Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 43

Menningarsjóður vestfirskrar æsku: auglýst eftir umsóknum

Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eins og undanfarin ár verða veittir styrkir úr Menningarsjóði vestfirskrar æsku til framhaldsnáms sem vestfirsk ungmenni geta ekki stundað í heimabyggð sinni. Að öðru jöfnu njóta eftirtaldir forgangs um styrk úr sjóðnum:

  1. Ungmenni sem misst hafa fyrirvinnu, föður eða móður.
  2. Einstæðar mæður.
  3. Konur, meðan fullt launajafnrétti er ekki í raun.
  4. Ef engar umsóknir eru frá Vestfjörðum, koma umsóknir Vestfirðinga búsettum annars staðar til greina.

Félagssvæði Vestfirðingafélagsins er Ísafjarðarsýslur, Ísafjörður, Stranda- og Barðastrandasýslur.

Umsóknir skulu sendar fyrir lok júlí mánaðar 2024 til Menningarsjóðs vestfirskrar æsku c/o Heiða Jóna Hauksdóttir, Digranesheiði 34, 200 Kópavogur og skal umsögn fylgja frá skólastjóra og/eða öðrum sem þekkja viðkomandi nemanda, efni hans og aðstæður.

Einnig má senda umsóknir á netfangið: hjhauks@gmail.com

Á síðasta ári voru veittir styrkir til tveggja ungmenna frá Vestfjörðum.

Í stjórn sjóðsins eru:  Heiða Jóna Hauksdóttir,  Sigurður H. Magnússon og Sigrún Edda Hauksdóttir.

Vesturbyggð: sólmyrkvi 12. ágúst 2026

Látrabjarg.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur skipað starfshóp um undirbúning vegna sólmyrkvans 12. ágúst 2026. Starfshópurinn verður skipaður eftirtöldum aðilum:

Páll Vilhjálmsson – formaður bæjarráðs
Tryggvi B. Baldursson – formaður skipulags- og framkvæmdaráðs
Freyja Pedersen – formaður umhverfis og loftlagsráðs
Elín Eyjólfsdóttir – formaður heimastjórnar fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
Edda Kristín Eiríksdóttir – heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
Maggý Hjördís Keransdóttir – fulltrúi bæjarstjórnar í heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps.

Upplýsingar voru lagðar fram um að almyrkvi verður á þessum degi í 2 mínútur og 13 sekúndur á Látrabjargi og verður lengstur þar á Íslandi. Á Ísafirði verður almyrkvinn heldur styttri eða í 1 mínútu og 25 sekúndur.

Almyrkvinn kemur fyrst á landinu við Straumnesvita kl 17:32:33 og stendur í 1 mín og 57 sek.

Súðavík: mikill fjöldi húsbíla

DCIM101MEDIADJI_0364.JPG

Síðustu daga hafa tugir húsbíla haft aðsetur í Súðavík. Er um að ræða félagsskap húsbílaeigenda af öllu landinu sem tekur sig saman um að ferðast um landið. Var að þessu sinni ákveðið að ferðast til Vestfjarða og hafði hópurinn bækistöð í Súðavík eins og sjá má á þessari mynd sem Þorsteinn Haukur tók.

Hvalárvirkjun: krafa ríkisins tefur virkjunarframkvæmdir

Hvalárfoss. Mynd úr matsskýrslu Vesturverks um Hvalárvirkjun.

Hindrunum í vegi fyrir framkvæmdum við vatnsaflsvirkjun Hvalár fer fækkandi og er að komast skriður á málið að nýju eftir að málið stöðvaðist árið 2020. Í yfirliti frá Vesturverk eru rakin helstu atriðin.

Tillaga Náttúrfræðistofnunar ríkisins um friðun fossa sem send var þáverandi umhverfisráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni hefur verið lögð til hliðar. Friðun jarðarinnar Dranga hefur ekki áhrif á virkjunarframkvæmdir og dómur er genginn í Landsrétti í máli nokkurra eigenda Drangavíkur sem töldu sig eiga stóran hluta af landi Engjaness og Ófeigsfjarðar. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóm Vestfjarða og töpuðu stefnendur málinu. Það þýðir að samningar landeigenda Engjaness og Ófeigsfjarðar sem höfðu samið við Vesturverk og heimilað fyrirtækinu virkjun Hvalár standa. Að öðrum kosti hefðu vatnsréttindin færst í hendur aðila sem eru andvígur virkjuninni. Mögulegt er að reynt verði að fá leyfi til þess að skjóta málinu til Hæstaréttar og skýrist það fljótlega hvort það verði reynt og síðan hvort Hæstiréttur fellst á að taka málið fyrir. Niðurstaða á báðum dómstigum var afgerandi og höfðu stefnendur ekki erindi sem erfiði.

Ríkið tefur

Eitt mál er þó enn óútkljáð sem hefur áhrif á framvindu virkjunaráforma. Það er krafa ríkisins fyrir sérstakri Óbyggðanefnd um að verulegur hluti jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar verði dæmd sem þjóðlenda. Fyrir liggur úrskurður Óbyggðanefndar frá 2019 um að Drangajökull sé þjóðlenda. Hins vegar fór Óbyggðanefnd fram á að tekið yrði fyrir að nýju að úrskurða um land sunnan og austan við Drangajökul og taldi nefndin ekki ljóst að það væri eignarland. Alþingi samþykkti árið 2020 sérstök lög að frumkvæði þáverandi forsætisráðherra ,sem heimiluðu að taka upp nokkur álitamál sem Óbyggðanefndin benti á og þar með þetta. Fjármála- og efnahagsráðherra skilaði kröfum ríkisins í byrjun árs 2021 og aftur þeim óbreyttum í nóvember 2022. Gerir ríkið nú kröfu um stórt landssvæði austan og sunnan Drangajökuls sem þjóðlendu.

Kort sem afmarkar nýju kröfur ríkisins nefnt svæði austan og sunnan Drangajökuls.

Landeigendur umræddra jarða og Vesturverk sem handhafi vatnsréttinda að Eyvindarfjarðarár gera þá kröfu til sérstöku Óbyggðanefndarinnar að kröfum ríkisins verði vísað frá. Telja þeir að þar sem ríkið hafi ekki gert kröfu til þess að lands sem þjóðlendu í fyrri kröfu um málið hafi það þar með viðurkennt eignarréttindi landeigenda. Þá hafi Óbyggðanefnd í úrskurðinum frá 2019 ekki gert athugasemd við kröfugerð ríkisins sem sé forsenda þess að heimila endurupptöku.

Kröfur aðila í málinu lágu fyrir í byrjun árs 2024 og vænta má þess að úrskurður verði kveðin upp á næstu mánuðum.

Vestfjarðaleiðin

Vestfjarðaleiðin er ný ferðamannaleið um Vestfirði og Dalina sem varð til við opnun Dýrafjarðarganga í október 2020.

Leiðin er um 950 km með einstökum áningarstöðum og upplifunum. Vestfjarðaleiðin er stutt frá Reykjavík og Akureyri og er því aðgengilegur og ævintýralegur valkostur sem ferðaleið fyrir alla fjölskylduna. Auðvelt er að kanna og upplifa óspillta náttúru og víðerni sem sífellt verður erfiðara að finna.

Á Vestfjörðum finnur þú ævintýralega menningu og afþreyingu. Allt frá göldrum og skrímslum yfir í fjórhjólaferðir og fjallgöngur.

Vestfirðirnir eru einn elsti hluti landsins, mótaðir af umróti ísaldar fyrir 10 þúsund árum síðan. Því einkennir einstakt landslag svæðið: Djúpir firðir og skörðótt fjöll með dölum og láglendi hafa þannig mótast af náttúruöflunum líkt og íbúar svæðisins sem hafa tileinkað sér eigin lífsfærni í takt við kröfur náttúrunnar.

Fyrir þá sem vilja uppgötva nýja staði og fara ótroðnar slóðir, er hægt að fara leiðina sjálfstætt á eigin bíl eða í litlum hópum. Ferðalagið byggir á sjálfbærri upplifun þar sem náttúran, sagan  fólkið og menningin er í aðalhlutverki.

Vestfjarðaleiðin (vestfjardaleidin.is)

Aukin íbúðarbyggð við Kópnesbraut og Víkurtún á Hólmavík

Skipulagsstofnun staðfesti, 9. júlí 2024, breytingu á Aðalskipulagi Strandabyggðar 2010-2022 sem samþykkt var í sveitarstjórn 13. febrúar 2024.

Í breytingunni felst framlenging íbúðarbyggðar við Kópnesbraut 0,2 ha til norðurs og stækka íbúðarbyggð við Víkurtún um 0,1 ha. Opið svæði O7 minnkar sem nemur stækkun við Víkurtún.

Hægt verður að nálgast aðalskipulagsbreytinguna á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar þegar breytingin hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Fimm keppendur og tuttugu manna fylgdarlið á leið á OL

Móttakan fór fram í franska sendiráðinu við Skálholtsstíg og þangað mættu keppendur og fylgdarlið sem var statt á landinu að þessu sinni.

Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ þann 5. júlí síðastliðinn, var tekin fyrir tillaga Afrekssviðs ÍSÍ um val á þátttakendum, bæði keppendum og fylgdarliði, á Ólympíuleikana í París, sem fram fara 26. júlí til 11. ágúst.

Ísland mun eiga fimm keppendur á Ólympíuleikunum og voru þeir ásamt tuttugu manna fylgdarliði kynnt til leiks á sérstökum fjölmiðlafundi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. 

Af því tilefni bauð franska sendiráðið til móttöku fyrir keppendur, fylgdarlið og fararstjórn.

Það var Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi, sem stóð fyrir boðinu og var tilefnið að óska þáttakendum góðs gengis og skemmtunar á leikunum sem framundan eru og hitta þátttakendur í Ólympíuliði Íslands.

Matvælastofnun varar við sultu frá Helvíti og Smoothie blöndu

Matvælastofnun varar neytendur sem hafa ofnæmi-eða óþol fyrir gúteni eða fiski við Beikon og bennivíns kryddsultu frá fyrirtækinu Helvíti ehf. Fyrirtækið hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness innkallað allar kryddsultu með best fyrir dagsetningar  09.04.25 og 10.04.25.

Þá varar Matvælastofnun einnig við neyslu á einni framleiðslulotu af Red smoothie blöndu frá Gestus vegna þess að varnarefni eru yfir mörkum í bláberjum.

Krónan hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness innkallað vöruna.
Matvælastofnun fékk upplýsingar um vöruna í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar.

Þingeyri: samsýning þriggja kvenna í Simbahöllinni

Guðbjörg Lind Jónsdóttir og nokkur verk hennar.

Síðasta laugardag opnaði samsýning þriggja myndlistarkvenna, Katínar Bjarkar Guðjónsdóttur, Jean Larson og Guðbjargar Lindar Jónsdóttur í Simbahöllinni á Þingeyri. Sýningin heitir „Ensamble“ eða „Saman“.

Katrín Björk sýnir 23 ný verk sem munu prýða veggi Simbahallarinnar í allt sumar.  Verkin hefur hún unnið að síðustu mánuði. Þær eru unnar með bleki og alkóhól á glansandi pappír sem svo er blásið á.

Myndirnar eru unnar í samstarfi við Jean sem er að hluta til búsett á Flateyri. Þá hefur Signý Þöll Kristinsdóttir, iðjuþjálfi, líka aðstoðað við gerð myndanna.

Verk eftir Katrínu Björku Guðjónsdóttur.

Myndlistarkonurnar þrjár.

Frá opnun sýningarinnar.

Strandabyggð: úttekt á greiðslum til fyrrverandi sveitarstjórnarmanns

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir á fundi sínum í gær, erindi frá Jóni Jónssyni fyrrverandi sveitarstjórnarmanni, þar sem hann tilkynnti sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað yrði eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðaði sveitarfélagið. Ætlunin væri að safna undirskriftum til að kosið yrði um þá kröfu til sveitarfélagins að það standi fyrir því að gerð yrði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfmanna sveitarfélagins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í hans garð. Er Jón Jónsson ósáttur við ásakanirnar og vill að þær verði dregnar til baka.

Í byrjun júlí sl. áttu fulltrúar í sveitarstjórn og lögfræðingur sveitarfélagsins fund með Jóni Jónssyni þar sem farið var yfir fyrrgreint erindi.  Á þeim fundi kom m.a. fram að Jón Jónsson væri reiðubúinn að falla frá fyrirhugaðri undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu ef sveitarstjórn samþykkti að láta fara fram úttekt á öllum greiðslum til hans svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar.

Sveitarstjórnin samþykkti að leitað verði til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem annast endurskoðun ársreikninga sveitarfélagsins, um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.

Við fyrrgreinda úttekt verði lagt mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar. 

Fyrrgreindri úttekt skal lokið við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 30. september næstkomandi. Niðurstöður úttektarinnar skulu kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Nýjustu fréttir