Mánudagur 4. nóvember 2024
Síða 45

Hafrannsóknarstofnun: engin svör um stærð laxastofnsins og sundurliðun eftir ám

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri í Hafrannsóknarstofnun.

Borist hafa svör frá Hafrannsóknarstofnun við fyrirspurnum sem send voru 24. júlí sl. um villta laxastofninn og ítrekuð tvisvar. Spurt var um skilgreiningu á nytjastofni lax, í hvaða ám væri nytjastofn og hver áætlaður hrygningarstofn er í hverju tilviki.

Tilefnið var að 13. maí sl. greindi Morgunblaðið frá því að sam­kvæmt mati Haf­rann­sókna­stofn­un­ar var stærð hrygn­ing­ar­stofns villta lax­ins við Ísland um tutt­ugu þúsund fisk­ar síðastliðið haust, að aflokn­um veiðitíma. Stofn­un­in hafi kynnt þetta mat sitt á aðal­fundi Lands­sam­bands veiðifé­laga sem hald­inn var í Húsa­felli síðari hluta apr­íl­mánaðar.

Í svörum Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra segir að við mat á áætlaðri heildarstærð hrygningarstofns villtra laxa á Íslandi sé gengið út frá skráðri netaveiði og stangveiði villtra laxa (hafbeit ekki meðtalin) og meðaltals veiðihlutfalli þar sem það er ekki þekkt. „Frá 1996 er leiðrétt fyrir þeim fjölda sem er veitt og sleppt. Það er sú mynd sem kemur fram í þeirri frétt sem vitnað er til. Gögn fyrir árið 2024 liggja ekki fyrir.“

Þá segir: „Stærð hrygningastofns hverrar ár getur verið breytilegur á milli ára. Þau viðmið sem almennt eru notuð eru að reikna viðmiðunarmörk fyrir hrygningu þ.e. hversu stóran hrygningarstofn í fjölda hrogna talið þarf að meðaltali til að nýta framleiðslugetu viðkomandi ár það sem er umfram er það sem er til skiptanna fyrir veiði. Ef stofnstærð er undir viðmiðunarmörkum hefur stofninn ekki veiðiþol.“

Ennfremur: „Það má við bæta að stofn sem nýttur er til veiði þarf að þola þá veiði án þess að gengið sé á stofninn, stofnhluta eða að líffræðilegan fjölbreytileika. Mat á stofnstærðum getur byggt á t.d. beinum talningum ef um fiskteljara er að ræða. Í fleiri tilfellum er byggt á veiðitölum þar sem ekki er um beinar talningar að ræða. Þar sem bæði talningar og veiðiskráning liggur fyrir hafa komið fram tengsl á milli stofnstærðar og veiði og því hægt að reikna veiðihlutfall. Þar sem einungis veiðitölur liggja fyrir er má áætla stofnstærð út frá þekktu veiðihlutfalli í sambærilegum vatnakerfum.“

Engin svör eru gefin við spurningunni í hvaða ám væri nytjastofn og hver áætlaður hrygningarstofn er í hverri á þrátt fyrir að kynnt hafi verið opinberlega mat stofnunarinnar á heildarstæð hrygningarstofnsins.

Nytjastofn: villtur lax og ræktaður lax veiðifélaga

Fram kemur í svörunum að skilgreining á nytjastofni væri eftirfarandi samkvæmt frumvarpi um lagareldi sem lagt var fyrir Alþingi á síðasta vetri : „Fiskstofn villtra laxa sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum. Til villtra nytjastofna lax teljast annars vegar laxastofnar þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum og hins vegar laxastofn í veiðiám þar sem sam­þykkt hefur verið fiskræktaráætlun.“

  

Menn og sauðfé

Mannfjöldi og sauðfé síðustu hundrað ár.

September er sá tími árins þegar verið er að smala fé af fjöllum .

Íslendingasögurnar segja frá því að landnámsmenn komu með búfénað með sér þegar þeir settust hér að um 900 e. kr.

Ef litið er til síðustu 100 ára þá náði stofninn hámarki árið 1973 en þá var sauðfé 845.796, eða um fjórar kindur á hvern íbúa.

Árið 2023 var heildarfjöldinn kominn niður í 354.986, eða 0,94 kind á hvern íbúa.

Kynning á félagsstarfi á norðanverðum Vestfjörðum

Ísafjarðarbær og Bolungarvíkurkaupstaður í samstarfi við Vestfjarðastofu standa fyrir kynningardegi á félagsstarfi á norðanverðum Vestfjörðum.

Viðburðurinn sem hefur fengið heitið Í góðum félagsskap fer fram laugardaginn 21. september í Edinborgarhúsinu, frá kl. 14:00-16:00.

Þeir sem vilja kynna félagsstarf fá úthlutað plássi þar sem þeir geta sett upp sinn eigin kynningarbás. Á básnum fer fram fræðsla um viðkomandi starfsemi og gefst þar færi á að hvetja fólk til þátttöku í starfinu. 

Sérstök áhersla er lögð á að kynna nýjum íbúum í sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum allt það skemmtilega félagsstarf sem fram fer á svæðinu – en allir íbúar nýir sem gamlir – velkomnir að finna sér eitthvað spennandi að fást við.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna á vefsíðu Vestfjarðastofu.

Nýr tómstundafulltrúi í Reykhólahreppi

Marie-Susann Zeise

Marie-Susann Zeise hefur verið ráðin í starf tómstundafulltrúa Reykhólahrepps frá og með 1. september.

Hún tekur við af Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, sem gegnt hefur því starfi um árabil. 

Heimila ÍS47 600 tonn aukningu í Önundarfirði

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að lífmassaaukning ÍS47 um 600 tonn af regnbogasilungi og laxi í sjókvíum í Önundarfirði, Ísafjarðarbæ, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar, greinargerð framkvæmdaraðila, umsagnir umsagnaraðila og viðbrögð framkvæmdaraðila við þeim er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Með aukningu á eldi á regnbogasilungi og laxi í Önundarfirði um 600 tonn er stefnt að því að heildareldismagn verði samtals 2.500 tonn sem samræmist bæði burðarþoli sem og áhættumati Önundarfjarðar.

Höfundaspjall á Bókasafninu Ísafirði

Í dag kl 17 verður á Ísafirði – höfundaspjall á Bókasafninu Ísafirði – en það er hluti af viðburðaröð Glæpafár á Íslandi í tilefni af 25 ára afmæli Hins íslenska glæpafélags. Tveir ísfirskir höfundar (Eiríkur Örn Norðdahl og Satu Rämö) koma fram auk gests frá Reykjavík (Yrsu Sigurðardóttur). Eiríkur Örn Norðdahl opnar viðburðinn og flýtur glæsamlegt ljóð, nýtt og frumsamið af tilefninu.

Anna Sigríður Ólafsdóttir sér um spjallið. Léttar veitingar í boði. Öll velkomin og aðgangur er ókeypis.

Satu Rämö er finnsk en hefur lengi búið á Íslandi og á heima á Ísafirði í dag. Hún hefur gefið út fjölda bóka um Ísland, m.a. ferðabækur, minningar og… prjónabók! Nýverið kom út þýðing á fyrstu bók hennar í þríleiknum um ísfirsku rannsóknarlögreglukonuna Hildi sem slegið hefur í gegn í Finnlandi og Þýskalandi.

Yrsa Sigurðardóttir hefur gefið út fjölda bóka, m.a. glæpa- og spennusögur en einnig barnabækur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tugi tungumála og sitja á metsölulistum bæði hér á landi og erlendis. Sögusvið sumra bóka hennar er sérstaklega vel þekkt Vestfirðingum, t.d. skáldsagan sem gerist á Heysteyri í Jökulfirðirnum Ég man þig.



Vestfjarðastofa: skýrsla um mögulega þjóðgarða á Vestfjörðum

Titilblað skýrslunnar.

Út er komin skýrsla Vestfjarðastofu um mögulega þjóðgarða á Vestfjörðum. Nefnist hún sóknarfæri í byggðaþróun. Höfundur er Hjörleifur Finnsson verkefnastjóri.

Fram kemur að Vestfirðir eru eini landshluti Íslands þar sem ekki er að finna þjóðgarð. Þjóðgarðar á Íslandi hafa að mestu verið fjármagnaðir af ríkinu, en síðustu ár hafa sértekjur þeirra aukist til muna vegna fjölgunar ferðamanna og breyttra áherslna. Í inngangi segir að þegar þjóðgarðar hafa verið stofnaðir hefur ríkið byggt upp innviði til ferðamennsku og útivistar og séð um viðhald og rekstur þeirra. M.a. af þessum ástæðum hafi stofnun þjóðgarða á Íslandi leitt til mikillar fjölgunar ferðamanna og uppbyggingar ferðaþjónustu á nærsvæðum þeirra (Hagfræðistofnun 2018).

„Með þessum hætti má færa fyrir því rök að ein af ástæðum þess að Vestfirðir hafi verið eftir á í þróun ferðaþjónustu sem atvinnuvegar sé vöntun á þjóðgarði.“

Á Vestfjörðum eru níu friðlýst svæði.

Skýrsluhöfundur nefnir sex svæði þar sem hann telur að þjóðgarður geti verið á og telur tvö þeirra möguleg, Dynjandisþjóðgarður og Drangajökulsþjóðgarður.

Undirbúningur að Dynjandisþjóðgarði hófst 2021 en stöðvaðist þar sem Ísafjarðarbær „taldi grunnspurningum um uppbyggingu innviða ósvarað Síðan hefur lítið hreyfst þar sem Umhverfisráðneytið hefur enn ekki tekið afstöðu til erindis Orkubús Vestfjarða um afnám friðlýsingar að hluta, eða breytingu á
friðlýsingu Vatnsfjarðarfriðlands svo hægt sé að meta virkjunina í Rammaáætlun og virkja megi þar vatnsafl.“

Í kjölfar deilna um Hvalárvirkjun 2017 kom til álita að svæðið yrði að þjóðgarði sem talið er óraunhæft vegna stöðu þess í nýtingarflokki Rammaáætlunar, og stjórnsýslulega stöðu rammaáætlunar ofar skipulagi sveitarfélaga. „Hinsvegar væri möguleiki að friðlýsa allt land norðan framkvæmdasvæðis Hvalárvirkjunar, frá og með Drangajökli norður Snæfjallaströnd, Jökulfirði, Norðurstrandir og Hornstrandir – og þannig skapa Drangajökulsþjóðgarð.“

Ísafjarðarhöfn: 956 tonna afli í ágúst

Páll Pálsson ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 956 tonnum af fiski í Ísafjarðarhöfn í síðasta mánuði.

Páll Pálsson ÍS landaði sex sinnum samtals 436 tonnum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni og var með 322 tonn af afurðum.

Eyfirsku togaranir tveir Áskell ÞH og Vörður ÞH voru á veiðum fyrir Vestfjörðum og lönduðu tvisvar hvor, Vörður ÞH var með 99 tonn og Áskell ÞH 94 tonn.

Loks landaði Jóhanna ÁR frá Þorlákshöfn einu sinni sæbjúgum og var með 4,6 tonn.

Fjórðungssamband Vestfirðinga: styður vegabætur vegna Hvalárvirkjunar

Stjórn Fjórðungssambandsins tók fyrir á fundi sinum fyrir tveimur vikum bréf Landsnets og Vesturverks til Vegagerðarinnar þar sem farið er fram á úrbætur á Strandavegi og Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi vegna væntanlegra virkjunarframkvæmda í Hvalá.

Bókað var að stjórn FV taki undir óskir Landsnets og Vesturverks um vegabætur vegna framkvæmda við
Hvalárvirkjun en stjórnin bendir á að „mikilvægt er að umbeðnar vegabætur þurfa að fá nýtt fjármagn sem ekki verði tekið af öðrum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á Vestfjörðum. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hvetur til að undirbúningsvinnu vegna vegabóta í Árneshreppi verði hraðað sem mest.“

M.Í. málþing: við öll – Inngilding í framhaldsskólum

Fimmtudaginn 12. september frá kl. 9-15 verður MÍ með málþing og vinnustofur í Edinborgarhúsinu á Ísafirði undir yfirskriftinni Við öll í MÍ. Þar munu Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu stýra fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag. 

Jovana Pavlovic er mannfræðingur, og markaðs- og verkefnastjóri og fjölmenningafulltrúi hjá Símenntun Vesturlands og Sema Erla Serdaroglu er aðjúnkt við HÍ í tómstunda- og félagsmálafræði. Í rannsóknum sínum hefur Sema Erla einblínt á kynþátta- og menningarfordóma, einelti og ungt fólk og ofbeldisfulla öfgahyggju. 

Hátt í 20 tungumál í M.Í.

Málþingið og vinnustofurnar eru fyrir alla dagskólanemendur í MÍ og starfsfólk, hátt í 250 manns.

25% dagskólanemenda í skólanum hafa annað móðurmál en íslensku og alls eru töluð hátt í 20 ólík tungumál í skólanum. Inngilding er okkur því ofarlega í huga í okkar starfi alla daga en okkur langar að gera henni enn hærra undir höfði. Hugmyndin á bak við þennan dag kviknaði síðasta vetur og fékkst styrkur frá Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir verkefninu. 

Nýjustu fréttir