Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 43

Grásleppa fyrir um 800 milljónir

Grásleppuvertíðinni lauk 12. ágúst og var heimilt að stunda veiðarnar í 55 daga en meðaltal sl. 10 ára eru 40 dagar.

Færri stunduðu veiðarnar en verið hefur, aðeins 140 bátar lönduðu afla.

Meðalverð á mörkuðum var 233 krónur og er það nánast óbreytt milli ára, en 10% hærra en 10 ára meðaltal.

Hæst var verðið á tímabilinu 2015 – 2024 var árið 2019 en þá fengust 332 kr fyrir kílóið af óslægðri grásleppu.

Vertíðin skilaði 3.701 tonnum, sem jafngildir rúmum sjöþúsund tunnum af söltuðum hrognum. Miðað við verð á fiskmörkuðum var aflaverðmætið á vertíðinni um áttahundruð milljónir.

Afli var að meðaltali 26,4 tonn á bát, en það er um 13% meira en tíu ára meðaltal.

Aflahæst var Kóngsey ST 4 með 73,5 tonn.

Eiturefni í kryddi og snitzel ekki fulleldað

Matvælastofnun varar við neyslu á einni framleiðslulotu af Prymat cumin sem var til sölu hjá Mini Market vegna náttúrulegrar eiturefna sem greindust yfir leyfilegum mörkum. Fyrirtækið hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur stöðvað sölu og innkallað vöruna.

Tilkynningin um innköllunina kom í gegnum hraðviðvörunarkerfi Evrópu um hættuleg matvæli og fóður á markaði.

Einnig hefur Matvælastofnun fengið upplýsingar um innköllun á tveimur framleiðslulotum af Ali snitzel frá Síld og fiski vegna rangar merkinga en fyrir mistök var snitzel sem þarfnast eldunar pakkað í umbúðir fyrir fulleldað. Fyrirtækið hefur í samráði við Matvælastofnun innkallað vöruna.

Innköllunin á eingöngu við eftirfarandi framleiðslulotur:

  • Vörumerki: Ali
  • Vöruheiti: Snitzel fulleldað
  • Lotunr. 02.09.24 og 04.09.24, Best fyrir 23.09.24 og 25.09.24
  • Nettómagn: Breytilegt
  • Strikamerki: Hefst á 2353996…
  • Framleiðandi: Síld og fiskur, Dalshrauni 9b, Hafnarfirði
  • Dreifing: Verslanir Bónus, Krónunnar, Hagkaupa, Samkaupa, Fjarðarkaup, Kassinn og Kaupfélag V-Húnvetninga.

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fiskveiðiársins 2024/2025

Aflamarki var úthlutað á 344 skip í eigu 274 aðila.

Heildarúthlutun er tæp 320 þúsund þorskígildistonn. Úthlutun í þorski er tæp 168 þúsund þorskígildistonn en var tæp 166 þúsund þorskígildistonn á síðasta fiskveiðiári.

Úthlutun í ýsu er rúm 38 þúsund þorskígildistonn og lækkar um 16 þúsund þorskígildistonn milli ára, en þá lækkun má rekja til þess að þorskígildisstuðull ýsu lækkaði úr 0,93 í 0,64 á milli ára.

Fyrirtæki með hæstu úthlutunina:

  • Brim hf. 9,55%
  • Samherji Ísland hf. 8,72%
  • Ísfélag hf. 6,98%
  • Fisk Seafood ehf. 6,10%
  • Þorbjörn hf. 5,43%

Skip með hæstu úthlutunina:

  • Sólberg ÓF 1 (2917), Ísfélag hf. með 10.305 þorskígildistonn
  • Guðmundur í Nesi RE 13 (2626), Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. með 10.006 þorskígildistonn
  • Drangey SK 2 (2893), FISK-Seafood ehf. með 6.786 þorskígildistonn

Af leyfðum heildarafla eru dregin frá 5,3% sem skiptast með eftirfarandi hætti:

  • Skel og rækjubætur 1.993 tonn
  • Byggðakvóti til fiskiskipa 5.645 tonn
  • Byggðakvóti Byggðastofnunar 6.302 tonn
  • Frístundaveiðar 200 tonn
  • Strandveiðar 11.100 tonn
  • Línuívílnun 1.835 tonn
  • Nýliðun vegna grásleppu 65 tonn

Breyta á lögum um sjávarútveg

Matvælaráðherra ætlar á komandi þingi að leggja fram tillögur um breytingar á lögum varðandi sjávarútveg.

Breytingarnar byggja m.a. á þeim tillögum sem starfshópar verkefnisins Auðlindarinnar okkar lögðu fram í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember árið 2023.

Áformaðar breytingar verða kynntar í samráðsgátt nú í haust.

Breytingarnar snúa m.a. að ákvæðum er varða gagnsæi og tengda aðila, strandveiðum, verndarsvæðum í hafi, Verkefnasjóði sjávarútvegsins auk breytinga á lögum um veiðigjald sem taka mið af fjármálaáætlun 2025-2029.

Jafnframt hefur innviðahópur sem matvælaráðherra skipaði í apríl sl. unnið að útfærslu innviðaleiðar í stað almenns byggðakvóta og er áætlað að hópurinn skili tillögum í september.

Bolungavík: Kristján Jón hættur í bæjarstjórn

Kristján Jón Guðmundsson fékk í gær lausn frá störfum sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Bolungavíkur þegar erindi hans var samþykkt á fundi bæjarstjórnar.

Bæjarstjórnin samþykkti eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur vill þakka Kristjáni Jóni fyrir alla þá óeigingjörnu vinnu sem hann hefur unnið í þágu sveitarfélagsins og jafnframt þann tíma sem Kristján Jón hefur sinnt í bæjarstjórn. Bæjarstjórn Bolungarvíkur óskar Kristjáni Jóni velfarnaðar.”

Kristján Jón tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2018. Hann var í þriðja sæti D listans við síðustu bæjarstjórnarkosningar.

Kristján Jón sagði í samtali við Bæjarins besta um ástæður þess að hann kaus að hætta að þær væru persónulegar. Hann hefði mikið að gera i vinnunni sem skrifstofustjóri hjá Kampa á Ísafirði.

Kristján Jón er annar bæjarfulltrúinn sem hættir í bæjarstjórn Bolungavíkur á yfirstandandi kjörtímabili. Oddviti listans Baldur Smári Einarsson ákvað að hætta þegar hann tók við yfirmannsstöðu hjá Arctic Fish.

Sæti Kristjáns Jóns tekur Anna M. Preisner, þjonustufulltrúi.

Ísafjarðarbær skipar fulltrúa í samstarfshóp um Dynjanda

Frá Dynjanda.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur skipað Gylfa Ólafsson í samstarfshóp Umhverfisstofnunar um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dynjanda. Kemur hann í stað Guðmundar Rafns Kristjánssonar.

Erindið var sent til Ísafjarðarbæjar 31. maí s.l og ítrekað 30. ágúst. Í ítrekuninni segir að vinna við áætlunina sé langt komin og styttist í opið kynningarferli. „Það væri því æskilegt að fulltrúi Ísafjarðarbæjar taki þátt í lokametrunum.“

Ísafjarðarbær: framkvæmdir við íþróttamannvirki hækka um 61,3 m.kr.

Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur. Mynd: Ásgeir Hólm.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt breytingar á fjárhagsáætlun 2024 vegna breytinga á framkvæmdaáætlun 2024. Framkvæmdir A hluta hækka úr 350 m.kr. í 428,2 m.kr. og framkvæmdir B hluta lækka jafnmikið eða úr 598,5 m.kr. í 520,3 m.kr. 

Helsta breytingin er að framlög til íþróttamannvirkja hækka um 61,3 m.kr. vegna gervigrasvallarins nýja á Torfnesi og verður liðurinn 161,3 m.kr. Í skýringum kemur fram að aukning kostnaðar skýrist af vanáætlun í efniskaupum sem og viðbótum vegna lagna undir Torfnesvöll. Jafnframt barst ekki styrkur KSÍ vegna uppbygginga aðalvallar fyrir árið 2024. Vegna æfingarvallar var styrkur 9 m.kr. fyrir árið 2023.

Þá er 12 m.kr. aukning vegna kaupa á körfubíl fyrir Slökkviliðið og sama fjárhæð vegna kaupa á bifreið fyrir Áhaldahúsið. Uppsetning á eldvarnarkerfi í Félagsheimili Þingeyrar hækkar fjárfestingu ársins um 1 m.kr.

Fjárveiting til Sólborgar er lækkuð um 9 m.kr. vegna frestunar lóðarframkvæmdar en hún var 15 m.kr. Þá verður frestað hluta af framkvæmdum við Safnahúsið. Um er að ræða endurnýjun glerja sem er tímafrekt verk og fyrirsjáanlegt að klárist ekki á 2024. Alls eru það 11 m.kr. af 47 m.kr. sem frestast.

Ferðafélag Ísfirðinga: Óvissuferð

Laugardaginn 14. september

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði.
Það verður engu ljóstrað upp um allt sem snýr að ferðinni. Það er þó alveg örugglega hægt að lofa ánægjulegri ferð, skemmtilegu fólki og súpu sem engan svíkur.

Fjárlagafrumvarpið: 38,3 milljarðar króna til samgönguframkvæmda á næsta ári

Nýi vegurinn endar við Dynjandisá. Þaðan eru um 6,5 km að nýja veginum í Dynjandisvoginum. Ekkert er minnst á þennan lokaáfanga í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, sem lagt var fram í gær kemur fram að framlög til framkvæmda í samgönguframkvæmda nemi 38,3 milljarða kr. og aukist um 5,7 milljarða kr. milli ára.

3/4 hlutar aukningarinnar til höfuðborgarsvæðisins

Þar vega þyngst aukin framlög til Betri samgangna um 4,2 ma.kr. í samræmi við uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Uppfærð framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að heildarkostnaður verkefnisins muni nema 311 milljarða kr. fram til ársins 2040.

Þá er aukið í fjárheimildir til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu um 3 milljarða kr. en á móti fellur niður 1,5 milljarða kr. tímabundnar fjárheimildir til sömu mála.

Ekki kemur fram í frumvarpinu heildstætt yfirlit um það hvernig fénu verður skipt milli framkvæmda en vísað er til fjármálaáætlunar.

Til samgöngumála í heild er veitt 62,3 milljarðar króna og hækkar fjárveitingin um 9 milljarða króna frá fjárlögum 2024.

Hluti af aukningunni er 1 milljarður króna sem fer til þess að auka við viðhald vega til þess að koma til móts við aukna umferð, bæði í fjölda ökutækja og þungaflutningum.

Þá verður aukið við um 2 milljarða króna til að auka öryggi á stofnvegum í kringum höfuðborgarsvæðið með aðskilnaði akstursstefna á Suðurlandsvegi við Gunnarshólma, Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og Reykjanesbraut við Straumsvík.

Í þriðja lagi er bætt við 4 milljörðum króna vegna uppbyggingu samgönguinnviða allra ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við framkvæmdaáætlun samgöngusáttmála. Meðal framkvæmda sem unnið verður að er brú yfir Fossvog, Arnarnesvegur, nýir hjóla- og göngustígar ásamt ýmsum aðgerðum í umferðarstýringu.

Loks eru settar 2,2 milljarðar króna í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við ákvæði samgöngusáttmálans „til að mæta 33% ábyrgð ríkisins á rekstri Strætó bs. samkvæmt samkomulagi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tengt endurnýjuðum Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“

unnið að framkvæmdum á Vestfjarðavegi

Í greinargerð með frumvarpinu segir að áfram verði unnið að styttingu leiða á vegum, m.a. með framkvæmdum við Hornafjarðarfljót og nýja brú og veg yfir Ölfusá. „Þá verður unnið að framkvæmdum á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit sem samanlagt mun stytta leiðina um 21,6 km, ásamt því að auka öryggi til muna.“ Um þetta segir að verkefnin séu samvinnuverkefni og innan ramma og að fjárveitingar séu óbreyttar.

Ekkert er minnst á lokaáfanga á Dynjandisheiði.

Hafrannsóknarstofnun: engin svör um stærð laxastofnsins og sundurliðun eftir ám

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri í Hafrannsóknarstofnun.

Borist hafa svör frá Hafrannsóknarstofnun við fyrirspurnum sem send voru 24. júlí sl. um villta laxastofninn og ítrekuð tvisvar. Spurt var um skilgreiningu á nytjastofni lax, í hvaða ám væri nytjastofn og hver áætlaður hrygningarstofn er í hverju tilviki.

Tilefnið var að 13. maí sl. greindi Morgunblaðið frá því að sam­kvæmt mati Haf­rann­sókna­stofn­un­ar var stærð hrygn­ing­ar­stofns villta lax­ins við Ísland um tutt­ugu þúsund fisk­ar síðastliðið haust, að aflokn­um veiðitíma. Stofn­un­in hafi kynnt þetta mat sitt á aðal­fundi Lands­sam­bands veiðifé­laga sem hald­inn var í Húsa­felli síðari hluta apr­íl­mánaðar.

Í svörum Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra segir að við mat á áætlaðri heildarstærð hrygningarstofns villtra laxa á Íslandi sé gengið út frá skráðri netaveiði og stangveiði villtra laxa (hafbeit ekki meðtalin) og meðaltals veiðihlutfalli þar sem það er ekki þekkt. „Frá 1996 er leiðrétt fyrir þeim fjölda sem er veitt og sleppt. Það er sú mynd sem kemur fram í þeirri frétt sem vitnað er til. Gögn fyrir árið 2024 liggja ekki fyrir.“

Þá segir: „Stærð hrygningastofns hverrar ár getur verið breytilegur á milli ára. Þau viðmið sem almennt eru notuð eru að reikna viðmiðunarmörk fyrir hrygningu þ.e. hversu stóran hrygningarstofn í fjölda hrogna talið þarf að meðaltali til að nýta framleiðslugetu viðkomandi ár það sem er umfram er það sem er til skiptanna fyrir veiði. Ef stofnstærð er undir viðmiðunarmörkum hefur stofninn ekki veiðiþol.“

Ennfremur: „Það má við bæta að stofn sem nýttur er til veiði þarf að þola þá veiði án þess að gengið sé á stofninn, stofnhluta eða að líffræðilegan fjölbreytileika. Mat á stofnstærðum getur byggt á t.d. beinum talningum ef um fiskteljara er að ræða. Í fleiri tilfellum er byggt á veiðitölum þar sem ekki er um beinar talningar að ræða. Þar sem bæði talningar og veiðiskráning liggur fyrir hafa komið fram tengsl á milli stofnstærðar og veiði og því hægt að reikna veiðihlutfall. Þar sem einungis veiðitölur liggja fyrir er má áætla stofnstærð út frá þekktu veiðihlutfalli í sambærilegum vatnakerfum.“

Engin svör eru gefin við spurningunni í hvaða ám væri nytjastofn og hver áætlaður hrygningarstofn er í hverri á þrátt fyrir að kynnt hafi verið opinberlega mat stofnunarinnar á heildarstæð hrygningarstofnsins.

Nytjastofn: villtur lax og ræktaður lax veiðifélaga

Fram kemur í svörunum að skilgreining á nytjastofni væri eftirfarandi samkvæmt frumvarpi um lagareldi sem lagt var fyrir Alþingi á síðasta vetri : „Fiskstofn villtra laxa sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum. Til villtra nytjastofna lax teljast annars vegar laxastofnar þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum og hins vegar laxastofn í veiðiám þar sem sam­þykkt hefur verið fiskræktaráætlun.“

  

Nýjustu fréttir