Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 44

Strandabyggð: úttekt á greiðslum til fyrrverandi sveitarstjórnarmanns

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir á fundi sínum í gær, erindi frá Jóni Jónssyni fyrrverandi sveitarstjórnarmanni, þar sem hann tilkynnti sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað yrði eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðaði sveitarfélagið. Ætlunin væri að safna undirskriftum til að kosið yrði um þá kröfu til sveitarfélagins að það standi fyrir því að gerð yrði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfmanna sveitarfélagins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í hans garð. Er Jón Jónsson ósáttur við ásakanirnar og vill að þær verði dregnar til baka.

Í byrjun júlí sl. áttu fulltrúar í sveitarstjórn og lögfræðingur sveitarfélagsins fund með Jóni Jónssyni þar sem farið var yfir fyrrgreint erindi.  Á þeim fundi kom m.a. fram að Jón Jónsson væri reiðubúinn að falla frá fyrirhugaðri undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu ef sveitarstjórn samþykkti að láta fara fram úttekt á öllum greiðslum til hans svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar.

Sveitarstjórnin samþykkti að leitað verði til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem annast endurskoðun ársreikninga sveitarfélagsins, um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.

Við fyrrgreinda úttekt verði lagt mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar. 

Fyrrgreindri úttekt skal lokið við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 30. september næstkomandi. Niðurstöður úttektarinnar skulu kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Bastilludagurinn: boðið til móttöku á Ísafirði á sunnudaginn

Le bal des lumières. Tour Eiffel illuminée avec feux d'artifices lors 14 juillet 2005, à Paris (VIIe). MT

Franski konsúllinn á Ísafirði býður Fransmönnum og áhugafólki um franska menningu til móttöku sunnudaginn 14. júlí á þjóðhátíðardegi Frakka.

Bastilludagurinn er þjóðhátíðardagur Frakklands sem er haldinn hinn 14. júlí ár hvert til að minnast áhlaupsins á Bastillu virkið í París í frönsku stjórnabyltingunni hinn 14. júlí 1789.

Tengslin við Frakkland eiga sér langa sögu. Víða um Vestfirði má finna minjar um tengsl Frakka og Íslendinga. Franskir sjómenn voru við veiðar við stendur landsins um aldir og margar sögur til af viðskiptum þeirra við Vestfirðinga. Í Dýrafirði má finna fallega varðveittan grafreit franskra sjómanna og í Patreksfirði eru mörg minni um veru þeirra þar. Undanfarin ár hefur frönskum skútum fjölgað mjög í Ísafjarðarhöfn, sumar í stuttu stoppi á leið til Grænlands en aðrar dvelja lengur. Fyrir fimm árum hóf Franska kvikmyndahátíðin göngu sína í Ísafjarðarbíói, og verður næst haldin í byrjun árs 2025. Franskir og frönskumælandi nemendur við Háskólasetur Vestfjarða hafa verið allnokkrir undanfarin ár og franskir vísindamenn og nemendur vinna að ýmsum verkefnum á svæðinu. Franskir listamenn koma reglulega til gestavinnustofudvalar hjá ArtsIceland á Ísafirði og öll þekkjum við til franskrar vín- og matarmenningar.

Fransmenn, frönskumælandi og annað áhugafólk um franska menningu er velkomið að koma og þiggja léttar veitingar og blanda geði á Bastilludeginum í Gallerí Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði kl. 16:30 – 18:00. Fulltrúi frá Sendiráði Frakklands á Íslandi, Valerie Blachier, verður viðstödd móttökuna.

Patrekshöfn: strandveiðar með 562 tonn í júní

Strandveiðibátur landar í Patrekshöfn í júní. Mynd: Patrekshöfn.

Alls var landað í Patrekshöfn í júní 672 tonnum samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Dragnótabáturinn Patrekur BA var með 95 tonn í sjö veiðiferðum og sjóstangveiði skilaði 15 tonnum.

Annar afli var af um 60 handfærabátum og nam um 562 tonnum. Er það líklega aflahæsta höfn landsins í júní hvað strandveiðarnar varðar. Alls voru 748 landanir skráðar í mánuðinum.

Arnarlax: hagnaður 1,7 milljarðar kr. og sterk eiginfjárstaða

Höfuðstöðvar Ararlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hagnaður af rekstri Arnarlax varð á síðasta ári 1,7 milljarðar króna. Tekjuskattur af hagnaði er um 390 m.kr. Heildartekjur félagsins voru um 25 milljarðar króna. Eignir Arnarlax eru bókfærðar á 35 milljarða króna og þar af er eigið fé um 23 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið er 65% og hækkaði það frá fyrra ári úr 62%. Hagnaður ársins varð mun minni en árið 2022 vegna óvenjumikilla affalla.

Laun og tengd gjöld voru 2,6 milljarðar króna. Á árinu voru 167,5 stöðugildi hjá Arnarlax af a.m.k. 15 mismunandi þjóðernum, sem er aukning um 13,5 stöðugildi frá árinu 2022.

Að meðaltali voru laun og tengd gjöld á hvert stöðugildi 1,3 m.kr. á mánuði samkvæmt upplýsingum í ársreikningi félagsins.

Handbært fé um áramót nam 1,3 milljörðum króna. Á árinu fór fram endurfjármögnun félagsins fyrir 100 milljónir evra eða 15 milljarða íslenskra króna og segir í ársreikningnum að „tryggir sú fjármögnun rekstur fyrir komandi ár og fjármögnun á frekari fjárfestingum til að tryggja enn frekari vöxt félagsins.“

Sláturmagn jókst um 11 prósent úr 16,1 þúsund tonnum árið 2022 í 17,9 þúsund tonn árið 2023 og hefur það aldrei verið meira.

Með nýfengnu 10.000 tonna leyfi í Ísafjarðardjúpi hefur Arnarlax framleiðsluleyfi fyrir 33.700 tonnum.

Í lok árs 2023 átti félagið fjórar seiðaeldisstöðvar þar sem þrjár þeirra voru í rekstri en sú fjórða í undirbúningi fyrir seiðaframleiðslu. Áætlað er að framleiðsla þar hefjist árið 2024. Ein þessarra seiðeldisstöðva sem staðsett er í Tálknafirði var úthlutað auknu framleiðsluleyfi frá 200 tonnum í 1.000 tonn árið 2023. Sú stöð framleiddi rúmlega 2,3 milljónir laxeldisseiða á árinu.

Fram kemur einnig að vinnslustöðin á Bíldudal þar sem laxinum er slátrað hafi árlega afkastagetu að 30.000 tonnum.

Spánarflakk

Í þessari bók sem nýlkega kom út er flakkað um Spán í tíma og rúmi og farið á helstu áfangastaði og Íslendingaslóðir. Höfundurinn Ólafur Halldórsson hefur mikið ferðast þar um.

Frásögnin er persónuleg upplifun ferðalangs sem hefur heimsótt marga staði þessa mikilfenglega lands og heillast af sögu þess og íbúum.
Leiðin liggur frá sólbökuðum ströndum meginlands og eyja til harðbýlla svæða við rætur Pýreneafjalla og hásléttu Kastilíu.

Í leiðinni eru kynntar þjóðir sem eitt sinn byggðu þetta land, og einnig er minnst á ýmsar sögufrægar persónur Spánar

Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Í júní 2024 voru 6.060 almenn íslensk vegabréf gefin út. Til samanburðar voru 7.229 vegabréf gefin út í júní árið 2023.

Þá voru gefin út 464 íslensk nafnskírteini í sama mánuði, þar af 95% sem ferðaskilríki. Útgáfa þeirra hófst í mars á þessu ári.

Þjóðskrá annast útgáfu vegabréfa og nafnskírteina. Sýslumenn taka við umsóknum. 

Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar.

Eldri nafnskírteini sem voru gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi þann 1. desember 2023 með gildissetningu nýrra laga. Eldri nafnskírteini sem gefin hafa verið út eftir þann tíma og fram til 1.mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.

Með nýrri útgáfu nafnskírteina er verið að auka öryggi þeirra í samræmi við auknar kröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja ásamt því að nafnskírteinin er í handhægri stærð í uppfærðu útliti. Nýju lögin um nafnskírteini byggja á, og innleiða, Evrópusambands reglugerð sem var gagngert sett til að auka öryggi persónuskilríkja og ferðaskilríkja innan Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins.  Með því að innleiða þessa reglugerð er Þjóðskrá að uppfylla kröfur Evrópusambandsins þar sem nýju nafnskírteinin eru í samræmi við önnur Evrópusambands lönd.  

Útlit nafnskírteinanna byggir á nýjum staðli frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og er Ísland fyrsta landið í heiminum sem gefur út skilríki samkvæmt þessum nýja staðli.  Helsta breytingin er að andlitsmynd er mun stærri, sem auðveldar allan samanburð við handhafa kortsins.

Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Íslenskum ríkisborgurum stendur nú til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki.

Nafnskírteini sem eru ferðaskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handhafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Verð fyrir nafnskírteini er 4.600 kr. fyrir börn, öryrkja og aldraða og 9.200 kr. fyrir einstaklinga 18 ára og eldri.

Afgreiðslutími nafnskírteina er sami og á vegabréfum, eða allt að 6 virkir dagar.

Frístundabyggðar í landi Kletts við Kollafjörð

Hluti deiliskipulagssvæðis í landi Kletts

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti þann 19. júní 2024 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Kletts við Kollafjörð.

Deiliskipulagssvæðið tekur til 40 ha svæðis, sem að hluta er skilgreint fyrir frístundabyggð (F14) og að hluta landbúnaðarsvæði í Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022-2034.

Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir 15 lóðum fyrir frístundahús og þremur athafnalóðum í landi Kletts og er aðgengileg í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.

Öllum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með boðið að koma framfæri athugasemdum til og með 22. ágúst næstkomandi. Athugasemdum skal skilað skriflega í Skipulagsgáttina eða tölvupósti til skipulagsfulltrúa

Sæunnarsund 2024 – Aðein 35 fá að taka þátt

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Sæunnarsund 2024 sem fram fer 31. ágúst. Það verða aðeins 35 skráðir í sundið svo það er um að gera að skrá sig sem fyrst og hefja undirbúning fyrir þetta magnaða sund.

Svonefnt Sæunnarsund var mikið þrekvirki sem unnið var af kú nokkurri sem synti yfir Önundarfjörð á flótta undan örlögum sínum. Forsaga uppákomunnar er sú að árið 1987 þurfti bóndi á bænum Neðri-Breiðadal í Önundarfirði að fækka gripum sínum vegna nýrra laga um gripakvóta. Hann þurfti því að slátra einni af kúnum á bænum, og varð rauðdumbótt kýr kölluð Harpa fyrir valinu. Bónda þótti mikil synd að þurfa að slátra Hörpu, enda var hún fullfrísk og mesta öndvegisskepna.

Harpa var flutt til Flateyrar þann 13. október þar sem hún átti stefnumót við slátrarann. Ætla má að kusa hafi fundið á sér að ekki var allt með felldu, því hún sleit sig lausa við sláturhúsdyrnar og stökk í sjóinn á flótta. Hún byrjaði að synda yfir Önundarfjöð þveran, rúmlega tveggja kílómetra leið og var komin í land hinu megin við fjörðinn um klukkutíma síðar.

Guðmundur Steinar Björmundsson og Sigríður Magnúsdóttir, bændur á Kirkjubóli í Valþjófsdal sem er hinum megin við Önundarfjörð, voru látin vita af stöðu mála og fylgdust með sundi Hörpu yfir fjörðinn. Þau áttu ekki von á að hún myndi hafa sundið af og var því óvænt ánægja að hún skilaði sér á land. Hjónin á Kirkjubóli ákváðu að verðlauna henni þrautseigjuna með því að taka han að sér í stað þess að senda hana aftur til slátrarans. Harpa hóf þannig nýtt líf á Kirkjubóli undir nýju nafni og var nú nefnd Sæunn, með tilvísun í sjósundið mikla.

Sæunn dafnaði vel á nýja heimilinu eftir að hafa bjargað eigin lífi með sundinu. Hún byrjaði að mjólka nokkrum dögum síðar og eignaðist kvígu á sjómannadaginn 1988, aðeins átta mánuðum eftir sundið. Það þýðir að hún hefur verið kelfd þegar hún flúði undan slátraranum. Sæunn lifði í 6. vetur til viðbótar á Kirkjubóli, en var felld árið 1993. Hún var þá heygð í sjávarkambinum þar sem hún kom í land og hefur hann síðan verið kallaður Sæunnarhaugur. 

Í Önundarfirði er árlega haldið svokallað Sæunnarsund í lok sumars, en þá sama leið synt og Sæunn fór forðum, frá Flateyrarodda og í Valþjófsdal. Sundið er rúmir tveir kílómetrar og tekur hrausta manneskju um 40 mínútur.

Bolungavík: Magnús Ingi Jónsson forseti bæjarstjórnar

Ráðhúsið í Bolungavík.

Í síðustu viku voru árlegar kosningar á dagskrá í bæjarstjórn Bolungavíkur. Magnús Ingi Jónsson var kosinn forseti bæjarstjórnar.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir var kosin 1. varaforseti bæjarstjórnar og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir er 2. varaforseti.

Í bæjarráð voru kosin sem aðalmenn:

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir (K), formaður
Magnús Ingi Jónsson (K), varaformaður
Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir (D)

og varafulltruar

Ástrós Þóra Valsdóttir (K)
Olga Agata Tabaka (K)
Kristín Jónsdóttir (D).

Nanný Arna: er ekki bæjarfulltrúi Vinstri grænna – eru skemmtiferðaskipin vandamál?

Skjáskot af frétt RUV.

Ríkisútvarpið birti á sunnudaginn viðtal við Nanný Örnu Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúa Í listans og sagði hana vera bæjarfulltrúa Vinstri grænna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Aðspurð segir Nanný Arna Bæjarins besta að hún sé bæjarfulltrúi Í listans og hafi allaf starfað sem slíkur. 

„Ég er fulltrúi Í-listans, var í framboði fyrir Í-listann og vinn eftir stefnu Í-listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Ég er hins vegar skráð í stjórnmálaflokkinn VG.“ segir Nanný Arna. 

Eru skemmtiferðaskipin vandamál?

Viðtalið snerust um erlend skemmtiferðaskip og fjölda ferðamanna á Ísafirði. Spurningar fréttarmannsins Gunnhildar Kjerúlf Birgisdóttur lýstu frekar neikvæðri nálgun til þessarar miklu lyftistangar í vestfirsku efnahagslífi.

Fyrst lagði hún mikla áherslu á fjöldann. Erlendu ferðamennirnir skiptu þúsundum og því væri heimamenn síður á ferli og spurði hvort þeir héldu sig meira heima. Næsta spurning var hvort nóg væri til af mat.

Þegar bæjarfulltrúinn hafði lagt sig fram í svörum sínum um að draga fram hið jákvæða sem fylgdi skemmtiferðaskipunum kom loksins spurningin en „fylgja þessum farþegum miklar tekjur.“

Segja má að það hafi loks tekist að kreista upp úr fréttamanninum að sunnan eitthvað annað en vandamálanálgun á komu skemmtiferðaskipanna og er það vel.

Svo má segja RUV til hróss að ekkert var minnst á mengun af skemmtiferðaskipunum að þessu sinni. En í fyrra var RUV alveg í kasti yfir meintri mengun frá skipunum og svo því að ferðamennirnir væru alltof margir fyrir Ísafjörð. Það var meira að segja sendur fréttamaður vestur til þess að reka hljóðnemann upp í bæjarstjórann og fá hana til þess að taka undir það að ferðamennirnir væru of margir og svo var það mengunin.

En nú er ekkert minnst á það. Það er kannski vegna þess að það var aldrei nein mengun yfir leyfilegum mörkum. Bæjarins besta óskaði eftir því í fyrra eftir viðamikla umfjöllun RUV og reyndar fleiri miðla um mengunina að fá gögn sem staðfestu mengunina. Leitað var til Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar.

Skemmst er frá því að segja að engin gögn bárust. Það voru engar mælingar sýndar sem staðfestu meinta mengun frá skemmtiferðaskipunum. Líklega var þetta bara ástæðulaust upphlaup hjá RUV. Því er umfjöllunin í ár skárri en í fyrra. Kannski verður hún á næsta ári þannig að RUV segir frá uppbyggingunni og öllum jákvæðu áhrifunum, hver veit.

En það er örugglega til of mikils mælst að RUV spyrji borgarstjórann í Reykjavík hvort ferðamennirnir séu ekki örugglega of margir á suðvesturhorninu eða hvort til sé nógur matur fyrir þá.

En það er eftirtektarverð þessi neikvæða nálgun á uppbyggingu og framfarir á landsbyggðinni. Það er eins og sumir ónefndir fjölmiðlar í Reykjavík geti ekki höndlað slíkar fréttir. Umfjöllunin snýst meira og minna um hættur sem fylgja eða vandamál, sérstaklega fyrir náttúruna og helst má ekkert gera fyrir en að búið er að sanna að ekkert óæskilegt fylgi.

Eigum við nokkuð að ræða Teigskóg, Hvalárvirkjun eða laxeldið?

-k

Nýjustu fréttir