar tekjur.“

Segja má að það hafi loks tekist að kreista upp úr fréttamanninum að sunnan eitthvað annað en vandamálanálgun á komu skemmtiferðaskipanna og er það vel.

Svo má segja RUV til hróss að ekkert var minnst á mengun af skemmtiferðaskipunum að þessu sinni. En í fyrra var RUV alveg í kasti yfir meintri mengun frá skipunum og svo því að ferðamennirnir væru alltof margir fyrir Ísafjörð. Það var meira að segja sendur fréttamaður vestur til þess að reka hljóðnemann upp í bæjarstjórann og fá hana til þess að taka undir það að ferðamennirnir væru of margir og svo var það mengunin.

En nú er ekkert minnst á það. Það er kannski vegna þess að það var aldrei nein mengun yfir leyfilegum mörkum. Bæjarins besta óskaði eftir því í fyrra eftir viðamikla umfjöllun RUV og reyndar fleiri miðla um mengunina að fá gögn sem staðfestu mengunina. Leitað var til Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar.

Skemmst er frá því að segja að engin gögn bárust. Það voru engar mælingar sýndar sem staðfestu meinta mengun frá skemmtiferðaskipunum. Líklega var þetta bara ástæðulaust upphlaup hjá RUV. Því er umfjöllunin í ár skárri en í fyrra. Kannski verður hún á næsta ári þannig að RUV segir frá uppbyggingunni og öllum jákvæðu áhrifunum, hver veit.

En það er örugglega til of mikils mælst að RUV spyrji borgarstjórann í Reykjavík hvort ferðamennirnir séu ekki örugglega of margir á suðvesturhorninu eða hvort til sé nógur matur fyrir þá.

En það er eftirtektarverð þessi neikvæða nálgun á uppbyggingu og framfarir á landsbyggðinni. Það er eins og sumir ónefndir fjölmiðlar í Reykjavík geti ekki höndlað slíkar fréttir. Umfjöllunin snýst meira og minna um hættur sem fylgja eða vandamál, sérstaklega fyrir náttúruna og helst má ekkert gera fyrir en að búið er að sanna að ekkert óæskilegt fylgi.

Eigum við nokkuð að ræða Teigskóg, Hvalárvirkjun eða laxeldið?

-k

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Flatey

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með fulltrúum stýrihóps um Framtíðarmöguleika Breiðafjarðar, Breiðafjarðarnefndar, Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssambands Vestfjarða, Náttúrufræðistofnunar, Náttúrustofu Vesturlands, bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar, ásamt fleirum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið Flatey í Breiðafirði.

Flatey var friðlýst sem friðland árið 1975, en árið 2021 var friðlýsingin endurskoðuð og friðlandið stækkað. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði fágætra fuglategunda. Friðlandið hefur hátt vísinda- og fræðslugildi og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Friðlýsingunni er einnig ætlað að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla og að tryggja fræðslu um fuglalífið í eynni og nágrenni.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Flatey er náttúruperla þar sem fyrirfinnst mikil friðsæld í bland við fjölskrúðugt fuglalíf. Á eyjunni fer saman náttúruvernd og nýting, sem er bæði í formi þess að ábúendur nytja hluta friðlandsins til túnræktar, beitar og dúntekju, sem og að ferðamenn sækja eyjuna heim til að upplifa náttúru og menningu hennar. Meginmarkmið áætlunarinnar er að móta stefnu um verndun friðlandsins í sátt við ábúendur, landeiganda , gesti og aðra hagsmunaaðila.“

Í stjórnunar- og verndaráætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til eins árs. Stjórnunar- og verndaráætlunin var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, ábúenda í Flatey, fulltrúa Reykhólahrepps og fulltrúa Framfarafélags Flateyjar.

Friðland er einn flokkur friðlýstra svæða og þar er markmiðið að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og styrkja verndun tegunda lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt.

Ísafjarðarhöfn: 1.013 tonna afli í júní

Páll Pálsson ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Alls komu 1.013 tonn af afla á landi í Ísafjarðarhöfn í júní. Leynir ÍS landaði einu tonni af rækju og að öðru leyti var aflinn fenginn í botnvörpu.

Páll Pálsson ÍS var aflahæstur með 527 tonn í fimm veiðiferðum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni og var með 252 tonn af afurðum.

Fjórir aðkomu togarar lönduðu afla í mánuðinum, einu sinni hver. Áskell ÞH var með 53 tonn, Vörður ÞH með 54 tonn, Frosti ÞH 53 tonn og Jóhanna Gísladóttir GK var einnig með 53 tonn.

Hjúkrunarheimili: áforma að fella brott 15% greiðslu sveitarfélaga

Hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði. Það er fyrirhuguð 10 rúma viðbygging.

Birt hafa verið til umsagnar í samráðsgátt áform heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem fellir brott skyldu sveitarfélaga til að greiða 15% stofnkostnaðar við uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að þetta sé liður í því að hrinda í framkvæmd ákvörðun heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um að taka upp nýtt og skilvirkara fyrirkomulag við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili sem kynnt var í byrjun þessa árs.

Með fyrirhuguðum breytingum er gert ráð fyrir að ríkið sjái alfarið um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi standa ríki og sveitarfélög saman að byggingu húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Ríkið greiðir að jafnaði 85% stofnkostnaðar á móti 15% framlagi sveitarfélags að lágmarki og leggur sveitarfélagið jafnframt til lóð og ber kostnað af nauðsynlegri gatnagerð. Undanfarin ár hafa orðið töluverðar tafir á framkvæmdum við byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Markmiðið með nýju fyrirkomulagi er að liðka fyrir uppbyggingu og tryggja fullnægjandi viðhald á þeim eignum sem nýttar eru undir þessa mikilvægu almannaþjónustu.

Nýja fyrirkomulagið byggir á því að ríkið hætti að byggja fasteignir undir hjúkrunarheimili á eigin reikning í samstarfi með sveitarfélögum. Þess í stað verði tekið upp leigufyrirkomulag þar sem fasteignafélögum og öðrum sérhæfðum aðilum verði gefið tækifæri til að byggja og reka fasteignir hjúkrunarheimila á grundvelli útboða sem leiði til hagstæðustu útkomu fyrir ríkið – að teknu tilliti til gæða og kostnaðar.

Frestur til að skila umsögnum um framangreind áform er til 27. júlí næstkomandi.

Réttur til sambúðar á hjúkrunarheimilum

„Það er eins og við séum slit­in í sund­ur, það er ekki hægt að segja annað, og ein­mitt þegar kannski væri mest þörf­in fyr­ir stuðning.” Þetta sagði viðmæl­andi í Kast­ljós­sviðtali árið 2013. Eig­in­kona hans þurfti að flytj­ast á hjúkr­un­ar­heim­ili og hann vildi fara með henni en fékk ekki samþykkt færni- og heil­sum­at. Maður­inn heim­sótti kon­una sína dag­lega í þrjú ár.


Öll vilj­um við fá að eld­ast með reisn. Við vilj­um njóta efri ár­anna í faðmi fjöl­skyldu okk­ar. Því miður er fjöl­skyldusam­ein­ing ekki tryggð í lög­um um mál­efni aldraðra. Rétt­ur til dval­ar á hjúkr­un­ar­heim­ili er bund­inn því skil­yrði að viðkom­andi hafi und­ir­geng­ist færni- og heil­sum­at sem sýni fram á þörf hans fyr­ir hjúkr­un­ar- eða dval­ar­rými. Það ger­ist reglu­lega þegar ein­stak­ling­ar þurfa heilsu sinn­ar vegna að leggj­ast inn á hjúkr­un­ar­heim­ili að þeir verða viðskila við maka sinn. Flokk­ur fólks­ins hef­ur lagt fram frum­varp sem boðar breyt­ing­ar á lög­um sem tryggja rétt­inn til sam­búðar í dval­ar- og hjúkr­un­ar­rým­um. Rétt­ur til sam­búðar, eðli máls­ins sam­kvæmt, nær ekki aðeins til dval­ar á sömu stofn­un, held­ur veit­ir maka rétt til dval­ar í sama rými. Mik­il­vægt er að staðið verði vörð um minni hjúkr­un­ar­heim­ili á lands­byggðinni og eldri borg­ar­ar geti dvalið með maka sín­um á hjúkr­un­ar­heim­ili í sinni heima­byggð en þurfi ekki að flytj­ast hreppa­flutn­ing­um.

Viðvar­andi skort­ur á hjúkr­un­ar­heim­il­um, alls staðar á land­inu, sem og rekstra­vandi hjúkr­un­ar­heim­ila ger­ir það að verk­um að erfitt er að fá þing­meiri­hluta fyr­ir fyrr­nefndu frum­varpi Flokks fólks­ins. Sjö hundruð eldri borg­ar­ar eru á biðlista eft­ir hjúkr­un­ar­rým­um og rík­is­stjórn­in virðist ekki ætla að gera mikið til þess að taka á þess­ari krísu. Upp­bygg­ing hjúkr­un­ar­heim­ila verður að taka til­lit til rétts til sam­búðar, mis­mun­andi bú­setu og fjöl­breyti­leika eldri borg­ara.

Með nú­ver­andi van­rækslu­stefnu stjórn­valda er erfitt að tryggja hjón­um rétt til sam­búðar á hjúkr­un­ar­heim­il­um. Flokk­ur fólks­ins hef­ur lengi kallað eft­ir þjóðarátaki í upp­bygg­ingu á hjúkr­un­ar­heim­il­um og við telj­um það eðli­legt ef til­laga okk­ar um breyt­ingu á lög­um um mál­efni aldraðra verði hlut­ur af því átaki. Tryggja þarf öldruðum rétt til sam­búðar í ell­inni, en ekki viðskilnað!

Eyjólfur Ármannsson, alþm.

Höf­und­ur er þingmaður Flokks fólks­ins í Norðvesturkjördæmi.

eyjolf­ur.ar­manns­son@alt­hingi.is

Flórgoði

Flórgoði er eini goðinn sem verpur á Íslandi. Minnir á smávaxna önd en er þó líkari brúsum í háttum og útliti; auðþekktur á þríhyrndu höfði, mjóum hálsi sem hann teygir oft, og stuttu stéli. Í sumarbúningi virðist hann dökkur í fjarlægð, höfuðið er stórt og svartgljáandi með stórum gulum fjaðrabrúskum aftur frá augum sem minnka þegar líður á sumarið. Háls og síður eru rauðbrún, bak og afturháls svartleit og kviðurinn hvítur. Yfirvængir eru dökkir með hvítum speglum. Á veturna er hann dökkur að ofan en ljós að neðan, með svarta þríhyrnda kollhettu, dökkt bak og dökkkámugan afturháls og síður. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli í vetrarbúningi og kynin eru lík.

Flórgoði á erfitt með að hefja sig til flugs og flýgur sjaldan en þegar hann er kominn á loft á hann auðvelt með flug, fæturnir skaga aftur fyrir stélið og höfðinu er haldið lágt. Hann er mikill sundfugl og góður kafari en þungur til gangs. Sefdans flórgoðans í tilhugalífinu er mikið sjónarspil. Hann ber ungana gjarnan á bakinu og fæðir þá fyrstu vikurnar. Félagslyndur, en helgar sér óðal í vörpunum.

Á sumrin er aðalfæðan hornsíli, en einnig brunnklukkur, tjarnatítur, krabbadýr, mýlirfur og flugur. Á sjó er fæðan líklega mest smáfiskur og krabbadýr. Eta talsvert eigið fiður, það er talið hjálpa upp á meltinguna. Láta sig stundum síga í vatnið, án þess að taka dýfu.

Af fuglavefur.is

Erla Björk Jónsdóttir er nýr formaður Héraðssambands Strandamanna

Árný Helga Birkisdóttur, íþróttamaður HSS, og Jökll Ingimundur Hlynsson, efnilegasti íþróttamaður HSS

77. ársþing Héraðssambands Strandamanna (HSS) var haldið fimmtudaginn 6. júní á Laugarhóli í Bjarnarfirði. Tuttugu og einn fulltrúi frá sex aðildarfélögum sótti þingið; þ.e. frá Umf. Geisla, Umf. Neista, Skíðafélagi Strandamanna, Golfklúbbi Hólmavíkur og Sundfélaginu Gretti.

Fundurinn var nokkuð hefðbundinn og ársreikningar og skýrsla stjórnar kynnt og bæði samþykkt. Einnig farið yfir nokkrar breytingatillögur og þær samþykktar.
Ný stjórn var kosin þar sem Jóhann Björn Arngrímsson gaf ekki kost á sér áfram sem formaður HSS en hann tók sæti sem varaformaður.  Erla Björk Jónsdóttir var kosin formaður í hans stað. Hildur Aradóttir var kosin gjaldkeri í stað Ragnars Bragasonar sem fór úr stjórn og kom Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir inn ný í stjórn sem ritari. Óskar Torfason, sem áður var varaformaður, tók sæti sem meðstjórnandi. 


Þá var íþróttafólk ársins 2023 valið. Íþróttamaður ársins hjá HSS árið 2023 var valin Árný Helga Birkisdóttir, fyrir góðan árangur á skíðum og efnilegasti íþróttamaður HSS var Jökull Ingimundur Hlynsson, fyrir góðan árangur í frjálsum íþróttum og gönguskíðum. Hvatningarbikar HSS fengu Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir og eldri borgarar fyrir dugnað og elju og mátti greina aukningu hjá þessum hópi og gott starf unnið hjá Ragnheiði Birnu.

RagnheiðurBirna Guðmundsdóttir fékk hvatningarbikar HSS 

Veiðar á rjúpu verða svæðisbundnar

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Umhverfisstofnun hefur birt drög að stjórnunar- og Verndaráætlun rjúpu. Þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi.

Áætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Samstarfshópurinn fékk einnig aðstoð frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Í áætluninni er nýtt kerfi veiðistjórnunar kynnt, en í því felst meðal annars að veiðistjórnun verður svæðisbundin þar sem landinu er skipt í sex hluta. Auk þess hafa ný stofnlíkön hafa verið þróuð sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Áætlunin er mikilvægur liður í því að stuðla að því að veiðar séu sjálfbærar og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi. Enn fremur er markmiðið með áætluninni að stuðla að gagnsæi, fyrirsjáanleika og skilvirkni veiðistjórnunar á rjúpu svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.

Um miðjan júlí mun Umhverfisstofnun senda tillögur að rjúpnaveiðitímabili 2024 til umhverfis- orku- og loftstlagsráðuneytis sem verða byggðar á áætluninni og nýju stofnlíkönunum.

Afturelding í Reykhólahreppi hélt upp á 100 ára afmælið

Ungmennafélagið Afturelding Reykhólum hélt upp á 100 ára afmælið sitt í síðustu viku og bauð gestum og gangandi upp á hamborgara, galdrasýningu, gögl námskeið og teymt var undir yngstu þátttakendunum. Jafnframt var líkamsræktin Grettir sterki tekin í notkun eftir miklar endurbætur.

Undanfarið ár hefur verið viðburðaríkt hjá Aftureldingu og jafnvel eitt það viðburðaríkasta í sögu félagsins. Mikil vinna fór í endurbætur á líkamsræktaraðstöðu ungmennafélagsins í kjallara sundlaugarinnar. Sagaður var niður veggur til að stækka rýmið og opna það. Ungmennafélagið keypti mikið af nýjum búnaði fyrir ræktina og fékk mikla aðstoð frá starfsmönnum sveitarfélagsins við vinnuna.

Næst á dagskrá er að koma upp aðstöðu fyrir þrek tækin ásamt því að starfsfólk áhaldahússins munu skipta um hurðir og koma upp salernisaðstöðu þarna niðri.

Þátttaka í bogfimi á árinu var mjög góð og en um 20 iðkendur mættu á æfingar . Fjórir keppendur frá félaginu þóku þátt í íslandsmeistaramóti innandyra og komu þeir allir með medalíur heim, ásamt 2 íslandsmeistaratitlum og einu íslandsmeti.

Félagið telur mörg tækifæri í þátttöku fullorðna fólksins og erum að stefna á að hafa regluleg námskeið fyrir fullorðið fólk með yfirskriftinni SAMEINUMST Í ÞÁTTTÖKU. 

Nýjustu fréttir